133. löggjafarþing — 84. fundur
 8. mars 2007.
íslensk alþjóðleg skipaskrá, 1. umræða.
stjfrv., 667. mál (heildarlög). — Þskj. 1013.

[18:15]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Frumvarpið er samið af starfsmönnum samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar Íslands. Því er ætlað að setja lagaramma um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Á þá skipaskrá verður hægt að skrá kaupskip í millilandasiglingum og farmflutningum innan lands en nú er staðan sú að engin kaupskip eru skráð á Íslandi. Samhliða frumvarpinu leggur fjármálaráðherra fram frumvarp til laga um skattlagningu kaupskipaútgerðar og er þar fjallað um þau skattalegu og rekstrarlegu atriði sem nauðsynleg eru til að íslensk alþjóðleg skipaskrá verði virk. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nú þegar mælt fyrir því frumvarpi.

Allnokkuð er síðan umræður hófust um stofnun íslenskrar alþjóðlegrar skipaskrár og má rekja það allt aftur til upphafs tíunda áratugar síðustu aldar. Mikið hefur verið fjallað um þetta og hafa skoðanir verið margar og misjafnar á því hvort heppilegt væri að koma slíkri skipaskrá á fót hér á landi. Skráðum kaupskipum hefur fækkað stöðugt og er nú svo komið að engin kaupskip eru skráð á Íslandi. Samhliða þeirri þróun hefur þeim röddum óðum fækkað sem eru á móti slíkri skipaskrá. Má segja að frekar hafi verið þrýst á það að kannað yrði hvað þyrfti að koma til svo að kaupskipaútgerðirnar íslensku vildu skrá kaupskip sín hér á landi. Það er þó ekki fyrr en nú að samstaða virðist hafa náðst um að íslenskri alþjóðlegri skipaskrá verði komið á fót og stefna eigi að því að hún verði fyllilega samkeppnishæf þeim bestu sem fyrirfinnast annars staðar.

Meginmarkmið með stofnun slíkrar skipaskrár er að fá íslenskar kaupskipaútgerðir til þess að skrá kaupskip sín hér á landi en einnig er stefnt að því að erlendar kaupskipaútgerðir sjái sér hag í því að skrá kaupskip sín hér. Þau kaupskip sem skráð verða á íslenska alþjóðlega skipaskrá verða íslensk. Þau munu sigla undir íslenskum fána. Um þau gilda íslensk lög og lögsaga auk þess sem skoðun og eftirlit verður á íslenskum höndum.

Ég tel rétt að fara yfir helstu efnisatriði frumvarpsins, en eins og áður sagði felst í frumvarpinu sá rammi sem þarf að vera um íslenska alþjóðlega skipaskrá.

Þar er fyrst að nefna það markmið frumvarpsins að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi. Þá er kveðið á um hvaða kaupskip er hægt að skrá á skipaskrána, en það eru kaupskip sem eru 100 brúttótonn eða stærri, eru í millilandasiglingum með farm og/eða farþega, eru í innanlandssiglingum með farm eða í svokölluðum strandsiglingum.

Í frumvarpinu er ákveðið hverjir það eru sem geta skráð kaupskip á skrána. Gert er ráð fyrir að heimild einstaklinga til að skrá kaupskip sé bundin við ákveðið ríkisfang, bæði íslenskt og tiltekið erlent, en í því tilviki skal erlendur ríkisborgari hafa íslenskan umboðsaðila. Að öðru leyti er heimild til skráningar bundin við íslenskan lögaðila.

Þurrleiguskráning kaupskipa er heimil eins og nú á aðalskipaskrá Íslands og gilda sömu reglur, það á við bæði þegar skip eru skráð annars staðar en þurrleigð hingað og skráð hér og þurrleigð annað. Frumvarpið gerir ráð fyrir að skráin verði haldin hjá Siglingastofnun Íslands og þar fari fram skráning og öll framkvæmd málsins. Undanskilin er þó réttindaskráning sem skal vera hjá sýslumanninum í Reykjavík enda er gert ráð fyrir að heimahöfn skipa sem skráð verða í skránni sé þar.

Varðandi skráninguna sjálfa er gert ráð fyrir að áfram gildi svipaðar reglur og nú og reglur séu í samræmi við þær alþjóðlegu kröfur og reglur sem Ísland er skuldbundið til að framfylgja enda er umhverfi þetta allt mjög alþjóðlegt. Rétt er að taka fram að ekki er gert ráð fyrir að á neinn hátt verði slakað á kröfum sem gerðar eru vegna skráningar skipa hér á landi eða hvað varðar eftirlit eða skoðanir. Það er mjög mikilvægt að þessir þættir séu í lagi og í samræmi við alþjóðlegar reglur hverju sinni, eigi íslensk alþjóðleg skipaskrá að njóta viðurkenningar og vera þekkt fyrir gæði.

Mikilvæg ákvæði eru um þjóðerni áhafnar kaupskipa sem kjósa skipaskrána og eru engar sérstakar kröfur gerðar nema hvað varðar skipstjórann. Almennt er gert ráð fyrir að hann sé íslenskur eða ríkisborgari ákveðinna tilgreindra ríkja. Þó ekki sé gerð krafa um þjóðerni áhafna er ætlast til að áhafnir uppfylli lágmarkskröfur alþjóðasamþykktar um viðmiðanir að því er varðar menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna, svokallaðar STCW-reglur, auk þess sem gæta skal reglna um öryggismönnun.

Hvað kjör varðar er almennt lagt til að skipverjar njóti þeirra kjara sem samið hefur verið um af stéttarfélögum þeirra í heimalandinu. Frumvarpið hefur einnig að geyma ákvæði um hvenær ber að afskrá kaupskip af skránni og hvernig tilkynna beri eigendaskipti. Þá er til áréttingar kveðið á um að tiltekin skjöl skuli undanþegin stimpilgjaldi en kveðið er á um það í lögum um stimpilgjald.

Náist markmið frumvarpsins, að búa til samkeppnishæfa alþjóðlega skipaskrá, að gera íslenska alþjóðlega skipaskrá aðlaðandi kost fyrir kaupskipaútgerðir, bæði íslenskar og erlendar, má búast við að ýmiss konar hliðarstarfsemi fylgi vegna skráningar skipanna. Jafnvel má búast við að einhverjar erlendar útgerðir komi sér upp aðstöðu hér á landi sem mun hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið.

Mikilvægt er að vel takist til. Að allir leggist á eitt, stjórnvöld og hagsmunaaðilar, og standi að stofnun íslenskrar alþjóðlegrar skipaskrár með myndarbrag þannig að markmið frumvarpsins nái fram að ganga. Til þess er samvinna mjög mikilvæg milli allra sem að verki koma. Einnig má sjá fyrir sér að þetta geti hleypt nýju lífi í menntunarmál farmannastéttarinnar og því vert fyrir menntamálayfirvöld að fylgja þessu vel eftir með átaki í menntun og þjálfun og eflingu þeirra menntastofnana sem sjá um menntun farmanna.

