133. löggjafarþing — 92. fundur
 16. mars 2007.
athugasemdir um störf þingsins.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Í gær urðu þau tíðindi að alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í erlendri og innlendri mynt úr AA- og AAA í A+ og AA+. Lækkunin nemur sem sagt einu stigi og eru horfur sagðar stöðugar. Sömuleiðis er matið á skammtímaskuldbindingum lækkað og sjálf landseinkunnin er lækkuð um einn flokk.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem alþjóðleg matsfyrirtæki lækka lánshæfiseinkunn Íslands. Í greinargerð Fitch Ratings segir að þeir taki mið af nýjustu gögnum um greiðslujöfnuð og hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins sem bendi til þess að staða Íslands gagnvart útlöndum hafi versnað verulega, og hér er væntanlega vísað til stórfelldrar aukningar erlendra skulda og hreinna erlendra skulda. Stórauknar vaxtagreiðslur til útlanda eigi nú sinn þátt í því að viðskiptahalli mælist meiri en ella. Enn fremur segir að íslenska hagkerfið sé að þeirra mati illa undirbúið undir aukna áhættufælni á alþjóðamörkuðum og hærra vaxtastig erlendis. Fitch telur auknar líkur á harðri lendingu í umhverfi þar sem aðlögunarbyrði þanins efnahagslífs hvílir að mestu á peningastefnu Seðlabankans sem skili sér í hærri vöxtum.

Ekki verður nú sagt, virðulegur forseti, að lesningin sé mjög falleg. Það alvarlega er kannski ekki lækkunin sjálf heldur veruleikinn sem á bak við hana liggur, þær bláköldu staðreyndir sem matsfyrirtækin vísa í. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Telur hæstv. ráðherra enn að allt sé í himnalagi og engin ástæða til að hafa áhyggjur af neinu eins og ætla hefur mátt af málflutningi þeirra undanfarið, ráðherranna? Eða er það kannski þannig að þessi lækkun á lánshæfismati Íslands sé stjórnarandstöðunni að kenna eins og flest sem ríkisstjórnin er að klúðra þessa dagana?



[20:35]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þrjú fyrirtæki meta lánshæfi íslenska ríkissjóðsins. Tvö þeirra hafa nýverið lækkað okkar einkunn sem þó er enn þá mjög góð miðað við mörg önnur ríki. Þriðja fyrirtækið, sem þekkir nú best til hér á landi og er með starfsfólk í sinni þjónustu sem hefur fylgst með íslenskum málum afar lengi, metur Ísland í hæsta gæðaflokki, þ.e. í AAA-flokknum. En auðvitað er það ekkert gamanmál þegar einkunn lækkar eins og gerðist í gær og það ber að taka alvarlega. Viðbrögð markaðarins í dag og síðdegis í gær eru hins vegar með þeim hætti að það er ekki að sjá að þar hafi orðið veruleg eða varanleg viðbrögð við þessari lækkun og það er ánægjulegt.

Hins vegar er rétt að hafa í huga að matsfyrirtækið Fitch er formlega að meta lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Í því felst að sjálfsögðu mat á því hvort ríkissjóður er líklegur til að standa í skilum með skuldir sínar. Auðvitað er hann mjög líklegur til þess því að hann er orðinn nánast skuldlaus og ekki líklegur til að þurfa að taka lán í útlöndum og nýta sér lánshæfismatið. Það sem matsfyrirtækið gerir hins vegar er að leggja mat á þjóðarbúið í heild og byggir mat sitt á því að skuldastaða Íslands við umheiminn er há, ekki vegna þess að ríkissjóður hafi verið að taka lán í útlöndum heldur vegna þess að einkaaðilarnir, sérstaklega fjármálastofnanirnar, hafa tekið mikið af lánum erlendis. Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á þeim lántökum að öðru leyti en því að fyrir rúmlega tíu árum var heimilað að flytja fjármagn hömlulaust á milli Íslands og annarra landa.

