133. löggjafarþing — 93. fundur
 17. mars 2007.
umferðarlög, 2. umræða.
stjfrv., 388. mál (ökuskírteini, hert viðurlög). — Þskj. 430, nál. 1047, brtt. 1048.

[14:25]
Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið á fékk á sinn fund fjölda gesta og margar umsagnir bárust.

Markmið þessa frumvarps er að gera auknar kröfur til ungra ökumanna með bráðabirgðaskírteini og að herða viðurlög við hrað- og ofsaakstursbrotum. Í því skyni er í m.a. lagt til að bráðabirgðaskírteini gildi í þrjú ár í stað tveggja ára og að lögreglustjóri geti sett akstursbann á byrjanda, sem hefur fengið bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta í ökuferilsskrá vegna umferðarlagabrota. Þá er lagt til að viðurlög við hraðakstursbrotum verði hert til muna og að hlutfallslega hærri sektum verði beitt þegar akstur hefur í för með sér aukna hættu, svo sem við akstur stærri ökutækja. Sama á við þegar ekið er á 140 km hraða á klukkustund eða meira eða þegar ekið er á tvöföldum hámarkshraða en í síðarnefnda tilvikinu er jafnframt lagt til að ökumaður verði sviptur ökurétti tímabundið. Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að mælt verði fyrir um heimild og í vissum tilvikum skyldu lögreglu til að gera vélknúið ökutæki upptækt vegna stórfelldra og ítrekaðra umferðarlagabrota.

Nokkur umræða varð um upptökuákvæði frumvarpsins í nefndinni, m.a. um það hvort ákvæðið færi á svig við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Nefndin leggur til breytingar á þessu ákvæði frumvarpsins til samræmis við framkomnar athugasemdir um ákvæðið, m.a. frá refsiréttarnefnd en í umsögn nefndarinnar er lagt til að kveðið verði skýrar á um til hvaða tilvika ákvæðið taki. Í umsögn refsiréttarnefndar var jafnframt skýrt kveðið á um það að ákvæði frumvarpsins um upptöku skyldi ekki ná til ökutækis þess sem ekki er við brot riðinn þar sem slík heimild kynni að ganga nærri stjórnarskrárvörðum eignarrétti eiganda ökutækis, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, samanber lög nr. 62/1994.

Töluverð umræða varð einnig í nefndinni um þær reglur sem gilda um hleðslu og frágang farms. Nefndin telur nauðsynlegt að tryggja betur eftirfylgni við slíkar reglur. Þá telur nefndin að herða þurfi viðurlög við brotum á reglum um hleðslu og frágang farms þannig að brot gegn reglunum varði punkt í ökuferilsskrá. Nefndin leggur enn fremur áherslu á mikilvægi þess að ábyrgð á hleðslu og frágangi farms verði bæði hjá eiganda ökutækis og ökumanninum sjálfum.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Með breytingu á 2. gr. gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987, með lögum nr. 84/2004, voru lítil vél- og rafknúin farartæki, hvort sem þau voru knúin með rafmótor eða sprengihreyfli, sem ekki voru hönnuð til hraðari aksturs en 15 km á klukkustund skilgreind sem reiðhjól. Þar undir falla m.a. vélknúin hlaupahjól. Framangreind breyting hefur reynst vel en efri hraðamörk ákvæðisins hafa hins vegar þótt of lág. Þess vegna er lagt til að breyta c-lið skilgreiningarinnar á hugtakinu reiðhjól í 2. gr. gildandi umferðarlaga þannig að efri hraðamörk framangreindra ökutækja verði hækkuð úr 15 km á klukkustund í 25 km á klukkustund. Nefndin telur eðlilegt að skilgreina hjól sem ekki eru hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klukkustund sem reiðhjól í stað léttra bifhjóla enda eru síðarnefndu ökutækin skráningarskyld og ætluð til notkunar í almennri umferð. Í umferðarlögum er hins vegar tekið fram að ekki megi aka reiðhjólum á akbraut. Nefndin telur auknar líkur á slysahættu ef lítil vél- og rafknúin farartæki sem ekki eru hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klukkustund eru notuð í almennri umferð.

