133. löggjafarþing — 71. fundur
 14. feb. 2007.
vegrið.
fsp. MÞH, 292. mál. — Þskj. 305.

[15:09]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Önnur fyrirspurn mín til hæstv. samgönguráðherra í dag fjallar um svokölluð víravegrið. Spurningar mínar eru tvær og þær hljóða svo, með leyfi forseta:

Hafa samgönguyfirvöld einhver áform um að fjölga víravegriðum á þjóðvegum landsins og ef svo er, hver eru þau áform?

Síðari spurning mín er: Hvernig metur samgönguráðherra þá reynslu sem komin er af notkun þessara vegriða hér á landi?

Fyrir nokkrum missirum voru sett slík víravegrið á kafla vegarins yfir Hellisheiði og þessi víravegrið hafa, hvað eigum við að segja, sætt nokkurri gagnrýni og skoðanir fólks eru skiptar á því hvort rétt hafi verið að leysa málin á þann hátt eða ekki.

Bent hefur verið á, og maður veit það svo sem sjálfur af eigin reynslu, að það er svolítið óþægilegt að hafa þetta á miðjum veginum. Það er til að mynda mjög erfitt um vik að snúa við á annarri akreininni eða reyndar báðum, því vegurinn er í raun hólfaður niður, hólfaður í tvennt, ef svo má segja, skorinn langsum og hálfundarleg staða sem getur komið þarna upp. Ég veit það sjálfur af eigin reynslu.

Aðrir hafa bent á að slysahætta sé af slíkum víravegriðum. Fólki sem fer um til að mynda á mótorhjólum er mjög illa við þessi víravegrið. Ég hef mikinn skilning á því vegna þess að ég ferðast stundum um á slíku farartæki og það er mjög slæmt mál ef fólk missir stjórn á ökutækjum sínum og lendir utan í þessu. Þá getur það haft mjög alvarleg meiðsli í för með sér.

Virðulegi forseti. Ég kom hér upp bara til að forvitnast um hvort samgönguyfirvöld séu að skoða þessa tvo kosti víðar varðandi hugsanlegar lausnir á samgöngumálum landsmanna. Einnig væri fróðlegt að vita, virðulegi forseti, eða heyra hvernig hæstv. ráðherra metur þá reynslu sem komin er af notkun vegriða á Íslandi, t.d. hvort hann taki undir eitthvað af þeim gagnrýnisröddum sem komið hafa fram um þessi tilteknu víravegrið sem eru nú á Hellisheiði.



[15:12]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef haft orð á því áður að skemmtilegt er að fá tækifæri til þess að ræða í sölum Alþingis um hönnun vega. Hér er hver sérfræðingurinn af öðrum sem talar um þau málefni.

En spurt er: „Hafa samgönguyfirvöld einhver áform um að fjölga víravegriðum á þjóðvegum landsins og ef svo er, hver eru þau áform?“

Svar mitt er svohljóðandi: Vegagerðin hefur nýlega endurskoðað reglur um vegrið. Samkvæmt þeim reglum er vegriðsgerð valin með hliðsjón af styrkleikaflokki, vinnubreidd og slysahættu samkvæmt ÍST EN 1317-2.

Þróun víravegriða hefur verið mikil á síðari árum og er nú verið að framleiða víravegrið í sífellt hærri styrkleikaflokki. Víravegrið eru talin kostnaðarlega hagkvæm borið saman t.d. við bitavegrið í sambærilegum styrkleikaflokki.

Víravegrið dregur minna að sér snjó en aðrar vegriðsgerðir sem er víða kostur. Vegagerðin velur hagkvæmustu vegriðsgerðir hverju sinni sem uppfylla þær kröfur sem reglur Vegagerðarinnar gera ráð fyrir hverju sinni. Að þessu gefnu má ætla að notkun víravegriðs á vegakerfinu aukist á næstu árum.

Nýjar reglur um hvar skuli setja upp vegrið eru strangari en eldri reglur. Af því leiðir að þeim stöðum mun fjölga þar sem setja þarf upp vegrið til að uppfylla kröfur um það umferðaröryggi sem að er stefnt. Áætlanir eru um uppsetningu á víravegriðum í tengslum við endurbyggingu hringvegar þar sem það á við.

