133. löggjafarþing — 62. fundur
 30. janúar 2007.
fjarskipti, 1. umræða.
stjfrv., 436. mál (öryggi í fjarskiptum og aukin neytendavernd). — Þskj. 547.

[14:32]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

Megintilgangurinn með frumvarpinu er að auka öryggi í fjarskiptum, auka neytendavernd og að styrkja ákvæði laganna er fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs.

Frumvarpið er að hluta byggt á starfi starfshóps sem ég skipaði vorið 2005 til að fjalla um öryggi í fjarskiptum. Hópnum var falið að vinna tillögur um öryggi fjarskipta í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið, Auðlindir í allra þágu, og að hafa til hliðsjónar markmið fjarskiptaáætlunar. Markmið starfsins var að einfalda stjórnsýslu og efla öryggi við notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni, sem og þjónustu við borgarana.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á hugtakinu fjarskiptaþjónusta. Í núgildandi lögum er hugtakið skilgreint nokkuð rúmt en í framkvæmd hefur verið lögð nokkuð þrengri merking í hugtakið en orðalag þess gefur beinlínis tilefni til. Í framkvæmd hefur internetsþjónusta þannig ekki verið álitin falla undir hugtakið fjarskiptaþjónusta. Sú framkvæmd er hins vegar ekki í fullu samræmi við rammatilskipun Evrópusambandsins um fjarskipti en þar er gert ráð fyrir að tölvupóstsþjónusta og netaðgangur falli undir gildissvið tilskipunarinnar. Því eru lagðar til breytingar á skilgreiningu á hugtakinu fjarskiptaþjónusta þannig að tekinn er af allur vafi um að tölvupóstsþjónusta og netaðgangur teljist jafnframt til fjarskiptaþjónustu.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar sem eiga að stuðla að aukinni neytendavernd. Í fyrsta lagi er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun verði heimilað að setja reglur um vernd, virkni og gæði IP-fjarskiptaþjónustu en með slíkum reglum er stuðlað að bættri þjónustu í upplýsingasamfélaginu og neytendum m.a. gert auðveldara að meta gæði netþjónustunnar og gera verðsamanburð.

Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp ákvæði sem kveður á um sex mánaða hámarksbinditíma sem heimilt verður að semja um í samningi milli fjarskiptafyrirtækis og áskrifenda. Tilgangur þess er að liðka fyrir samkeppni og auka neytendavernd.

Í þriðja lagi er kveðið á um rétt áskrifenda talsímaþjónustu til að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða breytt til samræmis við túlkun Evrópudómstólsins í þeim rétti. Í því felst að kveðið er á um það með skýrum hætti að áskrifendur eigi rétt á að fá sundurliðaðan lista allra símtala svo þeir geti sannprófað hvort símreikningur þeirra sé í samræmi við raunverulega notkun.

Þá er í frumvarpinu lagt til að fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að miðla staðsetningarupplýsingum til félaga og stofnana sem annast neyðarþjónustu en í núgildandi lögum er þeim það einungis heimilt. Ljóst er að staðsetning á uppruna neyðarsímtala er afar brýn forsenda fyrir skilvirkni og viðbragðsfljótri neyðarþjónustu. Því hefur verið í fjarskiptalögum undanþáguheimild fyrir fjarskiptafyrirtæki til að miðla staðsetningarupplýsingum til félaga og stofnana sem annast neyðarþjónustu. Fjarskiptafyrirtæki sem veita hefðbundna símaþjónustu í fasta- og farsímanetum miðla þessum upplýsingum í dag til Neyðarlínunnar á grundvelli samkomulags við hana. Í ljósi reynslunnar af því hversu mikilvægar upplýsingarnar hafa reynst Neyðarlínunni þykir hins vegar rétt að gera þeim það skylt.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á ákvæði um óumbeðin fjarskipti. Þar er lagt til að ákvæði laganna er fjalla um óumbeðin fjarskipti taki ótvírætt til farsíma og einnig til smáskilaboða við beina markaðssetningu þegar markpóstur er sendur með smáskilaboðum. Þá er lögð til breyting þess efnis að áskrifandi eigi rétt á að vita hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingum til grundvallar.

