133. löggjafarþing — 60. fundur
 25. janúar 2007.
sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, 1. umræða.
stjfrv., 431. mál. — Þskj. 519.

[11:44]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Á undanförnum árum hefur samstarf eða sameining Kennaraháskólans og Háskóla Íslands verið til skoðunar og á árinu 2002 unnu skólarnir sameiginlega athugun á nánara samstarfi eða hugsanlegri sameiningu sem síðan hefur verið lögð til grundvallar m.a. í starfi nefndar sem ég skipaði í upphafi þessa árs með fulltrúum beggja skólanna til að skoða fýsileika sameiningar þeirra. Niðurstaða nefndarinnar sem síðan var kynnt í ríkisstjórn hinn 11. apríl sl. var á þá leið að sameining skólanna væri æskileg en sá fyrirvari var gerður að samstaða næðist milli skólanna um markmið sameiningarinnar.

Í skilagrein nefndarinnar eru í fyrsta lagi skilgreind þau meginmarkmið sem nefndin telur að stefna beri að í tengslum við sameiningu skólanna. Í öðru lagi eru tilgreind þau tækifæri og kostir sem nefndin telur að mikilvægt sé að nýta við sameininguna. Í þriðja lagi eru reifuð ýmis viðfangsefni og álitamál sem nefndin telur að sérstaklega þurfi að huga að verði ákvörðun tekin um sameiningu og í fjórða lagi setur nefndin fram niðurstöður sínar og þær forsendur og fyrirvara sem að þeim lúta. Nefndin telur að þau meginmarkmið sem stefna beri að með fyrirhugaðri sameiningu séu eftirfarandi:

1. Að stuðla að eflingu háskólamenntunar á Íslandi með sameiningu háskólastofnana sem verða með því sterkari heild sem byggir á sérstöðu og sérhæfingu þeirra beggja.

2. Að tryggja fjölbreyttara og sveigjanlegra námsframboð í grunn- og framhaldsnámi kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum og annarra uppeldisstétta.

3. Að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur í ólíkum deildum sameinaðs háskóla til að tengja nám sitt kennaranámi.

4. Að styrkja kennslu og rannsóknir í uppeldis- og menntunarfræðum og skapa forsendur fyrir samþættingu slíkra rannsókna við aðrar rannsóknir sem stundaðar eru í sameinuðum háskóla.

5. Að efla stoðþjónustu í sameinuðum háskóla og auka stuðning við nemendur og starfsfólk.

6. Að skapa forsendur fyrir því að sameinuð stofnun veiti menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræða sem og annarra tengdra greina á Íslandi sem sé sambærileg við það sem best gerist í okkar nágrannalöndum.

Eftir að framangreind fýsileikaskýrsla lá fyrir, frú forseti, lýstu háskólaráð beggja skólanna vilja sínum til að haldið yrði áfram með málið. Í ágúst sl. skipaði ég starfshóp til að vinna frekar að undirbúningi sameiningarinnar og skilaði sú nefnd eða sá starfshópur skýrslu í nóvembermánuði. Geymir sú skýrsla sameiningaráætlun sem ætlað er að vinna eftir fáist samþykki Alþingis fyrir sameiningunni með frumvarpi þessu. Í sameiningaráætluninni sem er að finna á fylgiskjali I með frumvarpinu er lögð rík áhersla á eftirfarandi forsendur sameiningar:

1. Að náið samstarf og jafnræði sé milli háskólanna við undirbúning sameiningar og mótun hugmynda um fyrirkomulag uppeldisvísinda í sameinuðum háskóla.

2. Að starfsmenn beggja skóla haldi sambærilegum starfskjörum.

3. Að nemendur sem eru í námi við Kennaraháskóla Íslands eigi rétt á að ljúka námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við sameiningu háskólanna.

Í samræmi við framangreint er við það miðað að skólarnir hefji sem fyrst sameiginlegan undirbúning að sameiningarferlinu og er frumvarp þetta lagt fram sem grundvallarforsenda fyrir því að hægt sé að ganga í þá vinnu. Auk frumvarpsins er fjallað sérstaklega um fyrirhugaða sameiningu í nýlega undirrituðum samningi ráðuneytisins og Háskóla Íslands sem er til næstu fimm ára.

Frumvarpið kveður á um sameiningu skólanna undir einu nafni, Háskóli Íslands. Það tryggir réttarstöðu nemenda og að auki réttarstöðu kennara og annarra starfsmanna Kennaraháskóla Íslands við sameininguna. Frumvarpið byggir sem sagt á því að sameiningin verði orðin að veruleika hinn 1. júlí 2008 og miðast gildistökudagur þess við þá dagsetningu. Frá sama tíma falla úr gildi lög um Kennaraháskóla Íslands.

Svo ég renni stuttlega yfir einstakar greinar frumvarpsins þá gerir 1. gr. ráð fyrir sameiningu skólanna sem ég hef þegar fjallað ítarlega um. Í 2. gr. frumvarpsins eiga nemendur sem við gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum, eru í námi við Kennaraháskóla Íslands, eins og ég gat um áðan, rétt á að ljúka því námi við sameinaðan háskóla, Háskóla Íslands, samkvæmt því námsskipulagi sem er í gildi nú miðað við gildandi reglur um námsframvindu. Með því er tryggt að nemendur Kennaraháskólans eigi rétt á því að ljúka núverandi námi sínu við skólann samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er og á sömu forsendum. Þá er áréttað að réttur þessi sé bundinn í gildandi reglur um námsframvindu. Einungis er við það miðað að þessi réttur nái til náms við hinn nýja háskóla sem verður til við sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands.

Samkvæmt 3. gr. tekur sameinaður háskóli, Háskóli Íslands, samanber 1. gr. við eignum og skuldbindingum Kennaraháskólans frá gildistökudegi frumvarps þessa hinn 1. júlí 2008, verði það að lögum. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir á fjárlögum fyrir árið 2008 fyrir Kennaraháskóla Íslands. Frá sama tíma flytjast störf ótímabundið ráðinna kennara sem uppfylla skilyrði 18. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, og annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna Kennaraháskóla Íslands yfir til hins sameinaða háskóla, Háskóla Íslands. Með kennurum er átt við ótímabundið ráðna prófessora, dósenta og lektora við Kennaraháskóla Íslands sem hlotið hafa hæfnisdóm við ráðningu hjá Kennaraháskólanum í samræmi við skilyrði háskólalaga um menntun og árangur í starfi. Störf annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna flytjast jafnframt yfir til hins sameinaða háskóla, hvort sem þeir sinna kennslustörfum sem aðjunktar eða sérfræðingar, eða tilheyra stjórnsýslu skólans eða sinna öðrum störfum á vegum hans.

Sérstaklega er áréttað í 3. gr. 3. mgr. að um flutning allra framangreindra starfa fari að öðru leyti eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Þannig er á því byggt að við flutninginn haldi þessir starfsmenn öllum áunnum réttindum sínum svo sem biðlaunarétti, lífeyrisrétti og veikindarétti.

Í lokamálsgrein 3. gr. er síðan við það miðað að við gildistöku laganna verði embætti rektors Kennaraháskóla Íslands lagt niður. Um niðurlagningu embættisins gilda framangreind lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 4. gr. sem er lokagrein frumvarpsins er, eins og ég hef farið yfir hér að framan, gert ráð fyrir því að frumvarpið taki gildi 1. júlí 2008, þ.e. þegar sameiningin hefur gengið í gegn samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum en þær eru nokkuð umfangsmiklar og tímasetningarnar eru alveg skýrar. Þetta frumvarp er liður í tímasettri áætlun um það hvernig við viljum ná sameiningu þessara háskóla á sem farsælastan hátt í samvinnu og sátt við háskólasamfélagið og þá sem hlut eiga að máli.

Virðulegi forseti. Með framangreindri fýsileikaskýrslu, samrunaáætlun, endurnýjun samnings menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands, þessu frumvarpi og síðast en ekki síst með fullri samstöðu forustu og háskólaráða beggja skólanna um grundvöll, leiðir og markmið sameiningar tel ég að grunnur sé lagður að farsælu ferli við þetta mikilvæga verkefni sem ætlað er fyrst og fremst að efla og styrkja til muna menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræða hér á landi og í alþjóðlegum samanburði. Þetta er mál sem að mínu mati hefur mikla þýðingu fyrir háskólasamfélagið og er brýnt og mikilvægt skref í þá átt að byggja upp Háskóla Íslands sem öflugan háskóla í fremstu röð.

Megintilgangur frumvarpsins hins vegar, frú forseti, er að efla kennaramenntun á Íslandi. Það er okkar leiðarljós við fyrirhugaða sameiningu háskólanna. Með sameiningu þessara tveggja háskóla opnast nýir möguleikar í þeim efnum með myndun sterkrar heildar er byggist á sérstöðu beggja skólanna. Markmiðið er að sameinuð stofnun bjóði kennaramenntun sem er sambærileg við það besta sem gerist erlendis.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.



