133. löggjafarþing — 60. fundur
 25. janúar 2007.
athugasemdir um störf þingsins.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda – fyrirspurn um símhleranir.

[10:33]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á fundi félagsmálanefndar í gær var kynnt stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Þetta er á margan hátt vel unnin stefnumótun um markmið og leiðir til að aðlaga innflytjendur sem best að íslensku samfélagi en allt veltur þetta þó á framkvæmd stefnunnar og fjármögnun. Það sem þó vakti undrun mína og vonbrigði, og ég kalla eftir skýringu hæstv. félagsmálaráðherra á, var að upplýst var í nefndinni að ekki ætti að leggja stefnumótunina fyrir Alþingi til meðferðar og umfjöllunar. Því vil ég mótmæla harðlega að Alþingi fái ekki að fjalla um þetta stóra mál en auðvitað gæfi það málinu miklu meiri vigt ef það færi til þinglegrar meðferðar á löggjafarþinginu og þá gæti þingið eftir atvikum gert á því umbætur og breytingar eins og þurfa þykir.

Í svona stóru máli á Alþingi að vera aðili að allri stefnumótun og bera ábyrgð á hvernig hún er úr garði gerð. Þannig verður að ganga frá málum að þetta verði ekki bara pappírsplagg í skúffum ráðuneytanna heldur verði unnið eftir skipulögðu aðgerðaplani sem tryggi að hér á landi komumst við hjá vandamálum, undirboðum í kjörum, árekstrum og ýmiss konar sambúðarvanda milli fólks af ólíkum uppruna sem margar þjóðir hafa þurft að glíma við. Einnig vantar í þessa stefnumótun framkvæmdaáætlun sem félagsmálanefnd óskaði eftir síðasta vor að gerð yrði á grundvelli stefnumótunar en það var eitt af þeim skilyrðum sem sett var fyrir lagasetningu um frjálsa för launafólks og átti reyndar að leggja stefnumótunina fyrir Alþingi í upphafi þessa þings í haust ásamt framkvæmdaáætlun. Meðferð ráðherrans á málinu er allt önnur en um var rætt í vor.

Um þetta spyr ég ráðherrann og einnig, virðulegi forseti, að fram kom í félagsmálanefnd í gær að breyta þarf lögum, m.a. lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem leiðir af þessari stefnumótun og brýnt að þær lagabreytingar sem þarf að gera til að innflytjendur geti sem best aðlagast íslensku samfélagi komi sem fyrst fyrir Alþingi, m.a. að innflytjendaráð fái lagastoð sem mun gegna mikilvægu hlutverki í allri framkvæmd að stefnumótun. Ég spyr því ráðherrann um lagafrumvörp sem fylgja eiga þessari stefnumótun, hvort hann styðji ekki að Alþingi fjalli um stefnumótunina og hún verði tekin til þinglegrar meðferðar og hvort ráðherra muni ekki leggja fram framkvæmdaáætlun á grundvelli stefnumótunarinnar.



[10:35]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Innflytjendaráð hefur undanfarna mánuði unnið að mótun stefnu um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og skilaði um það tillögu í síðustu viku. Ríkisstjórnin hefur fjallað um málið og þau tímamót urðu sl. þriðjudag að ríkisstjórnin samþykkti þessa stefnumótun sem er í raun fyrsta stefnumótunin um þennan málaflokk sem gerð hefur verið heildstætt. Í gærmorgun var stefnumótunin kynnt fyrir félagsmálanefnd og í framhaldi af því var hún kynnt opinberlega.

Ég tel að um tímamótamál sé að ræða þar sem stefna ríkisstjórnarinnar liggur núna fyrir um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Ég fagna því sérstaklega og er viss um að hv. þingmenn eru mér sömu skoðunar í því efni.

Spurt er hvernig Alþingi komi að málinu. Ég mun í framhaldinu fara yfir það með samráðherrum mínum í ríkisstjórn hvernig við gerum það. Ég tel auðvitað eðlilegt að málið verði til umfjöllunar á Alþingi með einhverjum hætti, en ég mun sem sagt ræða það við samráðherra mína, það eru fleiri ráðuneyti sem koma að þessu máli, og við munum síðan í framhaldi af því taka ákvörðun um það.

