133. löggjafarþing — 59. fundur
 24. janúar 2007.
kaup og sala heyrnartækja.
fsp. ÁMöl, 286. mál. — Þskj. 299.

[11:56]
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að nýta kosti breyttra rekstrarforma og þjónustusamninga um einstaka þætti þar sem það á við til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu án þess að dregið verði úr rétti eða aðgengi að þjónustunni. Ríkisstofnunin Heyrnar- og talmeinastöðin hefur um árabil þjónað þeim sem búa við heyrnar- og talmein. Rekstur hennar hefur verið brösóttur og sætti þjónusta hennar mikilli gagnrýni fyrir nokkrum árum en á því hefur verið tekið.

Á síðustu árum hefur eftirspurn eftir heyrnartækjum og þjónustu vegna þeirra aukist mikið. Það skýrist m.a. af því að þjóðin er að eldast, af auknu algengi heyrnarskerðingar, betri tækni, auknum kröfum um lífsgæði og auknum skilningi á þessum vanda fólks.

Heyrnar- og talmeinastöðin var lengi eina stofnunin sem þjónaði umræddum hópi. Á síðustu árum hafa einkaaðilar svarað aukinni þörf fyrir þjónustu við heyrnarskerta og aukið val þeirra. Þetta eru fyrirtæki eins og Heyrnartækni og nú síðast Heyrnarstöðin sem tók til starfa nýverið. Fyrirtækið Heyrnartækni hefur frá stofnun þess árið 2001 lagt höfuðáherslu á að þjóna íbúum landsbyggðarinnar og veitir þjónustu við heyrnarskerta á 17 stöðum um allt land en Heyrnar- og talmeinastöðin veitir einkum þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Það er almennt álit manna að þjónusta þessa fyrirtækis hafi verið með ágætum og átt sinn þátt í fækkun biðlista eftir heyrnartækjum sem var viðvarandi og bagaleg árum saman. Viðskiptavinir fyrirtækisins hafa hins vegar þurft að sæta miklum takmörkunum á endurgreiðslu vegna þjónustu þess og ekki notið jafnstöðu við þá sem hafa leitað til ríkisfyrirtækisins Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Þetta hefur ekki síst bitnað á íbúum landsbyggðarinnar. Þeir hafa staðið frammi fyrir vali að greiða fyrir heyrnartæki frá fyrirtækinu fullu verði eða farið til Reykjavíkur og fengið heyrnartæki frá Heyrnar- og talmeinastöðinni og notið fullrar niðurgreiðslu samkvæmt reglum þar um. Í þessu felst mikil mismunun.

Frá áramótum hefur þessi mismunun birst í því að í stað takmarkana á fjölda þeirra sem njóta endurgreiðslu hefur þjónusta fyrirtækisins samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins verið takmörkuð og skert frá því sem áður var án þess að málefnaleg rök liggi fyrir slíkri breytingu.

Því spyr ég hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra spurninga um hvernig hún hafi hugsað sér að jafna aðstöðu sjúklinga í þessum efnum milli íbúa þéttbýlis og strjálbýlis, hvernig ráðherra hefur tryggt óhlutdrægni og jafna rekstrarstöðu þeirra sem starfa á þessum markaði og hvernig eftirliti er háttað með slíkri starfsemi.



[11:59]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrstu spurninguna er því til að svara að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tryggir eins og þess er kostur að landsmenn fái þá heilbrigðisþjónustu sem þeim er nauðsynleg hvort heldur það er í heimabyggð eða utan hennar. Af skiljanlegum ástæðum er aðgengi landsbyggðarfólks að heilbrigðisþjónustu ekki nákvæmlega það sama og þeirra sem búa í Reykjavík. Nægir þar að vísa til sjúkdóma sem krefjast aðgerða sem gerðar eru á einum eða tveimur stöðum á landinu. Það gildir einnig eftir atvikum um þjónustu við einstaklinga með heyrnarmein.

Ýmis rök eru fyrir því að ekki er alltaf mögulegt að veita heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Undir slíkum kringumstæðum gildir almennt að fái sjúklingur ekki heilbrigðisþjónustu sem honum er nauðsynleg að mati læknis í heimahéraði tekur Tryggingastofnun ríkisins þátt í kostnaði hans við að sækja þjónustuna, samanber reglugerð nr. 271/2004, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands. Sú reglugerð á eftir atvikum við um einstaklinga með heyrnarmein sem þurfa á heyrnartækjum að halda.