Að undanförnu hefur borið á því að rafræn skilaboð, svo sem SMS, hafi verið notuð til að kynna vörur og þjónustu. Víða erlendis hefur þessi aðferð við markaðssetningu verið talsvert mikið notuð. Því má búast við að þessi aðferð verði í vaxandi mæli notuð til þess að koma á framfæri auglýsingum við neytendur hér á landi.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæði fjarskiptalaga er fjallar um öryggi og þagnarskyldu en rétt þykir að setja ítarlegar reglur um þær kröfur sem eðlilega verður að gera til öryggis fjarskipta.

Í fyrsta lagi er kveðið á um með ótvíræðum hætti að fjarskiptafyrirtæki skuli verja upplýsingar sem fara um fjarskiptanet þeirra gegn því að þær glatist, skemmist eða breytist fyrir slysni eða óviðkomandi fái aðgang að þeim.

Í öðru lagi er gerð sú krafa að fjarskiptafyrirtæki skjalfesti skipulag upplýsingaöryggis með því að setja sér öryggisstefnu, gera áhættumat og ákveða öryggisráðstafanir á grundvelli þess. Í þessu sambandi skal Póst- og fjarskiptastofnun setja reglur þar sem mælt er fyrir um þær kröfur sem gerðar eru til skipulags upplýsingaöryggis.

Í þriðja lagi er kveðið á um að fjarskiptafyrirtæki skuli gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja samfelldan og órofinn rekstur almennra fjarskiptaneta. Hér er um að ræða mjög mikilvægan þátt í fjarskiptaþjónustu sem lýtur í senn að gæðum þjónustunnar og öryggi fjarskipta. Í þessu sambandi er einnig gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um virkni almennra fjarskiptaneta.

Í fjórða lagi er kveðið á um bann við hlustun, upptöku, geymslu eða hlerun fjarskipta með öðrum hætti. Í gildandi ákvæði 47. gr. fjarskiptalaga er ekki að finna slíka bannreglu með nægilega skýrum hætti og því þykir rétt að taka af allan vafa þar að lútandi og lögfesta bannregluna með berum orðum.

Í fimmta lagi er lagt bann við notkun búnaðar sem komið er fyrir í endabúnaði notenda til að fá aðgang að upplýsingum, safna földum upplýsingum eða fylgjast með athöfnum hans nema í lögmætum tilgangi og með vitund hlutaðeigandi notanda.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.



[14:40]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er spurningin af hverju við þurfum að breyta lögum um fjarskipti frá árinu 2003 svo snemma, fjórum árum síðar, en það er auðvitað eðlilegt og tímanna tákn um þann mikla hraða sem er í fjarskiptum, fjarskiptaþjónustu og öðru slíku. Þetta eru lög sem við megum reikna með að þurfa að taka oft til endurskoðunar á hinu háa Alþingi, bæta við og fella úr eftir aðstæðum og það er í sjálfu sér mjög jákvætt að slíkt sé gert. Það er því ekki vegna þess að lögin sem hér er verið að leggja til að breyta hafi verið slæm, alls ekki. Það má ekki skilja orð mín þannig.

Eins og fram kom hjá hæstv. samgönguráðherra er megintilgangurinn með frumvarpinu að auka öryggi í fjarskiptum, auka neytendavernd og að styrkja ákvæði laganna sem fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífsins. Þetta eru fjögur atriði sem vonandi allir á hinu háa Alþingi geta tekið undir þó svo að stundum kastist í kekki og stundum verði uppi ágreiningur um hversu langt skuli ganga á persónuverndina í sambandi við fjarskipti. Kemur þá upp í hugann frumvarp eða lög sem rædd voru fyrir einu eða tveimur árum síðan um hversu langt lögregla geti gengið til að ná í IP-tölur og annað slíkt og um dómsuppkvaðningu og annað. Þetta eru auðvitað hlutir sem eru oft á dálítið gráu svæði og þarf að fjalla um. Þetta eru hlutir sem stundum skarast óþægilega. Stundum ganga menn e.t.v. svolítið inn á persónuverndina sem er þá gert til þess í rauninni að auka, ef svo má að orði komast, persónuvernd í leiðinni gegn alls konar glæpum og slíku. Þarna er því vandratað.

Virðulegi forseti. Þar sem ég sit í samgöngunefnd og frumvarpinu er vísað þangað munum við fjalla um það þar eins og við gerðum með fjarskiptalögin á sínum tíma. Þar verður farið yfir málið á sama hátt og við höfum gert í samgöngunefnd hingað til, kallað eftir umsögnum og öðru. Ég vona að í þessu frumvarpi séu ekkert annað en góðar breytingar miðað við þær tæknibreytingar sem hafa átt sér stað og allt að því tæknibylting.

