133. löggjafarþing — 83. fundur
 1. mars 2007.
réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl., frh. 1. umræðu.
stjfrv., 655. mál. — Þskj. 981.

[20:01]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það má segja að það mál sem hér kemur sé á ýmsan hátt sögulegt, sérstaklega vegna þess að hér stendur til að fara að fullgilda yfir hálfrar aldar gamlan samning, frá 19. júní 1951, sem Ísland gerðist aðili að. Það er ekki á hverjum degi sem svo gamlir pappírar eru dregnir upp á borð okkar þingmanna. Auðvitað á þetta allt saman sögulegar skýringar sem raktar eru í frumvarpinu og menn þekkja, einhverjir, og síðan hafa pólitískar breytingar orðið til þess að hæstv. ríkisstjórn verður það allt í einu fyrir að bera þetta á borð Alþingis nú. Það sem veldur eru auðvitað þau gleðilegu og miklu tíðindi að Bandaríkjaher hvarf af landi brott í haust sem leið. Þá kom á daginn að sambúð Íslands við önnur ríki í Atlantshafsbandalaginu hafði verið undir áhrifum af veru Bandaríkjahers hér og þeirri staðreynd að Bandaríkin voru í raun ekki bara eins og hvert annað erlent herlið í landinu, heldur höfðu þau yfirtekið allar skyldur Íslands í þessum efnum. Ísland var þá einhvers konar viðhengi við Bandaríkin í aðildinni að NATO og því bixi öllu saman. Síðan kemur á daginn að þessir samningar höfðu sem sagt aldrei verið fullgiltir af Íslands hálfu, væntanlega ekki talin ástæða til þegar Bandaríkjaher var kominn hingað og komur liðsafla frá öðrum NATO-löndum voru óverulegar. Það var þá væntanlega á ábyrgð Bandaríkjamanna að staða þeirra hér væri samkvæmt settum reglum.

Það er um það að segja í þessu efni, virðulegi forseti, að jafnóþarft og það var að gera þennan samning á sínum tíma, að mínu mati, sem og öll þessi samskipti, aðild okkar að NATO og vera Bandaríkjahers hér, er það enn í dag jafnmikill óþarfi, og ekki síðri. Það er látið heita svo að nauðsynlegt væri að hafa þennan samning, ef ég skil rétt, aðallega vegna þess að hingað kunna að koma erlendir hermenn til heræfinga eða einhverra kúnsta og þá verði réttarstaða þeirra að vera tryggð að þessu leyti. Ég óska í fyrsta lagi eftir því eða mun óska, ef ekki hér og nú, þá í utanríkismálanefnd, að fá að sjá þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem gera það að verkum að einhverjar sérstakar kvaðir hvíla á Íslandi eða einhver sérstök skylda til að fullgilda þennan samning sem undirritaður var fyrir meira en hálfri öld.

Íslendingar gengu í NATO með skýrum fyrirvörum, nokkurn veginn sömu fyrirvörum og voru uppi hafðir þegar við gerðumst aðilar að Sameinuðu þjóðunum, að við mundum ekki stofna her — og það stæði ekki til að stofna hér her — að við mundum ekki fara með stríði gegn öðrum þjóðum, hvað hefur síðan verið svikið, og við mundum ekki halda her í okkar landi á friðartímum, sem var rækilega svikið og strax tveimur árum eftir að okkur var troðið inn í NATO. Fyrirvararnir standa í sjálfu sér þó að menn hafi ekki gert mikið með þá og eru færðir til bókar, komu m.a. fram í ræðu þáverandi utanríkisráðherra Bjarna Benediktssonar þegar hann gerði grein fyrir stöðu Íslands í þessu samhengi.

Ég spyr því í fyrsta lagi: Er ekki handhægt að vísa til fyrirvaranna og einfaldlega segja: Ísland hefur sérstöðu? Það hefur alltaf legið fyrir að við höfum sérstöðu, við höfum ekki her og nú eru þeir tímar uppi að við sjáum enga ástæðu til þess að hér séu hernaðarumsvif í landinu og þar af leiðandi þurfum við ekki að fullgilda þessa samninga.

Vandinn er hins vegar sá að ríkisstjórnin hefur rembst við að reyna að halda í hernaðarumsvif og gert sér vonir um að fá hingað heræfingar því að það virðist vera sáluhjálparatriði hjá stjórnarflokkunum að halda í einhverjar leifar af eða a.m.k. einhverjir vonir um að hér geti verið eitthvert hernaðarbrölt. Þannig er það bara. Þetta er að sjálfsögðu liður í því. Ég er algerlega andvígur því ákvæði í samningunum nýju við Bandaríkjamenn frá því í haust að þeir hafi hér sjálfdæmi um það hvenær þeim sýnist að koma hingað og nota landið undir heræfingar. Hvers vegna ættum við að leggja okkar land undir slíkt, friðelskandi smáþjóð, þ.e. ef við ætlum að standa undir nafni sem slík? Það er engin ástæða til þess. Það er engin ástæða til þess að gefa út svona óútfylltar ávísanir handa öðrum þjóðum til að koma með hernaðarbrölt og heræfingar ef þeim sýnist svo og semja fyrir fram um einhverja réttarstöðu slíks liðs í landinu. Ég mun ekki þegjandi og hljóðalaust láta þetta renna í gegn eða fara út úr utanríkismálanefnd áður en þessi þáttur málsins hefur verið rækilega skoðaður.

Síðan er í öðru lagi vitnað í samninginn, og undir er líka samningurinn frá því í júní 1995 um það sem kallað er Samstarf í þágu friðar, Partnership for Peace mun það heita á erlendum tungum, og var sérstakur gerningur sem NATO greip til, aðallega í áróðursskyni þegar það var að endurskipuleggja sig og byrja að undirbúa að færa út kvíarnar í kjölfar breytinganna miklu í Evrópu um 1990. Á þeim tíma var almennt talað um að þetta snerist um eitt og aðeins eitt, þ.e. að reyna að bryggja einhverjar brýr til Rússa og að Samstarf í þágu friðar væri aðallega um það þótt ýmsir fengju að fljóta þar með. Hlutlausu ríkin notuðu tækifærið, sum, og læddu sér inn í þennan hóp undir þeim formerkjum að um væri að ræða aðildarríki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE. En félagsskapurinn er svona og svona ef menn vilja fara út í það. Af því að hér situr í salnum hv. þm. Össur Skarphéðinsson — ég veit að hann er feiknarlegur áhugamaður um eitt tiltekið ríki sem er aðili að samningnum um Samstarf í þágu friðar — er t.d. hið merka ríki Túrkmenistan í þessum klúbbi. Það er sennilega mikil ástæða til að taka upp á Alþingi mál sem lúta að því að tryggja mögulega réttarstöðu liðs sem kynni að koma frá Túrkmenistan til að stunda heræfingar á Íslandi. Nú er að vísu því miður Turkmenbasi genginn fyrir ætternisstapa þannig að arftaki hans yrði æðsti yfirmaður þess herafla, trúi ég. Ætli þeir hafi ekki það skipulag á að hinir sjálfskipuðu einvaldar séu yfirmenn hersins? Þetta er félagsskapurinn svo að eitt ríki sé nefnt.