2. Lagt er til að ákvæði 9. mgr. 1. gr. frumvarpsins um heimild ráðherra til að setja reglur um takmörkun á heimild byrjanda til að stjórna ökutæki, sem ökuskírteini þarf til að stjórna, á tilteknum tímum sólarhringsins, takmörkun á fjölda farþega yngri en 20 ára og um takmörkun á afli hreyfils ökutækis verði fellt niður. Mikil umræða hefur orðið um framangreint ákvæði í nefndinni og er niðurstaða nefndarinnar sú að réttast sé að fella ákvæðið brott úr frumvarpinu. Nefndin telur varhugavert að mæla fyrir um slíkar íþyngjandi aðgerðir í lögum gegn einum hópi í þjóðfélaginu. Auk þess telur nefndin að illmögulegt yrði að framfylgja ákvæðinu.

3. Lagt er til að í 2. mgr. 64. gr. a gildandi umferðarlaga verði tiltekið að réttur til einkamerkis gildi í átta ár og að skráður eigandi ökutækis skuli fram að 65 ára aldri greiða sama gjald vegna endurnýjunar á rétti til einkamerkis. Í c-lið 4. mgr. 26. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja, nr. 75/2003, með síðari breytingum, er gert ráð fyrir að réttur til einkamerkis skuli endurnýjaður á átta ára fresti og að fyrir endurnýjun skuli greiða sérstakt gjald. Af lögmætisreglu íslensks réttar leiðir að nauðsynlegt er að slíkt ákvæði sé í umferðarlögum. Er þessi breyting gerð til samræmis við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4843/2006. Þá þykir sanngjarnt að ökumenn 65 ára og eldri séu undanþegnir gjaldi vegna endurnýjunar á rétti til einkamerkis. Frá 65 ára aldri fá ökumenn ökuskírteini útgefin til ákveðins tíma og eftir 80 ára aldur er þeim gert að endurnýja ökuskírteini sitt árlega. Með hliðsjón af framangreindu þykir eðlilegt að einstaklingar á þessu aldursskeiði þurfi ekki að greiða fyrir rétt til einkamerkis þar sem ökuskírteini þeirra gildir í skemmri tíma en átta ár.

4. Lögð er til breyting á 3. gr. frumvarpsins þannig að þar verði kveðið á um að ráðherra geti sett reglur um flokkun og notkun viðurkennds hlífðarfatnaðar og annars hlífðarbúnaðar ökumanna og farþega bifhjóla. Í þeim reglum skuli m.a. kveðið á um hvaða kröfur séu gerðar til slíks búnaðar.

5. Í 4. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að við ákvörðun sektar vegna brota gegn 37. og 38. gr., sbr. 5. mgr. 100. gr. umferðarlaga, skuli sekt ákveðin mun hærri en ella á vegi þar sem hámarkshraði er takmarkaður við minni hraða en 80 kílómetra á klukkustund ef hraðinn er 30% meiri en heimilt er. Lagt er til að ákvæðið verði fellt brott þar sem hætt er við að ósamræmi í hraðamerkingum milli einstakra sveitarfélaga og að viðmiðunin í ákvæðinu sé til þess fallin að valda ruglingi hjá ökumönnum.

6. Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að viðurlög vegna hraðakstursbrota þegar ekið er tvöfalt hraðar en heimilt er skuli vera að minnsta kosti sex mánaða ökuleyfissvipting. Í núgildandi reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, nr. 930/2006, er m.a. kveðið á um sviptingu í mánuð þegar ekið er á meira en 60 km hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 30 km á klukkustund og þriggja mánaða sviptingu þegar ekið er á meira en 140 km hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 70 km á klukkustund. Samkvæmt framangreindri reglugerð er að hámarki hægt að svipta einstakling ökurétti í þrjá mánuði þegar ekið er meira en tvöfalt hraðar en heimilt er. Með hliðsjón af framkomnum athugasemdum um þetta ákvæði frumvarpsins og þeirri verulegu þyngingu viðurlaga sem í ákvæðinu felst er lagt til að miða ökuleyfissviptingu þegar ekið er tvöfalt hraðar en heimilt er við þrjá mánuði í stað sex mánaða.

7. Lögð er til sú leiðrétting að í stað orðsins „reglum“ í 3. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins verði sagt „lögum“.

