133. löggjafarþing — 71. fundur
 14. feb. 2007.
sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.
fsp. BjörgvS, 393. mál. — Þskj. 437.

[15:58]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég býð hæstv. landbúnaðarráðherra velkominn heim úr frægri Kanaríeyjaferð þar sem hann fundaði á Klörubar með framsóknarmönnum í skugga skoðanakannana og annarra atburða hér heima, en gott að fá hann heim aftur.

Ég er með mikilsverða fyrirspurn til ráðherrans og spyr hann hvort unnið sé að sameiningu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Ef svo er, hvenær er stefnt að sameiningunni? Ég spurði hæstv. ráðherra að því fyrir tveimur árum hvort til stæði að sameina þær stofnanir og hvort undirbúningsvinna að slíkri sameiningu væri hafin þar sem stofnanirnar vinna að mjög svipuðum markmiðum og voru upphaflega ein og sama stofnunin og unnu eftir sömu lögum. Í þá sameiningu yrði að sjálfsögðu að fara á jafnréttisgrunni o.s.frv. og rökin fyrir því væru mjög mörg. Hæstv. ráðherra svaraði því þannig til að hann útilokaði ekki að til þeirrar sameiningar gæti komið og fara þyrfti rækilega yfir það mál, eins og hann orðaði það.

Því spyr ég hann að þessu núna undir lok kjörtímabilsins hvort þeirri vinnu hafi fleygt eitthvað fram. Hvort hafið sé einhvers konar undirbúnings- eða sameiningarferli af því að það mundi að mínu mati, ef vel tækist til, skila sér í skilvirkara og markvissara starfi beggja stofnana sem vinna að sömu markmiðum í grunninn sem er að græða upp landið og efla skógrækt í landinu. Nýjar og öflugar aðferðir kæmu til sögunnar, aukin kynning á kortum og mikilvægi skógræktar og landgræðslu og þekkingarflæði á milli þessara tveggja stofnana þar sem býr eftir áratugastarf mikil og verðmæt þekking á þessum málum sem skiptir okkur Íslendinga mjög miklu máli. Nýja stofnunin mundi þá t.d. hafa eftirlit með framkvæmdaraðilum á þessum sviðum og stunda rannsóknir og þróun samhliða því. Þetta yrði því mjög mikilvæg vísindastofnun í umhverfi okkar einnig þannig að ávinningurinn yrði mikill ef að vel tækist til og ef farið væri í samvinnuna á jafnréttisgrunni.

Landgræðslan er umfangsmikil starfsemi en starfsemi Skógræktarinnar er það ekki að sama skapi. Í raun hefur starfsemi hennar þynnst svolítið út að því leyti að mörg staðbundin skógræktarverkefni eru í gangi sem heyra ekki beint undir skógræktina. Ég held því að mikilvægt væri að stokka þetta upp, sameina stofnanirnar á jafnréttisgrunni og úr yrði mjög öflug vísinda-, rannsóknar- og landgræðslustofnun sem mundi þjóna okkur Íslendingum og jarðarbúum öllum mjög vel á tímum örra loftslagsbreytinga sem að sjálfsögðu hafa mikil áhrif líka á gróðureyðingu, minnkandi gróðurþekju jarðar o.s.frv. Þetta er mikið umhverfis- og landbótamál. Þess vegna inni ég hæstv. ráðherra eftir svörum í umræddu máli.



[16:01]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um þessar miklu og góðu stofnanir sem Landgræðslan og Skógrækt ríkisins eru og þau verkefni sem þar hefur verið unnið að.

Hv. þingmaður spyr: „Er unnið að sameiningu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins? Ef svo er, hvenær er stefnt að sameiningunni?“