Samkeppnin er hörð og kaupskipaútgerðir leita þangað sem bestu kjörin eru og besta þjónustan fæst í tengslum við útgerðina. Vanda þarf til verka þannig að útgerðin sjái sér hag í að flytja skráningu kaupskipa sinna til Íslands. Því má ekki gleyma að staðan er sú í dag að engin kaupskip eru skráð hér á landi sem þýðir að engin íslensk kaupskip eru til, engar tekjur eru af slíkum skipum eða tengdri starfsemi, hvorki í formi skatta né á annan hátt. Það er engu að tapa heldur allt að vinna með því að koma á fót íslenskri alþjóðlegri skipaskrá sem gæti leitt til aukinna tekna.

Hæstv. forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og þeirri framtíðarsýn sem kann að bíða okkar verði frumvarp þetta að lögum. Ég ætla ekki að hafa þau orð fleiri en legg áherslu á að um mikilvæga löggjöf er að ræða sem kann að hafa veruleg áhrif hér á landi verði þeim tilgangi og markmiðum sem lagt er upp með í frumvarpinu náð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hæstv. samgöngunefndar.



[18:24]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra hefur flutt mætti kannski hafa yfirskriftina: Allt að vinna, engu að tapa. Það er vegna þess að ríkisstjórnin kemur allt of seint fram með þessi frumvörp, og er ég þá ekki að tala um á þessu þingi heldur allt of seint í árum talið. Eins og hæstv. ráðherra gat um eru nú engin kaupskip skráð á Íslandi. Við erum búin að missa þau öll í burtu vegna þess hve seint er gripið inn í. Nú er gripið inn í með því frumvarpi sem hæstv. ráðherra flytur hér og með frumvarpi sem fjármálaráðherra flutti um daginn um skattlagningu kaupskipaútgerðar. Ég gat því miður ekki tekið þátt í þeim umræðum vegna þess að ég var úti á landi.

Virðulegi forseti. Betra er seint en aldrei. Ég tók þátt í umræðum við hæstv. fjármálaráðherra á seinasta þingi um þetta mál. Þá var rætt um það hvort ríkisstjórnin ætlaði ekki að leggja fram frumvarp til þess að kippa í þessa spotta, búa til íslenska alþjóðlega skipaskrá og freista þess að fá kaupskipin aftur hingað heim, með þeim skattaívilnunum sem fjallað hefur verið um í frumvarpi fjármálaráðherra.

Miðað við lýsingu í athugasemdum með frumvarpinu var umræðan farin af stað árið 1998 en þá er ekki lagt fram frumvarp vegna þess að í ljós kom andstaða o.s.frv., það er talað um andstöðu. Var það andstaða hæstv. fjármálaráðherra, núverandi og fyrrverandi, við að breyta skattalöggjöfinni sem kom í veg fyrir að hægt væri að gera það sem hér er boðað? Ég tek skýrt fram að ég er hlynntur þessu máli án þess að hafa lesið þetta allt spjaldanna á milli eða rætt það í nefnd. Ég tel einungis að frumvarpið komi allt of seint fram. En var andstaðan hjá hæstv. fjármálaráðherrum, núverandi og fyrrverandi?



[18:26]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei. Það réð ekki úrslitum að andstaða var við breytingar á skattalögum í fjármálaráðuneytinu. Raunveruleikinn er sá að á vettvangi hagsmunaaðila var deilt um þetta. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Það var ágreiningur á milli stéttarfélaganna vegna þessara hugmynda. En síðan lá það jafnframt ljóst fyrir að mikið var rætt um sjómannaafslátt lengi vel o.fl. Ýmsir töldu að ekki væri skynsamlegt að koma með nýja tegund af sjómannaafslætti inn í skattkerfið. Það var, svo öll sagan sé sögð, liður í þeim deilum sem um þetta mál stóðu. Niðurstaðan varð sú að stéttarfélögin náðu saman. Ekki er ágreiningur við þau lengur. Nú hefur náðst gott samkomulag á milli samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis um þessar leiðir.

Eins og hv. þingmenn þekkja höfum við staðið fyrir verulega miklum breytingum á skattkerfinu. Við höfum verið að lækka tekjuskatt. Það má kannski segja að þessi aðgerð sé að hluta til liður í því. Hins vegar er það ekki eingöngu, aðalatriðið er það að við erum, m.a. með ívilnun í skattlagningu, að leita leiða til þess að ná þessari skráningu inn í landið og með skipulagi um þjónustu sem (Forseti hringir.) gæti leitt til þess að skráningin (Forseti hringir.) yrði atvinnuskapandi.



[18:28]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðum við hæstv. núv. fjármálaráðherra á síðasta þingi, ég man ekki hvort það var óundirbúin fyrirspurn eða ekki, spurðist ég einmitt fyrir um þetta. Þá tók ég eftir því að hæstv. fjármálaráðherra var tregur í taumi, dýralæknirinn sjálfur, til þess að stíga skref á þeirri vegferð sem nú er loks hafin.

Ég fagna, þó seint sé, þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram, annars vegar frumvarpi frá fjármálaráðherra og hins vegar frumvarpi frá samgönguráðherra. Ég fagna með þeim fyrirvara að ég á eftir að lesa þetta nákvæmlega yfir og vinna í viðkomandi nefnd. En betra er seint en aldrei.

Virðulegi forseti. Eins og segir í lagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra er lögð til sambærileg skattlagning kaupskipaútgerðar og í ýmsum nágrannalöndum okkar, sem er skattafsláttur eða skattaívilnun til þess að freista þess að halda skipunum í þeim skrám sem þar eru. Þegar síðasta kaupskipið, Keilir, fór í færeyska skipaskrá, var þetta gert.

Ég fagna því að verið sé að búa til skattaívilnun til þess að fá kaupskipin heim til Íslands í íslenska skipaskrá. Spurning mín til hæstv. samgönguráðherra er þessi: Getum við farið þessa leið eða getum við notað fordæmið um skattalega ívilnun til að taka upp strandsiglingar á Íslandi á ný? Að gera þær aftur hagkvæmar og fýsilegar af skipafélögunum til að hefja strandsiglingar með eða án ríkisstyrkja eftir útboð? Telur hæstv. samgönguráðherra að það fordæmi sem hér er gefið getum við notað til að taka upp strandsiglingar að nýju á Íslandi?



[18:30]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp og framkvæmd þeirrar löggjafar sem hér er verið að leggja drög að gæti leitt til þess og gæti auðveldað skipafélögunum að stunda svokallaðar strandsiglingar. Það fer ekkert á milli mála. Það er m.a. þess vegna sem við viljum fara þessa leið til að hvetja og ýta undir siglingar með ströndum og milli landa að sjálfsögðu og gera það hagkvæmara. Það er rétt athugað hjá hv. þingmanni að þessi löggjöf gæti leitt til þess að fleiri skipafélög legðu áherslu á siglingar við ströndina eða réttara sagt að þau tækju þær upp með öðrum hætti en er í dag. Það er á margt að líta í þessu efni.

