133. löggjafarþing — 86. fundur
 12. mars 2007.
atvinnu- og byggðamál á Vestfjörðum.

[15:13]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Á fundi á Ísafirði í gær var samþykkt svofelld ályktun, með leyfi forseta:

„Opinn borgarafundur, haldinn í Hömrum á Ísafirði sunnudaginn 11. mars 2007, skorar á fulltrúa Vestfirðinga á Alþingi og í sveitarstjórnum, hvar í flokki sem þeir standa, að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum hér á Vestfjörðum. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld standi við margítrekuð loforð og stefnumótun um uppbyggingu Ísafjarðar sem eins af þremur byggðakjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Enn fremur að þessu svæði verði settar sanngjarnar leikreglur með ákvörðunum um nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum, tilfærslu opinberra starfa og eðlilegt aðgengi að fjármagni. Mikið vantar á að þetta landsvæði njóti jafnræðis á við aðra landshluta varðandi samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi. Beinir fundurinn því til frambjóðenda stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi að mæta til kosningabaráttunnar nú í vor með haldbærar tillögur um framtíð byggðar á Vestfjörðum. Við köllum eftir samstöðu þings og þjóðar gagnvart þeim vanda sem Vestfirðingar standa nú frammi fyrir.“

Því miður er þetta ekki fyrsti fundurinn sem haldinn er vegna þess að ástand á Vestfjörðum sé með þeim hætti að þar fækkar fólki og atvinna minnkar. Þess vegna vil ég minna á það að við stöndum núna frammi fyrir meira en 20% fólksfækkun á Vestfjörðum frá 1995. Ég legg þess vegna þá spurningu fyrir hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé tilbúinn til að leggjast á árarnar með fólkinu á Vestfjörðum, með þingmönnum kjördæmisins, m.a. í sérstöku átaki til að efla atvinnulíf, menntun og samgöngur á Vestfjörðum. Að því viljum við gjarnan vinna og ég vildi gjarnan heyra álit forsætisráðherra á þessari ályktun og því hvernig þingmannahópnum yrði tekið ef hann næði saman um ákveðna tillögu til forsætisráðherrans.



[15:15]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég er með þessa ályktun hér í höndunum eins og hv. þingmaður og vil segja fyrir mitt leyti að mér finnst hún málefnaleg og innlegg í þann vanda sem við er að fást á Vestfjörðum. Hið beina tilefni ályktunarinnar og fundarins er væntanlega það að tiltekið einkafyrirtæki, Marel, hefur tilkynnt ráðstafanir til hins verra á sínum vegum fyrir vestan. Ber vissulega að harma það. Ég get fullvissað hv. þingmann og þingheim allan um að það er fullur vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara yfir þessi mál með þeim hætti að árangri geti skilað fyrir Vestfirði og munum við ræða sérstaklega í ríkisstjórninni á morgun hvernig best verður að því staðið.



[15:16]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir að þetta vandamál verði sérstaklega tekið til umræðu í ríkisstjórninni. En ég spyr aftur og einnig hvort forsætisráðherra sé tilbúinn til þess að ræða við þann hluta af þingmannahópi Vestfjarða sem yrði kjörinn til þess að ræða við ríkisstjórnina um ákveðna stefnumótun og ákveðnar tillögur ef þingmannahópurinn næði saman um slíkt.

Ég geri mér vel grein fyrir því að í aðdraganda kosninga er þetta ekki auðvelt viðfangsefni fyrir okkur í stjórnmálaflokkunum, hvar í flokki sem við stöndum. Ég tel hins vegar að það sé tilraunarinnar virði að reyna að ná saman með ríkisstjórninni í aðgerðum vegna þess að á Vestfjörðum er ástandið ekki viðunandi, hefur reyndar lengi verið óviðunandi að mörgu leyti. Það er alveg nauðsynlegt að bregðast við því með markvissum og skipulögðum aðgerðum.



[15:17]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Ég vil aðeins bæta því við, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin er að sjálfsögðu tilbúin til samstarfs við þingmenn kjördæmisins um það sem mætti verða til lausnar í þessu máli. Ég bendi á að þrír þingmenn kjördæmisins sitja í ríkisstjórninni þannig að það eiga að vera hæg heimatökin. (Gripið fram í.)

Ég tel að það sem hv. þingmaður leggur inn í þessa umræðu sé jákvætt. Ég fagna því að þetta er ekki gert með stóryrðum eins og oft er. Við munum sannarlega fara vel og vandlega yfir það með hvaða hætti best verður að þessu staðið. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það frumkvæði að taka þetta hér upp.