Við undirbúning breytinga á fyrirkomulagi um sölu heyrnartækja sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn var m.a. óskað eftir áliti landlæknisembættisins á faglegum kröfum til þeirra sem selja heyrnartæki og veita tengda þjónustu. Í svari embættisins, dagsett 1. desember 2006, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir því sem undirritaður veit best er ekki til viðurkenndur tækjabúnaður til heyrnarmælinga utan Reykjavíkur og Akureyrar en ekki er viðunandi að bjóða landsbyggðarfólki upp á lakari þjónustu. Niðurstöðu úr hverri mælingu þarf að meta með tilliti til þess hvort sérhæfðar mælingar séu nauðsynlegar. Mikilvægt er að sá sem mælir hafi þekkingu til að meta það og hafi að auki aðgang að lækni með sérþekkingu og geti rætt við hann hverju sinni um útkomu mælinganna.“

Til viðbótar má geta þess að samkvæmt upplýsingum frá Heyrnar- og talmeinastöðinni hefur starfsfólk stöðvarinnar farið að jafnaði 12–14 ferðir á ári síðustu þrjú árin til Akureyrar til að sinna heyrnarskertum, bæði fullorðnum og börnum. Þjónustan sem þar er veitt er heyrnarmæling, afgreiðsla á nýjum heyrnartækjum, endurhæfing og önnur nauðsynleg þjónusta. Tveir til þrír heyrnarfræðingar hafa farið í hverja ferð. Ef búseta þeirra einstaklinga sem leita eftir þjónustu í þessum ferðum er skoðuð kemur í ljós að í kringum 70% eru frá Akureyri en 30% eru annars staðar frá og búa á svæðinu frá Sauðárkróki í vestri að Stöðvarfirði í austri.

Þá kom einnig fram í viðræðum ráðuneytisins við forsvarsmenn Heyrnartækni ehf. í lok mars 2006 að um það bil 40% af heyrnartækjasölu fyrirtækisins væri til einstaklinga á landsbyggðinni.

Varðandi aðra spurningu er því til að svara að allt eftirlit með heilbrigðisþjónustunni er í höndum landlæknis. Starfsmenn Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og þeirra tveggja einkafyrirtækja sem hafa nú rekstrarleyfi ráðherra til að selja heyrnartæki og nauðsynlega þjónustu við þau falla undir fyrrnefnd lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og lýtur því eftirliti landlæknis. Áður hefur komið fram að við undirbúning breytinga á fyrirkomulagi á sölu heyrnartækja sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn var m.a. óskað eftir áliti landlæknisembættisins á faglegum kröfum. Í svari embættisins, dagsett 1. desember 2006, segir m.a., með leyfi forseta:

„Meðan Heyrnar- og talmeinastöðin var ein um útvegun heyrnartækja og hafði ekki af því beinan fjárhagslegan ágóða var síður ástæða til sérstaks eftirlits vegna ofangreindra þátta. Þetta hefur nú breyst með tilkomu nýrri aðila á markaðnum. Með nokkrum rétti má segja að eftirlitsaðilar heilbrigðisþjónustunnar hafi ekki brugðist nægjanlega við þeim breytingum sem orðið hafa og vísbendingar eru um að eftirlitið með hinni einkareknu þjónustu á þessu sviði sé ekki nægjanlegt.“

Virðulegur forseti. Ástæða er því til að skerpa og efla eftirlit með sölu heyrnartækja, m.a. í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið og vonir mínar standa til þess að landlæknisembættið beiti sér í því.

Varðandi þriðju spurninguna vil ég svara því að hinn 1. janúar síðastliðinn tóku gildi þrjár nýjar reglugerðir sem breyta fyrirkomulagi um sölu heyrnartækja. Breytingarnar felast í að salan er gefin frjáls til þeirra sem eru heyrnarskertir að tilgreindu marki að uppfylltum faglegum kröfum sem landlæknir hefur staðfest að fengnum rekstrarleyfum ráðuneytisins. Einkafyrirtækið Heyrnartækni hefur haft samning við ráðuneytin um sölu á 312 niðurgreiddum heyrnartækjum á ári síðustu fjögur árin. Árlegur kvóti af því tagi heyrir nú sögunni til. Heyrnarskerðingarmörkin sem eru skilyrði fyrir 30.800 kr. ríkisstyrk á hvert tæki sem keypt eru hjá einkaaðilum eru þrengd frá því sem verið hefur. Samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar má ætla að um 70% allra heyrnarmælinga falli innan þessara nýju marka. Auk þess er heimild rekstrarleyfishafa til að selja heyrnartæki takmörkuð þegar tilteknir sjúkdómar kunna að vera undirliggjandi heyrnarskerðingunni en slík tilfelli eru sem betur fer fátíð. Í nýju kerfi munu fleiri einstaklingar árlega njóta heyrnartækjastyrks frá ríkinu en var fyrir breytinguna. Samtals seldu einkaaðilar 1.100–1.200 heyrnartæki á árinu 2005 án greiðsluþátttöku ríkisins en reiknað er með að þau verði öll niðurgreidd núna. Samtals voru seld 2.300 heyrnartæki með beinni greiðsluþátttöku ríkisins árið 2005. Á árinu 2007 er því reiknað með að ríkið greiði niður a.m.k. 3.400–3.500 heyrnartæki með beinni greiðsluþátttöku og ætla má að markaðshlutdeild einkaaðila tvöfaldist í breyttu kerfi.



[12:04]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er umhugsunarefni hvernig einkafyrirtæki sem ákveða að hasla sér völl á smáum og afar sérhæfðum markaði kalla á eftirlitsstofnun sem hið opinbera verður að greiða. Þetta er bara til umhugsunar.

