133. löggjafarþing — 78. fundur
 26. feb. 2007.
Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl., frh. 1. umræðu.
stjfrv., 644. mál (eftirlitsheimildir). — Þskj. 962.

[20:00]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Tilgangur þessa frumvarps virðist vera sá að reyna að taka á því með einhverjum hætti að sjómenn taki ekki þátt í kvótakaupum.

Við stöndum frammi fyrir því að þróun verðs á aflaheimildum hefur verið með undarlegum hætti frá því að frjálst framsal aflaheimilda komst á. Þetta verð hefur alltaf tekið nýjar hæðir og fróðustu menn í reiknikúnstum finna nú ekki út hvernig á því stendur að verð á aflaheimildum sé svo hátt og telja að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir útgerð sem kaupir eða leigir sér aflaheimildir. En samt heldur verðið áfram að hækka og hefur náð enn nýjum hæðum þennan veturinn.

Í gegnum tíðina hefur marga grunað að sjómenn hafi tekið þátt í kvótakaupum með einhverjum hætti. Það er ekki örgrannt um að ýmsir telji að það verð sem Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna finnur út að sé hið rétta verð sé verð sem samræmist ekki því að sjómenn taki ekki þátt í kvótakaupum, þótt með óbeinum hætti sé.

Það er nefnilega þannig að þær útgerðir sem eiga hlut að máli og leigja frá sér aflaheimildir, og þannig hefur það verið í gegnum tíðina, hafa keypt aflaheimildir á því verði sem hefur verið á markaðnum og síðan hafa þær aflaheimildir verið leigðar út með því verði sem þarf til þess að greiða þær niður. Á undanförnum árum hefur því verið jaðarverð á veiðiheimildum. Það jaðarverð er svo hátt að fyrirtækin í sjávarútvegi, sem eru mörg hver öflug og ágætlega rekin, hafa ekki treyst sér til að vera á hlutabréfamarkaði vegna þess að verðlag á hlutabréfunum hefur verið langt fyrir neðan það verð sem menn reikna út að muni fást fyrir þær aflaheimildir sem viðkomandi útgerðir eiga. Þarf frekar vitnanna við að eitthvað sé bogið við kerfið sem slíkt þegar svona er komið? Nei, það þarf ekkert frekar vitnanna við.

Hins vegar hafa stjórnvöld móast við að taka á þeim vandamálum sem þarna eru. Þau eru fyrst og fremst fólgin í því að viðskiptaumhverfið í sjávarútveginum er mjög óeðlilegt. Sömu fyrirtækin og eiga aflaheimildirnar reka gjarnan fiskvinnslu og þau kaupa aflann af sjálfum sér á verði eins og því sem við erum að tala hér um, þ.e. á verðlagsstofuverði sem er langt fyrir neðan verðið sem er á fiskmörkuðum í landinu.

Nú má vel segja að verðið á fiskmörkuðunum sé kannski ekki algerlega lýsandi fyrir fiskverð á Íslandi vegna þess að fiskmarkaðirnir fá ekki til sín nema hluta af þeim afla sem kemur á land. Og það má því halda því fram að það verð sé hærra en annars væri ef allur afli færi í gegnum markaði og tæki verð á mörkuðum og viðskiptin færu fram þannig að kaupendur tækjust á á markaði um það að fá til sín allan afla sem að landi kemur. Þessu þarf auðvitað að breyta til þess að eðlilegt verð myndist á fiskinum. En það er ekki nóg vegna þess að verðið á aflaheimildunum þarf líka að vera eðlilegt til þess að hægt sé með eðlilegum hætti að taka þátt í samkeppni í sjávarútvegi á Íslandi.

Til þess að það geti orðið þarf auðvitað að verða til eðlilegur markaður með aflaheimildir. Hann er það ekki. Það er auðvitað vegna þess að útgerðarfyrirtækin í landinu sem hafa aflaheimildirnar eru í stöðu sem nánast má líkja við stöðuna sem einokunarkaupmennirnir höfðu hér áður þar sem enginn mátti versla nema með þeirra leyfi, nema að þeir gæfu leyfi fyrir því að einhverjir aðilar gætu komið og tekið þátt í verslunarrekstri. Þetta er auðvitað óásættanlegt fyrirkomulag. Ég tel að það muni ekki breytast fyrr en menn taka á því hvernig eigi að fara með auðlindir í þjóðareigu á Íslandi.

Sjávarauðlindin á auðvitað að vera í þjóðareign og það á að setja ákvæði í stjórnarskrána. Ég er algerlega sammála ríkisstjórninni um að það eigi að setja ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign á auðlindum sjávar. (Gripið fram í: … að standa við.) Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að menn ætli að svíkja þjóðina og kjósendur um að setja þetta ákvæði í stjórnarskrána. Það er verið að hnoðast með þetta mál enn þá á bak við tjöldin og við vitum ekkert hver niðurstaðan verður. En allar vísbendingar sem hafa komið fram í þessu máli benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að fyrirkoma þessu loforði sem hann undirskrifaði í stjórnarsáttmálann.

Það er ótrúlegt að svo skuli vera. Og enn ótrúlegra er það nú ef Framsóknarflokkurinn ætlar að líða það að hans helsta kosningamál verði forsómað með þeim hætti að Sjálfstæðisflokkurinn setji bara fótinn fyrir málið í nefndinni sem var stofnuð til að koma því fram sem ríkisstjórnin lofaði. Ja, þvílíkt og annað eins.

Þetta hefði nú varðað stjórnarslitum í öllum venjulegum ríkisstjórnum. Það er alveg ábyggilegt. En þetta er ekki venjuleg ríkisstjórn. Þetta er ríkisstjórn þar sem annar flokkurinn virðist hafa gjörsamlegt tangarhald á hinum. (JGunn: Heimilisofbeldi.) Ég ætla ekki að taka mér það orð í munn sem kallað var hér fram í. En það er eitthvað undarlegt við það þegar annar stjórnarflokkurinn sem nær því í gegn við stofnun ríkisstjórnar að það komi ákvæði inn í stjórnarsáttmálann af þessu tagi, ef sá flokkur ætlar að gefast upp á málinu, ætlar að láta hinn stjórnarflokkinn komast upp með að svíkja þetta.

En um leið og menn hafa sett ákvæði um þjóðareign á auðlindum sjávar inn í stjórnarskrána þá þarf auðvitað að sjá til þess í framhaldinu að eignarhaldsins verði gætt fyrir hönd þjóðarinnar með eðlilegum hætti eins og hlýtur að þurfa að gera gagnvart auðlindum í þjóðareign. Allar auðlindir í þjóðareign eiga að vera undir það sama seldar.

Það liggur fyrir frumvarp í iðnaðarnefnd þar sem var fjallað nákvæmlega um það hvernig ætti að fara með auðlindir í þjóðareign, þ.e. þær auðlindir sem heyra undir lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Með þeim tillögum sem þar eru er algjörlega lagt fyrir um það að með þau verðmæti verði farið þannig að allir sem vilja nýta fái jöfn tækifæri til þess að koma að þeirri nýtingu og að úr því verði þá skorið með tilboðum og öðrum slíkum aðferðum eins og venjulega er notað þegar ríkið er að úthluta einhverjum gæðum, hvort sem það er nú vegarlagning eða hvað annað, þá verði skorið úr því með svipuðum hætti hvað varðar þær auðlindir sem aðilar sækjast eftir að nýta. En ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra segir okkur hér við umræðuna að með þessu frumvarpi eigi að koma í veg fyrir að sjómenn taki þátt í kvótakaupum. Ég er búinn að fara yfir það sem ég ætlaði að segja um það verð sem hefur orðið til hjá Verðlagsstofu skiptaverðs, nema að mér er sagt að það verð sé svo miklu lægra en verðið sem fáist á fiskmörkuðum að það sé kannski ekki svo mikill munur á því verði sem fæst á fiskmarkaðnum að frádregnu kvótaverðinu sem viðkomandi aðili hefur greitt og svo því verði sem viðkomandi aðilar fá til skipta þegar samið er við þann aðila sem á sjálfur veiðiheimildirnar líka, þ.e. í beinum viðskiptum.

Þá sjá menn auðvitað hvernig er í pottinn búið. Að þessir samningar eru auðvitað ekki í samræmi við verðmæti sjávarafla eins og það verðmæti kemur fram í viðskiptum á markaði. En ég segi þetta auðvitað með fyrirvara um það að ef menn færu í þann leiðangur sem nauðsynlegur er í sjávarútveginum og skildu á milli veiða og vinnslu og létu markaðinn ákveða verð á fiski, öllum fiski sem kæmi að landi, þá mundi heildarverð á fiski að öllum líkindum lækka og yrði þá eðlilegra og þá yrði samræmi í verðinu.

Mig langar til að beina einni spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra um frumvarpið, það er reyndar ekki mikil breyting á lagatextanum sjálfum, en hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks til fiskiskips skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum.“

Nú langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Viðgengst það enn að menn flytji aflaheimildir til geymslu hjá öðrum útgerðum? Eru þá svona samningar lagðir til grundvallar þeim? Lagatextinn er alveg skýr. Það má ekki flytja veiðiheimildirnar á milli nema liggi fyrir slíkur samningur sem þarna er um að ræða.

En ég veit ekki annað en að menn hafi stundað þessa leikfimi með veiðiheimildir, að flytja þær á milli útgerða til geymslu og er það þá ekki og hefur það ekki verið ólöglegt, eins og ég hef reyndar oft haldið fram áður?

Mér finnst að hæstv. sjávarútvegsráðherra þurfi að upplýsa okkur um þetta eða hvort útgerðarmenn séu núna loksins hættir þessum æfingum vegna þess að þarna eru gríðarleg verðmæti á ferð sem eru færð milli útgerða þegar kemur að lokum fiskveiðiársins, eða þetta hefur verið gert á undanförnum árum og þá er auðvitað eðlilegt að þessi verðmæti séu skráð hjá viðkomandi fyrirtækjum á því verði sem þau hafa á markaði. Menn eiga að sjálfsögðu ganga frá slíkum viðskiptum með eðlilegum hætti. Máski er það orðin niðurstaðan núna að menn geri það.

En það hefur ekki verið í gegnum tíðina. Það hefur verið plagsiður að notfæra sér þessa leið sem stjórnvöld hafa lagt blessun sína fyrir vel að merkja. Þetta er auðvitað eitt dæmið um það hvers konar sukk hefur verið við stjórn fiskveiða og þær reglur sem hafa verið hvað þær varðar allan tímann.

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma aðeins aftur að fiskverðinu. Sjómenn og útgerðarmenn hafa náð einhvers konar sáttum um þá aðferð sem nú er í gangi um Verðlagsstofu skiptaverðs. Menn hafa sæst á að fara einhverja millileið og sjómenn eru þá líklega hættir að hluta til að taka þátt í kvótakaupum en þó ekki alveg. Þeir fengu einhvern áfangasigur þegar þeir náðu fram þeirri aðferð sem nú er notuð.

En áfangasigur í þessu er ekki nógur. Það verður að horfast í augu við að veiðiheimildir eru verðmæti. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum þá í hug að það sem kostar mest í stofnun á einni útgerð, þ.e. veiðiheimildirnar, skipti engu máli í rekstri útgerðar og það eigi bara að horfa gjörsamlega fram hjá þeim þegar menn semja um kaup og kjör?

Sjómenn hafa alltaf borið kápuna á báðum öxlum í þessum efnum. Þeir sögðu í upphafi að þeir ætluðu ekki að skipta sér af kvótakerfinu af því það ætti ekki að koma þeim við. Af því að þeir ætluðu sér ekkert að taka þátt í fjármögnun á þeirri sölustarfsemi sem fer fram með verslun og veiðiheimildir.

Auðvitað var það ljóst frá upphafi að þetta gæti ekki verið svona. Verðmæti aflaheimilda er grunnkostnaður í útgerð og langstærsti liðurinn í útgerðarkostnaðinum, í fjárfestingunni til þess að geta rekið eina útgerð. Það verður auðvitað ekkert eðlilegt ástand í sjávarútvegi fyrr en menn horfast í augu við þetta. Auðvitað þurfa útgerðarmenn og sjómenn að semja upp á nýtt á eðlilegum grundvelli þar sem tekið er tillit til alls sem um er að ræða, t.d. útgerðarkostnaðar og þess vegna, eins og sjómenn sömdu um á sínum tíma, að taka meira að segja þátt í olíukostnaði með mjög sérkennilegum hætti. En í kvótakostnaði útgerðarinnar segjast sjómenn í orði kveðnu ekki taka þátt. Það mun þó vera stærsti liðurinn sem þeir hafa nokkurn tíma tekið þátt í í útgerð á Íslandi og er enn.

Þetta kostar auðvitað umbyltingu og endurskoðun á því umhverfi sem er í sjávarútvegi. En það er ekkert hægt að komast undan því. Það verður að skilja á milli veiða og vinnslu. Það verður að koma á eðlilegu fyrirkomulagi hvað varðar samninga sjómanna og útgerðarmanna þar sem tekið er tillit til þess kostnaðar sem liggur að baki. Og þetta verður að gera þannig að sambærilegar reglur gildi í sjávarútvegi og í öðrum atvinnugreinum í landinu.

Þetta fyrirkomulag sem nú er uppi er ekki með neinum hætti boðlegt. En þessi vandamál vegna verðmætis veiðiréttarins munu alltaf verða uppi vegna þess að það er alveg saman hvernig menn stjórna fiskveiðum. Veiðirétturinn mun alltaf hljóta verð og það verða menn að horfast í augu við. Sjómenn þurfa auðvitað að gera það líka. Með öðrum hætti verður aldrei hægt að koma á eðlilegu fyrirkomulagi.

Ég held að reynslan sé nú búin að kenna mönnum þetta. Svo lengi hafa menn rekið þetta kerfi og svo lengi hafa menn séð gallana á því fyrirkomulagi sem er uppi, að það er eiginlega ótrúlegt að stjórnvöld skuli enn þann dag í dag mæta með svona plögg í sali hv. Alþingis, án þess að ætla að taka á aðalvandamálunum.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að gera betur en þetta í þetta sinnið og ekki hefur hann heldur boðað nein plön um að hann ætli að ráðast að rótum vandans. Ekki hef ég heyrt neitt einasta orð frá hæstv. sjávarútvegsráðherra um að hann vilji skilja á milli veiða og vinnslu eða reyna að sjá til þess með einhverjum ráðum að fiskur hljóti með sambærilegum hætti verð á markaði í landinu. Ég hef heldur ekki séð að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé með nein plön uppi um að tekið verði á þeim vandamálum sem fylgja háu kvótaverði.

Það er auðvitað hægt að gera það. Leigumarkaður með kvóta er að mörgu leyti mjög óeðlilegur. Ég hef bent á það áður, að með einfaldri leið, þ.e. að úthluta alltaf á grundvelli þriggja ára veiðireynslu til útgerðanna í landinu, þá mætti draga verulega úr leigubraskinu sem er í gangi. Vegna þess að þá mundi veiðirétturinn færast hægt og bítandi til þeirra sem eru að nýta hann.

Er það ekki þannig sem það á að vera? Á ekki veiðirétturinn að vera hjá þeim sem róa og veiða fisk? Er einhver framtíðarsýn fólgin í því að það verði fleiri og fleiri sem geri bara út á einhverjar kvótaleigur?



[20:21]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er fastur liður að á hverjum vetri koma nokkur frumvörp til þess að stoppa í göt kvótakerfisins. Undanfarin ár hafa hæstv. sjávarútvegsráðherrar lagt fram hvert frumvarpið á fætur öðru, sum með litlum bótum, önnur með stærri bótum. Saumarnir hafa oft ekki verið úr merkilegum þræði þannig að þeir hafa raknað upp. Því frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra flytur nú er ætlað að stoppa upp í göt en svo verða saumarnir slakir og lélegir og rakna. Þá eru viðbrögðin þau að setja nýja bót ofan á þá bót sem fyrir er og það án þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi gert sér grein fyrir hvar slitið var mest. Það eitt var vitað að bótin sem fyrir var var slitin. Nú er ég ekki að gera grín að því þótt menn nýti flíkur sínar og setji bót á bót ofan, alls ekki. Nýtni þótti góð hér áður fyrr og þykir enn.

