133. löggjafarþing — 86. fundur
 12. mars 2007.
bókhald fyrirtækja í erlendri mynt.

[15:05]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í lögum frá árinu 2006 hafa fyrirtæki haft heimild til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli. Frá því að þetta var samþykkt hafa fjölmörg fyrirtæki nýtt sér þetta, þar á meðal einn banki, Straumur-Burðarás, sem sótti um 31. október 2006 og fékk leyfi 5. desember 2006 fyrir því að færa bókhald sitt í erlendri mynt. En þá brá svo við að maður úti í bæ sem er fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, núverandi seðlabankastjóri, rumskaði og kom í fréttir og sagði m.a. að það hefði aldrei verið ætlun löggjafans að þetta mundi gilda um banka og bankastarfsemi á Íslandi. Það er auðvitað ekki rétt vegna þess að það var aldrei talað um það og er hvergi hægt að finna það í neinum gögnum.

Davíð Oddsson kom svo fram 11. febrúar þegar það fréttist að Straumur-Burðarás hygðist jafnvel ganga enn lengra, skrá hlutafé sitt í evrum og andmælti túlkun seðlabankastjórans með hálfgerðum dulbúnum hótunum. Þá urðu skyndileg sinnaskipti hjá hæstv. ríkisstjórn, og þremur dögum seinna gaf fjármálaráðherra út reglugerð sem takmarkar þetta mjög og setur uppgjörið í töluvert mikið uppnám. Þess vegna langar mig í byrjun, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þetta. Ég var í Þjóðleikhúsinu eins og hann þegar hann tók við skýrslu um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi þar sem m.a. var fjallað svo um markmið og verkefni, með leyfi forseta:

„Nefndin hafði það verkefni að skoða lög og reglur um fjármálastarfsemi, fjármagnsmarkað, skattheimtu og félagaumsvif út frá því sjónarmiði hvort gera þurfi umbætur á löggjöf til að ýta undir alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi …“.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þetta er frá nefnd sem fyrrverandi forsætisráðherra skipaði og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort þessar tæknilegu hindranir sem ríkisstjórnin er að setja upp séu liður og markmið í því að koma hér á alþjóðlegri fjármálastarfsemi og hvernig þetta harmóneri saman við það verkefni.



[15:07]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég átti von á því að í þessum fyrirspurnatíma eins og tveimur hinum síðustu mundu þingmenn Samfylkingarinnar beina til mín spurningum um kjaramál kennara. Það vill nefnilega þannig til að nú hafa grunnskólakennarar og launanefnd sveitarfélaganna náð samkomulagi og ég átti von á því að þingmenn Samfylkingarinnar kæmu hér til að fagna slíku samkomulagi eins og þeir hafa mjög borið það mál fyrir brjósti.

Nei, Samfylkingin er sjálfri sér lík. Hún kemur ekki með slíka spurningu en ég vil nota tækifærið og lýsa ánægju minni með það samkomulag sem náðst hefur fyrir milligöngu ríkissáttasemjara um þetta atriði.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns er því til að svara að sú reglugerð sem fjármálaráðherrann gaf út var auðvitað til fyllingar á lögunum og um þetta mál hafði ekki áður verið gefin út nein reglugerð. Ég er sá ráðherra sem flutti þetta frumvarp á sínum tíma, þekki sæmilega vel til þessara mála og þess vegna er mér kunnugt um það að sú reglugerð sem út var gefin er í fullu samræmi við þessi lög og ekkert upp á það að klaga. Það sem málið snýst um er að skilgreina svokallaðan starfrækslugjaldmiðil þeirra fyrirtækja sem hafa kosið að nýta sér þann möguleika í lögum að gera upp í erlendri mynt. Það eru sem betur fer mjög mörg fyrirtæki sem hafa séð sér hag í því, reyndar flest hver í bandaríkjadollurum en allnokkur í evrum.

