133. löggjafarþing — 58. fundur
 23. janúar 2007.
umræður utan dagskrár.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:05]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fjárhættuspil og spilafíkn hafa verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu. Fyrir þessu eru margar ástæður. Í fyrsta lagi veldur spilafíkn fjölda fólks svo þúsundum skiptir miklum vandræðum, jafnvel svo miklum að það leggur lífið í rúst. Þetta snertir þá sem í hlut eiga, þá sem sjálfir eru haldnir spilafíkn og iðulega stóran aðstandendahóp þeirra einnig. Þetta er því hrikalegt þjóðfélagsmein sem ekki verður vikist undan að ræða.

Í öðru lagi hafa fjárhættuspil komist í kastljós fjölmiðla fyrir tilstilli samtaka á borð við Samtök áhugafólks um spilafíkn sem hafa verið óþreytandi við að vekja athygli á vandanum, veita fólki leiðbeiningar og aðstoð og stuðla að umræðu um þetta málefni. Vil ég í því sambandi vekja athygli á heimasíðu samtakanna, spilavandi.is.

Þriðja ástæðan fyrir því að spilavandinn er kominn í umræðu sem aldrei fyrr er að borgaryfirvöld í Reykjavík með borgarstjórann í broddi fylkingar hafa vaknað til vitundar um ábyrgð sína. Því ber sérstaklega að fagna, svo og þeim fjölmiðlum sem hafa sinnt þessum málum að undanförnu eða staðfastlega um langt skeið og nefni ég þar sérstaklega Morgunblaðið sem að mínu mati hefur sýnt mikla ábyrgðarkennd í umfjöllun um þetta málefni.

Fjórða ástæðan fyrir því að nú fer fram mikil umræða um spilafíknina er sú staðreynd að opnað hefur verið spilavíti á netinu sem auglýst hefur verið á Íslandi. Spilavíti á netinu er engin nýlunda en spilavíti að hluta til í eigu Íslendinga auglýst á Íslandi á netinu og í íslenskum fjölmiðlum er nýlunda. Við borgum, þú spilar, er auglýst í rúllettuspilum hjá Betsson, auglýsingu sem hæglega mætti snúa við því að að sjálfsögðu eru það spilafíklarnir sem borga gróðann til Betssons og annarra sem gera sér sjúklega spilafíkn fólks að féþúfu.

Stundum hefur verið komist svo að orði að um tvenns konar spilafíkla sé að ræða, þá sem spila og hina sem hagnast á fíkn þeirra. Ég hef iðulega fundið fyrir heift síðarnefndu fíklanna þegar fundið er að athæfi þeirra. Áhugafólk um spilafíkn hefur gert sitt til að sporna gegn útbreiðslu spilakassa, takmarka aðgengi að þeim, draga úr áreiti þeirra en þess má geta að Háskóli Íslands rekur samtengda spilakassa sem auk þess eru að öðru leyti áreitnir, enda spilavíti háskólans kölluð Háspenna og mundu ekki standast reglur sem settar eru um þessa starfsemi víða um lönd. Allt þetta þarf að skoða af fullri alvöru. Einnig þarf að taka alvarlega ábendingar samtakanna um að nú sé vaxandi ásókn í fjárhættuspil á netinu og þar þurfi að reisa rönd við. Þetta ber stjórnvöldum að gera, ekki einvörðungu af siðferðilegum ástæðum heldur einnig lagalegum því um skýlaust lögbrot er að ræða.

Samkvæmt íslenskum lögum eru fjárhættuspil bönnuð. Með sérstökum lögum var Háskóla Íslands og ýmsum samtökum og stofnunum heimilað að reka spilavíti þótt ýmsir beri brigður á að þau hafi starfað löglega því að reglugerð skorti um þessa starfsemi allt til ársins 2005 en kveðið var sérstaklega á um það í lögum að þessa starfsemi bæri að byggja á slíkri reglugerð.

