133. löggjafarþing — 64. fundur
 1. feb. 2007.
umræður utan dagskrár.

leiga aflaheimilda.

[10:56]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hlutskipti hæstv. sjávarútvegsráðherra er hálfömurlegt. Hann kemur úr byggðarlagi sem er hart leikið af kvótakerfinu í sjávarútvegi sem skilar nú helmingi minni afla en fyrir daga þess. Það hefur verið við lýði í rúm 20 ár. Í gegnum árin hefur hann vissulega gagnrýnt kerfið en rödd hans hefur verið hjáróma nema rétt fyrir kosningar, þá hefur hann byrst sig og lofað því að kerfinu yrði breytt. En eftir kosningar hefur hann jafnoft svikið það loforð og jafnvel breytt kerfinu til hins verra.

Einn daginn breyttist gagnrýnandi vonlauss fiskveiðistjórnarkerfis í sjávarútvegsráðherra lands og sjávar og þá urðu skilaboðin einfaldlega þau að kvótakerfið væri gott, um það væri sátt og nákvæmlega engu þyrfti að breyta.

Kvótakerfið er mesta óréttlætismál Íslandssögunnar. Það hefur valdið þjóðinni stórtjóni, byggðaröskun og gríðarlegri sóun verðmæta. Einn angi þessa ömurlega kerfis er afarkjör sem kvótalausir útgerðarmenn búa við. Þeir þurfa að leigja til sín réttinn til þess að fá að nýta sameign þjóðarinnar en fyrir hann þarf að greiða um 70% af verðmæti aflans nú um stundir. Verðið fyrir að leigja 1 kíló af þorski er um 180 kr. fyrir hvert kíló en meðalverð á mörkuðum er nú 270 kr./kg. Þegar búið er að greiða markaðskostnað sitja eftir um 70 kr./kg.

Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Telur hann að slíkt dæmi gangi upp?

Það eru duglegir Íslendingar sem þurfa að lifa við þetta óréttlæti sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur skammtað þeim. Í vikunni sem leið fékk ég bréf frá eiginkonu kvótalauss útgerðarmanns á landsbyggðinni og tel ég mjög upplýsandi að grípa niður bréfið, með leyfi forseta:

„Eins og staðan er í dag er ekki hægt að komast af þurfi maður að leigja til sín allar heimildir. Það er bara spurning um hversu miklar eignir maður á til að veðsetja — áður en maður fer lóðrétt á hausinn. Því það gerum við öll að lokum. Kvótaleigan er svo há að rétt fiskast fyrir mannakaupi því það er jú hlutfall af aflanum. Aldrei er afgangur til kvótakaupa því olíuverð er einnig hátt. Gott má kallast að geta staðið á sléttu. Bátasjómenn eru deyjandi stétt, hvort það er með vilja gert eða ekki. (Best að þið í borginni farið að byggja undir okkur „hin kvótalausu“ blokkir því það er miklu betra að vera á kerfinu í Reykjavík en kvótalaus útgerðarmaður.)“

Svo virðist sem aðstæður þessa fólks komi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki ekki hót við og er það lýsandi dæmi um veruleikafirringu þeirra flokka. Mér finnst rétt að spyrja hæstv. ráðherra og, jú, einnig framsóknarmenn ef þeir mæta til umræðunnar, hvort þeim þyki þetta kerfi réttlætanlegt, hvort hægt sé að verja það kerfi sem þessu fólki er boðið upp á. Svar okkar í Frjálslynda flokknum er einfaldlega: Nei, það er ekki hægt að bjóða upp á þetta.

Fram kom á Alþingi í fyrrahaust að úr vösum þessara leiguliða renna gríðarlega háar upphæðir. Á síðasta fiskveiðiári var slegið á að um 10.000 milljónir rynnu úr vösum þessa fólks. Þær greiðslur renna út úr greininni. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvert telur ráðherra að þessar tekjur af sameign þjóðarinnar renni? Hlýtur há leiga ekki að skerða hagsmuni útgerðarinnar og þess fólks sem vinnur við greinina? Svar okkar í Frjálslynda flokknum er: Jú, auðvitað gerir það það. Kerfið skerðir bæði hagsmuni útgerðarinnar til lengri tíma litið og ekki síður fólksins sem vinnur í greininni.

