133. löggjafarþing — 59. fundur
 24. janúar 2007.
Suðurlandsvegur.
fsp. BjörgvS, 489. mál. — Þskj. 741.

[10:47]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um Suðurlandsveg. Hún hljóðar svo:

1. Hyggst ráðherra leggja til að Suðurlandsvegur frá Reykjavík til Selfoss verði tvöfaldaður á næstu fjórum árum? — Vísa ég þar til yfirlýsingar hans í þinginu frá því í desember sl.

2. Ef svo er, verður útboð á hönnun þrígreiningar vegarins afturkallað?

3. Hyggist ráðherra tvöfalda veginn, hvort verður það gert með því að:

a. bæta fjórðu akreininni við þrígreiningu og skilja með vegriði á milli akgreina, eða

b. aðskilja akreinar með bili/eyju?

4. Hvenær áætlar ráðherra að tvöföldun Suðurlandsvegar frá Reykjavík til Selfoss verði að fullu lokið?

Ég legg fram þessa fyrirspurn af því hún tengist þeirri grundvallarumræðu sem verið hefur um málið á síðustu mánuðum um tvöföldun á Suðurlandsvegi. Orðið hafa umskipti í viðhorfum sveitarstjórnarmanna, alþingismanna og heimamanna flestra á Suðurlandsundirlendinu til þessa máls. Almenn andstaða er við svokallaða 2+1 leið og krafa er um að farið verði í fulla tvöföldun 2+2 og skilið á milli akreina með raunverulegum hætti með bili eða eyju þar sem vegrið milli akreina er ekki viðunandi aðskilnaður milli akreina á svo umferðarþungum vegi og skapar slysahættu í sjálfu sér. Síðan bættist það við að sveitarfélagið Ölfus, þar sem vegurinn liggur að stórum hluta í gegnum, ætlar ekki að veita leyfi til framkvæmdarinnar nema um tvöföldun verði að ræða.

Eina varanlega og ásættanlega lausnin er 2+2 tvöföldun á veginum og fullur aðskilnaður á milli akreina. Við höfum áður rætt hve umferðarþungur vegurinn er orðinn, 80–90% umferðaraukning á áratug. Umferðarþunginn á brautinni er meiri en var á Reykjanesbraut þegar ákveðið var að tvöfalda hana. Bráðabirgðalausn á borð við 2+1 með vegriði á milli er ekki ásættanleg.

Við erum að tala um tafarlausa tvöföldun á Suðurlandsvegi á þessu tímabili. Um það er samstaða. Um það snýst baráttan í héraðinu og langt út fyrir það. Hægt var að skilja hæstv. samgönguráðherra svo að hann tæki undir það viðhorf að tvöfalda ætti veginn á næstu missirum, en farið hefur fram útboð á hönnun 2+1 vegar.

Því spyr ég: Verður það ekki afturkallað og ráðist í fulla tvöföldun strax? Þetta er spurning um pólitískan vilja hæstv. samgönguráðherra. Pólitískur vilji þingmanna kjördæmisins blasir við og hvernig umræðunni um endurskoðun á samgönguáætlun verður hagað hér og þess vegna kalla ég eftir afdráttarlausri skoðun hæstv. ráðherra.



[10:50]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Rétt er að það komi fram að ég hafði óskað eftir því við hv. fyrirspyrjanda að þessi fyrirspurn yrði látin bíða. Þau skilaboð komust seint til hans þannig að ég taldi ekki ástæðu til að neita að koma upp og ræða málið. Ég hefði talið eðlilegt og í þágu málsins alls að þessi fyrirspurn yrði rædd í tengslum við umræður um samgönguáætlun sem er alveg að bresta á.

Ég tel ekki eðlilegt að ég fari að gefa yfirlýsingar í samræmi við fyrirspurn hv. þingmanns sem sett er fram í fjórum liðum, vegna þess að ég tel eðlilegt að þingsályktunartillagan um samgönguáætlun komi til þingsins áður en ég gef yfirlýsingar um það í smáatriðum, eins og hér er óskað eftir, hvernig við ætlum að standa að endurbyggingu Suðurlandsvegar sem ég hef margsinnis sagt að fara eigi af stað með. En eins og hv. þingmenn vita er það fyrst og fremst gert á forsendum samþykkta Alþingis um fjármuni til slíkra verkefna. Það er því svolítið misvísandi eða jafnvel varasamt að tala þannig um verkefni sem er jafnstórt og tvöföldun Suðurlandsvegar, sem ég tel að fara eigi í, að hægt sé að ljúka því tafarlaust.

