133. löggjafarþing — 59. fundur
 24. janúar 2007.
fjárveitingar til skógræktar.
fsp. HÞ, 504. mál. — Þskj. 759.

[13:58]
Fyrirspyrjandi (Helga Þorbergsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn varðar mikilvæg umhverfismál. Ég beini henni til hæstv. landbúnaðarráðherra vegna þess að sá málaflokkur sem ég nefni sérstaklega er á forræði hans og hans ráðuneytis.

Það er almennt viðurkennt að breytingar á styrk kolefnis í andrúmsloftinu skipta miklu máli í því ferli sem stjórnar hitastigi í andrúmslofti jarðar og á maðurinn mikinn þátt í því að auka þann styrk.

Alþingi Íslendinga hefur staðið myndarlega að því að auka þá starfsemi í landinu sem helst er talið í dag að geti bundið það kolefni sem Íslendingar dæla út í andrúmsloftið árlega. Hér er átt við skógrækt í landinu og þá sérstaklega hin svokölluðu landshlutabundnu skógræktarverkefni.

Timburskógrækt er mun afkastameiri í bindingu kolefnis en hinn gamli íslenski birkiskógur og almennur gróður. Ræktun nýskóga mun samkvæmt Kyoto-bókuninni vera jafngild leið og að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Hér á landi liggja miklir möguleikar á þessu sviði vegna þess að ekki eru miklir skógar í landinu og talsvert til af landrými. Talað er um að til þess að binda um einn þriðja af því kolefni sem líklegt er að Íslendingar muni losa út í andrúmsloftið um miðja þessa öld þurfi að þrefalda þá gróðursetningu sem stunduð er í dag.

Því spyr ég hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann hyggist enn efla skógrækt í landinu með því að beita sér fyrir frekari fjárveitingum til þeirrar greinar, m.a. með það að markmiði að auka bindingu gróðurhúsalofttegunda.



[13:59]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Þorbergsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og svar mitt við fyrirspurninni er eðlilega já. Raunar þyrfti svarið ekki að vera lengra.

En ég fagna því að í fyrirspurninni skuli það koma fram að á ráðherraferli mínum hef ég barist fyrir aukinni skógrækt í landinu og stigvaxandi framlögum í þann málaflokk. Hátt í 1.000 skógarbændur, hlýrra og byggilegra land, dýrmætara land, þetta hefur verið að gerast á síðustu árum ekki síst vegna skógræktarverkefnanna. Landið er dýrmætara og það er að breyta um svip.

Ég tel rétt að hér sé rifjað upp og haldið til haga þeirri ákvörðun núverandi ríkisstjórnarflokka að hefja markvissa og skipulagða skógrækt á Íslandi og helstu breytingar sem sú ákvörðun fól í sér.

Segja má að það ferli hafi hafist með nýskógrækt á bújörðum sem Skógrækt ríkisins styrkti og svo tilkomu héraðsskógaverkefnanna árið 1991. En ég fullyrði að samþykkt ríkisstjórnarinnar þann 18. desember 1996 um að verja 450 millj. kr. til fjögurra ára átaks í landgræðslu og skógrækt markaði tímamót í sögu skógræktar á Íslandi.

Árið 1997 voru Suðurlandsskógar stofnaðir og 1999 voru settir á fót Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum og Austurlandsskógar.

Öll þessi verkefni hafa síðan vaxið og dafnað og eru nú raunverulega veigamikill þáttur í atvinnu- og búsetumálum um land allt. Þótt aðalmarkmið verkefnanna sé að rækta skóg hafa þau einnig önnur markmið, svo sem eflingu byggða og atvinnulífs, auðlindasköpun og bindingu á kolefni, eins og fram kom í máli hv. þingmanns.

Þá hafa í kjölfar verkefnanna opnast nýir möguleikar á störfum á landsbyggðinni fyrir háskólamenntað fólk sem vissulega var og er þörf á. Ætlunin er að rækta skóg á 5% af láglendi landsins á næsta 40 ára tímabili.

Þessi skógrækt, sem önnur hér á landi, byggist ekki hvað síst á farsælu 100 ára starfi Skógræktar ríkisins sem hefur með rannsóknum, tilraunum og gróðursetningum sannað að á Íslandi er hægt að rækta skóga.

Með tilkomu verkefnanna og þessu mikla skógræktarátaki breyttist óhjákvæmilega ýmislegt sem Skógrækt ríkisins hafði með höndum og má einkum tiltaka tvennt.

Dregið var úr gróðursetningu í lönd í eigu eða umsjá stofnunarinnar vegna samkeppnissjónarmiða og var Skógrækt ríkisins gert að hætta framleiðslu og sölu skógarplantna á almennum markaði. Skógræktin hefur aftur á móti enn sem fyrr viðamiklu hlutverki að gegna og má þar ekki síst nefna og benda á umsjón og uppbyggingu þjóðskóganna.

Ég vil taka það fram að stuðningur við skógrækt á sér hljómgrunn í öllum flokkum á Alþingi sem m.a. hefur komið fram í fjárveitingu til málaflokksins á síðustu árum. Hér hafa verið gerðar langtímaáætlanir, þingsályktanir um markmið skógræktarstarfsins og það fjármagn sem fer til þeirra verkefna.

