133. löggjafarþing — 75. fundur
 21. feb. 2007.
barna- og unglingageðdeildin.
fsp. ÁRJ, 171. mál. — Þskj. 171.

[12:32]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Fyrirspurnin sem ég mæli fyrir er orðin nokkuð gömul, hún er frá því í byrjun október. Þá lagði ég fram tvær fyrirspurnir af svipuðu tagi, aðra til hæstv. félagsmálaráðherra og hina til heilbrigðisráðherra. Fyrir tveimur vikum ræddi ég fyrirspurnina við hæstv. félagsmálaráðherra um biðtíma eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og samstarf hennar og barna- og unglingageðdeildar. En nú beini ég sem sagt fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um þann hluta sem að honum snýr, sem hljóðar svo:

1. Hvenær má búast við að bið eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildarinnar verði komin í viðunandi horf? Hvenær er gert ráð fyrir að biðin verði komin niður í sex mánuði og hvenær undir þrjá mánuði?

2. Hvað þarf barn sem hefur fengið fötlunargreiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og þarf aðstoð barna- og unglingageðdeildarinnar eða innlögn vegna geðrænna vandamála að bíða lengi?

3. Hvernig er samstarfi Greiningarstöðvarinnar og barna- og unglingageðdeildarinnar háttað hvað varðar þjónustu við börn með einhverfueinkenni og geðræn vandamál?

Nokkur umræða hefur verið í vetur vegna óviðunandi biðtíma eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar og að eftir hana taki við önnur löng bið eftir þjónustu Greiningarstöðvar eða öfugt. Barnið fær á meðan ekki þjónustu við hæfi, t.d. í skóla, en biðin getur varað nokkur ár. Nokkur ár eru langur tími í lífi barns sem er fatlað, veikt og þarf þjónustu.

Hæstv. félagsmálaráðherra staðfesti að bið eftir greiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni geti verið allt að þrjú ár hjá börnum á skólaaldri, a.m.k. það sem snýr að einhverfu og þroskahömlun. Dæmi eru um að barn fari inn á barna- og unglingageðdeild í greiningu eftir ársbið og sé síðan vísað á Greiningarstöð í nánari greiningu. Öll þessi bið er í óþökk allra, starfsfólksins, foreldranna og ekki síst bitnar hún á viðkomandi barni. Þetta er mjög alvarlegt ástand. Þessi staða, þessi langa bið eftir þjónustu, kallar á meira samstarf þessara stofnana. Það samstarf er nauðsynlegt, annað bitnar á börnunum sem eru án þjónustu í langan tíma.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði í svari sínu til mín að þegar búið væri að vísa barni til beggja stofnana væri leitast við að hafa samráð en það kannast því miður enginn við að barni hafi verið vísað á báðar stofnanir í einu. Þetta var mér bent á eftir umræðuna við félagsmálaráðherra. En það er mjög mikilvægt að því verði komið á til að stytta þessa bið. Það er sárt að vita til þess að barn sem ekki hefur fengið greiningu fái ekki þá þjónustu og skilning sem það þarf því að eyrnamerktir peningar fylgja barninu með greiningunni inn í skólana. Það þarf samvinnu því annars þurfa menn að bíða eftir umönnunarbótum frá Tryggingstofnun sem þeir fá ekki nema greiningin sé komin.

Ég bið hæstv. ráðherra um svör við þeim spurningum sem ég las upp áðan.



[12:35]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s. hefur beint til mín fyrirspurn í þremur liðum um barna- og unglingageðdeildina. Ég vil sérstaklega þakka hv. alþingismanni fyrir þessa fyrirspurn því hún gefur kost á að varpa ljósi á þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til með það að markmiði að reyna að stytta biðlista á barna- og unglingageðdeildina. Fyrst er spurt:

„1. Hvenær má búast við að bið eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildarinnar verði komin í viðunandi horf? Hvenær er gert ráð fyrir að biðin verði komin niður í sex mánuði og hvenær undir þrjá mánuði?“