[11:53]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að mikið er þetta frumvarp miklu betur unnið og betra að inntaki og allri efnisáferð en ýmis þau frumvörp sem hér hafa töluvert verið til umræðu af hálfu hæstv. menntamálaráðherra. Sú hugmynd sem hér er lögð fram er sjálfsagt góðra gjalda verð. Markmið hennar á að vera að bæta kennaramenntun á Íslandi og það er göfugt markmið. Ég dreg það ekki í efa að skrifaðar hafi verið skýrslur enda hef ég lesið á minnisblaði og skýrslu sem fylgir með í frumvarpinu fýsileika þess að gera þetta og það er jákvætt frá sjónarhóli skólanna tveggja að dómi stjórnenda skólanna.

Það sem mér finnst að eigi að vera meginmarkmið með sameiningu af þessu tagi, ef menn á annað borð fallast á hana, er að hún komi þeim verulega til góða sem eru að afla sér menntunar innan skólanna. Mér finnst svolítið skorta á það hjá hæstv. menntamálaráðherra að hún skýrði það nákvæmlega eða a.m.k. ítarlegar hver ávinningurinn er fyrir þá sem verða sér úti um kennaramenntun í skólanum. Mér þætti vænt um að hún mundi kannski í örstuttu máli, af því að hún er bæði skýrmælt og hagmælt, útskýra þetta fyrir mér.

Í annan stað langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi breyting kunni að tengjast möguleikanum á því að lengja kennaranámið upp í fimm ár sem ég er ákafur stuðningsmaður og baráttumaður fyrir. Og til fróðleiks mér sem gamals nemanda og kennara við Háskóla Íslands, ef af samrunanum og sameiningunni yrði, er þá fyrirhugað að flytja skólann niður í háskólakvosina sem stundum er svo kölluð?



[11:55]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki sagt annað en ég hafi orðið vör við örlitla kaldhæðni í upphafi máls hv. þingmanns en ég sé að það er ýmislegt á sig leggjandi til þess að fá þessa hlýju og birtu sem birtist í augum þessa ágæta manns og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. En hann leggur fram nokkrar spurningar sem mér finnst allrar athygli verðar og í rauninni brýnt að svara og ég mun hugsanlega koma betur að í seinni ræðu minni en það voru tvær spurningar sem ég greindi og skrifaði hjá mér.

Það er annars vegar hvað það er sem nemendur fá með sameiningunni. Ég tel að hún stuðli að því að fjölga tækifærum nemenda til að velja um námsframboð og námsleiðir. Það eru ólíkar deildir í þessum skólum og sérstaklega ætti þetta að auðvelda nemendum Háskóla Íslands aðgang að kennaramenntuninni og námsframboðinu sem er þá á sviði uppeldis- og menntunarfræða. Það er ekki síst það að við viljum í gegnum þessa sameiningu, það hefur oft verið talað um að við þurfum að efla sérgreinamenntunina eins og íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði og þarna sjáum við aukin tækifæri. Það gera fagaðilarnir sérstaklega, þeir benda á að þarna séu tækifæri til að nýta krafta og sérstöðu beggja háskólanna til að efla enn kennaramenntunina. Við sjáum fram á auknar rannsóknir og samlegðaráhrif varðandi rannsóknarsviðin. Ég hef þegar talað um námsframboðið og það má segja að fjölbreytnin verði meiri varðandi kennaraframboðið sem slíkt.

Síðan er það hitt stóra atriðið sem mér finnst ágætt að hv. þingmaður kom inn á. Það er lenging kennaranámsins. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við eigum að stefna að því að lengja kennaranámið. Ég tel hins vegar að sú sameining sem við erum að ræða hér muni stuðla að því að það verði auðveldara að leita úrræða og lausna til að finna þann farveg sem við beinum lengingu kennaramenntunarinnar í. (Forseti hringir.) Ég tel að þetta geti orðið mikill stuðningur við okkur, þá talsmenn sem erum reiðubúnir til að gera eitt og annað til að lengja kennaramenntunina, að þetta muni verða ákveðinn stuðningur við þann málflutning.



[11:58]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fjarri sé það mér að beita nokkurn tíma kaldhæðni í svörum mínum eða máli gagnvart hæstv. menntamálaráðherra eða nokkrum öðrum þingmönnum. En ég skal trúa hæstv. ráðherra fyrir því að ég er ekki mótfallinn þessu frumvarpi, mér finnst það allrar athygli vert og ég er sammála henni um það að helsti kostur þess frá sjónarhóli námsmanna er sá möguleiki að geta leitað víðar fanga og þess vegna aflað sér betri sérhæfingar innan þeirra námsleiða sem Háskóli Íslands býður upp á nú þegar. Þannig er hægt að sérhæfa námið miklu meira án þess endilega að leggja út í þann mikla kostnað sem hugsanlega hefði þurft að gera innan vébanda Kennaraháskólans.

Hins vegar vil ég líka trúa henni fyrir því að ég hef efasemdir um að það sé í þetta ferðalag leggjandi nema samhliða sé tekin ákvörðun um að lengja kennaranámið verulega. Ég tel að lengingin muni að sjálfsögðu leiða til þess að við fáum miklu sérhæfðari kennara og þá kallar lengingin á sameininguna. Mín framtíðarsýn á menntunarmál þjóðarinnar byggir á því að þetta tvennt gæti þá farið saman, lenging kennaranámsins sem kallar á miklu meiri möguleika á sérhæfingu kennaraefna sem aftur eykur gæði skólanna sem þeir munu starfa í í framtíðinni og þá er þetta verulega fýsilegur kostur. En án þess að það liggi alveg skýrt fyrir að það eigi að lengja kennaranámið þá er ég ekki viss um að í þetta ferðalag sé leggjandi án þess að ég sé að leggjast gegn því. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að lenging kennaranámsins, hærri laun kennara og betri gæði menntunar í landinu sé alger lykill að farsæld okkar Íslendinga í framtíðinni sem mun byggjast á mannauði og menntun og því sem hugsunin býr til, þekkingarframleiðslu.



[12:00]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er ávallt kjarnyrtur og kemur vel orði að hlutunum, mun betur en flestir aðrir í þingsalnum. Ég get heils hugar tekið undir sérstök lokaorð hv. þingmanns. Ég tel þau afar brýn og mikilvæg skilaboð frá Alþingi um að þetta er það sem við stefnum að að gera.

Ég get upplýst það að við erum þegar byrjuð að huga að því að lengja kennaramenntunina. En það þarf að gerast annars vegar í góðri samvinnu og sátt við kennarasamtökin, sem hafa lýst því yfir að er þeirra stefna, ég hef tekið undir það, en það þarf líka að ræða við sveitarfélögin. Sveitarfélögin verða að koma inn í þetta ferli m.a. út af hugsanlegum kostnaði sem kann að falla á sveitarfélögin við að lengja kennaranámið.

Við þurfum því að fara mjög gaumgæfilega yfir þetta. En það er ríkur vilji minn að stefna að því að lengja kennaranámið. Af hverju? Jú, við erum að gera það til að efla gæði menntunar, efla skólakerfið og þar erum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson sammála og erum við það nú ekki alltaf.



[12:01]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hér er mælt fyrir afar miklu og mikilvægu máli sem hefur haft töluverðan aðdraganda. Það er eðlilegt, frú forseti, í upphafi að óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með þann undirbúning sem átt hefur sér stað.

Eins og fram kom í andsvörum áðan er ólíku saman að jafna hvernig að þessu máli hefur verið staðið og máli því sem við erum nýbúin að ljúka umfjöllun um. Augljóst er að hæstv. ráðherra hefur keyrt hér mjög mikla sáttalínu sem er algerlega nauðsynleg við svo stórt verk sem þetta og ljóst að mjög margir hafa komið að málinu. Búið er að ræða málið töluvert mikið í báðum stofnunum og m.a. hafa háskólaráð beggja stofnana lagt blessun sína yfir það. Nefndir og starfshópar hafa starfað sem skipaðir hafa verið sameiginlegum fulltrúum frá stofnunum sem hafa lagt hönd á plóg. Ég sé ekki betur en hér liggi fyrir býsna vel unnið mál sem ég tel mjög jákvætt, bæði málið og vinnan.

Ég held að menntamálanefnd eigi samt fyrir höndum býsna mikla vinnu því málið er stórt sem slíkt. En ég trúi því að allir séu á svipuðum línum í þeim efnum að þetta sé æskileg sameining. Þetta muni styrkja kennaramenntunina, þetta muni styrkja hina nýju stofnun verulega við það að renna saman. En vissulega þarf að vanda sig við verkið. Það er ekki sama hvernig það er gert, eins og fram kemur í þeim gögnum sem við höfum fengið í greinargerðinni og sérstaklega í niðurstöðu þess starfshóps sem síðast starfaði og skilaði af sér í nóvembermánuði síðastliðnum. Þar er í rauninni farið yfir alla þætti málsins. Þar inni eru tímasetningar og aðgerðaráætlun. Verkefnaskipt er niður á hverjir bera ábyrgð á einstökum verkum. Þarna bíða því gífurlega mikil verk.