Málið er það að matið er gott. Við viljum hins vegar gjarnan að það hækki aftur en forsendurnar fyrir þessu mati eru að mörgu leyti undarlegar að mínum dómi og eiga ekki fyllilega við rök að styðjast.



[20:38]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það eru tíðindi sem við hljótum að þurfa að taka alvarlega þegar við heyrum að alþjóðleg matsfyrirtæki lækki lánshæfismat á ríkissjóði Íslands. Það eru alvarleg tíðindi þegar staða Íslands gagnvart útlöndum versnar verulega.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að ríkið bæri ekki ábyrgð á lántökum fjármálastofnana og það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra. En hvað segir Fitch Ratings þegar verið er að fara yfir forsendur fyrir því að lækka lánshæfismatið á ríkissjóði? Jú, það má lesa úr því að meginástæðan fyrir lægra mati nú er mikil aukning á viðskiptahalla, aðallega vegna þess að erlendar vaxtagreiðslur hafa aukist mikið. Viðskiptahallinn nam 27% af landsframleiðslunni árið 2006 samanborið við rúm 16% árið 2005. Það sem Fitch Ratings segir er að ríkissjóður bregst ekki við þeirri miklu þenslu sem er hér á landi. Ríkissjóður stýrir ekki efnahagsmálum á þann hátt sem þarf að gera þegar þensla eins og nú er ríkir á Íslandi.

Hæstv. forsætisráðherra getur ekki sagt að ríkissjóður sé stikkfrí og það sé í raun ekki ríkissjóði að kenna þó að lánshæfismatið á sjóðnum sé lækkað af þessu alþjóðlega matsfyrirtæki. Það er skylda ríkisstjórnar á hverjum tíma að bregðast við því ástandi sem uppi er í efnahagsmálum og það er skylda ríkisstjórnar að bregðast við með þeim hætti að draga úr opinberum útgjöldum á sama tíma og einkageirinn eykur útgjöld sín. Það hefur þessi ríkisstjórn ekki gert og því horfum við nú framan í versnandi lánshæfismat á ríkissjóðnum og þjóðarbúinu í heild og við verðum, ríkissjóður verður að bregðast við en getur ekki látið reka á reiðanum þó að (Forseti hringir.) kosningar séu fram undan.



[20:40]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Aðhald á ríkissjóði hefur verið mjög mikið á undanförnum árum, eitt það mesta sem um getur í þessum heimshluta. Slakað hefur verið á aðhaldinu á þessu ári en vaxtagreiðslur og afborganir erlendra lána sem hafa áhrif á viðskiptahallann núna tengjast ekki því sem er að gerast á þessu ári.

Á ríkissjóður að banna greiðslur á vöxtum og afborgunum? Hvaða afleiðingar hefði það í för með sér? Nei, frú forseti, það sem skiptir máli í þessu samhengi er hvaða áhrif þessi breyting getur haft í för með sér. Hún hefur að sjálfsögðu engin áhrif á ríkissjóð því að ríkissjóður er ekki að taka nein lán og þar af leiðandi skiptir þetta ekki máli fyrir hann en þetta getur haft áhrif á lántökur bankanna vegna þess fjármagns sem þeir síðan lána á innlendum markaði. Það þýðir að vextirnir hækka og það þýðir að það styður við þá stefnu sem Seðlabankinn hefur rekið með því að hafa vexti háa, og það hefur einmitt verið umræðuefni margra hv. þingmanna að vaxtahækkanir Seðlabankans séu ekki að skila sér. Þetta þarf ekki að vera neikvætt. Þarf það að vera neikvætt ef matið hjá Fitch styður við stefnu Seðlabankans? Hins vegar getur það verið neikvætt ef lántökukostnaður bankanna vegna lánveitinga þeirra erlendis hækkar og þá skaðar það samkeppnisstöðu þeirra á þeim mörkuðum. En lánveitingar bankanna á þeim mörkuðum og öryggi þeirra lánveitinga og tryggingarnar á bak við þær lánveitingar hafa nákvæmlega ekkert með efnahagsástandið á Íslandi að gera. Það er auðvitað ýmislegt sem huga þarf að í þessu sambandi en það eru áhrifin sem skipta máli eins og ég fór yfir og þau, frú forseti, eru engin fyrir ríkissjóð.