Ég vil strax í upphafi segja að engin ákvörðun hefur enn verið tekin um sameiningu og þess vegna er engin dagsetning til. Því er til að svara að í landbúnaðarráðuneytinu hefur á undanförnum árum verið unnið mikið í stofnanaumhverfi ráðuneytisins og í kjölfar þeirrar vinnu gerðar róttækar breytingar á mörgum stofnunum landbúnaðarráðuneytisins með það fyrir augum að einfalda og hagræða starfsemi þeirra. Rétt er að rifja upp að með lögum nr. 71/2004 voru Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Garðyrkjuskóli ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins sameinuð í eina stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands, sem starfar á nokkrum stöðum í landinu og er með aðalstöðvar sínar á Hvanneyri. Sömuleiðis var með lögum nr. 80/2005 sett á fót ný stofnun, Landbúnaðarstofnun, sem tók yfir starfsemi yfirdýralæknis, aðfangaeftirlits, plöntueftirlits, embætti kjötformanns og embætti veiðimálastjóra ásamt ýmsum verkefnum sem Bændasamtök Íslands höfðu haft með höndum. Landbúnaðarstofnun er með aðsetur á Selfossi þar sem ný og glæsileg aðstaða hennar var formlega tekin í notkun 26. október sl., eins og hv. þingmaður man. Mér er til efs að önnur ráðuneyti hafi unnið jafnmikið í sínu stofnanaumhverfi á síðustu árum eins landbúnaðarráðuneytið hefur gert til þess að hagræða og styrkja starfið.

Hvað varðar síðan hugmyndir um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktar ríkisins hefur það mál verið í vinnslu í ráðuneytinu í langan tíma. Á það skal bent að sameining stofnananna hefur verið skoðuð af fyrirrennurum mínum í starfi, nokkrum landbúnaðarráðherrum. Niðurstaða hefur enn ekki fengist um að ákvörðun hafi verið tekin um sameiningu. Enginn vafi er á að margt er líkt með starfsemi og hlutverki stofnananna, eins og hv. þingmaður kom inn á. Hlutverk þeirra hafa reyndar líka verið að breytast. Bændurnir rækta skóginn í landshlutabundnum verkefnum, það voru verkefni ríkisins áður, og bændurnir eru landgræðslubændur. En það er jafnljóst að ýmislegt er það sem aðskilur hlutverk þeirra og störf.

Til að fá sem gleggsta mynd af stöðunni skipaði ég haustið 2005 nefnd þar sem í áttu sæti fulltrúar beggja stofnananna, auk rektors Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri aðila, sem höfðu það hlutverk að kanna hvort og þá með hvaða hætti sameina mætti stofnanirnar. Starfi nefndarinnar lauk ekki fyrr en vorið 2006 enda um að ræða viðamikið verkefni sem nefndin vann með ágætum. Nefndin bendir á kosti og jafnframt galla við sameiningu stofnananna og ljóst er að að mörgu þarf að hyggja áður en til sameiningar kemur. Rétt er að benda á að báðar stofnanirnar standa þjóðinni ákaflega nærri og skoðanakannanir hafa sem betur fer sýnt að báðar njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Sem dæmi má nefna að einstaklingar hafa einnig ánafnað á dánarbeði öllum eigum sínum til þessara ríkisstofnana til að vinna móður jörð mikið gagn sem einnig kann að þykja skrýtið þegar ríkið á í hlut en sýnir í raun hug landsmanna til starfa þessara fyrirtækja í 100 ár.

Báðar eru þessar stofnanir rótgrónar stofnanir sem fagna 100 ára afmæli um þessar mundir, enda upphaflega ein og sama stofnun sem þó þótti rétt að aðskilja í tvær. Báðar hafa þær skilað frábæru verki, þjóðskógar risið upp í öllum landshlutum opnir almenningi þar sem ótrúlegur fjöldi landsmanna nýtur nú útivistar við skóginn og vistkerfi hans og heilu sandsvæðin og hundruð kílómetra af rofabörðum hafa verið grædd upp og varnað því að heilu byggðarlögin hafi farið undir sand svo dæmi séu tekin úr starfseminni.

Niðurstaða mín er sú að gefa málinu enn frekari tíma vegna þess, og það vil ég árétta, að vanda verður allan undirbúning og vera viss um að sameining þeirra skili jafngóðum eða betri árangri en starfsemin gerir í dag. Það þarf að vanda allt í þessu sambandi og menn þurfa að ná samstöðu innan beggja fyrirtækjanna og ganga í verkið af heilum hug þegar búið er að baka það brauð. Ég segi við hv. þingmann að mér þótti, þegar þetta var ekki lengra komið hjá mér á haustþingi, erfitt að fara með það inn á svo stutt þing. Þessi verkefni eru því enn á dagskrá og bíða næsta þings.