Frú forseti. Mér fannst skorta í ræðu hæstv. ráðherra það mikilvæga atriði sem er í raun forsenda málsins, þ.e. að algerlega klárt liggi fyrir að Háskóli Íslands fái annaðhvort með nýrri löggjöf um ríkisháskóla eða með breytingum á sérlögum um Háskóla Íslands heimild til þeirra skipulagsbreytinga sem þar hafa verið ræddar og í raun samþykktar á vettvangi háskólans, þó ekki sé búið að ganga endanlega frá því í hvaða mynd og formi það verður. En nauðsynlegt er að hæstv. ráðherra gefi um það alveg skýr skilaboð inn í umræðuna að hæstv. ráðherra sé á þeirri skoðun sem þar kemur fram og muni tryggja að það frumvarp komi fram sem nauðsynlegt er til að við getum klárað þetta mál, svo ekki fari á milli mála, frú forseti, að tryggt verði að fram komi frumvarp um að Háskóli Íslands, hin sameiginlega nýja stofnun, fái að setja á stofn marga skóla eins og þar er rætt um. Í stað deildaskiptingarinnar verði settir af stað margir skólar og að Kennaraháskólinn verði sem nánast meginkjarninn í einum þeirra. Þetta er ein af forsendum þess að málið allt nái fram að ganga. En eins og ég sagði áðan, frú forseti, saknaði ég þessa í ræðu hæstv. ráðherra og vona að úr því verði bætt á eftir.

Ég vil aðeins leyfa mér að fara yfir einstaka þætti vegna þess að okkar bíður gífurlega mikil vinna og afar mikilvægt að þeirri vönduðu vinnu sem fram hefur farið í málinu verði fram haldið á svipuðum nótum. Auðvitað eru einstaka þættir sem betur mættu fara, sýnist mér, og ýmislegt sem við þurfum að fara sérstaklega yfir.

Viðfangsefnið er afskaplega stórt og forsenda þess að þetta heppnist vel er að allir hlutaðeigandi leggist á eitt. Mér sýnist að í aðdragandanum hafi menn lagt sig verulega fram um að ná saman. Í báðum stofnununum hefur verið fjallað verulega um málið, að minnsta kosti í stjórnskipuðum þáttum þess, eins og háskólaráðunum. Það er reyndar spurning hvað þetta hefur farið langt niður til hinna einstöku starfsmanna og eins til nemenda skólanna, þó svo að fjallað hafi verið um þetta í stúdentaráði Háskóla Íslands og eins hjá nemendum í Kennaraháskólanum og alls staðar hafi þetta fengið jákvæða umfjöllun.

Einnig þarf að samræma framtíðarsýn skólanna beggja. Þeir hafa báðir nokkuð skýra framtíðarsýn og ég sé reyndar ekki að mikið misræmi sé á milli í þeim efnum en vissulega þarf að leggja sig fram um að láta það harmónera vel. Þá kemur að því sem ég nefndi áðan að Háskóli Íslands fái heimildir til að breyta stjórnskipulagi sínu á þann hátt að nokkrir skólar verði þar sem Kennaraháskólinn kæmi inn í þá vinnu sem allra, allra fyrst þannig að tryggt væri að sjónarmið beggja fengju að njóta sín.

Einnig þarf að vera ljóst með hvaða hætti sá styrkur sem skólarnir ráða yfir hvor í sínu lagi verði tryggður vegna þess að styrkurinn má ekki glatast, því vissulega er ákveðinn mismunur á þessum skólum. Þeir hafa þróast á mismunandi hátt, en það er afskaplega mikilvægt að styrkur þeirra verði tryggður í hinni sameiginlegu stofnun og ég held að þetta stjórnskipulag sem við töluðum um áðan, um einstaka skóla, sé liður í þeirri viðleitni.

Veikleikar hafa líka verið og þess vegna þarf að skilgreina þá líka og reyna að tryggja að á þeim verði tekið í sameiningunni svo tryggt sé að hinn nýi háskóli verði öflugri en skólarnir eru nú. Einnig er mikilvægt að í þessum samruna sé tryggt að allt starfsfólk sé með í ferlinu og reynt sé að tryggja að starfsandi verði sem allra bestur og stofnanamenningin sem hefur þróast mismunandi renni sem allra best í sameiginlegum farvegi.

Síðan er það alveg sérstakt mál að fara yfir fjármögnun háskólastigsins. Rétt er að nota tækifærið og fagna hinum nýja samningi sem gerður var nýlega við Háskóla Íslands og þar er komið að þeim þætti. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ætlunin sé að gera einnig nýjan samning við Kennaraháskóla Íslands. Ef ég man rétt held ég að hann hafi runnið út líka um síðustu áramót eins og við Háskóla Íslands. Það er spurning hvernig þau mál standa, hvort tekið verði á því eða það brúað yfir í sameininguna á einhvern hátt.

Í frumvarpinu kemur fram að tryggja skuli að allir starfsmenn haldi réttindum sínum. Það er afskaplega mikilvægt að ekki sé verið að hrófla neitt við því í svo viðkvæmu ferli og fagnaðarefni að nú sé tekið algerlega af skarið með það. En það hefur ekki alltaf verið þegar menn hafa verið í störfum sem þessum.

Það vakti þó athygli mína að fram kemur í greinargerðinni, eða líklega er það í niðurstöðu starfshópsins sem skilaði af sér í lok síðasta árs, að fara þurfi betur yfir biðlaunaréttindi starfsmanna við Kennaraháskóla Íslands. Það er af þeirri einföldu ástæðu að miðað við texta frumvarpsins rennur Kennaraháskólinn í raun inn í Háskóla Íslands eða verður hluti af honum. Fara þarf nákvæmlega yfir það og ég saknaði þess að ekki lægi fyrir hvernig þau mál standa. Þegar kostnaður er metinn við þetta skortir algerlega þann þátt inn í, því svo virðist sem þeirri vinnu sé ekki lokið og vekur undrun því einhver dæmi eru um svipaða hluti, kannski eru þau ekki nákvæmlega eins. Töluverður munur var á því þegar Tækniháskólinn rann saman við Háskólann í Reykjavík því það var sitt hvort rekstrarformið. Í þessu er hins vegar algerlega um sams konar rekstrarform að ræða. Það var líka örlítið annað ferli þegar ýmsir skólar sameinuðust Kennaraháskóla Íslands fyrir nokkrum árum. Þá var um mismunandi skólastig að ræða, það eru því kannski ekki alveg sambærilegir hlutir. En nauðsynlegt er að yfir þetta verði farið og tekinn af allur vafi í þeim efnum.

Kjaramál starfsmanna við háskóla eru auðvitað á margan hátt flókin en mér sýnist á því yfirliti sem fram kemur í vinnu starfshópsins að þar sé ekki óbrúanlegur munur. Ákveðinn mismunur á sér þar stað en það er ekki þannig að það ætti að valda miklum vandræðum í samræmingu.

Einnig er rétt að fram komi, eins og kom fram í andsvari hæstv. ráðherra, að auðvitað mun þessi samruni auka mjög á möguleika nemenda til að gera nám sitt fjölbreyttara. Það er eðlilegt að horfa til þess að ekki er annað að sjá en að þessi samruni falli gífurlega vel að þeim hugmyndum og þeirri stefnumörkun sem samþykkt hefur verið í Kennaraháskólanum um breytingu á kennaranámi. Það falli algerlega að þessu og auðveldi þá breytingu alla. Þar er að hluta til lenging kennaranámsins og sú breyting sem menn gera ráð fyrir að nemar séu ekki eins bundnir af fyrir fram ákveðnum kúrsum heldur hafi mun meiri möguleika á að gera breiddina meiri.

Þó er eðlilegt að velta fyrir sér ákveðnum þáttum í þessu samhengi sem tengist sérstaklega greinum sem ekki eru kenndar í Háskóla Íslands. Það er hluti af vanda, getum við kannski sagt, skólakerfis okkar, þ.e. í sambandi við list- og verkgreinar, því ekki eru sambærilegar greinar kenndar í Háskóla Íslands og í Kennaraháskólanum. Það er sérstakt athugunarefni sem við hljótum að skoða nánar í nefndarstarfinu, þ.e. hvernig það verði tryggt að ekki muni draga úr mikilvægi þeirra greina og kannski miklu frekar velta fyrir sér hvernig auka má vægi þeirra. Slík kennsla er ekki til staðar í Háskóla Íslands heldur í öðrum stofnunum og hefur Kennaraháskólinn haft þá sérstöðu að undirbúa kennara undir störf á leik- og grunnskólastigi þar sem slíkar greinar skipta gífurlega miklu máli.

Stór þáttur í þessu sem ég tek eftir að skilinn er eftir, og kannski eðlilega, af þeim starfshópi sem skilaði af sér í lok síðasta árs er gífurlega flókið mál en er hluti af því sem þarf sérstaklega að fara yfir og það eru húsnæðismálin. Það er lykilspurning fyrst hvort æskilegt sé að hin nýja háskólastofnun, Háskóli Íslands endurnýjaður, verði sem allra mest, eins og ég geri ráð fyrir að flestir vilji, á sama stað, þ.e. í Vatnsmýrinni. Þá þarf að velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að gera það í þessu ferli, þessu sameiningarferli eða hvort það eigi að bíða og hvernig húsnæðismál verða þá leyst.

