133. löggjafarþing — 77. fundur
 22. feb. 2007.
Norræna ráðherranefndin 2006, frh. einnar umræðu.
skýrsla samstrh., 569. mál. — Þskj. 845.

og 

norrænt samstarf 2006, ein umræða.
skýrsla ÍNR samstrh., 622. mál. — Þskj. 925.

og 

Vestnorræna ráðið 2006, ein umræða.
skýrsla ÍVN samstrh., 628. mál. — Þskj. 936.

og 

norðurskautsmál 2006, ein umræða.
skýrsla ÍNSM samstrh., 626. mál. — Þskj. 934.

[14:02]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér norrænt samstarf og höfum gert síðan í morgun. Í kjölfar ræðu formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, og annarra hv. alþingismanna sem eiga sæti í Íslandsdeildinni ásamt mér og hafa gert hér góða grein fyrir því starfi sem þeir koma að í þeim nefndum sem þeir eiga sæti í í Norðurlandasamstarfinu ætla ég að gera í stuttu máli grein fyrir því starfi sem ég hef komið að í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs en samstarf á sviði umhverfismála er málaflokkur sem verður æ mikilvægari og umfangsmeiri.

Umhverfis- og auðlindanefnd fæst við málefni sem heyra undir umhverfismál, landbúnað, skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál. Í störfum umhverfis- og náttúruauðlindanefndar á starfsárinu 2006 hafa verið þrjár megináherslur: mengun í Eystrasalti, loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðinu og orkumál.

Í málefnum Eystrasaltsins hefur nefndin einkum beint sjónum sínum að tveimur málum, annars vegar losun landbúnaðarúrgangs í Eystrasaltið sem veldur m.a. óhóflegum vexti þörunga og hins vegar losun skolpúrgangs skipa í Eystrasaltið.

Skipaður var starfshópur til að fjalla um losun landbúnaðarúrgangs og í honum eiga sæti fulltrúar frá Norðurlöndunum sem liggja að Eystrasalti ásamt öðrum löndum kringum Eystrasaltið, og hjá Norðurlandaráði voru samþykkt tilmæli til ríkisstjórna norrænu landanna um að gera úttekt á möguleikum til að gera strangari kröfur um skolplosun stærri farþegaskipa og flutningaskipa og leggja bann við skolplosun þeirra í Eystrasaltið.

Ég vil geta þess að á árinu 2005 var einnig lögð mikil áhersla á vistkerfi Eystrasaltsins og var tekið á skipaumferð um það með olíufarma. Mjög stór hluti af olíuflutningi Rússa fer einmitt um Eystrasaltið. Þar höfðu menn áhyggjur af því að ekki væri fylgst nógu vel með því að ekki færi eitthvað úrskeiðis sem mengað gæti Eystrasaltið meira en nú er. Það er mjög mikilvægt að fylgst sé með öllum skipaferðum um Eystrasaltið en Rússarnir hafa verið nokkuð tregir við að upplýsa um ferðir sinna skipa.

Ég sat ráðstefnu í Pétursborg um þessi mál og þar komu fram áhyggjuefni um auknar skipaferðir um Barentshafið og líkur á því að skipaumferð muni aukast á næstu árum með hlýnandi loftslagi sem ég mun koma inn á hér á eftir. Mengun vegna slíkra skipaflutninga gæti haft alvarleg áhrif á Ísland og hafsvæðin norður af landinu.

Þess má geta í tengslum við málefni hafsins að sú sem hér stendur tók fyrir hönd umhverfis- og náttúruauðlindanefndar þátt í annarri ráðstefnu sem var í nóvember sl., ráðstefnunni Baltic Sea Conference um umhverfismál Eystrasaltsins og var hún haldin í Helsinki. Þar komu fram mjög merkilegar niðurstöður ýmissa rannsókna um ýmsa þætti lífs við Eystrasaltið, bæði í hafinu og umhverfis það, og áhrif mengunar í Eystrasaltinu á líf fólks, einnig þá fæðu sem fólk sækir í hafið sem er náttúrlega fiskurinn. Það væri of langt mál að fara yfir þær niðurstöður og þá umræðu alla hér en þar var ýmislegt sem væri full ástæða til að gera frekar að umræðuefni.

