133. löggjafarþing — 59. fundur
 24. janúar 2007.
vextir og verðtrygging.
fsp. JóhS, 499. mál. — Þskj. 754.

[13:43]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn um vexti og verðtryggingu og fyrsti töluliður þeirrar fyrirspurnar er hvort viðskiptaráðherra — ég man nú ekki hvernig þetta er nákvæmlega orðað, fyrirspurninni var eitthvað breytt, ég spyr því hæstv. forseta hvort hann sé með hana.

En inntakið í 1. tölulið var að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann væri sammála því sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur sagt um að rétt sé að afnema verðtryggingu á lánaskuldbindingum. — Ég fagna því að svo vill til að hæstv. landbúnaðarráðherra er hér viðstaddur og getur tekið þátt í þessum umræðum og gaman verður að heyra hvort hæstv. viðskiptaráðherra sé sammála landbúnaðarráðherra um að afnema eigi verðtrygginguna.

Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði einnig í viðtali við Ríkisútvarpið að ráðast þyrfti á vaxtaokur bankanna. Um það fjallar 2. og 3. töluliður í fyrirspurninni. Í því sambandi vil ég vitna til þess að þetta vaxtaokur er orðið algjörlega óþolandi sem neytendur láta yfir sig ganga í bönkunum. Ég er þá einungis að tala um dráttarvexti og vexti af yfirdráttarlánum þó vel mætti taka fleiri skuldaflokka. Þannig hafa t.d. dráttarvextir hækkað úr 17% árið 2003 í 25% á þremur árum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að þetta sé eðlilegt. Alþingi og stjórnvöld geta haft það í hendi sér að lækka þá vexti.

Ég hef flutt frumvarp, bæði á þessu þingi og síðasta þingi, um að á þessum málum verði tekið sem leitt gæti til a.m.k. tveggja prósentustiga lækkunar á dráttarvöxtum og yfirdráttarlánum. Það ætti varla að koma mikið við bankana, virðulegi forseti, sem juku tekjur sínar af vöxtum og þjónustutekjum um 56 milljarða eða 105% fyrstu sex mánuðina á síðasta ári samanborið við fyrstu sex mánuði þarsíðasta árs.

Ég hef lagt til ákveðna leið í þessu efni. Sú leið felur í sér að dráttarvextir sem eru samsettir af vöxtum algengustu skammtímalána Seðlabankans til lánastofnana, að viðbættum svokölluðu vanefndaálagi sem ákveðið er af Seðlabankanum, bankinn hefur svigrúm til að ákveða þetta á bilinu 7–15% — ég vil minnka þetta svigrúm í því frumvarpi sem ég hef sett fram.

Annars staðar á Norðurlöndunum er þetta fastbundið í lögum hvað dráttarvextir mega vera eða vanefndaálagið. Og af því að hæstv. ráðherra vitnaði í talsmann neytenda áðan og tók mark á orðum hans, vil ég líka vitna til þess að talsmaður neytenda segir í umsögn sinni um þetta þingmál mitt, að hann telji að þetta eigi að ákveða fortakslaust í lögum og segir að það standist ekki lög að verið sé að framselja svo mikinn sveigjanleika í ákvörðun dráttarvaxta til Seðlabankans eins og Alþingi (Forseti hringir.) hefur gert.



[13:46]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Á þinginu í fyrra, 132. löggjafarþingi, var þáverandi viðskiptaráðherra spurður að því hvort hann hygðist beita sér fyrir afnámi verðtryggingar. Í svari ráðherra þá kom fram að skipuð hefði verið nefnd sem falið hefði verið að skoða kosti og galla verðtrygginga lánssamninga og meta áhrif þess á innlent fjármálakerfi, væri heimild til verðtryggingar afnumin eða settar frekari skorður en þegar er að finna í lögum.

Jafnframt kom fram í svarinu að ráðherra mundi fara yfir málið þegar niðurstöður nefndarinnar lægju fyrir. Nefnd þessi er enn að störfum og er niðurstöðu hennar að vænta síðar á þessu ári.

Hvað sem væntanlegum niðurstöðum nefndarinnar líður er ljóst að afnám heimildar til verðtryggingar lánssamninga kynni að reynast mjög flókin í framkvæmd. Hér er rétt að staldra við orðið heimild, því ekkert skyldar lánveitendur til að lána með þessum hætti. Lög setja aðeins skorður við því hversu langir lánssamningar megi vera til þess að heimilt sé að hafa þá verðtryggða.