Þetta er auðvitað, eins og ég sagði, afskaplega flókið mál og stórt. En ekki liggja fyrir, miðað við þær upplýsingar sem koma fram í greinargerð, áætlaður kostnaður við byggingar eða hugsanlegt söluverð þeirra eigna sem nú eru til staðar hjá Kennaraháskólanum og því dýrmæta byggingarsvæði sem þar fylgir. Þetta eru þættir sem þarf að fara verulega vel yfir og nauðsynlegt er að settur verði niður hópur og þetta skoðað í náinni samvinnu stjórnvalda og háskólaráða beggja skóla. En þetta er þáttur sem kallar á töluvert mikla vinnu.

Við megum ekki gleyma hlut stúdentanna í þessu. Það er eðlilegt að þeir komi nokkuð við sögu. Það er augljóst mál að samtök þeirra og stúdentarnir þurfa að taka virkan þátt í þessu ferli þannig að viðhorf þeirra njóti sín því það er á margan hátt annað en þeirra sem starfa í stofnununum. Þeir hafa nefnilega gleggra auga fyrir ýmsu öðru.

Eins og kemur fram í vinnu starfshópsins eru ýmsir þættir sem þarf að fara yfir hjá stúdentunum, í samtökum þeirra, því uppbygging þeirra er ekki algerlega eins. Því er nauðsynlegt að þau komi að verki og reyni sem allra mest að vinna þar samhliða umræddu ferli þannig að það liggi nú ekki eftir.

Frú forseti. Ég hef hér stiklað á stóru og hefði viljað koma miklu víðar við í þessu viðamikla máli en mér sýnist tími minn vera að renna út. Menntamálanefnd mun greinilega ekki búa við verkefnaskort á næstu vikum þar sem hvert stórmálið af öðru kemur þar inn. Þetta er sýnilega víðs fjarri því að vera það minnsta, jafnvel það stærsta, að vísu er ekki minna mál, fjölmiðlamálið, sem bíður umfjöllunar í nefndinni. En greinilegt er að þar verður að láta hendur standa fram úr ermum ef á að ná utan um öll þessi stóru mál.

Það sem ég ætla þá að víkja að er ansi stór þáttur, þ.e. fjármálin eða kostnaðurinn við þessa hluti. Þar virðast því miður margir endar vera lausir. Það vekur sérstaka athygli að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur ekki farið verulega ofan í saumana á málinu og byggir raunverulega umsögn sína á vinnu þess starfshóps sem ég hef nokkrum sinnum nefnt hér, sem fór yfir þessa þætti líka. En eðlilega lauk hópurinn þeirri vinnu ekki að fullu heldur nefnir eingöngu tölur í þáttum sem eru nokkuð ljósir. En fjárlagaskrifstofan virðist eingöngu taka þá tölu sem útreiknuð er af ljósum kostnaði og kemst að þeirri niðurstöðu, eins og segir, með leyfi forseta:

„Tímabundinn kostnaður við sameininguna má áætla að verði 16 millj. kr. á árinu 2007 og 14 millj. kr. á árinu 2008, eða um það bil 30 millj. kr. samtals sem rúmast innan fjárheimilda menntamálaráðuneytis. “

Ég held, frú forseti, að ef takast á vel í þessu máli hljóti að þurfa að leggja til hærri fjárhæðir en hér koma fram og að sérstaklega verði að áætla til þess en það verði ekki nýtt af fjárheimildum menntamálaráðuneytisins. Ég trúi því að hæstv. ráðherra sé sammála mér í þeim efnum að eitthvað meira þurfi að koma til en eingöngu þær upphæðir sem þarna eru nefndar. Enda sést það þegar farið er yfir kafla starfshópsins um kostnað að þeir þættir sem fjárlagaskrifstofan tekur til eru raunverulega bara hluti af því sem mun að sjálfsögðu falla til. Þetta er beinn eða óbeinn kostnaður við vinnuna í þessu sambandi þar sem hópurinn áætlar að séu 12 til 15 millj. kr. Það er úttekt á sameiningarferlinu sem þeir gera ráð fyrir að kosti 34 millj. kr. og síðan að ráðinn verði sérstakur verkefnastjóri til að sinna þessu sameiningarferli og það muni verða um 12 millj. kr. Þetta er samtals nokkurn veginn sú upphæð sem fjárlagaskrifstofan nefnir.

En það er ýmislegt fleira sem nefnt er í skýrslu starfshópsins en ég nefni bara nokkur atriði. Það er t.d. að sameinuðum skóla verði skipt upp í skóla. Ekkert liggur fyrir um kostnað við slíkar breytingar á stjórnsýslu sameinaðs háskóla en til þess þurfum við að áætla töluvert af peningum því það er forsendan eins og ég hef komið að nokkrum sinnum.

Það er stoðþjónustan. Fyrir liggur að hugsanlega má spara þar eitthvað en ekki er búið að kanna það nægilega til að átta sig á hvort sá sparnaður vinnur upp hugsanlegan aukakostnað sem kallað er á. Ég hef minnst áður á kjarasamninga og stofnanasamninga sem eru til staðar. Fara þarf betur yfir það og óljóst hversu mikill kostnaður er þar á ferðinni í sambandi við þá samræmingu sem nauðsynleg er. Ljóst er að biðlaunaréttur getur myndast hjá einhverjum starfsmönnum í Kennaraháskólanum. Ekki er heldur búið að fara yfir það og meta hvaða kostnaður er þar hugsanlega á ferðinni.

Ég nefndi áðan stóra málið, þ.e. húsnæðismálin. Þar á algerlega eftir að fara yfir og móta tillögur. Fyrst er að taka ákvörðun um hvort starfsemin verði áfram á Rauðarárholti eða hvort stefnt verði að því að þetta fari allt saman í Vatnsmýrina. En þar er töluverð vinna sem bíður og töluverður kostnaður væntanlega, hvort sem gert verður, því ella verður að gera áætlun um viðbótarhúsnæði.

En þetta tengist að stórum hluta því hvenær og hvernig hinum nýja háskóla verði skipt upp í skóla. Þar skipta tímasetningar miklu máli. Ég verð að segja, frú forseti, af því tími minn er algerlega að renna út, að mér sýnast allar tímasetningar, ég vil að það komi fram í lokin, sem starfshópurinn hefur sett upp og það ákvæði að þetta taki gildi 1. júlí 2008 eigi allt saman að geta gengið upp ef vinnubrögð verða jafnvönduð og þau hafa verið fram að þessu.

Ég vona að sjálfsögðu, frú forseti, að vinnan í menntamálanefnd verði með svipuðu sniði og verið hefur við vinnslu frumvarps þessa. Ég vænti þess að hv. formaður menntamálanefndar, sem á mál mitt hlýðir, geri ráð fyrir að við munum sinna þessu máli með sama krafti og gert hefur verið fram að þessu svo tryggja megi að farvegurinn verði slíkur að gildistakan verði 1. júlí árið 2008.



[12:22]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands geti að mörgu leyti verið góður kostur sé vel á málum haldið. Það er hægt að lesa út úr þeim greinargerðum sem með frumvarpinu fylgja að það er búið að vinna þetta mál býsna ítarlega í skólasamfélaginu. Rektor Kennaraháskóla Íslands hreyfði þessari hugmynd fyrir nokkrum missirum og rektor Háskóla Íslands einnig, Páll Skúlason, í útskriftarræðu fyrir fjórum til fimm árum, talaði þá fyrir því að Háskóli Íslands yrði einhvers konar regnhlíf yfir svo til alla, eða alla opinbera háskólastarfsemi í landinu. Umræður um sameiningu á háskólastiginu hafa lengi verið að gerjast og þróast. Vonandi ná þær að lokum þannig fram að ganga að um verði að ræða töluverða eflingu háskólastigsins og í þessu tilfelli til að styrkja menntun kennara verulega, endurskoða þá menntun og styrkja með ýmsum hætti. Auðvitað er engin ástæða til annars en að ætla að svo verði. Fram að þessu hefur, eins og kunnugt er, grunndeild Kennaraháskóla Íslands boðið upp á 90 eininga B.Ed.-nám til grunnskólakennara, íþróttafræðinga, leikskólakennara, tómstundafræðinga og þroskaþjálfa og jafnframt því í grunndeild 15 og 30 eininga kennsluréttindanám fyrir þá sem hafa lokið prófi í faggrein, sem sagt meistaraprófi í iðngrein og háskólaprófi í sérgrein. Það er mjög mikilvægur þáttur kennaramenntunarinnar, ekki síður en þessi formlegi sem ber að varðveita og halda vel utan um, verði af þessari sameiningu, að þeir sem hafi slíka menntun eigi greiða leið inn í kennaranám af því að við þekkjum hvernig inntökumálum hefur verið háttað í Háskóla Íslands.