Varðandi eftirfylgni stefnunnar, ég tek alveg undir með hv. þingmanni að auðvitað er mikilvægt að fylgja stefnumótun eftir og núna í framhaldinu verður farið í að útbúa framkvæmdaáætlun sem byggir á þessari stefnu. Ég vonast til þess að vinna við það gangi fljótt og vel þannig að við getum farið að vinna markvisst að þessum málum eins og uppleggið er og ég hygg að allir séu sammála um að þurfi að gera.



[10:37]
Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur gert örlitla grein fyrir þeirri vinnu sem liggur að baki stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Ég vil meina að það sé tvennt eða þrennt sem þarf að fara í núna eins og skot. Það er m.a. að svona plagg verði gert að t.d. þingsályktunartillögu með aðgerðaáætlun sem fylgiskjali, en fara þarf í tvær mjög mikilvægar lagabreytingar strax. Annars vegar að gefa innflytjendaráði lagastoð, eins og rætt hefur verið um í sölum Alþingis, til að innflytjendaráð geti verið það tæki fyrir stjórnvöld til að vinna að þeim breytingum sem þarf að gera, ekki bara núna heldur í framtíðinni og geti alltaf verið á þeirri vakt. Það gefur líka innflytjendaráði þann möguleika að setja undirnefndir til að fara að vinna slíka vinnu. Núna er slíkt ekki hægt.

Síðan þarf að gera aðra breytingu strax til að eitthvað af þessu fari að virka og það eru lög um túlkaþjónustu. Við erum einungis með hana hvað varðar sjúkrahúsin en það verður að koma með slíka breytingu inn í félagsþjónustu sveitarfélaga og fleiri staði því að við vitum vel að þetta mál er mjög viðkvæmt og hefur verið mistúlkað eins og við þekkjum úr fjölmiðlum.

Ég vil einnig benda á að þetta er ekki fyrsta tillagan sem er send til ríkisstjórnar um heildarstefnumótun í þessum málum. Það var líka gert í ráðuneytinu 1999 og síðan liggur fyrir þinginu mjög veigamikil tillaga um svipað efni, en ég vil jafnframt fagna mjög því skjali sem hér er. En það verður að gefa innflytjendaráði lagastoð til að hægt sé að setja einhverja vinnu í gang og setja fólk til verka.



[10:39]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur verið unnið að stefnumótun um málefni innflytjenda og var grunnur að slíkri stefnumótun kynntur í félagsmálanefnd Alþingis í gær. Sá grunnur er prýðilegur en vantar að vísu allt kjöt á beinin, framkvæmdaáætlun. Okkur var sagt í félagsmálanefnd að þetta væri ekki trúnaðarmál en á það bæri að líta að stefnan væri enn í mótun. Síðan gerist það þegar menn koma út af fundi félagsmálanefndar að ríkisstjórnin er að kynna þetta málefni fyrir fjölmiðlum.

Ég vek athygli þingsins á því að nú er það að gerast sem iðulega hefur gerst fyrir alþingiskosningar að ráðherrar fara að breyta ráðuneytum sínum í kosningaskrifstofur fyrir eigin flokka. Nú taka þeir án afláts að skreyta sig með fjöðrum, kynna vinnu ýmissa starfshópa og þetta er dæmi um slíkt. (Gripið fram í: … ómerkilegt.) Þetta er ekki ómerkilegt. En það sem er ómerkilegt er að nú gerast ráðherrar mjög gjöfulir. Þeir lofa, en vel að merkja fram í tímann, fram á næsta kjörtímabil og jafnvel tvö kjörtímabil fram í tímann. Við erum að verða vitni að þessu varðandi aðgerðir í menntamálaráðuneytinu og við erum að verða vitni að þessu í öðrum ráðuneytum einnig.

Ég spyr: Er siðferðilega (Gripið fram í.) stætt á því að ráðherrar í ríkisstjórn komist upp með það að umbreyta ráðuneytum í kosningaskrifstofur? Þetta er dæmi um slíkt.