8. Lagðar eru til breytingar á 7. gr. frumvarpsins um heimild eða skyldu til að gera vélknúið ökutæki upptækt í tilteknum tilvikum. Við gerð þessara breytinga var, eins og áður segir, að mestu farið að áliti refsiréttarnefndar um upptökuákvæði frumvarpsins. Þá þykir einnig eðlilegt að í 2. mgr. a-liðar 7. gr. frumvarpsins sé kveðið á um skyldu til að gera vélknúið ökutæki upptækt þegar eigandi ökutækis hefur verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og viðkomandi hefur tvisvar síðustu þrjú árin fyrir brotið verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna sem hefur haft í för með sér sviptingu ökuréttar. Nefndin telur eðlilegt að umferðarlöggjöf sé þannig úr garði gerð að hægt sé að grípa til sértækra aðgerða gegn síbrotamönnum í umferðinni. Nefndin áréttar þó mikilvægi þess að framangreindu ákvæði verði einungis beitt í undantekningartilvikum þegar brýna nauðsyn ber til og í samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar, um friðhelgi eignarréttar.

9. Í álitum umboðsmanns Alþingis hefur margsinnis verið bent á óskýrar gjaldtökuheimildir, m.a. að óljóst sé hvaða kostnaðarliðum viðkomandi gjaldi sé ætlað að standa undir. Með vísan til þessa er lagt til að þeir kostnaðarliðir sem ætlað er að liggja til grundvallar útreikningi þeirra gjalda sem Umferðarstofu er heimilt að innheimta skv. 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga verði nánar tilgreindir.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Anna Kristín Gunnarsdóttir, með fyrirvara, Guðjón Hjörleifsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Jón Kristjánsson og Guðjón Arnar Kristjánsson, með fyrirvara.



[14:36]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar þá skrifum við fulltrúar Samfylkingar undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Við erum að mestu leyti mjög ánægð með þá niðurstöðu sem náðist í nefndinni. Eins og komið hefur fram var mikil umræða um þetta mál í hv. samgöngunefnd og ýmsar breytingar sem við náðum sem betur fer samstöðu um að gera í nefndinni.

Fyrirvari okkar varðar kannski helst að til framtíðar þarf að huga að hinu svokallaða punktakerfi, bæði útfærslu og eftirfylgni þess. Þetta er ábending, ekki bara til löggjafans heldur líka til hæstv. samgönguráðherra sem hefur mjög mikið reglugerðarvald í sínum höndum í því kerfi. Við viljum koma því til skila að það sé tímabært að endurskoða hvernig því er framfylgt, hvernig það skilar sér og hvort það er eitthvert ósamræmi í því hvernig refsingar eru samkvæmt punktakerfinu. Því viljum við koma á framfæri.

Annað sem var reyndar rætt mjög lauslega í nefndinni og er í sjálfu sér ekki umfjöllunarefni þessa frumvarps en hefur m.a. verið gert á Norðurlöndunum við álagningu umferðarsekta, sérstaklega hraðaksturssekta, er að víða hefur því verið þannig komið fyrir að þær eru tekjutengdar. Sú umræða er vart hafin hér á landi.

Við jafnaðarmenn í Samfylkingunni hyggjum að alveg sé tímabært að fara að skoða hvernig hægt væri með einhverju móti að tekjutengja slíkar sektir því við vitum að sektir við sumum umferðarlagabrotum eru það lágar að það er vart hægt að segja að menn finni mjög fyrir þeim. Ég tala nú ekki um ef fólk er sterkefnað. Þessu vil ég koma hér á framfæri.

Að öðru leyti erum við samþykk því sem fram kemur í nefndarálitinu og teljum það mikið framfaraskref að herða viðurlög við ofsaakstri sem er auðvitað ekkert annað en áhættuhegðun af verstu sort sem skapar almannahættu og hefur leitt af sér hræðileg slys eins og við vitum. Þess vegna teljum við að fullu tímabært að herða refsingar við ofsaakstri eins og fyrir liggur.

Einnig viljum við fagna því að inn í frumvarpið, í breytingartillögum með því, hefur ratað mál frá hv. þm. Samfylkingarinnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að hægt verði að setja reglur um flokkun og notkun viðurkennds hlífðarfatnaðar og annars hlífðarbúnaðar ökumanna og farþega bifhjóla. Þetta er nokkuð sem bifhjólamenn, m.a. Sniglarnir, hafa beðið um mjög lengi og er mikið öryggismál fyrir ökumenn bifhjóla úti á vegum landsins.