Eins og aðrir þingmenn úr Norðurlandaráði sem hafa talað hér á undan mér, m.a. formaður Íslandsdeildarinnar og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, komu inn á í morgun hafa loftslagsbreytingar mikil áhrif á norðurslóðum samfara hækkandi meðalhita, bráðnun íss og hækkun sjávarmáls.

Ég vil í þessu sambandi minnast á orð Boga Hansens, færeyska prófessorsins sem hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í nóvember 2006, en hann segir að losun gróðurhúsalofttegunda sé stærsta tilraun sem gerð hefur verið og hún sé auk þess stjórnlaus, loftslagsbreytingarnar verði ekki stöðvaðar en það sé hægt að draga úr þeim og tíminn til athafna sé núna strax.

Á þetta höfum við bent, þingmenn í Norðurlandaráði, og ég vil minna á ítarlega grein sem sú sem hér stendur ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur birti nýverið í Morgunblaðinu um þessi mál og áherslur Norðurlandaráðs í þessum efnum. Við vitum að ef við tökum á þessu síðar verða vandamálin stærri og kostnaðurinn við þau verður meiri.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd lagði á árinu fram tilmæli sem samþykkt voru hjá Norðurlandaráði um að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum. Í nefndinni hefur m.a. verið fjallað um ACIA-skýrsluna sem hefur aðeins verið minnst á í þessari norrænu umfjöllun hér í morgun og hefur hún einmitt verið tekin til umræðu bæði á fundum og ráðstefnum sem umhverfis- og náttúruauðlindanefndin hefur staðið fyrir.

Auk þessa málefnis, þ.e. loftslagsbreytinganna og hlýnunarinnar, hafa orkumálin verið til umfjöllunar hjá nefndinni og þá hefur sérstaklega verið fjallað um vistvænt eldsneyti, lífeldsneyti, fyrir samgöngutæki. Umhverfis- og náttúruauðlindanefndinni hefur verð umhugað um að Norðurlönd verði í fararbroddi við notkun á þeirri tækni vegna þess að hún eykur ekki á loftslagsbreytingar af völdum gróðurhúsalofttegunda. Hún hefur atvinnuskapandi áhrif á nærsvæðum á Norðurlöndum við framleiðslu þess konar orku.

Þarna koma gróðurhúsalofttegundirnar aftur til umfjöllunar varðandi orkumálin og mig langar til að nefna það að á síðasta fundi Norðurlandaráðs, núna í janúar, voru þessi mál einnig til umræðu og þar bentu ungliðarnir á að við ættum einnig að skoða aðra leið sem væri orkusparnaður því að hann væri áhrifaríkasta leiðin til að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Það er full ástæða til að huga að því.

Bogi Hansen nefndi það einnig að við Íslendingar ættum að huga að því að nýta bíla með tvígengisvélar, tvinnbíla, og sagði að það væri leið sem við ættum að geta notað því að þeir eyða helmingi minna bensíni og búa til rafmagn um leið og maður keyrir þá og það getur maður síðan notað í akstri. Hann hvatti okkur Íslendinga til að nýta okkur þessa tækni mun meira en við gerum. Þó er ótrúlega mikið um að við notum þessa bíla hér á landi.

Varðandi vistvæna eldsneytið lagði umhverfis- og auðlindanefndin fram tillögu að tilmælum til ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar sem samþykkt var á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn, en þau tilmæli fela í sér að samin verði norræn framtíðarstefna um eldsneytisdreifingu innan samgöngugeirans 2020 og samstarf um hraðari útbreiðslu lífeldsneytis, vistvæns eldsneytis, á Norðurlöndunum. Norðurlöndin gætu þannig verið aflvaki í breiðara svæðisbundnu og evrópsku samstarfi.

Í umræðunni um þessa tillögu var bent á það að margir þeirra sem eru komnir með vistvæna bíla í dag, t.d. Svíarnir, eiga í erfiðleikum með að kaupa sér eldsneyti í nágrannalöndunum vegna þess að það er ekki búið að samræma notkun, útbreiðslu og sölustaði vistvæns eldsneytis á samgöngutæki.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli gefið þingheimi yfirlit og ágrip af helstu málum sem voru til umfjöllunar hjá umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2006. Mikilvægi þess góða starfs sem fer fram innan þeirrar nefndar og Norðurlandaráðs sem vettvangs fyrir alþjóðlegt samstarf á sviði umhverfismála mun síst minnka á næstu árum og áratugum með hliðsjón af loftslagsbreytingum af mannavöldum og þeim miklu áhrifum sem þau munu hafa á norðurslóðum.