[10:41]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég er ekki alveg eins harður í garð hæstv. félagsmálaráðherra og hv. síðasti ræðumaður. Ég tel að það sé jákvætt af ríkisstjórninni að hafa gert reka að því að leggja fram stefnu í málefnum innflytjenda. Ég tel að mikilvægt sé að sem breiðust samstaða náist um þann málaflokk. Miklar og á köflum erfiðar umræður hafa verið um hann á síðustu vikum og ég tel að sá málaflokkur sé þess eðlis að miklu máli skipti að þingið fái að ræða það mál og reyna að móta sameiginlega.

Í umræðunni hefur komið fram að aðrir stjórnmálaflokkar, þar á meðal Samfylkingin, hafa lagt fram vönduð þingmál um þetta. Það er til marks um að flokkarnir hafa vel útfærðar stefnur í þeim málaflokki. Ég held að ef hæstv. félagsmálaráðherra vill standa við þau orð sem hann hefur áður látið falla í fyrri ræðum, um nauðsyn breiðrar samstöðu, eigi hann einmitt að koma með málið inn í þingið. Ég er síður en svo að gagnrýna þetta mál eins og það liggur fyrir af þeirri einföldu ástæðu að ég þekki það ekki nema úr fjölmiðlum, en sem kjörinn fulltrúi vil ég fá að taka þátt í umræðum um það og m.a. að reyna að bæta það út frá þeim sjónarmiðum sem minn eigin flokkur hefur.

Ég tók eftir að hæstv. ráðherra sagði hérna áðan að nú mundi hann ræða við samráðherra sína um hvernig ætti að taka þetta inn í þingið. Það finnst mér auðvitað vera tæknilegur galli á málinu. Það hefði átt að vera búið að ganga frá því áður. En hugsanlega er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að fljótaskriftin og hraðinn á málinu sé slíkur að ekki hafi verið búið að ganga frá því. Það er algjört skilyrði, að ef menn ætla sér að ná samstöðu um málefni innflytjenda verður þingið að fá að ræða það og það verður að gera með þeim hætti úr því sem komið er að hæstv. ráðherra leggi fram (Forseti hringir.) skýrsluna og stefnuna til formlegrar umræðu í þinginu.



[10:43]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða annað mál undir liðnum um störf þingsins, brýnt sem það mál sem áður hefur verið til umræðu er. Ég vil ræða það, virðulegur forseti, að í fyrirspurnatíma í gær gerðist það í annað sinn að hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, vék sér með öllu undan að svara spurningum sem ég hef lagt fyrir hann varðandi símhleranir og meinta eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi á vegum lögreglu- og dómsmálayfirvalda á umliðnum áratugum. Í þetta sinn var um að ræða formlega fyrirspurn á Alþingi og ég vísaði m.a. í 54. gr. stjórnarskrárinnar hvað varðar rétt minn til þess að leggja hana fram, bera hana upp við ráðherrann og fá svör. Ég tel að alger undanbrögð hæstv. dómsmálaráðherra í þessum tveimur tilvikum, í utandagskrárumræðu um málið 8. október sl. og aftur þegar hann svaraði eða öllu heldur ekki svaraði fyrirspurn minni í gær, séu mjög alvarleg atlaga að rétti okkar þingmanna, stjórnarskrárvörðum rétti okkar þingmanna til að krefja framkvæmdarvaldið um upplýsingar.

Ég hef því lagt fram, virðulegur forseti, fyrirspurn á nýjan leik í níu töluliðum, umorðaða að nokkru leyti, þar sem ég óska skriflegs svars frá hæstv. dómsmálaráðherra um þau málefni sem hann hefur í tvígang hunsað að svara á Alþingi. Ég hef óskað eftir því að forseti Alþingis og forsætisnefnd fari yfir umræðurnar frá 8. október og frá því í gær. Ég óska eftir því að forsætisnefnd kveði upp úr um hvort það séu viðeigandi viðbrögð af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra sem þar birtast. Ég hef óskað eftir því að forsætisnefnd taki málið fyrir á grundvelli réttar míns sem þingmanns samkvæmt 54. gr. stjórnarskrárinnar með vísan einnig til 1. og 51. gr. stjórnarskrárinnar sem málið varða.