Í viðhaldi og lagfæringum á vegakerfinu er unnið eftir ákveðnu verklagi um lagfæringu slysastaða. Uppsetning vegriða er oft hluti af því verkefni. Áætlun um lagfæringu slysastaða er unnin á hverju ári.

Í annan stað er spurt: „Hvernig metur samgönguráðherra þá reynslu sem komin er af notkun þessara vegriða hér á landi?“

Svar mitt er svohljóðandi: Þar sem skammur tími er liðinn frá því Vegagerðin hóf að setja upp víravegrið er ekki hægt að fullyrða enn sem komið er hvernig þau muni reynast þegar til lengri tíma er litið.

Öll víravegrið hér á landi eru á 2+1 vegi. Sú reynsla sem Vegagerðin hefur af víravegriðum fram til þessa er í fullu samræmi við þær væntingar sem voru við þau bundin. Þessi gerð vegriða hefur víða reynst mjög vel. Má þar nefna sérstaklega lönd eins og Svíþjóð og Skotland.

Þessi gerð vegriða eru almennt talin mjög hagkvæm með tilliti til virkni og kostnaðar. Kostir sem Vegagerðin getur staðfest eru t.d. að snjókóf er minna við víravegriðin en við hefðbundin bitavegrið. Þá hafa þau ýmsa aðra kosti, ekki síst þann að þau skerða útsýni minna en önnur vegrið.

Fljótlegt er að gera við þessi vegrið og einnig að taka þau niður gerist þess þörf. Nokkrar ákeyrslur hafa orðið á víravegrið en það hafa í flestum tilfellum verið eignartjón eða minni háttar óhöpp. Samkvæmt upplýsingum okkar í ráðuneytinu er það einnig mat lögreglu að reynslan af víravegriði sé góð fram að þessu.

Atvik þar sem ætla má að slys á vélhjólamönnum verði hugsanlega vegna víravegriða eru hverfandi. Sé miðað við upplýsingar frá Svíþjóð þá er það svo. Upplýsingar frá Svíþjóð liggja fyrir frá 1999. Samkvæmt upplýsingum frá Noregi hafa engin slys orðið á vélhjólamönnum þar sem víravegrið koma við sögu. Á Íslandi hefur verið lagt kapp á að gera víravegriðin sem öruggust. Stólparnir hafa m.a. verið hafðir þannig að sem minnst hætta skapist af árekstrum við þá.

Að lokum er rétt að endurtaka að víravegrið eru hagkvæmasta gerð vegriða. Má með því að nota þau setja upp vegrið á fleiri stöðum en ella væri. Þannig má bjarga fleirum fyrir þá takmörkuðu fjármuni sem ætlaðir eru til vegamála hverju sinni.

Niðurstaðan er sú að þar sem það á við er þetta góður kostur, og er að þróast. En ljóst er að það svæði sem er með svokölluð víravegriði á Hellisheiðinni, segja má að það sé þróunarverkefni og liggur fyrir að vegur af þeirri gerð sem þar er þyrfti að vera breiðari þegar um er að ræða 2+1 veg.



[15:17]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta verkefnið í vegamálum er að skilja að aksturstefnurnar. Í væntanlega mörgum tilfellum eru 2+1 vegir með vegriði og víravegriði ákjósanlegur kostur en þau hafa verið umdeild. Vélhjóla- og bifhjólaeigendur hafa deilt á notkun þeirra sums staðar og það er ágætt að fá fram nokkuð ítarlegar upplýsingar, samantekt og samanburðarupplýsingar frá mörgum löndum um hið rétta í málinu.

