133. löggjafarþing — 60. fundur
 25. janúar 2007.
um fundarstjórn.

umræða um málefni útlendinga.

[10:55]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna fundarstjórnar forseta í tengslum við málið sem við höfum verið að ræða, um málefni innflytjenda. Ég tel það afar mikilvægt og merkilegt að hæstv. félagsmálaráðherra er búinn að leggja fram mjög heildstæða og góða stefnu varðandi málefni útlendinga og að hann hefur lagt sig allan fram um að kynna hv. félagsmálanefnd þá stefnu í morgun. Það er mikilvægt að þingið komi að málinu á einn eða annan hátt en mér finnst hins vegar nöturlegt að finna það að Vinstri grænir hafa farið öfugu megin fram úr rúminu í morgun og sjá þetta í allt öðru ljósi. Ég tel að menn ættu að fagna sérstaklega því að búið er að kynna heildstæða stefnu varðandi málefni útlendinga.

Ég tek hins vegar heils hugar undir með þingflokksformanni Samfylkingarinnar og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að ég tel mikilvægt að þingið ræði málefni innflytjenda. Ég tek undir þá beiðni og þá ósk að við ræðum málefni útlendinga á forsendum þess að hæstv. félagsmálaráðherra kynni hér skýrslu því að hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt sig sérstaklega fram um það að ræða málefni útlendinga á mjög breiðum grunni. Ég veit að hann vill sérstaklega ræða málefnið við hv. þingmenn því málefnið er mikilvægt. Þess vegna beini ég því til forseta að taka þá beiðni til greina.



[10:56]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Vegna umræðunnar áðan um stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda ætla ég ekki að fara yfir þau orð sem þar féllu, um kosningamál o.s.frv. Mér finnst það vera á frekar lágu plani við þessar umræður að segja það. Ég tók það fram áðan að við munum íhuga með hvaða hætti málið er borið á Alþingi. Mér finnst mjög eðlilegt að Alþingi fjalli um málið, ég hef ekki hafnað því og finnst það eðlilegt.

Formaður þingflokks Samfylkingarinnar kom með tillögu um að það ætti að vera rætt sem skýrsla sem mér finnst mjög góð tillaga og eðlileg. Ég mun ræða það við hæstv. forseta þingsins (Gripið fram í.) hvernig við munum fara í málið. Í framhaldinu á stefnumótuninni, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, verður farið í að móta aðgerðaáætlun og framkvæmdaáætlun um að ná málinu fram. Það er auðvitað aðalmálið. Þessi mál eru á fleygiferð, það er mikið verið að vinna að málaflokknum víða í stjórnkerfinu og við þurfum auðvitað að fjalla um það á Alþingi, að sjálfsögðu.



[10:58]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Greinilegt er að það er ekki bara ríkisstjórnin sem hefur vaknað af værum blundi í sambandi við málefni útlendinga heldur og einstakir ráðherrar hennar sem biðja um orðið um fundarstjórn forseta til að verja hendur sínar í þessum efnum. Það er auðvitað gott. Batnandi mönnum er best að lifa en það liggur algerlega ljóst fyrir að stjórnvöld voru sofandi, ákaflega sofandi, og hrukku svo í gang undan umræðu sem orðin var þung í samfélaginu um hvert þessi mál væru að þróast og fóru að setja svolitla peninga og einhverja vinnu af stað hvað varðar stefnumótun á þessu sviði. Málefni sem hefur auðvitað verið iðulega til umfjöllunar á Alþingi. Það er undarlegt þegar menn tala þannig eins og þeir séu alltaf að finna upp hjólið. Auðvitað hafa verið frumvörp og þingmál á umliðnum árum sem tengjast réttindum og stöðu útlendinga með margvíslegum hætti flutt af mörgum þingflokkum.

Ég vil svo víkja að öðru máli sem ég tók upp undir liðnum um störf þingsins og inna forseta eftir því vegna þess að forseti tjáði sig ekki um ósk mína, hvort ég megi leyfa mér að túlka þögn forseta sem sama og samþykki, þ.e. formleg ósk mín um að forsætisnefnd taki málið til skoðunar, að við henni verði orðið. Ég kýs að túlka þögn forseta sem samþykki við því.



[10:59]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Öllum erindum sem beint er til forseta hefur hann og mun að sjálfsögðu taka til skoðunar.



[11:00]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Til þess að taka af allan vafa vil ég að það komi alveg skýrt fram að þessi formaður þingflokks fór rétt fram úr rúminu í morgun glaður og brosandi. Hins vegar sýndist mér hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins hafa allt á hornum sér áðan. Ég skil satt að segja ekki að hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins leggi það af mörkum til að greiða fyrir málinu eða þingstörfum almennt að skrumskæla og afbaka það sem menn hafa sagt. (Gripið fram í.)

(Forseti (SP): Forseti minnir hv. þingmann á að hann er að ræða um fundarstjórn forseta.)

Frú forseti. Það er nákvæmlega það sem mér er ákaflega ofarlega í sinni og hefði kannski átt að vera hæstv. forseta líka ofarlega í sinni þegar þeir tveir ráðherrar sem töluðu áðan komu í pontu. Það er engu líkara en einhverjar aðrar reglur gildi um þá. Hæstv. menntamálaráðherra sem að vísu flutti óvanalega gott mál áðan ræddi hins vegar ekki nema efnislega um málið. Ég mælist til þess, frú forseti, að þó að ég beri óttablandna virðingu fyrir hæstv. menntamálaráðherra sé hún eigi að síður sett á sömu lágu skörina og formaður þingflokks Samfylkingarinnar í málinu. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Það sem ég vildi segja er þetta: Það er nauðsynlegt að menn ræði málefni innflytjenda og það er nauðsynlegt að allir reyni að leggja á sig til að ná breiðri samstöðu sem sker á alla flokka í málinu. Þess vegna kom ég með þá hugmynd áðan, sem hæstv. menntamálaráðherra tók undir, að byrjað yrði á því að taka þá stefnu sem nú hefur verið lögð fyrir af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra til umræðu í þinginu. Ég tel sjálfsagt að í kjölfar þess komi þetta síðan inn í þingið sem formlegt þingmál sem verði sent til umsagna úti í samfélaginu til að fá sem flest, ríkust, breiðust og ólíkust viðhorf gagnvart þessu flókna máli.

Þannig held ég að þetta þing gæti náð góðri samstöðu um málið. Þá þyrfti hæstv. forseti ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því að leið þess í gegnum þingið yrði ekki greið. Ég lýsi því yfir, fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar, að við mundum greiða fyrir því að málið fengi formlega afgreiðslu af hálfu þingsins ef það kæmi inn sem þingmál áður en þingi sleppir í vor. Ég vona nú að allir séu kátir og glaðir þegar þessari ræðu lýkur.



[11:02]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill taka fram að hann reynir að gæta jafnræðis milli þingmanna og tekur það fram að hæstv. menntamálaráðherra var einmitt að ræða um fundarstjórn forseta, um efni þeirrar tillögu sem upp kom í umræðunni um að ræða þessi mál á þinginu (ÖS: Menntamálaráðherra …) og fór í að ræða málið strax frá byrjun.



[11:03]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að breið samstaða náist um málefni innflytjenda og um stefnumótun í því efni. Ég gat um það áðan að ég teldi að sá grunnur sem nú hefði verið lagður væri að mörgu leyti mjög góður. Ég fagna þessari vinnu og ítreka þá afstöðu að sú vinna sem fulltrúar frá innflytjendaráði og ýmsum öðrum hópum hafa komið að er prýðileg.

Ég gagnrýni hins vegar vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og vil taka undir það sem hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að mjög mikilvægt er að mynda breiða samstöðu um þetta málefni á Alþingi. Til þess þarf málið að koma inn í þingsalinn með formlegum hætti. Eftir því kallar stjórnarandstaðan. Síðan er hitt atriðið sem hefur farið fyrir brjóstið á ráðherrum í ríkisstjórninni og talsmönnum stjórnarmeirihlutans á Alþingi, að ég hef gagnrýnt það að ráðuneytum skuli umbreytt í kosningaskrifstofur stjórnmálaflokkanna í aðdraganda alþingiskosninga. (Forseti hringir.) Það er mjög alvarlegur hlutur. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, og vil beina því … (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þingmann á að hann er að ræða um fundarstjórn forseta.)

Ég er að ræða um fundarstjórn forseta á nákvæmlega sama hátt og á sömu forsendum og hæstv. menntamálaráðherra gerði hér áðan án þess að athugasemd væri gerð við mál hennar. Ég er að vekja athygli þingsins á grafalvarlegu máli.