Ég vil nefna hér, hæstv. forseti, að 1994 fóru 208 millj. kr. til skógræktarmála. Árið 2000 voru það 366 millj., árið 2003 634 millj. kr. og í fjárlögum þessa árs 756 millj. kr. Þannig að framlög til skógræktarmála hafa aldrei verið meiri en nú.

Auk þess fékk Skógræktarfélag Íslands á árunum 1999–2003 18 millj. kr. á hverju ári til landgræðsluskógræktarverkefnisins og 25 millj. kr. á ári síðan 2003. Enn má nefna að Landgræðsla ríkisins hefur fengið stighækkandi framlög til síns málaflokks og losar nú 500 millj. kr. á núverandi fjárlögum.

Mörg verkefni Landgræðslunnar tengjast skógrækt og er þar marktækast að nefna Hekluskógana þar sem ætlunin er að endurheimta birki í nágrenni eldfjallsins með það að markmiði að hefta gjósku ef til eldgoss kemur og gera svæðið búsældarlegra.

Ég vil þakka þessa fyrirspurn alveg sérstaklega. Ég held að það sé þjóðarvilji og þingvilji að skógræktin sé í höndum bændanna. Hún hefur verið að skila landinu miklu og kemur að stórum notum við kolefnisbindingu. Ég mun þess vegna, sem ráðherra, leggja því mitt lið hér á Alþingi Íslendinga að efla skógræktina enn frekar.



[14:04]
Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Helgu Þorbergsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Efni spurningarinnar er í senn landbúnaðarmál og umhverfismál. Það er augljóst af ræðu hæstv. landbúnaðarráðherra að núverandi stjórnarflokkar hafa lagt gríðarlega aukið fjármagn til þeirra umhverfismála sem skógræktin er, til þeirra landbúnaðarmála sem skógræktin er.

Ég vil jafnframt nefna að Skógræktarfélag Íslands og þeir aðilar sem vinna innan vébanda þess hafa lagt gjörva hönd á plóg varðandi útplöntun og að auka áhuga Íslendinga á skógrækt. Þá vil ég nefna að sjálfsuppgræðsla á sér stað meira en nokkru sinni fyrr á Íslandi. Nú eru að vaxa úr grasi nýir skógar, birkiskógar fyrst og fremst sem eru undanfari annarra skóga, og þeir munu skila tilætluðum árangri í kolefnisbindingu. Má þar m.a. nefna hinn nýja Vatnajökulsþjóðgarð (Forseti hringir.) þar sem mikið er um sjálfssáningu.



[14:05]
Fyrirspyrjandi (Helga Þorbergsdóttir) (S):

Herra forseti. Eins og hæstv. landbúnaðarráðherra gat um í upphafi máls síns, að hann gæti einfaldlega svarað með því að segja já, get ég á sama hátt sagt að ég gæti þakkað fyrir góð svör. En um leið og ég geri það vil ég þakka þeim þingmanni sem tók þátt í umræðunni. Ég þakka sem sagt landbúnaðarráðherra fyrir skýr svör og tek undir orð hans um margþætt áhrif skógræktar.

Ég held að umræðan um kolefnisbindingu og umhverfismál í tengslum við skógrækt sé afar mikilvæg og muni eflast og aukast mjög á næstu árum. Ég vil benda á afar áhugaverða umræðu sem skógfræðingar hafa haft uppi, bæði í ræðu og riti, á undanförnum dögum, mánuðum og árum, t.d. nýja grein í síðasta blaði Skógræktarritsins þar sem sérstök áhersla er lögð á þetta og þar sem nálgunin á málaflokkinn er afar áhugaverð og svolítið nýstárleg.



[14:07]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég vil sérstaklega taka fram að fyrir nokkrum árum var bæði deilt um gildi skógræktar á Íslandi og líka um hvað skógrækt þýddi. Þá töluðu menn jafnvel eingöngu um skógrækt sem umhverfismál en skógrækt er náttúrlega um víða veröld mikið landbúnaðarmál og í mörgum löndum einn stærsti tekjustofn bændanna. Ég minnist þess að í upphafi ráðherraferils míns gat ég þess að skógrækt væri landbúnaður. Þá vakti það, mér til undrunar, töluverða athygli.

Það sjá allir að það hefur verið farsælt að færa skógræktarverkefnin til bændanna. Þeir búa til þessa auðlind. Það eru 80 ár síðan Írar, frændur okkar, fóru í sams konar verkefni og hafa gert land sitt að skógræktarlandi og eiga þar mikilvæga auðlind. Ég held að við séum á réttu róli hér á landi hvað þetta varðar og getum séð mikinn árangur af þessu og sjáum þegar þann árangur að í lundi nýrra skóga vex áhugi á búsetu, heilsárshúsum. Þjóðin öll hefur í sjálfu sér græna fingur. Margir hafa flust á lögbýli sem þeir hafa keypt úr jörðum eða heilar jarðir til að búa í sveitinni og taka þátt í skógræktarverkefnum og því mikla menningarstarfi. Ég trúi því, eins og ég sagði áðan, að þjóðarviljinn sé til staðar. Þingviljinn er til staðar og ég eins og aðrir hér mun leggja mitt lóð á þær vogarskálar næstu árin að efla þennan atvinnuveg og þessa skyldu okkar við land okkar, bæði á Alþingi og í umræðu í þjóðfélaginu hafi ég til þess fylgi og krafta.