133. löggjafarþing — 93. fundur
 17. mars 2007.
fjarskipti, 2. umræða.
stjfrv., 436. mál (öryggi í fjarskiptum og aukin neytendavernd). — Þskj. 547, nál. 1039, brtt. 1040.

[14:16]
Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, frá samgöngunefnd.

Nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund og fjöldi umsagna barst til nefndarinnar.

Megintilgangur þessa frumvarps er að auka öryggi í fjarskiptum og neytendavernd og styrkja þau ákvæði fjarskiptalaga, nr. 81/2003, sem fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs. Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er rýmkun á skilgreiningu hugtaksins fjarskiptaþjónusta með því að fella tölvupóstsþjónustu og netaðgang þar undir. Einnig er lagt til að kveðið verði á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að skjalfesta hvernig staðið er að upplýsingaöryggi. Þá er lagt til að bannað verði að koma fyrir njósnahugbúnaði, vefhlerunarbúnaði eða öðrum slíkum búnaði í endabúnaði notenda án vitundar þeirra og að reglur um óumbeðin fjarskipti verði einnig látnar gilda um smáskilaboð. Auk framangreinds eru lögð til ýmis ákvæði um neytendavernd, m.a. um að fjarskiptafyrirtækjum sé óheimilt að semja við áskrifendur um lengri binditíma en sex mánuði.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Lagðar eru til smávægilegar orðalagsbreytingar í b-lið 8. gr. frumvarpsins.

2. Lagt er til að 3. mgr. b-liðar 9. gr. frumvarpsins verði skipt upp í tvær málsgreinar þannig að síðari málsliður ákvæðisins verði sérstök málsgrein. Er þetta gert í því skyni að tryggja skýrari framsetningu ákvæðisins.

3. Auk þess er lagt til að bætt verði við ákvæðið að notandi hafi rétt til að hafna notkun njósnahugbúnaðar, vefhlerunarbúnaðar eða annars slíks búnaðar sem komið er fyrir í endabúnaði hans til að fá aðgang að upplýsingum, safna földum upplýsingum eða fylgjast með athöfnum hans. Er þetta í samræmi við ákvæði 3. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/58/EB um vinnslu persónuupplýsinga og einkalífsvernd í fjarskiptum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Kristján L. Möller, Guðjón Hjörleifsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Jón Kristjánsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.



[14:19]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er verið að setja lítil internetþjónustufyrirtæki undir lagasetninguna sem nær yfir símafyrirtæki sem veita internetþjónustu líka. Þessi litlu internetfyrirtæki hafa með sér samtök sem heita Inter. Inter var ekki kallað til umsagnar til að byrja með heldur á síðari stigum þannig að athugasemdir þeirra bárust þann dag sem málið var tekið úr nefndinni.

Hv. formaður samgöngunefndar var nú svo vinsamlegur að kalla ráðuneytismenn aftur inn til umræðu um málið vegna þeirra athugasemda sem fram komu. En athugasemdirnar lutu að þremur atriðum, þ.e. að binditímanum sem reyndar öll fyrirtækin gerðu athugasemd við og vildu hafa heldur lengri. Önnur athugasemdin var að litlu fyrirtækin töldu að með þessari nýju lagasetningu væri verið að setja þau undir gjaldtöku fyrir þjónustu sem þau nytu ekki. Og í þriðja lagi vildu þau fá inn í frumvarpið ákvæði sem heimilaði þeim að gera samning við viðskiptavini sína um að sía frá ruslpóst en í rauninni er ákvæði í lögunum sem banna að ruslpóstur sé síaður frá.

Þau bentu á að það gæti orðið þrautin þyngri fyrir lítil og veikburða fyrirtæki sem þessi litlu internetfyrirtæki eru flest ef þau lentu í málaferlum, að standa undir lögfræðikostnaði. En niðurstaðan eftir samræður við samgönguráðuneytið, eða fulltrúa þess, varð sú að fyrirtækjunum væri heimilt að gera samninga við viðskiptavini sína þannig að þeir merktu við það hvort heimilt væri að sía frá ruslpóst, sem er reyndar mjög mikilvæg og góð þjónusta fyrir allan almenning sem þessi fyrirtæki veita.

Nauðsynlegt er að mínu mati að það komi fram á Alþingi að þessum fyrirtækjum er heimilt að gera slíka samninga þannig að það staðfestist hér að það er skilningur löggjafans að þetta sé heimilt, því mér heyrðist að það kæmi ekki fram í máli hv. formanns samgöngunefndar áðan.

Mitt mat er reyndar það að hægt hefði verið að koma fyrir grein í lögunum sem heimilaði ótvírætt að hægt væri að gera samninga um þess konar þjónustu sem í þessu felst en fulltrúar ráðuneytisins vildu ekki fallast á það.

En binditíminn er sem sagt sex mánuðir þrátt fyrir að öll fyrirtækin vildu gjarnan hafa hann lengri. Rök þeirra fyrir því að vilja hafa tímann lengri eru þau að með binditíma er einfaldlega verið að láta viðskiptavininn borga nýjan búnað á einhverjum tilteknum tíma. Það er ekkert öðruvísi. Eftir því sem tíminn er styttri þarf viðskiptavinurinn væntanlega að borga hann á hærra verði á mánuði. En auðvitað eru svo önnur rök á móti þessu, þ.e. að viðskiptavinurinn á að eiga hægt um vik að færa sig á milli þjónustuaðila og njóta þjónustunnar þar sem hún er best.

En það sem ég hefði helst viljað koma til móts við í lagasetningunni er þetta með ruslpóstinn, heimildina til að sía hann út og tel nauðsynlegt að það komi fram í máli okkar sem í nefndinni sitjum að samkvæmt okkar skilningi, skilningi löggjafans, er heimilt að gera samning við viðskiptavininn um það efni.



[14:23]
Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar mitt felst eiginlega í því að staðfesta orð hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur varðandi ruslpóstinn og samkomulag notenda þjónustunnar við þann sem hana veitir. Í umræðunni kom jafnframt upp skilgreiningin á ruslpósti. Hvað er ruslpóstur? Það er einföld skýring, það er bara óumbeðinn póstur. Það er ruslpóstur. Menn hafa hingað til getað samið um að þjónustufyrirtæki síuðu slíkan póst frá. En hins vegar er það rétt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að það eru ekki allir sem vita það, en með orðum hv. þingmanns og þeim sem ég segi hér, þá er rétt að í skilgreiningu laganna er fyrirtækjunum heimilt að gera samkomulag og samninga við notendur um að ruslpóstur sé síaður frá til þess að losna við óþægindi af honum.