Nokkuð var rætt í samgöngunefndinni um hleðslu og frágang farms. Eins og hv. þingmenn vita þá hefur mikil umfjöllun verið í fjölmiðlum um frágang og hleðslu farms á flutningabílum hérlendis, sérstaklega í dagblöðum undanfarin missiri. Við vorum öll sammála um það í nefndinni að ekki mætti slaka á neinum öryggiskröfum hvað þessi mál varðar. Reyndar kom það fram að samkvæmt reglugerðum og leiðbeiningum þeim sem t.d. vöruflutningabílstjórar fara eftir þá eru reglurnar mjög skýrar. Það þarf hins vegar að vera hægt að fylgja því þannig eftir að atvinnubílstjórar komist ekki upp með að hlaða bíla sína með þeim hætti að hætta geti stafað af eins og dæmin sanna.

Mikil umræða varð í samgöngunefndinni um það ákvæði sem síðar náðist samstaða um að fella út úr frumvarpinu. Það var að taka þannig sérstaklega á ungum ökumönnum að hægt væri að banna þeim akstur bifreiða á tilteknum tíma sólarhrings eða takmarka fjölda farþega þeirra á tilteknum aldri. Auðvitað er það þannig að það eru ákveðin rök sem hníga til þess að slíkar aðgerðir gætu borið árangur. Okkur þótti hins vegar ósanngjarnt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að setja inn í lög ákvæði sem refsaði þarna stórum hópi ungra bifreiðarstjóra vegna hegðunar ekki margra, oftast örfárra ungra karla.

Við trúum því að hægt sé að ná til þessa hóps með öðrum ráðum. Auðvitað verður að gera það meðvitað og með öflugri fræðslu, það kostar peninga og um það þarf vitundarvakningu í samfélaginu. En það á ekki bara við um unga bílstjóra. Ég tel það eiga við um bílstjóra á öllum aldri, það þarf að efla umferðaröryggi með aukinni fræðslu og koma því þannig til skila til íslenskra ökumanna og þeirra sem aka bifreiðum á vegum landsins að það sé á allra ábyrgð að aka eins og menn og fylgja lögum og standa ekki í ofsaakstri eða öðru slíku.

Hæstv. forseti. Þetta vildi ég fá að segja um þetta mál og fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. samgöngunefnd eru samþykkir þessari afgreiðslu með þeim fyrirvara sem ég tiltók.



[14:42]
Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom hér inn á varðandi skilaboð í þessu frumvarpi til ökumanna. Það eru skilaboð til þeirra að harðara verði tekið á ökuníðingum og þeim sem aka glannalega á vegunum. Það eru skilaboð til þeirra sem eru í farmflutningum að ganga betur frá farmi því annars muni koma til öðruvísi og meiri sektir en verið hefur áður. Það er vel.

Ég vil líka geta þess vegna orða hv. þingmanns varðandi mál sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti, að inn í þessa breytingartillögu eru komin ágæt efnisatriði varðandi þingsályktunartillögu frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur vegna aukins hraða á rafmagns- eða vélknúnum tækjum eins og ég hef komið að áður.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að hér eru með beinum hætti skýr skilaboð út í umferðina um að harðara verði tekið á ökuníðingum og þeim sem ekki ganga frá farmi á flutningabílum sínum. Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með og sjá hvernig á hefur verið haldið nú um margra mánaða skeið, kæruleysi og um leið er þetta náttúrlega ekkert annað en ógnun við umferðina.



[14:44]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér upp undir þessum dagskrárlið til þess að vekja sérstaka athygli á 1. lið í breytingartillögu samgöngunefndar sem varðar reiðhjól og heimild til þess að hafa rafmótora sem rafknúin reiðhjól eru knúin með, þannig úr garði gerð að þau geti farið í 25 kílómetra hraða á klukkustund en ekki einungis 15 kílómetra hraða eins og er í núgildandi lögum.

Hugmynd af þessu tagi var reifuð á þskj. 310 á yfirstandandi löggjafarþingi í frumvarpi sem ég lagði fram og er eitt af hinum klassísku stjórnarandstöðuþingmannamálum sem komast ekki á dagskrá þingsins.

Mér hefði fundist verulegur bragur að því að ríkisstjórnin hefði nú ákveðið í tengslum við framlagningu og afgreiðslu þessa frumvarps frá samgöngunefnd um breytingar á umferðarlögum að frumvarp mitt yrði samþykkt og auðvitað lít ég svo á að verið sé að gera það. Ég kýs að líta svo á að ég sé að fá hér heilt frumvarp afgreitt frá samgöngunefnd. Ég sé að hv. formaður nefndarinnar nikkar og ég hef heyrt hann nefna nafn mitt í ræðustóli tengt þessu ákvæði.

