133. löggjafarþing — 68. fundur
 7. feb. 2007.
nám langveikra ungmenna o.fl..
fsp. MF, 334. mál. — Þskj. 357.

[18:14]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrr í vetur vorum heimsóttum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vinnustaðinn Landspítala – háskólasjúkrahús. Starfsmenn vöktu athygli okkar á ýmsu því sem betur mætti fara í samskiptum heilbrigðisyfirvalda og stjórnenda starfsfólks LSH og réttindamálum sjúklinga. Þau mál falla yfirleitt ekki undir yfirstjórn menntamála en þannig er því þó farið með eitt mikilvægt mál sem snertir þjónustu við sjúklinga á heilbrigðisstofnunum.

Flest börn á grunnskólaaldri sem eiga við langvarandi erfiða sjúkdóma að stríða eða hafa slasast illa og þurfa að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum, og/eða endurhæfingarstofnunum, eiga rétt á kennslu á meðan á sjúkradvöl stendur. Grunnskólinn er á forræði sveitarfélaganna og samningar hafa verið gerðir við ákveðna skóla á grunnskólastigi og er kennslunni sinnt undir þeirra stjórn. Þannig er þetta með börn og unglinga á grunnskólaaldri sem dvelja á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, að reynt er að sinna kennslu þeirra.

Hið sama gildir ekki um ungmenni sem lokið hafa grunnskóla og eru að hefja eða hafa þegar hafið nám í framhaldsskóla þegar þau veikjast eða verða fyrir slysi og þurfa að dvelja langdvölum á sjúkrahúsi eða í endurhæfingu. Kennarar sem sinna grunnskólakennslu hafa eftir getu og tíma reynt að sinna þeim hópi en eftir því sem mér skilst eru engir samningar í gildi þar um. Rekstur framhaldsskólanna er á ábyrgð ríkisins og það er nauðsynlegt að tryggja að ungt fólk á framhaldsskólaaldri eigi möguleika á kennslu eða aðstoð við fjarnám ef dvalið er langan tíma á sjúkrahúsi eða endurhæfingarstofnun.

Þess eru dæmi að ungmenni hafi hætt skólagöngu vegna veikinda vegna þess að kennsla eða aðstoð við nám var ekki til staðar meðan á veikindum og/eða endurhæfingu stóð. Alvarleg veikindi, slys eða varanleg örorka setja mark sitt á þá sem hlut eiga að máli. Þeir eiga ekki orku eftir til að berjast fyrir réttindum sem í raun ættu að vera sjálfsögð. Oft er erfitt að hefja daglegt líf í samfélaginu eða í skóla eftir að veikindum lýkur.

Möguleikar til náms meðan á legu á sjúkrastofnun stendur er öflug endurhæfing og mikilvægt að framhaldsskólarnir hafi úrræði til að koma til móts við þá nemendur sem geta ekki sótt skóla tímabundið vegna slyss eða veikinda. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir skipulögðu framhaldsskólanámi inni á sjúkra- og/eða endurhæfingarstofnunum fyrir langveik ungmenni eða ungmenni sem þurfa af öðrum ástæðum, t.d. vegna slysa, að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum eða í endurhæfingu?



[18:16]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem mikilvægt er að komi fram. Hún dregur líka fram það mikilsverða starf sem þingmenn inna af hendi með vinnustaðaheimsóknum. Slíkar heimsóknir draga oft fram mál sem eru brýn og nauðsynleg en fara ekki hátt en auðvelt getur verið að laga innan stjórnkerfisins þegar þörf krefur. Hv. fyrirspyrjandi spyr:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir skipulögðu framhaldsskólanámi inni á sjúkra- og/eða endurhæfingarstofnunum fyrir langveik ungmenni eða ungmenni sem þurfa af öðrum ástæðum, t.d. vegna slysa, að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum eða í endurhæfingu?“

Langveikir nemendur sækja rétt sinn til þjónustu til 19. gr. laga um framhaldsskóla. Samkvæmt 1. málsgrein þeirrar greinar og líka aðalnámskrár skal veita fötluðum nemendum, samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu „fatlaðir“ sem kemur fram í 2. gr. laga um málefni fatlaðra frá 1992, kennslu og sérstakan stuðning í námi, þar með talið sérfræðilega aðstoð og nauðsynlegan aðbúnað eftir því sem þörf krefur. Í sömu lagagrein er mælt fyrir um að fatlaðir nemendur skuli stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Í 2. mgr. 19. gr. kemur fram að menntamálaráðherra geti heimilað stofnun sérstakra deilda við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur.

Við síðustu endurskoðun á almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla frá árinu 2004 var staða langveikra nemenda sérstaklega styrkt. Framhaldsskólum ber að greina frá þjónustu við langveik ungmenni í skólanámskrá viðkomandi skóla, hvaða þjónustu þeir bjóða langveikum ungmennum. Fjarnám er einnig algengt á framhaldsskólastigi og hentar vel til að veita langveikum ungmennum þjónustu. Ekki eru áform um skipulagt framhaldsskólanám við sjúkra- og endurhæfingarstofnanir heldur er nám langveikra nemenda skipulagt í náinni samvinnu viðkomandi nemenda og skóla. Skólarnir eru mismunandi og fjölbreyttir og bjóða upp á mismunandi nám. Þannig viljum við líka hafa það.