Kerfið þarf að breytast og það mun breytast þar sem þessi vitleysa getur ekki gengið lengur. Skuldir útgerðarinnar hafa á síðustu tíu árum margfaldast, þær hafa þrefaldast og ekki hafa tekjur útgerðarinnar aukist. Skuldirnar hafa runnið út úr greininni, það er ekki nokkur hagræðing að umræddu kerfi og ég spyr: Ætlar hæstv. sjávarútvegsráðherra að halda áfram að bjóða landsbyggðinni upp á slíkt kerfi? Það er ekki sæmandi að halda þessu áfram fyrir okkur á Alþingi, að bjóða vinnandi (Forseti hringir.) fólki upp á þessi afarkjör.



[11:01]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór nokkrum orðum um þær aðgangstakmarkanir sem eru á fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Í fiskveiðistjórnarkerfum þar sem það liggur fyrir að við erum að taka úr takmarkaðri auðlind þurfa að ríkja ákveðnar aðgangstakmarkanir. Hv. þingmaður hefur t.d. lagt til í þeim málatilbúnaði sem ég hef lesið frá hans eigin flokki að til staðar verði aðgangstakmarkanir í formi þess að menn fái einstaklingsbundin veiðileyfi. Hann leggur líka til að í stað þess að hafa einstaklingsbundið aflamarkskerfi (Gripið fram í.) verði sá réttur færður yfir í einstaklingsbundið sóknarmarkskerfi. Hv. þingmaður talar líka fyrir því þegar hann er á landsfundum síns flokks og þegar hann er að, eða a.m.k. ætti að vera að því, kynna stefnu síns flokks væri hann að tala fyrir einstaklingsbundnum rétti sem byggðist á aðgangstakmörkunum.

Ég tel mjög mikilvægt að draga þetta fram vegna þess að þetta snertir þann kjarna máls sem hv. þingmaður talaði hér um. Það er alveg rétt að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er einstaklingsbundið aflamarkskerfi og það byggir á aðgangstakmörkunum. Þær aðgangstakmarkanir eru fyrst og fremst bundnar við kvótann.

Það er líka alveg ljóst mál að ef við værum ekki með einhverjar heimildir til framsals á aflaheimildum, hvort sem er aflamarki eða aflahlutdeildum, mundi það þrengja möguleika manna til hagræðingar til þess að draga úr tilkostnaði. Það mundi líka gera það að verkum að útgerðin yrði öll ósveigjanlegri og þetta kerfi sömuleiðis og er held ég þó flestum ljóst að það kerfi sem við búum við í dag er ekkert endilega mjög sveigjanlegt. Þetta er ekkert endilega eingöngu niðurstaða okkar Íslendinga, þetta er niðurstaða þeirra þjóða sem hafa byggt upp fiskveiðistjórnarkerfi með það fyrir augum að þar sé alvörufiskveiðistjórn, þar sé alvörusjávarútvegur. Færeyjar eru t.d. gott dæmi um það að menn hafa framsal með einhverjum hætti.

Hv. þingmaður spurði mig um réttlæti þessa framsalskerfis. Það hefur oft komið til tals að þrengja framsalið. Ef við skoðum þessi mál í einhverju samhengi blasir það við að þróunin hefur verið sú að framsalið hefur verið að þrengjast. Það hefur m.a. gerst og byggst á niðurstöðu í samningum sjómanna og útvegsmanna að framsalið hefur þrengst og það eru ýmsar takmarkanir á því, svo sem sú regla að menn verði að veiða 50% af þeim aflaheimildum sem þeir hafa. Það er líka kveðið á um það að menn geti ekki framselt yfir á báta meira en það sem talið er að þeir geti veitt og þar fram eftir götunum.