Því er til að svara að ég geri ráð fyrir að hér sé verið að óska upplýsinga um biðlista vegna göngudeildarþjónustu þar sem bið eftir innlögn er alla jafna stutt. Ekki er unnt að svara með óyggjandi hætti nákvæmlega hvenær bið verður komin niður í sex mánuði og hvenær undir þrjá mánuði. Það ræðst m.a. af því hvernig tekst að framfylgja aðgerðaráætlun minni sem var kynnt 21. september sl. og var í níu liðum. Meginmarkmið þeirrar áætlunar er einmitt að stytta bið eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildarinnar, m.a. með því að flytja hluta þjónustunnar á lægra þjónustustig þar sem sú þjónusta á heima jafnframt því að auka með margvíslegum hætti þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Fjölmargir hafa lýst ánægju með þessa aðgerðaáætlun, nú síðast stjórnir Sálfræðingafélags Íslands, Iðjuþjálfafélags Íslands og Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa.

Á fundi í ráðuneytinu daginn áður en ég kynnti þessa áætlun lýstu bæði yfirlæknir BUGL og formaður Félags barna- og unglingageðlækna því yfir að þau teldu aðgerðirnar til þess fallnar að stytta biðlista á BUGL. En ég veit að það er mjög mikill og skýr vilji hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilsugæslustöðvunum um landið til að takast á hendur þau nýju viðfangsefni sem þeim hafa nú verið falin. Ég er sannfærð um að ef allir leggjast á eitt við að framkvæma þessa aðgerðaáætlun munu biðlistar styttast verulega og vonandi hverfa þó erfitt sé að fullyrða um það á þessu stigi. En ég vil líka taka fram að sviðsstjóri hjúkrunar á geðdeildinni sagði á opinberum vettvangi í tilefni af aðgerðaáætluninni að hún teldi að með því að fylgja henni myndu biðlistar styttast mjög verulega eða hverfa á yfirstandandi ári en þá þurfa auðvitað allir að vinna að sama markmiðinu. Nú er heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins að ráða til sín sálfræðinga til að sinna þessum málum og búið er að koma á farþjónustu á nokkrum heilsugæslustöðvum um landið svo að hægt sé að sinna börnunum á heimavettvangi.

„2. Hvað þarf barn sem hefur fengið fötlunargreiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og þarf aðstoð barna- og unglingageðdeildarinnar eða innlögn vegna geðrænna vandamála að bíða lengi?“

Því er til að svara að samkvæmt upplýsingum frá yfirlækni BUGL og deildarstjóra göngudeildar þar bíða bráðamál af þessu tagi ekki og forgangsmál eru að öllu jöfnu tekin fyrir innan fárra vikna. Milli stjórnenda Greiningarstöðvar ríkisins og barna- og unglingageðdeildarinnar er óformlegt samkomulag í gildi þess efnis að gagnkvæm þjónusta sé veitt með þeim hætti að barn sem fengið hefur þjónustu á öðrum staðnum þurfi ekki að bíða á hinum.

„3. Hvernig er samstarfi Greiningarstöðvarinnar og barna- og unglingageðdeildarinnar háttað hvað varðar þjónustu við börn með einhverfueinkenni og geðræn vandamál?“

Því er til að svara að greining og meðferð vægari raskana með svokölluðu einhverfuprófi fer fram á barna- og unglingageðdeildinni. Börnum með einhverfuraskanir sem leiða til fötlunar er vísað til Greiningarstöðvarinnar og á þjónustu svæðisskrifstofu fatlaðra. Börn með einhverfueinkenni af þeim toga að þau þarfnast innlagnar vegna alvarlegra geðrænna einkenna eru lögð inn á legudeild barna eða unglinga á barna- og unglingageðdeildinni. Að mati stjórnenda BUGL er samstarf deildarinnar og Greiningarstöðvarinnar gott.

Ég vil líka taka fram að í gær var tekin skóflustunga að nýju göngudeildarhúsi við barna- og unglingageðdeildina, það er verk sem hefur beðið um sinn. Safnað var til þess fjármagni frá mörgum öflugum félagasamtökum og ég lagði mjög mikla áherslu á það í fjárlagagerð síðasta árs að klára fjármögnun þessa verkefnis og það tókst. Nú er það verk hafið og það hús verður risið í maí á næsta ári og mun stórbæta alla aðstöðu fyrir göngudeildarþjónustuna. Ég tel að þar hafi afar brýnum áfanga verið náð til hagsbóta fyrir þessi börn.