Um nokkurra ára bil hefur verið rætt um að lengja og styrkja kennaranámið verulega og hér gefst til þess góður kostur. Við höfum kallað eftir því í fyrirspurnatíma nokkrum sinnum að umræðan um sameiningu skólanna fari fram. Í fyrravor var Tækniháskóli Íslands lagður niður og sameinaður Háskólanum í Reykjavík. Þá beittum við okkur, mörg í stjórnarandstöðunni, töluvert fyrir því að það yrði ekki gert nema að undangengnu ítarlegu mati á kostum og göllum sameininga á háskólastiginu almennt. Af hverju var t.d. ekki skoðað að sameina Tækniháskólann á þeim tíma Háskóla Íslands og þá núna Kennaraháskólanum? Sú umræða fór aldrei fram og það er ámælisvert. Það er ekki ásættanlegt að taka svona menntapólitísk skref í einhverjum hænufetum án samhengis og við kölluðum mjög eftir heilsteyptri umræðu. Þá var t.d. tekið nám í tæknifræðum sem er ekki kennt núna í neinum opinberum háskóla heldur er einungis aðgengilegt í einkareknum háskóla gegn skólagjöldum. Það var ekki skoðað að setja það inn í Háskóla Íslands svo að það væri þá aðgengilegt þar sem grunnnám gegn sömu skilmálum og annað grunnnám á háskólastigi í landinu.

Þessa umræðu ber að taka heildstætt og í samræmi við stöðu háskólanna allra og háskólamenntunar í landinu almennt. Eins og ég segi, að sjálfsögðu getur verið góður kostur að sameina þessa skóla eins og aðra en þá þurfum við líka að búa svo um hnúta að t.d. sú starfsemi Kennaraháskólans sem fer fram á Laugarvatni — þar er Íþróttakennaraskólinn gamli, ég heimsótti hann einmitt núna í nóvember. Það var mjög gaman að koma í þann skóla, þar er búið að byggja upp þróttmikinn og metnaðarfullan hluta af Kennaraháskóla Íslands — sé t.d. ekki til óhagræðis fyrir Kennaraháskóla Íslands. Starfsemin gæti verið öll staðsett á sama stað í Reykjavík. Það þarf að aka kennurum og ýmsu öðru starfsfólki á milli o.s.frv. og sumum kann að þykja það verra. Ég held hins vegar að það væri mikið óráð og óðagot að láta sér detta í hug að slá eitthvað af starfseminni á Laugarvatni. Henni er þar ágætlega fyrir komið og við eigum að dreifa háskólamenntun skynsamlega um landið. Þessa þætti þarf að ræða og fyrir því þarf að fást trygging að við þessu verði ekki hróflað, námið heldur eflt ef eitthvað er, þegar það kemur inn í svona miklu stærra samhengi og miklu stærri skóla eftir sameininguna við Háskóla Íslands. Þá er nándin ekki eins mikil og umhverfið allt annað.

Ætli háskólarnir í landinu séu ekki með einum eða öðrum hætti átta núna, að ég held, og sú þróun hefur verið mjög jákvæð. Háskólar hafa sprottið upp og náð fótfestu, landbúnaðarskólarnir orðið að háskólum o.s.frv., en svo kemur sjálfsagt sá tími þegar skólarnir fara aftur að sameinast að einhverjum hluta, bæði út af hagkvæmni og hagræði og eins því að það gefur augaleið að kannski er ekki heppilegt fyrir 300 þúsund manna þjóð að halda úti mjög mörgum háskólum. Það er hætt við að það komi þá að einhverju leyti niður á námi og starfsemi skólanna. Sú þróun og gróska sem hefur verið í háskólastarfseminni að því leyti að þeim hefur fjölgað verulega má heldur ekki koma niður á fjárframlögum til skólanna. Mér telst til að fjárframlög á nemanda á háskólastigi nú séu lægri en þau voru 1999, fyrir átta árum. Háskólunum hefur vissulega fjölgað töluvert mikið úti um allan hinn vestræna heim, og fólk sem áður stundaði ekki lengri formlega skólagöngu en grunnskóla og iðnskóla er nú farið að fara aftur í skólana. Það er að verða viðteknara að ungmenni og stúdentar stundi lengra nám þannig að við þurfum að gæta sérstaklega vel að því að við gefum ekkert eftir á háskólastiginu. Það er ekki nóg að sameina og steypa saman stofnunum til þess eins að hagræða og spara peninga.

Tilgangurinn með þessu frumvarpi á að vera fyrst og fremst menntapólitískur, að efla og bæta menntun í landinu, kennaramenntun hér, og að sjálfsögðu aðgengi annarra námsmanna og stúdenta við Háskóla Íslands að kennsluréttindafræðum og kennaramenntun hvers konar. Það á að vera hinn pólitíski tilgangur, ekki hagræði og hagkvæmni eingöngu þó svo að það sé að sjálfsögðu ágætt ef það næst um leið. Þegar við horfðum t.d. fram á að til stóð að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár með talsverðum tilfæringum stóð í rauninni ekkert annað eftir þegar búið var að fara ofan í málið en að það var verið að spara peninga. Það var verið að spara fjármagn við uppbyggingu framhaldsskólastigsins, mæta stærstu árgöngum Íslandssögunnar með því að skera niður nám og spara enda varð sú stytting sem betur fer að engu. Þeim málum er miklu betur fyrir komið með öðrum hætti, við höfum rætt það áður og ræðum það sjálfsagt síðar en það mál kom aldrei fram þó að það væri þríboðað á þessu kjörtímabili, ef talin eru með lok á ferli Tómasar Inga Olrichs sem menntamálaráðherra, en málið kom aldrei fram og kemur vonandi aldrei fram í þeirri mynd.

Sameining er ágætur kostur ef markmiðið er það sem ég gat um áðan, að efla sérstaklega háskólamenntun í landinu. Það getur gefist vel eins og við sáum eftir að Landbúnaðarháskóli Íslands varð til og nokkrar menntastofnanir sameinuðust, m.a. Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum í Ölfusi. Síðan hefur verið linnulaus umræða um að leggja skólastarfsemina í Hveragerði niður til þess að þurfa ekki að byggja upp í Hveragerði, af því að sá skóli er í handónýtu húsnæði, og til þess að ná fram meira hagræði og hagkvæmni og byggja allt á sama stað. Auðvitað er það sjónarmið út af fyrir sig en það væri vítavert pólitískt athæfi að leggja niður menntun þar sem hún hefur verið um áratuga skeið í hjarta garðyrkjunnar í Hveragerði þar sem námið hefur skotið rótum og þróast og, eins og ég segi, það er líka byggðapólitískt og menntapólitískt markmið að auka aðgengi að námi með því að háskólastarfsemi sé víðar um land en bara á höfuðborgarsvæðinu.

Það þarf að gæta að mörgu, sameining er ekki sjálfsagður hlutur. Henni þurfa að fylgja loforð og síðar efndir um að það bitni ekki á einhverjum hluta starfseminnar eins og t.d. fyrrnefnd starfsemi Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni. Það verður að koma fram pólitískt loforð um að henni verði haldið úti áfram. Það hefur verið vilji til þess hjá sumum innan Kennaraháskólans að leggja menntunina á Laugarvatni niður og færa hana til Reykjavíkur sem eru sjálfsögð rök hjá stjórnendum og þeim sem reka viðkomandi menntastofnun en það á að vera skýr pólitískur vilji fyrir því hjá menntamálayfirvöldum og okkur hér á Alþingi Íslendinga, ef við samþykkjum þessi lög, að ekki verði hróflað við náminu á Laugarvatni. Þess vegna segi ég að sameiningin er ekki sjálfsagt mál þó að sameining geti verið góður kostur að öllum skilyrðum uppfylltum, þeim skilyrðum að nám í Kennaraháskólanum sérstaklega og íþróttakennaranámið á Laugarvatni verði ekki flutt til eða við því hróflað með neinum hætti, að skólarnir verði efldir, að fjárframlög til skólanna komi til með að aukast.

Við vitum að starfsemi opinberu háskólanna hefur verið á einhvers konar neyðarsvæði að mörgu leyti þar sem t.d. úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi þeirra leiddi í ljós að skólarnir hafa búið við mjög kröpp kjör í mörg ár og, eins og ég segi, framlög á nemanda á háskólastiginu öllu eru lægri nú en þau voru árið 1999. Það er mjög athyglisvert og á sér að sjálfsögðu að hluta þá skýringu að nemendum hefur fjölgað en einnig þá að ríkisvaldið hefur ekki sett aukna peninga í þennan þátt menntakerfisins enda erum við mjög neðarlega á lista OECD yfir framlög til háskóla og framhaldsnámsmenntunar meðan við erum hvað efst á listanum, í öðru eða þriðja sæti, eitthvað svoleiðis, yfir þær þjóðir sem leggja fjármagn í grunnskólann og leikskólann. Það er mikill munur á fjárfestingum okkar í þeim skólastigum sem sveitarfélagið rekur annars vegar, þeim tveimur hinum fyrstu, og síðan þeim tveimur skólastigum sem ríkisvaldið sinnir, framhaldsskólanum og háskólanum, þar sem allt annað hefur verið upp á teningnum.