En mig langar til að nota tækifærið og segja í örfáum orðum frá þeim grundvallaratriðum sem mér finnst að liggi hér að baki. Við höfum gert samanburð á löggjöf Norðurlandanna og hér og við sjáum að það er mjög erfitt að bera löggjöfina saman. Finnar hafa þó farið þá leið sem hér er lögð til þannig að nú erum við að samþykkja finnsku leiðina í reiðhjólamálunum. Þetta byggist á því að framleiðendur vél- og rafknúinna reiðhjóla gefa yfirleitt upp hraðann sem er 20–24 kílómetrar á klukkustund. Mótorarnir eru þannig útbúnir að þeim verður ekki ekið hraðar og hjólum af þessu tagi hefur fjölgað mjög í Evrópu nú á seinni árum.

Það kemur tvennt til. Annars vegar fjölgar þeim sem kjósa að nota hjól sem samgöngutæki í evrópskum borgum og vonandi verður þetta ákvæði einnig til þess að þeim fjölgi hér á landi sem kjósa að nota hjól sem samgöngutæki. Og sömuleiðis má segja að eldra fólk í nágrannalöndum okkar kýs í auknum mæli að nota reiðhjól af þessu tagi sem útivistartæki, t.d. fólk sem hefur kannski ekki nægan líkamsstyrk til að nota hefðbundið fótstigið reiðhjól.

Einnig hafa rafknúin reiðhjól reynst þeim vel sem vegna einhvers konar fötlunar skortir líkamlegan styrk til að nota fótstigið reiðhjól. Þannig að menn sjá að hér er um mikið þarfaþing að ræða, reiðhjól sem getur komist upp í 25 kílómetra á klukkustund.

Síðan má segja að í ljósi aukinnar mengunar frá bifreiðum í þéttbýli sé það mikilvægt að lagaákvæðið hvetji fólk til þess að nýta reiðhjól sem samgöngutæki í auknum mæli. Þá þarf að gæta þess að vél- og rafknúin reiðhjól séu ekki útilokuð og nauðsynlegt að sem flestir geti tekið þátt í þeirri samgöngubyltingu sem þarf að eiga sér stað svo við náum tökum á samdrætti í útstreymi koldíoxíðs frá samgöngum.

Ég lít svo á að lagafrumvarp þetta sé viðleitni í þá átt og vil einungis ítreka það hér að ég fagna því að það skuli nú hafa ratað í heild sinni inn í breytingartillögur samgöngunefndar og trúi því og vona að þess verði ekki langt að bíða að við gerum hér öfluga og metnaðarfulla áætlun um hjólreiðastíga í þéttbýli og þess verði skammt að bíða að öllum stofnbrautum í þéttbýli sem greiddar eru af opinberu fé úr ríkissjóði fylgi hjólreiðastígar.



[14:48]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum um frumvarp til breytinga á umferðarlögum. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og vil gera grein fyrir honum í nokkrum orðum.

Meginefni frumvarpsins gengur út á að herða á aðgerðum til að taka á svokölluðum ofsaakstri. Út af fyrir sig er ég sammála því að herða þurfi á því þegar menn aka sýnilega með því lagi að beinlínis stafi stórkostleg hætta af. Ég hef í sjálfu sér ekki athugasemdir við að herða á þeim viðurlögum sem snúa að slíku athæfi.

Ég hef hins vegar hugsað um það varðandi þessi mál almennt, hæstv. forseti, að í raun og veru held ég að það sé nauðsynlegt að huga að því að opna hér það sem við getum kallað kappakstursbrautir eða akstursíþróttabrautir þar sem ungu fólki, sem á kraftmiklar bifreiðar eða mótorhjól, bifhjól, geti fengið að keppa, stunda æfingaakstur eða annan akstur sem er ekki háður takmörkuðum hámarkshraða eins og er vissulega á þjóðvegunum, sem er bráðnauðsynleg allsherjarregla vegna vegakerfisins og samgangna.

En því er ekki að heilsa, hæstv. forseti, að hér á landi sé til kappakstursbraut í þeim skilningi sem við sjáum víða erlendis, þar sem menn hafa æfingabrautir og kappakstursbrautir og geta fengið að keppa sín á milli eða æfa sig í akstri.