En þar sem um er að ræða jafnmikilvægan þátt og lög um fiskveiðistjórn og meðferð á stærstu auðlind landsmanna hlýtur maður að spyrja: Hvenær ætla stjórnvöld — það er sýnilegt að núverandi stjórnvöld munu ekki gera það — að átta sig á að kerfið er einfaldlega vitlaust? Það breytir engu þó að ein bótin sé sett yfir aðra, kerfið er vitlaust í grunninn. Það er það sem við sjáum þó að ríkisstjórnin sjái það ekki. Þó að það hafi verið sett í stjórnarsáttmálann að auðlind sjávar skuli vera sameign þjóðarinnar og það skuli bundið í stjórnarskrá þykir ekki ástæða til að fara eftir því. En það er einmitt forsendan fyrir því að vinna þann lagagrunn sem við erum að fjalla um.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra, af því ég veit að hann er um margt vel meinandi í sjávarútvegsmálum, hvaða rök ríkisstjórnin hafi fyrir því að stoppa þetta. Sjálfstæðisflokknum er kennt um að hafa stoppað þetta ákvæði stjórnarsáttmálans, að fiskurinn í sjónum verði skilgreindur sem staðfest sameiginleg auðlind þjóðarinnar og það bundið í stjórnarskrá, þótt framsóknarmönnum sé það ekki heilagra en svo að þeir ganga ekki úr sænginni. Hvers vegna stoppa sjálfstæðismenn þetta? Eða er það satt að þeir stoppi það? Einn af flóttamönnunum úr Framsóknarflokknum, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, fullyrti að sjálfstæðismenn hefðu stoppað þetta ákvæði stjórnarsáttmálans. Hann notaði það sem eina af ástæðunum fyrir því að hann gekk úr Framsóknarflokknum, að Framsóknarflokkurinn hefði látið bjóða sér þetta. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna er þessu ákvæði stjórnarsáttmálans ekki fylgt? Það er mikilvægur grunnur undir alla þá lagabálka sem við fjöllum um.

Áður en ég fer í einstaka efnisþætti þessa frumvarps vil ég minna á stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í sjávarútvegsmálum. Við leggjum áherslu á að staðfest verði í stjórnarskrá og í reynd að auðlindir sjávar verði í sameign þjóðarinnar og að þeir sem nýta auðlindina hafi fyrst og fremst nýtingarrétt. Að einstaklingar eða fyrirtæki sem fá heimild til þess að nýta auðlindina geri það á skilgreindan hátt innan þeirrar afmörkunar sem kveðið verði á um hverju sinni en aldrei verði um eign að ræða. Meðan nálgunin verður í æ ríkara mæli sú að um eign útgerðaraðila sé að ræða verður ekki sátt um sjávarútveg. Það er alveg klárt. Þetta er það mikilvægasta sem þarf að gera fyrir utan almenna grunnþætti hvað varðar nýtingu á auðlindinni sem þurfa að koma mun ákveðnar í lög.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt áherslu á að sjávarútvegurinn falli að lögum, reglum og kröfum um sjálfbæra þróun og að umgengni við auðlindina, við náttúruna, við lífríkið, við einstaka nytjastofna, við vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan, lúti og fari að markmiðum og kröfum um sjálfbæra þróun og náttúran njóti vafans. Ef umrætt ákvæði yrði á ákveðnari hátt tekið inn í stjórn fiskveiða þyrftum við síður að standa í því að vera að kagbæta kvótakerfið — þar eru menn stöðugt á mörkum hins lagalega, að nýta sér til fjár auðlindir þjóðarinnar eins og við þekkjum og frumvarpið staðfestir. Þeir sem fara með fiskveiðiheimildirnar eru að leita að lagakrókum til þess að brjóta lög og reglur, bæði lög um stjórn fiskveiða og einnig kjara- eða skiptasamninga við þá menn sem þar vinna. Segir það okkur ekki eitthvað um þann anda sem virðist vera innan sjávarútvegsins sem byggist á kvótakerfi? Talað var um kvótabrask, menn elta skottið á sjálfum sér í því að reyna að stöðva það. Það er því mjög athyglisvert, sem kemur fram í frumvarpinu, að þessir aðilar muni vera að brjóta lög. Mér finnst það segja sitt að í frumvarpi, sem hæstv. ráðherra flytur, er sagt berum orðum að þessir aðilar muni vera að brjóta lög. Hér segir, með leyfi forseta:

„Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð …“

Hvað er þetta annað en meint lögbrot? Menn setja slíkt orðalag ekki í frumvarp nema þeir hafi meira en staðfestan grun, nema þeir hafi staðfesta vitneskju um að svo sé. Okkur kemur þetta ekkert á óvart, við heyrum um þetta talað. Enda er mikið í húfi. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, sem ég hygg að þekki þessi mál vel, að mörgum öðrum þingmönnum ólöstuðum. Ég er ekki þar með að segja að hæstv. ráðherra þekki þau ekki líka vel. En ég tók eftir því að hann var að tala um að kvótaverðið væri 2.500–2.600 kr. kílóið af óveiddum þorski. Er það satt? Heyrði ég rétt? (Gripið fram í: Þetta er eins og laxveiði.) Þetta er fiskur og hver á þennan fisk? Hefur einhver velt því fyrir sér? Hver á þennan fisk? Jú, er það ekki þjóðin eða er það ekki framtíðin sem á þennan fisk? Fiskinn sem kvótakerfið leyfir sér að verðleggja sjálfu sér með þessum hætti. Mér finnst það gróft. Þetta sýnir okkur í hvaða óefni greinin er komin. Hvernig ætla nýir aðilar að komast inn í útgerð með þetta verð á veiðiheimildum? Ef haft er í huga að styrkur hvers atvinnuvegar felst í aðgengi nýrra aðila sjáum við á hvaða brauðfótum greinin stendur ef þessi er raunin.

Þeir sem komnir eru í erfiða stöðu leita alltaf leiða til að fara fram hjá lögum. Ég minnist þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði — ég held mér sé óhætt að vitna í það sem hann hefur sagt þó að hann sé fjarstaddur — að um leið og búið væri að setja einhver lög, sérstaklega ef þau lúta að eignum eða fjármunum, sé fjöldi manns farinn að hugsa hvernig eigi að fara í kringum þau til þess að ná í fjármuni. Þau orð er hægt að heimfæra rækilega á kvótakerfið.

Herra forseti. Ég skil alveg sjónarmið hæstv. ráðherra. Hann telur sig vera að vinna gott og þarft verk. Hann er að reyna að stoppa þá óhæfu sem er í gangi, að láta sjómenn taka þátt í kaupum á kvóta eða kostnaði við að leigja kvóta til útgerðarinnar. En þetta segir okkur bara eitt. Þetta segir okkur að kerfið er í heild sinni alveg meingallað.

Rætt hefur verið um verðmyndunina. Hvaða verðmyndun er í gangi þegar maður er kominn inn í þetta kvótakerfi? Ég hef séð flutta á Alþingi tillögu til þingsályktunar um hvernig megi auka fullvinnslu á fiski hérlendis. Þar hef ég lagt til að sjávarútvegsráðherra verði falið að kanna orsakir mikils útflutnings á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis og möguleika til að draga úr honum og auka í stað fullvinnslu innan lands. Í greinargerð með þeirri tillögu er rakið hversu stór hluti af afla landsmanna er fluttur út í gámum án þess að hann fari í gegnum fiskmarkaði. Án þess að innlendar fiskvinnslur hafi möguleika á því að bjóða í fiskinn. Fiskurinn er fluttur út í gámum án þess að innlendir aðilar hafi einu sinni möguleika á að bjóða í hann. Hvers konar verðmyndun erum við þá að tala um? Hvers konar verðmyndun erum við að tala um þegar innlendar fiskvinnslur fá ekki einu sinni leyfi til að bjóða í hann? Ætli það sé ekki einhver skondin verðmyndun fyrir utan þær vigtunaraðferðir sem hafa þá líka áhrif á það skilaverð sem útgerðin og sjómennirnir fá til skipta?

Í þessari þingsályktunartillögu, sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, krefjumst við þess að fiskur sem á annað borð er verið að selja utan eigin fiskvinnslu fari á markað innan lands. Erlendir aðilar geta þá boðið í þann fisk á íslenskum fiskmörkuðum og flutt hann út. Mér finnst þetta enn meira mál en svo að vera hér að þvarga um lagafrumvörp um það hvernig koma megi enn frekari böndum á þá lögleysu að láta sjómenn taka þátt í kaupum eða leigu á kvóta. Ég sé ekki annað en samkvæmt gildandi lögum séu fullnægjandi heimildir fyrir því. Þar er einungis um að ræða viljaleysi þeirra aðila sem eiga að framfylgja lögunum til að taka á málunum.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hverjir eiga eiginlega að sjá um að þessum lögum, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sé framfylgt? Ég var að lesa um þessa úrskurðarnefnd. Mér sýnist hana í sjálfu sér ekki vanta neinar upplýsingar eða möguleika til að ná sér í upplýsingar. En ef brotaviljinn er fyrir hendi og það kerfi sem í gangi er hvetur til brota þá er heldur erfitt um vik.

Ég sé ekki annað en að ráðherra sé á fullkomnum villigötum hvað það varðar að taka á þessu máli, fullkomlega á villigötum. Við höfum, að mér sýnist, nægjanlegan lagagrunn til að taka á þessum þáttum að það megi ekki láta sjómenn taka þátt í kaupum eða leigu á kvóta. Þetta snýst frekar um að framfylgja lögunum. Ný lög eða viðbótarlög ofan á það breyta engu um það. Ég get ekki séð það.

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur haft það að markmiði að taka allar auðlindir þjóðarinnar og eignfæra þær, setja eignarréttinn á auðlindunum í hendur örfárra aðila. Hún hefur flutt hvert frumvarpið á fætur öðru um hvernig megi tryggja þann eignarrétt, girða fastar og fastar utan hann. Þetta frumvarp er einmitt einn liðurinn í því að festa hið rangláta kvótakerfi í sessi með nýjum bótum ofan á eldri bætur.

Ég vil taka undir það sem margir hv. þingmenn hafa sagt, að verðmyndunin, grunnurinn fyrir þessu rugli öllu saman, er alls ekki á hreinu. Það eru margar útgáfur af verðmyndun. Allt frá því að fiskurinn er notaður til vinnslu í eigin útgerð, sendur á markaði eftir dúk og disk og annar hluti aflans er seldur úr landi án þess að komast á markaði innan lands. Ef hann kæmist á markað innan lands væri hægt að fá á hann hæsta verð sem hugsanlegt væri í íslenskum fiskvinnslum og erlendir aðilar gætu þá boðið á jafnréttisgrunni á móti.

Grunnurinn fyrir þetta kerfi er rangur. Kvótakerfið er óréttlátt. Það er rangt. Það að ríkisstjórnin skuli hafa svikið loforðið sem hún gaf kjósendum sínum, sem hún gaf flokkunum sínum, um að fyrir lok kjörtímabilsins yrði búið að binda það í stjórnarskrá, eða að minnsta kosti koma því í þann farveg að það yrði gert, að auðlindir sjávar yrðu sameign þjóðarinnar og það væri aðeins nýtingarrétturinn sem væri til ráðstöfunar eftir settum reglum á hverjum tíma. Þá væru það byggðirnar vítt og breitt um landið, fólkið vítt og breitt um landið, sem ætti fyrsta rétt. Það eru ekki bara útgerðirnar sem hafa skapað verðmyndunina í sjávarútveginum heldur líka fiskvinnslufólkið, íbúarnir í sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið. Það fólk hefur ekki hvað síst átt hlut í því að móta verðmætamat í íslenskum sjávarútvegi sem er mikill en hlutur þess er (Forseti hringir.) sárlega rýr. Það kerfi sem hér um ræðir er einungis bót á (Forseti hringir.) annars meingallað fiskveiðistjórnarkerfi, herra forseti.



[20:41]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágæt og athyglisverð ræða sem hér var flutt. Mér finnst mjög merkilegt að verða vitni að því að fulltrúi þess flokks á Alþingi sem er lengst til vinstri skuli sýna markaðsöflunum miklum mun meiri skilning en Sjálfstæðisflokkurinn sem segir sig stundum vera hægri flokk, eða ég veit ekki hvað það er, en hann er alla vega sérhagsmunaflokkur.

Það frumvarp sem við ræðum sýnir einmitt að það kristallar sérhagsmuni og að þá eigi að vernda. Því er verið er að tryggja þetta kerfi og friða það með því að réttlæta þetta LÍÚ-kerfi.

En mér finnst eitt athyglisvert. Þegar við hlustuðum á ræðuna talaði hv. þingmaður um að tryggja ætti sjálfbærar veiðar, að veiða meira í sátt við náttúruna og ég get tekið undir að við eigum að horfa til þess. Það kerfi sem við höfum búið við á undanförnum áratugum er alvont. Það kom m.a. fram í fréttatíma Ríkisútvarpsins í kvöld að enn og aftur er verið að boða niðurskurð.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir sjónarmið okkar í Frjálslynda flokknum að leyfa frjálsar handfæraveiðar. Þær voru frjálsar hér um aldir og fiskstofnar uxu og fóru í lægð og síðan uxu þeir á ný. Þær veiðar virtust ekki hafa nein áhrif. Ættum við ekki bara að fara þá leið að leyfa þetta á ný algjörlega frjálst, eins og við í Frjálslynda flokknum viljum? Við tökum einnig undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) um að láta markaðsöflin ráða varðandi fiskverð.



[20:43]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti mjög ítarlega í ræðu minni að um leið og maður fer að eignfæra auðlind sem er í rauninni ekki bara til nýtingar í dag heldur til framtíðar, þá er fjandinn laus. Þess vegna stendur þetta stríð um að hve miklu leyti þessi auðlind er eignfærð í séreignarrétt. Það hefur verið krafa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, svipað og gerðist með vatnið. Ég get fullvissað þingmanninn um að komist þetta vatnalagafrumvarp til framkvæmda þar sem á að einkavæða vatnið, munum við fá lífskerfi eins og verið er að byggja upp í sjávarútveginum með kvóta og bótum, bót ofan á bót. Um leið og þetta er komið á er maður bara kominn út í allt annað umhverfi.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að eins og nú er verið að stýra þessum atvinnuvegi er verið að stýra honum gersamlega fram hjá hagsmunum einstaklinga í einstaklingsrekstri eða fjölskyldum sem hafa verið með sjávarútveg í smærri stíl. Það hefur markvisst verið unnið að því að drepa einstaklingsreksturinn, einyrkjareksturinn í sjávarútvegi, sem er stórhættulegt og kolrangt.

Sú stefna sem hér hefur verið rekin hefur miðað að því að færa eignar- og yfirráð yfir auðlindinni yfir á örfárra manna hendur. Þegar maður er kominn út í þetta kapítalíska umhverfi (Forseti hringir.) er fjandinn laus varðandi þessa auðlind. Ég kem, herra forseti, að seinni hluta spurningar hv. þingmanns í næsta andsvari.



[20:45]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú ekki sagt að það kerfi sem við búum við sé kapítalískt. Það er miklu frekar sérhagsmunagæsla þar sem markaðslögmálin fá ekki að ráða. Þetta er sérhagsmunagæsla sem maður er svo hissa á og verða enn og aftur vitni að því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki einmitt leyfa markaðslögmálunum að ráða verðmyndun heldur vera með einhverja verðlagsstofu sem tekur mið af hinu og þessu. Þetta er mjög gamaldags í rauninni. Þegar sagnfræðingar líta yfir farinn veg einhvern tímann í framtíðinni og verða að lesa í gegnum þessa umræðu og sjá að fulltrúi vinstri manna hefur gagnrýnt hægri menn fyrir að láta ekki markaðslögmálin ná yfir undirstöðuatvinnugrein landsmanna, mun þá auðvitað reka í rogastans að sjá hvers konar vitleysa þetta er.

En hér er hæstv. sjávarútvegsráðherra að boða að festa þetta kerfi í sessi og vera með einhverja bót sem er í rauninni engin sérstök bót. Færð hafa verið rök fyrir því að slík bót hafi verið til staðar í lögum sem eru í gildi og þess vegna sé þetta frumvarp svona rétt til að sýnast, eins og svo margt sem hæstv. ráðherra er að gera.

En fróðlegt væri að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort hann geti einfaldlega stutt frjálsar krókaveiðar vegna þess að sú kvótasetning sem hefur verið hefur ekki skilað neinu. Nú er enn og aftur í kvöld verið að boða niðurskurð á aflaheimildum og maður furðar sig á því hvað þetta á að ganga langt.



[20:47]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Númer eitt er að breyta verður grunninum og forsendunum fyrir fiskveiðistjórnarkerfinu. Auðvitað verðum við að vera með stýringu á því hvernig við nýtum auðlindina. En ég vil minna á að í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er einmitt lögð áhersla á að flotanum sé skipt upp og byggðirnar fái sérgreindan rétt til veiða á grunnslóðinni. Og fólkið í landi, fólkið í sjávarplássunum, sem hefur átt sína hlutdeild í að gera þessa auðlind að því verðmæti sem hún er, á sinn rétt. Það er ekki bara hægt að segja að stórútgerðirnar eigi sinn rétt. Það er markvisst verið að útrýma einyrkjunum í útgerðinni. Ég nefndi einmitt verðið á kvótanum, það er náttúrlega alveg út í himinblámann og útilokar algerlega nýliðun.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um krókaveiðar verðum við náttúrlega fyrst að breyta grunni kerfisins og krókaveiðar í kvótakerfi eru í sjálfu sér líka vandamál. En á bátum með venjulegum handfærum þar sem ekki er um hreina verksmiðjuhandfærabáta að ræða, þá sýnist mér þetta vera — það er í sjálfu sér ekki vandinn. Aðalmálið er að breyta grunni kerfisins og vinna síðan út frá því. Það held ég að við hv. þingmenn séum sammála um, þ.e. að (Forseti hringir.) réttur fólksins og réttur byggðanna vítt og breitt um landið fái að njóta sín í alvörunni, (Forseti hringir.) herra forseti.