Ráðuneytið lítur svo á að það sé skylda framhaldsskólanna að mennta langveika nemendur eins og aðra nemendur. Það er alveg skýrt af okkur hálfu. En nám á framhaldsskólastigi er mjög fjölbreytilegt og því verður að skipuleggja nám hvers nemanda með tilliti til þarfa hans og stöðu. Það er náttúrlega mjög mismunandi almennt í samfélaginu og oft og tíðum fjölbreyttara hjá langveikum nemum sem þurfa að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum. Þess vegna er mikilvægt fyrir skólana að geta aðlagað námið, ekki hafa eina miðstýrða námskrá fyrir þá heldur aðlaga námið þannig að það verði einstaklingsmiðað og sniðið að þörfum langveikra barna sem eru misjafnlega í stakk búin fyrir námið.

Þá eiga nemendur sem falla undir skilgreiningu 19. gr. framhaldsskólalaganna rétt á námi við framhaldsskóla í allt að fjögur ár. Fyrir þessa nemendur eru sérstakar námsbrautir starfandi við 16 framhaldsskóla auk þess sem hluti þeirra stundar nám við aðrar námsbrautir skólanna. Á þessu skólaári, frú forseti, stunda tæplega 300 fatlaðir nemendur nám við framhaldsskóla víðs vegar um landið.

Ég vil, í framhaldi af því sem kom fram áðan út af annarri fyrirspurn, segja að það er mikilvægt að tryggja aðgang allra að skólakerfinu, hvort sem við erum að tala um háskólanám eða framhaldsskólanám, ég tala nú ekki um leikskóla eða grunnskóla. Að sjálfsögðu gildir hið sama um nemendur og ungmenni á sjúkrahúsum og aðra í samfélaginu. Við erum að vinna að því og við vonumst til að gera það sem við getum, sinna þörfum þeirra eftir bestu getu. En það er mikilvægt að fara yfir þessa hluti. Þess vegna vil ég sérstaklega þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn.



[18:21]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þann áhuga sem hún sýnir þessu máli. Eftir að hafa rætt við kennara sem sjá um menntun á grunnskólastigi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi skoðaði ég þær lagagreinar sem eiga að snúa að þeim sem eru langveikir, hafa orðið fyrir slysi og eru langtímum saman í endurhæfingu eða á sjúkrastofnunum.

Okkur var bent á að orðið hefði ákveðið brottfall, sem við höfum orðið vör við. Það átti sérstaklega við hjá þeim sem eru að hefja framhaldsskólanám, hafa ekki fest sig í námi og eru ef til vill það veik að þau geta ekki upp á sitt eindæmi komið á samvinnu á milli viðkomandi skóla eða skipulagt námið. Jafnvel er um það að ræða að þar séu einstaklingar utan af landi sem koma til Reykjavíkur og eru hér vegna langvarandi veikinda. Meðferðin fer oftast fram í höfuðborginni.

Það hefur lent í verkahring grunnskólakennaranna að reyna að veita þeim einhverja þjónustu. Þau töluðu um að koma þyrfti starfinu í betra form og kalla eftir skýrslum frá framhaldsskólunum þannig að þeir uppfylli sitt hlutverk og fylgist með því að einstaklingar, hvort sem er hér á höfuðborgarsvæðinu eða þeir sem koma utan af landi, fái þá menntun sem þeir hafa þegar skráð sig í eða ætla að stunda. Þarna er misbrestur á þjónustunni. Þetta er ekki stór hópur en samt þarf að sinna honum. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra hafi leitt hugann að þessari þörf og treysti því að gerðar verði ákveðnar úrbætur, þótt ekki væri annað en að kalla eftir því að framhaldsskólarnir sinni þeim einstaklingum sem koma af þeirra svæðum.



[18:23]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tel ástæðu til að fara vel yfir þessi mál. Ég velti því líka fyrir mér, í ljósi orða hv. þingmanns, hvort efla megi enn frekar náms- og starfsráðgjöfina á grunnskólastiginu sem menn hafa verið að benda á, til að tengja framhaldsskólann betur við grunnskólann og byggja þær brýr sem á þarf að halda. Þetta á að sjálfsögðu líka að gilda um þau ungmenni sem lenda í veikindum.

Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir þetta. Ég mun hugsanlega kalla eftir upplýsingum frá framhaldsskólum um hvernig þessum málum er sinnt en almennt séð er réttarstaðan skýr. Menn hafa sín réttindi. Stefnan er skýr. Við viljum efla og auka aðganga allra að skólakerfinu. Það gildir um alla í samfélaginu, hvar sem þeir eru staddir hverju sinni.