Ég held að við þurfum að huga að því, hæstv. forseti, að stuðla að gerð einhvers konar brauta hér á landi þar sem menn geta fengið að keppa á þessum tækjum sín á milli. Þar með kæmi jafnframt upp sú eðlilega krafa að einhver skilgreining yrði sett á það hvers konar ökutæki séu almennt notuð á þjóðvegum þótt það geti verið mjög snúið að setja þá reglu. Það er samt svo að menn spyrja sig bara þeirrar skynsamlegu spurningar: Hvað höfum við að gera með sportbíla á þjóðvegunum, sem eru 300–400 hestöfl, til þess að keyra á almennum þjóðvegum? Hvað höfum við að gera með það til notkunar á almennum þjóðvegum?

Menn kaupa sér tæki, tiltölulega litla bíla sem oft eru aðeins ætlaðir fyrir tvo farþega eða að hámarki fjóra og er þá yfirleitt þröngt um þá sem aftur í eru. Þetta eru sérhannaðir bílar til að fara mjög hratt sem er alls ekki það aksturslag sem við heimilum á neinum þjóðvegum. Við höfum heldur ekki neinar þær brautir hér á landi þar sem menn geta fengið að spreyta sig á þessum ökutækjum.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að taka verður á þessu í framtíðinni þótt ekki sé hægt að segja að ég sé með beina útfærslutillögu á því. Ég vil þó láta þess getið, hæstv. forseti, að ég hyggst koma fram með breytingartillögu við 3. umr. inn í umferðarlögin þar sem sett yrði skilgreining á orðinu akstursíþróttabraut eða kappakstursbraut. Það væri í 2. gr. laganna þar sem talað er um akbraut, með skilgreiningu á því og síðan akrein, með skilgreining á því. Í þriðja lagi verður þá kappakstursbraut eða akstursíþróttabraut og skilgreining á því.

Í mínum huga er slík braut sérbyggð akbraut sem ætluð er til hraðaksturs bifreiða eða bifhjóla og þar sem stunda má akstursíþróttir eða æfingasvæði þar sem mönnum er beinlínis heimilað að stunda hraðakstur. Ég held að það þurfi að vera hægt að beina því fólki, sem við beinum þessum lagabreytingum að, inn á einhver þau svæði þar sem fólk getur fengið að keppa. Það fer ekkert á milli mála, hæstv forseti, að fjöldi fólks á landinu hefur mikinn áhuga á akstursíþróttum. Það sjáum við af áhorfi á Formúluna, á torfæruakstur og ýmislegt fleira. Menn hafa mikinn áhuga á akstursíþróttum.

Ég held, hæstv. forseti, að við þurfum að finna lausnir þar sem beina megi fólki inn á aksturssvæði þar sem það fær að keppa sín á milli. Þar með losnum við væntanlega við að menn séu nánast í kappakstri á þjóðvegunum, bæði innan borgar og utan.

Bæði lögreglan og við á Alþingi vitum að menn mæta til ákveðinnar aksturskeppni á þjóðvegum landsins löngu eftir miðnætti, þegar umferðin er dottin niður. Þeir mæla sér mót á ákveðnum svæðum landsins þar sem þeir þenja fákana hver á móti öðrum og keppa í að komast sem hraðast eftir þjóðvegunum þegar öll önnur umferð er dottin niður. Þeir eru með vöktuð svæði norðan og sunnan við til þess að láta vita ef lögreglan kemur inn á svæðið eða önnur umferð.

Þetta er vegna þess að það eru engar svona brautir til staðar, hæstv. forseti. Þess vegna er ég að benda á þetta. Ég held að við eigum að huga að þessu vandamáli. Marka inn í umferðarlögin hugtakið akstursíþróttabraut eða kappakstursbraut og að finna því svo tekjustofn, hvernig megi byggja upp slíka braut. Það er full ástæða til að huga að því. Samkvæmt því sem ég veit best þá sýnist mér að um 2 milljarðar kr. komi í tekjur til ríkisins af akstri mótorhjóla í gegnum bensíngjald, innflutningsgjöld af mótorhjólum og bifhjólum og hvað þá ef skilgreindar væru sérstaklega það sem við köllum hraðakstursbifreiðar, litlar bifreiðar með mikinn hestaflafjölda.

Það væri hægt að hugsa sér að marka ákveðna tekjustofna af gjöldum af þessum bifreiðum, m.a. til að koma þessum bifreiðum af þjóðvegunum og búa þá til íþróttasvæði og þjálfunarsvæði þar sem menn geti notað þessi tæki, eins og menn eru stundum að spreyta sig við á götum borgarinnar og landsins, en þá algjörlega með ólögmætum hætti að sjálfsögðu. En freistingin er til staðar og þess vegna er þessi mikli hraðakstur stundum langt um fram það sem talist getur eðlilegt hæstv. forseti.