Það er margt athyglisvert í frumvarpinu eins og t.d. það sem kemur fram í 7. gr. þar sem festa á í lög að hægt verði að fá upplýsingar um staðsetningu á uppruna neyðarsímtala eins og þarna er kveðið á um. Það er auðvitað mjög mikilvægt og verður til mikilla hagsbóta fyrir alla notendur og almenning. Við höfum dæmi um að það hafi skilað sér vel. Við höfum líka dæmi um það að staðsetningar á símum hafi jafnvel orðið til þess að upplýsa glæpi. Það hefur að sjálfsögðu verið gert eftir dómsuppkvaðningu um að fylgjast megi með því. Hérna er kveðið á um staðsetningu á uppruna neyðarsímtala og hvernig það er gert og bundið í lög en hingað til hefur það verið gert með samningi á milli aðila eins og hér hefur komið fram.

Einnig er fjallað töluvert mikið um það slæma við alla þá byltingu og nýjungar sem hafa orðið, sama hvort það er tölvupóstur, SMS- eða MMS-skilaboð, þ.e. þegar hlaðið er á notendur því sem stundum er kallað ruslpóstur og ruslskilaboð. Þótt vafalaust séu margir tilbúnir til að fá skilaboð í gemsana sína, fá SMS-skilaboð með auglýsingum og öðru slíku, eru aðrir sem ekki eru hrifnir af slíku og til þess er einfaldlega merkingin í símaskrá, sama hvort hún er í pappírsformi eða rafrænu formi, að menn virði merkingarnar og þau skilaboð sem þar koma fram um að fólk vilji ekki láta hlaða á sig alls konar skilaboðum, sama hvort þau eru í tölvupósti eða rafrænum skilaboðum.

Virðulegi forseti. Ég held að ekki þurfi að orðlengja þetta meira við 1. umr. Eins og fram hefur komið fer málið til samgöngunefndar og ég er viss um að það verður tekið fljótt og vel fyrir og rætt þar. Ég vona, án þess að ég sé búinn að kemba í gegnum allt málið, að þetta sé gott frumvarp sem verði, eins og megintilgangurinn segir til um, til að auka öryggi í fjarskiptum, auka neytendavernd og styrkja ákvæði laganna sem fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífsins.



[14:46]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að grípa boltann þar sem hv. þm. Kristján Möller sleppti honum. Ég vonast einnig til að þetta frumvarp færi málin til betri vegar. Vissulega má laga ýmislegt í fjarskiptunum, að ég tali ekki um mismunandi aðgang landsmanna að þeim en það umræðuefni verður að bíða betri tíma. Það er sorglegt dæmi sem bæði skólar, heimili og atvinnurekendur mega sætta sig við enn um stund.

Ég er ekki viss um að ég hafi tekið rétt eftir en held þó að hæstv. samgönguráðherra hafi sagt að Póst- og fjarskiptastofnun skyldi setja reglur varðandi ráðstafanir til að stuðla að bættri vernd, virkni og gæðum IP-fjarskiptaþjónustu sem fjallað er um í 6. gr. Hafi hæstv. ráðherra ekki verið að tala um þá grein þá ætla ég að láta í ljós þá skoðun mína að ástæða sé til að kveða skýrt á um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli setja reglur um slíkar ráðstafanir. Það sem upp er talið í 6. gr. og fellur undir þetta ákvæði eru mjög mikilvægt atriði. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að það sé það sem ráðherra talaði um.

Ég er almennt þeirrar skoðunar að orða eigi lög þannig að allur almenningur geti skilið þau án aðstoðar sérfræðinga. Ég tel ekki að svo sé í þessu tilfelli. Mig rennir í grun hvað átt er við í 9. gr. en þrátt fyrir að ég lesi skýringarnar með greininni get ég ekki verið viss um hvað átt er við, t.d. með hlítingu við tiltekna staðla. Ég reikna með að átt sé við að ljóst eigi að vera hversu nákvæmlega eigi að fara eftir eða nálgast einhverja staðla. En það er ekki skýrt í lagatextanum þannig að venjuleg manneskja sem er ekki sérstaklega inni í tölvumáli skilji það. Ég er alveg viss um að hægt væri að gera þetta betur. Þjónustan við almenning er stöðugt að aukast og stöðugt að verða mikilvægari. Jafnframt verður mikilvægara að almenningur skilji rétt sinn og geti leitað sér upplýsinga um hann í lagabókstaf og reglugerðum. Ég tel að skýra þurfi þetta betur í textanum eða lagagreininni sjálfri.