Hvaða erindi eigum við inn í þetta? Hvers vegna sækjumst við eftir því að vera í þessu öllu saman? Látum nú vera að við séum aðilar að NATO þó að ég sé því vissulega andvígur eins og menn sjálfsagt vita. Auðvitað væri meiri mannsbragur af Íslands hálfu að taka upp baráttu fyrir því á alþjóðavettvangi að NATO yrði lagt niður og öll hernaðarbandalög. Best væri að þeim ófögnuði sem því hefur fylgt í gegnum tíðina, vígbúnaðarkapphlaupi, spennu og vöðvaæfingum í samskiptum ríkja yrði hætt, og alþjóðlegum friðargæslu- og öryggisgæslustofnunum falið friðarhlutverk í staðinn, Sameinuðu þjóðunum, ÖSE og öðrum slíkum. Þá væri það þó skömminni skárra ef menn létu sér nægja að hanga á NATO-aðildinni með lágmarksþátttöku, eins og þetta var lengi. En svo undarlegt er að síðustu 10–15 ár hefur allt verið gert sem hægt er til að troða Íslandi inn í innstu samstarfsverkefni NATO þar sem Ísland var ekki áður, tók t.d. ekki þátt — ég veit ekki hvort Ísland er farið að sækja formlega fundi í kjarnorkunefnd NATO. Það var þar ekki og var ekki í hernaðarsamstarfshlutanum. Íslendingar voru ekki aðilar að Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins svo að dæmi sé tekið. Í raun var hin svokallaða aðild okkar meira táknræn en raunveruleg ef út í það er farið, ástæðulaus auðvitað sem hún var. En hér er haldið í gagnstæða átt og þetta er hluti af stærra samhengi eins og ég hef gert grein fyrir, að reyna að þvæla Íslandi inn í þetta á öllum vígstöðvum. Til þess er ekki nokkur minnsta ástæða og það er í raun og veru að fara í alveg öfuga átt. Það sem þarf að gera á Íslandi núna er auðvitað að nota þær einstöku aðstæður sem hér hafa komið upp á nýjan leik, við gætum endurskipulagt stöðu okkar og áherslur og tekið okkur nýja stöðu í utanríkis- og alþjóðamálum með nýjum hætti eftir að bandarískur her er farinn úr landinu. Það er það sem við eigum að gera.

Að síðustu vil ég nefna að hér er vísað til þess að með aðild Íslands að þessum þjóðréttarsamningum — án þess að ég skilji alveg til hlítar hvers vegna það er í sjálfu sér einhver sérstök nauðsyn þó að vissulega gildi þessi SOFA-samningur um liðsafla NATO-ríkja — sé þetta sérstakur liður í að fela í sér aðgangsheimild til handa íslenskum friðargæsluliðum — til hvers? Jú, til þátttöku í verkefnum á vegum NATO og NATO-samstarfsríkja á erlendri grundu. Það er nefnilega það. Þetta er þá til að ganga betur frá því að íslenska friðargæslan geti verið í NATO-verkefnum. Er það nýja stefnan? Er það mýkingin? Er það aukin hlutdeild kvenna í friðargæslunni sem gengur út á að troða okkur enn fastar og rækilegar inn í NATO-verkefni á því sviði? Ég er því algerlega andvígur. Ég vil ekki sjá það og ég tel að við eigum að setja það með skýrum og pósitífum hætti inn í lögin um friðargæsluna sem nú eru hér jafnframt til umfjöllunar að hún sé algerlega borgaraleg, hún sé „civil“, og að við verðum ekki í öðrum verkefnum en þeim sem hægt er að sinna án vopnaburðar og án þess að vera að apa eftir einhverri hermennsku. Það væri gaman að heyra flokkssystur hæstv. utanríkisráðherra sem er starfandi hæstv. utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttur, sem a.m.k. mælir fyrir þessum málum — kannski bara í einhverri verktöku við það fyrir hönd fjarstaddrar stallsystur sinnar, utanríkisráðherra, sem var síðast þegar ég vissi í Afríku — útskýra hvernig þetta er liður í þeirri mýkingu friðargæslunnar sem þar er mjög í tísku að hampa núna.

Hæstv. utanríkisráðherra sló sér mikið upp á því að ætla að slá af það sem kallað var jeppagengið í Afganistan — var það ekki? — og mýkja friðargæsluna og þar ætti að bera meira á konum. Það er allt saman lofsvert í sjálfu sér ef einhver alvara er á bak við, ef því fylgir raunveruleg stefnumótun en er ekki bara sýndarmennska. Þetta hljómar ekki beint eins og liður í þeirri viðleitni að ætla að samningsbinda það sérstaklega að íslenska friðargæslan geti gengið með miklu beinni hætti inn í NATO-verkefnin. Það er þá væntanlega þannig að þá koma titlarnir, strípurnar og allar yfirmannastöðurnar til sögunnar. Og frumvarpið um friðargæsluna er auðvitað meingallað að því leyti að þar er þá daðrað við þá hluti, það hefur eitthvað verið dregið úr því sem var í upphaflegri útgáfu frumvarpsins sem hér sást í fyrravor, ef ég man rétt, ég hef a.m.k. barið það augum áður. Enn þá er þannig frá því gengið að gert er ráð fyrir því að menn geti verið í hernaðarlegu skipulagi, borið hernaðarleg stöðuheiti og virðingarröðin eða titlastigin verða þá væntanlega sótt beint í skipulag NATO eða herja einstakra þjóðríkja.

Það kann að leynast meira í þessu máli en birtist við fyrstu sýn. Ekki er víst að það verði svo rakið að fara að eiga mikið við það á þessu örskamma vorþingi sem eftir lifir. Setjum nú sem svo að í vor verði skipt um ríkisstjórn og það verði raunverulega mótaðar aðrar áherslur hvað varðar t.d. — ja, maður talar ekki um utanríkismálin almennt en þótt það yrði bara þetta síðasta sem ég gerði að umtalsefni — málefni friðargæslunnar, þar yrði mótuð sú stefna að Ísland tæki eingöngu þátt í borgaralegum verkefnum og sendi fólk til svæða þar sem ekki væri kallað á vopnaburð eða annað því um líkt, og þá mundu menn væntanlega ganga frá löggjöf um þau mál með allt öðrum hætti. Þá ætti þetta ekkert erindi inn í mál af þessu tagi, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Það er ekki þannig, virðulegi forseti, að það vanti verkefnin til neyðar- og mannúðarráðstafana og friðar og hjálpar til þess að hlúa að lýðræði og reyna að tryggja stöðugleika á svæðum í heiminum án þess að menn þurfi þar að vera á átakasvæðum og stunda vopnaburð. Þvert á móti er að mínu mati ein meginmeinsemdin í frumvarpinu um friðargæsluna og framgöngu ríkja í þessum efnum sú að allt of lítil áhersla er þar lögð á fyrirbyggjandi og friðsamlegar ráðstafanir. Hernaðarandinn svífur enn yfir vötnunum í friðargæslufrumvarpi hæstv. utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, því miður, og gert ráð fyrir því að fyrst og fremst verði menn að beita sér þar á átakasvæðum, þar sem átök hafa brotist út eða eftir að átök hafa gengið yfir.

