133. löggjafarþing — 93. fundur
 17. mars 2007.
námsgögn, 2. umræða.
stjfrv., 511. mál (heildarlög). — Þskj. 772, nál. 1065, brtt. 1066.

[11:43]
Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti menntamálanefndar um frumvarp til laga um námsgögn. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund þá aðila sem tilgreindir eru í nefndarálitinu.

Með frumvarpinu er lagt til að aukið verði framboð og fjölbreytileiki námsgagna og að þau verði í samræmi við þarfir nemenda og skóla. Frumvarpið felur í sér þriggja stoða fyrirkomulag. Í fyrsta lagi mun Námsgagnastofnun starfa áfram með svipuðu fyrirkomulagi og nú er. Í öðru lagi er stofnaður námsgagnasjóður sem lýtur eingöngu að grunnskólum og er ætlað að veita fé til námsgagnakaupa grunnskólanna og þar með auka úrval námsefnis. Í þriðja lagi er komið á fót þróunarsjóði námsgagna en hlutverk hans er einkum að styðja við nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsefnis á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Við umfjöllun nefndarinnar var m.a. rætt um 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lýtur að fjárhagslegum aðskilnaði hjá Námsgagnastofnun vegna sölu á námsgögnum í frjálsri samkeppni við aðra aðila á almennum markaði frá lögbundnu hlutverki stofnunarinnar að leggja grunnskólum til námsgögn. Slíkur áskilnaður er nú þegar í samkeppnislögum og er ákvæðið einnig í samræmi við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, nr. 40/2006. Við fjárhagslegan aðskilnað er mikilvægt að kostnaðargreining fari fram hjá Námsgagnastofnun og er því um reikningslega útfærslu að ræða. Námsgögn verða ekki að samkeppnisvöru fyrr en Námsgagnastofnun tekur ákvörðun um að setja þau á frjálsan markað. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var m.a. tekið fram að viðskipti samkeppniseiningar Námsgagnastofnunar við óskylda aðila, svo sem sala á námsefni útgefnu af stofnuninni til bóksala, verð og viðskiptakjör, skulu vera almenn og gagnsæ. Hvers konar mismunun samkeppniseiningarinnar í verði og viðskiptakjörum er óheimil byggist hún ekki á skýrum, hlutlægum og málefnalegum forsendum. Samkvæmt þessu er gengið út frá því að sérstök eining innan stofnunarinnar sjái um frjálsa markaðinn og í raun sé um óskylda aðila að ræða.

Frú forseti. Nefndin ræddi sérstaklega um 6. gr. frumvarpsins er lýtur að sérstökum námsgagnasjóði, einkum með hliðsjón af því hvort æskilegra væri að í stað sjóðsins fengju sveitarfélögin fjármagn sem þau mundu síðan úthluta grunnskólunum með sama hætti og öðru fjármagni. Sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri skólanna og hafa tekið við verkefnum grunnskóla að undanskilinni útgáfu námsgagna. Sveitarfélögin telja við nánari skoðun að það fyrirkomulag námsgagnasjóðs sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé betra með hliðsjón af áherslum á aukið sjálfstæði skólanna og leiði jafnframt til minni miðstýringar.

Umræða fór fram í nefndinni um gæðamat námsgagna. Aðilum er heimilt á grundvelli 8. gr. frumvarpsins að óska eftir því að menntamálaráðuneytið meti hvort viðkomandi námsgögn séu hæf til notkunar í kennslu ef þeir efast um að námsgögnin uppfylli réttmætar gæðakröfur eða samrýmist markmiðum aðalnámskrár. Þessi heimild á einnig við um þau námsgögn sem hafa verið keypt fyrir það fé sem úthlutað er á grundvelli 6. gr. frumvarpsins um námsgagnasjóð. Menntamálaráðherra setur úthlutunarreglur og er tekið fram í athugasemdum við greinina að úthlutun eigi að einskorðast við kaup á námsgögnum sem uppfylla réttmætar gæðakröfur eða samrýmast markmiðum námskrár. Nefndin telur rétt að benda á í þessu sambandi að í fyrsta lagi er eingöngu um að ræða kaup á námsgögnum en ekki hlutum sem nýtast við kennslu, svo sem myndvörpum og þess háttar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ekki fari fram sérstakt fyrirframmat á gæðum námsgagna heldur er gengið út frá því að námsgögnin uppfylli gæðakröfur við úthlutun. Ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna úr sjóðnum eru því lagðar í hendur skólastjórnendum en aðilar geta beint kvörtun til ráðuneytisins á grundvelli 8. gr. ef þeir telja að gæðakröfur séu ekki uppfylltar. Í því sambandi telur nefndin rétt að árétta að heimildin er ekki takmörkuð við ákveðna aðila heldur geta allir beint kvörtun til ráðuneytisins, m.a. þeir sem eru áhugamenn um skólastarf o.fl.