Hvað þýðir það að ljúka tvöföldun svo langs vegar tafarlaust? Við sem höfum fylgst með hinum mikilvægu framkvæmdum á Reykjanesbraut vitum hversu mikið verkefni þetta er. Ég tel að hægt væri að vinna þetta verk á fjórum árum, ef nægir fjármunir væru til staðar mætti ná því að langmestu leyti. En til þess þarf mjög öflugan verktaka, vel skipulagðan í öllum sínum verkum, og standa að þessu með þeim hætti að eins stuttur tími og nokkur kostur er færi í þetta verkefni. Það er auðvitað ósk okkar að þetta megi takast á sem skemmstum tíma en hvort okkur tekst það verður að koma í ljós. Fyrst og fremst þurfum við að fjalla um það í tengslum við samgönguáætlunina hvernig við ætlum að stilla þessu upp.

Ég mun að sjálfsögðu kynna áform mín í ríkisstjórn og stjórnarflokkum áður en ég gef yfirlýsingar um þau á hinu háa Alþingi. Hv. þingmenn verða að virða mér það til vorkunnar að ég fari ekki yfir samgönguáætlunina í fyrirspurnatíma áður en ríkisstjórn og stjórnarflokkar hafa komist að pólitískri niðurstöðu í þeim efnum.

Ég vænti þess að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hafi skilning á þessu, eins mikinn áhuga og hann hefur á þessu verkefni eins og allir þingmenn Suðurkjördæmis. Þar er enginn undanskilinn. Þeir hafa allir einlægan og sannan áhuga á að koma þessu verki sem allra fyrst af stað. Ég þakka fyrir þann stuðning sem ég sem samgönguráðherra fæ og vænti þess að skilningur sé á þeirri stöðu að ég byrji ekki að mæla fyrir samgönguáætlun í fyrirspurnatíma á Alþingi.



[10:54]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þetta er eitt af þeim málum sem algerlega þverpólitísk samstaða ríkir um, enda er það líklega mesta hagsmunamálið í komandi kosningabaráttu að ljúka þessu verkefni og taka ákvörðun um með hvaða hætti vegabætur á Suðurlandi verða.

Ég tek líka undir að e.t.v. er það óeðlilegt að ráðherra fari að greina frá einstökum atriðum í samgönguáætlun í fyrirspurnatíma en það styttist í að hún verði lögð fram.

Ég vil hins vegar lýsa skoðun minni og fer ekkert dult með það að ég tel að við eigum að horfa mjög til þeirrar leiðar sem Þór Sigfússon hefur boðið, að fara í einkaframkvæmd með skuggagjaldsleið. Hann hefur lýst því yfir að ljúka megi verkinu á fjórum til fimm árum. Við eigum hiklaust að skoða þessa skuggagjaldsleið því að það hraðar verkinu en léttir um leið af ákveðinni pressu gagnvart öðrum mikilvægum samgöngubótum.



[10:56]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er hálfömurlegt að hlusta á hæstv. ráðherra boða sífellt í allt haust og vetur að samgönguáætlun sé alveg að bresta á. Menn hafa ekki enn fengið hana í hendur. Það er vegna þess að ekki er hægt að ræða málin í heild sinni sem sífellt er verið að bera upp þessar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra. Það er heldur ekki hægt að tala um hvað verður helsta málið í komandi kosningum af þessu tagi fyrr en hægt verður að ræða þessi mál í heild. Menn þurfa auðvitað að geta skoðað sameiginlega helstu þarfir sem eru fram undan og þær eru víða. Þar vega öryggismálin auðvitað mjög þungt. En ég átel hæstv. ráðherra fyrir að vera ekki enn kominn með þessa áætlun til umræðu í þinginu þannig að alþingismenn geti farið að fjalla um hana og skoðað þau mál sem eru brýnust.



[10:57]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var ansi djúpt á upplýsingum í svari hæstv. samgönguráðherra sem hann gaf áðan við fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Mér heyrðist satt að segja ekkert svar felast í ræðu hæstv. ráðherra.

Það er hárrétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði að ástæða þess að verið er að spyrja er sú að samgönguáætlun er ekki komin fram og að ráðherrann hefur verið með yfirlýsingar sem gefa ákveðna hluti í skyn.