Líklega er stærsta vandamálið sem staðið væri frammi fyrir við afnám slíkrar heimildar það, að tugir þúsunda verðtryggðra lánssamninga eru í gildi og verða í gildi í allt að hálfan fimmta áratug. Afnám verðtryggingar mundi því aðeins hafa áhrif á ný lán. Annað er það að raunvextir óverðtryggðra lánssamninga eru að jafnaði hærri en verðtryggðra þannig að vaxtabyrði lántakenda mundi þyngjast að því leyti.

Þriðja vandamálið sem rétt er að benda á er að væntanlega mundi lánstíminn styttast verulega og hætt yrði að bjóða upp á fasta vexti. Að lokum má gera ráð fyrir að lán í erlendri mynt yrði miklu algengara form langtímalána hér en verið hefur.

Séu þessi vandamál dregin saman, þ.e. tvöfalt lánakerfi í allt að hálfan fimmta áratug, hærri raunvextir, styttri lánstími og aukin gengisáhætta er erfitt í fljótu bragði að koma auga á hvernig það mundi efla hag lántakenda að beita sér fyrir afnámi verðtryggingar í langvarandi þensluástandi.

Líklega skiptir það miklu meira máli að ná fram langvarandi jafnvægi framboðs og eftirspurnar á lánamörkuðum. Ég er með öðrum orðum sammála hv. þingmanni og hæstv. landbúnaðarráðherra en bendi á að þetta eru hin almennu nauðsynlegu hagrænu skilyrði árangurs.

Ég mun þá víkja stuttlega að annarri og þriðju spurningunni. Það er vissulega rétt að talsmaður neytenda lætur þess getið í umsögn sem hann gaf hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu að hann teldi það framsal löggjafarvalds, og það stæðist ekki, að fela Seðlabanka Íslands að ákveða vanefndaálag eða dráttarvexti svo sem er í lögum á nánast tilgreindu bili.

Hann byggir þessa fullyrðingu sína á því að hann telur að dráttarvextir sem almenningi sé gert að greiða eigi að ákvarða nákvæmlega með lögum. Í umsögn hans kemur enn fremur fram að hann telji dráttarvexti fela í sér skaðabætur fyrir drátt á greiðslu peningaskuldar. Eins og skaðabætur almennt þá telur hann eðlilegt að dráttarvextir ákvarðist með lögum.

Eins og fram kom í svari talsmanns neytenda mun sá háttur hafður á í Danmörku og Svíþjóð að lögbinda vanefndaálag. Eðlilegt er að þeirri spurningu sé velt upp hvort stíga eigi sömu skref hér á landi jafnframt því að hugað verði að því hversu hátt slíkt álag eigi að vera. Við núverandi aðstæður, þ.e. þenslu í hagkerfinu og umframeftirspurn á lánamörkuðum, er ekki að okkar mati tilefni til þess að hrófla við ákvæðum gildandi laga um vexti og verðtryggingu að því er varðar vanefndaálag og vexti yfirdráttarlána.

Trauðlega verður litið fram hjá því að vanskilavextir eigi að vera hvatning til skilvísi og verður að ætla Seðlabankanum að meta á hverjum tíma hvað sé hæfilegt vanefndaálag til þess að tryggja þá hvatningu innan ramma núgildandi laga.



[13:51]
Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnarandstaðan tekur hér upp mál varðandi afnám verðtryggingar á lán. En ætíð virðist það vera þannig að stjórnarliðar fara undan í hálfgerðum flæmingi.

Það eru 28 ár síðan verðtryggingunni var komið á með svokölluðum Ólafslögum. Þá voru aðstæður ekki þær sömu og í dag. Stærsta tilefnið fyrir setningu þeirrar verðtryggingar var óðaverðbólga sem þá var, fór allt upp í 60%. Við eigum ekki við það núna þannig að ég held að það sé virkilega kominn tími til að skoða verðtryggingu á lán til grunna.

En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist ekki vera áhugi á því hjá stjórnarliðum. Það hlýtur að merkja að það séu þá fyrst og fremst bankarnir sem ríkisvaldið vill verja.



[13:52]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns vil ég segja að ég er hv. þingmanni sammála og var ekki í vafa um að skoðanir mínar og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra færu saman í þessu máli. Ég orðaði þetta í kringum ákveðna evruumræðu sem hér hefur alltaf tröllriðið húsum og taldi mikilvægasta verkefni okkar að leggja verðbólguna að velli með skipulegum hætti á þessu ári og ganga síðan í það stóra verkefni að afnema verðtrygginguna í áföngum þannig að íslenskir húsbyggjendur, íslensk fyrirtæki sætu við sama borð.