Frú forseti. Enn fremur var umræða hjá nefndinni um fjárveitingu í námsgagnasjóð og þróunarsjóð námsgagna. Þrátt fyrir að þróunarsjóðurinn fái það hlutverk að veita fé til námsefnisgerðar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi er ekki gert ráð fyrir neinni skerðingu á framlagi til framhaldsskólastigsins frá því sem nú er. En á fundum nefndarinnar komu fram áhyggjur í þá veru að hlutur smærri greina á framhaldsskólastigi gæti orðið rýr úr sameiginlegum sjóði. Nefndin mælist til að sérstaklega verði hugað að þessum greinum sem oftar en ekki tengjast iðn- og verknámi. Í umsögn fjármálaráðuneytisins er 100 millj. kr. aukning á fjárveitingu til námsefnisgerðar sem ráðuneytið áformar að veita til hinna nýju sjóða. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá ráðuneytinu er fyrirhugað að veita þessar 100 millj. kr. í námsgagnasjóð á þessu ári en gert verði ráð fyrir framlagi í þróunarsjóð námsgagna á fjárlögum næsta árs. Á fjárlögum fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir óbreyttu framlagi til námsefnisgerðar á framhaldsskólastigi.

Nefndin leggur til eina breytingu á frumvarpinu að fenginni ábendingu Félags íslenska framhaldsskóla, þess efnis að Félagi íslenskra framhaldsskóla verði heimilt að tilnefna einn aðila í stjórn þróunarsjóðs námsgagna samkvæmt 7. gr. í stað þess að einn stjórnarmaður komi úr hópi skólameistara framhaldsskóla án tilnefningar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita, ásamt mér, hv. þingmenn Dagný Jónsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson, Kjartan Ólafsson, Mörður Árnason, Sæunn Stefánsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Með öðrum orðum má segja að það sé fullt hús í málinu. Nefndarmenn eru allir sammála um að ljúka málinu með þessum hætti með þeirri breytingu sem lögð er til og ég vil að lokum þakka nefndarmönnum í menntamálanefnd kærlega fyrir ánægjulegt og gagnlegt samstarf í tengslum við málið.



[11:50]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að varðandi þetta mál og reyndar ýmis fleiri hefur samstaða og samvinna í menntamálanefnd verið mjög til fyrirmyndar. Flestum stundum hafa verið viðhöfð þau vinnubrögð að leitað hefur verið sátta og reynt að gera mál sem best úr garði og þá er ekki nein hræðsla við að gera breytingar eða vekja athygli á að eitthvað megi betur fara þótt ekki hafi allt verið fullkomið sem til nefndarinnar kom.

Það eru auðvitað eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð að skila málum þannig að þau verða betri en þegar þau voru fyrst framlögð. En þetta er eitt af þeim málum einmitt sem algjör samstaða náðist um í nefndinni og ég mun því ekki halda hér langa ræðu en tel rétt að undirstrika aðeins nokkur atriði.