[20:50]
Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta hefur verið að mörgu leyti áhugaverð umræða um frumvarp það sem lagt er fram af hálfu hæstv. sjávarútvegsráðherra. Eftir framsögu hæstv. ráðherra spurði ég nokkurra spurninga í stuttu andsvari og ráðherra gerði tilraun til að svara spurningunum einnig í stuttu andsvari. En eins og ég sagði í fyrri ræðu minni taldi ég mig ekki hafa fengið svör við þeim spurningum sem ég lagði fram. Og eftir fyrri ræðu mína þar sem ég fór betur yfir málið og bætti talsvert í af spurningum átti ég von á að hæstv. ráðherra kæmi inn í umræðuna, að minnsta kosti í andsvari við mig og reyndi þá svara einhverju af því sem ég hafði lagt fram. En úr því að ráðherra virðist ætla að velja það að svara mér í ræðu en ekki í andsvari þá held ég að ég verði að nota tækifærið og leggja fram aðeins meira af spurningum um frumvarpið og einnig þau lög sem eru í gildi.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni átti ég erfitt með að koma auga á hvað það væri sem knýi á um lagabreytingu og benti á með rökum að þau ákvæði sem fram koma í greinum frumvarpsins, þó að eitthvað af þeim hnykkti betur á ákveðnum hlutum, þá sæi ég ekki betur en að heimildir væru í núverandi lögum til að gera allt það sem verið er að tala um að þessi lagabreyting ætti að ná fram.

Í almennum athugasemdum við frumvarpið segir að ráðast þurfi í þessa breytingu til að Verðlagsstofa geti ekki bara farið yfir samninga sem lagðir eru fram heldur líka fylgt því eftir að gert sé upp samkvæmt þeim samningum sem lagðir eru fram og gripið þá inn í ef það er ekki gert. Í athugasemdunum segir, með leyfi forseta:

„Til að fylgjast með því að útgerðarmenn geri upp við áhafnir í samræmi við samninga hefur Verðlagsstofa m.a. beitt úrtakskönnunum. Í því hefur verið fólgið mikilvægt aðhald fyrir þá sem hlut eiga að máli. Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð og hefur Verðlagsstofa ekki haft nægilega virk úrræði til að bregðast við þegar slík mál hafa komið upp. Það er því þörf á að Verðlagsstofa leggi meiri áherslu á að fylgjast með einstökum útgerðum, sem ástæða er til að ætla að geri ekki upp við áhafnir í samræmi við samninga og fái jafnframt virkari úrræði til að fylgja slíkum málum eftir. Lagafrumvarpi þessu er ætlað að bæta úr þeirri þörf. Verði frumvarpið að lögum mun Verðlagsstofu ekki aðeins vera heimilt og skylt að hafa eftirlit með að fullgildir samningar um fiskverð liggi fyrir heldur ber henni jafnframt, eftir því sem tilefni er til og mögulegt er, að hafa eftirlit með og fylgja því eftir að gert sé upp við skipverja samkvæmt þeim samningum.“

Þetta er sem sagt yfirlýstur tilgangur frumvarpsins. Í lögunum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Verðlagsstofa skiptaverðs skal afla ítarlegra gagna um fiskverð. Skal hún með skipulegum hætti vinna úr upplýsingunum sundurliðuð yfirlit um fiskverð miðað við einstök landsvæði, tiltekna viðskiptahætti og stærðar- og gæðaflokka. Stofan skal reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum, sjómönnum og fiskkaupendum sem best. Þá skal stofan afla gagna um afurðaverð og horfur um þróun þess.“

Það segir fyrr í lögunum að Verðlagsstofa hafi meira að segja heimild til að semja við fagaðila um almenna öflun og úrvinnslu gagna. Ef einhver vandræði eru með það hjá Verðlagsstofu að vinna úr gögnum getur hún ráðið til þess verktaka og hefur til þess heimild samkvæmt lögunum.

Í 4. gr. segir: „Til að Verðlagsstofa geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. gr. ber Fiskistofu og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr upplýsingum að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að öllum upplýsingum um ráðstöfun afla og fiskverð.“ Það er því óumdeilt að hún getur krafist upplýsinga og hún á að fá þær.

Síðan segir í 5. gr. að við athugun einstakra mála geti Verðlagsstofan krafið fjöldann allan af aðilum um upplýsingar til að fylgjast með hvort farið hafi verið að samningum með fiskverð. Og hverjir eru það sem hún getur krafið um slíkar upplýsingar? Það eru allir sem koma að meðferð, sölu, vinnslu, fjármögnun, flutningi á aflanum sem um er að ræða. Í 5. gr. segir enn fremur:

„Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa skiptaverðs“ — hún getur sem sagt tekið upp einstök mál og skoðað þau — „krafið sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila, fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Verðlagsstofa skiptaverðs getur við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum“ — þ.e. öllum opinberum aðilum sem að málinu koma — „þar á meðal skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, sem og bönkum og sparisjóðum, óháð þagnarskyldu þeirra.“

Það er ekki einu sinni bankaleynd sem gildir samkvæmt lögunum þannig að hún getur í rauninni fengið allar þær upplýsingar sem hún þarf til að fylgjast með því að samningar séu haldnir. Lögin setja þessa skyldu á herðar Verðlagsstofu skiptaverðs og því er spurningin þessi: Hefur Verðlagsstofan ekki farið að lögunum eins og þau eru? Hefur hún tamið sér einhverjar þær aðferðir eða þær útfærslur í sinni vinnu að hún komist ekki út úr þeim nema með því að búa til einhverjar breytingar á lögunum sem í raun eru kannski engar breytingar þegar upp er staðið? Getur verið að Verðlagsstofa sé búin að festa sig í því að hún megi bara taka einhverjar úrtakskannanir sem af handahófi eru ákvarðaðar þó að lögin segi að hún skuli meðal annars með slíkum könnunum sinna hlutverki sínu? En þá segja lögin líka að hún geti athugað einstök mál og farið ofan í þau. Getur verið að lögin hafi verið framkvæmd með þeim hætti að Verðlagsstofan hafi fest sig eingöngu í úrtakskönnunum og treystir sér einfaldlega ekki til að taka upp ný vinnubrögð þó að lögin heimili það nema að lögunum verði breytt á þann hátt sem hér er verið að gera?

Ég lýsti því yfir í fyrri ræðu minni og lýsi því yfir aftur að ég er tilbúinn til að leggja talsvert afl í að stoppa í göt ef þau eru fyrir hendi, en lýsi því jafnframt yfir að ég er ekki tilbúinn til að fara yfir og eyða tíma í frumvörp til að breyta lögum ef þau frumvörp eru eingöngu sett fram vegna þess að sá aðili sem átti að framfylgja gildandi lögum hafi ekki gert það með þeim hætti sem lögin kveða á um. Því síður er ég tilbúinn til að taka þátt í að afgreiða hér frumvarp eingöngu til þess að einhver tala um ákveðin lagafrumvörp frá ákveðnum ráðuneytum sé þokkaleg eða uppfylli einhvern kvóta sem menn eru að velta fyrir sér.

Er nauðsyn að ráðast í þessa breytingu og gera það með þeim hætti sem hér er verið að tala um? Eða er kannski nóg fyrir hæstv. ráðherra að ganga eingöngu fram og krefjast þess að lögin verði framkvæmd eins og þau hljóma?

Í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

„Víki fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar“ — þarna er ekki verið að tala um samninga heldur bara uppgjörið á aflahlutnum — „í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða skal Verðlagsstofa skiptaverðs taka málið til sérstakrar athugunar.“

Hvaða heimild vantar til þess að Verðlagsstofan taki mál til athugunar þegar grunur er uppi um að ekki sé gert upp miðað við samning sem lagður hefur verið fram? Mér er algjörlega ómögulegt að koma auga á nauðsyn þess að bæta í lögin eins og þau eru eða koma auga á að það skorti heimildir fyrir Verðlagsstofu skiptaverðs til að gera það sem lögin heimila henni að gera.

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti svarað þeim spurningum. Eins þætti mér vænt um það ef hv. formaður sjávarútvegsnefndar kæmi inn í umræðuna og lýsti því fyrir okkur hvaða álit hann hefur á þessu, því mér er ómögulegt að sjá til hvers er verið að breyta lögunum, herra forseti.



[21:00]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp sem er bót á gallað verðmyndunarkerfi sem er með margvíslegum hætti í sjávarútvegi. Það eru m.a. frystiskipin þar sem heimsmarkaðsverð ræður og það er eðlilegt, svo eru skip sem selja beint á markað og síðan er verðmyndun í föstum samningum. Þetta er allt hið einkennilegasta kerfi í þessum sjávarútvegi og það sætir furðu að fulltrúi vinstri flokkanna á Alþingi skuli hafa meiri skilning á markaðslögmálum en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherra, sem vill halda í það margbrotna og óréttláta kerfi sem ríkir í sjávarútvegi, kemur beint niður á og skerðir mjög hag sjómanna. Ég tel að áður en við förum lengra í þetta mál verði menn að velta fyrir sér grunninum á kerfinu, þ.e. að þetta kerfi byggir á kvótakerfinu sem var hugsað til þess að byggja upp fiskstofna og tryggja byggð í landinu. Þegar maður fer hringinn í kringum landið sér maður að þetta kerfi hefur ekki skilað góðum árangri.

Ég var síðast staddur á Djúpavogi og það var nánast einróma álit fólks þar að þetta kerfi væri nánast ótækt. Ef maður fer síðan hringinn í kringum landið sér maður að kerfið er mjög vont í alla staði. En það gengur upp út frá lagatæknilegu sjónarmiði og síðan einhverju skriffinnskusjónarmiði en ekki við að byggja upp fiskstofna. Það sér hver maður að við það að banna veiðar á einum stað, t.d. inni í Berufirði, mun fiskunum ekki fjölga á t.d. Vestfjarðamiðum en samkvæmt því kvótakerfi sem þetta frumvarp er hluti af er gengið út frá því og þá gengur það upp út frá stjórnsýslu og skriffinnsku að draga aflaheimild í Berufirði frá því sem má veiða á Vestfjörðum. Þetta er fáránlegt og þessu kerfi þarf að linna.

Við höfum dæmin fyrir okkur um fiskveiðistjórnarkerfi sem ganga upp. Þá á ég ekki við það kerfi sem er notað í Evrópusambandinu, heldur í Færeyjum. Alls staðar þar sem reynt hefur verið að nota kvótakerfið er allt á sömu bókina lært, það hefur í rauninni skilað stórtjóni. Ef maður fer til sjávarbyggða í Skotlandi er búið að leggja þar um 70% af fiskveiðiskipum á undanförnum örfáum árum og ég held að við verðum aðeins að átta okkur á því hvernig ástandið er á Íslandi. Við skerum eilíft niður aflaheimildir og nú erum við komin í um 200 þús. tonna þorskkvóta en að jafnaði voru fyrir nokkrum árum veidd um 400 þús. Við erum sem sagt í helmingi minni afla af þorski en við vorum fyrir daga kerfisins.

Hvað gera helstu talsmenn þessa kerfis? Þeir boða enn og aftur niðurskurð. Hverju á hann að skila? Síðast í kvöldfréttunum í kvöld var sagt að það ætti að skera meira niður. Þar kom fulltrúi Hafrannsóknastofnunar, sjálfur forstjórinn, á fund vestur á fjörðum og sagði að skera þyrfti niður. Það sem mér þótti athyglisvert og ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra um er hvort það sé ekki rétt að bera þá á borð einhver gögn frá andmælendum kerfisins eða þeim sem hafa aðra sýn þegar fulltrúar vísindastofnunar fara um með svona fréttir. Meðal annarra gæti sá sem hér talar farið yfir forsendurnar.

Þessir menn hafa ítrekað sýnt að þeir hafa haft rangt fyrir sér. Hæstv. sjávarútvegsráðherra vill einhverra hluta vegna alls ekki að þessar kenningar séu skoðaðar með gagnrýnum augum. Til dæmis hafa vísindastyrkir ekki verið veittir þeim sem hafa viljað skoða þessa hluti með öðrum hætti, hafa jafnvel lagt grunninn að árangursríku fiskveiðistjórnarkerfi í Færeyjum. Þar á ég ekki síst við Jón Kristjánsson fiskifræðing. Hann hefur náð árangri þar. Þar er botnfisksaflinn svipaður og jafnvel meiri en fyrir 20 árum eftir að Færeyingar tóku upp sóknarstýringu. Það er miklu nær að reyna að stýra með þeim hætti en að stjórna afla með fyrir fram ákveðnu magni sem er reiknað út frá gögnum sem eru kannski nokkurra mánaða gömul. Ég verð að segja að þetta er álíka og að ákveða að vori til hvað eigi að koma mikið upp úr öllum kartöflugörðum landsins að hausti, að það yrði gefin út einhver heildaruppskera yfir línuna. Það sjá allir að það er tóm della, sérstaklega ef menn vita ekki hvað þeir eru með mikið útsæði og þar er einmitt mesta óvissan í stjórn fiskveiða, yngstu aldurshóparnir. Það er mikil óvissa varðandi þá. Ég verð að segja að mér finnst hæstv. sjávarútvegsráðherra búinn að koma sér í brjóstumkennanlega stöðu. Hann er búinn að vera einn helsti andmælandi kerfisins í gegnum árin og kemur síðan með frumvarp sem er hvorki eitt né neitt. Hér hefur verið sýnt fram á með veigamiklum rökum, sérstaklega af hv. þm. Jóni Gunnarssyni, að nánast engin breyting felst í þessu. Einnig kom fram í andsvari hæstv. ráðherra við mig að þetta snertir ekki neitt þá sjómenn sem taka mjög mikinn þátt í leigu aflaheimilda, þ.e. suma hverja sem eru á minnstu bátunum, undir 15 tonnum, sem hafa ekki einu sinni kjarasamning.

Morgunblaðið gerði á sínum tíma samning við blaðburðarbörn sín eftir umræður sem fram fóru í samfélaginu, en hér verðum við vitni að því að hæstv. sjávarútvegsráðherra lýsir því nánast yfir að það komi honum ekki við hvort sjómenn landsins hafi kjarasamning eða ekki. Síðan leggur hann fram frumvarp sem snertir þá ekki neitt, en án efa þurfa einhverjir að taka þátt í þessum viðskiptum sem skerða hlut þeirra. Ég verð að segja að mér finnst illa komið fyrir hinum gamla Sjálfstæðisflokki að vera í þessum verkum og halda því fram að þetta sé byggðatengt mál, að bátum undir 15 tonnum hafi fjölgað. Ætli það sé ekki miklu frekar það að þegar verðlagning á aflaheimildum rýkur upp er orðin einfaldlega meiri pressa að taka af launum sjómanna og þá er helst tekið þar sem engir eru kjarasamningarnir. Einhver hluti af þessum sjómönnum er að verða af erlendu bergi brotinn því að Íslendingum bjóðast einfaldlega betri laun annars staðar en á þessum bátum. Maður er svo hissa á því að sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli ekki sýna meiri metnað fyrir hönd atvinnugreinarinnar en kemur fram hér æ ofan í æ í þeim frumvörpum sem hann leggur fram. Hann leggur fram frumvörp sem eru hvorki fugl né fiskur, sem í rauninni taka ekki á þessum vanda og opna alls ekki fyrir nýliðun í greininni.

Það er einmitt nýliðun sem greinin þarf. Það þarf að fá ungt fólk til að taka þátt í atvinnugreininni og það verður þá gert með því að hafa leikreglurnar sanngjarnar og að þær tryggi að ungt fólk geti sótt inn í greinina. Meðan svo er ekki verður engin nýliðun og þá helst þessi þróun áfram sem er í sjávarútvegi. Ef hæstv. sjávarútvegsráðherra þorir ekki að skoða þá rannsóknastefnu sem hefur verið í tísku á undanförnum árum með gagnrýnum augum mun hann áfram horfa upp á niðurskurð. Því miður virðist hæstv. sjávarútvegsráðherra vera það kjarklaus að hann þori ekki einu sinni að veita fjármagn (Forseti hringir.) í þær rannsóknir sem vilja skoða þá stefnu sem hefur verið á umliðnum árum (Forseti hringir.) með gagnrýnum hætti og (Forseti hringir.) skilar því miður eingöngu niðurskurði.