Við höfum komið inn á það hér og þeir hv. þingmenn sem hafa talað á undan mér hafa einmitt bent á það og þeir sem eiga sæti í Norðurskautsráðinu hafa líka verið með heilmikla umfjöllun um þann þátt mála.

Ég ætla að lokum, virðulegi forseti, að þakka hv. þingmönnum sem hafa starfað með þeirri sem hér stendur í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir mjög gott og mikilvægt samstarf. Ekki síst vil ég þakka þeim starfsmönnum sem hafa liðsinnt okkur í Íslandsdeildinni. Fyrst var það Stígur Stefánsson sem starfaði með okkur og var mjög duglegur, og ómetanlegur stuðningur af störfum hans í nefndinni. Við þeim störfum tók á síðasta ári Lárus Valgarðsson sem einnig hefur verið okkur mikil hjálparhella og er fyrirrennara sínum enginn eftirbátur hvað það varðar. Þeir eru báðir tveir alveg einstaklega hæfir og góðir starfsmenn.

Virðulegi forseti. Ég sé að tíma mínum er nánast lokið þannig að ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Formaður Íslandsdeildarinnar hefur farið yfir skýrsluna sem liggur fyrir og ætla ég því ekki að gera hana að neinu sérstöku umræðuefni hér.



[14:16]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um það mál sem ég hef tekið þátt í á vettvangi Norðurlandaráðs. Ég hef átt sæti í tveimur nefndum, annars vegar nefnd sem við köllum borgara- og neytendanefnd og hins vegar nefnd sem kölluð er eftirlitsnefnd á vegum Norðurlandaráðs. Ég vil fara örfáum orðum um það starf þó að ég ætli ekki að endurtaka það sem hér hefur verið flutt í mjög góðum skýrslum í morgun en mér finnst að mörgu leyti að við hv. þingmenn og Alþingi gerum ekki alveg nóg úr því mikla og góða starfi sem unnið er á vettvangi Norðurlandaráðs. Við náum kannski ekki að kynna það nægilega vel á Alþingi og þess vegna langar mig að nefna það að rétt áður en ég tók til máls hélt hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir ágæta ræðu og fór yfir sín mál og hún var að fara eins og við öll yfir síðastliðið starfsár.

Ég vil koma því á framfæri, frú forseti, hvort ekki væri rétt að athuga það að við gerðum þetta með öðrum hætti en nú er gert, þ.e. við eyðum 4–5 klukkutímum í þessa umræðu einu sinni á ári, og við tækjum slíka umræðu í hvert skipti sem fulltrúar Alþingis hafa sótt fundi á vegum Norðurlandaráðs og þá gæfist þeim jafnframt tækifæri til að segja frá því starfi sem þeir hafa unnið að jafnóðum. Þessu vil ég koma að.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir nefndi áðan ráðstefnur sem hún hefði setið á, sem hafa eflaust verið mjög áhugaverðar, en gat því miður ekki gefið sér tíma til að fara yfir efni ráðstefnanna. Með því að við tækjum það upp í hvert sinn sem við og fulltrúar Alþingis hefðum verið á fundum Norðurlandaráðs mundi þetta verða meira lifandi og vakandi umræða og fylgja tímanum hverju sinni varðandi einstaka málaflokka.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hef ég starfað í borgara- og neytendanefnd en sú nefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum. Þetta eru meginatriði sem nefnd þessi fjallar um. Hún er ekki ólík þeirri nefnd sem við höfum á Alþingi sem er allsherjarnefnd en ég á jafnframt sæti í allsherjarnefnd Alþingis. Þessi mál eru okkur því kunn og fara oft saman sem við það sem við erum að ræða í þeirri nefnd Alþingis.