Þess vegna þarf að ræða þetta. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom inn á stjórnskipulagið áðan. Þó að hæstv. ráðherra kæmi lítið sem ekkert inn á það í sinni ræðu er þetta gert í því samhengi að stjórnskipulagi í Háskóla Íslands verði gjörbreytt og það verði í rauninni átta sjálfstæðar einingar. Þetta þarfnast miklu ítarlegri skýringa af hálfu hæstv. ráðherra og miklu vandaðri yfirferðar í þinginu. Sjálfsagt er einnig að varpa þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra hvort eitthvað hafi verið rætt eða skoðað með breytingar á rekstrarformi Háskóla Íslands frá því sem nú er. Nú er mikil pólitísk tíska hjá ríkisstjórninni og ríkisvaldinu að breyta rekstrarformum opinberra stofnana af ýmsu tagi, núna síðast Ríkisútvarpsins, Matíss o.s.frv.

Þeirri hugmynd hefur verið hreyft að Háskóla Íslands verði breytt í sjálfseignarstofnun til að efla enn þá frekar sjálfstæði skólans. Þessi hugmynd hefur komið innan úr háskólanum sjálfum. Við höfum svo sem aldrei rætt það neitt sérstaklega hér í þinginu af því að í þessari breytingu, þessari sameiningu á námsskipan Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, er sjálfsagt að ræða almennara um háskólaumhverfið og lagaumhverfi íslenskra háskóla aðeins inn í framtíðina. Eins og ég segi, sameining er aldrei sjálfsögð. Við deildum hart um það hér í fyrra þegar Tækniháskóli Íslands var lagður niður eða lagður saman við Háskólann í Reykjavík með því móti sem þar var gert, að tækninámið er ekki lengur til staðar í opinberum háskóla gegn þeim forsendum sem opinbert nám sætir sem eru innritunargjöld upp á 45 þúsund. Í staðinn stendur námið bara til boða í sjálfstætt starfandi, einkareknum — eða hvert er rétta orðið yfir það? — háskóla sem innheimtir talsvert hærri skólagjöld. Það er spurning um jafnræðið. Þess vegna og í þeirri umræðu kölluðum við mjög eftir því í Samfylkingunni að við ræddum fyrst almennt um hvaða kostir væru til sameiningar, hvort ekki væri álitlegra ef sameina ætti háskóla að sameina þá opinberu skólana, Tækniháskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, í sama skólann o.s.frv. Við fengum enga umræðu um það, það var búið að taka pólitíska ákvörðun um að Tækniháskóli Íslands rynni inn í Háskólann í Reykjavík og það er búið og gert.

Nú kemur þessi tillaga fram og málatilbúnaður um hana er að mörgu leyti ágætur. Þessi umræða hefur, eins og ég sagði, farið fram í skólunum, rektorar háskólanna beggja hafa hreyft þessum hugmyndum og talað um Háskóla Íslands sem regnhlíf yfir alla opinbera háskólastarfsemi í landinu. Mér finnst það að mörgu leyti ágæt hugmynd þegar fram í sækir og í því er fólgin heilmikil dínamík líka fyrir t.d. skóla eins og Háskólann á Hólum í Hjaltadal að vera sjálfstætt starfandi eining.

Eitt vildi ég nefna í leiðinni fyrst við erum að ræða um sameiningu háskóla og háskólamenntun í landinu. Það er fráleitt fyrirkomulag að tiltekinn hluti háskólamenntunar í landinu heyri undir landbúnaðarráðherra og restin undir menntamálaráðherra, sé einhver mínímenntamálaráðherra í líki landbúnaðarráðherra þar sem allt önnur fagleg þekking er á menntun og rekstri menntunar og það sé tekið úr samhengi við aðra menntun og aðrar menntastofnanir í landinu. Þess vegna skora ég á hæstv. menntamálaráðherra að taka það upp í ríkisstjórn að öll menntastarfsemi í landinu og þessir háskólar heyri undir menntamálaráðuneytið nú og um alla framtíð. Það er alveg eins og iðnaðarráðherra hefði með að gera iðnskólarekstur o.s.frv. Það var svona í gamla daga að fagskólarnir dreifðust á fagráðuneytin sem höfðu umsjón með þeim. Það er úrelt fyrirkomulag, og það er úrelt fyrirkomulag að landbúnaðarráðuneytið hafi með rekstur, núna tveggja, háskóla að gera og restin af menntakerfinu heyri undir menntamálaráðuneyti þar sem það á að sjálfsögðu að vera. Þetta er eins og að menntamálaráðherra færi að vasast með einhverja anga í landbúnaðarkerfinu, einfaldlega fáránlegt stjórnsýslufyrirkomulag.

Það er sjálfsagt að ræða það á sem breiðustum grunni hvaða opinberu háskóla hentugast er að reka saman. Hér er stigið ákveðið skref í þá átt og það er sjálfsagt að mæta því með opnum en gagnrýnum huga. Hér er staðið ágætlega að verki og við munum að sjálfsögðu fjalla ítarlega um málið í menntamálanefnd og sjá síðan til hvað um það verður. Það er a.m.k. ágætisumræðugrundvöllur fyrir skólapólitískum ákvörðunum stjórnvalda og skólapólitískri stefnumótun stjórnmálaflokkanna, núna í aðdraganda kosninga, að ræða mál sem þetta.



[12:38]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hæstv. menntamálaráðherra hefur flutt á Alþingi um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands er mjög merkilegt og full ástæða til að taka undir það sem sagt hefur verið í gamansömum tóni, að á móti því frumvarpi sem nýlega var rætt er þetta frumvarp ólíkt betra þótt ég viti ekki hvort meðaltalið kemst upp í 50% við það. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ég held að hér sé hreyft þörfu og góðu máli um sameiningu þessara tveggja háskóla.

Frumvarpið er ekki stórt, aðeins fjórar greinar, en með því fylgir mikið af gögnum, þar á meðal fýsileikaskýrsla sem nefnd um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands skilaði af sér. Við lestur þeirrar skýrslu sér maður að margt, ef ekki allt, mælir með því sem hér er sett fram. Ég vil þó hafa þann fyrirvara á að frumvarpið á eftir að fara til hv. menntamálanefndar. Ég tek undir margt af því sem þeir hv. þingmenn, flokksbræður mínir og jafnaðarmenn, hv. þm. Einar Már Sigurðarson og Björgvin G. Sigurðsson hafa farið yfir.

Með því sem hér um ræðir gefst möguleiki á að endurskipuleggja allt nám í uppeldis- og menntunarfræðum, þar með talið starfsnám kennara. Fram kemur að hægt sé að ná þeim markmiðum og farsælast sé að reka almennan deildaskiptan háskóla fremur en einn sérhæfðan kennaraháskóla. Nefndin álítur að sameining skólanna gæti, ef vel er að verki staðið, orðið til þess að koma í gang öflugri háskólastofnun sem hefði alla burði til að standast alþjóðlegan samanburð í kennslu og rannsóknum í þágu íslensks samfélags.

Eitt af því mikilvægasta sem hér kemur fram er að eftir að framangreind fýsileikaskýrsla lá fyrir, hefur háskólaráð beggja háskólanna lýst vilja sínum til þess að haldið verði áfram með málið á grundvelli þessara niðurstaðna. Ég fagna því sem hér er komið fram en ítreka fyrirvara mína varðandi það sem gæti komið í ljós við vinnslu menntamálanefndar.

Virðulegi forseti. Í fýsileikaskýrslunni er talað um að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur í ólíkum deildum sameinaðs háskóla til að tengja nám sitt og kennaranámið. Það er mjög mikilvægt. Auk þess á það að styrkja kennslu og rannsóknir í uppeldis- og menntunarfræðum og skapa forsendur fyrir samþættingu slíkra rannsókna við aðrar rannsóknir sem stundaðar eru í sameinuðum háskóla. Þarna geta aukist möguleikar fyrir kennaranema til að komast í rannsóknafé sem háskólinn hefur og á að hafa. Einnig er talað um að efla stoðþjónustu í sameinuðum háskóla og auka stuðning við nemendur og starfsfólk. Það er mikilvægt.

Jafnframt er fjallað um viðfangsefnin, að þessi ákvörðun verði tekin og síðan unnið eftir tímasettri aðgerðaráætlun og samningum. Hér kemur fram að gildistíminn verði 1. júlí 2008. Ég tel gott að gefa þessu tíma til að vinna málið vel. Ég legg áherslu á það sem hér kemur fram, að þetta sé unnið í nánu samráði við starfsfólk skólanna og síðast en ekki síst stúdenta. Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé gert strax frá samþykkt þessa frumvarps, ef af lögum verður á þessu þingi, að þeir aðilar sem komi að þessum málum, þar með taldir stúdentar, vinni að því strax frá byrjun. Ég tel að það sé líklegra til að skapa víðtæka og góða sátt um þetta mál.