[12:40]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað gott að hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skuli hafa lagt fram aðgerðaáætlun í september sl. Það er ágætt. Þá hafði Framsóknarflokkurinn setið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti í 15 ár eða svo. Það er líka mjög gott að í gær hafi verið tekin skóflustunga að göngudeild við barna- og unglingageðdeild. Ef ég man rétt voru teikningar af þessari stækkun tilbúnar fyrir átta árum, gætu verið sjö ég held að þau séu átta. Hún var fyrst kynnt fyrir sex árum, aftur fyrir rúmum fimm árum, henni var lofað fyrir síðustu kosningar 2003 og aftur í fyrra minnir mig og nú er enn einu sinni á ferð loforðið um stækkun BUGL vonum seinna, en það er þó gott að búið er að taka fyrstu skóflustunguna. Það er líka eftirtektarvert að göngudeildin er m.a. byggð fyrir framlög félagasamtaka og einstaklinga en ekki einvörðungu fyrir framlög úr ríkissjóði.



[12:42]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn. Börn og unglingar eru viðkvæmur hópur, hver mánuður skiptir máli og þegar við geðræn vandamál er að glíma má ekki verða dráttur á þjónustu eins og verið hefur. Það er okkur til vansa.

Það er okkur til vansa hvað dregist hefur að ráðast í þá byggingu sem skóflustunga var tekin að í gær. Það eru nokkur ár síðan teikningar voru tilbúnar og að það skuli þurfa að safna af almannafé og félaga til að fara af stað með slíka byggingu er hryggileg staða. Það þarf að stórauka geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga og geðheilbrigðisþjónustuna í hinni almennu heilsugæslu. Þetta á að vera hluti af almannaþjónustu. Við verðum að fara að koma sálfræðingum inn í greiðslufyrirkomulag Tryggingastofnunar ríkisins og reyna að koma þessu í lag. Það væri hægt að hafa mörg orð um þetta en ég ætla að vona að við förum að sjá fjármagn inn í þennan málaflokk.



[12:43]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Loksins dróst hún upp úr jörðinni, skóflan með fyrstu moldinni vegna byggingar yfir BUGL. Eftir sex ára árangursleysi með söfnunarfé frá almannasamtökum, sem er að sjálfsögðu ekkert annað en áfellisdómur um getuleysi ríkisvaldsins í þessu máli. Um er að ræða brotnustu börnin, langa biðlista ár eftir ár, eilíf slagsmál foreldra barna sem þjást af geðröskunum og geðrænum vandamálum við að fá þjónustu fyrir börnin sín — áfellisdómur um árangursleysi heilbrigðisyfirvalda í þessu máli. Þetta mál er allt hinn mesti ósómi fyrir íslenska ríkið og ríkisstjórnina. Það er eiginlega grátlegt að þurfa ár eftir ár að byrja á sama núllpunktinum aftur og aftur. En nú nokkrum dögum fyrir kosningar tekur hæstv. heilbrigðisráðherra fyrstu skóflustunguna, sex árum eftir að átti að vera búið að byggja yfir BUGL. Gott og vel. Ég veit ekki hversu alvarlega fólk tekur það en þetta mál er allt yfirvöldum til minnkunar.



[12:44]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Full ástæða er til að óska okkur öllum til hamingju með að farið er að byggja við BUGL. Í tilefni af orðum hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar á undan mér þá er engin skömm að því að nýta söfnunarfé frá aðilum úti í bæ. Það er sterk hefð fyrir því. Ég bendi m.a. á að Landspítalinn var á sínum tíma byggður fyrir fé sem var safnað af kvenfélögunum og það sama á við um Barnaspítala Hringsins.

Ég kem hingað upp ekki síst til þess að ræða um þá mikilvægu aðgerðaáætlun sem kom fram sl. haust í málum geðfatlaðra barna. Hún er til þess fallin að stytta biðlista eftir þjónustu og færa þjónustuna á það stig að hægt verði að bregðast við áður en börn þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Með því móti er þörfum barnanna og fjölskyldna þeirra betur mætt og þeim er mætt á réttu þjónustustigi.



[12:45]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem orðið hefur um fyrirspurnina. Hún hefur verið gagnleg og það er rétt að ástæða er til að gagnrýna það hversu hægt hefur gengið í uppbyggingu á barna- og unglingageðdeildinni. Henni hefur verið lofað mjög oft og í gær var fyrsta skóflustungan loksins tekin.

Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við fyrirspurnum mínum. Hæstv. ráðherra segir að ef staðið verði við aðgerðaáætlunina muni biðin leysast á þessu ári. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði líka um í svari sínu fyrir tveimur vikum að vandinn vegna biðar mundi leysast á árinu 2008. Ég leyfi mér að hafa efasemdir vegna þess að þetta hefur enginn af þeim heyrt sem eru að bíða eftir þjónustunni. Foreldrum hefur verið bent á, sérstaklega vegna barna á skólaaldri, að biðin geti verið allt að þrjú ár. Það er enn verið að segja þetta við foreldra. Og vegna þeirra svara í sambandi við börn sem þurfa þjónustu barna- og unglingageðdeildar vegna geðrænna vandamála, þá er það svo að ég veit dæmi þess að fólk er að bíða eftir mjög lítilli þjónustu allt of lengi. Ég veit um nokkur dæmi. Ég bið því hæstv. ráðherra að skoða þetta nánar og beita sér í því, þann stutta tíma sem hún á eftir í embætti, að þeirri þjónustu við börn sem bíða verði flýtt og einnig að aukin samvinna verði á milli stofnananna. Báðir hæstv. ráðherrar hafa svarað þeim spurningum mínum á þann veg að samvinnan sé góð. Ég vona að það sé rétt og ég held að það sé rétt og að allir vilji hafa það þannig, en hún er ekki alveg nægilega mikil. Þar þarf ráðherra að taka til hendinni og beita sér fyrir því að hún verði enn þá meiri og foreldrar þurfi ekki að bíða með börn sín eins og staðan er nú.



[12:48]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikilvægt að draga fram í þessu sambandi að bráðamálin bíða ekki, þau eru alltaf í forgangi, en það hefur verið biðlisti vegna annarra mála og með aðgerðaáætluninni bind ég vonir við að biðlisti styttist. Vonandi hverfur hann. Það er auðvitað alltaf erfitt að fullyrða um slíkt en að því er stefnt. Ég vísa aftur í orð sviðsstjóra á hjúkrunar- og geðdeildinni sem taldi að þeir gætu styst eða jafnvel horfið á þessu ári. Árið er ekki liðið og við vitum ekki nákvæmlega hvernig til tekst með aðgerðaáætlunina en að minnsta kosti er hún góð og henni hefur verið fagnað almennt af m.a. foreldrasamtökum barna og við vinnum eftir henni af eins miklum sóma og okkur er unnt.

Göngudeildarbyggingin, sem getið var um í fyrra svari mínu, hófst í gær en gefið var í skyn áðan að þetta væri kannski eitthvert blöff eða eitthvað slíkt en það er alls ekki. Búið er að fjármagna bygginguna þannig að fjármagnið er komið í höfn. Það er rétt að félagasamtök komu með hluta af fjármagni inn og ríkið kom með rest og einnig var ein eign seld upp í þetta sem hafði verið nýtt af Landspítalanum á fyrri tíð.

Ég tel að mjög vafasamt sé þegar þingmenn fara að hallmæla því að gefið sé fé í svona verkefni. Hér var hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sérstaklega að hallmæla því. Ég tel að það sé mjög gott ef frjáls félagasamtök gefa í góð verkefni. (Gripið fram í.) Ég vil sérstaklega minna á að konur byggðu t.d. Landspítalann næstum því einungis … (Gripið fram í.) Konur gáfu í tilefni þess að þær fengu kosningarrétt, ég held að þær hafi gefið einn þriðja eða helming af framkvæmdafénu, sem var alveg ótrúlega góður árangur. Ég tel því að frjáls félagasamtök geti komið til hjálpar bæði varðandi tækjakaup og annað í góð verkefni.