Ég vildi vekja athygli á þessu. Ég vænti þess að hv. alþingismenn hafi skilning á því að setja a.m.k. skilgreiningarákvæði inn í umferðarlögin þannig að síðar megi vinna að því að hér verði búin til eða opnuð sérstök akstursíþróttasvæði eða keppnissvæði. Ég held að vænlegt væri að taka það upp í umræðum við íþróttahreyfinguna sem hefur þegar stofnað til, ef ég veit rétt, sambands akstursíþróttamanna og við þurfum að byggja upp svona aðstöðu. Ég tel að það muni draga úr hraðakstrinum þegar slík aðstaða verður til staðar, a.m.k. gæti lögreglan vísað mönnum á svæði þar sem þeir gætu fengið að spreyta sig á meiri hraða en ætlast er til að menn fari á um þjóðvegi landsins, hvort sem það er í borg eða byggð.

Þetta vildi ég nú sagt hafa, hæstv. forseti, og ætla ég svo sem ekki að tala meira um þetta núna. En það er fjölmargt sem ég vildi víkja að, t.d. að festingu farms og hvernig að því er staðið. Þar mætti nefna fleira en það sem oft hefur verið nefnt, að sérstakar grindur eða stálsúlur þurfi til að halda farmi kyrrum. Auðvitað kann það að þurfa í sumum tilvikum. En fyrst og fremst þarf frágangur farmsins að vera tryggur. Það er hægt að tryggja frágang farms og festa hann vel með ýmsu fleiru heldur en hliðarsúlum þótt þær kunni vissulega að vera nauðsynlegar í sumum tilvikum. Við höfum séð að bifreiðar aka um þjóðvegi landsins, m.a. með svokölluðu ræsi í vegagerð, þar sem aðeins er um eina festingu að ræða, eitt strekkiband, svo rúllar þetta til hliðanna eftir því hvernig bíllinn beygir.

Það eru mörg dæmi um slíkt því miður og sjálfsagt að beina því til ökumanna og þeirra sem eiga flutningabifreiðar að huga betur að festingu farms og tryggja hann. En það er nú svo að oft koma fáir óorði á fjöldann og það á jafnt við um vöruflutningabifreiðar eins og þá sem keppa í hraðakstri á þjóðvegum landsins. En þessi tilvik eru fleiri en svo að hægt sé að horfa á aðgerðarlaus, hæstv. forseti.

Það er hins vegar eitt atriði sem mig langar til að nefna í lok ræðu minnar. Það varðar punktakerfið. Ég tel að það þurfi að skoða þetta punktakerfi betur, einkanlega varðandi unga menn sem lenda í að fá punkta. Mér sýnist, eins og lögin eru uppsett, að menn gætu endað með bráðabirgðaakstursskírteini nánast alla ævina. Það er kannski ekki alveg eins og við vildum hafa það. Það er spurning hvort ekki ætti að endurskoða þetta punktakerfi. Hversu alvarleg eru brotin og hvaða áhrif á kerfið hafa?

Einnig held ég að það sé tímabært, hæstv. forseti, að velta fyrir sér hvort sektir eigi að einhverju leyti að vera tekjutengdar. Sá sem hefur miklar tekjur finnur minna fyrir sektinni. Hún kemur ekki við hans afkomu og líf ef hann er mjög tekjuhár en sekt hefur kannski mikið að segja gagnvart þeim sem tekjulægri eru. Áhrifin af sektargreiðslunni eru mjög mismunandi eftir því hver tekjustaða fólks er. Þetta er samt vandrötuð braut, hæstv forseti, þótt menn geti auðvitað skoðað að fara hana.

Að lokum vil ég minna á reglur sem eru mjög umdeildar, varðandi aksturs- og hvíldartíma vörubifreiðastjóra sem keyra um langan veg á þjóðvegum landsins við mismunandi aðstæður. Ég hef í tvígang komið af Vestfjörðum með tiltölulega stuttu millibili og sú leið sem vöruflutningabifreiðarnar, t.d. í Ísafjarðardjúpi, fyrir Reykjanes og Vatnsfjörð og síðan inn Mjóafjörð, þar sem er gamall og slitinn malarvegur, er nánast ófær. Ef veghaldari ætti að ákveða á honum aksturslagið þá mundi hann sjálfsagt bara loka veginum. Ég held að það væri ekkert flóknara. Honum yrði bara lokað, enda er vegurinn nánast óökufær. Hann verður það væntanlega á þessu vori áfram vegna þess að hann hefur ekki burðarþol til að taka við flutningum sem um hann fara.