[21:11]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt að menn rifji upp hvernig Verðlagsstofa skiptaverðs varð til. Eftir ítrekaðar vinnudeilur milli útgerðarmanna og sjómanna sem enduðu sífellt með því að lög voru sett á sjómenn á hv. Alþingi varð til þessi sáttmáli milli útgerðarmanna og sjómanna. Hvað sögðu hv. þingmenn og ráðamenn í samfélaginu? Þeir eiga að semja. Þeir áttu að leysa þann hnút sem var búinn til á Alþingi með þessu fyrirkomulagi sem er hér í veiðum og vinnslu, í kvótamálum þar sem aðilum er úthlutaður kvóti og síðan kemst enginn að í útgerð á Íslandi öðruvísi en að kaupa hann af þeim. Svarið var ævinlega: Þeir eiga að leysa þennan hnút. Þeir eiga að semja. Þegar það gekk ekki endaði þetta ævinlega með því að menn settu lög á sjómenn.

Í þeirri nauðhyggjustöðu sem upp kom endaði það með því að þessi sáttmáli var gerður um Verðlagsstofu skiptaverðs. En er hún eitthvað mikið öðruvísi en hið gamla Verðlagsráð sjávarútvegsins, landssambandsverðið gamla illræmda sem var við lýði áratugum saman? Þar var mönnum bara skammtað eitt verð. Nú standa menn í sömu sporum og þá. Það kann að vera að það verð sem nú er uppi sé eitthvað skárra en var á þeim tíma vegna þess að fiskverð hefur hækkað gríðarlega mikið á mörkuðum erlendis, og sjómenn hafi þess vegna eitthvað betri kjör í dag en á þeim tíma sem það verð var uppi sem menn kalla landssambandsverð. Þetta var aðdragandinn að þessu verði.

Fóru menn alla leið í þessum samningum? Ég held ekki. Ég held að samanburðurinn á verðinu sem fæst á mörkuðum og því verði sem kemur út úr Verðlagsstofu skiptaverðs sýni að þarna er langur vegur á milli. Að mörgu leyti hefur þetta líka áhrif á kvótaverðið sem þarna er á ferðinni. Þetta er óverjandi fyrirkomulag en það er svo skrýtið að sjálfstæðismenn vilja viðhalda svona kerfum. Þeim finnst þetta fín kerfi, bæði í landbúnaðinum og sjávarútveginum, kvótafyrirkomulag þar sem menn fá einhverja kvóta frá ríkinu. Þeir mega selja þetta hverjir öðrum og eru undir pilsfaldinum á stjórnvöldum. Þetta eru fín kerfi á vegum Sjálfstæðisflokksins, alveg sjálfsagt að vera með svona kerfi finnst sjálfstæðismönnum. Það er enginn hissa á því þótt Framsóknarflokkurinn vilji hafa svona kerfi. Hann hefur ævinlega litið á sig sem þjón landbúnaðarforustunnar, enda voru bændur fyrirferðarmiklir á þingi á sínum tíma og þingstörf eru enn þá miðuð við tilhleypingar og vorannir í sveitum. Það er ekki eðlilegt að menn haldi þessu áfram inn í framtíðina, en þegar þessir flokkar koma saman í ríkisstjórn virðist sem svona kerfi séu fest í sessi og óluð niður með öllum mögulegum ráðum. Meira að segja hefur það átt fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra að liggja að stagbæta ríkjandi fyrirkomulag. Þótt hann hafi sjálfur verið einn af gagnrýnendum þessa kerfis, sennilega frá upphafi þess, hefur það átt fyrir honum að liggja að taka við kerfinu eins og það var og gera engar marktækar breytingar á því. Það verður greinilega hans saga, hæstv. sjávarútvegsráðherra, í sjávarútvegsráðuneytinu að hafa ekki gert miklar breytingar á þessu fyrirkomulagi, enda hefur það verið aðalverkefni ýmissa stjórnarþingmanna að reyna að finna leiðir til að koma til móts við neyð í einhverjum einstökum stöðum í landinu en ekki til að taka almennt á gildandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Ég verð að segja að ég sakna þess að hv. formaður sjávarútvegsnefndar láti uppi afstöðu sína til þessa máls. Það gæti orðið fróðlegt að hlusta á ræðu hans um þetta. Ég geri ráð fyrir að hann sé ekki par kátur með málið. Ég geri ráð fyrir því að uppruni hans úr Vestmannaeyjum og væntumþykja við sjómenn þar nái lengra en svo að þessar bætur á kerfið dugi til að fullnægja réttlætiskennd hans gagnvart sjómönnum. Það er auðséð að ekki verður hægt að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum með þeim breytingum sem hér er um að ræða.

Ég spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra um vistun aflaheimilda áðan og bíð spenntur eftir svarinu. Ég tel það mjög fróðlegt og upplýsandi fyrir þjóðina og þingið að fá að vita hvort menn eru hættir þeim leik sem þar er á ferðinni. Ég trúi ekki öðru en að við fáum skýr svör frá hæstv. ráðherra um það hér á eftir. Ég saknaði þess að hann kæmi í andsvar við mig og kæmi því máli út úr heiminum.

Það er þannig að sjávarútvegurinn blæðir fyrir hið háa kvótaverð. Með þessu jaðarverði á kvótum sem verður til með þeim hætti sem við höfum lýst í kvöld verður útgerð einstakra útgerðarmanna tóm vitleysa. Þeir fara alltaf að horfa á það hvað þeir fá fyrir þennan kvóta. Þá komast þeir að þeirri eðlilegu niðurstöðu að það sé miklu nær að selja þennan kvóta og njóta fjármunanna í einhverju öðru, setja þá í arðsamar hugmyndir frekar en að halda áfram að gera út og standa í því frá degi til dags. Þess vegna blæðir sjávarútveginum daglega, útgerðarmenn taka ákvarðanir um að selja veiðiheimildirnar sínar og fara að gera eitthvað annað. Þeir sem kaupa eru — hverjir? Stórútgerðirnar í landinu og það eru útgerðirnar sem nota leigubraskið á kvótanum til að borga þær veiðiheimildir sem þeir kaupa. Þannig er jaðarverðið á veiðiréttinum búið að loka greininni gersamlega fyrir nýliðun. Þetta er sá vandi sem við er að etja. Ég tel að hann verði ekki leystur nema menn ráðist á grundvallarþættina í þessu kerfi, m.a. — og ég endurtek það enn einu sinni hérna — væri hægt að gera það með því að úthluta veiðiréttinum á grundvelli þriggja ára veiðireynslu. Þeir sem nýttu hann fengju hann þá smám saman til sín en hann væri ekki áfram hjá þeim sem ætluðu ekkert að gera út, ætluðu bara að græða á einhverju braski.

Að lokum vil ég svo segja það í þessari ræðu minni að mér finnst að hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi að segja okkur hér hvað hann hyggst fyrir varðandi auðlindaákvæðið. Hann er aðili að ríkisstjórninni, hann ber ábyrgð á því loforði til þjóðarinnar og kjósenda í landinu að þessi auðlind verði fest í stjórnarskrá sem þjóðareign til framtíðar. Það er ekki upp á það bjóðandi að Sjálfstæðisflokkurinn sitji þegjandi sífellt þegar þessi mál eru til umræðu hér, að menn komist ekki upp í stólinn. Hæstv. forsætisráðherra hefur setið hér þegjandi þegar hann hefur verið spurður um þetta. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins þegja hér alltaf þegar þetta mál er rætt. Alvarlegar ásakanir hafa komið fram um að þeir ætli að svíkja þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum. Það var mikið talað um sjávarútvegsmál fyrir síðustu kosningar og þetta varð niðurstaðan, þetta var sáttmálinn við þjóðina, við kjósendurna, og Framsóknarflokkurinn fékk þetta inn í stjórnarsáttmálann.

Þegar um þetta er spurt í þingsölum Alþingis, hvort það sé virkilega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að stoppa málið af, sitja menn og þegja. Það er ekki mjög mannborulegt verð ég að segja. Einn og einn skrifar í blöðin: Við skulum ekki gera þetta. Við skulum ekki setja auðlindirnar í þjóðareign. Það eru sjálfstæðismenn sem skrifa þær greinar. En hér í sölum Alþingis þegja þeir.



[21:21]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni fór ég nokkuð yfir verðmyndun í sjávarútvegi og leiguviðskiptin og það fyrirkomulag allt saman en eðli málsins samkvæmt var það náttúrlega ekki tæmandi og kannski rétt að fara aðeins betur yfir það. Það er auðvitað þannig að hlutir sjómanna, þ.e. þeir sem eru á vinnsluskipum, hvort sem það eru uppsjávarvinnsluskip eða botnfiskvinnsluskipin, eru á því verði sem fæst fyrir afurðirnar á heimsmarkaði, þ.e. varan er seld beint frá skipi inn á heimsmarkaðinn á því verði sem fæst fyrir afurðirnar og það hefur verið hækkandi á undanförnum missirum í þó nokkurn tíma. Sjómenn á þeim skipum njóta því í raun og veru kjara í samræmi við heimsmarkaðsverð á afurðunum sem verið er að selja.

Þau sömu fyrirtæki sem gera út frystitogarana og uppsjávarveiðiskipin sem vinna úr aflanum og selja unna vöru gera einnig út botnfiskveiðiskip sem er yfirleitt ætlað að veiða hráefni í ferskvinnslu og koma með ferskt hráefni til vinnslustöðvanna í landi. Hvernig er verðlagningunni háttað þar? Þar er um svokallaða beina samninga að ræða milli áhafnanna og útgerðarinnar sem er ekki í samræmi við það verð sem búum við á fiskmörkuðunum þar sem önnur fyrirtæki eru að kaupa og keppa og hafa reyndar iðulega rutt brautina í nýrri markaðssetningu á ýmissi vöru sem stærri fyrirtækin hafa kannski yfirtekið síðar í krafti þess að þau höfðu aðgang að aflaheimildum umfram þau fyrirtæki sem eru án útgerðar og eiga ekki yfir aflaheimildum að ráða. Þess vegna er það auðvitað mjög mikið mál, hæstv. forseti, að verðmyndunarkerfi okkar verði breytt og menn fái að sitja við sama borð í framtíðinni og það sé í raun og veru fiskmarkaðurinn sem verðleggur fiskinn.

Svo er það þetta „blessað“ leiguverð sem við höfum verið að ræða hér og er algerlega farið úr böndum og eins og ég hef raunar sagt stundum áður í ræðum mínum þá er leiguliðinn arðsamasta fjárfestingin fyrir kvótaréttarhafann. Hann gefur eiginlega mest beint í vasann fyrir þann sem aflaheimildirnar hefur því þegar búið er að leigja aflaheimildirnar á 170–180 kr. eins og í þorskinum í dag þá koma þær óskiptar í vasa þess útgerðarmanns sem frá sér leigir og það þarf ekki að skipta þeirri upphæð með neinni áhöfn. Oftast nær er það svo að með einhverjum hætti bitnar þetta leiguverð á þeim áhöfnum sem koma nálægt því að veiða fiskinn eftir leigusamningnum þó það sé sem betur fer ekki algild regla þá er það samt oftast nær svo. Það gerist m.a. vegna þess að beina viðskiptaverðið, verðið sem samið er um í beinum viðskiptum og Verðlagsstofa stimplar, það eru miklu lægra en markaðurinn býður að jafnaði fyrir sömu fisktegund.

Þessu vildi ég bæta inn í umræðuna um fiskverð og myndun þess, leiguviðskiptin og það dæmi allt saman. Þannig að þó að því frumvarpi sem hér er til umræðu sé ætlað að taka að nokkru leyti á því og koma í veg fyrir að sjómenn taki þátt í þessum kostnaði þá er ég ekki viss um að okkur takist það með þessari viðbót sem hér er að stefnt þó að ég efi ekki að viljinn sé góður. Kerfið er hins vegar þannig upp byggt frá upphafi að það nær ekki að virða eðlileg markaðslögmál og eðlilegar viðmiðanir í sjávarútveginum.

Ef maður hins vegar kemur að veiðistjórninni, hæstv. forseti, sem er náttúrlega hluti af þessu kerfi, þá er það þannig að fiskurinn hagar sér ekki alltaf eins og útgerðarmennirnir vilja að hann hagi sér. Ýsan er dæmi um fisktegund sem hagar sér öðruvísi en kerfið gerir ráð fyrir og hefur verið meira en áður á grunnslóð, bæði í ár og á síðastliðnu ári. Það þýðir þá að vegna þeirrar fiskveiðistýringar sem við höfum gert sátt um að væri í landhelginni, m.a. með mikilli takmörkun á togveiðum innan 12 sjómílna víða frá ströndum landsins, sem sátt hefur verið um í áratugi að væri þannig, þá hafa veiðiheimildirnar af ýsu í stóra kerfinu verið núna til leigu fyrir smábátana í minna kerfinu sem veiða á línu og veiða innan fjarða og flóa ef því er að skipta, innan 12 mílna landhelginnar þar sem ýsan hefur verið í meira mæli að undanförnu en áður var. Þar af leiðandi eru veiðiheimildir núna að færast frá stóra flotanum yfir á litla flotann.

Þetta segir okkur auðvitað að kvótakerfið eins og það er uppbyggt með úthlutunum sínum í aflahlutdeild á útgerðir mælir ekki fiskhegðunina og ekki fiskgengdina og sá sem fær aflahlutdeild í raun og veru getur auðvitað leitast við að veiða hana hvar sem er við landið burt séð frá því hvernig henni var úthlutað og hvar skipin áttu heimahöfn. Við erum hins vegar með veiðireglu sem gerir það að verkum að það er ekki sjálfgefið að aflinn veiðist í viðkomandi veiðarfæri, a.m.k. ekki þegar að togveiðunum kemur, því á undanförnum árum höfum við sett inn takmörk.

Við höfum reyndar verið að setja togveiðum meiri takmörk á undanförnum árum en var kannski fyrri 20 árum, m.a. með því að friða fleiri svæði að því er varðar aðrar fisktegundir eins og karfa og einnig höfum við verið að fikra okkur inn á það að friða svæði til þess vernda botngróður, eins og kóralsvæði og annað slíkt. Það eru því fjöldamörg rök sem hafa verið tínd til á undanförnum árum við að takmarka togveiðarnar. Ég er ekki að segja þetta hér sérstaklega til að mæla fyrir um að auka togveiðarnar innan 12 mílna. Ég er eingöngu að benda á það að fiskveiðikerfið sem úthlutar aflahlutdeild sem er ekki svæðisbundin með neinum hætti er auðvitað ekki þannig að hún sé sett niður á ákveðin svæði, veiðislóðir eða landsvæði.

Þetta getur auðvitað boðið þeirri hættu heim að fiskur sé veiddur meira á einu svæði en öðru hvort sem það passar svo inn í lífríkismunstrið eða ekki og það er svo sem önnur saga og meiri fiskifræði en ég ætlaði að ræða sérstaklega í þessari ræðu.

Ég bendi hins vegar á að í næsta máli á dagskránni verður talað um svæðisbundna fiskveiðistjórn, þ.e. svokallaða úthafsfiskveiðistjórn þar sem skipt er niður í sérstök svæði og ákveðnar stjórnunarreglur sem bindast við ákveðin veiðisvæði. Það þekkja menn auðvitað annars vegar í NEAFC-reglunum og hins vegar í NAFO-reglunum í Vestur-Atlantshafinu. Þar er skipt niður bæði veiðisvæðum á rækju og karfa eins og í Kanada og við höfum auðvitað heyrt sögur af því að menn veiði á einu svæði en skrái kannski aflann á öðrum svæðum.

Þetta vildi ég benda á, hæstv. forseti, að það er ekki sjálfgefið að fiskurinn hagi sér alltaf eins og gert er ráð fyrir þegar menn úthluta ósvæðisbundið og ótímasett og það er heldur ekki sjálfgefið að með kvótakerfi sem er svona úthlutað tökum við tillit til þeirra svæða sem verið er að veiða á. Það getur verið þannig að sóknin vegna fiskgengdar beinist eingöngu inn á eitt svæði og þar tökum við kannski stóran hluta af aflanum þó svo það sé kannski ekki beinlínis í samræmi við það sem komið hefur í ljós í rannsóknum á undanförnum árum og fiskimenn hafa reyndar sagt í áratugi að það væru sérstakar þorskfjölskyldur við landið o.s.frv. og því ekki sjálfgefið að fiskur sem væri í Húnaflóa gengi í Faxaflóa eða öfugt. Á þetta vildi ég benda, hæstv. forseti, að kvótakerfið eins og það er hannað stýrir ekki fiskveiðum með tilliti til náttúrunnar.