En spurning mín eða innlegg í þetta mál, um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina, varðar þá staðreynd að eldra fólk sem þarf öflug heyrnartæki hefur ekki fengið heyrnartæki við hæfi í gegnum Tryggingastofnun ríkisins. Það hefur orðið að leita til einkaaðila sem selja öflugri heyrnartæki en Tryggingastofnun býður upp á og hefur þurft að borga þau fullu verði.

Af máli hæstv. ráðherra heyrðist mér að breytingu yrði komið á hvað þetta varðar og gert sé ráð fyrir því að Tryggingastofnun taki jafnt þátt í öllum heyrnartækjum og bestu tækin, sem eldra fólk þarf oft, falli þar undir. Mig langaði að fá staðfestingu á því að þessi skilningur minn væri réttur.



[12:05]
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæt svör. Ég bendi á að varðandi fyrstu spurningu mína, um jafna aðstöðu íbúa landsbyggðar og þéttbýlis, að fyrirtækið Heyrnartækni hefur komið inn í ákveðið gap í þjónustu opinberra fyrirtækja og veitt þjónustu á stöðum þar sem ekki hefur áður verið kostur á að fá slíka þjónustu.

Í svari hæstv. ráðherra kom fram að fjöldatakmörkunum á sölu heyrnartækja einkafyrirtækja var aflétt með reglugerð sem sett var um áramótin. Ég tel það hafa verið rétt skref. Það er óviðunandi að einungis hluti þeirra sem þurfa heyrnartæki njóti niðurgreiðslu hins opinbera og það ráðist af því hvort leitað er til einkaaðila eða ríkisstofnana hvort slík niðurgreiðsla fáist. Það segir þó ekki nema hálfa söguna. Um leið voru slíkar takmarkanir settar á þjónustu einkafyrirtækja á þessu sviði að það sætir undrun. Þannig mega þau ekki þjóna fólki sem uppfyllir 10 eða 11 atriði sem reglugerðin gerir ráð fyrir en slíkum faglegum skilyrðum þurftu fyrirtækin ekki að sæta áður. Í raun veita fyrirtækin takmarkaðri þjónustu nú en áður gegn því að ekki verði takmarkanir á fjölda tækja sem þau afgreiða.

Ég tel ekki nein fagleg eða málefnaleg rök fyrir því að takmarka þjónustu fyrirtækjanna eins og reglugerðin gerir ráð fyrir. Mismununin er enn gagnvart íbúum landsbyggðarinnar, þótt með öðrum hætti sé. Áður takmarkaðist hún við fjölda tækja en nú við einkenni og alvarleika heyrnarskerðingar.

Ég hlýt að benda á nefndarálit heilbrigðis- og trygginganefndar á 127. löggjafarþingi um breytingu á lögum sem heimila að veita einkaaðilum rekstrarleyfi til að annast að öllu eða hluta þjónustu sem veitt er hjá Heyrnar- og talmeinastöð. Þar var lögð áhersla á að tryggja óhlutdrægni og jafna rekstrarstöðu til hagsbóta fyrir neytendur. Reglugerð ráðuneytisins frá áramótum gerir það ekki að mínu mati og ég tel að það sé gegn stefnu ríkisstjórnarinnar.



[12:08]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að meginbreytingin sem nýlega hefur orðið á varðandi sölu heyrnartækja sé sú að opnað hafi verið fyrir fleiri fyrirtæki til að sinna þessum markaði. Áður var samningur við eitt fyrirtæki og hafði það fyrirkomulag verið nokkuð harkalega gagnrýnt af skiljanlegum ástæðum. Nú er opnað fyrir fleiri, þ.e. þá sem uppfylla ákveðin fagleg skilyrði til að sinna þessari þjónustu. Það kom fram í svari mínu að eftirlitið þarf að verða betra. Ég hef þá trú að landlæknisembættið muni sinna því af þeirri kostgæfni sem það getur núna þegar við breytum í grundvallaratriðum fyrirkomulaginu, þegar við erum ekki með Heyrnar- og talmeinastöðina eina og eitt einkafyrirtæki, þar sem fleiri fyrirtæki koma til.

Auðvitað fara að koma inn alls kyns samkeppnissjónarmið sem ekki voru áður á þessum markaði. Hins vegar er reynt að greina á milli, að þeir sjúklingar sem eru meira heyrnarskertir leiti fremur til Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Það er aðallega af faglegum ástæðum en má vera að endurskoða þurfi það síðar. Við byrjum a.m.k. á að greina þarna á milli þannig að þeir sem búa við verulega heyrnarskerðingu, yfir ákveðnum mörkum sem ég man nú ekki alveg í augnablikinu, fari á Heyrnar- og talmeinastöðina og fái þjónustu þar.

Við þurfum líka að gæta mjög vel að því að þeir sem hugsanlega eru með aðra undirliggjandi sjúkdóma sem valda heyrnarskerðingu fái góða þjónustu. Fyrirkomulagið má ekki valda því að mönnum yfirsjáist slíkt ástand.