133. löggjafarþing — 59. fundur
 24. janúar 2007.
slys og óhöpp á Vestfjörðum.
fsp. AKG, 353. mál. — Þskj. 383.

[11:25]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn mín er að sjálfsögðu af sama toga og sú á undan, þ.e. ég er að hugsa um öryggi vegfarenda á vegunum á Vestfjörðum á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar, og Ísafjarðar og Súðavíkur og spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hvað hafa á sl. 10 árum orðið mörg umferðaróhöpp annars vegar og slys hins vegar sem rekja má til ástands vegar og/eða veðurfars á leiðunum a. Bolungarvík – Ísafjörður, og b. Ísafjörður – Súðavík?

2. Hvað er talið að tjón á farartækjum og vinnuvélum nemi á sama tímabili hárri upphæð á núvirði?



[11:26]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurninni sem hljóðar í fyrsta lagi: Hvað hafa á sl. 10 árum orðið mörg umferðaróhöpp annars vegar og slys hins vegar sem rekja má til ástands vegar og/eða veðurfars á leiðunum a. Bolungarvík – Ísafjörður, og b. Ísafjörður – Súðavík? vil ég svara í samræmi við upplýsingar sem ráðuneytinu hafa borist frá stofnunum um að á veginum milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur á tímabilinu 1996 til septemberloka árið 2007 varð eitt banaslys, fjögur alvarleg slys, 21 slys með litlum meiðslum og óhöpp án meiðsla voru 55, látnir sem sagt einn, alvarlega slasaðir 4 og lítið slasaðir 27.

Á veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur á sama 10 ára tímabili hefur orðið banaslys í einu tilviki, alvarlegt slys í þremur tilvikum, slys með litlum meiðslum í 13 tilvikum og óhöpp án meiðsla í 55 tilvikum. Þarna hafa látist þrír einstaklingar, þrír slösuðust alvarlega og 20 lítið.

Í öðru lagi er spurt: Hvað er talið að tjón á farartækjum og vinnuvélum nemi á sama tímabili hárri upphæð á núvirði?

Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga er meðalmunatjón í ábyrgðartryggingum ökutækja um 240 þús. kr. vegna umferðarslysa og er þá eingöngu um að ræða skemmdir á ökutækjum. Miðað við þessar upplýsingar eru tjónagreiðslur tryggingafélaga 36.721.000 vegna 153 umferðarslysa á árunum 1996–2006 á leiðinni Bolungarvík – Ísafjörður – Súðavík. Við þetta er því að bæta að oft er ekið við erfiðar aðstæður. Við þekkjum það sem förum oft um þjóðvegi landsins í öllum landshlutum að aðstæður, ekki síst á veturna, eru vægast sagt háskalegar þegar hálka er. Þess vegna er það þegar allra veðra er von mikilvægt að gera þær endurbætur á vegakerfi landsins að það sé reynt að sneiða hjá því að fara yfir fjallvegi, fara yfir hálsa og hæðir þar sem brekkur eru. Hún olli mér satt að segja miklum vonbrigðum, sú andstaða sem hefur verið við það að byggja upp vegi, eins og Vestfjarðaveginn í Gufudalssveitinni þar sem verið er að færa veginn frá hálsunum en vetrarfærð og akstur í öllum veðrum leiðir oft til slysa. Það er ekki ofsögum sagt að aðstæður á þjóðvegunum, bæði vegna veðurs, snjókomu og hálku eru oft þannig að slys verða og í því ljósi þarf að sjálfsögðu að taka ákvarðanir í sambandi við uppbyggingu vegakerfisins.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn. Hún vekur athygli á okkar mikilvæga viðfangsefni sem er að byggja upp vegakerfið með öryggið í fyrirrúmi.



[11:30]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það sem hæstv. ráðherra sagði í sínu svari slær mig þannig að á þessum stuttu vegum sem þarna var um spurt séu gríðarlega mörg slys og hörmuleg. Það er auðvitað ástæða til þess að hafa þetta mikið í huga þegar menn taka ákvarðanir um það að hverju þeir beina fjármagni í vegamálum. Viðhald vega og endurbætur á þeim með tilliti til þess hversu hættulegir þeir eru er auðvitað viðfangsefnið núna. Ég held að hæstv. ráðherra hafi áttað sig vel á því. Hann hefur margsagt að hann vilji beina kröftunum að þessu. En þarna eru líka framtíðaráform sem þarf að gera þannig að menn viti að hverju þeir stefna þarna, hvar verði gerð jarðgöng og hvar verði gerðar aðrar endurbætur.



[11:31]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við fyrirspurn minni. Mér þótti þau athyglisverð. Það kemur í ljós að á þessu árabili sem ég spurði um hafa 159 manns lent í óhöppum eða slysum og þar af eru tvö banaslys og sjö tilvik þar sem viðkomandi er alvarlega slasaður. Þetta undirstrikar meira en allt annað hversu nauðsynlegt er að hraða vegabótum á þessu svæði sem er svo hættulegt yfirferðar. Ég vek athygli á því að við erum í báðum tilfellum að tala um stuttar leiðir. Það er ekki nema hálftíma akstur á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og á þessari hálftíma akstursleið verða öll þessi slys. Það er álíka löng vegalengd sem við erum að tala um milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Þarna slasast 160 manns eða lenda í óhöppum á þessu tímabili.

Þetta sem sagt undirstrikar enn og aftur hversu hættulegar þessar leiðir eru og hversu nauðsynlegt er að fara strax í varanlegar endurbætur á þessum samgönguleiðum og það verður auðvitað ekki gert nema með jarðgöngum.