Ég velti fyrir mér hvort setja eigi þá reglu að ráðherrum verði óheimilt að gefa kosningaloforð í formi fjárhagsskuldbindinga ríkissjóðs fram í tímann eins og dæmi eru um nú og í aðdraganda síðustu kosninga. Ég minni þar á það dæmi sem frægt varð að endemum þegar ríkisstjórnin lofaði upp í ermina á sér gagnvart öryrkjum og sveik svo loforðin þegar hún hafði sest að nýju á valdastóla. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti telur að hv. þingmaður hafi ekki að öllu leyti farið að reglum og rætt um fundarstjórn forseta.)



[11:06]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta að það er afar mikilvægt að sú stefnumótun sem rædd var í félagsmálanefnd í gær í málefnum innflytjenda fái hér þinglega meðferð. Ég óska hreinlega eftir liðsinni hæstv. forseta, eins og í hennar valdi stendur að fá stuðning við það að slík málsmeðferð verði viðhöfð á Alþingi. Annað er hrein lítilsvirðing við þingið, að svona stór stefnumótun komi ekki fyrir þingið og þingið fái ekki að fjalla um hana með eðlilegum hætti, gera athugasemdir, senda málið út til umsagnar og greiða um það atkvæði. Það eru fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu, virðulegi forseti, sem hafa skoðanir á þessu máli. Það er eðlilegt og lýðræðislegt að í umfjöllun Alþingis um slíka stefnumótun verði málið sent til umsagnar ýmissa aðila, ekki síst sveitarstjórnanna sem þessi stefnumótun og framkvæmd hennar mun ekki síst mæða á.

Ég minni forseta á að fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga frá þingmönnum Samfylkingarinnar um stefnumótun í málefnum innflytjenda því að við teljum eðlilegt að þingið fjalli um slíka stefnumótun, hafi á henni skoðun og beri á henni ábyrgð enda er fjármögnunin á allri framkvæmd í höndum Alþingis. Ég veit að allir flokkar á þingi hafa miklar skoðanir á þessu máli og vilja að stefnumótun sé þannig úr garði gerð að hún verði til farsældar fyrir íslenskt samfélag og þá innflytjendur sem hingað kjósa að koma. Þess vegna er ég sannfærð um það, virðulegi forseti, að þó að stutt lifi af þessu þingi muni þingflokkar leggja sig fram um það að þessi stefnumótun nái fram að ganga áður en þingi lýkur í vor. Ég á sæti í félagsmálanefnd, virðulegi forseti, og ég mun leggja mig fram við það, ef hæstv. ráðherra verður við þeirri ósk að leggja málið fram með formlegum og þinglegum hætti inn í þingið þannig að það fái málið til umfjöllunar, að meðferð málsins í félagsmálanefnd verði hraðað eftir því sem kostur er.

Því miður, virðulegi forseti, heyrist mér á máli bæði hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra að þeir ætli að láta sér nægja að flytja Alþingi bara skýrslu um þetta mál sem verður rædd í kannski einn eða tvo tíma ef best lætur en að öðru leyti hafi þingið engin afskipti af því. Það er alls óviðunandi, virðulegi forseti, ef niðurstaðan á að vera slík. Við vitum að á ferðinni er stórt mál sem skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag hvernig Alþingi og framkvæmdarvaldið halda á og ég mótmæli því, virðulegi forseti, ef Alþingi verður sýnd sú lítilsvirðing að það eigi að ganga fram hjá þinginu í að móta stefnu í þessu máli. Það bara gengur ekki, hæstv. forseti.



[11:09]
Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég leyfi mér að fagna þessari umræðu um málefni innflytjenda. Ég tek undir það sem hér hefur fram komið að það er nauðsynlegt að ræða það sérstaklega á Alþingi, sérstaklega þá stefnumótun sem hæstv. félagsmálaráðherra var að leggja fram. Það er nauðsynlegt að málið fái þinglega meðferð og komi að sjálfsögðu fyrir í réttri nefnd og að þeir sem bæði áhuga hafa og rétt til að koma að þessu máli fái að gera það. Það gengur ekki að þetta sé einfaldlega rétt kynnt og svo búið. Það þarf að taka þetta málefni vel fyrir, það er hávær umræða í þjóðfélaginu um að menn ræði málefni innflytjenda og komi á stefnumótun. Það verður þá að vera gert með aðkomu Alþingis og allra stjórnmálaflokka.



[11:10]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti fann að ummælum mínum hér áðan og taldi þau ekki falla undir þennan dagskrárlið, um fundarstjórn forseta. Þetta má að vissu leyti til sanns vegar færa (Gripið fram í: Nú?) en ég beini því til hæstv. forseta að hann gæti samræmis í dómum sínum og aðfinnslum í garð þingmanna.