[20:42]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Tvö af þremur virtustu matsfyrirtækjum heims hafa lækkað lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins og hæstv. forsætisráðherra kemur hér í ræðustól og segir að forsendur þeirra séu undarlegar. Hvað ætli Geir H. Haarde finnist undarlegt? Skyldi það vera sú niðurstaða beggja fyrirtækjanna, sem er sama niðurstaða og stjórnarandstöðunnar hér í umræðum í allan vetur, að það sé skortur á aðhaldi í ríkisfjármálum sem valdi hér miklu um? Að á kosningaári sé aðhaldi í ríkisfjármálum enginn gaumur gefinn og því séu vextir Seðlabankans eina stýritækið?

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því, enda eru stýrivextir Seðlabankans met í þeim löndum sem við berum okkur saman við, og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að heimilin í landinu og fyrirtækin í landinu geti ekki til langframa þolað svo háa stýrivexti og svo mikla vaxtabyrði. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum tíðindum vegna þess að á heimsmarkaðnum fer áhættufælni vaxandi í kjölfar þess að menn telja kínverska markaðinn jafnvel hafa verið ofmetinn. Í framhaldi af fréttum af vanskilum á fasteignalánum á Bandaríkjamarkaði fer áhættufælni vaxandi og það er hætta á því að vextir á heimsmarkaði vaxi og eftir þá óhóflegu skuldsetningu sem við höfum farið í gegnum getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf.

Niðurstaðan sem við okkur blasir er ákaflega skýr, að andvaraleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og aðhaldsleysi í ríkisfjármálum er núna að skila okkur inn á gulu ljósi.



[20:44]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Enginn dregur í efa mikil áhrif matsfyrirtækjanna þriggja, Standard & Poor's, Moody's og Fitch, en það er mjög mikilvægt að beita varúð við ályktanir og túlkanir á því sem frá þeim koma. Þau meta í fyrsta lagi ríkissjóð, í öðru lagi hagkerfið í heild sinni og í þriðja lagi banka og fjármálastofnanir og það hefur margsinnis komið fyrir að þau meta ekki á sama hátt, komast ekki að sams konar niðurstöðum á sama tíma um sama efni og það eru aðgreindir sérfræðingahópar í þessum fyrirtækjum sem vinna þessar matsgerðir og það virðist vera lítið samband þeirra á milli. Af öllum þessum ástæðum er ástæða til að beita varúð við ályktanir og túlkun þess sem frá þeim kemur.

Það mat sem hér er til umræðu snýst um ríkissjóð en í raun og veru má segja að það snúist alveg eins og jafnvel frekar um ytri skilyrði og ytri stöðu hagkerfisins. Þar er ekki gert mikið úr þeirri hjöðnun sem við höfum séð verða hér samkvæmt þjóðhagsáætlun og upplýsingum frá Hagstofu. Það kemur líka í ljós að það áfall sem ýmsir héldu að kæmi af þessu mati varð ekki því að gengi íslensku krónunnar hefur hækkað aftur og sama gerist með úrvalsvísitöluna. Í þessu mati koma fram sérstaklega ábendingar um einkaneyslu og viðskiptahalla en hvort tveggja, samkvæmt gögnum Hagstofu og þjóðhagsáætlunar og þjóðhagsreikninga, sýnist vera á réttri leið um þessar mundir.

Ríkissjóður stendur ákaflega vel og hefur brugðist við og í raun og veru má segja að þarna sé verið að taka undir með ríkisstjórninni og Seðlabankanum um nauðsyn aðhalds og jafnvægis.