[10:46]
Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Af viðbrögðum nokkurra hv. þingmanna mætti ætla að þeir legðust gegn því að það skuli í fyrsta sinn hafa verið mótuð stefna af hálfu ríkisstjórnar um málefni innflytjenda. Það er með ólíkindum að menn skuli koma upp, fleiri en einn og fleiri en tveir, og lýsa yfir vonbrigðum og gefa því þær einkunnir sem hér hafa fallið, fljótaskrift, kosningamaskína og þar fram eftir götunum.

Hvað er hér á ferðinni? Hæstv. félagsmálaráðherra er að kynna niðurstöður þverfaglegrar nefndar sem hefur unnið að stefnumörkun um málefni innflytjenda í fyrsta sinn af hálfu ríkisstjórnar. Ég hefði haldið ekki síst eins og þróunin hefur verið síðustu missirin að það væri fagnaðarefni. Þá koma hv. þingmenn upp og láta þau orð falla sem við höfum orðið vitni að. (Gripið fram í: Hvaða orð?) Halda mætti að hér væri um einfalda afbrýðisemi að ræða í stað þess að fagna því að komin skuli vera þverfagleg stefna um málefni innflytjenda. Þá leyfir hv. þm. Ögmundur Jónasson sér að nota þau orð sem hann notaði áðan sem og hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Ég tel að það sé þeim til skammar í stað þess að fagna því að nú skulum við sjá markvissa stefnu byggða á þverfaglegri vinnu nefndar um málefni innflytjenda. Hv. þingmaður (Gripið fram í: ... titringur.) (ÖJ: Maður gæti haldið að þú værir framsóknarmaður.) Nú háttar svo til að atgangur þessara hv. þingmanna er slíkur að ég fæ ekki að ljúka máli mínu. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja hv. þingmenn til þess að skoða þessa stefnu. Það var faglega unnið að henni hjá hæstv. ráðherra með þverfaglegri nefnd. Hann kynnti hana fyrir hv. félagsmálanefnd í gær áður en málið var gert opinbert. Í stað þess að koma upp í þessu fúllyndi ættu hv. þingmenn að fagna því að það skuli vera komin fagleg stefna um málefni innflytjenda sem er samfélagi okkar í hag, innflytjendum í hag og þinginu í hag.



[10:48]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að full ástæða sé til að fagna þeirri tímamótastefnu sem ríkisstjórnin kynnti í gær og innflytjendaráð hefur unnið að um nokkuð langan tíma, eins og fram hefur komið. Lagt í þetta mikla vinnu og kallað til marga aðila til að ná saman þeirri stefnumótun sem hér birtist. Ríkisstjórnin hefur svo samþykkt þá stefnumótun. Fram hefur komið í máli hæstv. félagsmálaráðherra að þegar þar að kemur verði þetta auðvitað lagt fyrir Alþingi með einhverjum hætti.

Ég fagna því að hv. þingmenn, sérstaklega Samfylkingarinnar, hafa tekið undir það að hér sé um tímamótastefnumótun ríkisstjórnarinnar að ræða og hafa tekið undir að þetta sé gott starf sem hefur verið unnið. (Gripið fram í.) Vera má að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi ásamt öðrum tekið undir þá stefnumótun. Þá getum við orðið sammála um það á Alþingi að það var mjög gott að þetta kom fram. Orð um það að farið sé að nálgast kosningar eitthvað of mikið er óþarfi þegar búið er að vinna í svo langan tíma að málinu, eins og við þekkjum. Þá er full ástæða til að birta stefnuna þegar hún er fram komin. Auðvitað þarf eftirfylgni og það þarf, eins og ég sagði, samstarf margra aðila. Mörg ráðuneyti koma að þessu og sveitarfélögin sem hafa hlutverki að gegna. Ekki síst, eins og hér kemur fram, er hlutverk menntamálaráðuneytisins mikilsvert varðandi tungumálakennslu. Allt þetta mun auðvitað birtast í stefnunni og henni verður framfylgt.