[21:31]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði sem ég vil koma nánar að í þessari umræðu og spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra út í. Við höfum lög um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Þetta eru allítarleg lög sem nú eru í gildi um þetta og býsna víðtækar heimildir sem starfsmenn Verðlagsstofu hafa. Ég vil leyfa mér að vitna í lögin og lesa upp úr þeim. Þar stendur í 4. gr., með leyfi forseta:

„Til að Verðlagsstofa geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. gr.“ — þ.e. að afla ítarlegra gagna um fiskverð — „ber Fiskistofu og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr upplýsingum að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að öllum upplýsingum um ráðstöfun afla og fiskverð. Þá er útgerð skips skylt að senda Verðlagsstofu án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar.“

Svo kemur í 5. gr.:

„Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa skiptaverðs krafið sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila, fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem Verðlagsstofa setur. Þá getur stofan krafið framangreinda aðila um að afhenda gögn til athugunar innan hæfilegs frests.“

Þá stendur einnig í næsta lið 5. gr.: „Verðlagsstofa skiptaverðs getur við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal skattyfirvöldum og tollayfirvöldum, sem og bönkum og sparisjóðum, óháð þagnarskyldu þeirra.“

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, er hægt með þeim lögum sem nú eru í gildi að heimila það að fara og krefjast upplýsinga frá skattyfirvöldum, bönkum og öðrum aðilum um þessi gögn án undangengins dóms? Mér finnst þessi heimild með eindæmum og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hve oft hefur þessari grein verið beitt og í hvaða tilvikum? Leggur hæstv. ráðherra þann skilning í að starfsmenn Fiskistofu eða Verðlagsstofu geti labbað inn í banka og krafist upplýsinga úr bankareikningi viðkomandi aðila? Bara sisona af því að þeir séu að safna gögnum, eins og kveðið er á um í 3. gr. Mér er hreinlega spurn hvort þetta sé lagalega heimilt, hvort þessi lög séu ekki bara eitthvert lagalegt rugl.

Ég velti því líka fyrir mér og vil spyrja hæstv. ráðherra að því: Hver framfylgir brotum á þessum lögum? Lög eru til að halda þau en eins og hérna er verið að vísa til þá eru þau brotin. Ef útgerðir greiða ekki sjómönnum laun sín eins og samið er um þá hlýtur það að vera lögbrot. Það hlýtur að vera brot á þeim lögum sem hér er um að ræða og ekki bara þeim heldur öðrum lögum. Hverjir eru þeir sem framfylgja lögbrotum og rannsaka þau? Er það ekki lögreglan? Ég get hvergi séð í þessum lögum neinn handhafa þess að framfylgja þessum lögum. Menn tala um úrskurðarnefndir og menn tala um Verðlagsstofu en hún hefur ekkert lögregluvald. Ekki get ég séð það enda er það bara lögreglan sem hefur í raun lögregluvald. Og þegar verið er að tala um lögbrot eins og hér er verið að tala um og eigi að fara að girða við, þá hlýtur það að vera lögreglan sem framfylgir því og ég vil spyrja hæstv. ráðherra um aðkomu lögreglunnar að slíkum málum þegar grunur er um lögbrot, þegar grunur er um að útgerðir greiði ekki sjómönnum umsamin laun, hýrudragi þá með því að láta þá taka þátt í kaupum eða leigu á kvóta og dragi þannig af laununum sem eru greinilega lögbrot. Hve oft hefur lögreglunni verið beitt í svona málum? Hve oft hefur lögreglunni verið beitt í meintum lögbrotum eða grun um lögbrot eins og hérna er verið að ýja að, því hvað er verið að segja annað í þessu frumvarpi hæstv. ráðherra en það sé grunur um lögbrot?

Það stendur hér í texta hæstv. ráðherra, eins og ég hef áður vitnað í, að nokkur brögð muni þó vera að því að meira að segja útgerð hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð. Er það ekki lögbrot? Og hver hefur rannsakað það? Það hlýtur að vera lögreglan sem á að rannsaka það. Hæstv. ráðherra hristir haus en ég get ekki skilið lög og lögbrot öðruvísi en að brot á lögum varði við lög og það sé bara lögreglan ein sem getur rannsakað lögbrot, eða hvað finnst hæstv. forseta? Getur bara einhver verðlagsstofa vaðið inn á bankareikninga fólks og fyrirtækja án húsleitarheimildar eða farið ofan í skrifborðsskúffur útgerðarmanna eða annarra aðila án húsleitarheimildar?

Mér finnst þessi lagagjörningur allur með eindæmum þótt ég vilji eindregið styðja hæstv. ráðherra í að lagaramminn komi í veg fyrir að lögbrot séu framin í þessum málum, ég vil styðja hæstv. ráðherra í því, þá get ég ekki séð að þetta frumvarp hæstv. ráðherra breyti neinu um það að sé um meint lögbrot að ræða þá er það bara lögreglan sem ein getur rannsakað það í rauninni með þessum hætti sem hér er verið að tala um og dregið þá viðkomandi fyrir dóm sem brýtur lög eða hefur fé af fólki sem stundum er kallað þjófnaður. Og þjófnaður hlýtur að vera lögbrot og menn sóttir til saka samkvæmt lögum af lögreglunni.

Herra forseti. Þegar ég fer að skoða þessi lög meira og meira þá skil ég minna og minna í þeim og ég ítreka spurningu mína: Hve oft hefur lögreglunni verið beitt, hve oft hefur hún fengið það hlutverk að framfylgja þessum lögum eða saksóknari tekið málið að sér eða ríkislögreglustjóri og látið fara fram rannsóknir á svona málum? Því í frumvarpi hæstv. ráðherra er augljóslega verið að vitna til þess að staðfestur grunur sé fyrir því að þarna hafi verið framin ítrekuð lögbrot og það eru rök ráðherrans fyrir þessu frumvarpi.



[21:41]Útbýting:

[21:42]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Um hana má ýmislegt segja, t.d. að hún hefur verið allítarleg og verið komið inn á mjög marga hluti en ég ætla fyrst og fremst að reyna að einskorða mig við þær spurningar sem fyrir mig hafa verið lagðar og reyna með því að freista þess að varpa betra ljósi á frumvarpið en mér tókst í fyrri ræðu minni.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði mig að því hvort það væri svo að aflaheimildir væru lagðar inn til geymslu hjá útgerðarmönnum, og er það þannig. Við vitum að það er þekkt fyrirbrigði að útgerðir geyma aflaheimildir fyrir aðrar útgerðir og það er ekkert í gildandi lögum sem bannar það og við þekkjum það.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur mikið rætt um það atriði sem nefnt er í athugasemdum við þetta lagafrumvarp þar sem segir að nokkur brögð munu vera að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð. Þetta er út af fyrir sig enginn nýr sannleikur. Þetta er auðvitað eitt af því sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur komið auga á og hefur verið að reyna að taka á með þeim tiltæku úrræðum sem hún hefur haft og það hefur verið reynt að bregðast við þessu með ýmsum hætti eins og við þekkjum. Þetta er heldur ekki nýtt í þessum þingsal. Hér hefur því oft verið haldið fram að verið sé að brjóta á samningum og á þessum lögum og það hefur verið hvatt mjög til þess og verið kallað mjög eftir því að ráðherrann legði fram einhver mál sem tækju einmitt á þessu. Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir og við erum að ræða er verið að reyna að freista þess. Með öðrum orðum er verið bregðast við áhyggjum manna sem hafa komið fram hér í þingsalnum og það er verið að bregðast við ábendingum sem við sjáum vegna þess að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur komið auga á þar sem ekki er farið að gildandi lögum og samningum. Ég tók það hins vegar fram að ég teldi á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hefði að í langflestum tilvikum væru menn auðvitað að fara að gildandi lögum og samningum en undantekningartilvik kynnu að vera til staðar og þá reynum við að bregðast við þeim.

Hv. þm. Jón Gunnarsson velti því mjög mikið fyrir sér hvort ekki væru í gildandi lögum nægjanlegar heimildir til að gera það sem við erum að freista að gera með þessu frumvarpi, þ.e. að útbúa Verðlagsstofu skiptaverðs með þeim tækjum að geta annars vegar farið ofan í einstök mál, rannsakað þau, haft frumkvæðið að því að rannsaka þau og síðan brugðist við ef hún kæmi auga á að ekki væri farið að gildandi lögum og samningum. Það er alveg rétt að gildandi lög um Verðlagsstofu skiptaverðs hafa í meginatriðum reynst vel og það er ekki prívatskoðun mín, það er m.a. skoðun þeirra aðila vinnumarkaðarins í útgerðinni og sjávarútveginum sem vinna samkvæmt þessum lögum, þ.e. útvegsmenn og sjómenn. Þeir hafa talið að í meginatriðum reyndust lögin vel og það er t.d. álit formanns Sjómannasambandsins að það hafi dregið mjög mikið úr því að menn væru með einhverja misbeitingu gagnvart sjómönnum varðandi kvótakaupin og það er vissulega vel. Eins og ég undirstrikaði áðan þá eru hins vegar tiltekin tilvik þar sem menn hafa talið að farið væri á skjön við lögin og með þessu frumvarpi erum við að reyna að bregðast við því og reyna að skerpa möguleika Verðlagsstofunnar til að taka betur á málum.

Í fyrsta lagi er verið að reyna að setja Verðlagsstofu fyrir um það að hafa beinna frumkvæði að því að fylgjast með og fara í eftirlit. Það er rétt að Verðlagsstofa hefur auðvitað gert það með ýmsum hætti, m.a. farið í úrtaksathuganir en þarna er verið að reyna að skerpa á þeirri hugsun sem ég hygg að hafi legið á bak við þessa lagasetningu að Verðlagsstofa ætti að reyna að fylgjast með þessu. En það er ekki nóg að geta fylgst með. Það þarf auðvitað líka að setja inn ákvæði sem gera það að verkum að Verðlagsstofan fái tækifæri til að bregða fæti fyrir það ef menn eru að reyna að misnota eða fara á skjön við lögin sem eru í gildi og þá samninga sem eru í gildi. Það er m.a. gert með því að Verðlagsstofan fær þessa heimild til að stöðva aflatilfærslur eða aflakvótatilfærslur frá einni útgerð til annarrar og þá er auðvitað ljóst mál að viðkomandi útgerð verður að bregðast við því. Hún verður að leiðrétta það ef hún er með einhverjum hætti að framkvæma samninga og lög öðruvísi en hún ætti að gera. Það er það sem liggur til grundvallar.

Ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag að gert er ráð fyrir því að menn framvísi fiskverðssamningum. Það gera menn í upphafi úthalds. Síðan er það ekki þannig að menn þurfi stöðugt að vera að endurnýja slíka fiskverðssamninga. Fiskverðssamningur t.d. sem er alveg fullgildur gagnvart Verðlagsstofu getur falið það eitt í sér að það liggi fyrir að afli sé seldur á fiskmarkaði. Fiskverðssamningur getur t.d. falið það í sér að það skuli gert upp a.m.k. í samræmi við verðlagningu Verðlagsstofu skiptaverðs. Það er auðvitað gildur fiskverðssamningur. Tilgangurinn með þessu er að reyna að sjá til þess að síðan verði farið með reglubundnum hætti í að skoða nákvæmlega hvort menn uppfylli þetta í praxís. Ef í ljós kemur að svo er ekki þá er gripið til tiltekinna úrræða.

Það er ekkert óeðlilegt við það að löggjafinn feli tiltekinni stofnun að hafa slíkt eftirlit en hv. þm. Jón Bjarnason gerði dálítið mikið úr því í seinni ræðu sinni. Við erum með alls konar eftirlitsstofnanir. Við erum með samkeppniseftirlit og við erum með skatteftirlit. Þessum eftirlitsstofnunum er búið heilmikið vald í hendur. Þær hafa vald til þess að fara inn í bókhald, þær hafa vald til að kalla eftir gögnum af alls konar toga. Það þekkja einstaklingar sem fá oft beiðnir um frekari gögn frá skattinum o.s.frv. Í þessu felst að löggjafinn afhendir þessum eftirlitsstofnunum þetta vald. Síðan getur auðvitað komið upp að um sé að ræða mál af þeirri gerð og því tagi að ástæða sé talin til þess af umræddum eftirlitsstofnunum að vísa málinu til lögregluyfirvalda, til saksóknara, til lögreglunnar ef um það er að ræða. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að það hafi gerst á þessum grundvelli. Við þekkjum að vísu dæmi um brot á fiskveiðilöggjöfinni en mig rekur ekki í fljótu bragði minni til að það hafi byggst á þessari löggjöf heldur á einhverju öðru.

Ég held að ég hafi farið yfir helstu spurningarnar um þetta. Ég vil þó segja það almennt að ég tel að þessi löggjöf hafi í heild sinni virkað eins og til var ætlast. Hún varð til, eins og menn muna, sem viðbrögð í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna og það hefur komið fram. Þeir hafa auðvitað aðild að þessu því í úrskurðarnefnd eru fulltrúar sjómanna og útvegsmanna. Við vitum að verðlagningin sem Verðlagsstofa skiptaverðs byggir sitt á byggir á verðþróun sem er á erlendum og innlendum fiskmörkuðum. Það er auðvitað ákveðin tímatöf í því en við sjáum það hins vegar á fiskverðsþróuninni á síðustu 12 mánuðum, ef við tækjum t.d. það tímabil, þá hefur orðið gífurleg hækkun líka á verði Verðlagsstofu skiptaverðs en það er hins vegar alveg rétt að það er auðvitað lægra en gerist og gengur á fiskmörkuðum. Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt. Það er í samræmi við lög og reglur og það byggir á einhverjum samningum milli þeirra sem kaupa fisk og selja fisk og þarna er hins vegar verið að bregðast við þegar um það er að ræða, þær aðstæður sem oft eru, að eigandi skips og eigandi fiskverkunar er einn og sami aðili. Það er hins vegar miklu stærra mál. Ég er algerlega ósammála þeim sem hafa talað um að það eigi að banna mönnum að hafa þetta fyrirkomulag. Ég tel að það eigi ekkert að skilja þarna á milli veiða og vinnslu. Ég tel að það séu einmitt mjög mikil rök með því að hafa náin tengsl veiða og vinnslu og það sé ein forsendan fyrir því að við náum meiri árangri á erlendum mörkuðum en margar aðrar samkeppnisþjóðir okkar svo sem eins og Norðmenn sem hafa ekki búið við þetta fyrirkomulag þar sem menn geta tryggt framboð af afurðunum með öruggum hætti inn á markaðinn. Það hefur auðvitað verið forsendan fyrir því að víða um land er núna hægt að halda uppi heilsársstarfsemi í fiskvinnsluhúsunum vegna þess að það eru þessi sterku tengsl á milli útgerðar og fiskvinnslu. En, virðulegi forseti, ég ætla ekki að fara út í þá umræðu í heild sinni.

Ég held að það sem hér um ræðir sé fyrst og fremst viðleitni til að styrkja ákveðna lagasetningu sem á sínum tíma var sett til að eyða tortryggni í verðlagningu á sjávarafurðum milli sjómanna og útvegsmanna. Í meginatriðum hefur það tekist vel. Hérna er verið að reyna að setja öflugri tæki til annars vegar að fylgja þessu eftir og hins vegar til að bregðast við og koma þannig í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum sem mér hefur heyrst að væri almennur skilningur á. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta frumvarp verður til þess að tryggja betur en áður var það sem er eðlilegur hlutur í verðmyndun okkar og eðlilegur hlutur í samskiptum útgerðarmanna og sjómanna.



[21:51]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði að það væri ekkert sem bannaði hina svokölluðu vistun aflaheimilda. Þá spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvar getur maður lesið að það sé leyft? Og hvers vegna eru aflaheimildir sem eru með þessum hætti kallaðar vistun? Hvers vegna eiga þær ekki undir eftirfarandi málsgrein:

„Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks til fiskiskips skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum.“

Hvers vegna á þetta ekki við? Þetta er skýr lagabókstafur og hefur verið í lögum fram að þessu. Á að hafa hann þar áfram? Hvers vegna á hann ekki við þegar menn eru að beita þessari svokölluðu vistun aflaheimilda? Á hvaða grundvelli er sú vistun og hefur verið? Mér finnst ástæða til að hæstv. sjávarútvegsráðherra fari nákvæmlega yfir það.

Svo langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Er það þannig að það sé munnkefli uppi í öllum sjálfstæðismönnum hvað varðar þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum sem ríkisstjórn hans skrifaði undir og Framsóknarflokkurinn í upphafi kjörtímabilsins, um það að setja auðlindir sjávar í stjórnarskrána sem þjóðareign?



[21:53]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vistun aflaheimilda er í raun og veru bara framsal og í lögunum um stjórn fiskveiða er gert ráð fyrir því að menn hafi heimild til að framselja hluta af aflaheimildum sínum, þá er auðvitað augljóst mál að ef um það er að ræða og Verðlagsstofa skiptaverðs telur ástæðu til þess að kalla eftir þeim upplýsingum sem hún telur þörf á þá hefur hún heimildir til þess. Ég sé því ekki að það sé neitt leyndarmál á bak við það. Það er hins vegar viðurkennt að þetta er gert. Menn framselja frá sér aflaheimildir til tiltekinnar útgerðar sem síðan skilar þeim til baka. Þetta er þekkt og það hefur aldrei farið fram neinn feluleikur um þetta mál.