Jafnframt er rætt um það, virðulegi forseti, í kaflanum um viðfangsefnin í fýsileikaskýrslunni að tryggja þurfi að stjórnskipulag sameinaðs háskóla og fjármögnun kennslu og rannsókna á sviði uppeldis-, menntunar- og kennarafræða styrki fræðasviðið frá því sem nú er. Þetta er mikilvægt. Það er enn fremur talað um að fjárveitingar til kennslu í uppeldis-, menntunar- og kennslufræðum skerðist ekki við sameiningu háskólanna. Þarna er fjallað um það og að jafnframt sé mikilvægt að fjárveitingar til rannsókna verði sambærilegar á öllum fræðasviðum hins nýja háskóla. Einnig er talað um það sem ég nefndi áðan, með starfsmennina, að þeir hafi sambærileg kjör í nýjum háskóla.

Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, er fjallað um húsnæðismál skólans. Mér finnst afar merkilegt sem þar er sagt, að huga verði að því hvort byggja eigi við starfsemina við háskólann þar sem starfssvið Kennaraháskólans kæmi inn og nota aðstöðu Kennaraháskólans á Rauðarárholti fyrir aðra starfsemi. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt að hafa í huga. Líkt og við allar sameiningar af þessu tagi þarf að fá fram fulla hagræðingu í starfseminni með því að hafa hana á sömu lóðinni. Sem stendur er töluvert langt á milli og full ástæða til að skoða þetta og ég held að niðurstaðan verði sú þegar fram í sækir að nauðsynlegt sé að þetta verði gert á þann hátt sem þarna er rætt um.

Í þessu sambandi vitna ég til þess þegar Borgarspítalinn og Landspítalinn voru sameinaðir, hvernig sú starfsemi hefur gengið, sem ég held að hafi að mestu leyti gengið vel. Forsendan fyrir þeirri sameiningu, til að ná fram fullri hagræðingu í meðferðarúrræðum var að nota hið opinbera fé, ekki endilega til þess að spara féð eða að draga úr fjárveitingum til viðkomandi stofnana. Ég er alls ekki að tala um að það eigi að gera og á ekki að vera leiðarljós í þessu, heldur að nýta opinbera fjármuni betur. Það er það sem ég tel að hafi verið gert með sameiningu Landspítala og Borgarspítala á sínum tíma, en sú fulla hagræðing mun ekki nást fram fyrr en við verðum búin að byggja nýjan Landspítala fyrir þjóðina á sama stað eins og áætlanir eru uppi um.

Ég tók líka eftir því áðan, virðulegi forseti, að hæstv. menntamálaráðherra fjallaði, ég held í andsvari, um að ef kemur til lengingar kennaranáms úr fjórum upp í fimm ár þurfi að huga að því gagnvart sveitarfélögunum í landinu. Ég legg áherslu á það vegna þess að við meiri menntun krefjast kennarar hærri launa og eiga að sjálfsögðu rétt á því, en við það verða meiri útgjöld hjá sveitarfélögunum. Ég tek undir þetta og þakka fyrir að þetta hafi verið sagt vegna þess að allt of oft er það þannig hjá hæstv. ráðherrum sem flytja mál á Alþingi, að ekki er gætt að þeim kostnaðarauka sem verður fyrir ýmsa aðila, í þessu tilfelli sveitarfélögin vegna reksturs grunnskóla og leikskóla. Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga og fræg eru þau orð sem sveitarstjórnarmenn hafa sagt um grunnskóla, að það sem ekki mátti nefna þegar grunnskólar voru undir hatti menntamálaráðuneytisins er orðið að lögum í dag og skylda sveitarfélaganna. Við vitum að allt grunnskólanám og leikskólanám hefur snarbatnað við færsluna en tekjur hafa ekki að mínu mati fylgt með til sveitarfélaga til að mæta þeim auknu gjöldum sem eru vegna reksturs grunnskóla. Það er m.a. ástæðan fyrir því að mörg lítil sveitarfélög úti um allt land berjast í bökkum fjárhagslega vegna reksturs menntakerfisins og prósentutölur sem sést hafa þar eru allsvakalegar hjá sumum. Þetta er náttúrlega einn af þeim þáttum sem koma inn í mismun og misræmi sem er í rekstri sveitarfélaga eftir því hvort þau eru stór og öflug eins og á höfuðborgarsvæðinu eða lítil sveitarfélög á landsbyggðinni.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni, tók hann sem dæmi. Ég tek undir það sem hann sagði og ég vona að það séu ekki vangaveltur um að taka þann ágæta skóla og flytja hann frá Laugarvatni. Hann á hvergi annars staðar heima en þar, er með mikla og góða starfsemi og á að efla hann þar, þó að fara eigi í það sameiningarferli sem hér er verið að tala um.

Ég vil jafnframt segja, virðulegi forseti, þegar talað er um háskólanám að ég hef áður sagt í þessum ágæta ræðustól að stofnun Háskólans á Akureyri og starfsemin þar sé sennilega eitt merkilegasta byggðaátak sem gert hefur verið á Íslandi og kannski það eina sem reglulegt bragð er að. Þegar maður kemur í heimsókn til Háskólans á Akureyri og sér þá miklu fjölgun nemenda sem þar hefur átt sér stað, bæði nemenda á Akureyri í skólanum, svo og þeirra sem eru í fjarnámi, þá er þetta mjög glæsileg starfsemi og mikil. Ég ætla í lokin, virðulegi forseti, ekki að fara að ræða um önnur málefni Háskólans á Akureyri sem oft hefur borið á góma, þ.e. fjárhagsvanda hans, ég ætla ekki að gera það að þessu sinni, ég ætla ekki að skemma þá jákvæðu og góðu umræðu sem er um þetta frumvarp með því að fara inn á það, kannski gefst tækifæri til þess síðar.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þeir hv. þingmenn okkar jafnaðarmanna, Björgvin G. Sigurðsson og Einar Már Sigurðarson, sem hafa rætt um þetta mál og sitja í menntamálanefnd fyrir hönd Samfylkingarinnar munu auðvitað fara vel yfir það. Þeir hafa farið í gegnum þessi tæknilegu mál, ég hef farið frekar inn í hinn praktíska þátt. Ég segi enn og aftur í lok ræðu minnar að ég held að sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sé hið besta mál og vil ljúka máli mínu með því að ítreka það sem ég sagði áðan að þegar og ef frumvarpið verður samþykkt og verður orðið að lögum sé mikilvægt að vinna þetta í fullri sátt og samlyndi við starfsmenn, stúdenta og aðra til að ná fram sem bestum árangri og sem mestri sátt um það mikilvæga mál sem hefur verið flutt á Alþingi.



[12:50]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp menntamálaráðherra um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Ég verð að segja að eftir átökin við hæstv. menntamálaráðherra í síðustu viku og undanfarið vegna ríkisútvarpsmála rennur manni kalt vatn milli skinns og hörunds að heyra hæstv. ráðherra tala um fjölbreytileika og sveigjanleika, eflingu og styrkingu. Sem betur fer geri ég mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra er ekki að fara að einkavæða Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands, ekki í þessari lotu a.m.k. þannig að ég ætla að reyna að halda ró minni í þeim efnum.

Það verður auðvitað að ræða þetta mál í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á háskólaumhverfinu á undanförnum árum. Ég tek það fram, og get tekið undir orð hv. þingmanna sem hér hafa talað, að þau gögn sem hér fylgja með, sú skýrsla frá starfshópnum sem hér er birt sem fskj. I með frumvarpinu, starfshópnum sem skilaði af sér í nóvember 2006, er afar athyglisverð og sýnir svo að ekki er um að villast að hér hafa fagmenn verið að verki við að reyna að sjá fyrir sér með hvaða hætti þessi sameining gæti orðið. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra virðist, eftir orðanna hljóðan í greinargerð með frumvarpinu, ætla í meginatriðum að fara að þessum niðurstöðum. Í öllu falli væri gott að fá staðfestingu hæstv. ráðherra í ræðu hennar við lok þessarar umræðu á því að hún hyggist fara eftir þeirri leiðsögn og þeirri forskrift sem kemur fram í skýrslu starfshópsins.

Það segir í greinargerðinni, sem er sem sagt yfirlýsing þá frá ráðuneytinu, að rík áhersla verði lögð á þrjár meginforsendur varðandi þessa sameiningu:

„1. Náið samstarf og jafnræði sé milli háskólanna við undirbúning sameiningar og mótun hugmynda um fyrirkomulag uppeldisvísinda í sameinuðum skóla.

2. Starfsmenn beggja skóla haldi sambærilegum starfskjörum.

3. Nemendur sem eru í námi við Kennaraháskóla Íslands eigi rétt á að ljúka námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við sameiningu háskólanna.“

Í samræmi við framangreint sé við það miðað að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands hefji sem fyrst sameiginlega undirbúning að sameiningarferlinu og frumvarpið er lagt fram sem grundvallarforsenda hinnar fyrirhuguðu sameiningar. En jafnframt kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu að unnið sé að gerð frumvarps um ríkisháskóla sem miðað er við að verði lagt fram á haustþingi 2007, því sé ætlað að leysa af hólmi núgildandi sérlög um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. En það mætti auðvitað segja sem svo að eðlilegt væri að drög að því frumvarpi lægju fyrir þannig að við sæjum heildstætt á hvern hátt þessi sameiningartillaga kemur út þegar horft er til heildarinnar.