[10:50]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stefnan lá fyrir Alþingi með einhverjum hætti sagði síðasti ræðumaður. Ég vil vekja á því athygli að það er grundvallarmunur á því hvort ráðherra flytji Alþingi skýrslu um stefnumótunina eða hvort Alþingi fái hana til þinglegrar meðferðar og til umfjöllunar. Geti eftir atvikum gert breytingar á þessu og greitt atkvæði um stefnumótunina vegna þess að það er mikilvægt að Alþingi beri ábyrgð á henni. Þetta er það stórt mál að það á að vera svo, enda þarf örugglega mikla fjármögnun til að framkvæma stefnumótunina og aðgerðaáætlun og að því kemur Alþingi líka.

Lögð er fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Hér er ekki síður á ferðinni stórt mál sem er stefnumótun í málefnum innflytjenda sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun og á auðvitað reglulega að flytja málið fyrir þingi. Í upphafi þegar slík stefnumótun er gerð á Alþingi að koma að því. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn til að skoða það og leggja áherslu á það við samráðherra sína að Alþingi fái þessa stefnumótun til þinglegrar meðferðar og umfjöllunar. Ég hvet ráðherrann til þess að þetta verði lagt með formlegum hætti fyrir þingið. Það er farsælast í svo stóru og þýðingarmiklu máli, að Alþingi beri ábyrgð á þessu.

Samþætting og blöndun er mikilvæg og raunar lykilatriði. Það má ekki fara svo að hér búi margar þjóðir í einu og sama landinu. Blöndun þarf að vera í skólakerfinu, í búsetu- og húsnæðisúrræðum, á vinnumarkaðnum og í frístundum og það á að gegna lykilhlutverki í allri stefnumótun og framkvæmd. Alþingi verður að tryggja í stefnumótuninni að svo verði vegna þess að það er mikið í húfi fyrir íslenskt samfélag og fyrir innflytjendur sem hingað kjósa að koma, að stefnumótunin verði markviss og skýr, gerð verði aðgerðaáætlun í samræmi við hana og Alþingi fái að koma að henni.



[10:52]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að ef vilji væri til samstarfs um stefnumótun í málefnum innflytjenda af hálfu stjórnarþingmanna hefði verið farið öðruvísi að varðandi stefnu í málefnum innflytjenda en hér er gert. Þessi gjörð lýsir því auðvitað að það er enginn sérstakur vilji af ríkisstjórnarinnar hálfu til að ná um þetta breiðri sátt eða hleypa Alþingi að stefnumótuninni. Hverju lýsir það, hæstv. forseti? Að mínu mati lýsir það valdhroka og samkeppni um hylli vegna þess að kosningar eru að nálgast.

Núverandi ríkisstjórn veit alveg að við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum látið okkur miklu skipta stefnumörkun í málefnum innflytjenda. Núverandi ríkisstjórn og hæstv. ráðherra þekkir öll þau þingmál sem hér hafa verið lögð fram. Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hef ekki kynnt mér þetta plagg nema það sem sagt hefur verið í fjölmiðlum. Ekki veit ég hvort fjallað er um sjálfkrafa rétt útlendinga til atvinnuleyfis eða hvort fjallað er um réttindi erlendra kvenna sem flýja úr ofbeldisfullum samböndum, hvort þær fái undanþágu frá dvalarleyfistakmörkunum. Eða hvort fjallað er um 18 ára regluna um sjálfstæða framfærslu 18 ára unglinga eða hvort fjallað er um 66 ára regluna eða 24 ára regluna.

Um allar þær reglur sem ég nefndi þarf lagabreytingar og það þarf samstöðu á Alþingi til að gera þær. Ég sé því ekki annað en þessi gjörð ríkisstjórnarinnar lýsi því að kosningar eru í nánd. Slíka stefnumörkun hefði mátt sjá hjá Sjálfstæðisflokknum eða á vegum Framsóknarflokks í flokksstarfinu, en ef hér á að nást einhver sátt eða samkomulag um stefnu í málefnum innflytjenda þarf hún að fara í gegnum Alþingi Íslendinga. Annað er óvirðing ekki bara við okkur sem sitjum í skjóli þjóðarinnar heldur við þjóðina sjálfa.