Ég tel að það sé af hinu góða að ýta undir þessa starfsemi, skipaútgerð af hálfu Íslendinga. Það kveður stundum við svolítið sérstakan tón þegar Samtök verslunar og þjónustu sem vinna fyrir kaupskipaútgerðina leita eftir samstarfi og samvinnu við samgönguráðuneytið vegna málefna sem lúta að skipaútgerð og það er gert fyrir fyrirtæki sem eiga engin skip. Strangt til tekið hefur því ekki verið um neitt slíkt að ræða milli samgönguráðuneytisins og Samtaka verslunar og þjónustu vegna þess að íslensk kaupskipaútgerð er ekki til. En þetta frumvarp er til þess gert að ýta undir starfsemi á vegum íslenskra fyrirtækja á vettvangi kaupskipaútgerðar og ég er alveg sannfærður um að ef vel tekst til með framkvæmdina mun það ýta undir kaupskipaútgerð frá Íslandi.



[18:32]Útbýting:

[18:33]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra hefur nú lagt fram um íslenska alþjóðlega skipaskrá og lýtur að skráningu kaupskipa á Íslandi og að reyna að færa þau aftur til landsins kemur fram vonum seinna. Þetta er mál sem við höfum verið að fjalla um í þinginu á undanförnum árum. Hvað eftir annað hefur þetta mál verið tekið upp á Alþingi, bæði í fyrirspurnum og með tillöguflutningi. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur m.a. ásamt öðrum góðum þingmönnum beitt sér fyrir því að málefni kaupskipa væru tekin upp á Alþingi. Sú alvarlega staða er uppi, sem var fyrirsjáanleg, að nú er bara eitt lítið fragtskip, sem flytur olíu á milli nokkurra staða innan lands, skráð hér á landi. Önnur eru ekki skráð hér. Meira að segja óskabarn þjóðarinnar, Eimskip, valdi það um tíma að breyta um nafn en kaus svo að skipta aftur í sitt forna nafn, Eimskip, óskabarn þjóðarinnar sem var m.a. stofnað til þess að efla og styrkja atvinnulíf og búsetu um allt land og var liður í því að íbúarnir gætu stundað sjálfstætt atvinnulíf, sjálfstæða verslun og flutning á eigin vegum. Allir lögðu sitt af mörkum til að stofna Eimskipafélagið á sínum tíma. Ég minnist þess sem ungur piltur að litið var á það sem skyldu alls fullorðins fólks út um sveitir landsins að kaupa hlutabréf í Eimskipafélaginu, ekki til þess að hafa einhvern persónulegan peningalegan arð af því heldur til að tryggja vöxt og eflingu íslensks atvinnulífs og sjálfstæði þjóðarinnar hvað flutninga varðaði.

Þessi hugmyndafræði, þessi félagshyggja og samfélagshugsjón er því miður á hverfanda hveli. Sama átti við um Samskip eða flutningafyrirtæki samvinnufélaganna á sínum tíma, það var einnig byggt upp á þessari hugsjón. Síðan hefur komið önnur ríkisstjórn, ríkisstjórn markaðshyggjunnar þar sem allt skal metið til fjár. Arðurinn af peningunum og fjármununum og fjárfestingunum skal fyrst og fremst renna til einstaklinga, til fyrirtækja, til einkaaðila. Hagsmunir þjóðarinnar eða samfélagshagsmunir eru þar ekki ofarlega á borði.

Sú ríkisstjórn sem nú situr, ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hefur náttúrlega stutt dyggilega við þessa þróun og svo gerðist það fyrir nokkrum árum síðan að öll kaupskip voru orðin skráð erlendis. Ísland, eyland sem byggir alla sína aðdrætti eða stóran hluta af aðdráttum sínum á siglingum, á flutningum með skipum, átti ekkert kaupskip skráð á Íslandi. Það virtist ekki vera neitt áhyggjuefni hjá ríkisstjórninni. Málið hefur ítrekað verið tekið upp á Alþingi, svörin verið útúrsnúningar eða þau að ekki mætti grípa inn í til að tryggja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Þetta ætti að vera frjálst, það ætti að leyfa mönnum að fara með skipin úr landi því það væri liður í að efla starf þeirra á alþjóðavettvangi. Íslenskir hagsmunir voru ekki hafðir þar að leiðarljósi.

Við höfum oft tekið þetta mál upp í samgöngunefnd. Þar var líka hvatt til þess að það væri skoðað hvernig tryggja mætti að kaupskipin ættu hér heimahöfn en það hefur ávallt verið talað fyrir daufum eyrum í því sambandi. Þegar svo hefur verið um nokkra hríð að öll kaupskip eru skráð erlendis, kemur loksins á síðustu dögum þings, á síðustu dögum þessarar ríkisstjórnar, á síðustu dögum hæstv. samgönguráðherra í ráðherrastóli, fram frumvarp sem lýtur að þessu máli og það er að vísu fagnaðarefni. Það markmið að reyna að koma kaupskipunum aftur í íslenska lögsögu, bæði að skipin verði skráð hér á landi og sjómennirnir sem starfa um borð í skipunum verði skráðir hér, er náttúrlega gríðarlegt hagsmunamál fyrir þjóðina, bæði sjálfstæðismál og gríðarlegt hagsmunamál efnahagslega líka að hafa þau skráð hér. Því ber að fagna frumvarpinu hvað þessi atriði varðar þó að það komi seint fram og ráðherra geri greinilega ekki ráð fyrir að það verði að lögum áður en hann fer úr ráðherrastóli því það munu ekki vera meira en tveir eða þrír dagar eftir af raunverulegum starfsdögum þingsins. Þetta er svona viðleitni sem kemur fram á síðustu stundu.

Ef við lítum aðeins á ýmsa efnisþætti frumvarpsins þá vil ég staldra við þau atriði sem tekist hefur verið á um á undanförnum árum og sem talið hefur að skertu samkeppnisstöðu kaupskipaútgerðanna vegna þess að þær gætu ekki ef þær væru undir íslenskri lögsögu m.a. boðið starfsmönnum sínum kaup og kjör eftir eigin geðþótta. Þær töldu að ef þær yrðu að fara eftir íslenskum kjarasamningum, íslenskum áunnum réttindum og réttindum sem íslenskir starfsmenn hafa samkvæmt samningum hér á landi, væru þær ekki samkeppnishæfar. Þess vegna hafa þær m.a. leitað erlendis til þess að geta ráðið fólk á lakari kjörum. Ég tel í fyrsta lagi að það hafi verið misskilningur og í öðru lagi að þá hefði bara átt að taka á þannig að samkeppnishæfnin væri fyrir hendi. Það er alveg sama hversu mjög við viljum breyta lögum í þá veru að skipin komi hingað aftur og verði skráð hér, við megum samt undir engum kringumstæðum setja hér lög sem mismuna starfsmönnum, sjómönnum á þessum skipum, miðað við íslenska kjarasamninga og réttindi starfsmanna sem starfa hér samkvæmt íslenskum lögum. Þess vegna set ég stórt spurningarmerki m.a. við 11. gr. sem fjallar um mönnun og kjaramál en þar er sagt að áhafnir kaupskipa sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá skuli uppfylla lágmarkskröfur alþjóðasamþykktar um viðmiðanir að því er varðar menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna og gætt skuli reglna um öryggismönnun. Síðan segir:

„Um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fer eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Kjarasamningur gildir einungis fyrir félaga í því stéttarfélagi og ríkisborgara þess ríkis sem stéttarfélag á lögheimili í, enda eru þeir ekki í öðrum stéttarfélögum sem gerður hefur verið kjarasamningur við.“

Nú er ég ekki svo kunnugur því hvernig þessu er háttað almennt í kjarasamningum en ég man ekki betur en að einmitt hafi verið lögð áhersla á að standa ætti vörð um það að þeir starfsmenn sem kæmu til starfa undir íslenskri forsjá, undir íslenskri lögsögu, hvort heldur á sjó eða landi, fengju kaup og kjör samkvæmt íslenskum lögum og íslenskum kjarasamningum. Þarna er aftur á móti verið að segja að hægt sé að vera með 20 manns á skipi og þó að skipið sé skráð hér geti skipverjarnir verið á 20 ólíkum kjarasamningum í 20 mismunandi löndum þess vegna. Markmiðið sem við höfum sett og barist fyrir, að fólk sem vinnur hlið við hlið undir íslenskri lögsögu búi við sömu kjör, er ekki tryggt og er meira að segja verið að opna á það í þessum lögum að það sé ekki gert. Ég spyr ráðherra: Samræmist þetta íslenskum lögum? Hefur hæstv. ráðherra rætt t.d. við hæstv. félagsmálaráðherra, sem ég held að hafi verið að mæla fyrir lögum um réttindi og skyldur og atvinnuréttindi erlendra ríkisborgara sem hér starfa? Þegar skip er komið undir íslenskan fána, sem við höfum að markmiði og ég styð, hlýtur það að heyra undir íslensk lög hvað fólk varðar, hvað réttindi og skyldur varðar, hvað kjarasamninga varðar. Ef fara á út á aðra braut með það tel ég okkur vera komin á mjög hættulega braut. Þegar maður les athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins og það sem fjallað er um í 11. gr. þar sem verið er að opna á þá heimild að skip geti verið með starfsmenn, sjómenn, á mismunandi kjörum eftir því frá hvaða landi þeir koma, þá sjáum við að það er ekki nóg með það heldur segir líka í athugasemdum við 11. gr., með leyfi forseta:

„Um kjör skipverja gerir frumvarpið ráð fyrir að fari eftir kjarasamningi þess lands sem viðkomandi skipverji á lögheimili í og gilda því íslenskir kjarasamningar einungis um íslenska skipverja í áhöfn kaupskipa.“

Takið eftir hvað ég er að segja. Enda þótt skipið eigi að sigla undir fána Íslands og heyra þar af leiðandi að mínu mati undir íslensk lög þá eiga íslenskir kjarasamningar einungis að gilda um þá sem eru íslenskir ríkisborgarar. Um hina fer eftir kjarasamningum þess lands sem þeir koma frá. Ekki er nóg með þetta heldur segir áfram í athugasemdum við 11. gr., frú forseti:

„Miðað er við að kjarasamningur gildi einungis fyrir þá sem eru í því stéttarfélagi sem gerði samninginn og hefur það þá þýðingu að ef skipverji er ekki í stéttarfélagi í sínu heimalandi eða annars staðar er útgerð kaupskipsins heimilt að semja sérstaklega við hann um kaup og kjör.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki verið lærdómsríkt fyrir hann að fylgjast með skipinu sem kom að Grundartanga og var stöðvað þar af samtökum sjómanna hér á landi vegna þess að ekki hafði verið gert upp við skipverjana. Þeir bjuggu ekki við þann aðbúnað sem alþjóðasamþykktir kveða á um og höfðu vond kjör. Hvað óttuðust þeir og hvers vegna ætluðu þeir ekki að þora að tala við neinn? Það var að ef þeir mundu opna munninn yrðu þeir reknir heim, sagt upp störfum og þeir reknir heim. Er það ástand sem hæstv. ráðherra vill innleiða á kaupskipum undir íslenskum fána? Þannig ætti þetta hvergi að vera.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal talar um hentiskip og hentifána. Ég er ekki hlynntur því að íslenski fáninn verði neinn hentifáni til þess að lækka eða bjóða út kjör sjómanna. En eftir orðanna hljóðan gætu sjómenn unnið á ólíkum kjarasamningum hlið við hlið á íslensku skipi, undir íslenskum fána, eftir því frá hvaða landi þeir koma eða því stéttarfélagi sem þeir eru aðilar að. Séu þeir ekki aðilar að stéttarfélagi þá hefur útgerðin frjálsar heimildir til að semja eða að skaffa eða til að ákveða launin. Einn sjómaður án samningsfélags hefur enga samningsstöðu eins og við vitum. Við þekkjum þann þrýsting sem vinnuveitendur geta beitt starfsmenn í slíkum tilfellum og þar með væri innleitt fullkomið réttleysi, ef þetta yrði raunin. Frú forseti, ég vara afdráttarlaust við þeirri nálgun sem hér er verið að innleiða á íslensku atvinnusvæði og í íslenskri lögsögu, eins mikið og ég er fylgjandi því að útgerðirnar og skipin komi og heyri undir íslenska lögsögu. Þetta er eitt af þeim atriðum sem maður heggur sérstaklega eftir og finnst með ólíkindum að finna í frumvarpi sem íslenskur ráðherra flytur.

Það væri ástæða til að spyrja um fleira. Ætli það séu ekki eitt og hálft eða tvö ár síðan hingað komu fulltrúar frá sænskum verkalýðssamtökum sem sjómenn á flutningaskipum eiga aðild að. Mig minnir að þeir legðu til annað kerfi heldur en hér er gert ráð fyrir. Þar var lögð áhersla á, ef ég man rétt, að allir sjómenn væru á sænskum kjarasamningum, nytu lífeyrisréttinda og allra þeirra starfsréttinda sem sænskir launþegar njóta. En síðan var einhvers konar endurgreiðslukerfi við lýði sem jafnaði aðstöðu skipafélaga og sjómanna þannig að þau voru samkeppnishæf við aðrar þjóðir. Ég sé ekki að hinu sænska kerfi hafi verið gerð skil. Það er nefnt á bls. 29 í greinargerð að í Noregi og Svíþjóð séu siglingar blómstrandi útflutningsatvinnuvegur og í öðru og þriðja sæti hvað varðar gjaldeyristekjur. Þessi yfirlýsing segir okkur hversu gríðarlegt hagsmunamál þetta er, að kaupskipin komi heim. En eftir því sem ég man best þá var einmitt lögð rík áhersla á það í þessum löndum að réttindi sjómanna, starfsmanna á skipunum, væru að fullu virt og þeir lytu sænskum lögum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vildi kanna þessa sænsku leið.