Eða hvað ætlar hæstv. menntamálaráðherra að gera varðandi Háskólann á Akureyri, er honum ætlað að eiga einhvern þátt í þessari sameiningu? Nú vitum við það auðvitað sem hér erum að um það eru ólík sjónarmið hvort eigi að starfa einn stór opinber háskóli sem skiptist síðan upp í svokallaða „skóla“ eins og gerð hefur verið grein fyrir í þessari umræðu og í þeim gögnum sem fylgja með þessu frumvarpi eða hvort hæstv. ráðherra hyggst enn hafa Háskóla Akureyrar sem sjálfstæða stofnun. Ég held að það skipti máli að við fáum að heyra örlítið meira um framtíðarsýn hæstv. menntamálaráðherra hvað þetta varðar.

Sömuleiðis má spyrja hvort það beri að skilja orð ráðherra svo, þegar hún fjallar hér um kosti þessarar sameiningar og það hversu mjög hún muni styrkja báða skólana, að áfram verði haldið á þessari braut og þá er ég ekki bara með Háskólann á Akureyri í huga heldur jafnvel Listaháskóla Íslands.

Ef svo er, ef hæstv. ráðherra hefur fyrir hönd háskólasamfélagsins framtíðarsýn á einhverjum slíkum nótum, er óhjákvæmilegt að spyrja út í framtíðarsýn hæstv. menntamálaráðherra varðandi einkaháskólana. Hinir einkareknu háskólar eru nokkuð margir orðnir, það er Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og það er … (Gripið fram í.) Listaháskólinn er sjálfseignarstofnun, já, en svo er það Háskólinn á Hólum og síðan einhvers konar annexía frá háskólasamfélaginu, sportakademía á Reykjanesi.

Úr því að ég nefni hana er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari því við þessa umræðu með hvaða hætti hæstv. ráðherra heimfæri það sem hún hefur sagt um mikilvægi kennaramenntunarinnar upp á þá kennaramenntun sem verið er að efna til undir verndarvæng Háskólans í Reykjavík þar sem sportakademían á Reykjanesi hefur möguleika á að útskrifa kennara. Á þetta minntist hæstv. ráðherra ekki neitt í sínu máli þannig að það er ljóst að heildstætt þurfum við að sjá hvernig hluti af umhverfi þessa stóra sameinaða háskóla hún verður.

Það er ýmislegt sem má gagnrýna í framgöngu hæstv. menntamálaráðherra varðandi stuðning við hina opinberu háskóla og þó svo að núna sé kominn í höfn metnaðarfullur samningur við Háskóla Íslands sem gerir ráð fyrir því að Kennaraháskóli Íslands verði sameinaður honum árið 2008 er ekkert úr vegi að rifja það upp hvaða barning það hefur kostað Háskóla Íslands að fá þá fjármuni sem Háskóli Íslands hefur átt samningsbundna við menntamálaráðherra í gegnum fjárlög á undanförnum árum. Við þekkjum öll úr umræðu hér um fjárlög hvernig það hefur gengið að fá þessa ríkisstjórn til að uppfylla ákvæði kennslusamnings Háskóla Íslands. Fjöldinn allur af nemendum hefur farið hér á ári hverju í gegnum Háskóla Íslands án þess að með þeim komi opinber framlög úr fjárlögum. Sömuleiðis hafa háskólayfirvöld átt við stjórnvöld að glíma í þeim efnum að fá rannsóknarsamninginn sem gilti fram að síðustu áramótum efndan til fulls.

Núna er annað hljóð í strokknum eins og við vitum, við höfum kallað fjárlögin sem nýlega eru farin hér í gegn kosningafjárlög og við í stjórnarandstöðunni höfum beint athygli fólks að því að það er mun léttara hald ríkisstjórnarinnar um pyngjuna núna en í annan tíma á kjörtímabilinu. Ég leyfi mér að halda því fram að samningurinn við Háskóla Íslands sé hluti af undirbúningi ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar af því að nú þurfum við á því að halda, og það þurfa allir flokkar á því að halda, að sýna á spilin sín hvað varðar menntapólitík því að menntapólitíkin, skólapólitíkin verður eitt af meginstefjunum sem kveðin verða í kosningabaráttunni fram undan sem má segja kannski að sé að mörgu leyti hafin.

Ég fagna því eins og aðrir að það skuli kominn í höfn sá metnaðarfulli samningur, eins og ég sagði áðan, sem til staðar er og styð hann heils hugar og treysti því að við hann verði staðið. Það byggir auðvitað á því að velviljuð stjórnvöld verði við völd og ég veit ekki hvort það á að trúa því í einu og öllu að þau stjórnvöld sem nú ríkja muni verða svo miklu örlátari eða taki svo miklum sinnaskiptum á nýju kjörtímabili að það sé einhver von til þess að hegðan þeirra í garð Háskóla Íslands muni eitthvað breytast.

Í öllu falli varðar þetta mál það umhverfi sem háskólastofnanir á Íslandi búa almennt við. Samkeppnisumhverfi hafa margir kallað það, mér er það svo sem ekki tamt á tungu og ekki beint sátt við það að tala um samkeppnisumhverfi háskóla en engu að síður ítreka ég hér það sem ég hef áður sagt, það hallar á opinberu háskólana í „samkeppninni“ við einkaháskólana vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra hefur haft tilhneigingu til að draga taum einkaháskóla umfram hinna opinberu. Ef hér er að verða einhver bragarbót í þeim efnum fagna ég því en vil þá líka að það komi fram í máli hæstv. ráðherra með hvaða hætti slík bragarbót færi fram.

Varðandi fjármálin sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom ágætlega inn á í sínu máli er alveg ljóst að ákveðnir þættir hér eru nokkuð fyrirsjáanlegir, en aðrir ekki. Það væri fengur að því fyrir fulltrúa í menntamálanefnd Alþingis að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra áður en umræðan er úti á hvern hátt hún sjái málinu lent til enda. Þá er ég ekki bara að tala um þessa 31 milljón sem getið er um í 11. kafla skýrslu starfshópsins í töluliðum 11.1–11.5. Ég vil fá að heyra hæstv. ráðherra úttala sig eitthvað um aðra liði 11. kaflans, þ.e. punkta 11.6–11.11. Þeir punktar varða t.d. kostnað við stjórnsýslu sameinaðra háskóla og þar er líka talað um ákveðna þætti er varða kjör starfsmanna, ákveðna þætti er varða (Forseti hringir.) stoðkerfi og stofnanir.

(Forseti (RG): Forseti vill inna ræðumann eftir því hvort hún eigi mikið eftir af ræðu sinni. Þingmaðurinn á enn þá rúmlega átta mínútur eftir af ræðutímanum en fljótlega verður gert hér matarhlé þannig að forseti er að meta hvort matarhlé verði gert að lokinni ræðu þingmannsins eða hvort þingmaðurinn óskar að gera hlé á ræðu sinni.)

Já, hæstv. forseti, ég skal ljúka máli mínu á 2–3 mínútum.

Það er ekki miklu meira um þetta að segja á þessu stigi málsins enda erum við hér við 1. umr. Hér eru ákveðnir þættir varðandi fjárútlátin sem fyrirsjáanleg eru sem þarf að vera vilji fyrir hjá hæstv. ráðherra til að takast á við. Við þurfum að fá það staðfest við þessa umræðu að það eigi að fylgja þeirri forskrift sem kemur fram í skýrslu starfshópsins jafnvel þó svo að fyrirsjáanleg séu talsvert mikil útgjöld í þeim efnum.

Auðvitað erum við á löggjafarsamkundunni sameinuð í því að efla háskólamenntun á Íslandi. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því, ef marka má orð hennar í flutningsræðu, að sameining þessara háskólastofnana geti verið hluti af þeirri eflingu sem nauðsynleg er. Ég held og er sannfærð um að þessi stofnun getur orðið verulega sterk og ég treysti þá líka á það að hún verði hluti af sterkri heild háskólasamfélags sem getur í náinni framtíð, á næstu fáum árum, reist merki Íslendinga og íslenska menntakerfisins svo hátt að við getum í alvöru staðið undir nafni sem menningarþjóð á norðurhjara, menntaþjóð, þjóð sem ber menntakerfið fyrir brjósti og hefur það í hávegum. Mér finnst skipta verulegu máli að við stöndum sameinuð á bak við metnaðarfull ætlunarverk Háskóla Íslands sem auðvitað geta ekki orðið að veruleika nema héðan komi öflugur stuðningur: Þá vil ég meina að sá stuðningur þurfi að vera þvert á flokka, það sé nauðsynlegt. Í þeirri vinnu er ég tilbúin til að taka þátt.