2+1 vegirnir eru að sjálfsögðu ágætur kostur þegar umferðarþungi er tiltekinn og vegaxlir og bratti út af veginum er með þeim hætti að það uppfyllir umferðaröryggiskröfur. Vegurinn um Svínahraun, sem við ræðum í dag og er oft notaður til viðmiðunar um 2+1 veg og víravegrið, er einfaldlega allt of mjór eins og fram kemur í samgönguáætlun. Það voru ákveðin mistök gerð þar að því leytinu. Við verðum að læra af þeim og hafa vegina heppilegri, af því að aðskilnaður akstursstefna skiptir svo gífurlega miklu máli og við verðum að finna bestu leiðina til þess. Auðvitað er besta leiðin 2+2, (Forseti hringir.) eyja eða bil en það á að sjálfsögðu ekki alls staðar við.



[15:18]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði þó viljað heyra aðeins skýrar hvað samgönguyfirvöld eru að hugsa varðandi víravegrið á öðrum stöðum. Hæstv. ráðherra sagði að ætlunin væri að setja upp slík vegrið þar sem það á við. Það hefði verið fróðlegt að fá að heyra nánar hvað menn eru að hugsa í þeim efnum. Mér heyrist á máli ráðherra að verið sé að skoða þetta á fleiri stöðum en í Svínahrauni og því held ég að fróðlegt væri að fá að heyra einhverjar hugmyndir um það.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra upplýsti um reynsluna af víravegriðinu í Svínahrauni eru það að sjálfsögðu jákvæðar fréttir að reynslan skuli hafa verið í samræmi við væntingar. Einnig að slys af völdum slíkra víravegriða hafi ekki verið alvarleg, a.m.k. enn sem komið er, og að reynslan frá nágrannalöndunum sýni að það hafi ekki orðið alvarleg slys til að mynda á bifhjólafólki í Noregi eða í Skotlandi, þó að ég hyggi, án þess að hafa kynnt mér það nánar, að þar séu aðstæður kannski að mörgu leyti með öðrum hætti en hér á landi. Við þyrftum að skoða það betur.

Það er alveg hárrétt sem hér kemur fram að vegurinn um Svínahraun er of mjór, hann hefði þurft að vera breiðari. Hann er óþægilega þröngur og að mörgu leyti skapar þetta óþægindi til að mynda í erfiðri færð og öðru þar fram eftir götunum. Þetta eru næstum því eins og járnbrautarteinar, það er mjög erfitt að snúa við ef eitthvað ber út af. Það er að sjálfsögðu mikill galli á því að velja þetta.

Ég tek náttúrlega undir það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði áðan, að framtíðarlausnin ætti náttúrlega að vera 2+2 vegur. Hin mjög svo góða og jákvæða (Forseti hringir.) reynsla okkar af Reykjanesbrautinni ætti að færa okkur heim sanninn um það.



[15:20]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt að hv. þingmenn fái sem bestar upplýsingar um þessa hluti. Eitt af því sem nauðsynlegt er að menn geri sér grein fyrir er það að hin svokölluðu víravegrið eru ekki eingöngu notuð til þess að aðskilja aksturstefnur heldur eru vegrið einnig þar sem bratt er fram af og háir kantar til þess að koma í veg fyrir alvarleg slys ef bílar aka út af. Þar hafa víravegriðin svokölluðu sannað gildi sitt þar sem er hætta á snjósöfnun og þar sem skafrenningur getur valdið vandræðum. Þau hafa síður safnað að sér snjó en þykku bitavegriðin.

Það er því á margt að líta í þessu. Ég held að það sé mjög gagnlegt að þingmenn velti þessu fyrir sér en aðalatriðið er auðvitað að hönnuðir veganna fái frið til þess að velja kosti byggða á rannsóknum og reynslu þeirra sem sinna hönnun vega og sjá um viðhald og þjónustu á vegakerfinu, því að ég held að líklegt sé að menn sem sinna vetrarþjónustu t.d. séu færari en venjulegir ökumenn sem fara um þjóðvegina um að meta hvar eigi að setja slík vegrið og hvernig þau eigi að vera, ég tala ekki um þá sem sinna hönnun og taka ákvarðanir um framkvæmdir. Ég treysti því vegagerðarmönnum og hönnuðum mjög vel til þess að velja hina réttu (Forseti hringir.) kosti á hverjum stað.