Hvað um það, nú er kominn fram á sjónarsviðið aðili sem tvímælalaust brýtur landslög og það er fyrrnefnt fyrirtæki, Betsson. Ég beini tveimur spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra af þessu tilefni:

Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að stemma stigu við ólöglegum fjárhættuspilum á netinu og auglýsingum um þá starfsemi?

Í öðru lagi, hæstv. dómsmálaráðherra, leyfi ég mér að vísa í álitsgerðir sérfræðinga sem unnið hafa að rannsókn á þessum málum fyrir hönd Samtaka áhugafólks um spilafíkn og er að finna á heimasíðu þeirra samtaka. Þar kemur fram að tæknilega er unnt að reisa skorður við fjárhættuspilum á netinu og ég spyr hæstv. ráðherra í framhaldinu: Er dómsmálaráðherra tilbúinn að setja niður nefnd, þá hugsanlega með sérfræðingum tilnefndum af Samtökum áhugafólks um spilafíkn, fulltrúum banka og kreditkortafyrirtækja til að setja reglur sem stemma stigu við þessari ólöglegu starfsemi?



[15:11]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. ræðumanns, þakka honum fyrir að taka þetta upp hér og tek undir orð hans varðandi starfsemi Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Ég hef átt mjög gott samstarf við þau samtök og veit að þau vinna af mikilli ábyrgð að þessu máli sem fellur undir starfssvið þeirra.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður lagði fyrir mig er það svo að þann 29. mars sl. ritaði dómsmálaráðuneytið bréf til lögreglustjórans í Reykjavík þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Betsson.com hefur ekki verið veitt leyfi til happdrættisrekstrar af neinu tagi hér á landi. Samkvæmt 11. gr. laga um happdrætti, nr. 38/2005, varðar það refsingu ef aðili af ásetningi eða stórfelldu gáleysi auglýsir, kynnir eða miðlar hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögunum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna. Í ljós hefur komið að Betsson.com hefur verið auglýst á fleiri miðlum, þar á meðal á vísir.is og fótbolti.net.

Ráðuneytið fer þess hér með á leit að ofangreind háttsemi verði rannsökuð og að lögreglan eftir atvikum hlutist til um að auglýsingar af þessu tagi verði stöðvaðar ef ráðuneytinu þykir sýnt að hér sé um brot á happdrættislögunum að ræða.“

Þetta var skrifað 29. mars 2006. Því miður er ekki komin niðurstaða í þetta mál og ég hef áréttað það innan ráðuneytisins að það sé nauðsynlegt að fá niðurstöðu í það og er sammála hv. þingmanni um það. Ég tel að 11. gr. happdrættislaganna banni slíkar auglýsingar.

Hitt er síðan annað mál og miklu flóknara í sjálfu sér, að ræða það umhverfi sem hv. þingmaður vék að þegar hann talar um spilamennsku á netinu. Um það hafa verið skrifaðar lærðar greinar og er mikið um það fjallað í öllum löndum. Hér er um ákveðið vandamál að ræða sem allar þjóðir glíma við og t.d. hafði þetta fyrirtæki Betsson fyrst aðsetur í Svíþjóð og samkvæmt fréttum voru það sænsk stjórnvöld sem beittu sér fyrir því að starfsemin færi ekki fram þar og nú mun það starfa á Möltu. Það eru aðeins tvö lönd í Evrópu, Malta og Bretland, sem heimila starfsemi fyrirtækja af þessu tagi innan sinna landamæra, fyrirtækja sem eru með spilamennsku á netinu sem nær út fyrir landamæri ríkjanna. Í öðrum löndum hefur þetta verið bannað, t.d. hafa Þjóðverjar bannað slíka spilamennsku á netinu en aðrir hafa bent á að það sé ekki skynsamleg leið að banna þetta alfarið því að sé banninu framfylgt, sem er mjög erfitt, leiði það ekki endilega til þess að menn hætti að spila heldur að þeir fari að spila þá ólöglega í viðkomandi löndum og þar með verði hvatt til þess að yfirvöld fylgi ekki fram reglum sem tryggja kannski gagnsæi og eftirlit.

Finnar sem þykja standa í fremstu röð þjóða samkvæmt flestum mælikvörðum heimiluðu fyrir mörgum árum að spilað yrði á netinu undir ströngu eftirliti fyrirtækis sem rekið er á vegum eða í skjóli finnska ríkisins. Þar eru settar skýrar reglur um það hvernig spilað skuli á netinu. Fólk verður að tilkynna sig og skrá sig og það verður að vera ljóst að um finnska borgara sé að ræða. Það er líka sett ákvæði um fyrir hve mikið menn geta spilað í hverri viku og það er fylgst með því hvernig það gengur og hve mikið menn geta haft á reikningi sínum. Ef meira er lagt undir en reglur heimila eru gerðar ráðstafanir í því skyni að koma í veg fyrir þetta þannig að þarna er verið að halda aftur af fíkninni. Eins og fram kemur hjá Samtökum áhugafólks um spilafíkn og annars staðar eru þeim mun meiri líkur á að menn ánetjist fíkninni, þeim mun meiri sem áhættan er.

Síðan er það þetta alþjóðasamstarf. Öllum er ljóst að til þess að ná tökum á þessu og skapa það öryggi sem við hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að vera þarf líka alþjóðlegar reglur. Það er spurning hver á að setja þær reglur til að ná utan um þetta. Þetta er verið að ræða á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, á vegum OECD, á vegum Evrópusambandsins og víðar. Við fylgjumst náið með þessu í dómsmálaráðuneytinu. Ég get fullvissað hv. þingmann um það. Við höfum m.a. stuðlað að því að Íslendingar ættu fulltrúa við málflutning í EFTA-dómstólnum þar sem verið er að fjalla um mál bæði varðandi einkaleyfi í Noregi og einnig mál sem varða það að bresk fyrirtæki óska eftir því að fá að starfa hér á þessum markaði án tillits til þess hvert arðurinn rennur.



[15:16]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Fjárhættuspil er bannað með lögum á Íslandi, nema spilakassar til fjáröflunar fyrir nokkur tiltekin samtök. Þrátt fyrir það hafa auglýsingar um fjárhættuspil á netinu hljómað mánuðum saman og birst í íslenskum fjölmiðlum án þess að athæfið sé stöðvað. Samkvæmt almennum hegningarlögum skal sá sem gerir fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða kemur öðrum til þátttöku í þeim sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Í ljósi þessa er fullkomlega rökrétt að álykta að fjölmiðill og fyrirtæki sem auglýsa fjárhættuspil séu að brjóta lög.

Með auglýsingunni er hvatt til þátttöku í ólöglegu athæfi. Spilafíkn er alvarlegur og sívaxandi vandi, fíkn sem getur verið banvæn eins og dæmin sanna. Fram kom í fréttum nýverið að drengir niður í 14 ára stundi fjárhættuspil á netinu. Því fyrr sem unglingar byrja að spila, því hættara er þeim við að verða spilafíklar.

Við þessu verða stjórnvöld og löggjafinn að bregðast af festu eins og annarri ógn við heilsu og velferð. Á síðasta Norðurlandaráðsþingi var hvatt til aukins samstarfs í þessum efnum, hvatt til samræmdra aðgerða gegn alþjóðlegum fjárhættuspilamarkaði, sameiginlegra rannsókna og meðhöndlunar á spilafíkn. Við leyfum spilakassa til styrktar velferðarmálum sem er tvíeggjað sverð. Á þinginu kom fram að sá styrkur mundi minnka verulega ef þessi erlendu fyrirtæki fengju að starfa óhindrað.

Það er umhugsunarefni að veðmálafyrirtæki sem hér um ræðir er í eigu Íslendinga. Þetta er starfsemi sem getur verið hættuleg heilsu og velferð fólks og ég kalla til ábyrgðar og siðferðiskenndar eigenda, landa okkar sem hagnast á veikleika og fíkn, jafnvel barna, með starfseminni á netinu sem er á lagalega mjög gráu svæði.

Við bönnum auglýsingar á áfengi og tóbaki sem skaðar heilsu. Í ljósi þess ættu auglýsingar á ólöglegu fjárhættuspili enn frekar að vera óheimilar.



[15:18]
Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. ráðherra fyrir undirtektir. Ég hygg að þetta sé eitt af þeim málum sem er hafið yfir alla flokkadrætti og sé nokkuð þverpólitísk sátt um. Ég ítreka þakkir fyrir að hreyfa þessu viðkvæma og erfiða máli. Það er nefnilega mjög snúið og erfitt, það er svo fullt af andstæðum. Erfiðleikarnir eru m.a. vegna þess að fjárhættuspil í sjálfu sér felur í sér mikið af andstæðum, siðferðilegum, tæknilegum, praktískum og þar fram eftir götunum. Þetta er erfitt mál vegna þess að ýmsar góðgerðastofnanir og háskólar hafa tekjur af þessu og þó að flestir komi óskaddaðir frá þessari tekjulind fylgir því óhjákvæmilega að þar verða fórnarlömb. Sá hópur virðist jafnvel fara nokkuð stækkandi og þar er óhugnaðurinn. Það er líka erfitt vegna skilgreiningar. Hvenær hættir leikur að vera leikur og verður fíkn og sjúkdómur? Það veldur hinum mikla vanda.

Erfiðleikarnir eru líka af tæknilegum ástæðum þar sem netið er í sjálfu sér hafið yfir öll landamæri og þó að við vildum banna einhverjum að stunda slíka starfsemi hér gæti sá hinn sami flutt sig og stundað starfsemina, jafnbölvuð og hún kann að þykja í okkar huga, að utan enda netið hafið yfir landamæri.

Sá vandi sem hér er minnst á verður ekki leystur nema menn taki höndum saman í hinni samfélagslegu ábyrgð. Ég tek að því leytinu undir þær hugmyndir að skipa nefnd sérfræðinga til að skoða þá möguleika hvort yfir höfuð er hægt að taka á málinu og þá með hvaða hætti. Fórnarlömb spilafíknar hljóta auðvitað að vera aðalatriðið í því.



[15:20]
Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál upp hér. Vonandi verður þessi umræða til að opna augu ráðamanna og þjóðarinnar allrar fyrir því hversu brýnt er að grípa til varnaraðgerða gegn misnotkun á netspilavítum og á spilafíkn almennt. Það er oft gallinn við stjórnmálamenn að þeir vilja ekki bregðast við aðsteðjandi vanda, vilja ekki bregðast við allt að því fyrirsjáanlegum vanda og jafnvel ekki fyrr en í óefni er komið.

Frú forseti. Spilafíkn á netinu er orðin að vandamáli hér á landi og okkur berast fregnir af fólki sem er orðið skuldum vafið vegna spilavíta sem eru á veraldarvefnum. Vandamálið er til og það er á okkar ábyrgð að taka á því. Fyrir þá sem telja að hér sé um forsjárhyggju að ræða er tvennt sem mig langar að nefna. Samkvæmt upplýsingum frá Noregi eru tæp 4% barna á aldrinum 11–19 ára haldin spilafíkn sem tengist netinu. Ætla má að svipað eigi við um Ísland, ef ekki nú þegar þá væntanlega í framtíðinni. Spilafíkn barna og unglinga getur leitt af sér þunglyndi, einangrun og jafnvel sjálfsvíg.

Hitt er líka staðreynd að þeir sem starfrækja spilavítin á netinu leita allra leiða til að ýta undir fíknina og þá jafnvel með aðstoð sálfræðinga. Við öllu þessu þurfum við að bregðast og vernda okkar borgara og fara þarf fram rannsókn á því hvort íslenskir aðilar komi beint að rekstri netspilavíta, t.d. þess sem nefnt hefur verið hér, Betsson.com. Menn hafa nefnt að íslenskir hluthafar eigi þar í fyrirtækinu.



[15:23]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ekki vanþörf á að taka þessi mál til rækilegrar athugunar því að yfirvöld hafa því miður verið ákaflega sofandi og það má segja að samfélagið allt hafi lengi verið ákaflega sofandi fyrir þeim miklu hörmungum sem spilafíkn í ýmsum myndum tengjast, jafnvel þrátt fyrir ötula baráttu ýmissa aðila, þar á meðal og ekki síst samtaka sem sérstaklega voru stofnuð fyrir nokkrum árum til að vekja athygli á þessu vandamáli.

Angi þessara mála birtist nú í því að íbúar í einstökum hverfum bindast samtökum til að koma í veg fyrir og hafna staðsetningu starfsemi af þessu tagi í þjónustumiðstöðvum sínum. Það sýnir, eins og t.d. hefur gerst í sambandi við Mjóddina í Reykjavík, að almenningur kærir sig ekki um þessa starfsemi í sínu nærumhverfi. Það sýnir að almenningur er meðvitaður um þær hættur sem þessu eru samfara og að ekki er við hæfi að blanda henni innan um aðra starfsemi þar sem t.d. börn og unglingar eiga greiðan aðgang að spilakössum og öðru slíku.

Það er ansi hart að engu að síður skuli það vera þannig að opinberar stofnanir og félagasamtök geri hana út í landinu. Maður spyr sig: Er ekki hægt að ná samstöðu um að þessum aðilum séu bættir þeir fjármunir sem þessi rekstur hefur skilað þeim á undanförnum árum, þeir fallist í staðinn á að nota ekki sín leyfi og þeim verði ósköp einfaldlega ekki úthlutað til annarra? Þau liggi þá þaðan í frá á grundvelli samkomulags við viðkomandi aðila ónotuð. Það er í öllu falli full ástæða til, frú forseti, að taka þetta til rækilegrar og feimnislausrar umræðu og við getum ekki skotið okkur endalaust á bak við það að í hlut eigi mikilvæg starfsemi eins og Háskóli Íslands, Rauði krossinn eða aðrir slíkir.



[15:25]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda í þessari umræðu fyrir að taka þetta mál til umfjöllunar. Það hefur nú þegar komið fram í umræðunni að það mál sem sérstaklega hefur orðið tilefni, þótt mörg tilefni hafi verið tiltekin, það er Betsson sem varð tilefni til þessarar umræðu, er til rannsóknar hjá lögreglu og hefur verið síðustu 10 mánuði og er þannig í réttum farvegi eftir að dómsmálaráðherra sendi það til lögreglu til frekari skoðunar.

Hér hafa komið fram hugmyndir um að afleggja fjárhættuspil í þeirri mynd sem við þekkjum þau í formi spilakassanna. Menn geta í sjálfu sér komið fram með slíkar hugmyndir en eins og sú umræða bar með sér verður um leið að finna leiðir til að tryggja nýtt fjármagn í stað þess sem þeir aðilar sem sækja fjáröflun til spilakassanna verða af. Ég held að sú umræða verði líka að vera tekin í samhengi við það hvort við viljum setja þessu einhverjar nýjar reglur, koma þessu í eitthvert nýtt form, út úr verslunarmiðstöðvunum og eftir atvikum láta fjárhættuspilin fara fram með öðrum hætti en við þekkjum þau í dag. Ég er alveg tilbúinn til að taka þátt í þeirri umræðu en sé ekki fyrir mér að við eigum að haga okkur með mjög ólíkum hætti þegar borið er saman við löndin í kringum okkur.

Varðandi netið, þá er það alveg sérstakt vandamál. Ég held að menn verði að gæta sín á því að einblína ekki um of á eigendur Betssons sem hafa verið nefndir hér oftar en einu sinni því að lögaðilinn getur verið erlendur og netið er bara eins og útvarp sem stillt er svo hátt í öðru landi að hljóðbylgjurnar berast hingað og við getum talað um það hér að við þurfum að gera eitthvað í því að stöðva hljóðbylgjurnar en þær flæða bara yfir okkur engu að síður. Alþjóðleg samvinna á þessum vettvangi er líklegust til að skila árangri.