Þetta kemur inn á hvíldartímann og aksturstímann vegna þess að aksturstíminn miðast við færð og þann hraða sem hægt er að keyra á eftir vegunum. Þegar menn eru komnir niður í 20 kílómetra hraða á löngum vegarköflum lenda þeir yfir aksturstímanum sem miðað er við og þá er farið að beita sektarákvæðum út á vegakerfi sem býður alls ekki upp á að menn fylgi neinum reglugerðum. Þetta er sannleikur, hæstv. forseti, og mjög erfitt fyrir þéttbýlisbúa sem aldrei fara af götum Reykjavíkur að skilja um hvað málið snýst.



[15:04]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Örfá orð um þetta mál, breytingu á umferðarlögum. Ég er áheyrnarfulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í hv. samgöngunefnd. Ég styð frumvarpið en vil þó slá nokkra varnagla.

Ég styð það sjónarmið að auka beri umferðaröryggi með öllum tiltækum ráðum innan þeirra sanngjörnu marka sem það er hægt. Frumvarpið miðar í sjálfu sér að því. Ég vil þó vara við því að verið sé að setja lög og reglur um þessa þætti sem aðra sem ekki er hægt, eða illmögulegt, að framkvæma. Slíkt verður marklítið. Menn verða að halda sig innan þeirra marka í laga- og reglugerðarsetningu að koma í veg fyrir að um leið og maður er genginn út úr húsi sé maður nánast sjálfkrafa farinn að brjóta lögin. Það þarf að gæta hófs í lagasetningum eins og með þetta ákvæði sem var í frumvarpinu, um að takmarka að næturlagi akstur þeirra sem eru nýkomnir með bílpróf. Það má vel vera að mörg slys verði vegna aksturs unglinga að næturlagi en það er fráleitt að mínu mati að innleiða svona lagað í lög enda felldi samgöngunefnd það út úr frumvarpinu. Það er sjálfsagt að vera með öll þau öryggisatriði sem hægt er en varast samt þessa ofboðslegu löngun til að setja lög og reglur og boð og bönn um allt sem ekki er síðan hægt að framfylgja með eðlilegum og skynsamlegum hætti.

Varðandi flutning á farmi, sem hér hefur verið rætt um, tel ég að þar þurfi að setja skýrari reglur um öryggi farms á stórum bílum. Margir þeirra eru hlaðnir á stöðvum, bílstjórarnir koma ekkert endilega nálægt því hvernig hlaðið er af því að þeir eru ráðnir sem bílstjórar eingöngu. Ekki er nú kaupið of hátt hjá þeim og stundum er meira að segja skipt um bílstjóra á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur, annar bílstjóri getur þurft að taka við á miðri leið. Mér finnst að það eigi að setja ábyrgðina líka yfir á eigendur bílanna og þá sem gera þá út, að þeir fari eftir reglum. Þetta tel ég mjög mikilvægt að sé tekið inn. Það er erfitt að gera hliðstæðar kröfur til bílstjóra og skipstjóra, þá verður a.m.k. að hafa laun í samræmi við það, þ.e. ef bílstjórinn ætti að bera eins mikla og víðtæka ábyrgð á bíl og farmi og skipstjórar gera á skipi. Þá þarf líka að taka það inn í starfslýsingar og starfsreglur bílstjóranna og greiða þeim kaup samkvæmt því. Gott og vel, það má vel skoða það.

Ég tek svo undir þau orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um það að vegirnir verða að bera þá umferð sem um þá fer. Það þyrfti að setja öryggisstuðla á vegi í miklu ríkari mæli en nú er þannig að stórir bílar og miklir flutningar fari ekki um vegi sem þeir bera ekki út frá öryggissjónarmiðum. Okkur gengur afar hægt að koma samgöngumálum í landinu í viðunandi horf, vegáætlanir eru skornar niður og í ljósi þess þurfum við að stilla umferðina af miðað við þá vegi sem við höfum svo að þeir beri hana.

Frú forseti. Ég styð frumvarpið og þær breytingartillögur sem bornar eru fram.



[15:08]Útbýting: