133. löggjafarþing — 71. fundur
 14. feb. 2007.
losun gróðurhúsalofttegunda.
fsp. MÁ, 486. mál. — Þskj. 738.

[13:45]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Hinn 16. janúar lagði ég fram tvær fyrirspurnir til hæstv. umhverfisráðherra um loftslagsmál, til munnlegs svars, þá sem nú liggur fyrir um reglur um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá stóriðju og öðrum uppsprettum og hins vegar bað ég um skriflegt svar við fyrirspurn sem var í fjórum liðum og nokkrum undirliðum. Það svar barst í dag en er reyndar því miður ekki enn þá búið að dreifa í þinginu.

Í því svari og í fréttatilkynningu um það frumvarp sem umhverfisráðherra ætlar að flytja kemur fram svar ráðherrans við þessari mánaðargömlu munnlegu fyrirspurn. Ráðherrann svarar hinni skriflegu fyrirspurn minni um það hver losun koltvísýrings verður þegar áform sem nú eru uppi um álver hafa gengið eftir. Þá er aðeins átt við þau álver sem þegar hafa starfað og hugsanlega stækkun Alcans í Hafnarfirði.

Svarið er að heildarlosunin er 1.710 þús. tonn á ári en kvótinn samkvæmt Kyoto er 1.600 þús. tonn á ári, þ.e. á síðasta árinu, árið 2012, verður staðan þannig að losunin er 1.710 þús. tonn að gefnum þessum forsendum en leyfið 1.600 þús. tonn.

Þetta ætlar ráðherrann að leysa með meðaltalsaðferðinni, leggja saman losunina á árunum 2008–2012, þau fimm ár, og deila í með fimm. Þetta er í fyrsta sinn sem umhverfisráðherra lýsir þessu yfir af þeim umhverfisráðherrum sem hafa setið í þessari ríkisstjórn. Það eru merkar fréttir vegna þess að hingað til hafa umhverfisráðherrar farið í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut.

Þar að auki kemur óljóst fram í skriflega svarinu að formlega á að standa við Kyoto-samkomulagið með því að álverin annaðhvort rækti skóg, sem er góð hugmynd, eða kaupi kvóta sem er raunhæfari hugmynd, og kaupi hann inn í hinar almennu heimildir Íslendinga. Það þýðir að ef Íslendingar ná að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda og leggja þar með lið baráttunni í heiminum gegn þeirri vá sem stafar af almennri hlýnun, sem er eitthvert mesta vandamál og úrlausnarefni samtímans og okkar kynslóða, fyllist hann aftur undir eins af kvóta álveranna.

Ég vil hafa þennan inngang að fyrirspurninni nákvæmlega svona og óska eftir að umhverfisráðherra haldi áfram að ræða þessi mál almennt í þeim dúr og skýri betur sitt skriflega svar sem fullt (Forseti hringir.) tilefni er til.



[13:48]
umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi Mörður Árnason spyr hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að settar verði reglur um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi, annars vegar frá stóriðju og hins vegar frá öðrum uppsprettum.

Ég vil byrja á því að upplýsa að þann 6. febrúar sl. var frumvarp mitt um losun gróðurhúsalofttegunda samþykkt á fundi ríkisstjórnar. Því frumvarpi er ætlað að tryggja losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju hér á landi, að hún verði ekki meiri en skuldbindingar Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni leyfa og mun þannig skapa stjórnvöldum tæki til að takmarka losun koldíoxíðs frá stóriðju. Ég vonast til að Alþingi geti tekið málið til þinglegrar meðferðar sem fyrst og þá verður tækifæri til að ræða efni frumvarpsins ítarlega.

Hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá öðrum uppsprettum en stóriðju er ekki í bígerð nein sambærileg lagasetning hvað hana varðar. Það er hins vegar fyrirhugað að grípa til ýmissa aðgerða á grunni nýrrar stefnumörkunar stjórnvalda í loftslagsmálum sem ég geri ráð fyrir að kynna á allra næstu dögum.

Ég vil þó í þessu samhengi nefna að fyrirhugað er að skoða hvernig enn frekar megi koma á hagrænum hvötum til að nýta loftslagsvænt eldsneyti og kaupa loftslagsvæn ökutæki. Þegar hafa verið stigin skref í þá átt með niðurfellingu eða lækkun á gjöldum á vetnisbíla, rafmagnsbíla og önnur loftslagsvæn ökutæki og með upptöku olíugjalds í stað þungaskatts sem gerir það hagkvæmara en áður að reka dísilbíla sem valda minni losun koldíoxíðs en bensínbílar.

Í fyrri viku voru kynntar tillögur Vettvangs um vistvænt eldsneyti sem er undir formennsku iðnaðarráðuneytisins en fleiri ráðuneyti, þar á meðal umhverfisráðuneytið, eiga aðild að. Þar er m.a. lagt til að endurskoðaðar verði reglur um opinber gjöld af ökutækjum til að dregið verði úr notkun jarðefniseldsneytis í samgöngum og hliðstæðar tillögur munu koma fram í nýrri stefnumörkun í loftslagsmálum.