Í lokin vil ég nefna strandflutningana. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum undanfarin ár ítrekað flutt frumvörp um að strandsiglingar verði teknar upp að nýju. Ég held að það hafi verið ein af döprustu aðgerðum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma að hætta strandsiglingum með því að leggja niður stuðning við þær. Finna hefði mátt aðra leið til að halda þeim uppi. Við fáum stöðugar áskoranir frá byggðarlögum, m.a. Vestfjörðum og víðar um land, þar sem samkeppnisstaða þessara byggðarlaga skertist þegar strandsiglingar voru aflagðar.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað lagt áherslu á að strandsiglingar verði teknar upp, þótt ríkið þyrfti að styðja við þær. Það væri bara sjálfsagt. Þetta er flutningskerfi sem er partur af grunnþjónustu við atvinnulíf og búsetu um allt land. Ríkið styður við hafnir sem er gott. Ríkið byggir vegi og á vegina og þess vegna er jafnmikilvægt að siglingar meðfram ströndum landsins séu studdar þannig að sá flutningsmáti geti orðið samkeppnishæfur. Þau rök sem oft hafa verið flutt hér, að það sé ekki hægt vegna einhverra reglna í Evrópusambandinu, eru náttúrlega fáránleg. Alltaf þegar ráðherrar hafa komist í rökþrot þá segja þeir að þannig séu ESB-reglur og þegar þeir eru beðnir um að skilgreina það nánar verður fátt um svör.

Það er einmitt svo varðandi siglingarnar, flutninga sjóleiðina, að Evrópusambandið hvetur til ríkisstyrkja í því sambandi eins og segir í greinargerðinni. Leiðbeiningar ESB um ríkisstyrki til sjóflutninga heimila að fella megi niður skatta og gjöld af sjómönnum á þessum skipum. Það á við á styttri og lengri sjóleiðum, eins og stendur þarna í greinargerðinni. Það hefur ekki vantað heimildir og hefði ekki þurft að brjóta nein lög. Við höfum staðið frammi fyrir fullkomnu aðgerða- og sinnuleysi stjórnvalda í þessum málum hvað varðar sjóflutninga.

Það er virðingarvert að þetta frumvarp skuli komið fram. Markmiðið er að kaupskip verði aftur íslensk, sem annast flutninga til og frá landinu og hringinn í kringum landið. Þau geti verið skráð á Íslandi undir íslenskum fána samkvæmt íslenskum lögum og þá eiga starfsmennirnir líka að njóta réttinda sem slíkir samkvæmt íslenskum kjarasamningum og við verðum að haga lagasetningunni eftir því.



[18:53]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kom víða við í sinni ræðu sem er ekki óeðlilegt. Oft höfum við tekist á um þessi mál og rætt í þinginu. Ég vildi í upphafi lýsa yfir ánægju minni með að komin skuli fram frumvörp, bæði frá hæstv. fjármálaráðherra og samgönguráðherra, um alþjóðlega skipaskrá sem mjög hefur verið óskað eftir af hálfu samtaka stéttarfélaga sjómanna og útgerðar. Ég mun á eftir koma betur að þessu máli og fjalla ítarlega um hver þróunin hefur verið og stöðuna í dag.

En varðandi það sem hv. þm. Jón Bjarnason talaði um, 11. gr. um mönnun skipa, þar sem hann vitnaði til átaka milli stéttarfélaga sjómanna og útgerðar á tilteknu skipi í Grundartangahöfn þá er það svo að orðalag skýringarinnar við 11. gr laganna er aðeins annað en orðanna hljóðan í lagatexta sömu greinar. Þar er talað um að útgerðinni sé heimilt að semja sérstaklega við viðkomandi sjómenn um kaup og kjör.

Nú er það svo að Alþjóðaflutningaverkamannasambandið ITF hefur fylgst mjög vel með skipum og skipaferðum í Evrópu. Það sendi fulltrúa sína þar um borð til að fylgjast með því að lágmarksgreiðsla væri innt af hendi og samningar gerðir á milli útgerðar og sjómanna sem kveða á um að meðallaun sjómanna í Evrópu sé notaður til grundvallar þess launataxta sem Alþjóðaflutningaverkamannasambandið miðar við. Það er mál sem kannski þyrfti að standa hér frekar en útgerðin geri samninga við sjómenn. Ef útgerð ætlar sér að reyna að greiða lægri laun heldur en Alþjóðaflutningaverkamannasambandið hefur gengið frá þá fær það skip og útgerð þess hvergi frið í höfnum í Evrópu.



[18:55]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég játast undir það að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson þekkir þessi mál enn betur en ég og einmitt það sem hv. þingmaður nefndi, að Alþjóðaflutningaverkamannasambandið hefur kappkostað að reyna að fylgja því eftir að ekki verði brotið á sjómönnum með þessum hætti, að eingöngu séu kjarasamningar á milli útgerðar og starfsmanna í gildi, og þegar ekki væru í gildi kjarasamningar milli stéttarfélaga þá kæmi Alþjóðaflutningaverkamannasambandið að.

Ég vil bara spyrja hv. þingmann: Er nokkur ástæða fyrir því að hafa þetta inni? Eigum við að bjóða svona deilumáli heim með því að hafa það inni að útgerðirnar geti samið beint? Er það ekki bara lögbrot í sjálfu sér? Er það ekki brot á lögum Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins að útgerðin geti samið beint við starfsmenn? Við þekkjum húsbóndavald útgerðanna. Það er ekki sterk réttarstaða sem sjómaður hefur ef hann hefur hvorki stéttarfélag né önnur samtök á bak við sig varðandi ráðningarsamning. Þá er náttúrlega hægt að láta hann hlíta afarkostum. Hann hefur ekki tök á að mótmæla því þá verður hann bara sviptur starfinu.



[18:57]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að skýra þetta mál þá er það svo að samtök kaupskipaútgerða í Evrópu gera kjarasamning við Alþjóðaflutningaverkamannasambandið. Þar er lágmarkssamningur í gildi. Einstaka útgerðir og einstaka útgerðarmenn, eins og dæmið er um frá Grundartanga, sem reyna að komast undan þeim samningi og greiða mönnum lág laun og kjörin og jafnvel aðbúnaður um borð í skipum í samræmi við það. Þetta eru skip sem eru á mörkum þess að teljast hæf til siglinga. Enn er nokkuð til af þeim en með hertum reglum og alþjóðasamstarfi Siglingamálastofnunar og IMO þá fækkar þeim.

Varðandi kaup og kjör þessara aðila (ITF) held ég að stéttarfélög og samtök sjómanna séu sátt og þeim er mjög í mun að frumvörpin tvö, sem bæði fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra hafa lagt fram, nái fram að ganga. Auðvitað mun samgöngunefndin fara yfir þessa þætti og boða þessa aðila til sín, bæði fulltrúa sjómanna og útgerðar til að fara yfir og smíða þann texta svo falli að umhverfinu og því sem er að gerast á hinum Norðurlöndunum til að skapa starfskjör fyrir kaupskipaútgerðir undir alþjóðaskrá, íslenskum fána.

Við skulum ekki gleyma því að það er dapurt ástand í eyríkinu Íslandi að ekkert kaupskip skuli vera skráð hér. Þess vegna þurfum við öll að leggja okkur öll fram í þinginu um að koma þessu frumvarpi áfram svo við förum að sjá kaupskip sigla undir íslenskum fána að og frá landinu en auðvitað að uppfylltum kröfum um öryggi sjómanna og launakjör.