Í öðru lagi það sem hv. þingmaður hefur spurt mjög mikið um í kvöld varðandi stjórnarsáttmála og varðandi þjóðareignarákvæðið í stjórnarskránni, þá er það bara þannig að hæstv. iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins svaraði þessari spurningu mjög afdráttarlaust í þingsalnum og ég er alveg sammála honum um það. Það er einfaldlega þannig að stjórnarskrárnefnd sem hefur haft þetta mál til meðhöndlunar hefur ekki lokið þessum þætti endurskoðunar sinnar, ekki frekar en ýmsum öðrum þáttum sem hún hefur haft til meðhöndlunar. Nefndin hefur lokið tilteknu starfi og skilaði því af sér í einhvers konar áliti sem liggur núna fyrir en það er ekki þar með sagt að hún telji sig hafa lokið störfum sínum. Ég hef a.m.k. ekki heyrt um það að stjórnarskrárnefndin hafi talið að hún hafi lokið störfum sínum.



[21:54]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta með vistun aflaheimildanna er alveg sérstakt mál. Þarna eru færð gríðarleg verðmæti á milli fyrirtækja og það líðst hvergi nokkurs staðar í viðskiptum á byggðu bóli á Íslandi og varla nokkurs staðar annars staðar að slík verðmæti séu ekki færð til bókar hjá fyrirtækjunum sem eignir. En í sjávarútveginum má gera þetta án þess að stafur sé fyrir því í lögum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra þarf að gera betur en þetta. Ég held að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti, úr því að hann telur að þetta fyrirkomulag eigi að vera svona, að finna því stað með einhvers konar lagasetningu og leyfa mönnum að fást við hana hér í Alþingi. Fiskistofa hlýtur að eiga að fylgja fram lögunum eins og þau eru og það þýðir að sama ákvæði á auðvitað að gilda um þetta framtal eins og annað.



[21:56]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað með þetta framsal eins og annað að það lýtur auðvitað nákvæmlega lögunum um framsalið eins og gert er ráð fyrir því í lögum um stjórn fiskveiða. Það er ekkert öðruvísi. Þetta er einfaldlega þannig að það er ein útgerð sem framselur hluta af aflaheimildum sínum til annarrar útgerðar og síðan er það sú útgerð sem tekur ákvörðun um það hvort hún vilji nýta þær aflaheimildir til að veiða eða hvort hún skili þeim aftur eða hvernig þessu er síðan ráðstafað. Þetta er auðvitað bara eðli þessa máls, þannig að það þarf ekkert að gera þetta neitt tortryggilegt.



[21:56]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst þetta varðandi að stjórnarskrárbinda sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni, þá var eins og hæstv. ráðherra væri að ýja að því að einhverjir aðrir flokkar hefðu staðið gegn þessu í stjórnarskrárnefndinni. (Gripið fram í.) Að minnsta kosti voru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn búnir að skuldbinda sig til að þetta yrði gert að tillögu í stjórnarskrárnefnd. Nú hefur stjórnarskrárnefnd talið best að skila áliti og þar er ekki stafur um þetta. Hvaða flokkur var þá á móti þessu? Var Samfylkingin á móti því að það ætti að stjórnarskrárbinda þetta? Nei, það held ég ekki, þeir eru með þetta í stefnuskrá sinni. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er með þetta á stefnuskrá sinni. Frjálslyndi flokkurinn er með þetta á stefnuskrá sinni. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem meira að segja nýtti þetta inn í stjórnarsáttmálann, en samt er ekki hægt að koma þessu út í sameiginlegu áliti þessara flokka um brýnustu aðgerðir í breytingum á stjórnarskránni. Ég bara skil þetta ekki. Ekkert nema það að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru ráðnir í að svíkja þetta. Það trúir þessu enginn upp á þá, er það? Nei.

En varðandi hitt með lögreglumálin þá hefur verið ýjað að því að þarna sé verið að fremja lögbrot. Það hefur verið framið lögbrot því það er lögbrot að hýrudraga sjómenn, að skikka þá til að taka þátt í kvótakaupum eða kvótaleigu og taka það af kaupinu sínu. Það er lögbrot að mínu viti. Það er brot á þeim lögum sem hér eru sett og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hve oft hefur þetta orðið að lögreglumáli eða þekkir hæstv. ráðherra dæmi þess að það hafi verið kallað eftir þessu í sjávarútvegsnefnd, hve oft þetta hefur orðið að lögreglumáli? Mér finnst að við þurfum að vita það þegar við erum að gera svona lagabreytingar, hvað erum við að takast á við?



[21:58]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski vegna þess að hv. þingmaður var svo lengi kennari og skólastjóri að hann hefur kannski frekar tamið sér að prédika en hlusta. Ég var að reyna að svara þessari spurningu hv. þingmanns rétt áðan. Hann spurði mig að því hversu oft þetta hefði orðið að lögreglumáli. Ég sagði honum að mig ræki ekki minni til þess að slík mál hefðu orðið að lögreglumáli en það gæti vel verið að svo hefði verið. Ég fór í nokkuð ítarlegu máli yfir það í svari mínu áðan að það væri þannig að löggjafinn, Alþingi Íslendinga, ákvað að eftirlit með þessu tiltekna máli sem við erum að fjalla um væri falið Verðlagsstofu skiptaverðs. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur síðan farið yfir einstök mál. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur m.a. komist að því að það eru nokkur brögð að því að menn hafi ekki farið eftir lögum og reglum sem við höfum sett á Alþingi og sem samið hefur verið um í samningum sjómanna og útvegsmanna. Þá hefur verið brugðist við. Það er síðan niðurstaða okkar sem höfum verið að skoða þetta og þar á ég líka við fulltrúa sjómannasamtakanna og útvegsmenn að það væri betra til að ná þeim markmiðum sem við værum að setja okkur í þessum lögum að skerpa á tilteknum ákvæðum sem verið er að gera í því lagafrumvarpi sem nú er til umræðu, til að tryggja að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi þau tæki og það afl sem hún þarf til þess að bregðast við þegar upp koma mál af því taginu þar sem menn fara ekki eftir samningum og ekki eftir lögum. Það er það sem verið er að gera hér. Það er verið að afhenda þessari stofnun tiltekið eftirlitsvald, alveg eins og við gerum varðandi ýmsar aðrar eftirlitsstofnanir í landinu og ég hef ekki heyrt hv. þingmann kvarta undan því að þær eftirlitsstofnanir hefðu allt of mikið vald til að bregðast við ef væri verið að ræða um mál sem sneri að því verkefni sem þeim væri falið. Þetta mál finnst mér vera tiltölulega einfalt og einfalt að svara því en ég er alveg tilbúinn til þess. Ég hef eina mínútu til þess á eftir að endurtaka svar mitt ef hv. þingmaður krefst þess að ég geri það með því að tvíspyrja um spurningar sem ég er þegar búinn að svara.



[22:01]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi stöðu þessa máls, þ.e. hvað mörg brot hafa verið staðfest þá fáum við væntanlega upplýsingar um það í sjávarútvegsnefnd. Það sem fyrir mér vakir er að átta mig á því hvert raunverulegt umfang og staða málsins er því alveg eins og hæstv. ráðherra hefur vakið máls á og stendur í þessu frumvarpi þá er það meira eða minna altalað að þetta lögbrot viðgangist. Ég get alveg stutt hæstv. ráðherra í því að það eigi að reyna að fyrirbyggja lögbrot með öllum mögulegum tiltækum ráðum. Það er alveg hárrétt og ef þetta er liður í því er það hið besta mál. En það er fróðlegt að vita hver staða málsins er almennt gagnvart lögum og lögbrotum. En ég fer samt ekki ofan því að þetta er bara ein bótin enn á ómögulegt og gatslitið kvótakerfi.



[22:02]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði áðan að það væri altalað að það væri lögbrot sem væri verið að fremja í þessu sambandi þannig að það þarf kannski ekki mjög miklu að bæta við það. Ég var hins vegar að segja það í ræðu minni áðan að ég teldi að almennt talað hefðu þessi lög reynst vel og þau hefðu virkað í þá átt sem þeim var ætlað að virka. Við höfum hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að þarna þyrfti að skerpa á og það væri það sem um væri að ræða.

Hvert er umfangið? Ég hef sagt það áður og ég hef m.a. verið að vísa í formann Sjómannasambands Íslands sem hefur sagt að umfang þessa vandamáls hafi minnkað mjög mikið. Það er hins vegar til staðar og við viljum reyna að uppræta það, m.a. með þeim lögum sem við erum að reyna að freista að koma hér á með þessu frumvarpi og ég skildi seinni ræðu hv. þingmanns þannig að hann tæki því afskaplega vel að vinna að því að það væri gert og ég fagna því sjónarmiði sem kom fram hjá honum núna á ellefta tíma kvöldsins.



[22:03]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er farið að skiljast að hæstv. ráðherra vill helst ekki svara með beinum hætti beinum spurningum um það hvort núverandi lög séu nægjanlega skýr til að ná þeim markmiðum sem sagt er að lagafrumvarpið sem hér er lagt fram, eigi að ná. Mig langar því að freista þess, herra forseti, að bera fram beinar spurningar eða dæmi og óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þeim þá beint. Þetta eru einfaldar spurningar.

Telur hæstv. ráðherra að ef sjómaður kvarti yfir því að á honum sé brotið, þá megi Verðlagsstofa hefja rannsókn og beita öllum þeim úrræðum sem lögin kveða á um, þar sem allir aðilar verða að svara henni ef þeir eru krafðir um það og bankaleynd gildi meira að segja ekki?

Telur hæstv. ráðherra að ef samkeppnisaðili einkum sem stundar svona bisness á sínum bát kvartar við Verðlagsstofu þá megi Verðlagsstofa hefja sjálfstæða rannsókn á því hvort rétt sé farið með eða ekki?

Í þriðja lagi: Telur hæstv. ráðherra ekki að heimildir séu fyrir hendi til þess að Verðlagsstofa, ef upp kemur grunur einhverra hluta vegna um að verið sé að brjóta ákvæði laganna, hafi í núverandi lögum allar þær heimildir sem þarf til þess að hefja rannsókn og krefja alla þá aðila sem eiga að svara spurningum Verðlagsstofu, um skýr svör og Verðlagsstofa geti þá miðað við núverandi lög komist að niðurstöðu? Í hnotskurn er spurningin um það hvort Verðlagsstofa skiptaverðs hafi ekki þær heimildir sem er verið að leita eftir að færa henni en hafi einfaldlega ekki nýtt þær.



[22:05]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örugglega rétt sem hv. þingmaður sagði að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur býsna rúmar heimildir til að hefja afskipti af málum. Það vitum við. Þess vegna vitum við að starfsemi Verðlagsstofu skiptaverðs hefur haft jákvæð áhrif, m.a. vegna þess að hún hefur haft þessi tiltæku úrræði.

Hv. þingmaður spurði mig að því hvort núgildandi lög væru nægilega skýr hvað þetta áhrærir. Mitt svar er nei. Lögin eru ekki nægilega skýr og þess vegna erum við að flytja þetta frumvarp. Ég legg þetta frumvarp fram vegna þess að það er mat mitt að það þurfi að skerpa á þessu, gera lögin skýrari þannig að þau nái markmiðum sínum. Ef sjómaður kvartar eða önnur ábending kemur um að ekki sé farið að þessum lögum þá hefur Verðlagsstofa skiptaverðs auðvitað sjálfstætt vald til þess að bregðast við því ef hún telur ástæðu til þess. Það verður hins vegar auðvitað að vera mat hennar og byggt á þeim gögnum sem fyrir hana eru lagðar hversu langt hún vill ganga og auðvitað verður að gæta þarna ákveðins meðalhófs og það er m.a. vikið að því í frumvarpinu. Vitaskuld er það ekki þannig að hún eigi að ganga um, vaðandi inn um fyrirtæki og gera allar hundakúnstir algerlega að tilefnislausu. Hún verður að hafa eitthvert tilefni til þess að bregðast við. Ég geri ekki ráð fyrir að slík tilvik komi upp en ef um það er að ræða að sjómaður kvartar og telur að það sé verið að brjóta á sér, þá hlýtur það að vera skoðað af Verðlagsstofu með þeim hætti að þarna sé um að ræða rökstudda ábendingu sem hún hlýtur að bregðast við. Þarna gefst Verðlagsstofu tækifæri til þess að gera það, fá þær upplýsingar sem á þarf að halda, bregðast þá við með þeim tækjum sem þarna er verið að reyna að leggja þeim í hendur með frumvarpinu.



[22:07]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í seinna andsvari upp á eina mínútu gefst ekki tími til þess að ganga hart eftir svörum og því ætla ég að láta hér staðar numið og halda frekar áfram í vinnunni í sjávarútvegsnefnd þar sem við hljótum að kalla til aðila til að fara yfir það hvort núverandi heimildir séu ekki nægjanlega rúmar fyrir Verðlagsstofu skiptaverðs. Ef við komumst að því þar eins og ráðherra virðist hafa komist að, að heimildirnar séu ekki nægilega rúmar, þá munum við að sjálfsögðu leita leiða til þess að lagfæra það þannig að þessi mikilvæga stofnun geti sinnt hlutverki sínu.

Varðandi umræðuna áðan um vistun aflaheimilda þá hefur maður oft velt því fyrir sér og jafnað því kannski til þess að verslun geti flutt lager yfir áramót yfir á aðra verslun og það breyti ekki neinu í bókhaldi hvorugrar verslunarinnar þó að verslunin sem vistaði vöruna í einhvern ákveðinn tíma geti selt hana og síðan pantað inn síðar og skilað. Auðvitað hlýtur þetta að vera svolítið undarleg bókhaldsæfing að flytja verðmæti svona á milli fyrirtækja.



[22:08]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega jákvæðar undirtektir í lok umræðunnar við þetta frumvarp. Mér finnst að þessi umræða hafi leitt til þess að markmiðið með þeirri hugsun sem liggur að baki frumvarpsins hafi vonandi skýrst aðeins betur. Við erum ósköp einfaldlega að reyna að freista þess að ná því markmiði okkar að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum. Og af því að við teljum að núgildandi lög séu ekki nægilega skýr og ekki nægilega beitt í því skyni þá höfum við sett fram þetta frumvarp og hér er ég að tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og ég tel þess vegna að það sé mjög af því góða að við reynum að ná samkomulagi um þetta mál vegna þess að ég hef skilið umræðuna, ekki bara í dag heldur undanfarnar vikur og mánuði á þessum vetri þar sem þessi mál hafa nokkrum sinnum komið upp, m.a. í utandagskrárumræðum þar sem ég lýsti því yfir að ég vildi setja fram reglur af þessum toga. Ég fann ekki annað en menn fögnuðu því almennt og ég lít þannig á að þó að þessi umræða hafi tekið þetta langan tíma, þá hafi hún þó a.m.k. leitt til þess sem mér heyrist vera almennur hljómgrunnur og stuðningur við það meginsjónarmið.



[22:09]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki úr hófi að lengja þessa umræðu. Hér spunnust hins vegar áðan umræður um afstöðu einstakra flokka og hreyfinga sem áttu fulltrúa í stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra. Hv. þm. Jón Bjarnason spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra út í það hverjir það væru sem hefðu stöðvað framgang þess að í stjórnarskrána yrði tekið upp ákvæði um þjóðareign úr sameiginlegum auðlindum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði því til að hann vissi ekki betur en stjórnarskrárnefnd sæti enn að störfum. Þetta svar er í svipuðum anda og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra gaf hér fyrir nokkrum vikum þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði hins sama, þ.e. hvað ylli því að ekki væri tekið upp í stjórnarskrá þetta tiltekna ákvæði.

Ástæðan fyrir því að hv. þingmenn Jón Bjarnason og Jóhann Ársælsson með nokkurra vikna millibili inna handhafa framkvæmdarvaldsins eftir þessu er ákaflega eðlileg. Það liggur fyrir að í sáttmála ríkisstjórnarinnar er ákvæði um að báðir flokkarnir sem mynda ríkisstjórn skuli vinna að því að inn í stjórnarskrána verði tekið upp ákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum í sjó. Þess vegna var ríkt eftir því gengið, herra forseti, í stjórnarskrárnefndinni að þetta ákvæði yrði sammæli þeirra sem þar störfuðu. Það þótti eðlilegt af hálfu okkar sem þar sátum vegna þess að þar liggur fyrir að með einum eða öðrum hætti hafa allir stjórnmálaflokkarnir lýst yfir vilja til þess. Það hefur komið oft og tíðum fram hjá málsvörum Frjálslynda flokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar að þessir flokkar stjórnarandstöðunnar eru mjög fylgjandi því að þetta mál verði tekið upp. Raunar er það svo að af hálfu Samfylkingarinnar hefur þetta verið eitt helsta baráttumálið að því er varðar endurbætur á stjórnarskránni.