Margt fleira mætti nefna en ég held að það sé óþarft að hafa langt mál um slíkar aðgerðir í svari við fyrirspurn hv. þingmanns þar sem ég tel að fyrirspyrjandi hafi fyrst og fremst verið að spyrja um reglusetningu um takmörkun og losun en ekki allar aðgerðir sem gripið hefur verið til eða kann að verða gripið til í loftslagsmálum.

Ég hef nýlega svarað fyrirspurn hér á þinginu um stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum þar sem ég fór yfir þær margvíslegu aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til.



[13:51]
Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í Kyoto-bókuninni sem var samþykkt í desember 1997 var samþykkt að Íslendingar fengju að losa 10% meira af koldíoxíði á fyrsta skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar sem er frá 2008 til 2012, þ.e. 10% umfram losun á viðmiðunarárinu 1990.

Þessu til viðbótar var samþykkt með svokölluðu íslenska ákvæði árið 2001 sem er 14. samþykkt 7. aðildarríkjaþings rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, að Íslendingar mættu losa 1,6 milljónir tonna til viðbótar vegna iðnaðarferla. Það tekur að vísu líka til Mónakós og Liechtensteins.

Það sem ég vil vekja athygli á í þessu sambandi er að sú heimild tekur eingöngu til fyrsta skuldbindingatímabilsins. (Forseti hringir.) Það sem ég hef áhyggjur af er hvernig íslensk stjórnvöld ætla að bregðast við eftir 2012.



[13:52]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég tek undir þessar áhyggjur. Það er einmitt málið hér og þess vegna er rétt að eyða nokkrum orðum í þessa meðaltalsleið. Vissulega er hægt að finna það út, a.m.k. getur ólögfróður maður fundið það út að meðaltalsleiðinni væri hægt með nokkuð sterklegu skójárni að þrýsta inn í þessa tölu.

Hins vegar er spurning um hvar og hvernig við stöndum, ef ekki löglega þá siðlega, þegar árinu 2012 er lokið. Samkvæmt því skriflega svari — því að ráðherrann svarar engu í sínu munnlega svari nema því að hún hafi lagt fram frumvarp 6. febrúar í ríkisstjórninni sem ekki er komið í þingið og að hún ætli að kynna stefnumótunina í hinum málunum eftir nokkra daga og þess vegna sé ekki ástæða til að svara þingmanninum sem hér stendur — við hinni skriflegu fyrirspurn verður losunin árið 2012 1.710 þús. tonn. Þá er reiknað með aðeins þeim álverum sem nú eru að stækka og að sjálfsögðu Straumsvíkurálverinu — spurningin beindist að því — en ekki er reiknað með Húsavík, ekki með Helguvík, Þorlákshöfn eða því öðru sem menn láta sér detta í hug núna.

Staðan er þá sú að í lok árs 2012 standa Íslendingar uppi með þessa losun og enga umhugsun svo um það áfram hvað á að taka við. Enginn hefur hugmynd um það.

Það er ákaflega hæpin staða sem íslenskir stjórnmálamenn hafa á næstu fundum í þessu samstarfi. Þetta verður auðvitað ekki ákveðið árið 2012, heldur verður þetta ákveðið á næstu árum, árin 2008 og 2009, hvernig á að standa að þessu. Þeir sjálfir hafa í raun og veru sprengt alla ramma hvað sem hæpnum lagabókstaf líður. Ég vil gjarnan fá svör um það frá hæstv. umhverfisráðherra þannig að einhver svör veitist (Forseti hringir.) í máli hennar hér í dag.



[13:55]
umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að vekja athygli á því að hv. þm. Mörður Árnason spurði um reglur, hvort ráðherra hygðist setja reglur um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Ég vísaði til reglna vegna stóriðjunnar til þessa frumvarps. Á þeim stutta tíma sem þessi dagskrárliður þingsins gerir ráð fyrir er ekki hægt að gera grein fyrir frumvarpinu, jafnvel þótt búið væri að dreifa því í þinginu. Þetta er ekki umræða um þetta frumvarp, hv. þingmaður spurði um reglurnar.

Það sem ég vil síðan árétta og taka undir með hv. þingmanni er að eftir 2012 er alveg óljóst hvaða losunarheimildir íslensk stjórnvöld muni hafa. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni líka, menn byrja ekki að ræða það 2012. Þess vegna hefur í þeim undirbúningi að viðræðum sem átt hefur sér stað öll áhersla verið lögð á það að viðræður hefjist þegar á yfirstandandi ári og eigi síðar en árið 2009.

Það er m.a. til þess að menn viti að hverju þeir ganga eftir að þessu fimm ára tímabili lýkur 2012. Frumvarpið sem ég hef þegar nefnt í þessari umræðu tekur einungis til losunarheimilda og reglna um úthlutun þessara losunarheimilda á tímabilinu 2008–2012 sem segir mikið um óvissuna sem tekur við að því tímabili loknu.