Þau mál sem hafa verið mjög ofarlega á baugi í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs varða mansal, kynlífsþjónustu og kynlífsþrælkun. Þessa málaflokka höfum við verið að taka nokkuð upp hér á þinginu og fara yfir með hvaða hætti við Íslendingar getum komið að þeim og breytt löggjöf okkar hvað þá varðar. Mér finnst við vera að feta okkur í átt að því sem við þurfum að gera og eftir því sem bæði samfélag okkar og samfélagið hnattrænt er að þróast. Það er ýmis starfsemi á vegum Norðurlandaráðs sem vert væri að kynna eins og t.d. norræn rannsóknarstofa sem rekin er frá Ósló og heitir NIKK og hefur einmitt með þennan málaflokk að gera. Væri í rauninni full ástæða til að kynna hann betur, bæði fyrir hv. Alþingi og allsherjarnefnd sem er að vinna mikið að slíkum málum.

Á þeim fundum sem við höfum setið hafa málefni innflytjenda jafnframt verið mjög uppi á borði og ýmis mál sem þeim tengjast. Hvar sem þá ber að landi á Norðurlöndunum leggja þeir yfirleitt og oftast fram mikið vinnuframlag og hjálpa okkur Norðurlandabúum en þar eru vandamál eins við þekkjum í samfélagi okkar, eins og tungumálavandamál, sem vinna þarf að. Á hinu háa Alþingi er einmitt verið að vinna að löggjöf í allsherjarnefnd sem tekur á málefnum innflytjenda og vonandi gerum við vel hvað það varðar.

Þær nefndir sem starfa á vegum Norðurlandaráðs fara gjarnan í kynnis- og fræðsluferðir, hér eru þær nefndar sumarferðir. Síðastliðið sumar fór einmitt þessi borgara- og neytendanefnd til Grænlands til að kynna sér þá málaflokka sem varða þessa nefnd. Þar var farið yfir mál er varða réttarkerfið, ofbeldismál, afbrotamál, fangelsismál. Það er mjög sérstakt að koma í annað samfélag þó að það sé mjög nærri okkur og sjá hvernig málin standa þar og er auðvitað mjög lærdómsríkt fyrir okkur og það er alveg augljóst að við getum líka miðlað af okkar eigin reynslu og þekkingu til annarra nágrannaþjóða okkar.

Mig langar rétt aðeins að nefna hina nefndina sem ég á sæti í sem er eftirlitsnefnd á vegum Norðurlandaráðs en ég er eini fulltrúinn frá Íslandsdeildinni í þeirri nefnd. Henni er ætlað að fylgjast með fyrir hönd Norðurlandaráðsþingsins starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Þessi nefnd hittist gjarnan þegar fundir Norðurlandaráðs standa en samt var það nýmæli tekið upp að nú mun nefndin hittast utan hinna hefðbundnu funda. Á síðastliðnu sumri kom þessi nefnd í heimsókn hingað til Íslands og kynnti sér, skoðaði og fór yfir þau verkefni sem unnin eru hér á landi á vegum Norðurlandaráðs. Það var mjög ánægjulegt að vera þátttakandi þar og fá að fylgjast með og fá jafngreinargóða yfirsýn yfir þau fjölþættu störf sem unnin eru á Íslandi á vegum Norðurlandaráðs og fjármögnuð af því ásamt okkur Íslendingum hvað þennan vettvang varðar. Ég get fullyrt að þeir fulltrúar sem komu frá hinum Norðurlöndunum voru mjög ánægðir og sáttir við þau störf sem við innum af hendi hér hvað þetta varðar.

Í desembermánuði kynnti eftirlitsnefndin sér skrifstofur sem reknar eru á vegum Norðurlandaráðs í Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Í höfuðborgum þessara landa eru reknar þrjár skrifstofur sem kostaðar eru að miklu leyti af Norðurlandaráði. Á þessum þremur starfsstöðvum starfa u.þ.b. 30 starfsmenn. Það sem kemur kannski mjög á óvart er að þau fjárframlög sem koma frá Norðurlandaráði margfaldast með styrkjum sem þessar skrifstofur fá sérstaklega frá Evrópusambandinu til hinna ýmsu sérverkefna sem þær eru að vinna á þessu starfssvæði og svo í Evrópu. Þeir fjármunir sem Norðurlöndin leggja þarna til margfaldast því og nýtast bæði þessum löndum og Norðurlöndunum mjög vel.

Það var jafnframt mjög ánægjulegt og sérkennilegt að sjá og átta sig á hve starfsemi þessara þriggja skrifstofa frá Norðurlöndum er mismunandi í þessum þremur höfuðborgum, gríðarlega mismunandi. Skrifstofan í Vilníus er t.d. á menningarsviðinu og tengist þannig niður til Evrópu en aftur á móti hefur skrifstofan í Litháen verið að þjónusta íslensk fyrirtæki sem hafa starfsemi sína þar og starfar þá meira sem þjónustuaðili gagnvart þeim íslensku fyrirtækjum sem þar eru ásamt fyrirtækjum frá öðrum Norðurlöndum.

Frú forseti. Ég ítreka aftur það sem ég vil leggja áherslu á hér að mér finnst þetta starf vera gagnlegt okkur Íslendingum og ég er sannfærður um að við lærum margt af nágrönnum okkar og við getum deilt ýmsum fróðleik og þekkingu, ekki síst hvað varðar umhverfismálin þar sem við stöndum langfremst af Norðurlöndunum og við eigum að vera stolt af því að vera með yfir 70% af endurnýjanlegri orku hér á landi. Það er mikil umræða í samfélaginu og nú rétt áðan á hinu háa Alþingi um virkjanir en það er styrkur okkar til frambúðar hversu vel við búum hvað orkumálin varðar. Það er því sérkennilegt að taka þátt í umræðu eins og var áðan á Alþingi og fylgjast svo með þeirri umræðu sem er á Norðurlöndunum hvað varðar vandamál þeirra sem snúa fyrst og fremst að brennslu á olíu, gasi og kolum og sáralítilli endurnýjanlegri orku nema helst kannski í Noregi þar sem þeir hafa vatnsaflið.

Eins og ég sagði áðan vildi ég gjarnan sjá að svona skýrsla væri flutt oftar og að farið væri jafnharðan yfir þau mál sem við erum að vinna að á þessum vettvangi. Ég tek undir þakkir þeirra þingmanna sem hafa flutt sitt mál um að samstaða innan íslenska hópsins er mjög góð og við höfum góða þjónustu frá þeim starfsmönnum sem vinna með okkur.



[14:27]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef setið í Vestnorræna ráðinu í bráðum fjögur ár mér til mikillar ánægju og upplýsingar. Ég þekkti þessi tvö samstarfslönd okkar, Færeyjar og Grænland, ekki vel áður en ég tók sæti í ráðinu og hafði t.d. aldrei komið til Færeyja. Það er mjög gaman að kynnast því hvað þessar þjóðir eru á ýmsan máta gjörólíkar en hvað við eigum samt sem áður margt sameiginlegt og hvað við erum svo líkar í hina röndina. Við eigum mjög mikla sameiginlega hagsmuni og þess gætir auðvitað í störfum Vestnorræna ráðsins.

Í dag hefur komið fram í máli manna sem hafa fjallað um norrænu skýrslurnar að umhverfismál eru mikið á döfinni þar. Hið sama er að segja um Vestnorræna ráðið, enda gætir umhverfisbreytinga, hitnunar í andrúmsloftinu og mengunar, ekki síst nyrst á jörðinni. Eru afleiðingarnar þar afar alvarlegar, t.d. hvað varðar bráðnun íss á Grænlandi. Áhrifin á höfin í kringum þessi þrjú lönd eru sennilega mjög ógnvænleg. Margt bendir til þess að þar gæti verið afar mikil hætta á ferðum.

Vestnorræna ráðið hélt í fyrsta sinn þemadag á ársfundi sínum í Færeyjum og sá þemadagur fjallaði einmitt um umhverfismál. Þar hélt erindi m.a. títtnefndur Bogi Hansen sem minnst var á áðan, ásamt fleiri vísindamönnum færeyskum og annarra þjóða. Þeir sýndu okkur í máli og myndum hverjar afleiðingar verða sennilega af hlýnun andrúmsloftsins á hafið, hafstraumana, fiskstofnana, hækkun sjávarborðs og allt okkar líf. Það er auðvitað ábending til okkar um að við þurfum strax að grípa til varna og breyta lífsháttum okkar ef við ætlum ekki að kalla yfir okkur allar þær afleiðingar í mjög miklum mæli sem við vorum vöruð við á þessari þemaráðstefnu.