Það er síðan óhjákvæmilegt annað en draga þá ályktun að fyrir þessu sé líka ríkur vilji innan beggja stjórnarflokkanna. Ástæðan er sú eins og hæstv. forseti veit að á sínum tíma risu úfar innan Framsóknarflokksins um afstöðu til kvótakerfisins. Það mál var til lykta leitt innan Framsóknarflokksins með sérstakri nefnd. Formaður þeirrar nefndar og starfshóps var núverandi formaður Framsóknarflokksins Jón Sigurðsson. Sáttin sem gerð var innan Framsóknarflokksins var það að menn mundu sameinast um það innan þess flokks að ná því fram að í stjórnarskrá yrði sett skýlaust ákvæði um sameign á auðlindum í hafi. Þessu náði Framsóknarflokkurinn fram eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra veit þegar mynduð var ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Flokkarnir tveir sem mynda ríkisstjórn eru því þeirrar skoðunar líka. Það er því fullkomlega eðlilegt að spurt sé af hálfu þingmanna: Hvað olli því að ekki náðist samstaða um þetta?

Það kemur fram að hæstv. sjávarútvegsráðherra gengur sennilega í einhvers konar misskilning um störf nefndarinnar. Ég vissi ekki betur en stjórnarskrárnefndin hefði lokið störfum að sinni því sú nefnd sem starfar nú mun ekki koma saman nema einhverjar nýjar aðstæður rísi, til að gera frekari tillögur. Hún hefur gert eina tillögu eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og það varð niðurstaða hennar að að þessu sinni væri ekki hægt að ná fram neinu öðru, til að mynda ekki sameignarákvæðinu sem hér um ræðir og hið eina sem nefndin gerði hér eftir væri að skila skýrslu til ríkisstjórnarinnar um þá áfanga sem hingað til hafa náðst. Það vill svo til að ef um einhvern misskilning er að ræða af minni hálfu þá er skammt að leita til hinnar einu uppsprettu, hins eilífa sannleika í þessu máli sem situr fyrir aftan þann sem hér talar, þ.e. hæstv. forseta sem er einmitt formaður stjórnarskrárnefndarinnar.

Frá því er hins vegar að greina að þetta mál var rætt í þaula innan stjórnarskrárnefndarinnar. Sú umræða byggði á fyrra samkomulagi sem náðist millum allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi í svokallaðri auðlindanefnd og leiddi til niðurstöðu þar sem hver einasti fulltrúi í nefndinni var sammála því að leggja til að í stjórnarskrána yrði tekið upp ákvæði af þessu tagi, utan einn sem var annar fulltrúi Framsóknarflokksins, Ragnar Árnason prófessor, og gerir nú kannski víðreist.

Það var líka niðurstaða auðlindanefndarinnar á sínum tíma að leggja til útfærslu á því hvernig slíkt ákvæði ætti að vera og að því komu m.a. menn eins og Jóhannes Nordal sem var formaður þeirrar nefndar og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem lýsti á sínum tíma fyrir hönd þess flokks sem hann sat þar fyrir, yfir mikilli ánægju með þetta. Á því stigi málsins voru þess vegna allir fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem þá sátu á þingi sammála þessu. Þetta var grundvöllur umræðunnar í stjórnarskrárnefndinni. Á ákveðnu stigi umræðunnar var skipað í undirhóp af stjórnarskrárnefndinni þar sem nokkrir fulltrúar áttu sæti. Ég átti þar m.a. sæti og sá undirhópur fjallaði um sameignarákvæði og umhverfisverndarákvæði. Frá því er skemmst að greina, herra forseti, að innan þessa hóps varð algert sammæli um niðurstöðu. Þetta verður hægt að lesa í áfangaskýrslu sem ríkisstjórninni, eða sem hæstv. forsætisráðherra hefur þegar borist og verður væntanlega dreift í þinginu áður en þingi sleppir. Þar er m.a. að finna samkvæmt ákvörðun stjórnarskrárnefndarinnar, fundargerðir starfshópanna og líka þær tillögur sem þeir sammæltust um að yrðu sem vinnuplagg umræðugrundvöllur í nefndinni. Frá því er skemmst að greina að það varð enginn ágreiningur í þessum starfshópi. Þar urðu menn sammála um að leggja til útfærslu, í fyrsta lagi sammála um að það ætti að taka svona ákvæði upp í stjórnarskrána. Í öðru lagi sammála um að leggja til útfærslu sem var mjög svipuð því sniði sem kom frá auðlindanefndinni.

Það sem er auðvitað allra merkilegast í þessu máli og hlýtur að vera þeim manni sem velti þessu upp áðan, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, nokkurt fróðleiks- og umhugsunarefni er að þessi starfshópur starfaði undir stjórn eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þannig að á því stigi sem starfshópurinn skilaði af sér til stjórnarskrárnefndarinnar þá hefði verið mjög erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að allar leiðir væru opnar fyrir stjórnarskrárnefndina til þess að ná sammæli um þetta sem hefur verið sérstakt baráttuefni Framsóknarflokksins og flestra annarra flokka en það tókst ekki. Það náðist ekki samstaða um það og er alveg óhætt að segja frá því að það var rökstutt með þeim hætti að aflmiklar hreyfingar sem áttu fulltrúa í stjórnarskrárnefndinni töldu að það væri ekki rétt nálgun að vinnunni að taka þetta eitt út úr, ásamt þeirri breytingu sem lögð var til og fram hefur komið í fjölmiðlum að á að vera á 79. gr., heldur þyrfti það að bíða með öðru heildarendurskoðunar á stjórnarskránni. Ef ég þýði þetta bara yfir á mál mæltrar alþýðu þá þýðir þetta að það eru auðvitað stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa í nefndinni sem vilja nota þetta sem vogarafl gegn öðru sem á að breyta einhvern tíma síðar í stjórnarskránni, hugsanlega gagnvart málskotsrétti forseta, ég veit það ekki og geri mér engar getgátur um það.

En þetta vil ég bara að komi hér fram út af því að hæstv. sjávarútvegsráðherra virtist telja að starfi stjórnarskrárnefndarinnar væri ekki lokið og það var a.m.k. erfitt fyrir mann með takmarkaða meðalgreind alþingismanns eins og mína, að skilja annað en hæstv. sjávarútvegsráðherra teldi að enn væri möguleiki að nefndin ynni þetta áður en kjörtímabilinu lyki. Svo er ekki, ekki miðað við núverandi stöðu í nefndinni. Það þyrfti þá að koma til einhvers konar íhlutun og sammæli fleiri en okkar sem í nefndinni sátum. Þetta vil ég segja, herra forseti, vegna þess að þetta er það sem kemur fram í áfangaskýrslunni sem þegar hefur verið afhent forsætisráðherra og það er ekki svo að það séu fyrirhugaðar einhverjar frekari breytingar eða frekari tillögur af hálfu nefndarinnar. Ég hef a.m.k. ekki sem annar fulltrúi Samfylkingarinnar skilið það svo.



[22:19]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það mjög athyglisvert sem hefur komið fram hjá formanni þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem einnig á sæti í stjórnarskrárnefnd sem nú er búin að skila af sér. Eftir því sem ég skil orð hv. þingmanns er verkefni hennar í sjálfu sér lokið. Ég spyr: Var það forsætisráðherra sem skipaði stjórnarskrárnefnd og starfaði hún á ábyrgð hans? Til einhvers hlýtur álitinu að hafa verið skilað. Álitinu er skilað til forsætisráðherra og fram kom hjá hv. þingmanni að undirnefnd, sem fékk þessi mál sérstaklega til meðferðar, var sammála um að þetta ætti að fara inn í stjórnarskrána.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mynduðu fyrir tæpum fjórum árum þá ríkisstjórn sem nú er að kveðja. Það var hluti af því loforði sem þeir gáfu bæði sínum eigin þingflokkum og þjóðinni allri að þeir ætluðu að beita sér fyrir því í stjórnarsáttmálanum að eign þjóðarinnar á auðlindum hafsins yrði bundin í stjórnarskrá. Það er líka eitt af grundvallaratriðum hjá öðrum flokkum, Samfylkingunni, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum.

Mér er hreinlega spurn: Hvernig getur svona lagað gerst? Allir flokkar hafa bundist böndum um að þessu skyldi koma á, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa meira að segja sett þetta í stórmerkilegan stjórnarsáttmála sinn en samt nær þetta ekki fram að ganga.



[22:22]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason spyr: Hvernig getur þetta gerst? Ég lýsti því áðan. Menn nálguðust þessa vinnu á mismunandi hátt. Ég var þeirrar skoðunar og fleiri í nefndinni að reyna ætti — og það hefur komið fram í fjölmiðlum af minni hálfu — að ná samstöðu um það sem sammæli væri um. Í áfangaskýrslunni, sem verður væntanlega birt almenningi og Alþingi áður en þing er úti, mun koma fram að í stjórnarskrárnefnd ræddu menn þetta. Þar hnigu öll rök að þeirri niðurstöðu að allir flokkar væru í reynd sammála um þetta. Ég hnykki sérstaklega á því atriði að sérstakur starfshópur var skipaður sem undirnefnd stjórnarskrárnefndar til þess að fjalla um þetta. Þar er hægt að lesa í fundargerðum hvernig menn fikruðu sig áfram að niðurstöðu. Það mun liggja fyrir í prentuðum texta þegar þar að kemur.

Það er alveg ljóst að enginn ágreiningur var í starfshópnum. Þar voru menn úr ýmsum stjórnmálaflokkum að verki en hann starfaði undir forustu þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Það var því ekkert sem gaf til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn eða aðrir flokkar væru á móti þessu. Þvert á móti skilaði starfshópurinn sameiginlegri skoðun. Það ber að undirstrika að sú skoðun og það álit og tillagan sem þar gekk fram, á hana ber einungis að líta sem vinnuplagg fyrir nefndina. Hvergi kom fram að nokkur stjórnmálaflokkur væri á móti þessu. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því. Í nefndinni voru það einhver önnur rök, eins og ég lýsti hérna áðan, sem gerðu það að verkum að ekki tókst að ná þessu úr nefndinni. En samt liggur fyrir að enginn hefur beinlínis lagst gegn þessu af grundvallarástæðum. Hv. þingmaður getur velt því fyrir sér hvernig á því standi.



[22:24]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir mér er þetta grafalvarlegt mál. Flokkur getur haft þá afstöðu að ekki eigi að binda þetta í stjórnarskrá og þá segir hann það. Þá semur hann ekki um það í stjórnarsáttmála að gera það. Þá hefur hann einungis þessa afstöðu til hlutanna og þá kemur það bara skýrt fram. Þó við séum ekki sammála því þá er það samt heiðarlegt.

Hv. þingmaður minntist á vinnuplögg í stjórnarskrárnefnd. Ég velti því fyrir mér hvort stjórnarsáttmálinn hafi ekki farið sem vinnuplagg til stjórnarskrárnefndar, stjórnarsáttmáli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem þetta stendur skýrum stöfum. Það hefði átt að auðvelda stjórnarskrárnefnd að komast að niðurstöðu. Ekki hefði þurft að ræða hvort einn sjálfstæðismaður væri formaður nefndarinnar frekar en annar. Fyrir lægi yfirlýst, samþykkt og undirrituð stefna viðkomandi flokks. Við getum svo velt því fyrir okkur að einn þingmaður Framsóknarflokksins hafði það sem ástæðu fyrir því að ganga úr flokknum að Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin hefðu ekki staðið við stjórnarsáttmálann hvað þetta varðaði. Það var mat hans.

Mér finnst það mjög alvarlegt sem hér var verið að upplýsa að þetta grundvallaratriði — þetta er grundvallaratriði fyrir það mál sem við ræðum hér, um stjórn fiskveiða, — skuli ekki hafa gengið fram með þeim hætti sem allir flokkar voru búnir að skuldbinda sig til. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skuldbundu sig til þess í undirrituðum stjórnarsáttmála. Mér finnst þetta alvarlegt mál. Menn geta velt því fyrir sér hvaða orð á að nota um það þegar ekki er staðið við, að því er virðist af ráðnum hug, undirskrifað plagg eins og maður gæti haldið að stjórnarsáttmáli tveggja flokka ætti að vera.



[22:26]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar gengið var til þeirrar vinnu að endurskoða stjórnarskrána hefði fyrir fram mátt ætla að mjög auðvelt yrði að ná samstöðu um að breyta stjórnarskránni á þann hátt að upp í hana yrði tekið ákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum í hafi. Ástæðan er sú, eins og ég hef rakið hér, að á þann veg var yfirlýsing stjórnarinnar, þetta var hluti af samstarfssamningi stjórnarflokkanna tveggja. Maður skyldi ætla að þegar stjórnarandstaðan tekur þátt í starfi nefndar af þessu tagi og lýsir því yfir að hún vilji taka höndum saman við ríkisstjórnina um að ná þessu inn í stjórnarskrá mundu ríkisstjórnarfulltrúarnir ljósta upp höndum af fögnuði, þakka fyrir og efna til þess samstarfs. En eins og hv. þingmaður veit þá var þetta ekki eitt af því sem kom úr stjórnarskrárnefnd. Það var ekki stjórnarandstöðunni að kenna. Hún lagði ríka áherslu á að þetta yrði samþykkt. Ástæðan fyrir því að það var ekki gert er einfaldlega sú að þeir sem höfðu meiri hluta í nefndinni voru ekki þeirrar skoðunar að það ætti að gera það á þessum tíma.

Hverjir höfðu meiri hluta í nefndinni? Það voru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Menn vita að þetta er hluti af því sem þeir lýstu yfir að þeir vildu ná fram. Þeir höfðu tækifæri til að ná því fram en þeir gerðu það ekki. Allt bendir til þess að þessir tveir flokkar ætli að svíkja það sem var eitt af stærstu loforðum þeirra. Það sem er merkilegast er sú staðreynd að það var Framsóknarflokkurinn sem náði þessu fram. Þetta var sáttargjörð Framsóknarflokksins í deilum innan hans. Við buðumst til að hjálpa Framsóknarflokknum til að ná þessu fram. Því boði var í verki hafnað. Þetta hljóta menn að taka upp og spyrja í kosningabaráttunni: Af hverju hafnaði Framsóknarflokkurinn því? Hver var það sem knúði hann til þess?



[22:28]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi geta þess að mér er ekki alveg ljóst af hverju hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur þessa umræðu um stjórnarskrárþátt málsins núna þegar ekkert í því máli snertir efnisatriði frumvarpsins sem er til umræðu. En það er önnur saga, það er hans val að gera það.

Án þess að fara út í að endurtaka umræður sem við hv. þingmaður höfum átt í góðri vinsemd á vettvangi stjórnarskrárnefndar vildi ég gera ljóst að það var markmiðið frá upphafi að ræða heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Það var gert. Forsætisráðherra lagði, eins og menn muna, upp með að taka ætti til endurskoðunar I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar. Að kröfu leiðtoga stjórnarandstöðunnar var vinnulagi breytt á þann veg að farið var út í heildarendurskoðun og miðaði starf nefndarinnar allan tímann að því marki. Það var hins vegar ljóst, og hefur verið ljóst í nokkra mánuði, að því verki mundi ekki ljúka á tilsettum tíma miðað við umboðið sem nefndinni var gefið. Það á jafnt við um það efnisatriði sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni eins og önnur. Ljóst var að ekki tækist að ná landi á tilsettum tíma hvað varðar fjölmörg önnur efnisatriði, mismikilvæg atriði en allt atriði sem einstakir flokkar eða jafnvel margir flokkar lögðu áherslu á. Það er alveg óþarfi að fara út í miklar samsæriskenningar og vangaveltur af því tilefni. Staðan er þessi og það er hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni ljóst.



[22:31]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ólíkt hv. þingmanni að vaða í villu og svíma í máli sínu sem er yfirleitt skýrt og rökrétt. Það gerði hann þó áðan. Hv. þingmaður gerði því skóna að ég hefði tekið þetta mál upp. Ég hef setið eins og saklaust lamb undir þessari umræðu og ekki tekið þátt í henni. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta snertir ekki efnisatriði þess máls sem hæstv. sjávarútvegsráðherra flutti en hins vegar sýnir það nú vanþekkingu mína á málinu að ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta virðist snerta kjarna þess.

Því kom ég hér upp, herra forseti, að menn voru byrjaðir að ræða þetta mál, þ.e. sameignarákvæðið. Hv. þm. Jón Bjarnason varpaði fram spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra sem svaraði. Það kom fram í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann taldi að nefndin hefði ekki lokið störfum og ég skildi það svo á máli hans að hann gerði því jafnvel skóna eða vildi a.m.k. flýja í það skjól að það væri hugsanlegt að hún ætti enn eftir að fara í þetta mál. Þess vegna kom ég upp.

Fáu af því sem hv. þingmaður sagði get ég andmælt, flest af því er rétt, ekki kannski allt samkvæmt mínum skilningi, en það er alveg hárrétt hjá honum að menn vildu fara í heildarendurskoðun, þ.e. þeir sem tóku sæti í nefndinni í upphafi. Mjög snemma lá ljóst fyrir að það voru einstök atriði sem hægt var að ná sammæli um, til að mynda þetta ákveðna atriði. Ég var þeirrar skoðunar, og fulltrúar Samfylkingarinnar frá því mjög snemma að við ættum að reyna að bindast samtökum um að ljúka þessu máli, það var ekkert því til fyrirstöðu. Hver einasti maður í nefndinni, hugsanlega með einni undantekningu, lýsti stuðningi við þetta með einhverjum hætti. Allir flokkarnir hafa gert það með sínum hætti áður, en eins og hv. þingmaður sagði, þeir sem réðu kusu þá aðferð að segja: Við viljum ljúka endurskoðun á allri stjórnarskránni í einu en ekki þessu tiltekna atriði. Ég var ósammála því (Forseti hringir.) og ég geri engar athugasemdir við að þeir hafa aðrar skoðanir. Ég gæti svo sem upplýst, ef mér auðnaðist lengra mál, herra forseti, af hverju það var en mér er varnað málsins.