Mér finnst dálítið furðulegt orðalag í c-lið 2. málsgreinar, þar sem talað er um raunlæga vernd almennra fjarskiptaneta. Ég efast ekki um að tölvumenn skilji þetta og sérfræðingar en ég er ekki viss um hvað við er átt. Þetta verður rætt í samgöngunefnd. Ég vona að sérfræðingar ráðuneytisins komi með tillögur að breytingum, þ.e. á orðalagi sem við í nefndinni ráðum ekki við sjálf þar sem við erum ekki tölvusérfræðingar.

Við munum örugglega geta sammælst um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli setja ráðstafanir til að stuðla að bættri vernd virkni og gæðum IP-fjarskiptaþjóustu en í 6. gr. er aðeins talað um heimild til að setja reglur.



[14:51]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir undirtektir við frumvarpið. Ég vildi koma örlítið inn á það sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir velti fyrir sér varðandi 6. gr. frumvarpsins um gæði þjónustu. Breytingin sem þar er gert ráð fyrir á 41. gr. gildandi laga er sú að fjarskiptafyrirtæki skuli viðhafa ráðstafanir til að stuðla að bættri vernd, virkni og gæðum IP-fjarskiptaþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um slíkar ráðstafanir þar um o.s.frv. Ég vísa til þess sem kemur fram í lagatextanum. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni þannig að það er mikilvægt að stofnunin setji skýrar og ákveðnar reglur um þetta og þess vegna er hert á þessu ákvæði í gildandi lögum.

Á þessum harðsnúna samkeppnismarkaði, sem fjarskiptamarkaðurinn er orðinn, þarf að halda fyrirtækjunum við efnið. Um þau þurfa að gilda skýr ákvæði í lögum. Þess vegna er skerpt á því sem fyrir er í lögunum.

Varðandi nýyrðin í textanum sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir vakti athygli á, eins og segir í 47. gr. um öryggi, þagnarskyldu og fleira, þar sem talað er um hlítingu við tiltekna staðla. Þarna er hið yndislega orðafar í íslensku sem reynt er að fella að tækniorðum. Í þessu tilviki snýst það um að viðkomandi skuli hlíta tilteknum stöðlum. Ég held að það væri fróðlegt fyrir samgöngunefnd að fá gagnorða og góða íslenskufræðinga til að líta á þetta. Tækniorðasafnið er orðið býsna gott hjá okkur en allt sem snýr að regluverkinu þarf hins vegar að skiljast. Þess vegna er mikilvægt að nefndin fari yfir þetta og fái góðar skýringar á þessu. En fyrir mér er þetta skiljanlegt enda eru fjarskiptalögin búin að fara nokkrar hringferðir í gegnum þingið. Ég hef þurft að leggja töluvert mikið á mig til að kynna mér allan þann texta og ég held að hann sé allur að batna.

Virðulegi forseti. Ég held að fleira hafi ekki komið fram í ræðum hv. þingmanna. Ég þakka fyrir undirtektir þeirra og vænti þess að samgöngunefnd fari vandlega yfir málið. Það er mikilvægt fyrir okkur, í ljósi umræðunnar upp á síðkastið, um netið og aðgang að því og það sem flæðir um netið, að tryggja öryggið á þeim vettvangi.



[14:55]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt vegna þess að tölvu- og tæknimálið er flókið þá tel ég að færa eigi það yfir á skiljanlega íslensku öllum almenningi, í því sem heitir skýringartexti með lögunum. Það tel ég ekki að hafi verið gert nægilega vel í því tilfelli sem ég tilgreindi áðan. En mér heyrðist hæstv. ráðherra ekki endilega vera á því að kveða þyrfti á um það í 6. gr. að Póst- og fjarskiptastofnun skyldi setja reglur um ráðstafanir sem fjarskiptafyrirtækin eiga að viðhafa heldur verði það sett í þeirra hendur hvernig reglurnar skuli vera, a.m.k. í fyrstu atrennu.

Hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri harðsnúinn markaður. Einmitt þess vegna tel ég að Póst- og fjarskiptastofnun eigi að setja reglur. Ég tel ekki nóg að hafa í lögunum heimildarákvæði til að vernda neytandann. Á þessum harðsnúna markaði tíðkast mikil gylliboð sem neytandanum er ekki auðvelt að sjá í gegnum. Mér finnst að Póst- og fjarskiptastofnun eigi að sjá til þess að fyrirtækin hlíti reglum sem geri hinum almenna neytanda, sem hefur ekki sérstaka innsýn í tæknimálið, auðvelt að átta sig á hvað er verið að selja viðkomandi.



[14:57]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í ræðu minni þá fer ekki á milli mála að samkvæmt frumvarpinu segir í 6. gr.:

„Fjarskiptafyrirtæki skulu viðhafa ráðstafanir til að stuðla að bættri vernd, virkni og gæðum IP-fjarskiptaþjónustu.“

Fjarskiptafyrirtækjum er enginn afsláttur gefinn af því í lagatextanum. Síðan er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að setja reglur um slíkar ráðstafanir þar sem nánar yrði mælt fyrir um það sem greint er frá í stafliðum a–g, sem ég ætla ekki að lesa upp. En áherslan er alveg skýr hvað varðar breytingarnar sem við gerum núna, að fjarskiptafyrirtækin skulu gera ráðstafanir. Það er aðalatriði málsins. Það er síðan sett í vald Póst- og fjarskiptastofnunar sem hefur eftirlit með þessum markaði hvernig og hvort skerpa skuli þær reglur sem hér um ræðir. En af minni hálfu fer ekki á milli mála að við ætlumst til þess að fjarskiptafyrirtækin standi sig.



[14:59]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Málið er einmitt að það er sett í hendur fjarskiptafyrirtækjanna í fyrstu atrennu að meta það hvað sé nægileg vernd, virkni og gæði IP-þjónustunnar fyrir viðskiptavininn. Mín skoðun er hins vegar að Póst- og fjarskiptastofnun eigi strax að gera mat á því hversu góð verndin, virknin og gæðin eigi að vera, einmitt vegna þess hversu flókið málið er. Það verður því ekki jafnauðvelt að gera leiðréttingar þegar fram í sækir, hvorki fyrir fyrirtæki né einstaklinga.

Ég hef í höndum dæmi um fjarskiptafyrirtæki sem hefur kvartað til Samkeppnisstofnunar vegna dráttar á afgreiðslu kærumála. Annað kærumálið orðið yfir þúsund daga gamalt. Það segir sig sjálft að ef ekki eru í lögum góð og skýr fyrirmæli til að vernda viðskiptavininn, einstaklinginn, þá er þeim mun meiri hætta á að einhvers staðar sé pottur brotinn. Hjá Póst- og fjarskiptastofnun starfa sérfræðingar sem eiga að vinna fyrir almenning. Þeir eiga að starfa fyrir almenning frá fyrstu hendi, ekki einungis vera í einhverjum eftirlitsmálum heldur setja reglurnar frá upphafi.



[15:01]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er þarft og nauðsynlegt auðvitað að skýrar, ákveðnar og afmarkaðar reglur séu bæði fyrir símafyrirtækin til að starfa eftir og ekki síður fyrir viðskiptavinina svo að þeir geti verið í góðri trú um að sú þjónusta sem keypt er sé veitt og þar sé öryggi sem viðheldur persónuvernd og því sem eðlilegt er. Hér segir: „Bann við að komið sé fyrir hugbúnaði í endabúnaði notanda án samþykkis þeirra. Notendur almennrar tal- og farsímaþjónustu sem liðar í markaðssetningu virði bannmerkt símanúmer í símaskrám.“ Og fleiri atriði eru þarna tekin.

Ég get líka tekið undir að það er nauðsynlegt að íslensk tunga sé aðgengileg við lagasetninguna þannig að hinn almenni notandi sem hyggst fletta upp í lagatextanum skilji réttarstöðu sína.

Allt er þetta mál í góðum farvegi og verður væntanlega unnið vel og í góðri samvinnu við hv. samgöngunefnd. Ég efa ekki að við munum kalla til okkar fulltrúa hjá Póst- og fjarskiptastofnun og vinna þá enn betur að þessu máli ef nefndarmönnum sýnist sem þarna þurfi að hnykkja á, einkum þar sem lýtur að öryggisþáttum viðskiptavina símafyrirtækjanna.