Við getum gert ýmislegt í þeim málum og byrjað heima hjá okkur eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir benti á áðan, t.d. með því hvernig við nýtum einkabílinn okkar og yfirleitt hvers konar einkabíla við veljum. Bogi Hansen vísindamaður benti okkur einnig á að fara vel með rafmagnið heima hjá okkur, ef ég man rétt. Það er nokkuð sem allir geta passað, hver um sig. (ÁRJ: Orkusparnaður.) Það er orkusparnaður almennt, við megum þó flest brenna orkuna sem safnast í miklum mæli utan á okkur.

Á þemaráðstefnunni á Grænlandi í vor var fjallað um ferðamál. Það er annar vettvangur þar sem Ísland, Grænland og Færeyjar eiga margt sameiginlegt og geta stutt hvert annað. Það gerum við að vissu leyti, t.d. með samvinnu í samgöngumálum, en þó ekki eins og hægt væri. Ýmsar hindranir eru í veginum, t.d. einkaleyfi dönsku flugfélaganna á ákveðnum flugleiðum. Þó var það boðað í sumar í Maniitsoq að Flugfélag Íslands væri að hefja flug til tveggja nýrra áfangastaða á Grænlandi, Maniitsoqs og Illulisats sem eru tveir mestu ferðamannastaðir Grænlendinga á vesturströndinni.

Sú hugmynd kom út úr þessari ráðstefnu á Grænlandi að koma á samstarfi um menntamál, þ.e. menntun í ferðaþjónustugeiranum, á milli Íslands, Grænlands og Færeyja. Skrifað var bréf í sumar til ferðamálafulltrúanna á Grænlandi og í Færeyjum. Það er gaman að geta sagt frá því að undirbúningur er hafinn að samstarfi í þessu efni á milli þessara þriggja landa. Aðili hefur komið frá Grænlandi að Háskólanum á Hólum í Hjaltadal til að skipuleggja nám í ferðamálafræðum sem yrði að mestu leyti fjarkennt til a.m.k. Grænlands og væntanlega Færeyja sem að vísu hefur ekki komið að undirbúningi enn þá en ég geri mér góðar vonir um að þeir komi til. Þar er einnig áhugi og þörf sem við getum uppfyllt með kennslu héðan.

Svo getur verið stór hagur fyrir Íslendinga að efla streymi til þessara tveggja landa í gegnum Ísland. Það er aukakostur sem ferðamönnum býðst ef hér verður hægt að koma á framhaldi ferða ýmist til Grænlands eða Færeyja. Það hefur verið hægt á einn áfangastað á Grænlandi þó nokkuð lengi, til Kulusuks mjög lengi, en nú eru staðir að bætast við sem er ákaflega ánægjulegt.

Í þeim ályktunum sem Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundinum í Þórshöfn má sjá hvaða mál hafa verið til umræðu, ræðisskrifstofur sem á að fara að opna, þá fyrri af Íslands hálfu í Færeyjum þann 1. apríl væntanlega. Samningur verður um útvíkkun fríverslunarsamnings til Grænlands en slíkur er nú þegar í gildi milli Íslands og Færeyja. Ferðamálastefnan sem ég ræddi áðan hefur líka verið til umræðu. Síðan er tillaga um kennslu vestnorrænnar menningar í grunnskólum og það er einmitt ágætt dæmi um mismunandi viðtökur sem ályktanir frá ráðinu fá. Sú tiltekna ályktun virðist vekja allnokkrar spurningar meðal nágranna okkar. Þeir halda að ef hún kemst í gagnið muni hún e.t.v. taka of mikið frá annarri tungumálakennslu í löndunum. Ég held að kannski sé ekki aðalatriðið að við förum að kenna hvert öðru tungumálið en ég held að það sé mjög gott að fræða börn og unglinga í nágrannalöndum okkar um menningu þessara þriggja landa og hvetja þau til að kynnast nágrönnum sínum.