[19:00]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að sjálfsagt er að reyna að hraða þessu máli í gegn og þó þannig að það uppfylli öll lög og réttindi og skyldur þannig að allir séu sáttir enda getur það ekki verið kappsmál okkar að koma í gegn lögum sem ekki eru réttlát.

Það er alveg rétt að í umsögnum aðila í samtökum sjómanna og annarra um frumvarpið er hvatt til þess, hvað markmiðin varðar og það höfum við vitað að hefur legið fyrir að samtök sjómanna og annarra hagsmunaaðila hafa alltaf hvatt til þess að gert væri átak til þess að koma kaupskipunum aftur heim, en ég sé hvergi nefnt að þeir vilji gera það á kostnað réttinda sjómanna og það er ábyggilega ekki svo. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við stöndum vörðinn um það. Enda minnist ég þess, og við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, og reyndar fulltrúar bæði samgöngunefndar og frá fjármálaráðuneytinu, vorum saman á fundi með fulltrúum sænskra aðila sem lýstu fyrir okkur kerfi í Svíþjóð þar sem lagt var kapp á að allir væru við sömu kjör um borð í skipunum og væru í sænskum kjarasamningum. Síðan var einhver tegund af endurgreiðsluleið farin til þess að allt væri samkeppnishæft, kaupskipin, útgerðirnar og sjómennirnir.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann kemur hér í ræðustól á eftir, hvort það sé sanngjarnt að vera með áhöfn þar sem einn sjómaður er á einum kjörum og annar á einhverjum öðrum kjörum og þriðji á einhverjum þriðju kjörum (Forseti hringir.) og svo kemur einn sem gerir bara samninginn beint við útgerðina.



[19:02]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom svo sem ekki á óvart að hlusta á hv. þm. Jón Bjarnason hér áðan, fullyrðingar hans voru ein allsherjar sleggjudómafroða satt að segja, lítt rökstuddar fullyrðingar um neikvæða afstöðu stjórnvalda til siglinga o.s.frv. Það er mjög erfitt að fara ofan í og svara slíkum málflutningi og ég mun þess vegna takmarka mig mjög við það að vekja hins vegar athygli á því varðandi það frumvarp sem hér er til umfjöllunar að það er leitast við að sníða það að þeim reglum sem eru í nágrannalöndum okkar, bæði hvað varðar hluti sem koma fram í 11. gr. og öðrum greinum, í þeim tilgangi að við náum því að hafa reglurnar sem íslenskastar, að sjálfsögðu, en jafnframt að við höfum þær ekki með þeim hætti að hér verði ekkert skip skráð. Við þurfum að tryggja að við notum svipaða aðferðafræði og nágrannalöndin hafa haft og leggja ríka áherslu á að eftirlitið sé gott, umbúnaður og öryggismál séu í góðu lagi og það sé farið í einu og öllu eftir alþjóðlegum reglum sem við erum aðilar að.

Ef við ætlum hins vegar að búa til löggjöf um þessa íslensku alþjóðlegu skipaskrá sem stangast að verulegu leyti á við það sem er hjá öðrum þjóðum í nágrenninu þá er kannski ekki líklegt að mikið verði úr þessu. Þess vegna þurfum við að gæta okkar á því að umturna þessu frumvarpi ekki (Forseti hringir.) í hv. samgöngunefnd með þeim hætti að það verði óframkvæmanlegt að vinna þetta.



[19:04]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ráðherra hefur ekki hlustað á þegar ég var að hæla ráðherranum fyrir að koma fram með frumvarpið. Við erum búin að bíða eftir frumvarpi í þessa veru allt þetta kjörtímabil eins og hæstv. ráðherra veit og málið hefur ítrekað verið tekið hér upp á Alþingi og spurt hvar það stæði og alltaf verið fátt um svör. Það hefur ítrekað verið flutt þingsályktunartillaga um strandsiglingar og þá hefur líka verið fátt um svör. Þess vegna er það fagnaðarefni, eins og ég sagði í ræðu minni, að þetta frumvarp skuli komið fram og ég hef meira að segja verið að hæla ráðherra fyrir það og mun gera það og sérstaklega ef þessu frumvarpi verður nú breytt eða sniðnir af því þeir agnúar sem mér sýnist að þurfi að gera.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Eru það ekki mistök að hafa sett þetta inn í textann að útgerðin geti samið beint við starfsmenn? Það kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að það er þá Alþjóðaflutningaverkamannasambandið sem gerir líka samninga en er ekki hlynnt því að þetta sé með þeim hætti að gerðir séu einhliða samningar á milli útgerðar og einstaklings.

Eins varpa ég því fram hvernig það hafi verið með sænsku leiðina sem var nefnd hér eða írsku leiðina. Ég man eftir að við áttum fund saman, fulltrúar samgönguráðuneytisins, fulltrúar fjármálaráðuneytisins og samgöngunefnd um möguleika á að taka upp eins konar alþjóðlega skipaskrá þar sem leið Svía var notuð, en það kemur fram að þeir hafi náð mjög góðum árangri, þar var einmitt lögð áhersla á að sjómennirnir væru undir einum kjarasamningi og nytu réttinda sem slíkir, en hins vegar var endurgreiðsluform eða einhverjar aðrar leiðir til þess að tryggja samkeppnisstöðu útgerðarinnar. (Forseti hringir.) Ég tel að samgöngunefndin muni skoða þessi mál í heild sinni, frú forseti.



[19:07]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mig rak bara alveg í rogastans þegar ég sá þetta frumvarp og gladdist mjög því að hér er loksins að koma í ljós frumvarp um málefni sem staðið hefur um áralöng barátta bæði samtaka sjómanna og eins þingmanna Samfylkingarinnar og reyndar fleiri hér í þingsal Alþingis og í samgöngunefnd.

Alþjóðleg skipaskrá var lengst af ekki hluti af mínum hversdagsveruleika, frú forseti, en strax og ég tók sæti í samgöngunefnd fyrir tveim árum fór þetta mál að skjóta upp kollinum og í hvert sinn sem sjómenn eða talsmenn sjómanna komu á fund nefndarinnar bar þetta mál á góma, því eins og komið hefur fram í máli manna er þetta ákaflega mikilvægt málefni fyrir okkur. Það er dapurlegt að málum skuli hafa verið komið þannig að ekkert eða hugsanlega eitt skip hafi verið skráð undir íslenskum fána, öll skip skuli vera komin í skráningu hjá nágrannalöndum okkar sem hafa fyrir mörgum árum gengið í það verk sem loksins er verið að ganga í hér. Og það er svo seint á starfsdögum þingsins að ég efast um að það geti náð fram að ganga, því miður, virðulegi forseti, því að ég get ekki séð að það sé tími til að senda þetta mál út til umsagnar. Hugsanlega vinnst tími til að fá menn á fund nefndarinnar með umsagnir en þetta er auðvitað allt of seint á ferðinni eins og reyndar ýmislegt fleira sem kemur frá ríkisstjórninni þessa dagana.

Í máli gesta sem komið hafa á fund samgöngunefndar hafa komið fram ýmsir vankantar sem fylgja því að skip eru ekki skráð á Íslandi, skip sem eru í eigu Íslendinga, með íslenskri áhöfn að hluta til í flestum tilfellum og yfirstjórnendur yfirleitt alltaf Íslendingar. Til dæmis greiða viðkomandi að sjálfsögðu ekki skatt til Íslands en fjölskyldurnar eru eftir sem áður hér, börn í skóla o.s.frv., sem þýðir að það þarf að ganga í ýmsar erfiðar samningaviðræður til að koma þeim málum á hreint.

Síðan er það auðvitað hluti af sjálfsmynd þjóðar, ekki satt, að hafa bæði flugvélar og skip undir okkar eigin þjóðfána, þau skip sem Íslendingar eiga, eins og ég sagði áðan, en hafa ekki treyst sér til að skrá hér vegna þess að hér hafa þeim verið boðin svo miklu verri kjör en annars staðar tíðkast.

Það vill svo til, frú forseti, að um síðustu páska var ég stödd á Kúbu ásamt manni mínum og dóttur og við fórum að skoða gamlan kastala sem er við innsiglinguna á Kúbu. (GHall: Morro kastali.) Já, og þar kölluðu hafnarverðirnir á okkur og fóru að sýna okkur aðstöðu sína sem var fróðleg. Þar drógu þeir fram úr pússi sínu íslenskan fána sem hafði aldrei verið notaður vegna þess að þeir flagga fánum viðkomandi þjóðlanda þegar skip siglir inn en það hafði aldrei komið íslenskt skip undir íslenskum fána skráð á Íslandi í höfn á Kúbu. Ég sagði við mennina að ég vonaðist til að það gerðist fyrr en síðar, áttaði mig svo á því þegar við höfðum kvaðst — og hefði nú örugglega ekki sagt þeim frá því þótt ég hefði áttað mig á því nógu snemma, því að mér fannst það nú og finnst skammarlegt, að við þurfum að skrá skipin okkar annars staðar, að það var ekki til að tjalda neinum skipum sem sigldu undir íslenskum fána þannig að það var ekki von að þau hefðu komið í höfn á Kúbu.

Nú hillir undir það, frú forseti, að íslensk skip geti siglt undir íslenskum fána og það finnst mér virkilega ánægjulegt því eins og ég sagði áðan fylgja því ýmsir vankantar að hafa skipin ekki skráð hér. Ég gleymdi að telja upp eitt sem er mjög ofarlega í hugum þeirra sjómanna sem hafa komið á fund samgöngunefndar en það eru einmitt menntunarmál sjómanna. Þeir telja að með því að hér væru ekki skráð skip væri mjög líklegt að menntunarmálum sjómanna mundi hraka. Það væri ekki eins mikil hvatning fyrir sjómenn að mennta sig til starfa á íslenskum farskipum ef þau gætu ekki verið skráð hér og starfsmenn þar með heimilisfesti á Íslandi.

Þetta er fagnaðarefni og aðeins vont að þetta skuli ekki hafa komið fyrr fram þannig að við hefðum getað unnið að málinu vel og vandlega, en ég á frekar erfitt með að sjá að það sé hægt úr þessu, frú forseti, en vona þó hið besta.



[19:13]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hæstv. samgönguráðherra kom að áðan að hér er um mikilvæga löggjöf að ræða í ljósi þess að engin íslensk skip eru á íslenskri skipaskrá og færri sækja um að mennta sig í Stýrimannaskólanum og Vélskólanum, þ.e. þeir sem síðan ætla að leggja það starf fyrir sig að stunda farmennsku.

Það eru mikið breyttir tímar frá því sem áður var þegar jafnvel voru allt upp undir 60 kaupskip skráð á íslenskri skipaskrá en margt hefur gerst síðan. Það er nauðsynlegt að rifja aðeins upp hvers konar aðferðir voru notaðar á árum áður þegar rými í skipum var nýtt nánast 100% og allt var híft um borð í stroffum og í land með sama hætti. Síðan varð þróunin mjög hröð og það er líklega komið á þriðja áratug síðan gámaflutningar hófu innreið sína í landið og urðu alls ráðandi, jafnvel þótt menn hefðu ekki mikla trú á þeim. Það þýddi að flutningahraði skipanna varð miklu meiri, viðdvöl í höfn varð miklu styttri, losun og lestun varð fljótari, og þá fóru menn líka að horfa til þess hvernig þjóðfélagið var samsett og hvernig flutningarnir voru. Þeir gátu verið miklir á einum árstíma og minni á öðrum og jafnvel gat það varað í tvö, þrjú ár að flutningar voru litlir en síðan jukust þeir og tóku þá jafnvel mið af kaupgetu almennings. Kaupskipaútgerðir áttu í nokkrum erfiðleikum með að bregðast við þessu. Þá var orðið mjög algengt erlendis að aðilar sem stunduðu kaupskipaútgerð og voru okkur fremri voru farnir að taka upp svokallaða þurrleiguskráningu, þ.e. félög sem áttu mikið af kaupskipum leigðu þau út bæði í svokallaðri þurrleigu og tímaleigu og þar er munurinn sá að í þurrleigu var skipið leigt án áhafnar en í tímaleigu með áhöfn. Það gerðist í vaxandi mæli að þessi skip voru leigð til Íslands og þá fór íslenski kaupskipastóllinn að breytast mjög og ekkert óeðlilegt við það.

Á Norðurlöndunum brugðust menn þannig við vegna fækkunar í kaupskipaflotanum að þeir lækkuðu skatta og skyldur á útgerð. Það var vegna hinnar miklu samkeppni margra aðila sem áttu kaupskip og leigðu þau jafnvel í tímaleigu og voru með fólk frá þriðja heiminum um borð og borguðu miklu lakari laun en almennt gerðist og voru þar af leiðandi í miklu betri samkeppnisstöðu en t.d. íslenskar útgerðir og eins var þetta annars staðar á Norðurlöndunum. Þau þróuðu þó fljótlega skipaskrá sína í þá veru sem við erum að ræða um hér og það leiddi til þess að við fækkun í kaupskipastól í Noregi, Svíþjóð og Danmörku brugðust löndin þannig við að þau gátu eflt skipastól sinn. Þá fór að bera á því að skipin urðu verr úr garði gerð, aðbúnaður áhafnar lélegur og kaup og kjör manna mjög léleg. Um það leyti og nokkru áður hafði starfsemi Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins, sem fylgdist mjög náið með aðbúnaði, launum og kjörum þessa fólks, eflst og fór svo að sambandið gerði kjarasamning við samtök kaupskipaútgerða í Evrópu um lágmarkslaun. Það var mikið gæfuspor og tók þetta þá nokkrum breytingum en það merkilega er kannski að þróunin varðandi eftirlit með þessum skipum af hálfu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og siglingastofnana annarra þjóða varð ekki öflugt fyrr en fyrir u.þ.b. tveimur áratugum síðan. Nú hafa þessar siglingastofnanir annarra Evrópuþjóða tekið upp samstarf þannig að nú er gerð sérstök skoðun um borð í 25% allra þeirra erlendu skipa sem koma í íslenskar hafnir, bæði á aðbúnaði og öryggismálum, þannig að eftirlit er orðið miklu hertara með erlendum skipum nú en áður var.