[20:46]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það sem skiptir mestu máli í þessari umræðu er hvort við séum borgunarmenn fyrir þessum miklu skuldum og þessari háu erlendu skuldasöfnun. Það er einmitt það sem hæstv. forsætisráðherra lagði áherslu á í ræðu sinni. Síðan koma tveir aðrir ráðherrar og reyna að rugla myndina eins og hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og fara að tala um að ríkissjóður standi vel.

Þjóðarbúið er gríðarlega skuldugt og ég vona að ráðamenn horfist í augu við að það eru alvarleg tíðindi þegar þjóðarbúið skuldar 5.000 milljarða samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og að þessar skuldir hafa aukist um 2.000 milljarða frá árinu 2005. Þetta eru alvarleg tíðindi. Það sem hafa verður í huga í sambandi við þetta er að skammtímaskuldir eru 1.000 milljarðar, sem nema heilli þjóðarframleiðslu, og hættan er einmitt sú að þessi tíðindi skerði vaxtakjör sem Íslendingum bjóðast á alþjóðamarkaði, þannig að þetta mun koma illa við almenning vegna hærri vaxta. Hæstv. fjármálaráðherra fagnar þessu og telur að þetta vinni með ríkisstjórninni en ég er ekki sammála því. Einnig hafa hreinar skuldir þjóðarbúsins aukist gríðarlega og aukist meira en gert var ráð fyrir í spám þessara matsfyrirtækja og þess vegna erum við að fá lægri einkunn (Forseti hringir.) og við eigum að bregðast við þessu með öðrum hætti en útúrsnúningum.



[20:48]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég verð að segja að frekar finnst mér rýr huggunin sem hæstv. forsætisráðherra á sér í þessu máli að eitt af þremur matsfyrirtækjum hafi ekki lækkað matið á Íslandi enn þá.

Enn undarlegri er málflutningur hæstv. fjármálaráðherra um að þetta komi ríkissjóði ekki við, þetta sé allt í lagi af því að ríkissjóður sé ekki virkur lántakandi á markaði. Hefur þeim yfirsést það, hæstv. ráðherrum, að það er talað um að líkurnar hafi aukist verulega á harðri lendingu í hagkerfinu? (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvernig fjármálaráðherrar almennt upplifa sig en það væri undarlegt ef það kæmi ríkissjóði ekki við ef hörð lending yrði í hagkerfinu. Hvað er það? Það er ávísun jafnvel á verulegan samdrátt og ætli það komi þá ekki eitthvað við tekjurnar hjá ríkissjóði? (Gripið fram í.) Hér er náttúrlega ekki fjallað um hlutina með ábyrgum hætti. Auðvitað geta menn gjammað hérna fram í ef þeim finnst þetta grínefni, gamanefni. Veruleikinn er sá að skuldabyrði þjóðarbúsins er að þyngjast alveg gríðarlega. Við erum orðin viðkvæmari og viðkvæmari gagnvart erlendum vöxtum og hvert ár í viðbót sem þjóðarbúið er keyrt áfram í viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun gerir þessa stöðu enn þá brothættari. Það er veruleikinn.

Það er því brýnna en nokkru sinni fyrr að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þar er ríkisstjórnin ekkert að leggja af mörkum. Hún lætur vaða á súðum og reynir að finna sér afsakanir í því að þetta sé allt í góðu lagi. Það var ómögulegt að heyra annað á málflutningi ráðherranna áðan.

Þá er það hvað? Það er sama afskiptaleysisveruleikafirringarstefnan áfram. Það er „Laissez–faire“–stefnan áfram í staðinn fyrir að horfast í augu við það að svona getur þjóðarskútan ekki siglt mörg ár í viðbót. Skuldaaukningin á síðasta ári er auðvitað gríðarleg og hreinar erlendar skuldir vaxa hratt. Með öðrum orðum, það er ekki nálægt því eignamyndun á móti lántökunni (Forseti hringir.) sem bætist við á hverju ári.