[15:27]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í nýlegri færslu inni á heimasíðunni spilavandi.is segir kona: „Ég spilaði mig næstum til bana.“ Hún spilaði á 15 árum frá sér 40 millj. kr., spilaði frá sér aleigunni, fjölskyldunni, fjármunum og frama í starfi. Við vitum öll að spilafíkn er mjög vaxandi og alvarlegur vandi í samfélaginu sem hefur vaðið mjög uppi á síðustu missirum og er að verða að nokkurs konar faraldri í sumum öngum samfélagsins. Við höfum ekki brugðist nægjanlega við þessum vanda, ekki skilgreint hann eða tekið á honum. Það þarf að reisa miklu frekari skorður við fjárhættustarfsemi af hvaða tagi sem hún er og það er vafasamt í besta falli og siðlaust í versta falli að fjármagna þá þætti samfélagsins sem við gerum með spilakössunum svokölluðu, hvaða nafni sem þeir kallast hverju sinni. Það er afleitt fyrirkomulag og það ber að endurskoða það og finna þeim stofnunum og samtökum sem hér hafa verið nefnd aðra tekjustofna, að sjálfsögðu.

Spilafíknin er vandi sem herjar á þúsundir einstaklinga og fjölmargar fjölskyldur í landinu. Við þurfum að viðurkenna vandamálið og bregðast við því og að sjálfsögðu að fylgja eftir landslögum sem kveða á um bann við auglýsingum af því tagi sem hér um ræðir á netspilavítum og öðrum fjárhættuspilum í landinu. Að sjálfsögðu eigum við að fylgja því eftir en um leið tek ég undir að við þurfum að taka til endurskoðunar allt umhverfi fjárhættuspila í landinu og reisa því þær skorður sem þarf að reisa til að taka á vandanum með sómasamlegum hætti. Við eigum að kalla eftir nýjum úrræðum og hafna þeim lausatökum sem hafa verið á þessum málum. Það er kominn tími til að taka málið alvarlega.



[15:29]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Spilafíkn er mikið vandamál sem hefur komist í hámæli á síðustu árum. Dæmi er um að spilafíkn heltaki fólk. Hún snertir ekki einungis þá sem eru háðir spilafíkn heldur einnig fjölskyldur, vini og alla aðstandendur. Spariféð hverfur og húseignir eru veðsettar. Hér er því gríðarmikið vandamál sem fer oft leynt og leyndara en önnur fíkn. Til dæmis má nefna að lykt berst úr vitum þeirra sem eru haldnir áfengisfíkn og eru stöðugt að sulla í áfengi en þeir sem eru haldnir spilafíkn koma ef til vill bara við í næstu sjoppu eða verslunarmiðstöð og tapa þar tugum þúsunda króna á skömmum tíma, eða þá eins og hefur komið fram í umræðunni setjast við tölvu og tapa þar háum upphæðum.

Mjög nauðsynlegt er að fara í gegnum þessa umræðu, hvernig við eigum að stemma stigu við slíkri fíkn. Við í Frjálslynda flokknum teljum mjög nauðsynlegt að efla rannsóknir á þessu sviði þar sem það verði að markmiði að kanna umfang spilafíknarinnar og ekki síður að koma og leita leiða hvernig megi stemma stigu við fíkninni og finna leiðir út úr þeim vanda. Það er mjög mikilvægt.

Það er umhugsunarefni að sjá hvaða samtök það eru sem standa fyrir spilakössum víða um land. Þetta eru góðgerðarsamtök. Mér finnst að við eigum ekki að setja slík félög í þá aðstöðu og við eigum að kalla þau félög til ábyrgðar ekki síður en þau einkahlutafélög sem stuðla að spilafíkn á netinu. Við eigum að leita leiða hvernig hægt er að ná utan um þá starfsemi. Vissulega er það rétt sem komið hefur fram í umræðunni að erfitt er (Forseti hringir.) að ná tökum á netinu en það er verkefni sem bíður okkar nú, að leita leiða út úr þeim vanda.