Það er auðvitað heiðarleg krafa í ljósi þess að bankarnir starfa bæði úti í Evrópu og hér heima og hljóta að vilja að fólkið hér búi við sömu vaxtakjör og sömu skilyrði og lánþegar þeirra annars staðar.

Í stefnu Framsóknarflokksins er kveðið á um að afnema verðtrygginguna. Ég tek undir það. Við verðum að gera það með samkomulagi þannig af því hljótist ekki neitt slys. Þetta er stórt verkefni sem ber að fara í.



[13:53]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hæstv. viðskiptaráðherra, þótt hann vilji gjarnan stefna að því að afnema verðtrygginguna, þá kom það skýrt fram hjá honum að hann telur langvarandi þenslu og stöðuna í efnahagsmálunum ekki gefa tilefni til þess að vinda sér í það nú að afnema verðtrygginguna.

Hæstv. ráðherra er hér með raunverulega að viðurkenna að það sé mikið ójafnvægi, þensla og verðbólga í öllu hagkerfinu þannig að það sé ekki hægt að afnema verðbólguna. Þetta er auðvitað athyglisvert.

En ég spyr hæstv. ráðherra: Hvenær telur hann tímabært að fara í það verkefni að afnema verðtrygginguna? Við hvaða verðbólgustig er hægt að afnema verðbólguna og hvað þarf hún lengi að vera á því tiltekna stigi til að hægt sé að afnema hana?

Hæstv. ráðherra verður að tala eitthvað skýrara en gefa ekki væntingar hér út í þjóðfélagið, að hann sé jú jákvæður fyrir því að afnema verðtrygginguna en það sé bara enginn tími eða stund til þess að gera það. Það hefur ekki verið það í langan tíma einmitt út af ástandinu í efnahagsmálunum. En sér hæstv. ráðherra ekkert fram á að það lagist þannig að hægt sé að vinda sér í það að afnema verðtrygginguna?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út af vanefndaálaginu. Telur hann eðlilegt að bjóða fólki hér á landi upp á 25% dráttarvexti? Telur ráðherrann það eðlilegt að Seðlabankinn hafi þennan mikla sveigjanleika og svigrúm til þess að ákveða vanefndaálag með þeim afleiðingum og áhrifum sem við sjáum, að vextirnir eru 25%? Tekur hann ekki mark á orðum talsmanns neytenda sem segir að þarna sé um lagabrot að ræða?

Talsmaður neytenda segir að slíkt framsal löggjafarvaldsins til Seðlabankans að hafa þennan sveigjanleika standist ekki. Ráðherrann verður að tala skýrt. Telur ráðherrann að hér sé um (Forseti hringir.) brot á lögum að ræða að hafa framkvæmdina með þeim hætti eins og nú er í lögunum?



[13:55]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Álit talsmanns neytenda er að sjálfsögðu mikilvægt gagn í þessu máli og okkur ber að taka fullt mark á því og bera mikla virðingu fyrir því. En það er auðvitað lögmannsálit og það eru fleiri álit í þessu máli, m.a. það álit að Alþingi hafi heimild til þess að ákvarða þetta umboð á því bili sem er. Þannig að ég er ekki tilbúinn að svara því afdráttarlaust hvað kann að vera stjórnarskrárbrot eða lagabrot að öðru leyti í því efni.

Meginvandamálið í þessu er að það er ójafnvægi á lánamörkuðum, sagði ég. Ég var ekki að tala um allt efnahagslífið þótt það tengist nú mjög gjarnan. Meðan svo er hafa bankarnir ákaflega sterka stöðu.

Í svari mínu var ég að bera saman annars vegar ákvæði um verðtryggingu og hins vegar þá stöðu að bankarnir hafa það ofurvald vegna ójafnvægis framboðs og eftirspurnar, að þeir geti í staðinn tekið inn sína verðtryggingu í öðru vaxtaformi. Í formi hærri vaxta, styttri lánstíma o.s.frv. Það er þar sem er mikilvægast að líta á þetta út frá þessum almennu hagrænu sjónarmiðum.

Núna er að hægja á í hagkerfinu. Hagsveiflan er að koma niður. Stórframkvæmdunum lýkur brátt og við horfum fram á að það verði aukið jafnvægi og þá stefnum við í þessa átt. Ég vænti þess að við munum geta náð því á skömmum tíma þegar um hægir í efnahagslífinu og lánamörkuðum um leið.