133. löggjafarþing — 59. fundur
 24. janúar 2007.
aðgerðaáætlun til að stemma stigu við mansali.
fsp. KolH, 434. mál. — Þskj. 532.

[14:32]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Íslenska ríkisstjórnin hefur einsett sér að vinna gegn mansali á markvissan hátt. Það hefur hún m.a. samþykkt á norrænum vettvangi og má nefna t.d. að hún hefur verið virkur þátttakandi í norrænu/baltnesku átaki sem staðið hefur allt fram á — ja, ég held að því hafi lokið á síðasta ári, 2006, átaki sem norrænu ríkisstjórnirnar efndu til í samvinnu við Eystrasaltsríkin til að vinna gegn mansali. Frá þessu átaki er sagt á heimasíðum ráðuneytanna á Íslandi.

Jafnréttisráðherrar og dómsmálaráðherrar Norðurlandanna hafa líka undirritað yfirlýsingu um að þeir muni halda áfram vinnu varðandi átakið sem gert hefur verið og við vitum að sennilega á næsta Norðurlandaráðsþingi munum við eiga von á skýrslu frá ríkisstjórnunum um niðurstöðu þessara mála. Í yfirlýsingunni sem varðar þetta mál samþykkja ráðherrarnir líka að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun hver í sínu landi.

Nágrannalönd okkar hafa verið með í gildi aðgerðaáætlanir af þessu tagi gegn mansali undanfarin ár. Danir gáfu út sína fyrstu 2002, hún gilti til þriggja eða fjögurra ára og það er verið að endurnýja hana ef það er ekki komin ný. Norðmenn eru með sína aðgerðaáætlun 2005–2008 en ekkert bólar á íslenskri framkvæmdaáætlun í þessum efnum.

Hæstv. forseti. Mansal til kynlífsþrælkunar hefur verið mjög til umfjöllunar i nágrannalöndum okkar og við höfum aldeilis ástæðu til þess að ætla að það teygi anga sína hingað til lands. Glæpastarfsemi af þessu tagi er orðin ótrúlega umfangsmikil í veröldinni og eftir því sem nýjustu fréttir herma og tölur frá Sameinuðu þjóðunum segja eru glæpasamtök sem stunda sölu á konum og börnum til kynlífsþrælkunar farin að velta meiri fjármunum á ári en þeir sem smygla vopnum eða eiturlyfjum.

Á fundi borgaranefndar Norðurlandaráðs í Lahti í Finnlandi síðasta haust kom fram að á Norðurlöndunum væri vandinn verulegur. Okkur skorti kannski í sjálfu sér ekki lagasetningar eða alþjóðlega samninga heldur skorti okkur fyrst og fremst fjármagn og pólitískan vilja.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra hvort okkur skorti kannski pólitískan vilja hér í ljósi þess að aðgerðaáætlun gegn mansali hefur ekki enn litið dagsins ljós þrátt fyrir þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur í þeim efnum.



[14:35]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef sem ráðherra látið frekar verkin tala en að sitja við að semja áætlanir. Þannig hefur verið unnið í þessu máli. Það hefur ekki verið sest niður til að semja áætlanir, heldur hafa verkin verið látin tala, m.a. með breytingum á lögum og með flutningi frumvarpa, m.a. um breytingar á lögreglulögunum, upptöku greiningardeilda og annarra slíkra þátta. Við höfum styrkt lögregluna til að sinna þessum málum og berjast við alþjóðlega glæpastarfsemi. Ég hef talið mikilvægara að kröftum ráðuneytisins yrði varið til þess að vinna að slíkum umbótamálum en að setjast niður við að semja einhverjar áætlanir. Ég tel miklu meira virði fyrir borgarana að unnið sé að málunum með þeim hætti sem við höfum gert í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á þessu sviði en að velta fyrir okkur einhverri áætlanagerð.

Við getum farið á hvaða fund sem er, hvaða norræna fund sem er eða baltneskan og sýnt fram á það að við höfum ekki verið að vinna að neinni áætlanagerð heldur höfum við framkvæmt skýra stefnu í löggæslumálum okkar og varðandi þá þætti sem hafa skilað þeim árangri að hér er öruggara landamæraeftirlit og öruggara eftirlit með skipulagðri glæpastarfsemi en var þegar menn ákváðu að fara út í einhverja áætlanasmíði.