Við höfum síðan þróað og prófað ýmsar leiðir. Á sínum tíma tóku menn upp það sem kallað var kvótaþing. Það var hins vegar afar óvinsælt og menn töldu að það mundi ekki leiða til meira réttlætis, af því að hv. þingmaður spurði um það, og þá var ákveðið að falla frá því.

Varðandi aðra spurninguna, hv. þingmaður spyr mig hvert ég telji að tekjur af kvótaleigu á milli óskyldra aðila renni og hvort há leiga hljóti ekki að skerða hagsmuni útgerðar og sjómanna. Það er auðvitað ljóst mál varðandi þetta að tekjurnar af leiguframsalinu hljóta að renna til þeirra sem eru að leigja frá sér, það þarf í sjálfu sér ekkert að hafa mjög mörg orð um það.

Það sem ég held að þessi spurning hljóti þá að snúast um er hvort með óeðlilegum hætti sé verið að láta sjómenn taka þátt í kvótaleigu. Við vitum að það er bannað, bæði með lögum og samkvæmt kjarasamningum. Ég hef hins vegar haft ástæðu til að ætla að þarna vantaði talsvert mikið á eftirfylgnina, það væri ekki nægjanlega vel fylgst með því hvort það væri nægilega tryggt að sjómenn tækju ekki þátt í kvótaleigunni. Ég setti þess vegna niður nefnd í desember til að fara yfir þessi mál, skoða það sérstaklega hvort ástæða væri til þess að herða á þeim. Mér sýnist full ástæða til þess að herða á þessu, auka eftirlitið til að koma í veg fyrir að þessi háa kvótaleiga lendi með einhverjum hætti á herðum sjómanna. Vonandi líta tillögur í því sambandi dagsins ljós innan tíðar.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður mig hvort ég telji að hið háa leiguverð sem hann fór yfir í ræðu sinni áðan gangi upp. Ég skal segja bara frá mínum sjónarhóli, mér finnst þetta leiguverð vera út úr öllu korti, mér finnst það ekki vera í samhengi við aðstæður á markaði, mér finnst það ekki vera í samhengi við það að sjómönnum er bannað að taka þátt í kvótaleigunni og mér finnst þess vegna mjög undarleg verðlagning sem hefur átt sér stað á kvótaleigunni. Það er hins vegar alveg augljóst mál og það sjáum við að kvótaleigan ræðst m.a. af gengisþróuninni og stöðu útgerðanna. Þetta eru frjáls viðskipti þeirra sem kaupa og þeirra sem selja, þeirra sem leigja frá sér og þeirra sem leigja til sín. Ef það er tryggt að ekki sé með neinum óréttmætum hætti staðið að slíkum samningum á kostnaðurinn auðvitað ekki að lenda á herðum sjómanna eða starfsfólks í sjávarútvegi.

Ég ítreka að ég held að þessi umræða sé gagnleg. (Forseti hringir.) Það er hins vegar mjög mikilvægt að menn skoði hana í réttu samhengi.



[11:06]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er rætt um leigu aflaheimilda. Hæstv. ráðherra talaði um að umræðan væri gagnleg en það kom ekkert fram í ræðu hans hvað hann ætlast fyrir í málunum. Það liggja fyrir sameiginlegar ályktanir frá LÍÚ og samtökum sjómanna um að það eigi að draga úr möguleikum manna til að flytja aflaheimildir á milli skipa með þessum hætti. Hæstv. ráðherra virðist ekkert vera að gera í því máli.

Hvers vegna ekki?

Ég tel að það sé vegna þess að hæstv. ráðherra er orðinn algjörlega haldinn af þessu kvótakerfi, finnst það svo fínt að það megi engu breyta. Það er jú sett niður nefnd en það hafa svo margar nefndir starfað og ekkert komið út úr því. Við stöndum alltaf frammi fyrir því sama, það er komið í veg fyrir nýliðun í greininni, nýliðar komast bara ekki að vegna þessa gríðarlega kvótaverðs, bæði á leigu aflaheimilda og sölu þeirra.