[15:32]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé eins erfitt og margir hyggja að stemma stigu við þessari starfsemi með því að hýsa henni út úr okkar húsi, banna hana. Norðmenn eru að gera þetta núna með spilakassana, tilneyddir. Hægt er að reisa þær skorður líka á netinu og við eigum hiklaust að gera það eftir því sem kostur er.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er mikill samhljómur í henni. Við hæstv. dómsmálaráðherra vil ég segja að mér þótti gott að heyra að í marslok á liðnu ári skuli dómsmálaráðuneytið hafa brugðist við ólöglegum auglýsingum Betssons.

Ég tel að við eigum að höfða til fyrirtækja, ekki bara um lagalegar skyldur heldur einnig siðferðilega ábyrgð. Ég er ekki kunnugur tæknilegum hliðum þessa máls en vísa aftur í greinargerð sem er að finna á heimasíðu áhugafólks um spilafíkn þar sem Finnur Hrafn Jónsson, sem er verkfræðingur og tölvunarfræðingur með 20 ára reynslu af hugbúnaðargerð, gerir grein fyrir leiðum sem fara má í þessu efni. Að þessu þarf að sjálfsögðu að hyggja.

Síðan er að virkja jákvæðan vilja sem er á Alþingi. Þetta er þverpólitískt mál. Þetta tekur til allra flokka. Hér hafa verið flutt mál á undanförnum árum og ég vísa t.d. í málflutning hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um þetta efni, til langs tíma, í mörg ár. Og þingmenn úr öllum flokkum á þingi hafa lýst vilja til að taka á þessum alvarlega vanda.

Ég bið hæstv. ráðherra að íhuga hvort ekki væri ástæða til að kalla saman nefnd sérfræðinga, m.a. frá bönkum og kortafyrirtækjum, ekki bara til að ræða við þá (Forseti hringir.) um lagalegar hliðar málsins heldur virkja ábyrgðarkennd þeirra aðila til að finna lausnir.



[15:34]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. upphafsmaður umræðunnar vil ég þakka fyrir umræðurnar. Ég vil ekki taka undir það að menn hafi ekki fjallað um þessi mál á þingi því hér voru sett lög árið 2005 eftir ítarlegar umræður um ný happdrættislög og höfðu þá ekki verið sett happdrættislög, held ég, síðan 1928 eða 1923. Það hefur því verið fjallað um þessi mál á þingi á þessu kjörtímabili og farið yfir þetta og settar þær reglur sem við styðjumst síðan við núna þegar við teljum að sporna eigi við þessari starfsemi á netinu.

Ég vil einnig segja að þegar menn tala um að fyrirtæki, félög eða stofnanir fái tekjur af þessari starfsemi og sporna eigi við því að þau samtök eða stofnanir fái það fé og eigi að fá fé eftir öðrum leiðum, þá tel ég að bak við þær ákvarðanir sem forverar okkar hafa tekið um þetta fjárstreymi, búi mjög mikið raunsæi. Búi það raunsæi að það sé betra að þessi starfsemi verði í landinu og sé í landinu. Betra sé að það renni til samtaka, stofnana og aðila sem sinna þeim málum sem þeir eru að sinna og fá þetta fé, en að það renni til einhverra annarra. Það er slíkt raunsæi sem þar býr að baki.

Menn standa núna frammi fyrir því og Norðmenn eru í málaferlum fyrir dómstóli EFTA um það hvort breska Ladbrokes-fyrirtækið fái heimildir til starfrækslu í Noregi. Og breska Ladbrokes-fyrirtækið er ekkert góðgerðarfyrirtæki. Það er einkafyrirtæki, gróðafyrirtæki og það mun ekki verja fjármunum sínum til háskólastarfsemi eða Rauða krossins eða SÁÁ eða annarra slíkra aðila.

Ég tel því að með þeirri stefnu sem við höfum haft og er í löggjöf okkar frá 2005 séum við ekki að gera neinum óleik, heldur í raun og veru að sýna mikið raunsæi.