Fyrir utan það hef ég lagt fram á þinginu, og hv. þingmaður hefur fjallað um það væntanlega í allsherjarnefnd, frumvörp um eflingu og styrkingu á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna sem tekur á þessum málum. Síðan höfum við líka tekið þátt í alls konar samstarfi, bæði á vettvangi Evrópuráðsins og Norðurlandaráðs um þessi málefni, á ráðherrafundum og víðar og lagt okkar af mörkum þannig að ég segi nú bara: Ef ég ætti að sitja og semja áætlanir í staðinn fyrir að beita mér fyrir því sem við höfum gert á þessu sviði held ég að ástandið væri ekki eins gott hér og raun ber vitni.



[14:38]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Nú held ég að hæstv. ráðherra misskilji aðeins hlutverk sitt. Ég sagði áðan að lagasetningu skorti ekki og ég viðurkenni fúslega að við erum með lagasetningu sem er til fyrirmyndar í þessum efnum. Ég þekki vel kynferðisbrotakafla hegningarlaganna og er að vinna hann í allsherjarnefndinni eins og hæstv. ráðherra nefnir.

En ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra, úr því að hann nennir ekki að eyða tíma sínum eða ráðuneytisstarfsmannanna í að semja aðgerðaáætlun um það hvernig við ætlum að bregðast við mansali og koma í veg fyrir að það teygi anga sína hingað til lands: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar t.d. í þeim efnum hvað á að gera við fórnarlömb mansals þegar og ef þau rekur á fjörur okkar hér? Hvaða stefnu hefur ríkisstjórnin í því að styðja konur og börn sem koma til landsins í gegnum glæpasamtök sem hafa mansal sem aðalvettvang í veröldinni? Hvernig ætlar hann að bjóða þeim félagslegan stuðning, hvað stendur þessu fólki til boða t.d. varðandi tryggingar, félagslega aðstoð, íverustaði og annað þar fram eftir götunum? Það er það sem norrænu þjóðirnar setja í sínar aðgerðaáætlanir.

Danirnir hafa tvíþætta áætlun þar sem þeir annars vegar leggja til ákveðna þætti sem varða stuðning við fórnarlömbin og í hina röndina eru þeir beinlínis með aðgerðir til að fyrirbyggja sölu á konum og börnum til kynlífsþrælkunar. Það eru nefndar hjálparlínur sem eru reknar fyrir stuðning hins opinbera, ákveðnir starfshópar eru stofnaðir, markvisst samstarf við sjálfstæð félagasamtök sem starfa á þessum vettvangi og þar fram eftir götunum. Það eru þessir hlutir sem þurfa að vera í aðgerðaáætlun. (Forseti hringir.) Og það er ekkert mikið mál að setja eina saman. Það má t.d. þýða þá (Forseti hringir.) norsku sem er nýútkomin.



[14:40]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr aðgerðaáætlunum í Danmörku eða Noregi eða öðrum löndum. Hv. þingmaður hefur þing eftir þing flutt tillögur um það að við eigum að taka upp eitthvert sænskt kerfi varðandi vændismál af því að Svíar hafi gert eitthvað. Það bara á ekki við hér á landi. Það verður að fara yfir málið og skoða stöðuna hér.

Ef það er verið að spyrja mig sem dómsmálaráðherra um félagsleg úrræði er rangur ráðherra spurður. Ég er að vinna að því að koma í veg fyrir að mansal og þessir hlutir eigi sér stað í landinu með því að stoppa það strax við landamærin þannig að það komist ekki inni í landið, að það sé tekið þannig á málum að alþjóðleg glæpastarfsemi sé upprætt hér og þeir hringar sem vinna í því að smygla konum eða börnum inn í lönd, koma sér fyrir og hreiðra um sig. Það er mitt verkefni. Ég tel að við höfum gert ráðstafanir í því skyni og að við búum ekki við sama vanda og í Danmörku eða Noregi að þessu leyti og þess vegna snúi málið ekki að mér með sama hætti og þetta snýr að dómsmálaráðherrum í þessum löndum. Eins tel ég að þingmaðurinn fari villur vegar þegar hv. þingmaður ræðir um að við eigum að taka upp eitthvert sænskt kerfi hér út af vændismálum i Svíþjóð sem eiga ekki erindi hingað.

Þingmaðurinn getur lesið allar þær skýrslur sem henni bjóðast og hún fær á sín borð en að koma hingað og spyrja mig sem dómsmálaráðherra hvort ég ætli að heimfæra yfir á Ísland þetta ástand sem er í Danmörku og Noregi eða hvaða löndum sem er þá er það ekki mitt hlutverk og ég ætla ekki að gera það.