Ég held að menn muni seint ná tökum á þessu ástandi öðruvísi en að gerbreyta um aðferðir og hugsunarhátt, gerbreyta um hugarfar og fara að reyna að ráðast að rótum vandans, rótum þeirra aðstæðna og þess jarðvegs úr hverjum sprettur spenna á einstökum svæðum, tortryggni, örvænting, fátækt og vonleysi sem yfirleitt er gróðrarstía óstöðugleika og ofstækis sem leiðir síðan af sér átök, hermdarverk og aðra slíka hluti. Það gera menn ekki með hugarfari slökkviliðsins, að fara um og dæla vatni á eldana þegar þeir eru þegar kviknaðir heldur með því að reyna að koma í veg fyrir að þeir brjótist út. Það blasir t.d. við að á Balkanskaganum var alþjóðasamfélagið alveg ævintýralega sofandi gagnvart þeim aðstæðum sem allir sögðu þó að væru stórhættulegar, eins og púðurtunna sem ekki þyrfti nema einn neista í, þá gæti farið illa — og það fór mjög illa. Menn reyndu nánast ekki neitt með fyrirbyggjandi ráðstöfunum að styðja ábyrg öfl á viðkomandi svæðum og hafa einhver tök á ástandinu. Menn horfðu á það versna dag frá degi og löndin voru á víxl leiksoppur í pólitískri refskák, sum á áhrifasvæði Þjóðverja, önnur á áhrifasvæði Frakka eða Bandaríkjamanna o.s.frv. Enn önnur slavnesk voru undir verndarvæng Rússa og þetta fór eins og það fór. Aðferðafræðin er röng, mörg þúsund ára gömul og hún hefur ekki skilað glæsilegri árangri en svo að ófriðarbálin loga sem aldrei fyrr á mörgum stöðum á hnettinum í dag.

Menn ætla samt seint að efast um að vopnin séu vænleg til að tryggja friðinn. Það er auðvitað hluti af því hugarfari, það er uppgjöf þeirrar stefnu sem íslenska lýðveldið var grundvallað á, Ísland varð frjáls og fullvalda þjóð sem lýsti þá yfir ævarandi hlutleysi sínu og vopnleysi. Nú hafa skapast aðstæður á nýjan leik, betri en áður voru, til þess að huga aftur að slíkum hlutum og þetta er ekki skref í rétta átt í þeim efnum. Þetta frumvarp má mín vegna, virðulegur forseti, liggja óbætt hjá garði þá fáu daga sem eftir lifa þings og þess vegna kannski líta aldrei framar dagsins ljós í þingsölum.



[20:19]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta frumvarp sem ég er mjög eindregið andvígur og tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vonandi nær það ekki fram að ganga og kemur aldrei fram aftur hér. Með frumvarpinu er kveðið á um heimildir erlendra ríkja og þá einkum NATO-ríkja til að stunda heræfingar hér á landi og það er kveðið á um réttarstöðu þeirra sem koma í slíkum erindagerðum og einnig ýmsar skyldur. Í 6. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hver sá sem ljóstrar upp um eða kemur á framfæri vitneskju sem leynt á að fara varðandi öryggi þess erlenda liðsafla, sem dvelur á Íslandi á grundvelli samninga skv. 2. gr., eða varðandi öryggi aðildarríkja þessara samninga skal sæta fangelsi allt að sextán árum.“ — Það á að girða fyrir alla hluti hér.

Ég vildi vekja athygli á samþykkt nýafstaðins landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um utanríkis- og alþjóðamál en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Engar heræfingar skulu haldnar hér á landi, komur herskipa og herflugvéla bannaðar, svo og flutningur pólitískra stríðsfanga.“ — Síðan segir enn, með leyfi forseta: „Þá skal öll meðferð og flutningur efna-, sýkla- og kjarnorkuvopna bannaður um íslenska lofthelgi og lögsögu.“

Væru ekki allir tilbúnir að skrifa upp á þetta? Nei, vegna þess að ef við skrifum upp á þetta getum við ekki samþykkt þetta frumvarp. Staðreyndin er nefnilega sú að NATO-herirnir neita að upplýsa um hvaða vopn herir þeirra hafa undir höndum hverju sinni. Ég er því fylgjandi að Ísland verði friðlýst, hér verði bannaðar heræfingar eða það sem hæstv. ráðherra kallaði friðargæsluæfingar. Eru það ekki friðargæslusveitir sem eru að störfum í Írak núna, bandarískar friðargæslusveitir? Þetta eru náttúrlega ekkert annað en heræfingar sem hér er kveðið á um og ég vil segja það, hæstv. forseti, enn og aftur að NATO er hættulegri félagsskapur en það hefur nokkru sinni verið. Vísa ég þar í þær áherslubreytingar sem orðið hafa á samþykktum bandalagsins og voru smám saman að koma fram á 10. áratug síðustu aldar og hlutu staðfestingu eða stimpil á hálfrar aldar afmæli bandalagsins í Washington árið 1999. En áherslubreytingin felur það í sér að í stað þess að menn einblíni á árás á eitt aðildarríkjanna sem tilefni til gagnviðbragða þá er núna lögð meiri áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir og talað um ógn í því sambandi. Ef aðildarríki bandalagsins er ógnað þá skal líta svo á að öllu bandalaginu sé ógnað.

Hverjir er líklegastir til að verða ógnað í heiminum? Eru það ekki þeir sem eru með sínar klær og sína anga í vafasömum erindagerðum víðs vegar um heiminn og ætli það séu ekki Bandaríkjamenn? Ætli það sé ekki stærsta herveldi og gráðugasta herveldi heimsins nú um stundir? Við erum að binda trúss okkar við þetta og við höfum undirgengist það að líta svo á að ógn sem steðjar að ræningjum heimsins, þessum mestu arðræningjum heimsins, sé jafnframt ógn gagnvart Íslandi og við erum að bjóða þessum aðilum land okkar til afnota til heræfinga. Að sjálfsögðu eigum við ekki að fallast á slíkt. Ég mun fyrir mitt leyti berjast af alefli gegn því að þetta frumvarp nái fram að ganga.



[20:24]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál þó að ég heyri að hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í henni, hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, styðji ekki málið og kom það ekki á óvart. Maður heyrir það þegar þeir flytja ræður sínar að þeir eru eindregnir NATO-sinnar og er það ekki í fyrsta skipti sem það kemur fram. (ÖS: Þeir eru að breytast.) Þeir eru að breytast, er hér kallað fram í, en ég sé ekki mikil merki þess, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Framsóknarflokkurinn hefur stutt NATO-aðild og við höfum talið að með þeirri aðild byggjum við í samstarfi við aðra yfir mjög miklum varnarmætti, af því að samkvæmt hugmyndafræði NATO er árás á eitt ríki árás á þau öll. Í því felst geysilega mikill varnarmáttur sem er auðvitað afar mikilvægur fyrir lítið ríki eins og Ísland sem er án eigin herafla. NATO-samstarfið hefur því verið okkur mjög mikilvægt.

Varðandi samninginn sem við erum að ræða hér vil ég undirstrika að hann er ekki óþarfur eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og kannski sérstaklega hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, drógu fram af því að þessir samningar eru samstarfsforsenda. Það er alveg ljóst að sem NATO-ríki er eðlilegt að við séum með ákveðna umgerð um réttindi og réttarstöðu okkar samstarfsaðila. Stefna okkar í dag er sú að við viljum samstarf við önnur ríki á þessum vettvangi, fleiri NATO-ríki en Bandaríkin, og þess vegna er eðlilegt að tryggja þessum bandalagsþjóðum ákveðna réttarstöðu þegar þær koma hingað til lands til að taka þátt í æfingum og ekkert við það að athuga svo framarlega sem maður styður aðild að NATO. Ég veit að þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað gera það ekki og þess vegna finna þeir þessum samningum allt til foráttu. (ÖS: Þeir eru að linast bæði í NATO og ESB.) (ÖJ: Heyrist þér það?) Varðandi æfingarnar er alveg ljóst að þær fara ekki fram hér nema í boði og með samþykki íslenskra stjórnvalda og stefnan er sú að vera í samstarfi við bandalagsþjóðir okkar.