Það eru auðvitað möguleikar til að breyta þessu ef hæstv. ráðherra vill gera það. En hann heldur í eignarhaldsfyrirkomulagið eins fast og hann getur. Það er hægt að breyta þessu með þeim hætti að þeir sem eru að veiða fái aflaheimildir til sín til framtíðar með einhverjum hætti. Það er t.d. hægt að taka upp þá einföldu reglu, án þess að breyta nokkru öðru, að úthluta samkvæmt þriggja ára veiðireynslu alltaf til flotans. Þá mundu þeir sem leigja til sín aflaheimildir eignast eitt tonnið af þeim þremur sem þeir fá í hendur og þannig færðust aflaheimildirnar til þeirra sem nýta þær. Auðvitað væri þetta stýring út úr því fyrirkomulagi sem hefur búið til aukabúgrein hjá ýmsum fyrirtækjum í þessu landi, þ.e. að kaupa aflaheimildir á uppsprengdu verði og láta þá sem leigja til sín (Forseti hringir.) aflaheimildir borga brúsann.



[11:09]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þessi umræða var boðuð um leigu veiðiheimilda og ég ætla að halda mig við þann þátt málsins fremur en að ræða fiskveiðistjórnarmál almennt.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að kvótaleiga sé miklum mun hæpnari og umdeilanlegri ráðstöfun í kerfinu en jafnvel sjálft varanlegt framsal veiðiheimilda og mætti þó ýmislegt um það mál segja. Ástæðan er einfaldlega sú að í mínum huga er veiðirétturinn afnotaréttur og það liggur í hlutarins eðli að það er afar hæpið að afnotarétt geti menn fénýtt með því að láta aðra nota hann. Ef þetta er afnotaréttur í grunninn nota menn hann annaðhvort sjálfir eða hann er ekki notaður.

Verðið er komið upp úr öllu valdi og það hefur mjög háskalegar hliðarverkanir. Það er t.d. ekki mikill hvati fyrir hendi til þess að koma með annað að landi en allra verðmætasta fiskinn ef menn þurfa að borga 170 kr. á kílóið fyrir að fá að veiða hann, nema þá að um löglegan meðafla sé að ræða. Fleira mætti nefna í þeim dúr.

Leigumöguleikinn og samþjöppun veiðiheimilda er nátengt. Þeir aðilar sem sópa að sér veiðiheimildum hafa alltaf þann örugga útveg að leigja þær frá sér ef þeir þurfa ekki á þeim öllum að halda sjálfir og láta aðra afskrifa fjárfestinguna. Þetta tvennt hangir líka saman. Ég held að það verði að fara að skoða af verulegri alvöru að taka á þessum þætti málsins og ég sé þar kannski aðallega tvær leiðir mögulegar, ósköp einfaldlega þá að hækka verulega nýtingarkvöðina, að menn verði að langmestu leyti að nýta sínar úthlutuðu veiðiheimildir eða sinn afnotarétt sjálfir, eða hins vegar, sem er skylt því sem síðasti ræðumaður var að tala um, að einhver svolítill hluti af því sem menn leigja frá sér á hverjum tíma komi ekki til varanlegrar úthlutunar til þeirra á næsta fiskveiðiári. Það verði einfaldlega aðeins skert það sem menn fá þá endurúthlutað af hlutdeild á næsta ári og (Forseti hringir.) hinn skerti hluti gangi til einhvers konar endurráðstöfunar. Í því sambandi kæmi ýmislegt til greina.



[11:11]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Umfang leigu veiðiheimilda er orðið mjög mikið. Á árinu 2005 var áætlað aflaverðmæti um 70 milljarðar kr., andvirði leigðs kvóta er a.m.k. 10 milljarðar kr. ef ekki meira. Á síðasta fiskveiðiári voru flutt um 60 þús. tonn af þorski á milli óskyldra aðila og hafi það allt verið leigukvóti, sem er líklegt, á því verði sem er í dag er það eitt og sér ekki minna en 10 þús. millj. kr.