Þetta er auðvitað mjög stórt mál en það eru líka mjög mörg stór mál sem bíða okkar í vegaframkvæmdum í landinu. Eitt er víst að þegar Samfylkingin tekur við eftir næstu kosningar mun hún sjá til þess að mun meiri fjámunum verði veitt til framkvæmda en gert hefur verið og taka fyrir þau svæði þar sem virkilega (Forseti hringir.) er þörf á að gera brýnt átak í vegamálum.



[10:58]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var svo dæmalaust svar hjá hæstv. ráðherra að ég veit eiginlega ekki hvernig á að taka því, hvort á að taka því sem fyrirslætti eða undanhaldi í málinu, því það stóð ekkert á hæstv. samgönguráðherra að lýsa því yfir rétt fyrir jólin að tvöfalda ætti veginn austur fyrir fjall.

Nú er spurt um pólitískan vilja hans í málinu og það þýðir ekkert að skáka í skjóli samgönguáætlunar sem er ekki til og er ekki komin fram. Hún er sjálfsagt í vinnslu einhvers staðar en hún er ekki þinggagn. Hún er ekki í hinni opinberu umræðu. Það er náttúrlega alveg út í hött að fresta allri grundvallarumræðu um samgöngumál og samgönguverkefni vegna þess að það er ekki komin fram samgönguáætlun sem alltaf er verið að bíða eftir. Við vitum öll hér að það þýðir ekkert að skáka í því skjóli.

Að sjálfsögðu þarf að ræða þessi grundvallarmál eins og það að bjóða út hönnun á þrígreiningu á sama tíma og sagt er í þinginu að tvöfalda eigi veginn alla leið. Ég er að kalla eftir þessu hjá hæstv. ráðherra. 2+1 vegur austur fyrir fjall er einfaldlega í uppnámi. Sveitarfélögin neita að taka hann inn á sitt skipulag. Það er pólitísk andstaða við málið og það er pólitísk breiðfylking á bak við 2+2 tvöföldun vegarins alla leið.

Það er þetta og í tilefni þess að hæstv. samgönguráðherra lýsti því yfir, að ég held í fyrsta sinn, rétt fyrir jólin að hann tæki undir að tvöfalda ætti veginn sem ég kalla eftir frekari viðhorfum hans í þinginu til þessa máls sem liggur til grundvallar allri samfélagsumræðu á þessu svæði núna. Þetta er stærsta hagsmunamál Sunnlendinga allra og þúsunda annarra Íslendinga sem fara þarna austur mjög reglulega, eiga kannski sumarhús í fjórðungnum.

Þess vegna ítreka ég spurningarnar til hæstv. samgönguráðherra. Ég felli mig ekki við að ekki sé hægt að ræða samgöngumál hér af því að einhvern tímann á næstunni eigi að fara að ræða samgönguáætlun. Hún er einfaldlega ekki komin fram, hæstv. forseti.



[11:00]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem hv. þingmaður virðist ekki skilja og mér finnst eiginlega vera kominn tími til vegna þess að hann hefur tekið þetta mál mjög oft upp í þinginu í formi fyrirspurna, óundirbúinna fyrirspurna, umræðu utan dagskrár o.s.frv.

Annars vegar vinnum við á grundvelli samgönguáætlunar, eins og framkvæmdir á flugvöllum, höfnum og vegum, og hins vegar vinnum við á grundvelli samþykkta Alþingis um fjárlög.

Tilgangurinn með því að krefjast þess að ég svari um einstök hönnunaratriði í vegagerð eða hvenær tilteknu verki eigi að ljúka sem ekki er komið í endanlegri mynd í samgönguáætlun og samþykkt af Alþingi er því miður að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur.

Ég hef vakið athygli á því að ég lít svo á að það sé einlægur vilji þingmanna Suðurkjördæmis, á sama hátt og það er einarður vilji minn, að byggja upp þennan veg eins hratt og eins vel og kostur er. Því skil ég ekki hvers vegna hv. þingmaður og þingmenn Samfylkingarinnar reyna stöðugt að gera þetta mál tortryggilegt, reyna að láta líta svo út sem samgönguráðherra sé einhver þröskuldur í vegi þessara framkvæmda. Öðru nær. Samgönguáætlun hefur sinn gang. Hún kemur í dagsljósið mjög (Forseti hringir.) fljótlega og ég vona að þingmenn taki þátt í efnislegri og málefnalegri umræðu um hana þegar þar að kemur.