[16:06]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir greinargott og prýðilegt svar og tek í sjálfu sér undir allt sem hann sagði um markmið stofnananna og hinnar nýju, nái hún fram að ganga. Bæði Landgræðslan og Skógrækt ríkisins hafa skilað mjög stórbrotnum árangri á Íslandi á þeim 100 árum sem þær hafa starfað með einum eða öðrum hætti. Þær hafa afskaplega jákvæða áru og jákvæða ímynd. Þarna blandast saman hugsjónastarfsemi, það besta úr íslenskum landbúnaði og svo margt annað kemur saman í þeim stofnunum þar sem það snertir við flestum ef ekki öllum Íslendingum mikilvægi þess að græða landið. Sé farið um sandana fyrir austan eða annars staðar blasir við öllum hvað þetta er mikilvægt og áríðandi verkefni. Markmiðið er að sjálfsögðu aðeins eitt, eins og hæstv. ráðherra sagði, að vanda þannig til verka að báðar stofnanirnar gangi heils hugar að verkinu og hinni nýju stofnun og það skili okkur í öllum markmiðum betri og markvissari starfsemi á þessum sviðum öllum.

Það eru þrjú ár síðan ég spurði hæstv. ráðherra um þetta og hann tók undir hið pólitíska markmið að sameina stofnanirnar, sem ég er nokkuð sannfærður um að við eigum að einbeita okkur að og setja af stað sameiningarferli sem við þurfum að gefa þann tíma sem þarf að taka. Fyrir liggur eftir þetta svar frá hæstv. ráðherra landbúnaðarmála að það verður ekki á þessu þingi eða þessu kjörtímabili. Það er ekki nema mánuður eftir af þinginu og 90 dagar eftir af kjörtímabilinu. Þetta bíður því nýs þings.

Umræðan hefur alla vega átt sér stað á Alþingi tvisvar eða þrisvar á kjörtímabilinu og liggur fyrir pólitískur vilji í a.m.k. þessum flokkum til að ráðast í verkefnið. Vonandi gengur ný ríkisstjórn að því verki á vori komanda og heldur því áfram.



[16:08]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna á ný og það sem hann nefndi hér margt. Fyrir liggur að þetta er ekki einfalt verk. Hins vegar er alltaf slæmt þegar stofnanir búa við langtímaóvissu og umræðu eins og þessa. Það veldur oft óróa innan fyrirtækja, áhyggjum starfsfólks o.s.frv. Menn þurfa því auðvitað að komast að niðurstöðu um það.

Margt ber að hafa í huga sem hefur breyst, eins og hv. þingmaður kom inn á, bæði landshlutabundnu verkefnin og landgræðslubændurnir sem hafa tekið við framkvæmdarþætti á mörgum sviðum í landinu og er eðlilegt. Þess vegna eru þær stofnanir meira rannsóknastofnanir og eftirlitsstofnanir og gegna kannski enn þá stærra lykilhlutverki en áður til þess að gefa bæði ráðgjöf og fylgjast með landinu. Hlutverkið hefur breyst. Svo er náttúrlega kominn hinn stóri Landbúnaðarháskóli sem er í gríðarlegri þróun. Þar var ég staddur í morgun og mikill áhugi er á því námi, þar er akademía og vísindalegt umhverfi að verða og skólinn eflist með hverju missirinu. Þar eru stór og mikil áform. Þessir þrír aðilar komu að umræðunni og mikilvægt að flana ekki að því, eins og ég sagði.

Svo eru náttúrlega tilfinningar í þessu. Mikilvægustu staðir Skógræktarinnar eru hjartastaðurinn Hallormsstaður og Austurland, Gunnarsholt með sína sterku sögu og mikla starf sem þar hefur verið unnið. Það er því margs að gæta. Þessi fyrirtæki standa bæði sterkum fótum, vinna mikið og gott starf. Þau þurfa því ekki að óttast um vilja þings eða þjóðar en það er auðvitað mjög mikilvægt sem fyrst á næsta kjörtímabili að koma þessu í örugga höfn þannig að óvissu sé eytt og menn viti hvert stefnt er.