Það sem hefur gerst líka varðandi þessa eflingu skipaskrár á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu — t.d. er athyglisvert hve skipum hefur fjölgað á Írlandi vegna þess skattalega umhverfis sem þar er — er að störfum í landi hefur fjölgað vegna kaupskipaútgerða. Menn hafa sagt að það láti nærri eða það sé þumalputtaregla að fyrir nær hvert eitt starf á sjó skapist annað starf í landi og það er auðvitað mjög athyglisvert.

Ég tel að þetta frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá sé mjög þarft og brýnt að það komi fram nú í ljósi þess að í mörg ár voru stéttarfélögin ósammála um hvaða aðferð skyldi nota til að efla íslenska alþjóðlega skipaskrá. Mönnum sýndist sitt hvað um það en árið 2004 barst samgöngunefnd bréf frá þessum aðilum þar sem þeir óskuðu eftir þessu í ljósi þess að þeir væru nú á einu máli um hvernig standa skyldi að málinu og væru tilbúnir til þess samstarfs sem hér hefur séð dagsins ljós.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé hið besta mál og vona að samgöngunefnd gangi vel til verka varðandi þetta frumvarp, kalli aðila á sinn fund, bæði frá kaupskipaútgerð og sjómannasamtökum, og sjái hvort ekki sé möguleiki á því að fylgja þessu verki áfram þannig að frumvarpið megi verða að lögum áður en þingi lýkur.

Virðulegi forseti. Ég vildi að lokum geta þess út af orðum hv. þingmanns sem talaði áðan, Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, sem hafði farið til Kúbu með fjölskyldu sinni og komið í þann kastala sem ég kallaði fram í og rifjaði upp fyrir hana að heitir Morro Castle. Hún talaði um að ekkert íslenskt skip hefði komið til Kúbu og það væri dapurt. Ég vil hins vegar upplýsa þingmanninn um það að ég var háseti á íslensku kaupskipi sem kom til Havana á Kúbu 1959 og 1960 og upplifði þann darraðardans þegar Kastró tók völdin af Batista, þannig að víða hafa íslensk kaupskip komið við þó að þeir sem í nútíðinni lifa muni ekki fortíðina og eru kannski með fullyrðingar sem eiga ekki alltaf við rök að styðjast. Þessar stundir mínar á Kúbu eru ógleymanlegar en það er önnur saga.



[19:21]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek afdráttarlaust undir þau orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um hversu brýnt er að við getum komið á viðunandi kerfi þannig að kaupskipin sjái sér hag í að eiga heimili á Íslandi og að íslenskt kaupskip sigli á ný undir íslenskum fána þó að þau hafi hrakist burt eða talið sér betur borgið annars staðar. Ég minni á, eins og stendur í umsögn sem ég vitnaði í áðan, að í öðrum löndum, t.d. Noregi, Danmörku og Svíþjóð, eru siglingar blómstrandi útflutningsatvinnuvegur og eru í tveimur þeirra í öðru og þriðja sæti hvað varðar gjaldeyristekjur. Það eru því gríðarlegir hagsmunir sem þarna eru í húfi.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé tilvinnandi að setja þannig lagagrunn hér á landi að sjómenn sem starfa á þessum skipum séu bæði með laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum og njóti réttinda sem íslenskir kjarasamningar veita, lífeyrissjóðsréttindi og önnur veikinda- og starfsmannaréttindi sem hefur verið baráttumál á undanförnum áratugum og eru í rauninni grunnur íslensks velferðarkerfis, kjarabarátta sem hefur skilað sér í launajafnrétti og launakjörum, en að fundin verði einhver önnur leið til að greiða fyrir þessu, einhver jöfnunarleið, einhver niðurgreiðsluleið eins og bent er hér á. Til dæmis er bent á það í umsögn Vélstjórafélagsins að niðurgreiða síðan laun sjómanna til útgerðarinnar þannig að hún verði samkeppnishæf en að sjómennirnir sem slíkir njóti réttindanna og kjaranna



[19:23]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þannig með þau skip sem gerð eru út frá Færeyjum af hálfu íslenskra kaupskipaútgerða, Samskips, Kaupskips og Olíudreifingar, að það er nokkuð mismunandi hvernig þar hefur verið staðið að málum en ég veit að hjá Samskip og Eimskip eru þau skip sem eru í reglubundnum siglingum til og frá Íslandi jafnvel undir fleiri þjóðfánum en einum, Panama og fleiri, og ekki öll skráð í Færeyjum sem slík heldur er áhafnaskráningin þar. Sjómenn eru á íslenskum kjörum, njóta trygginga og greiða í lífeyrissjóði hér. Það eina sem stendur út undan hjá annarri útgerðinni eru sérstakar greiðslur til Tryggingastofnunar vegna feðraorlofs.

Ég óttast það ekki, virðulegi forseti, og deili ekki þeim áhyggjum með hv. þingmanni því að með þessari alþjóðaskipaskrá munum við væntanlega ná því að íslensk farmannastétt deyr ekki út. Hún er mjög eftirsótt vegna þekkingar og reynslu sem þarf að hafa hvað góða sjómennsku áhrærir. Og vegna vályndra veðra, sjólags og vinda sem eru hér í Norður-Atlantshafinu er mjög mikilvægt að sjómenn hafi kunnáttu, þekkingu og getu til að sjóbúa farm svo tjón á farmi verði sem minnst. Það hefur sýnt sig, því miður, að þegar skip hafa verið tekin á tímaleigu með erlendum sjómönnum að þar hefur oft orðið miklu meira tjón en á skipum sem eru mönnuð íslenskum farmönnum.



[19:25]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning ætla ég ekki fyrir fram að væna skipafélög sem koma til með að skrá skip sín hér á landi um að fara ekki eftir bestu kjarasamningum og skaffa sjómönnum sínum bestu kjör. Það væri engan veginn sanngjarnt að segja slíkt fyrir fram. Ég vona og trúi að skipafélög hafi þann metnað að þau búi starfsmönnum sínum sem best kjör, enda er það ljóst að starfsmenn sem búa við atvinnuöryggi og við góð kjör eru líka þeir starfsmenn sem skila bestum afköstum í starfi og hægt er að treysta þegar á reynir, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom inn á.

Mér finnst bara tónninn í frumvarpinu um samkeppnisstöðuna snúa of mikið að kjörum sjómanna, að þau séu akkillesarhællinn í samkeppnisstöðunni. Ég kann ekki við hann, mér finnst hann bera þann keim. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða afslætti á sköttum á sjómönnum og útgerðum til íslenska ríkisins. Margfeldisáhrifin af því að kaupskipin séu skráð hér eru svo gríðarlega mikil þó að útgerðirnar fái að njóta skattaívilnana og gjaldaívilnana þannig að þær verði samkeppnishæfar og það verði tryggt að sjómennirnir búi við bestu starfskjör, réttindi og öryggi. Mér finnst það eiga að vera í fyrirrúmi í svona lagasetningu en ekki hvernig veikja megi réttarstöðu þeirra og þenja hana til ystu randa, frú forseti.