Hin hliðin á málinu er að þetta er umtalsverður kostnaðarliður hjá þeim sem gera út á þeim forsendum að aflað sé veiðiheimilda á markaði. Venjulegur línubátur sem veiðir um tveggja kílóa fisk fær um 240 kr. fyrir kílóið en þarf að borga um 120 kr. í leigu fyrir að fá að veiða kílóið. Ég hef enga trú á því að breytingar á kerfinu leiði til þess að þetta hverfi. Ég tel að leiga veiðiheimilda sé komin til að vera og þá snýst málið fyrst og fremst um það hvaða reglur eigi að gilda um viðskiptin og hverjir eigi að eiga viðskipti. Er eðlilegt að aðili geti leigt frá sér eða selt það sem hann á ekki, er eðlilegt að aðili sem hefur undir höndum veiðiheimild til að veiða sjálfur geti gert sér hana að féþúfu af óskyldum aðila en eigandinn, þjóðin, fái ekki neitt að ráði fyrir þessa eign?

Það er óeðlilegt.

Þess vegna er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar það ákvæði að setja í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ég hlýt að spyrja: Eru ráðherrar í þessari ríkisstjórn slíkir bandingjar LÍÚ að þeir heykjast á því (Forseti hringir.) að efna ákvæði stjórnarsáttmálans?



[11:13]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Kvótakerfið eins og það hefur þróast hefur því miður orðið að byggðaröskunarkerfi. Það sjáum við á hinum miklu tilfærslum í aflaheimildum, bæði í gegnum hið fasta sölukerfi kvótans og einnig í leigukerfinu. Það eru til byggðir á Vestfjörðum sem leigja til sín kvóta fyrir sennilega yfir 100 millj. á ári.

Hingað til hefur ekki verið mikið um aðra grunnatvinnu að ræða á Vestfjörðum en einmitt sjávarútveginn sem hefur byggt upp þær byggðir. Sú hefur reyndin verið víða á landinu. Tilfærslukerfið, sem annars vegar á sér stað í gegnum aflasöluna, aflamarkið, og hins vegar leigukerfið eru hins vegar þannig upp sett að það er ekki nokkur leið að átta sig á því hvar byggðin heldur velli og hvar aflaheimildirnar verða til staðar áfram fyrir atvinnurétt fólksins. Ætli Akureyrardæmið sé ekki nýjasta dæmið um það, þ.e. ef við minnumst ekki á norðausturhornið sem á sennilega ekki lengur veiðirétt eftir örfáa daga heldur eru það Grandi og Vestmannaeyjar sem eiga veiðiréttinn á norðausturhorni landsins.

Veiðiskylduna er auðvitað hægt að setja upp, hækka hana, og það er einnig hægt að setja inn þá reglu að þeir sem fá til sín veiðiheimildir öðlist veiðirétt út á það sem þeir veiða og hafa fengið frá öðrum. Það eru til fjölmargar leiðir til þess að lagfæra kerfið eins og það er en ríkisstjórnin hefur ekki haft nokkurn vilja til þess að gera það. Þess vegna er einfaldlega fram undan að takast á við hvernig þetta kerfi hefur þróast og gjörbreyta því að mínu mati, hæstv. forseti.



[11:15]
Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir þessa umræðu. Það er eðlilegt í umræðu um leigu aflaheimilda að ræða jafnframt um framsalið svo og veiðiskylduna. Ég tel að markaðurinn stjórni að hluta leiguverði á aflaheimildum. Þegar aflaheimildir í ýsu voru auknar lækkaði leiguverð á ýsu. Þegar aflaheimildir í þorski voru minnkaðar hækkaði leiguverðið.

Einnig hefur orðið töluverð umræða um veiðiskylduna sem í dag er 50%. Það má lengi deila um hver þessi prósenta á að vera. Það er mikilvægt í rekstri útgerða, bæði stórra og smárra, að geta haft tegundatilfærslu í rekstrinum.

Í dag er verið að leigja 1 kíló af þorski á móti 5,5 kílóum af karfa. Þorskur er með ígildi 1 en karfi 0,69. Þá er einnig þannig farið þegar útgerðarmaður leigir frá sér, annaðhvort með jöfnum skiptum í peningum eða gerir viðskiptin með jöfnum skiptum. Ef hann leigir 1 kíló af þorski fær hann 5,5 kíló af karfa. Hann hefur þá leigt til sín 3,8 þorskígildi. Ef tegundatilfærsla væri ekki til staðar mundi sviptingum veiðileyfa fjölga töluvert. Hvað mundi gerast ef við færðum veiðiskipin upp í 75%? Úthlutaðar veiðiheimildir í þorski hafa minnkað töluvert. Leiguverð af þeim 25% sem eftir stæðu af þorski hækkaði það mikið að þeir sem eru með litlar aflaheimildir og hafa verið duglegir að leigja aflaheimildir hafa ekki svigrúm til að reka útgerð sína. Ég er þess fullviss að útvegsbændur eru ekki á móti því að hækka veiðiskylduna en teldu mikilvægt að hægt væri að hafa tegundatilfærslu milli skipa hjá sama fyrirtæki. Ég hef meiri áhyggjur af þeim sem eru í krókaaflamarkskerfinu svo og þeim byggðum þar sem aflaheimildir hafa minnkað.

Ég vil líka benda á að bátar í krókaaflamarkskerfinu leigja til sín mikið af ýsu úr stóra kerfinu. Ég fullyrði að krókaaflamarksbátarnir leigja til sín mikla ýsu vegna þess að þeir hagnast á leigunni. Þrengri skorður á framsali munu því vafalítið hafa mikil áhrif á krókaaflamarksbátana.

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Frjálslynda flokksins þurfa jafnframt að svara hvernig þeir sjái að breytingar sem þeir tala oft fyrir hafi áhrif á sjávarpláss og útgerðir sem starfa í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er samt ekkert óeðlilegt að frjálslyndir reyni að fá utandagskrárumræðu um ýmis mál til að dreifa athygli frá sínum eigin vandamálum. Ég beini því til þeirra í vinsemd, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, að taka nú upp kvótakerfi í sínum flokki, ekki með kynjakvóta heldur kvennakvóta. (Forseti hringir.) Eftir það munuð þið sennilega sjá meiri frið í ykkar flokki, nákvæmlega eins og er að gerast í sjávarútveginum þar sem friður og sátt eru aldrei meiri en nú.



[11:18]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Stjórnarliðar verða að fara að opna augun fyrir stöðu þeirra sem leigja til sín aflaheimildir. Maður hlustar á hæstv. sjávarútvegsráðherra og eins á hv. formann sjávarútvegsnefndar tala eins og þeir átti sig ekki á raunveruleika þeirra sem gera út og þurfa að leigja til sín aflaheimildir. Hæstv. ráðherra virðist alltaf horfa á málin frá sjónarhóli kvótahafanna og spurning hvort ekki sé rétt að minna hæstv. ráðherra á að hann er sjávarútvegsráðherra en ekki kvótahafaráðherra. Er þar mikill munur á.

Leigumarkaðurinn með aflaheimildir er ekki frjáls markaður, eins og hæstv. ráðherra sagði. Hæstv. ráðherra sagði: Þetta eru frjáls viðskipti milli aðila. Við hljótum að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé algjörlega blindur á það hvað er að gerast. Leigumarkaðurinn er fákeppnismarkaður og hann er samráðsmarkaður. Í raun og veru er um nauðamarkað að ræða. Þeir sem þurfa að leigja til sín aflaheimildir hafa ekki um neitt frjálst val að ræða. Þeir eru neyddir til að beygja sig undir það verð sem kvótahöfunum hverju sinni dettur í hug að setja upp og það eru engir samningar um verð á þessum markaði. Verðið er einhliða ákveðið af hálfu kvótahafanna og þeir sem þurfa að leigja hann til sín verða að beygja sig undir það leiguverð sem hinum sem eiga eða hafa dettur í hug að setja upp.

Ég er sannfærður um að í öllum öðrum viðskiptum væri Samkeppniseftirlitið komið í þetta mál og farið að velta fyrir sér hvernig stendur á því að verðmyndun á svona miklum og stórum markaði eins og hér er um að ræða er með þeim hætti sem raun ber vitni. Það vita allir sem fylgjast með sjávarútvegi að það er ekki hægt að leigja til sín afla á því verði sem verið er að leigja til sín í dag ef fylgja á reglum sem um veiðar gilda. Ef hæstv. ráðherra fylgdi reglunum eftir mundi leiguverð lækka ef farið væri í það að fylgjast betur með hvernig gengið er um auðlindina. Ég held að hæstv. ráðherra, eins og ég sagði áðan, verði að fara að opna augun (Forseti hringir.) og ákveða að hann sé hæstv. sjávarútvegsráðherra en ekki kvótahafaráðherra.



[11:20]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að menn verði að fara að huga að löggjöfinni í þessum efnum á þá lund að hér sé um viðskipti að ræða og setja reglur um það á þeim grunni og út frá samkeppnislögum. Það er eðlilegt að líta svo á að viðskipti af þessu tagi falli undir viðskiptaráðuneytið fremur en sjávarútvegsráðuneytið. Ég held að það hamli mjög þróuninni í þessu efni hversu sterk tök kvótaeigendur hafa á sjávarútvegsmálum á Íslandi í gegnum stjórnmálaflokkana. Það er greinilegt að þau tök leiða til sérhagsmuna sem eru hafðir í öndvegi og almannahagsmunum er ýtt til hliðar.

Einstakir kvótahafar geta á hverju ári haft út úr því að nýta ekki þær heimildir sem þeir fá afhentar frá ríkinu á hverju ári fyrir 2 kr. á kíló eða jafnvel minna að eigin geðþótta. Fyrirtæki eins og Brim, óskabarn Akureyringa — eða hvað? — getur leigt frá sér 3–4 þús. tonn af þorski og tekið í vasa eigendanna 500, 600, 700 millj. kr. Af þessum peningum þarf ekki að borga nein útgjöld, engin mannalaun, engum fyrirtækjum, engin gjöld í bæjarsjóð. Þetta eru bara peningar í vasann hjá hluthöfunum. Þeir bera engar skyldur, ekki við byggðarlagið þar sem til veiðiheimildanna var stofnað og þeirra aflað með vinnu þess fólks sem þar býr. Þeir hafa engar skyldur við það og þeir flytja bara til Hafnarfjarðar, virðulegi forseti. Ég held að menn þurfi að gera uppskurð á þessu og menn þurfi að viðurkenna það að þessi auðlind er, eins og orkuauðlindin, eign þjóðarinnar. Arðinum af henni á að dreifa til þeirra sem hann skópu.



[11:22]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það var svo sem ekki við miklu að búast. Maður er búinn að heyra þessa ræðu hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra áður. Svörin voru ekki merkileg. Það er eins og honum komi þetta fólk bara ekkert við, fólkið sem þarf að leigja til sín aflaheimildir. Það er ekki neitt svigrúm til þess að gæta að hag þessa fólks en fyrir þá sem hafa yfir aflaheimildunum að ráða er alls konar sveigjanleiki. Það er hægt að leigja 50% annað hvert ár og allt hitt árið. Það er hægt að breyta þorski í einhverja aðra tegund og ég veit ekki hvað.

Svo eru menn að tala um að það séu einhverjar takmarkanir. Það eru engar takmarkanir. Það er hægt að fara í svokallaða Kínaleigu. Það er hægt að fara allar leiðir. Þeim sem hafa yfir kvótanum að ráða eru allar leiðir færar. En það þarf ekkert að kanna hvort sjómenn taki þátt í þessari kvótaleigu. Menn verða bara að líta á þær tölur sem hafa komið fram í umræðunni. 1/5 af tekjum sjávarútvegsins fer í að greiða þessa leigu, þ.e. 1/5 af tekjum botnfisksaflans. Það eru 10 milljarðar og þessir peningar fara út úr greininni. Það þarf ekkert að kanna þetta. Þetta er augljóst.

Hæstv. ráðherra ræddi að einhverju leyti um tillögu Frjálslynda flokksins. Ég get lofað honum því að við komum fram með mjög skýrar tillögur, einmitt fyrir þá aðila sem leigja til sín aflaheimildir til að fá að nýta sameiginlega auðlind. Við munum gera það fyrir næstu kosningar og hagur þeirra mun verða miklu bjartari eftir að við tökum hér við völdum ef okkur tekst það en til þess að breyta þessu kerfi þarf að hrinda þessari ríkisstjórn í burtu. Það eru hreinar línur. Fólk er búið að sjá það að loforð hæstv. ráðherra fyrir kosningar og efndir eftir kosningar fara ekki saman.



[11:24]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur á margan hátt verið upplýsandi. Það sem mér hefur heyrst skína í gegn er mikil krafa um að þrengja verulega framsalið í kerfinu (SigurjÞ: Nei.) sem er út af fyrir sig athyglisverð skoðun vegna þess að það hefði líka önnur áhrif, m.a. á þá sem eru núna að leigja til sín, þau byggðarlög sem eru að leigja til sín o.s.frv.

Ég hef verið skammaður fyrir það í þessari umræðu að ég sé allt of handgenginn Landssambandi íslenskra útvegsmanna og sé einhver kvótamálaráðherra í stað þess að vera sjávarútvegsráðherra. Á sama tíma er ég líka gagnrýndur fyrir það að hafa ekki tekið undir tillögur frá LÍÚ um að þrengja framsalið í leiguviðskiptunum. Ástæður fyrir því að ég hef ekki viljað gera það eru ýmsar. Ég hef t.d. talið að það gæti haft neikvæð áhrif á þá sem lakar standa í sjávarútveginum, á þá sem eru t.d. háðir því að leigja til sín einhverjar aflaheimildir. Það gæti haft neikvæð áhrif á ýmis byggðarlög. En það er ljóst mál að frá sjónarhóli þeirra sem hafa mikla kvóta mundi það ekki miklu breyta þótt aukin yrði þessi veiðiskylda upp í 75%. Það er alveg ljóst mál að þeir aðilar stæðu alveg jafnkeikir eftir. Það mundi hins vegar hafa áhrif á ýmsa aðra, m.a. einstaklingsútgerðina og smábátaútgerðina. Það mundi líka draga úr aðgangsmöguleikum manna inn í þetta kerfi og er þó ljóst að þeir aðgangsmöguleikar eru ekki mjög miklir í dag. Það má hins vegar alltaf deila um hvort þetta eigi að vera 50% eða 75%. Það er einhver tala sem menn þurfa að komast niður á en ég hef verið talsmaður þess að til staðar væri heilmikil veiðiskylda vegna þess að ég hef talið það eðlilegt. Ég tel þó að menn verði a.m.k. að gæta að því þegar við ræðum einhverjar breytingar í þessu sambandi að það komi ekki niður á þeim sem síst skyldi.

Út af því sem talað hefur verið um umfang þessara leiguviðskipta vil ég aðeins segja að ég held að samkvæmt þeim tölum sem við höfum um þessi mál sé það mjög ofmetið. Þarna er verið að taka inn í geymslu, reikna tvöfalt eða þrefalt hin raunverulegu leiguviðskipti (Forseti hringir.) en þetta þarf hins vegar (Gripið fram í.) að skýra til að (Forseti hringir.) þessar upplýsingar liggi betur fyrir.