[22:33]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég hef haft hv. þm. Össur Skarphéðinsson fyrir rangri sök með því að eigna honum upphaf þessarar umræðu þá biðst ég afsökunar á því. Það voru hins vegar atriði í máli hans sem mér fannst gefa tilefni til að skýra stöðu mála í stjórnarskrárnefnd örlítið betur út frá upplifun minni af nefndinni en ég er auðvitað eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson bara meðalgreindur þingmaður þannig að ég hef ekki endilega höndlað sannleikann í því. Til dæmis var upplifun mín talsvert öðruvísi varðandi vinnu þeirra starfshópa sem hann vísaði til í ræðu sinni. Það hefur verið skýrt í mínum huga frá upphafi að þeir vinnuhópar sem voru settir á vissu stigi í starfi stjórnarskrárnefndar voru ekki til þess ætlaðir að klára einhver mál eða komast að endanlegri niðurstöðu. Þannig var að þeir voru auðvitað notaðir til að þoka málum áfram og klára efnislegar umræður um einstök atriði, reifa sjónarmið og reyna að átta sig á hvaða fletir væru fyrir hendi í starfinu til þess að ekki væri níu manna nefnd bundin við þá umræðu eins mikið og útlit var fyrir. Það sem kom hins vegar út úr einstökum starfshópum voru ekki formlegar tillögur eða endanleg niðurstaða í einu eða neinu þó að vissulega hafi starf þessara starfshópa hugsanlega hjálpað okkur í áttina að einhverri niðurstöðu.

Það er hins vegar niðurstaðan að þrátt fyrir að góð sátt væri um alls konar hugmyndir sem uppi voru í nefndinni þá töldu menn sig eiga eftir að ná niðurstöðu, m.a. með því að ná sameiginlegum skilningi á einstökum tillögum sem á borðinu voru og það var bara útlit fyrir að það tæki lengri tíma en til stefnu var.



[22:35]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Birgi Ármannsson um það hvað fór fram í nefndinni. Rituð orð tala fyrir sig sjálf. Von bráðar kemur það fram með mjög skýrum hætti hvers eðlis umræðurnar í þeim starfshópi sem ég er að vitna hér til voru. Ástæðan er sú að haldnar voru ítarlegar fundargerðir og þær voru sendar út með sérstökum tölvupóstum frá starfsmönnum undirhópsins þar sem óskað var eftir athugasemdum þannig að þetta eru leiðréttar fundargerðir. Sérhver fundarmanna, þar á meðal fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur haft tækifæri til að leiðrétta þær.

Sá var munurinn á þessari nefnd og þeim tveimur öðrum sem störfuðu eða undirhópum undir stjórnarskránni að hún skilaði tillögu og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þar var ekki um að ræða eitthvað sem varð að formlegri tillögu stjórnarskrárnefndar en það var formleg tillaga undirhópsins til stjórnarskrárnefndarinnar (Gripið fram í.) og þar birtist útfærslan á slíku sameignarákvæði sem allir stóðu að og þegar lokagerð þeirrar tillögu til stjórnarskrárnefndarinnar var send út af hálfu starfsmanns nefndarinnar var óskað sérstaklega eftir athugasemdum við hana og hvort ekki væru allir sammála því. Þegar nefndinni barst þetta í hendur var þar því um að ræða formlega tillögu frá þessum undirhópi. Undirhópurinn starfaði undir forustu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, þannig að þetta liggur alveg ljóst fyrir. Hvað gerðist síðan, hugsanlega einhvers staðar annars staðar í einhverjum öðrum húsakynnum en ég hef fengið að vera í á meðan þær ákvarðanir voru teknar, veit ég ekki en ég veit að enginn í undirhópnum var á móti þessu. Svo breyttust málin þegar þetta kom inn á borð stjórnarskrárnefndarinnar. Ég veit ekki af hverju.



[22:38]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég átti kannski ekki von á því undir þessum dagskrárlið að tekin yrði upp umræða um afdrif stjórnarskrárnefndarinnar og þeirrar stjórnarskrárendurskoðunar sem hér hefur verið í gangi undanfarna mánuði. Ég fagna því í sjálfu sér að sú umræða er komin upp og auðvitað snertir hún þetta sjávarútvegsmál ákaflega náið.

Það er komið upp að af einhverjum ástæðum stöðvaðist samstarf, sem virðist hafa tekist nokkuð gæfulega til að byrja með, um það að koma fyrir frægu sameignarákvæði í stjórnarskránni sem allir flokkar hafa verið sammála um á Íslandi og er sá árangur einn saman sem kom út úr síðustu kosningabaráttu sem lauk því miður þannig að ríkisstjórnarflokkarnir náðu aftur meiri hluta en hétu því í stjórnarsáttmála sínum eða stjórnarmyndunarplaggi, hvað sem það var kallað, að setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrá. Það stendur upp á þessa tvo flokka að gera það eða útskýra fyrir kjósendum sínum ella, þeim hinum fornu sem þeir reyna nú að höfða til aftur, hvers vegna þetta tekst ekki eða hvort þetta stendur enn þá til. Ég óska eftir því, að gefnu tilefni, að hæstv. sjávarútvegsráðherra upplýsi um vilja sinn og hug til þess máls og hvort hann ætli sjálfur að beita sér fyrir því eða ríkisstjórn hans með einhverjum hætti að þetta ákvæði verði sett inn í stjórnarskrána. Það kemur í ljós að undirnefnd þeirrar stjórnarskrárnefndar sem hv. þm. Jón Kristjánsson, núverandi forseti þingsins í kvöld, stjórnar hefur beinlínis gert þessa tillögu til stjórnarskrárnefndarinnar sem slíkrar. Ég tel rétt að hv. þm. Jón Kristjánsson noti þetta tækifæri og geri grein fyrir því, vegna þess að hér er völ á öðrum forsetum af ýmsu tagi og öllum gerðum og hæstvirtum, hvernig þetta mál er raunverulega statt, hvers vegna stjórnarskrárnefndin tók ekki við þessum tillögum og skilaði þeim sem sinni eigin tillögu þar sem allir flokkar munu hafa verið sammála þessu, að undanteknum einum manni sem þeir félagar ræða hér um, hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Birgir Ármannsson, setumenn í þessari stjórnarskrárnefnd, að hafi verið ósammála, ef ég skil það rétt, að meiri hluti allra þessara níu hafi verið sammála þessari tillögu og efnislega hafi ekki staðið neitt gegn því að hún væri með í lokaniðurstöðu nefndarinnar.

Það er svo þyngra en tárum taki að horfa á þessa lokaniðurstöðu nefndarinnar sem væri varla til nema í einhverjum lausafréttum því að ég man ekki eftir að formaður nefndarinnar hafi í raun og veru gert grein fyrir því þannig að hægt sé að spyrja hann út úr, þ.e. hér á Alþingi, þessu nefndarstarfi og hvernig það gekk. Við vitum vel að það hefur gengið erfiðlega að endurskoða stjórnarskrá okkar frá 1944 sem á auðvitað rót í stjórnarskránni 1874. Ég ætla nú ekki að fara með þá sögu lengra en það væri auðvitað ástæða til að nefna ártölin 1848 og kannski 1789 og 1776 ef menn vilja fara svo langt aftur. Þess vegna hefði það auðvitað verið ákjósanlegur kostur fyrir stjórnarskrárnefndina nú að reyna að vinna þetta verk í einhverjum áföngum, að taka saman höndum um það sem öllum þótti sjálfsagt í málinu. Ég nefni þann kafla sem vantar í raun og veru í stjórnarskrána um dómstólana og flestir eru sammála um að eigi að vera þar. Það má líka nefna tillögu sem ég var svo djarfur að senda stjórnarskrárnefndinni, fyrir hönd okkar sem fluttum hana á þinginu, að tekið yrði upp í stjórnarskrána að íslensk tunga væri opinbert mál á Íslandi þannig að með því gæfist grundvöllur til lagasetningar frá Alþingi að tillögu menntamálaráðherra, væntanlega, hver sem það hefði verið, tillaga sem ég hygg að menn hljóti að vera nokkuð sáttir við.

Fleira má nefna auk þeirrar tillögu sem hér er til umræðu, að auðlindir Íslendinga séu þeim sameiginlegar, bæði sjávarútvegsauðlindin og auðvitað allar þær auðlindir sem hér undir falla. Stjórnarskrárnefndin virðist hafa gefist upp á þessu. Formaður nefndarinnar virðist hafa gefist upp á því að koma mönnum saman um þessa einstöku þætti. Það hljómar frá hv. þm. Birgi Ármannssyni, fulltrúa í nefndinni, að af hálfu hans flokks, ef ég skil hann rétt, hafi ekki staðið annað til en að ná samkomulagi um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar að þessu sinni og úr því að það tókst ekki þá skuli allur vindur úr þeirri blöðru nema þessi eina tillaga sem eftir stendur, að mér skilst á lausafréttum, sem er út af fyrir sig ágæt, að landsmenn kjósi sumsé beint um stjórnarskrárbreytingar framvegis og við leggjum niður þennan svip sem er ankannalegur að það skuli gert í framhjáhlaupi í almennum kosningum, sem ég man ekki eftir að hafi í raun og veru skipt neinu máli í sögu lýðveldisins nokkru sinni þó að þar væri stjórnarskrárbreyting undir.

Ég held að það hafi verið misskilningur hjá formanni nefndarinnar að láta undan þessu og hann hefði betur haft uppi djörfung og reynt að afgreiða þó einhvern áfanga að þessari stjórnarskrárendurskoðun, vegna þess að ég tel að þessi stjórnarskrárendurskoðun gangi ekki öðruvísi en að menn reyni að fara dagleið í senn og hafi uppi viðleitni til þess að bæta stjórnarskrána í áföngum þannig að sátt sé um hvern og einn áfanga. Það er sú leið sem við höfum farið hingað til og er í raun og veru alveg óskiljanlegt að þessi ríkisstjórn skuli hafa sett sínum mönnum þau skilyrði að ekki mætti hreyfa sig neitt í stjórnarskrármálinu án þess að allt væri undir.

Forseti. Þegar menn velta fyrir sér hver kunni að vera ástæðan fyrir því að þessi vinnubrögð voru viðhöfð í stjórnarskrárnefndinni, sem, ef ég skil rétt, hefur í raun lokið störfum, þá virðist svarið vera það að Framsóknarflokkurinn hafi ekki treyst sér til að ganga í berhögg við þann vilja sem uppi er í forustu Sjálfstæðisflokksins um að hafa einhvers konar endaskipti á stjórnarskrárákvæðum um hlutverk forseta Íslands en þar blandaðist í frægar deilur, sem nú er lýst í fjölmiðlum sem eins konar sjúkdómi sem hafi herjað á samfélagið og er sprottið upp í myrkviðum Sjálfstæðisflokksins, forsetaembættið og varð andlag heiftúðugra ásakana og andróðurs. Það er engu líkara en þessi sjúkdómur herji enn á hluta af Sjálfstæðisflokknum og sé í raun og veru ástæðan fyrir því að svo fór með stjórnarskrána sem raun virðist bera vitni að stjórnarskrárnefndin hin stóra, með hinn dugmikla formann sinn, hefur gefist upp á málinu nema með þessari einu tillögu og látið það ganga áfram og lengir þar með hina sorglegu sögu stjórnarskrárnefnda sem hér hafa starfað í lýðveldissögunni. Þetta er auðvitað þeim mun furðulegra sem Framsóknarflokkurinn er forsetahollur flokkur og hefur lengi verið.

(Forseti (JónK): Forseti vill minna á að það er Verðlagsstofa skiptaverðs sem er til umræðu en þó að stjórnarskráin sé nú skyld því máli er ræðumaður kominn ansi langt út fyrir efnið að mínu mati.)

Verðlagsstofa skiptaverðs er auðvitað hið besta mál (Gripið fram í.) og ekki skal ég vanvirða það ágæta umræðuefni en hér var verið að tala um stjórnarskrána og það hefur ekki gefist tækifæri, forseti, til að ræða hana hér áður þangað til það gafst skyndilega núna með umræðum sem vissulega komu Verðlagsstofu skiptaverðs við í upphafi máls þó að umræðan hafi færst nokkuð fjarri henni. Ég vil að sjálfsögðu, af því að ég er einnig forsetahollur maður, hlýða forseta með það að ræða ekki stjórnarskrána miklu frekar en ég vil endurtaka áskorun mína í fyrsta lagi til hæstv. sjávarútvegsráðherra að segja okkur frá því hver afstaða hans er til þessa stjórnarskrárákvæðis í fullri alvöru vegna þess að það er rétt að það liggi fyrir hvaða afstöðu hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur til þessa máls, hvort hann telur að sjávarútvegsauðlindin eigi að vera sameign þjóðarinnar eða ekki því að hegðun hans, atferli hæstv. sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnar hans og þeirrar ríkisstjórnar sem setið hefur í 16 ár, er þannig að ekki verður annað séð en að hæstv. sjávarútvegsráðherra líti í raun á sjávarútvegsauðlindina sem einkaeign útgerðarmanna, sem þeir sjálfir halda fram að eigi að vera svo og sé eðlilegt mál. Það er eðlilegt að hann svari því og það er líka eðlilegt, forseti, að formaður stjórnarskrárnefndar geri rækilega grein fyrir því, annaðhvort í þessari umræðu eða áður en þingi lýkur og helst sem allra, allra fyrst, hver staðan er í þessu stjórnarskrármáli. Hver er sannleikurinn í deilu þeirra Össurar Skarphéðinssonar og Birgis Ármannssonar, hv. þingmanna, um niðurstöður undirnefndarinnar og viðbrögð stjórnarskrárnefndar við því og hvers vegna stjórnarskrárnefndin, undir forustu manns sem við töldum vera einna lífsreyndastan og kraftmestan af þeim þingmönnum sem hér sitja, gafst upp á þessu ætlunarverki sínu að því er virðist vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki lifað við það að forseti Íslands starfi samkvæmt þeim reglum sem honum eru settar í stjórnarskrá lýðveldisins?



[22:50]
Forseti (Jón Kristjánsson):

Áður en hv. 2. þm. Norðvest. veitir andsvar vill forseti taka fram að hann á von á að málefni stjórnarskrárnefndar komi til umræðu í þinginu undir þeim dagskrárlið sem heitir stjórnarskrá Íslands og að við höfum þá tækifæri til að ræða mál stjórnarskrárnefndar á Alþingi og sýna stjórnarskránni þá virðingu að ræða hana undir réttum dagskrárlið.



[22:51]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að við erum að ræða um Verðlagsstofu skiptaverðs. Ef það ákvæði sem hér er verið að ræða um kemur inn í stjórnarskrána á ég von á að skiptin verði kannski svolítið öðruvísi í framtíðinni, þ.e. að þjóðin fái sinn hlut úr þeim skiptum, og því er alveg ástæða til að ræða um þau málefni hér.

Það sem ég vil segja um það mál, hæstv. forseti, er að mér finnst afar merkilegt að það skuli vera niðurstaða stjórnarskrárnefndar að fara fyrst í heildarendurskoðun, hætta svo við hana en láta samt eitt mál út úr nefndinni. Þar með er stjórnarskrárnefnd að leggja til einungis eitt atriði, ef þær fréttir eru réttar sem hafðar eru eftir hæstv. forseta og formanni stjórnarskrárnefndar, og þá hlýtur sú spurning að vakna: Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki hægt að ganga frá atriðum sem allir eru sammála um, eins og að setja auðlindir sjávar inn í stjórnarskrána sem þjóðareign? Því það er auðséð að ef það tekst ekki að ná þeirri niðurstöðu er ákvæðið í stjórnarsáttmálanum úti í vindinum. Núverandi stjórn situr ekki nema fram að næstu kosningum, alveg sama hvernig kosningarnar fara, og þá hefur það loforð verið svikið. Væntanlega hefur ríkisstjórnin gert sér grein fyrir því þegar hún ákvað að setja þetta inn í stjórnarsáttmálann að það þyrfti að gerast á kjörtímabilinu? Þessi ríkisstjórn getur ekki hafa reiknað með því að hún yrði til eilífðar, ríkisstjórnir eru til fjögurra ára hér á landi. Þess vegna er ekki um annað að ræða, ef menn ætla að standa við þetta, en að ljúka umfjöllun um málið og til þess er auðvitað tækifæri enn þá.



[22:53]Útbýting: