133. löggjafarþing — 68. fundur
 7. feb. 2007.
reiknilíkan heilbrigðisstofnana.
fsp. MF, 163. mál. — Þskj. 163.

[14:14]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið á nýliðnu ári sem heilbrigðisyfirvöld tilkynntu stjórnendum heilbrigðisstofnana að tekið yrði upp reiknilíkan fyrir þessar stofnanir. Það var ekki um það að ræða við gerð þessa reiknilíkans að samráð eða samvinna hefði verið höfð við þá sem koma að rekstri stofnananna heldur, að því er virðist, einhliða ákvörðun stjórnvalda eins og svo algengt er. Auðvitað er gott fyrir stjórnendur og eftirlitsaðila með rekstri heilbrigðisstofnana að vita hvað sé á bak við fjárheimildir hverju sinni og hvort raunverulegur vilji sé til staðar hjá stjórnvöldum að farið sé að lögum um heilbrigðisþjónustu eða réttindum sjúklinga og í reiknilíkani hlýtur að felast ákvörðun um hver eigi að sinna hvaða verkefni og hvar í heilbrigðisþjónustunni. Ég dreg hins vegar í efa að hægt sé að fella allar heilbrigðisstofnanir á sviði heilsugæslu á landinu undir eina gerð líkans án þess að þar sé um mismunandi breytur að ræða. Svæðin sem heilsugæslan starfar á eru afar misjöfn, til dæmis landfræðilega hvað varðar samgöngur, dreifingu íbúa og jafnvel aldurssamsetningu fólks á ákveðnum stöðum innan heilbrigðissvæða.

Annað atriði getur haft afgerandi áhrif í rekstri þessara stofnana en það eru sumarbústaðir og/eða frístundabyggðir. Það er afar misjafnt hversu fjölmenn frístundabyggð er á hverju svæði, allt frá því að þar séu hundruð einstaklinga til þess að þúsundir nýrra íbúa flytji tímabundið inn á heilsugæslusvæðið hverja helgi allt árið. Þessir frístundaíbúar á heilsugæslusvæðunum þurfa sitt öryggi í heilbrigðisþjónustu þó að þeir hafi ekki lögheimili á svæðinu og að sjálfsögðu er þeim ekki neitað um þjónustu þegar þörf er á þó að ekki sé gert ráð fyrir því í fjárframlögum til viðkomandi stofnunar að hún veiti þjónustuna. Það er nauðsynlegt að fyrir liggi heildarúttekt á fjölda íbúa frístundabyggða á hverju heilsugæslusvæði og að tekið sé tillit til þess þegar sett er upp reiknilíkan fyrir heilbrigðisstofnanir þessara svæða og annarra þátta sem geta haft afgerandi áhrif á rekstur þessara stofnana eins og samgangna, dreifingar íbúa og eins frítökurétts lækna, svo eitthvað sé nú nefnt.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvernig eru einstakir veigamiklir þættir sem hafa áhrif á rekstur heilbrigðisstofnana, t.d. fjölmennar frístundabyggðir í umdæmi þeirra, teknir inn í reiknilíkan stofnananna?

2. Hefur verið gerð úttekt á fólksfjölda í frístundabyggð á þjónustusvæði hverrar heilbrigðisstofnunar og hlutfalli þeirra í veittri þjónustu viðkomandi stofnunar?

3. Munu heilbrigðisstofnanir fá leiðrétt rekstrarframlög undangenginna 2–5 ára í samræmi við niðurstöður reiknilíkansins?



[14:17]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna sérstaklega þessari fyrirspurn sem lýtur að reiknilíkaninu af því að ég tel að það sé mjög mikilvægt tæki til að gæta réttlætis í útdeilingu fjármuna.

Í fyrsta lagi er hér spurt hvernig einstakir veigamiklir þættir sem hafa áhrif á rekstur heilbrigðisstofnana, t.d. fjölmennar frístundabyggðir í umdæmi þeirra, eru teknir inn í reiknilíkan stofnananna.

Því er til að svara að fjárveitingar til reksturs heilsugæslustöðva hafa verið endurskoðaðar og sérstakt reiknilíkan útbúið til að meta fjárþörf einstakra heilsugæslustöðva og/eða heilsugæslusviða heilbrigðisstofnana. Lagt var upp með að líkanið yrði einfalt í framsetningu en tæki þó í ákveðnum tilvikum tillit til séraðstæðna stofnana. Við mat á fjölda ársverka tekur líkanið meðal annars tillit til fjölda íbúa á starfssvæði hverrar heilsugæslustöðvar auk þess sem tekið er tillit til ákveðinna séraðstæðna eða sérþátta.

Meðal þeirra atriða sem reiknilíkanið tekur mið af eru meðal annars hvort stofnunin starfrækir fleiri heilsugæslustöðvar en eina eða heilsugæslusel, víðfeðmi starfssvæðisins, samgöngur, sjúkraflutningar, áherslur í heimahjúkrun, sumarhúsabyggð, framhaldsskólar og aðrir staðhættir.

Varðandi aðra spurninguna er því til að svara að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu skulu íbúar einstakra sveitarfélaga og byggðarlaga jafnan eiga rétt á því að leita til læknis eða til þeirrar heilsugæslustöðvar eða læknismóttöku sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni, leita sér læknishjálpar sem sagt þangað. Vegna aukins hreyfanleika vinnuafls er eðlilegt að sjúklingar leiti eftir grunnþjónustu heilsugæslunnar þar sem hún er næst enda er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Í ráðuneytinu hefur verið kannað hjá einstökum stofnunum ráðuneytisins hve margir einstaklingar á viðkomandi svæði eiga lögheimili utan umdæma stöðvanna og leita eftir þjónustu þeirra.

Eins og fram kom í svari mínu við fyrstu spurningu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur tekur reiknilíkanið tillit til aukins álags á einstaka heilsugæslustöðvum þar sem frístundabyggðir eru. Ég get nefnt sem dæmi að á Suðurlandi var bætt við hálfu stöðugildi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna frístundabyggðarinnar sérstaklega, þ.e. á Heilsugæslustöðinni á Selfossi þar sem hálfri læknastöðu var bætt við.

Varðandi þriðju spurningu hv. þingmanns þá er því til að svara að í fjárlögum ársins 2007 er hækkun fjárveitinga hjá heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem eru með of lágar fjárveitingar samkvæmt reiknilíkaninu. Í þeim tilvikum þar sem umtalsverður munur er á fjárheimildum og niðurstöðu reiknilíkansins voru niðurstöður reiknilíkansins látnar ná til nokkurra fyrri ára til að leiðrétta rekstrarframlag til þessara stofnana. Þannig var í fjáraukalögum 2006, á síðasta ári, horft til nokkurra fyrri ára og sem dæmi þá var sett inn í fjáraukann 144,7 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands einungis vegna reiknilíkansins. Þarna er verið að greiða niður halla fyrri ára. Það er sem sagt viðurkennt með reiknilíkaninu að það var, má segja, eins og oft er nú sagt í umræðunni, rangt gefið í upphafi. Stofnunin átti að fá meira þannig að það var tekið tillit til þess í fjáraukanum. Í fjárlögunum 2007 var bætt í grunninn hjá nokkrum heilbrigðisstofnunum vegna reiknilíkansins. Ég get tilgreint að til dæmis á Heilbrigðisstofnun Suðurlands var bætt í grunninn 37,5 millj. kr. vegna reiknilíkansins. Reiknilíkanið sýndi að það vantaði 37,8 millj. kr. Þarna vantar 300 þús. kr. upp á. Reiknilíkanið er því að skila sér með afturvirkum hætti til stofnananna þannig að það er búið að taka og höggva verulega á þá hala sem mynduðust og svo er verið að setja inn í grunninn til framtíðar. Reiknilíkanið sýnir að sumar stofnanir hafa verið að fá of mikið en aðrar of lítið.

Það er almennt mjög mikil ánægja hjá stjórnendum þessara stofnana með reiknilíkanið. Auðvitað þarf að breyta því í tímans rás. En einhvers staðar verður að byrja og miðað við hvernig þetta er núna þá hefur almennt tekist mjög vel til. Ég tel að við eigum að reikna út eftir svona líkönum en ekki eftir því hverjir gala hæst á fjármagn af því að það er ekkert réttlæti sem felst í því.



[14:22]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það á ekki að afgreiða fjárlög þannig að þeir sem gala hæst fái mest. En það hefur stundum viljað brenna við að einstaka fjárveiting hafi farið með þeim hætti frá Alþingi. Ég fagna því að þetta reiknilíkan kemur á leiðréttum rekstrargrunni þessara stofnana sem hafa í mörg ár barist í bökkum bara við það að reyna að sinna þeirri þjónustu sem þau eiga að gera lögum samkvæmt.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það væru einhver dæmi þess að stofnanir hefðu fengið of mikið. Ég beini þeirri spurningu þá til hæstv. ráðherra hvernig það var leiðrétt og hvernig rekstur þeirra stofnana hafi komið út á undanförnum árum. Ef reiknilíkanið sýnir að viðkomandi stofnun hafi fengið í einhver ár of háar fjárhæðir miðað við þá þjónustu sem hún á að veita hafa þær þá safnast saman? Eiga einhverjar af þessum stofnunum þá uppsafnað fjármagn sem þær geta fært á milli ára?

Mér er vel kunnugt um að reiknilíkanið skilaði inn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands verulegum úrbótum sem fengust bæði á fjáraukalögum og eins núna í fjárlögum. En mig fýsir að vita: Eru komur þeirra einstaklinga sem eru í frístundabyggð eða sumarbústaðabyggð og sækja sér þjónustu til heilbrigðisstofnana skráðar? Hefur verið haldið utan um það þannig að það sé um raunhæfa úrlausn að ræða eða eru þetta ágiskanir? Er þetta mat ráðuneytis á því hversu margir eru hugsanlega í sumarbústaðabyggð á svæði heilbrigðisstofnana eða hefur á undanförnum árum og í aðdraganda þess að svona reiknilíkan er gert — því að það hlýtur að þurfa að vanda til verka — hefur þá verið haldin sérstök skrá yfir þjónustu við þessa einstaklinga?



[14:24]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom hjá mér áðan þá hefur verið kannað hjá einstaka stofnunum ráðuneytisins hve margir einstaklingar sem eiga lögheimili utan umdæma stöðvanna leita eftir þjónustu þeirra. Þetta hefur því verið kannað hjá einstaka stofnunum. Ég get ekki svarað því skothelt hér hvort þetta sé skráð með algjörlega reglubundnum hætti hjá öllum. Ég þekki það ekki nógu vel til þess að svara því beint hérna. En reiknilíkanið tekur tillit til aukins álags á einstaka heilsugæslustöðvar þar sem frístundabyggðir eru. Það er sem sagt innbyggt í reiknilíkaninu. Það hefur skilað sér sem sagt í hálfri stöðu á Suðurlandi af því að þar er svo stór frístundabyggð. Það er líka mjög stór frístundabyggð, svo ég taki sem dæmi, hérna uppi í Borgarfirðinum.

Varðandi hina fyrirspurnina sem kom hér fram hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um reiknilíkanið sem sýnir að sumar stofnanir hafi fengið of háar fjárveitingar og aðrar hafi fengið of lágar fjárveitingar þá er það þannig að við höfum ekki getað með réttu staðið á neinum grunni í orðræðunni við þessar stofnanir. Sumar hafa sagt að þær fái of lítið. Aðrar hafa sagt að þær fái miklu minna en næsta stofnun í næsta nágrenni o.s.frv. Menn hafa verið að bera sig saman. En með reiknilíkaninu getum við bara með mjög einföldum hætti rætt þetta við stofnanirnar af því að við höfum eitthvað til þess að miða við.

Þær stofnanir sem hafa fengið of há framlög miðað við reiknilíkanið fá aðlögunartíma til þess að draga saman í rekstrinum, aðlaga reksturinn að því sem er eðlilegt. Það eru dæmi um slíkar stofnanir sem þurfa að fara í gegnum það. Það er auðvitað ekkert mjög þægilegt en menn verða að gera það af því að það á að vera hægt að bera saman stofnanirnar og það á að vera eitthvert réttlæti í útdeilingu fjármuna.