Varðandi friðargæsluna þá er orðin mýkri ásýnd á henni núna en áður, ég held að það fari ekki fram hjá neinum. Breytingar hafa orðið á áherslum, nálgunin er borgaralegri en við höfum kannski séð áður og verið er að reyna að laga kynjahlutföllin hvað varðar þátttöku í íslensku friðargæslunni. Með fullgildingu SOFA-samningsins og samningsins um samstarf í þágu friðar er íslenskum friðargæsluliðum tryggð sömu réttindi og sama réttarstaða hjá aðildarríkjunum að samstarfi í þágu friðar og þeirra eigin liðsafla er tryggður hér á landi með gildistöku þessa lagafrumvarps og fullgildingu Íslands á umræddum alþjóðasamningum. Hér er verið að tryggja réttarstöðu friðargæsluliða okkar. Í þessu felst ekki nein breytt stefnumótun. Hér er einungis um réttarstöðu friðargæsluliða okkar að ræða.

Virðulegur forseti. Ég á ekki von á því að ég breyti nokkuð afstöðu hv. þingmanna tveggja sem hér hafa talað. Þeir eru andsnúnir NATO, vilja leggja niður NATO eins og hér var sagt og telja NATO afar hættulegan félagsskap og ég er algerlega ósammála því. Ég tel að NATO hafi verið mjög mikilvægt fyrir Ísland og það er alveg ljóst að stefnan er sú að vera áfram í samstarfi við okkar helstu vina- og bandalagsþjóðir þannig að ég tel, virðulegi forseti, mikilvægt að utanríkismálanefnd fái þetta mál til umfjöllunar af því að það er forsendan fyrir því að við getum verið í nánu samstarfi við okkar vina- og bandalagsþjóðir.



[20:30]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski líta tvíþætt á þetta mál. Annars vegar taka stóra heildarsamhengið og spurninguna um aðildina að NATO og hvaða erindi við eigum inn í þetta allt saman yfir höfuð. Hins vegar má spyrja, jafnvel þótt Ísland sé í NATO en hafandi gengið í það með skýrum fyrirvörum 1979 um herleysi og vopnleysi, hvort það sé þá ekki samt og þrátt fyrir það algerlega ástæðulaust að fullgilda þessa samninga og eina ástæðan til þess þá sú að menn vilji endilega fá hingað heræfingar, vilji endilega fá hingað áfram erlenda hermenn. Það hefur einhvern veginn farið svoleiðis á sálina hjá þeim flokkum sem styðja þetta og hafa stutt hernámið alla tíð, að þeir geta voðalega illa hugsað sér framtíðina og tilveruna öðruvísi en að hér séu að minnsta kosti af og til erlendir hermenn. Það er bara eitthvað sem er þarna djúpt inni.

Ef það væri ekki, ef Ísland tilkynnti hinum aðildarríkjunum að við hefðum ekki áhuga á slíku og við ætluðum á grundvelli fyrirvaranna frá 1949 að vera laus við slíkt, þá spyr ég: Eru einhverjar þjóðréttarlegar skuldbindingar sem krefjast þess að við fullgildum þetta? Og í öðru lagi varðandi friðargæsluna, hæstv. ráðherra heldur því blákalt fram að það sé nú heldur betur búið að mýkja ásýnd hennar og hún sé borgaralegri. Er hún að verða borgaralegri með því að borið er fyrir okkur stjórnarfrumvarp þar sem ein réttlætingin er að koma íslensku friðargæslunni inn í NATO?

Ég er sammála því og það er gott að fjölga konum í verkefnum hjá íslenska ríkinu á erlendri grund ef það er til góðra verka. Mér finnst glæsilegt að íslenskar ljósmæður fari og sinni störfum þar sem þörf er fyrir slíkt. En eiga ljósmæður eitthvert erindi inn í NATO? Þurfa þær að fara inn í hernaðarskipulag til að geta starfað erlendis? Nei.



[20:32]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Íslensk stjórnvöld eru að leita samstarfs við grannþjóðir innan Atlantshafsbandalagsins um öryggismál okkar á friðartímum. Slíkt samstarf getur ekki orðið án þess að hér sé í gildi samningur um réttarstöðu þess liðsafla sem hingað kann að koma í boði íslenskra stjórnvalda. Þessir samningar eru því forsenda þess að slíkt samstarf geti átt sér stað.

Ég vil líka benda á að fullgilding SOFA-samningsins og samningsins um Samstarf í þágu friðar er forsenda þess að þær þjóðir sem við höfum álitið vera og eru bandalagsþjóðir okkar og vinaþjóðir, geti komið hingað til að taka þátt í æfingum og vörnum landsins á sama tíma og réttarstaða liðsafla þeirra sé tryggð. Þetta mál gengur því út á réttarstöðu þessara aðila.

Varðandi friðargæsluna, íslensku friðargæsluliðana, þá er um það sama að ræða, að verið er að ræða um réttindi þeirra. Ég vil undirstrika að við sem erum fylgjandi því að eiga í samstarfi við bandalagsþjóðir okkar í NATO, teljum eðlilegt að réttarstaða þeirra þjóða sem eru í samstarfi við okkur sé tryggð þannig að slíkt samstarf geti átt sér stað.

En ég veit að hv. þingmenn vilja leggja niður NATO þannig að ég skil ósköp vel að þeir skuli finna þessum samningum allt til foráttu, en þar greinir okkur algerlega á.



[20:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú virðingarvert af hæstv. heilbrigðisráðherra að vera hér í þeim verkum að reyna að útskýra þetta fyrir hönd fjarstadds utanríkisráðherra. En satt best að segja hélt ég að heilbrigðisráðherra hefði nóg annað á sinni könnu og tíma hæstv. heilbrigðisráðherra væri betur varið að mínu mati í að glíma við heilbrigðismálin en að vera að standa í þessu. En það er nú önnur saga.

Hæstv. ráðherra segir að þetta sé til þess að tryggja réttarstöðu þess liðs sem komi hingað í boði íslenskra stjórnvalda til að stunda heræfingar. Hvernig með að sleppa þá að bjóða því? Er þá ekki vandinn leystur?

Ef það er eins og hæstv. ráðherra segir, sem má að vísu draga í efa að mínu mati miðað við ákvæðin í samningnum við Bandaríkjamenn, að það sé bara þannig að Íslendingar stjórni þessu alfarið sjálfir, þá er það gott og þá segjum við bara að við höfum ekki áhuga á því. Við teljum ekki þörf á neinu hernaðarbrölti og heræfingum í landi okkar á þessum friðartímum sem ráðherrann svo fallega kallar það og vonandi réttilega.

Varðandi síðan inntakið í þessum SOFA-samningi og þeim samskiptum þarf líka að athuga það. Það er ekki eins og það sé bara sjálfvirkt og sjálfgefið að taka við þessu eins og þetta er. Má ég minna á það stórfellda afsal á íslensku fullveldi, íslenskum rétti, íslenskri lögsögu í sakamálum sem var fólgið og er að hluta til enn fólgið í leynisamningunum við Bandaríkjamenn. Er ekki sumpart það sama á ferðinni hér? Að gefin sé eftir eðlileg lögsaga Íslands í málum og í raun njóti þeir hermenn sem þetta tekur til, talsverðrar friðhelgi. Og hin erlendu ríki fái vald til þess að t.d. sakamenn eða meintir brotamenn séu framseldir til þeirra og þeir sjái um málið. Það þarf nú líka að fara ofan í saumana á því hvað er þarna raunverulega á ferðinni.