Það hefur verið þrýstingur á að Námsgagnastofnun héldi ekki alveg jafnsterkri stöðu gagnvart útgáfu námsgagna í grunnskólum og verið hefur. Þess vegna er gert ráð fyrir ákveðnu millistigi og það virðist hafa tekist nokkuð víðtæk sátt um að eðlilegt sé að stíga slíkt skref. Í því felst að Námsgagnastofnun starfi áfram með svipuðu fyrirkomulagi og nú er en alger aðskilnaður sé hafður á námsgögnum sem fari á hinn almenna markað, bæði fjárhagslegur aðskilnaður og tryggt sé að námsgögn séu seld á eðlilegu verði miðað við kostnað og annað þess háttar. Þetta verður náttúrlega vandmeðfarið og eðlilegt að fylgst verði með þessu til að sjá hvernig þetta þróast. Aðilar sem koma að þessu máli hafa sætt sig við þetta fyrirkomulag og telja eðlilegt að breyta fyrirkomulaginu í þessa átt. En það verður auðvitað að fylgjast vel með þannig að engin mistök verði gerð.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur námsgagnasjóður sem snýr eingöngu að grunnskólunum og er ætlaður grunnskólum til að kaupa námsgögn. Þetta er sá háttur sem ég hef nokkrar efasemdir um vegna þess að þarna er verið að útbúa hliðarkerfi við hið hefðbundna kerfi sem er viðhaft varðandi dreifingu fjármagns til sveitarfélaga vegna grunnskólarekstursins. Það er stór hluti af jöfnunarsjóði sem fer til sveitarfélaganna af ýmsum ástæðum, vegna grunnskólans. Þarna eru hins vegar námsgögnin tekin alveg sérstaklega út úr og sett í sérstakan sjóð. Eins og segir í sameiginlegu nefndaráliti okkar þá ræddum við hvort eðlilegt væri að gera þetta eða hvort ekki væri í raun og veru hægt að láta þessa fjármuni bara inn í stóra pottinn og þeim væri þannig dreift til sveitarfélaganna. Þá tækju sveitarfélögin í raun og veru ákvörðun um með hvaða hætti þetta yrði.

Í dag er það misjafnt eftir sveitarfélögum hvernig þetta er, sum sveitarfélög hafa gengið það langt að þau láta skólann í raun og veru hafa frelsi, þá er bara áætlaður ákveðinn kostnaður á skólahaldið og síðan er það skólinn sem tekur ákvörðun um hvernig því fjármagni er skipt á milli liða. Önnur sveitarfélög ganga mun lengra og eyrnamerkja fjármunina í ákveðna þætti. Ef þetta væri inni í stóra pakkanum þá gætu þau auðvitað haldið því áfram. En með þessu er sem sagt séreyrnamerkt fjármagn til námsgagnanna. En sveitarfélögin blessuðu þetta sem sagt og þá er þetta þar af leiðandi á þeirra ábyrgð og því eðlilegt að þau hafi þá ákvörðunartöku og þess vegna höfum við skrifað undir það og við treystum því að þau leysi þetta mál með sóma.

Eins og ég sagði áðan lít ég svo á að þetta sé ákveðið millistig. Við munum væntanlega eftir nokkur ár fá þessi mál aftur hér inn og þá verður komin reynsla á þetta fyrirkomulag og þá verður trúlega hægt að móta þetta, eigum við að segja, betur til framtíðar. Því það er auðvitað erfitt að sjá fyrir alla hluti sem upp geta komið.

Í þriðja lagi felst í þessu frumvarpi að komið verði á fót svokölluðum þróunarsjóði námsgagna og er hlutverk hans að styðja við nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsefnis á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Þannig háttar til að það hefur verið slíkur sjóður fyrir framhaldsskólann vegna námsefnisgerðar en nú er þessu steypt í einn sjóð og hin skólastigin tekin saman. Það verður auðvitað að geta þess að það er aukið fjármagn í þetta sem vonandi verður til þess að ekki verði skerðing á því sem fer til framhaldsskólans því það er full þörf á því að það fjármagn sé frekar aukið en minnkað því eins og við vitum er fjöldi námsgreina í framhaldsskólunum kenndar í afar fámennum áföngum. Það á sérstaklega við í sumu iðn- og verknámi þar sem sumar greinarnar eru jafnvel ekki einu sinni kenndar á hverju ári og liggur ljóst fyrir að það verður mjög seint sem markaðurinn mun leysa þá námsefnisútgáfu.

Þess vegna er mjög brýnt að vel verði utan um það haldið að fjármagn verði ekki skert og frekar aukið því það má alveg eins búast við að meiri flóra verði á þessu sviði í framtíðinni en verið hefur.

Í nefndinni náðist samstaða um að leggja til eina mikilvæga breytingu, að mínu mati, við frumvarpið. Í upphaflega frumvarpinu var af einhverjum ástæðum, sem ég ætla ekki að færa rök fyrir, gert ráð fyrir að menntamálaráðherra tilnefndi í stjórn þróunarsjóðsins án tilnefningar einn úr hópi skólameistara framhaldsskóla. Fyrirkomulagið var þannig að hæstv. menntamálaráðherra átti sjálfur að handvelja þann skólameistara sem ætti að sitja þarna. Aðrir stjórnarmenn, fyrir utan þann stjórnarmann sem menntamálaráðherra tilnefnir sem formann, voru tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambandi Íslands.