Síðasta tillagan er líka afrakstur þemaráðstefnu um heilbrigðismál sem haldin var í Illulisat árið 2003, en þar kom fram að reykingar eru rótin að mesta heilbrigðisvanda Dana. Rekja má hjartasjúkdóma til reykinga, krabbamein líka og ég þarf ekki að telja meira upp, þingmenn vita það. (ÁRJ: Hvaðeina.) Hvaðeina, já. Þarna kom fram tillaga um að við sameinuðumst um fræðslu í tóbaksvörnum. Við Íslendingar höfum staðið okkur vel í þeim efnum og getum miðlað af góðri reynslu.

Margar ályktanir Vestnorræna ráðsins hafa verið afskrifaðar vegna þess að þær komast ekki í framkvæmd. Ég vona að þær tillögur sem við samþykktum árið 2006 komist í framkvæmd enda held ég að á því séu frekar góðar líkur þar sem ýmsar þeirra eru að komast í framkvæmd eða eru þegar komnar í framkvæmd. Þar má t.d. nefna samstarf um kennslu í ferðaþjónustunni, og opnun ræðismannsskrifstofu stendur fyrir dyrum eins og ég sagði áðan.

Barnabókaverðlaunin vestnorrænu eru afhent annað hvert ár. Nú komu þau í hlut Færeyinga sem var ákaflega ánægjulegt. Þessi verðlaun hafa komið í hlut Íslendinga hingað til og manni fannst það orðið hálfpínlegt að þau kæmu alltaf í okkar hlut. Nú fékk sem sagt Færeyingur verðlaunin. Stefnan hefur verið, og vonin, að bækurnar yrðu þýddar á hin tungumálin tvö, þá yfir á færeysku og grænlensku vegna þess að Ísland hefur fengið þessi verðlaun, en það hefur því miður ekki orðið. Vonandi verður það einhvern tímann siður að þessar bækur komi út á öllum tungumálunum þrem. Það er ekki síður mikilvægt en annað að kynna börnunum menningu hinna þjóðanna með þeim hætti að gefa þeim færi á að lesa bókmenntir þjóðanna á sínu eigin tungumáli.

Ég sé í skýrslunni að mikil umræða hefur verið í Norðurlandaráði um aðild vestnorrænu ráðanna í Færeyjum og Grænlandi að Norðurlandaráði. Þau hafa aðeins haft þar áheyrnarseturétt til þessa en hafa óskað eftir því árum saman að fá þar fullan rétt á borð við hinar þjóðirnar. Það hefur ekki komist í gegn og ég held að umræðan hafi ekki hafist af alvöru fyrr en í tíð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem forseta Norðurlandaráðs. Það virðist því vera alvarleg hreyfing á því máli að þessu sinni og það er gleðiefni.

Ég tek undir með öðrum þingmönnum sem hafa þakkað starfsmönnum sem hafa aðstoðað okkur þingmenn í þessum ferðum okkar. Ekki verður á betra kosið í því efni og ferðafélagarnir eru allir af bestu gerð.



[14:41]
umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Mig langaði í fáum orðum undir lokin á umræðunni að þakka úr þessum ræðustól sérstaklega fyrir umræðuna. Fulltrúar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs hafa komið í ræðustól og flutt margar og góðar ræður, hafa m.a. dregið fram þau mörgu og mikilsverðu verkefni sem unnið er að í norrænu samstarfi undir hatti Norðurlandaráðsins.

Eins og ég kom að í ræðu minni hefur samstarfið verið gott milli norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Það var ágætt á þessu ári eins og endranær. Ég gat þess jafnframt að þetta samráð varðar einkum fjárlögin, bæði undirbúning árlegra fjárlaga og jafnframt endurskipulag eða nýskipan í norrænni fjárlagagerð, sem var unnið sérstaklega að á þessu ári. Af hálfu ráðherranefndarinnar er talið mjög mikilsvert að Norðurlandaráð komi að fjárlagagerðinni á sem flestum sviðum, bæði þannig að hægt sé að taka tillit til sjónarmiða og óska þingmanna og jafnframt, sem er nú markmiðið, að pólitískar áherslur endurspeglist í fjárlögunum.

Frú forseti. Í þessari umræðu hafa fleiri en einn og fleiri en tveir nefnt sérstaklega stöðu sjálfsstjórnarsvæðanna, sjálfsstjórnarlandanna eins og ég kýs frekar að kalla Færeyjar, Grænland og Álandseyjar. Það hefur m.a. verið rifjað upp að Færeyingar tilkynntu árið 2002 að þeir sæktust eftir fullri aðild að Norðurlandaráði. Síðan hefur þetta verið heilmikið í umræðunni og á árinu 2006 var skilað úttekt nefndar sem skipuð var lögfræðingum og þjóðréttarfræðingum. Þeirri úttekt var m.a. ætlað að fjalla um raunverulega stöðu sjálfsstjórnarsvæðanna gagnvart Norðurlöndum, norræna samstarfinu og þeim samningum sem norræna samstarfið byggir á. Samstarfsráðherrar Norðurlandanna hafa oft fjallað um þessa úttekt og talið þörf á að kanna frekar þær hindranir sem standa í vegi fyrir fullri aðild sjálfsstjórnarlandanna. Þá er fyrst og fremst horft til frænda okkar, Færeyinga, sem hafa öðrum fremur lýst yfir þessum áhuga sínum og sótt það fastar en Grænlendingar og Álandseyingar að fá sterkari stöðu eða fulla aðild að Norðurlandaráði.

Að frumkvæði Grænlendinga en með mjög öflugum stuðningi Færeyinga var ákveðið í desember sl. í hópi samstarfsráðherra að skipa vinnuhóp til að gera úttekt á því í hvaða norrænu nefndum og stjórnum sjálfsstjórnarlöndin hefðu sömu aðild og norrænu ríkin fimm, og í hvaða nefndum og stjórnum þau hefðu ekki sömu aðild. Þá var gert ráð fyrir því að gerð yrði grein fyrir því í hverju tilviki fyrir sig hver ástæða þess væri að sjálfsstjórnarlöndin hefðu ekki þessa sömu aðild. Ákvörðun um umboð fyrir þennan hóp verður væntanlega tekin á samstarfsráðherrafundi eftir helgi, og að tillögu forsætisráðherranna eru Finnland og Danmörk að skoða hvaða möguleikar eru á því að bæta stöðu sjálfsstjórnarlandanna í norrænu samstarfi með einhliða aðgerðum þessara ríkja, Finnlands og Danmerkur.

Ég sé það ekki beinlínis fyrir mér að þessum væntanlega vinnuhóp verði gert að koma með tillögur, hvorki um breytingar á Helsinki-samningnum né um annað. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar þar að kemur muni norræna samstarfsnefndin móta tillögurnar og leggja þær fyrir samstarfsráðherrana áður en þær verða sendar til forsætisráðherra. Eins og ég hef þegar sagt er stefnt að því að þessu máli ljúki á þingi Norðurlandaráðs í haust með því að samstarfsráðherrarnir leggi fram tillögur um hvernig megi bæta stöðu sjálfsstjórnarlandanna í norrænu samstarfi.

Kannski hefði verið vert, frú forseti, að fara aðeins yfir endurskipulagningu á norræna menningarsamstarfinu en af því að ég er hér að ræða sérstaklega stöðu sjálfsstjórnarlandanna vil ég láta þess getið að í tengslum við mikla endurskipulagningu á norrænu menningarsamstarfi fólu menningarráðherrar Norðurlandanna vinnunefnd embættismanna það verkefni að skila skýrslu um hvernig þátttaka sjálfsstjórnarlandanna og smærri málsamfélaga á Norðurlöndum yrði tryggð sem best í þessu nýja skipulagi menningarmála í framtíðinni. Megintillögur þessarar nefndar snúa að því að tryggja sjálfsstjórnarlöndunum þátttöku í nefndum ráðherranefndarinnar á jafnréttisgrundvelli, efla starfsemi norrænu húsanna og að tryggt verði að upplýsingar um starfsemi Kulturkontakt Nord séu ávallt fyrirliggjandi á öllum norrænu tungumálunum.

Þessa vildi ég nú láta getið sem lýtur að stöðu sjálfsstjórnarlandanna í norrænu samstarfi en það hefur ekki farið á milli mála í þeirri umræðu sem farið hefur fram á vettvangi norræns samstarfs, bæði innan ráðherranefndarinnar og eins Norðurlandaráðsins, að Færeyingar sem hafa sótt þetta fastast eiga hauk í horni þar sem við Íslendingar erum.