[20:36]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé sama hversu oft maður kemur hér upp, við verðum ekki sammála um þetta mál. Þeir tveir hv. þingmenn sem hér hafa talað og eru frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eru bara á móti NATO-samstarfinu og mjög heitir í þeirri trú sinni á meðan við sem höfum stutt NATO-samstarfið erum líka mjög heit á þeirri skoðun að mjög mikill varnarmáttur sé falinn í því samstarfi af því árás á eitt ríki er árás á þau öll. Sem lítið ríki án hers er mjög mikill varnarmáttur falinn í þeirri hugmyndafræði.

Ég vil ítreka að hér erum við að ræða um áframhaldandi samstarf við þessar bandalagsþjóðir. Við styðjum samstarfið meðan hv. þingmenn í Vinstri grænum gera það ekki. Þegar maður styður samstarf af því tagi sem hér er verið að ræða um er (Gripið fram í.) eðlilegt að við fullgildum þann samning þannig að þegar bandalagsþjóðir okkar koma hingað til samstarfs við okkur um bæði öryggismál landsins og æfingar, sé réttarstaða þeirra tryggð.

Varðandi refsilögsöguna er hún sambærileg löggjöf í Danmörku. Ég tel að hér sé ekkert á ferðinni sem gefur tilefni til einhverrar óeðlilegra vangaveltna.

En ég tel, virðulegi forseti, að eðlilegt sé að við fullgildum þennan samning, bæði fyrir þær þjóðir sem eru í samstarfi við okkur og líka fyrir friðargæsluliða okkar sem starfa á erlendum vettvangi. (Gripið fram í: En ljósmæðurnar?)



[20:38]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mikill varnarmáttur er fólginn í því að vera í kompaníi með öflugustu herveldum heimsins, segir hæstv. ráðherra. Er okkur virkilega alveg sama hvað slík ríki gera, bara ef þau verja okkur? Þótt þau fremji mannréttindabrot, þótt þau fari með hernaði ólöglega gegn öðrum þjóðum, ef þau bara verja okkur? Þá er allt í lagi. Þetta er nú ekki hugsun sem mér þykir vera stór í sniðum.

Síðan er hitt að breytingar orðið hafi á áherslum í utanríkispólitík Íslendinga upp á síðkastið. Þetta er hugmynd sem Framsóknarflokkurinn er að reyna að koma inn með þjóðinni. Ég hafna þessu algerlega. Ég hef ekki orðið var við þær breyttu áherslur. Ekki urðum við vör við þær breyttu áherslur hjá Framsóknarflokknum við umræðuna í dag um Írak. Framsóknarflokkurinn er enn við sama heygarðshornið. Hann hefur fylgt árásargjarnasta forseta Bandaríkjanna í einu og öllu. Árásargjarnasta forseta Bandaríkjamanna um áratugaskeið hefur Framsóknarflokkurinn fylgt í einu og öllu.

Meira að segja þegar Saddam Hussein, harðstjórinn sá, var hengdur eins og hundur, sagði hæstv. utanríkisráðherra, einn af forsvarsmönnum Framsóknarflokksins, að við yrðum að virða ákvörðun sjálfstæðs ríkis. Þetta sama sjálfstæða ríki var ráðist á vorið 2003 af Bandaríkjamönnum með stuðningi Íslands. Eru menn ekki komnir pínulítið í mótsögn við sjálfa sig í röksemdafærslunni?

Síðan varðandi vinaþjóðirnar. Við erum vinaþjóð bandarísku þjóðarinnar og bresku þjóðarinnar. En við erum ekki vinir bandaríska herveldisins. (Forseti hringir.) Það er allt annar handleggur.



[20:40]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að a.m.k. þeir sem vilji vera réttmætir skynji að stefnubreyting hefur orðið að vissu leyti í utanríkisráðuneytinu. Sem dæmi nefni ég friðargæsluna. Þar hefur hæstv. utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, m.a. lagt áherslu á að breyta kynjahlutföllum þannig að fleiri konur taki til starfa í friðargæslunni. Ég styð þá stefnubreytingu heils hugar og ég veit að margir aðrir gera það.

Ég vil líka benda á að búið er að aflétta leynd af samningum, það skref var tekið fyrir ekki svo löngu síðan. Ég hef ekki heyrt betur en að allir hafi fagnað þeirri stefnubreytingu.

Það sem ekki er verið að gera er að veikja NATO-samstarfið. Þar er sú stefna uppi hjá stjórnvöldum, og reyndar líka öflum í stjórnarandstöðunni, eða flokkum, að styðja áfram aðild okkar að NATO og vera í góðu samstarfi við þær þjóðir sem þar sitja við borðið. (SJS: En Túrkmenistan?) Þar eru vinaþjóðir okkar og við viljum áfram vera í samstarfi við þær. — Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallar fram í Túrkmenistan. Ég veit ekki hvaða fordóma hann hefur gagnvart því ríki.

En ég vil ítreka það, virðulegi forseti, að breytingar hafa orðið í utanríkismálum okkar en ekki hvað varðar NATO-samstarfið. Þar erum við algerlega ósammála þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sjá því allt til foráttu, en það gerum við ekki.



[20:42]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað fólki sem hefur misst sitt og sína í hildarleiknum í Írak eða Afganistan finnst um svona ræður, að Íslendingar sem hafa látið setja sig á lista hinna viljugu stuðningsþjóða árásanna hafi breytt kynjahlutfalli í friðargæslunni og þess vegna sé allt í góðu lagi.

Það sem við eigum að hætta að gera er að vera eins konar hreinsideild fyrir bandaríska herinn, að koma og hreinsa upp eftir hann. Það eru nóg verk að vinna í þróunarríkjum og meðal fátækra þjóða í heiminum. Þangað eigum við, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á, að senda íslenska karla og íslenskar konur, ljósmæður, hjúkrunarfræðinga, fólk sem kann til verka, fólk sem getur hjálpað þjáðum. Við eigum að einbeita okkur að því en ekki vera hreinsideild fyrir bandaríska herinn.



[20:44]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Ögmundur Jónasson er enn þá í umræðunum sem áttu sér stað hér fyrr í dag, en þá fór fram umræða um Írak. Ég vísa því á bug að Ísland sé einhver sérstök hreinsideild eins og hér var orðað. Við höfum og erum aðilar að NATO og við styðjum áfram þá stefnu að vera aðilar þar, því við teljum að mjög mikilvægt sé fyrir lítið ríki sem á ekki eigin herafla að vera í samstarfi sem eykur varnarmátt okkar. NATO er einmitt þess eðlis, slíkt samstarf eykur varnarmátt okkar geysilega mikið af því að árás á eitt ríki er árás á þau öll.

Samstarf okkar innan NATO hefur verið að okkar mati farsælt og þess vegna viljum við vera áfram í því og tryggja með því máli sem við erum að ræða hér um réttarstöðu bandalagsþjóða okkar þegar þær koma hingað til samstarfs við okkur ef við bjóðum þeim til slíks samstarfs.



[20:45]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég er ekki fastur í neinni umræðu frá því fyrr í dag. Ég er hins vegar fastur í því að vilja ræða raunveruleikann eins og hann blasir við mér varðandi hernaðarbandalagið NATO, samvinnu okkar við bandaríska herveldið og hlutdeild íslensku ríkisstjórnarinnar í þeim hörmulegu atburðum sem hafa átt sér stað í Afganistan og Írak. Við studdum báðar þessar árásir, báðar þessar innrásir. Í báðum tilvikum var beitt blekkingum og ósannindum og í báðum tilvikum fórum við þangað inn, inn í bæði þessi lönd, með mannafla og fjármuni að kröfu NATO, að kröfu Bandaríkjamanna til þess að taka þátt í að hreinsa upp eftir árásarherina. Þetta eru bara staðreyndir sem menn þekkja til.

Íslenskt fjármagn hefur m.a. verið notað til að flytja vopn og þjálfa öryggissveitir. Ef þetta er ekki hreinsistarf á vegum herdeildanna veit ég ekki hvaða nafni á að nefna það yfirleitt. Ég ítreka að Íslendingar eiga að taka þátt í þróunarsamvinnu og aðstoð við fátækar þjóðir, við höfum þar mikið verk að vinna sem við yrðum sæmd af en það erum við ekki í þessum tilvikum.



[20:47]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að ég er að reyna að halda umræðunni við sjálfan samninginn sem við erum að ræða hér vil ég benda á að Bandaríkjamenn hafa notið þessarar réttarstöðu hér á grundvelli varnarsamningsins um áratugaskeið. Nú erum við að útvíkka hana til annarra NATO-ríkja sem er að sjálfsögðu eðlilegt að gera svo framarlega sem við styðjum yfirleitt samstarf í NATO.

Varðandi það hvernig rætt er um starfsemi okkar á erlendum vettvangi tel ég það gefa mjög skakka mynd af því ágæta uppbyggingarstarfi, sem við tökum taka þátt í, að kalla það hreinsideild, því jákvæða starfi þar sem við komum til aðstoðar þegar ýta þarf á eftir lýðræðisþróun og stöðugleika í ríkjum þar sem lítill stöðugleiki er uppi. Ég tel að friðargæslan okkar sinni mjög mikilvægu starfi og það jaðri við vanvirðu að kalla hana einhverja hreinsideild. Ég held að þessi störf séu unnin af mikilli samviskusemi og fórnfýsi og séu þess eðlis að það fólk sem vinnur þau láti mjög gott af sér leiða. Ég vil ekki taka undir þau orð sem hér hafa verið notuð um þessa starfsemi, að þetta sé einhvers konar hreinsideild.



[20:49]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeir einstaklingar sem í hlut eiga reyna að sjálfsögðu að láta gott af sér leiða, það hefur enginn verið með efasemdir um slíkt. Ég bendi hins vegar á að við eigum að beina kröftum okkar inn á önnur svæði en þau þar sem Bandaríkin hafa farið með hernaði. Staðreyndin er sú að ef Írakar hefðu verið látnir í friði frá því að stríðinu við Íran lauk árið 1988 væru Írakar sennilega ein ríkasta þjóð heimsins og stæði einna best, a.m.k. í þessum heimshluta, vegna þeirra auðlinda sinna sem bandarískir, evrópskir og fjölþjóðlegir auðhringar ásælast.

Nú ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar: Nákvæmlega í hvað fara íslenskir fjármunir í Írak? Hún segir að ég gefi skakka mynd um hið jákvæða starf sem þar er unnið. Ég beini orðum mínum til hæstv. ráðherra: Í hvað hafa íslenskir fjármunir farið í Írak, í hvaða uppbyggilega starf þar í landi?



[20:51]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er hv. þm. Ögmundur Jónasson bara pikkfastur í umræðunni um Írak af því að hún var hér fyrr í dag. (Gripið fram í.) Við erum núna að ræða um SOFA-samninginn og Samstarf í þágu friðar. (ÖS: … sófakommana.) Það er sá samningur sem við erum að ræða hér, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hv. þingmaður ætti að taka þátt í umræðunum fyrst hann hefur gamansemi í frammi. (Gripið fram í.)

Þetta frumvarp snýst ekki um Írak. Ég er ekki hér með yfirlit yfir það í hvað fjármunir friðargæslunnar okkar fara sundurliðað, hvorki í Írak né annars staðar. Ég er bara ekki með það hér enda átti ég ekki von á því að vera krafin svara um það. En ég á von á því að hv. þingmenn í utanríkismálanefnd geti fengið þær tölur sundurliðaðar, þeir geta líka flutt fyrirspurn í þinginu um málið eða leitað sér upplýsinga í utanríkisráðuneytinu. Það er örugglega ekkert mál að fá þær upplýsingar en ég ítreka að ég tel að okkar friðargæsla sé að sinna jákvæðu og uppbyggjandi starfi þar sem friðargæsluliðarnir eru að störfum á hverjum stað. Ég heyri reyndar að hv. þm. Ögmundur Jónasson taldi að svo væri líka, þetta væri fólk sem sinnti hlutverki sínu af alúð, og ég tel að svo sé. En frumvarpið sem við erum að ræða er um að tryggja réttarstöðu bandalagsþjóða okkar þegar þær koma hingað til Íslands í boði okkar ef við bjóðum þeim hingað og tryggja réttarstöðu íslensku friðargæsluliðanna á erlendum vettvangi og það tel ég vera sjálfsagt mál.



[20:53]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög fróðlegt. Ég spurði hæstv. ráðherra í hvað fjármunir Íslendinga færu í Írak, í hvaða mikla, jákvæða uppbyggingarstarf sem hæstv. ráðherra talaði um. Hæstv. ráðherra sagðist ekki hafa yfirlit yfir ráðstöfun fjárins en hún hafði yfirlýsingar miklar og alhæfingar um hið jákvæða uppbyggingarstarf. Þegar spurt er í hverju það liggi fást engin svör, ekki stendur steinn yfir steini þar. Þetta er stefna Framsóknarflokksins í hnotskurn. Menn vita ekki hvað þeir eru að gera, og þurfa ekki að vita annað en að fylgja skipunum frá Washington.



[20:54]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari umræðu en geri það sökum þeirrar eindregnu áskorunar sem hæstv. starfandi utanríkisráðherra beindi til mín. Það er greinilegt að hún telur það eftirsóknarvert eins og hugsanlega aðrir sem hér eru staddir og tilheyra kaffibandalaginu — sem er allt annað en Atlantshafsbandalagið, svo það komi skýrt fram. Ég veit ekki hvort þeir verða jafnglaðir yfir því en ég vona að það verði ekki til þess að splundra því bandalagi. En ég vil taka skýrt fram að afstaða mín til Atlantshafsbandalagsins og samstarfs innan þess hefur breyst mjög í áranna rás. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að sú var tíðin að ég skundaði skeiðið á milli Keflavíkur og Reykjavíkur í fylgd þessara herramanna sem sitja í salnum og mótmælti mjög veru erlends herliðs í Keflavík.

Nú má segja að tíminn hafi flutt mig um set og þó ég í andanum tilheyri VG að vissu leyti í þessu máli er ég þó nær þeim armi VG sem nú um stundir fer með ríkisstjórn Noregs ásamt okkur samfylkingarmönnum þar í landi. Ég tek eftir því að hv. þingmenn VG, sem hafa verið hér í salnum, hafa oft með mjög góðum árangri sótt pólitískan og jafnvel andlegan efnivið til hins ágæta samstarfs sem þeir eiga með félögum sínum á Norðurlöndunum.

En það er sjálfsagt að ég útskýri hvað ég á við með þessum orðum, herra forseti. Það er t.d. þannig að ríkisstjórn Noregs hefur, eins og ríkisstjórn Íslands, lið í Afganistan sem hún telur að hún hafi sent þangað til að styðja uppbyggingu og stilla til friðar. Munurinn á þeirri þátttöku sem er af hálfu ríkisstjórnar Noregs — þar sem við félagarnir eigum aðild að ríkisstjórn, báðir þessir flokkar, VG og Samfylkingin — og ríkisstjórnar Íslands er sá að enginn vafi leikur á því að norska ríkisstjórnin hefur herlið í landinu. Á sínum tíma samþykktu norsk stjórnvöld meira að segja að senda þriðjung flugflota síns til Afganistans. Við vorum illu heilli mjög samhliða þeim þegar við höfðum það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallar jeppagengið. Sú för varð ekki til frægðar. Þvert á móti. Ég hef lýst afstöðu minni til þess nýlega í umræðum á Alþingi um frumvarp hæstv. utanríkisráðherra um friðargæslu.

Ég vil aftur á móti taka undir með hæstv. starfandi utanríkisráðherra að því leyti að mér finnst annar bragur á þátttöku okkar nú en áður. Svipað viðhorf fannst mér koma fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem sagði að sér hugnaðist meira að senda ljósmæður til Afganistans heldur en brynvarða jeppa.

Ég segi það enn og aftur að ég hef átt erfitt með að sættast við íslensku friðargæsluna eftir atvikið í Chicken Street í Kabúl sem leiddi til þess að tólf ára gömul afgönsk stúlka lét lífið og amerísk blaðakona lést af sárum sínum. Þarf ekki að rifja þær kringumstæður upp þó að það hafi aldrei verið rætt til hlítar eða fullnustu á hinu háa Alþingi. Það var nú einfaldlega þannig að atburðarásin varð vegna þess að íslenska friðargæslan fór ekki að settum reglum. Það sem olli misklíð minni við íslensku friðargæsluna vegna þessa atviks var að þegar hinir hugumstóru íslensku friðargæsluliðar komu heim — og eftir lágu þessar tvær í valnum — voru þeir í bolum, sem þeir glenntu framan í fjölmiðla, sem á stóð Shit happens. Það eitt hefði nægt til þess að ég hefði á þeirri stundu hafnað allri þátttöku Íslands í friðargæslu af þessum toga.

Hæstv. utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sagði á dögunum: „Við höfum lært af reynslunni.“ Ég spurði hana út í hvað hún ætti við með þeim orðum og hún sagði að hún vildi sveigja friðargæslu Íslendinga til þátttöku í störfum af þeim toga sem ég hef reifað og einnig hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

En nú er það svo þegar kemur að SOFA-samningnum, sem svo er kallaður, að hann er mjög flókinn og alþjóðlegur og tekur yfir mjög flókið gangvirki réttarreglna sem ná yfir þau lönd sem taka þátt í hvers konar starfsemi á vegum Atlantshafsbandalagsins. Það má segja að hann sé í reynd grundvöllur þess að hægt sé að taka þátt í slíku samstarfi. Þetta er grundvallarsamningur að því leytinu til. Að því marki má segja að norska ríkisstjórnin sé miklu knúnari en við til að vera aðili að honum vegna þess að hún hefur beinlínis menn undir vopnum í Afganistan. Það er síðan eftirtektarvert að ástæðan fyrir því að við staðfestum aldrei SOFA-samninginn var sú, muni ég rétt, að ákveðið var að allir hermenn, eða þeir sem tækju þátt í heræfingum frá erlendum þjóðum, hefðu sömu réttarstöðu hér á landi og amerískir hermenn höfðu í krafti tvíhliða samningsins frá 1951. Ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra leggur þetta fyrir núna er sú að ameríska herliðið er farið úr landi. Menn telja þar af leiðandi að ekki sé hægt að draga þessa samhverfu millum hermanna af öðru þjóðerni en amerísku vegna þess að þeir séu ekki hér með varanlegan samning.

En þá kemur að þeim mun sem íslensk stjórnvöld hafa, að því er ég hef alltaf talið, haft gagnvart skilgreiningum á íslensku friðargæslunni annars vegar og liðinu sem kemur hingað eða tekur þátt í samstarfsverkefnum innan Atlantshafsbandalagsins hins vegar. Í okkar tilviki hafði ég alltaf talið að verið væri að tala um menn sem væru að sinna friðargæslu og væru ekki her. Í hinu tilvikinu er um að ræða menn sem ekki er hægt að skilgreina öðruvísi en sem herlið. Þegar við gerðumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu 1959, og þegar við gerðum tvíhliða samninginn 1951, var talið að í krafti þess að Ísland væri herlaust land yrði aldrei þörf á því að við sem vopnlaus þjóð mundum senda herlið til annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Það var þess vegna sem við þurftum ekki að ávinna okkur þau réttindi sem felast í SOFA-samningnum með því að staðfesta hann.

Staðfesting þessa samnings, og það eru mínar athugasemdir við hann, felur í reynd í sér þá stefnubreytingu að við erum að lýsa því yfir að við séum formlega að hverfa frá vopnleysi okkar sem þjóð. Það er skilningur minn á því. Ekki ætlaði ég að efna til langrar umræðu um þetta atriði, ég hafði ætlað að spyrjast fyrir um það þegar málið kemur til nefndar.

Ég vil svo líka segja, og þá tala ég sem borgari og fulltrúi þjóðar sem hefur skilgreint sig sem vopnlausa, að ég hef margar efasemdir um ýmsar reglur sem er að finna í þessum samningi. Ég skil það mætavel að þær eigi við þjóðir sem senda mannskap undir vopnum, mannskap sem hefur hlotið þjálfun við vopnaburð og er sendur á átakasvæði þar sem menn þurfa hugsanlega að verja hendur sínar með vopnum. En aldrei var til þess ætlast af íslensku friðargæslunni. Ekki var um það rætt þegar til hennar var stofnað. Það var að vísu svo, herra forseti, það var ekki gert með lögum, heldur þróaðist hún meira og minna undir handarjaðri tiltekinna utanríkisráðherra Framsóknarflokksins, sjáið þið til.

Því má fagna stefnubreytingunni varðandi skilning og skilgreiningar hæstv. núverandi utanríkisráðherra og sá sem starfar í hennar nafni í dag virðist sömu skoðunar. Ég er mjög hlynntur þeirri tegund mannúðlegrar friðargæslu. Ég tel að friðargæsla okkar eigi að helgast af öðrum markmiðum en annarra vegna þess að við höfum skilgreint okkur sem vopnlausa þjóð.

Umræddur samningur helgast að töluverðu leyti af því að verið er að verja rétt manna sem hafa hlotið þjálfun í því að bera vopn og beita þeim. Það hefur íslenska þjóðin ekki gert. Mér finnst það ábyrgðarhluti af íslenskum stjórnvöldum að senda menn til starfa í herdeildum á átakasvæðum þar sem þeir jafnvel hafa skyldu til þess að bera vopn, jafnvel þó þau séu ekki virk, eins og áður hefur komið fram í umræðum. Ekki síst þegar horft er til þess að þeir hafa ákaflega litla þjálfun fengið í því að beita slíkum vopnum. Þeir eru sendir á einhver námskeið í Noregi.

Það er akkúrat þess vegna sem sérstakt ákvæði um refsilögsögu er í frumvarpi til laga um íslensku friðargæsluna og sömuleiðis ákvæði um að dómstólar á Íslandi, sem hafa refsilögsögu yfir þessum mönnum jafnvel þó þeir starfi í fjarlægu landi, taki tillit til þess, ef viðkomandi starfsmaður íslensku friðargæslunnar brýtur ákvæði hegningarlaganna, að hann sé ekki vanur að starfa við slíkar aðstæður og geti þess vegna brugðist við með hætti að það geti bakað öðrum miska. Það sem væri hegningarlagabrot hér á landi er ekki hegningarlagabrot við slíkar aðstæður.

Með þessu tel ég að íslensk stjórnvöld viðurkenni í verki að munur er á okkar mönnum hvað þjálfun og undirbúning varðar og herliði annarra. Gott og vel, um það má ræða. En þetta er a.m.k. staðfesting á því viðhorfi mínu að Íslendingar hafa ekki vopnahefðina og hafa ekki vopnaþjálfunina og íslensk stjórnvöld taka tillit til þess með umræddum hætti í frumvarpi til laga um íslensku friðargæsluna.

Herra forseti. Þó að ég sé reiðubúinn að hlusta á öll rök í málinu geri ég fyrst og fremst athugasemdir við þetta: Með því að samþykkja og staðfesta SOFA-samninginn, sem ég geri mér ljóst að er burðargrind í samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins, erum við að breyta skilgreiningu á okkur sem þjóð. Með staðfestingunni á honum skilgreinum við okkur sem vopnvædda þjóð. Það er algjört fráhvarf frá því sem áður var. Er sjálfsagt að rifja það upp að þegar Ísland var eins árs lýðveldi árið 1945 var því hafnað á hinu háa Alþingi að lýsa yfir stríði á hendur Japönum og Þjóðverjum vegna þess að Íslendingar væru vopnlaus þjóð. Það er reyndar rétt að rifja það upp líka að menn í öllum flokkum árið 1949, meira að segja þáverandi utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, sem lagði grundvöllinn að utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins allt fram til okkar daga, lýstu því yfir að Íslendingar mundu aldrei, þrátt fyrir stofnaðild sína að Atlantshafsbandalaginu, fara með vopnum á hendur annarri þjóð.

Sú afstaða hans og sú afstaða sem Alþingi tók árið 1945 var grundvöllurinn að skilgreiningu og sjálfsmynd okkar sem vopnlausrar þjóðar og hún var ástæðan fyrir því að við höfum ekki staðfest SOFA-samninginn. Núna erum við að staðfesta hann og í því felst stefnubreyting. Íslensk stjórnvöld eru í reynd farin að líta á okkur sem vopnaða þjóð og á friðargæsluliða okkar sem hluta af her þó hann sé ekki undir íslenskri stjórn. Það er breytingin. Það er það sem ég hef fram að færa um þetta. En ég ætla ekki að lengja þetta heldur taka málið upp í utanríkismálanefnd.



[21:08]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist hv. þingmaður segja að sérstök stefnubreyting væri á ferðinni og við yrðum hér með vopnvædd þjóð. Það er algerlega fráleitt að draga þá ályktun.

Mér skilst að hv. þingmaður álíti að með því að fullgilda samninginn Partnership for Peace gagnvart friðargæslunni, með tilvísun þar í SOFA-samninginn, og það einungis um réttarstöðuna, séum við orðin vopnvædd þjóð. Ég vil benda á að þetta er oftúlkun hjá hv. þingmanni. Einungis er um réttarstöðuna að ræða, réttarstaða íslensku friðargæsluliðanna batnar. Það er oftúlkun hjá hv. þingmanni að stefnubreyting felist í fullgildingu þeirra tveggja samninga sem hér um ræðir.

SOFA-samningurinn gildir um liðsafla en friðargæsluliðar okkar eru alls ekki her og ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að skilgreina þá svo. Við verðum ekki vopnvædd þjóð þó að við fullgildum þessa samninga. Ég vil ítreka þetta því mér heyrðist hv. þingmaður draga þá ályktun.

Ég vil líka nýta tækifærið og ræða það fjármagn sem hefur farið til Íraks. Það fer m.a. í Össur, ekki í þann hv. þingmann sem hér er heldur til fyrirtækisins Össurar sem framleiðir gerviliði. Nýbúið er að dreifa, að mér skilst, ítarlegu svari frá hæstv. utanríkisráðherra þar sem tilgreind er hver einasta króna sem fer til friðargæslustarfa, m.a. í Írak. Því var dreift ekki hér fyrir löngu.



[21:10]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að ár sakleysis okkar sem þjóðar séu liðin. En við höfum aldrei gert það upp við okkur. Við höfum alltaf talið okkur trú um að við værum vopnlaus þjóð. Hér væri ekki lögregla undir vopnum, hér væri ekkert herlið undir vopnum og ekkert gæslulið undir vopnum.

Við sem stundum þurfum að fara til útlanda, og stundum nokkuð oft í krafti starfa okkar, höfum orðið fyrir því að ganga í gegnum hópa af íslenskum lögreglumönnum með alvæpni við tilteknar aðstæður á Keflavíkurflugvelli, mönnum vopnuðum vélbyssum. Ég hef séð það. Fleiri hafa séð það. Þetta er breyting sem hvergi hefur verið rædd og maður veltir fyrir sér hver lagastoðin sé. Hún var til skamms tíma til í einni aukasetningu í lögreglulögunum, muni ég rétt. Nú kann að vera að búið sé að samþykkja breytingu á því. Mér er ekki kunnugt um það.

Hið sama á við um friðargæsluna. Það voru engin lög um hana. Hún bara varð til. Hún spratt upp. Og allt í einu var til orðið verkefni sem aldrei hafði verið kynnt þinginu með nokkrum hætti en menn töldu að um borgaraleg mannúðarstörf væri að ræða. Annað kom í ljós. Það getur verið að þetta sé oftúlkun hjá mér. En þetta er a.m.k. þess virði að ræða.

Varðandi það hvort um breytingu sé að ræða þá dreg ég einungis ályktanir af skilgreiningum. Mig langar að leggja eina spurningu fyrir hæstv. utanríkisráðherra. Ég les fyrst eftirfarandi texta: „Var talið að Ísland sem vopnlaus þjóð mundi aldrei senda herlið til annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins.“ Og síðan kemur þetta: „Á þessum tíma var því ekki talin þörf á því að Ísland fullgilti SOFA-samninginn.“ Ég spyr: Hvar stendur þessi texti? Þetta stendur nú í greinargerðinni sem starfsmenn hæstv. ráðherra hafa skrifað.

Með öðrum orðum er sagt að að dómi stjórnvalda þurfum við ekki að staðfesta SOFA-samninginn þar sem við lítum ekki á okkur sem vopnaða þjóð. Nú erum við að staðfesta þann samning og af því má gagnálykta að við séum farin að líta (Forseti hringir.) á okkur sem þjóð undir vopnum.



[21:12]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að hv. þingmaður dregur of miklar ályktanir og oftúlkar. Gagnvart friðargæslunni erum við einungis að tala um réttarstöðu. Ekki er hægt að draga þá ályktun, eins og hv. þingmaður orðaði það, að við verðum vopnuð þjóð við það að staðfesta samninginn um Samstarf í þágu friðar með vísun í ákvæðin varðandi réttarstöðu í SOFA-samningnum. Það er ekki þannig.

Ég tel að hv. þingmaður muni fá þessar skýringar og betri tækifæri til þess að ræða þessi mál í hv. utanríkismálanefnd þegar málið berst þangað. En um er að ræða oftúlkanir hv. þingmanns.