133. löggjafarþing — 68. fundur
 7. feb. 2007.
búsetumál geðfatlaðra í Reykjavík.
fsp. ÁRJ, 284. mál. — Þskj. 297.

[13:23]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn sem ég lagði fram á þinginu í október um stöðuna í búsetumálum geðfatlaðra í Reykjavík frá því að Síminn var seldur og ákveðið að 1 milljarður færi til búsetumála geðfatlaðra. Það var mjög góð ákvörðun að mínu mati og það er búið að halda nokkra blaðamannafundi til að kynna ýmislegt í þeim efnum. Í haust var einn slíkur blaðamannafundur þar sem kynnt var mikil og fín vinna í málaflokknum. Þegar maður fer hins vegar að skoða hvað hefur verið að gerast í uppbyggingu — það er búið að tala mikið og blása í lúðra — hefur minna sést af framkvæmdum, þá sérstaklega í Reykjavík. Ég hef fylgst náið með þessu málum þar sem ég er í hópi aðstandenda geðsjúkra. Þar var í haust kynnt staða mála, fulltrúar komu úr félagsmálaráðuneytinu en ýmsir aðstandendur könnuðust ekki við að þær framkvæmdir sem þar voru kynntar væru nokkuð farnar af stað. Þar má m.a. nefna 12 manna sambýli á Flókagötunni sem átti að lagfæra samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem ráðherra hefur kynnt.

Það eru tvö ár síðan fólkinu sem býr á Flókagötunni var lofað að það fengi sérstakar íbúðir. Ekkert er farið að gerast í þeim málum enn þá. Ég hef spurst fyrir um þetta og síðast fékk ég 12. desember tölvupóst um það að endurbætur t.d. á Flókagötunni ættu að hefjast um áramótin. Nú er 7. febrúar og það er ekkert farið að gera enn þá þannig að ég spyr hæstv. ráðherra þar sem málið virðist hafa gengið óskaplega hægt en hugurinn er góður:

1. Hver er staðan í búsetumálum geðfatlaðra í Reykjavík?

2. Hvenær má búast við að búið verði að lagfæra húsnæðið á Flókagötu í samræmi við nýju hugmyndafræðina sem ráðherra kynnti 9. október sl.? Ég nefndi það áðan.

3. Hversu mörg búsetuúrræði verða tekin í notkun á þessu ári og árlega næstu þrjú ár?

4. Hve margir geðfatlaðir bíða nú eftir að komast í sjálfstæða búsetu í Reykjavík og hvar eru þeir sem nú bíða?

5. Hversu margir þeirra búa nú á stofnunum, og þá hvaða stofnunum, og hve margir bíða í heimahúsum?

Það virðist sem sagt allt hafa gengið mjög hægt í þessum málum og ég spyr hæstv. ráðherra hvenær hann búist við að búið verði að ráða bót á þessu og hve margir bíða eftir úrræðum í Reykjavík.



[13:26]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál hér upp. Mikil breyting hefur orðið á viðhorfum til geðfatlaðra meðborgara okkar sem leiðir af aukinni þekkingu á eðli og umfangi geðsjúkdóma. Ráðuneytið telur að búseta utan stofnana en með stuðningi og aðstoð geti tryggt stöðugleika og öryggi sem stuðlað getur að jafnvægi í heilsufari og dregið úr endurinnlögnum. Hagsmunasamtök geðsjúkra og geðfatlaðra og fagfólk á þessu sviði eru sammála um að þjónusta við geðfatlaða skuli í auknum mæli eiga sér stað úti í samfélaginu en ekki á hefðbundnum sjúkrahúsum.

Á fyrri hluta ársins 2005 ákvað þáverandi félagsmálaráðherra í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að gerð yrði heildarúttekt á þörfum geðfatlaðra fyrir búsetu og stoðþjónustu af ýmsu tagi. Á grundvelli þessara upplýsinga ákvað ríkisstjórnin að gera sérstakt átak í málefnum geðfatlaðra með því að verja 1.500 millj. kr. á árunum 2006–2010 til stofnkostnaðar vegna búsetu og ýmissa stoðúrræða og um 850 millj. kr. til rekstrar. Jafnframt var sérstökum starfshópi undir formennsku Dagnýjar Jónsdóttur alþingismanns falið að móta stefnu í málefnum þessa hóps. Stefna og framkvæmdaáætlun vegna átaksins var kynnt í október sl. Við stefnumótunina hafði starfshópurinn náið samráð við hagsmunasamtök geðfatlaðra, aðstandendur þeirra og sérfræðinga á þessu sviði.

Árangurinn af starfi á grundvelli stefnunnar er að koma í ljós. Keypt hefur verið húsnæði við Lindargötu og Skipholt í Reykjavík með samtals 11 íbúðum auk aðstöðu fyrir starfsmenn. Við Flókagötu verða íbúðir fyrir 11 manns þegar gagngerum endurbótum á þeim húsum lýkur síðar á árinu. Margir húsnæðiskostir eru til skoðunar í Reykjavík og leitað hefur verið samstarfs við Reykjavíkurborg um úthlutun lóða til verkefnisins. Liður í átaki í þjónustu við geðfatlað fólk er verkefni samkvæmt tveimur samningum sem gengið var frá í lok síðasta árs. Annars vegar er um að ræða samstarf við velferðarsvið Reykjavíkurborgar um stofnun og rekstur heimilis fyrir heimilislausa Reykvíkinga. Hins vegar er um að ræða samning sem undirritaður var í desember sl. við AE starfsendurhæfingu um mat á þjónustu við geðfatlað fólk og átak í ráðgjöf og fræðslu. Við upplýsingaöflun fyrir matið verður nýtt svokölluð nsn-aðferð, þ.e. notandi spyr notanda sem gefur notendum þjónustunnar kost á að miðla af reynslu sinni og taka þátt í að móta þjónustuna.

Þá vil ég geta þess að nú standa yfir viðræður við AE starfsendurhæfingu og Klúbbinn Geysi um að koma að uppbyggingu og ráðgjöf vegna dagvistunarúrræða. Fyrirhugað er að teknar verði upp viðræður við fleiri aðila um uppbyggingu dagvistunarúrræða fyrir geðfatlaða. Í september á síðasta ári yfirtók félagsmálaráðuneytið af Landspítala – háskólasjúkrahúsi þjónustu við íbúa á Flókagötu. Nauðsynlegar breytingar á húsnæðinu munu hefjast nú í febrúar og gert er ráð fyrir því að þessum breytingum ljúki undir árslok 2007. Í stefnumótunarskýrslu sem ég kynnti í október sl. er að finna sundurliðun nýrra úrræða í búsetumálum geðfatlaðra. Í framkvæmdaáætlun stefnunnar kemur fram að gert er ráð fyrir að íbúar í sértækri búsetuþjónustu samkvæmt átakinu verði á árunum 2006 og 2007 samtals 73. Á árinu 2008 verði þeir 37, 27 árið 2009 og 24 árið 2010.

Miðað við stöðuna í dag verður ekki annað séð en að þessi áætlun muni standast hvað varðar yfirstandandi ár. Mörg verkefni eru í vinnslu og nokkuð öruggt er að 68 manns munu fá tilboð í nýja búsetu en þeir gætu orðið 85 ef allt gengur fram sem unnið er að. Áætlanir varðandi árin 2008–2010 kunna að breytast í samræmi við breytingar á högum þeirra sem um ræðir. Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir hjá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra í Reykjavík óska 73 geðfatlaðir einstaklingar eftir búsetu. Gert er ráð fyrir því að þessi hópur fái úrlausn á vegum framkvæmdaáætlunar ráðuneytisins. Að auki fá úrlausn 7 einstaklingar sem nú njóta búsetuþjónustu og bíða eftir annarri búsetu. Framkvæmdaáætlun félagsmálaráðuneytisins gerir ráð fyrir því að á árunum 2006–2007 fái 35 einstaklingar í Reykjavík tilboð um sértæk búsetuúrræði. Á árinu 2008 verða þeir 15. Sami fjöldi bætist við á árinu 2009 og á síðasta ári verkefnisins verða þeir 19. Allmörg mismunandi úrræði eru þegar í farvatninu. Eins og staðan er í dag munu 32 fá tilboð um nýja búsetu árið 2007 en þeir gætu orðið 43 ef allt gengur eftir sem unnið er að.

Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins dvelja nú á geðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss 25 einstaklingar, á vernduðum heimilum 19 og 7 einstaklingar eru í þjónustuúrræðum á vegum eða tengdum svæðisskrifstofunni í Reykjavík. Í heimahúsum búa 29 einstaklingar og flest bendir til þess að þessi hópur fái búsetuþjónustu innan ramma átaksverkefnis félagsmálaráðuneytisins.



[13:32]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ráðherra fór hér yfir áætlanir fyrir næstu ár. Við skulum muna að þetta er fimm ára verkefni og þó að við hefðum viljað sjá allar þessar íbúðir komast til framkvæmda strax þá virkar það því miður ekki þannig. Fasteignamarkaðurinn hér á höfuðborgarsvæðinu var erfiður framan af en er nú farinn að vinna betur með okkur. Það er kannski stærsta ástæðan fyrir því að landsbyggðin hefur komið svo sterkt inn í þetta verkefni. Annar punktur í þessu er sá að við verðum að geta mannað allar stöður í kringum íbúðirnar.

Það er þó mikilvægast að við byggjum uppbygginguna á þeirri hugmyndafræði sem við kynntum í haust og að baki henni er mjög mikil vinna. Ég vil nota tækifærið og þakka hlý orð hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur varðandi þessa stefnumótun. Varðandi Flókagötuna ætla ég að verða fyrst til þess að viðurkenna að breytingarnar þar hafa ekki gengið eins og skyldi og tökum við það að sjálfsögðu á okkur. Nú horfir til betri vegar og það er fullur vilji til þess að klára hana sem fyrst. Ég veit að það er allt í fullum gangi en ég vildi koma þessu að hér.



[13:33]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og ég þakka athugasemdir hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur. Það verður að segjast eins og er, og það hefur verið viðurkennt hér, að þetta hefur gengið óskaplega hægt og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hafa fylgst með þessum málum hafa séð að á landsbyggðinni hafa hlutirnir gengið miklu hraðar fyrir sig eins og hefur verið viðurkennt í þessari umræðu.

Ég er hjartanlega sammála stefnumótuninni sem hefur farið fram hjá ráðuneytinu og ég fagna virkilega samningnum við AE-starfsendurhæfingu. Ég tel það allt vera í góða átt. En það er ekki viðunandi að hátt í hundrað manns bíði eftir úrræðum, sjötíu og eitthvað manns bíði eftir úrræðum og þar af hátt í þrjátíu á stofnun, jafnvel uppi á Landspítala. Auðvitað verður þetta að ganga mun hraðar og það er ekki viðunandi að höfuðborgarsvæðið og Reykjavík sitji eftir þó svo að fasteignamarkaðurinn sé erfiðari hér. Það hefur ríkt óvissa og það hefur ríkt uppnám á heimilum eins og á Flókagötunni þar sem búið er að lofa fólki fyrir löngu, fyrir tveimur árum, að bót verði ráðin á högum þess. Það verður að standa við loforð þegar þau eru gefin svona viðkvæmum hópum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra áður en ég lýk ræðu minni: Hvernig verður háttað eignarhaldinu á þeim húsum sem keypt eru? Eru þau í eigu ríkisins, er það Öryrkjabandalagið eða hverjir eiga þetta húsnæði sem er verið að kaupa? Það þarf að upplýsa hér hvernig eignarhaldinu er háttað.

Að lokum, virðulegi forseti, óska ég eftir því að menn reyni nú að hraða sér. Það er ekki langur tími eftir hjá hæstv. ráðherra í ráðuneytinu og það er búið að lofa fólki því að þetta gerist mun fyrr en raunin hefur orðið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að drífa í því að koma þessum málum í gott horf, að leysa vanda fólksins á Flókagötunni og allra þeirra sem bíða eftir úrræðum, sem eru allt of margir. Þetta er viðkvæmur hópur og hann á ekki að þurfa að líða fyrir það að bíða eftir úrræðum sem er búið að lofa fyrir löngu.



[13:36]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þann hug sem fram kemur til þeirrar framkvæmdaáætlunar sem við vinnum eftir. Ég get tekið undir að það er óæskilegt að fólk bíði eftir úrræðum, ég held að við séum öll sammála um það, en það er unnið eftir þessari framkvæmdaáætlun. Það er auðvitað ekki gott ef við náum ekki að halda taktinum samkvæmt henni, það er bara þannig. Að sjálfsögðu er það markmið okkar allra, sem vinnum að þessu, að okkur takist að fylgja áætluninni þannig að hún standist.

Þetta er fimm ára verkefni og við sem vinnum að þessu höfum orðið vör við mjög jákvæðan hug allra þeirra sem málið snertir. Það er mjög góður skilningur almennt gagnvart því að hlutirnir taka þennan tíma. Þetta fór af stað á síðasta ári og fólk hefur skilning á því. En ég skil vel óþreyju þeirra sem bíða langan tíma eftir úrræðum, það er eðlilegt. Við viljum sannarlega að hlutirnir gangi fljótt og vel fyrir sig og í takti við það sem lagt hefur verið upp með.

Varðandi eignarhald á íbúðunum er það mismunandi. Það er t.d. gert ráð fyrir því að í einhverjum tilvikum sé það Framkvæmdasjóður Öryrkjabandalagsins sem sé eigandi, í öðrum tilvikum ríkið o.s.frv. Það fer eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni. Þegar húsnæði er keypt er skýrt tekið fram í þinglýsingu til hverra nota það er ætlað.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið upp og gefa okkur kost á að ræða það. Þetta er mikilvægt og gott mál og það er ánægjulegt að fá að taka þátt í því að hrinda því í framkvæmd. Ég vona að okkur takist að láta framkvæmdaáætlunina standast. Það er markmið okkar allra.