133. löggjafarþing — 75. fundur
 21. feb. 2007.
rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.
fsp. SigurjÞ, 315. mál. — Þskj. 337.

[13:05]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fram fari útboð á rekstri þeirra dvalar- og hjúkrunarrýma sem ráðherra hefur boðað á næsta kjörtímabili og að þjónusta sem þar á að veita verði skilgreind með þjónustusamningum við viðkomandi stofnanir?

Það verður að segjast eins og er, því miður, að ekki er skilgreind nein lágmarksþjónusta á þeim stofnunum þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi gefið út það álit að slíkt skuli gert. Það kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá haustinu 2005, eða fyrir einu og hálfu ári, að það beri að gera, enda hljótum við að gera þá kröfu að skilgreind sé einhver lágmarksþjónusta. Við höfum því miður dæmin fyrir okkur að sú þjónusta sem öldruðum er boðið upp á er ekki boðleg og m.a. má benda á að sumir aldraðir búa við það að þurfa að búa í þvingaðri sambúð með öðrum inni á herbergjum. Þegar verið er að veita svona háar upphæðir, eins og veitt er í þennan málaflokk, 15 þús. milljónir árlega, hlýtur að þurfa að skilgreina hvaða þjónustu á að veita fyrir þessa háu upphæð til að ná árangri. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og nú vil ég ítreka spurninguna hvort hæstv. ráðherra hyggist þá gera einhverjar lágmarkskröfur til þeirra nýju stofnana sem verið er að setja á fót. Mér finnst það vera lágmark að það verði gert.

Við verðum að gæta að því að það ástand sem við búum við í þessum málaflokki er ófremdarástand. Það er ófremdarástand þegar fram kemur í skoðanakönnun sem tímaritið Ísafold gerði að mikill meiri hluti landsmanna vill ekki dvelja á þessum heimilum. Það segir auðvitað sína sögu um ástand málaflokksins, að meiri hluti landsmanna vilji ekki sætta sig við að þiggja þá þjónustu sem hið opinbera á að veita. Og við höfum því miður, frú forseti, nýleg dæmi um að þegar þjónusta sem verið er að veita af opinberu fé sem átti að nýta til góðrar starfsemi, er ekki skilgreind og peningar veittir eftirlitslaust til slíkrar starfsemi, þar nefni ég m.a. Byrgið. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar fjármunir eru veittir án þess að það sé með nokkrum hætti skilgreint til hvers á að nota viðkomandi peninga. Við sem viljum fara vel með opinbert fé hljótum því að gera þá kröfu að gerðir verði einhverjir þjónustusamningar í þessum málaflokki. Annað er óásættanlegt, virðulegi forseti.



[13:08]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur beint til mín svohljóðandi spurningu:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fram fari útboð á rekstri þeirra dvalar- og hjúkrunarrýma sem ráðherra hefur boðað á næsta kjörtímabili og að þjónusta sem þar á að veita verði skilgreind með þjónustusamningum við viðkomandi stofnanir?“

Virðulegur forseti. Ég vil taka fyrst fram að engin áform eru um að fjölga dvalarrýmum eins og spurningin hljóðar upp á, enda eru það úrræði sem eru á undanhaldi og hafa verið um langa hríð. Við erum að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými, það er þróunin. Dvalarrýmum hefur því farið fækkandi en hjúkrunarrýmum fjölgandi.

Fyrir liggur ákvörðun um að byggja á næstu fjórum árum um 374 hjúkrunarrými víðs vegar um landið. Þau eru flest á höfuðborgarsvæðinu og undirbúningur þessara framkvæmda er þegar hafinn. Ekki er skylt að bjóða út rekstur hjúkrunarheimila samkvæmt lögum um opinber innkaup, nr. 94/2001. Á undanförnum árum hafa fáir viljað taka að sér rekstur hjúkrunarheimila en á síðustu missirum hefur hins vegar komið fram vaxandi áhugi á slíkum rekstri og margir reyndir og traustir aðilar hafa sóst eftir að taka að sér rekstur hjúkrunarheimila. Við þessa breytingu á framboði á rekstraraðilum eykst að sjálfsögðu krafan um jafnræði og gagnsæi við ákvarðanatöku. Því hefur verið ákveðið að auglýsa eftir rekstraraðilum með markmið laga um opinber innkaup að leiðarljósi, þ.e. að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri.

Ég hef með bréfi til fjármálaráðuneytisins óskað eftir afstöðu þess til þess hvort víkja megi frá þeirri kröfu þegar sérstaklega stendur á. Svar við þessu liggur ekki fyrir. Ég vil taka fram að þegar sveitarfélög taka að sér rekstur hjúkrunarheimila er ekki auglýst eftir rekstraraðilum. Greiðslur daggjalda á hjúkrunarheimilum byggjast á sérstöku greiðslulíkani heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Líkanið tekur mið af umönnunarþyngd þeirra sem vistast í hjúkrunarrýmum og mönnunarþörf. Við val á rekstraraðila er útbúin kröfulýsing þar sem lýst er nákvæmlega þeim kröfum sem ríkið hyggst gera til þjónustu og aðbúnaðar á viðkomandi heimili. Samkeppni milli bjóðenda byggist því ekki á keppni um verð heldur um gæði þjónustunnar sem verið er að bjóða. Þegar val á rekstraraðila hefur verið staðfest er jafnframt komið á ígildi þjónustusamnings sem byggir á fyrrgreindri kröfulýsingu og upplýsingum bjóðenda.

Hvað varðar það að oft er gefið í skyn að stjórnvöld viti ekki hvað þau eru að kaupa vil ég taka fram að í lögum um málefni aldraðra kemur fram hvaða grundvallarkröfur eru gerðar til hjúkrunarheimila og hvaða þjónusta skuli veitt. Nánari skilgreiningar á þjónustu koma fram í reglugerð nr. 422/1992, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu og í skilmálablöðum ráðuneytisins um rekstur og uppbyggingu hjúkrunarheimila aldraðra er fjallað ítarlega um kröfur varðandi aðbúnað og þjónustu. Loks eru RAI-mælingarnar, sem fjallað er um í reglugerð nr. 546/1995, um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum. RAI-kerfið er mjög mikilvægt tæki jafnt til að setja markmið um gæði og til þess að sinna eftirliti með þjónustu öldrunarstofnana.

Virðulegur forseti. Ég vil líka af þessu tilefni lýsa því hvar þessi 374 nýju hjúkrunarrými eiga að rísa. Það eiga að rísa 110 rými við Suðurlandsbrautina og þar eru framkvæmdir við jarðvegsvinnu hafnar. Af þessum 110 rýmum eru 40 rými fyrir heilabilaða og 10 rými fyrir geðsjúka. Þá eru 90 rými á svokallaðri Lýsislóð en þar koma bæði Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður að og síðan verða byggð 174 rými á eftirtöldum svæðum: 20 rými á Sjúkrahúsi Suðurlands, 44 í Kópavogi, 20 í Mosfellsbæ, 30 í Reykjanesbæ og Hafnarfirði, 10 á Ísafirði og 20 í Garðabæ. Ég tel mjög mikilvægt að draga það fram að nú þegar erum við að vista hærra hlutfall aldraðra á stofnunum en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Samt erum við að bæta við 374 nýjum rýmum. Ég tel að þegar búið verður að byggja þau upp, sem verður á næstu fjórum árum, sé líklegt að við séum búnir að byggja nóg. Það er erfitt að fullyrða það en mér finnst það mjög líklegt miðað við það sem við sjáum í nágrannaríkjum okkar. Ég tel að sveitarfélögin verði að stórherða sig varðandi heimaþjónustu, félagslega heimaþjónustu fyrir aldraða og ríkisvaldið hefur verið á síðustu árum að stórauka framlög til heimahjúkrunar og það munum við halda áfram að gera. Félagsþjónusta sveitarfélaga og hlutur sveitarfélaga er því gífurlega stór og þau verða að standa sig betur en þau hafa gert. Sum hafa gert þetta vel, meiri hluti hefur dregið úr félagslegri heimaþjónustu og það hefur skapað mjög mikið óöryggi og skapað þrýsting á biðlista inn á hjúkrunarheimili.



[13:14]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í október 2005 kemur fram að munur sé á gæðum og magni þjónustu eftir stofnunum. Það kemur reyndar orðrétt fram að ekki sé alltaf samsvörun á milli kostnaðar og þjónustustigs. Það er auðvitað, virðulegi forseti, fráleitt að ríkissjóður sé að greiða út 15 milljarða kr. á ári án þess að um sé að ræða samning við þann aðila sem veitir þjónustuna þar sem skilgreind er sú þjónusta sem hver einstaklingur á rétt á að fá og eitthvert eftirlit sé með því að einstaklingarnir fái þá þjónustu sem ríkið er að leggja peninga út fyrir þá.

Ég minni á, virðulegi forseti, að það vekur undrun að sum heimili virðast geta safnað fé í sjóði sem þau síðan nota til bygginga. Hvaðan kemur það fé annars staðar en frá ríkinu sem á að nota til þjónustu fyrir íbúana en virðist ekki vera gert?



[13:15]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg spurning hjá hv. þingmanni og ástæða til bæði að þakka honum fyrir hana og vekja athygli á henni. Það er nú svo að stærsti hluti öldrunarstofnana er rekinn af öðrum en opinberum aðilum. Margir hafa áhuga á að takast á við þetta verkefni eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Það er viðurkennt að útboð tryggja jafnræði milli aðila og tryggja jafnframt að ríkið geti metið besta kostinn með tilliti til þjónustu, gæða og pyngju ríkisins.

Það kom einmitt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða frá því í október 2005 að mjög mikill munur er á þjónustu milli öldrunarstofnana. Það er mikil þörf á að skilgreina þetta, hvaða þjónustu á að veita, hvað fellur undir samninginn, og ég tel að þjónustusamningar séu best til þess fallnir að ná því markmiði. Ég minni m.a. á að í fyrirspurn síðastliðið haust kom fram að sumar öldrunarstofnanir færa kostnað af þvotti á einstaklingana sem veldur mikilli mismunun.



[13:16]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að daggjaldagreiðslur, bæði til dvalar- og hjúkrunarheimila, eru allt of lágar í dag. Það hefur sérstaklega valdið hjúkrunarheimilunum miklum erfiðleikum sem hefur orðið til þess að þau hafa brugðið á það ráð að taka upp ýmis sparnaðarráð sem eru ekki til eftirbreytni, m.a. komið þvotti og annarri þjónustu yfir á aðstandendur. Það hefur gengið svo langt að aðstandendur hafa meira að segja tekið að sér hluta af eftirliti eða dagþjónustu inni á deildunum og þetta er náttúrlega ekki til fyrirmyndar. RAI-matið mun að einhverju leyti koma til móts við þetta.

Ég vara við því að menn horfi eingöngu á útboð, mér þykir eðlilegra að horfa til þess að ekki sé verið að hafa þennan rekstur að féþúfu fyrir þá sem vilja reka slíkar stofnanir, að ekki sé horft á rekstur út frá arðsemiskröfum. Í því sambandi vil ég benda á góða þjónustu DAS og þeirra sem hafa rekið öldrunarþjónustu með sameignarforminu.



[13:17]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða og ég er á þeirri skoðun að ríkisvaldið eigi ekki fela öðrum verkefni og þjónustu fyrir sig fyrir þriðja aðila án þjónustusamninga þar sem tilgreint er hvaða þjónustu eigi að veita, hvaða aðbúnað, hversu mikið það á að kosta og það á að vera samræmi í þeirri þjónustu. Það er ófremdarástand í þessum málum eins og hv. fyrirspyrjandi benti hér á. Það eru 70 manns á biðlista inni á Landspítala eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili, 400 bíða í brýnni þörf, 900 eru þvingaðir í samvist með ókunnugum o.s.frv. Gamla fólkið er látið borga fyrir þjónustu af mjög lágum vasapeningum og dæmi eru um að fólk sem er inni á þessum stofnunum hafi ekki einu sinni efni á að kaupa sér gleraugu vegna þess að vasapeningarnir fara allir í að greiða fyrir þjónustu sem það þarf nauðsynlega á að halda inni á stofnuninni.



[13:19]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Framsóknarflokkurinn hefur ráðið þessum málaflokki vel á annan áratug og ég held að sé nóg komið. Þegar maður hlustar á hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er nokkuð ný í starfi, virðist ekki vera um neina stefnubreytingu að ræða. Ég gat ekki betur heyrt en að þetta ætti að ráðast af einhverjum útboðum í stað þess að vera með skýra stefnu um að gera eigi þjónustusamninga með lágmarkskröfum til þess að ná fram þeim árangri sem þarf að nást í þessum málaflokki. Auðvitað eiga menn að skilgreina í hvað peningarnir eiga að fara. Þetta er ekki bara mín skoðun heldur kemur þetta fram m.a. hjá helstu sérfræðingum á sviði þessa málaflokks, sérfræðingum í öldrunarfræðum, að þetta sé leiðin til að ná árangri.

Ég minni á að á fundi í heilbrigðisnefnd síðastliðið haust komu aðstandendur aldraðra og sögðu frá því að þeir væru jafnvel farnir að leggja fram fé úr eigin vasa til þess að fá fyrir þá lágmarksþjónustu. Mér finnst það vera lágmarkskrafa til stjórnvalda að þau skilgreini hvaða þjónustu þau ætla að fá. Síðan verð ég að segja að mér finnst algjörlega ótækt þegar farið er af stað með ný hjúkrunarheimili og ekki verið með skýra stefnu hvað þetta varðar og það er í rauninni fyrir neðan allar hellur.

Ég vonast til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra taki tillit til þeirra tilmæla sem koma fram hjá Ríkisendurskoðun þannig að við þurfum ekki að fara í gegnum sömu fréttatímana ár eftir ár þar sem sýnt er frá hjúkrunarheimilum þar sem algert ófremdarástand ríkir. Við viljum fá breytingar í þessum málaflokki og til þess að svo verði þarf ráðherra að taka einhverja stefnu í málaflokknum og skýra þá lágmarksþjónustu sem veita á fyrir opinbert fé.



[13:21]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er eins og hv. þingmaður hafi ekki hlustað á fyrra svar mitt (SigurjÞ: Ég hlustaði.) en þar kom fram að við val á rekstraraðila er útbúin kröfulýsing þar sem lýst er nákvæmlega þeim kröfum sem ríkið hyggst gera til þjónustu og aðbúnaðar á viðkomandi heimili. Ég var líka búin að koma því hér á framfæri að í lögum og reglugerðum eru gerðar kröfur til þess hvaða þjónusta skuli veitt og það er líka á skilmálablöðunum og líka gagnvart RAI-matinu.

Varðandi eftirlitið þá vil ég koma því á framfæri að við fáum ársskýrslur frá þessum heimilum og að landlæknisembættið sinnir eftirliti með þjónustu hjúkrunarheimila. (SigurjÞ: Ef það eru engar lágmarkskröfur, hvernig á þá eftirlitið að vera?) Þetta er ekki eins og hér sé verið að draga upp að þetta sé eftirlitslaust og menn viti ekkert hvað verið er að borga til. Þetta er ekki þannig, virðulegi forseti.

Varðandi daggjöldin þá kom fram hjá einum hv. þingmanni að þau væru of lág. Af því tilefni sérstaklega vil ég segja að við erum að breyta daggjaldakerfinu og nýja kerfið byggist meira á því hve umönnunarþyngd sjúklinga er mikil. Greiðslurnar eru hærri til þeirra stofnana sem eru með þyngri hóp og lægri til þeirra sem eru með léttari hóp. Það er líka tekið tillit til lítilla stofnana, þ.e. ef stærðin er undir ákveðnum mörkum fá þau heimili meiri meðgjöf af því að ákveðið óhagræði er í því að vera með litlar rekstrareiningar. Nýja daggjaldakerfið endurspeglar bæði hjúkrunarþyngdina og það hvort stofnanir eru litlar eða stórar og er því mun réttlátara en það daggjaldakerfi sem viðgekkst þangað til það nýja var tekið upp sem var nú nýlega.