Reglugerð fjármálaráðherra gengur ekki út á neitt annað en að kveða skýrt á um það að starfrækslugjaldmiðillinn svokallaði skuli vera sá gjaldmiðill sem stærstur er og raunverulega er sá gjaldmiðill sem viðkomandi fyrirtæki notar en að viðkomandi fyrirtæki geti ekki valið sér einhvern gjaldmiðil úr einhverjum gjaldmiðlavendi eftir hentugleikum. Um það snýst þetta mál. Það er ekkert við reglugerð fjármálaráðuneytisins að athuga. Spurning þingmannsins, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, var út í hött.



[15:09]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. forsætisráðherra var alveg út í hött. Ég fagna því að sjálfsögðu að nú skuli vera búið að semja við kennara og ætli það hafi ekki verið m.a. fyrir tilstilli þingmanna Samfylkingar hér á Alþingi þar sem þeir tóku upp þetta mál. Ekki má heldur gleyma framgöngu bæjarstjórans í Hafnarfirði, Lúðvíks Geirssonar, til að liðka fyrir málinu. Þá var ýtt við stjórnvöldum og málið klárað.

Virðulegi forseti. Það er búið að vera ánægjulegt að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um kennaramál. Ég fagna niðurstöðunni sem sagt.

Í þessari skýrslu sem ég vitna til er m.a. talað um helstu veikleika Íslands. Þar kemur fram takmarkað traust fjárfesta á gjaldmiðli landsins. Svo kemur undir liðnum „ógnanir“: Efnahagslegur óstöðugleiki vegna sveiflna í gengi íslensku krónunnar. Það er það, virðulegi forseti, sem ég var að spyrja út í, gagnvart Straumi-Burðarási í þessu tilfelli, og vegna þess sem kom fram á aðalfundi, (Forseti hringir.) að það fyrirtæki hyggist flytja úr landi. Þess vegna spyr ég forsætisráðherra: (Forseti hringir.) Er ríkisstjórnin að setja upp hindranir og reka fjármálafyrirtæki úr landi, eins og Vinstri grænir vildu reyndar?



[15:10]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um það að Straumur-Burðarás eða önnur fjármálafyrirtæki hafi í hyggju að flytjast úr landi. Spurningin sem þingmaðurinn spurði í upphafi og var út í hött var um það hvort þessi reglugerð sem hann hefur gert að umtalsefni gengi þvert gegn tillögum nefndar um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Ég tel þá spurningu út í hött. Það er alls ekki unnið gegn þeim áformum, heldur er þvert á móti á öðrum vettvangi á vegum ríkisstjórnarinnar verið að vinna að því að hrinda slíkum tillögum í framkvæmd.



[15:11]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ákaflega furðulegt við öll svör hæstv. forsætisráðherra við þessari spurningu hvað hann tekur þetta óstinnt upp. Hann segir þetta allt saman út í hött.

Mér finnst reglugerðin og þær tæknilegu hindranir sem er verið að setja hér alveg út í hött. Og það virðist vera starfandi í landinu nokkurs konar yfirforsætisráðherra sem hefur komið fram og tjáð sig um þetta mál, vitnað í afgreiðslu frá Alþingi sem er ekki rétt, komið svo með dulbúnar hótanir og fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin verða við óbeinum fyrirmælum nokkrum dögum seinna. Og það hefur m.a. í för með sér að á aðalfundi Straums-Burðaráss talaði forstjórinn um að ef þetta gengi eftir gæti fyrirtækið ekki annað en flutt starfsemi sína úr landi. Þess vegna er alveg út í hött hvernig hæstv. forsætisráðherra bregst við þessu, en það er greinilegt að það kemur við kaunin á honum.

Spurningin er sem sagt þessi: Eigum við Íslendingar að þurfa að búa við það að þegar Davíð Oddsson, hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, hnerrar sé það dæmi um að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn með kvef?



[15:12]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Þetta mál kemur ekki sérstaklega við nein kaun hjá mér. Það er allt í góðu lagi með þessa reglugerð og hún mun ekki standa í vegi fyrir því að unnið verði að því að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Það er hins vegar athyglisvert með hvaða hætti Samfylkingin tekur hér upp málefni fjármálastofnana og ýmissa fjársterkra aðila í þjóðfélaginu. Það boðar gott upp á samstarfið í kaffibandalaginu í framtíðinni, er það ekki?