En það náðist samstaða um það í nefndinni, sem er rétt að fagna, að Félag íslenskra framhaldsskóla var sett á sama sess í trausti og var einnig treyst fyrir því að tilnefna einn mann í stjórnina. Þar af leiðandi má segja að stjórnarmenn sitji allir við sama borð hvað tilnefningu varðar nema sá sem hæstv. ráðherra tilnefnir sem formann.

Frú forseti. Mér finnst ekki ástæða til þess að orðlengja þetta meira. Eins og fram kom í upphafi þá stendur öll nefndin að þessu nefndaráliti. Það er rétt að ítreka að það er fagnaðarefni þegar svo er haldið um mál í nefndum að slík samstaða náist.



[11:58]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um námsgögn. Ég tók þannig til orða við 1. umr. málsins að ég hefði ákveðnar efasemdir um það. Sjónarmið mín eru fyrst og fremst þau að Námsgagnastofnun, sú stofnun sem hefur verið svelt fjárhagslega árum saman, fái nú loks ákveðna úrlausn sinna mála, þ.e. námsefnisgerðin sjálf fái úrlausn í því rausnarlega aukna framlagi sem hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja í námsgagnagerðina, en þá mega þeir fjármunir ekki fara beint til hinnar sveltu stofnunar, Námsgagnastofnunar, heldur fara þeir í sjóði þaðan sem verður útdeilt með ákveðnum hætti, sem ég í sjálfu sér set mig ekki upp á móti, en mér finnst ákveðin hætta fólgin í þessu og ákveðin yfirlýsing í þessu af hálfu hæstv. menntamálaráðherra að Námsgagnastofnun fær ekki kannski þá umbun eða þá viðurkenningu fyrir biðlundina sem hún þó hefur sýnt, biðlundina eftir því að greitt sé úr og leyst úr þessum málum og námsgögn fái þann sess í fjárlögum íslensku ríkisstjórnarinnar og íslenska ríkisins sem eðlilegt getur talist.

Ég vil segja það hér, virðulegi forseti, að ég vona sannarlega að þessi ráðstöfun verði til góðs og komi til með að þjóna markmiði sínu og Námsgagnastofnun verði ekki að engu á fyrsta degi eftir þessa breytingu. Ég held að það sé afar mikilvægt að við séum á varðbergi gagnvart þeirri tilhneigingu sem er í öllu kerfinu núna til einkavæðingar allra þátta og þetta er auðvitað liður í þeirri breytingu og er tímanna tákn. Efasemdir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru því mjög klárar og ljósar og þær eru á þessum grunni reistar. Ég hef ekki áhyggjur af því sem ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytisins kallaði þegar hann kom fyrir nefndina, þ.e. miðstýrt ráðstjórnarlegt kerfi, sem hefur verið við lýði í námsgagnagerð upp á síðkastið. Námsgagnastofnun hefur boðið út verkefni, hefur átt samstarf við einkaaðila á sviði námsgagnagerðar og hefur keypt námsefni víða að. Það sem hefur hins vegar verið til staðar hjá Námsgagnastofnun er ákveðið gæðamat og gæðaeftirlit sem eðli málsins samkvæmt þeir sem um þessi mál véla og hafa á þeim áhuga hafa áhyggjur af núna í þessum breytingum. Þar á meðal er Kennarasamband Íslands en sambandið segir í umsögn til menntamálanefndar um málið — um leið og það ítrekar sjónarmið sitt að í stjórn Námsgagnastofnunar sé „rétt að sitji einn fulltrúi háskóla sem veitir kennaramenntun, tilnefndur sameiginlega af viðkomandi háskólum“ — hvað varðar gæðamat og gæðaeftirlit að ekki sé ljóst af lestri 6. gr. eða í greinargerðinni um hana hvernig tryggja eigi að við úthlutun fjármuna samkvæmt úthlutunarreglum verði gæði þeirra námsgagna sem keypt verða fyrir hið úthlutaða fé í hávegum höfð og nægilega mikil til þess að sómi verði að. Kennarasambandið vitnar til greinargerðar með frumvarpinu en í greinargerð á bls. 14 stendur, með leyfi forseta:

„Þá er lagt til að menntamálaráðherra setji sjóðnum úthlutunarreglur. Gert er ráð fyrir að í þeim yrði m.a. kveðið á um skilyrði fyrir ráðstöfun fjárveitinga úr sjóðnum, þ.e. að slík ráðstöfun yrði einskorðuð við kaup á námsgögnum sem teljast uppfylla réttmætar gæðakröfur og samrýmast markmiðum aðalnámskrár.“

Þá segir Kennarasambandið í tengslum við þetta að það hljóti að þurfa að verða skýrt á hvern hátt þetta gæðamat fari fram og það fái í raun ekki staðist, ef marka má orðanna hljóðan í 6. gr., að það sé í raun eitthvert mark takandi á því sem stendur í greinargerðinni. Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Kennarasambandið telur brýnt að skýrt verði hvort þetta fái staðist þar sem ætla má að fyrst verði úthlutað fé og síðan keypt fyrir það efni eða með öðrum orðum hvort og hvernig umræddu gæðamati eða eftirliti verði komið fyrir á þessu stigi málsins.“

Ég vil geta þess að við spurðum um þetta í viðræðum við ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins og hann viðurkenndi að ákveðin mistök hefðu orðið við prentun greinargerðarinnar þar sem á ákveðnu stigi við samningu frumvarpsins hefði hugmyndin verið sú að fara þá leið sem segir eða má skilja í greinargerð um 6. gr. en í raun og veru hafi lendingin á endanum orðið önnur. Ráðuneytisstjórinn viðurkennir því að greinargerðin sé ekki í samræmi við 6. gr. heldur endurspegli hún einhvern ákveðinn fasa í umræðu nefndarinnar en hafi ekki verið í samræmi við endanlegar niðurstöður hennar. Endanleg niðurstaða er í rauninni það sem speglast í 6. gr., nefnilega það að gæðamatið fari fram eftir á. Það er sjónarmið ráðherrans og ráðuneytisins að gæðaeftirlitið, sem nú fer fram hjá Námsgagnastofnun, verði fært til og fari í sjálfu sér til foreldra og kennara og þeir muni í sjálfu sér verða hinir endanlegu eiginlegu eftirlitsgjafar þegar þessar breytingar hafa gengið eftir.

Ég er svo sem þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að setja í lagatexta endanlegar reglur um gæðamatið en ég geri mér grein fyrir að kennarar hafa afar mikið um það að segja á hvern hátt það eftirlit fer fram sem nauðsynlegt er að eigi sér stað.

Um hinar fámennari greinar vil ég einungis taka undir það sem kemur fram í umsögn Félags íslenskra framhaldsskóla til nefndarinnar. Þar óttast félagið að með tilkomu þróunarsjóðs námsgagna, sem er sameiginlegur fyrir leik- og grunnskóla á framhaldsskólastigi, verði hlutur smærri greina afskiptur og hlutur iðn- og starfsmenntunar verði þar rýr. Í nefndarálitinu, sem við stöndum sameiginlega að, er þessa getið og látin í ljósi sú ósk að tekið verði tillit til hinna fámennari greina og nauðsynlegt sé að standa vörð um að þær fái sinn sess í kerfinu og það sé ekki meiningin nema síður sé að rýra eitthvað hlut þeirra.

Ég tel að niðurstaða nefndarinnar sé ásættanleg, breytingartillagan sem lögð er til sé af hinu góða og auðvitað fagna ég þeim yfirlýsingum sem komið hafa frá hæstv. menntamálaráðherra um fjármögnun þessara sjóða beggja, að þróunarsjóðurinn verði ekki tómur heldur eigi að setja í hann fjármuni því það er auðvitað grundvallarskilyrðið fyrir því að hér sé vel að verki staðið. Við skulum vona að þetta sé djúpur vilji Sjálfstæðisflokksins að svona sé að málum staðið þó svo að hv. þingmenn hafi svo sem haft ansi langan tíma til að leiðrétta mál af þessu tagi, þá er það kannski ekki of seint núna. Það er alla vega verið að gera það með myndarlegum hætti og ég lýsi eingöngu stuðningi við þá aðgerð sem hér er í farvatninu.