133. löggjafarþing — 94. fundur
 17. mars 2007.
þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis, síðari umræða.
þáltill. GHall o.fl., 41. mál. — Þskj. 41, nál. 1257.

[21:39]
Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis.

Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til að tillagan verði samþykkt. Í henni er gerð tillaga um að þjóðfána Íslendinga verði komið fyrir í þingsal Alþingis. Í greinargerð með tillögunni er enn fremur lagt til að fánanum verði komið fyrir þannig að hann verði sýnilegur við eða nærri forsetastól.

Ég gerði fyrir mitt leyti fyrirvara við nefndarálit þetta og ætla að gera í mjög stuttu máli grein fyrir honum. Hann byggir í fyrsta lagi á því að nefndin tók málið til mjög lauslegrar umfjöllunar og ég hefði kosið að nefndin hefði getað gefið sér betri tíma til að fara ofan í það. Fyrir lá myndræn hugmynd að því hvernig hægt væri að koma þjóðfánanum fyrir hér í þingsal. En fyrir mitt leyti á ég enn eftir að sannfærast um að það sé heppilegt. Set því þann fyrirvara við stuðning minn við málið að viðunandi niðurstaða geti fengist í það að finna þjóðfánanum heppilegan stað hérna í þingsalnum.

Að öðru leyti velti ég því fyrir mér hvort heppilegt hafi verið að stilla þessu máli fram sem þingmáli. Ef til vill hefði farið betur á því að það hefði komið til skoðunar að frumkvæði forsætisnefndar.



[21:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir persónulegar efasemdir eða fyrirvara framsögumanns og deili ég þeim með honum. Ég hef ekki tekið mikla sannfæringu í málinu. Þetta þingmál er nokkuð gamall kunningi. Ég segi bara við þessar aðstæður að ég er ákaflega feginn því að Ísland skuli ekki eiga gunnfána. Það verður þá aldrei nema þjóðfáninn sem kemur inn í þingsalinn.

Auk þess hefði ég getað hugsað mér, í ljósi þess að í ár er 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar, að þriðja hlutnum yrði þá bætt við inn í þingsalinn og Jónas fengi að vera á veggnum hérna á móti þannig að þeir horfðust á yfir þingsalinn Jónas og Jón. Þá væri kannski gott að hafa fána einhvers staðar mitt á milli þeirra.



[21:42]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Rétt aðeins um málið. Ég er einn 33 flutningsmanna tillögunnar. Það var eitt af því sem við ræddum í stuttri yfirferð í nefndinni að það væru rök fyrir því að afgreiða málið til þingsins að 33 flutningsmenn væru að tillögunni sem eins og gefur augaleið er yfir helmingur þingmanna. Hún nýtur því mikils og þverpólitísks stuðnings. Ég held að flutningsmenn séu úr öllum flokkunum eða nánast öllum flokkunum.

Ég er sannfærður um að það yrði mjög til prýði að hafa íslenska þjóðfánann hérna þar sem hann væri sýnilegur, nálægt forsetanum. Ég hef engar efasemdir um það og styð tillöguna algjörlega fyrirvaralaust. Þetta er hið besta mál.

Að sjálfsögðu væri það ágætishugmynd að fá Jónas hingað í þingsalinn eins og Jón. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur nýlega vakið þjóðarathygli á prýðilegum ljóðmælum Jónasar þannig að það væri mjög Alþingi til prýði að fá hann hér í salinn líka.

En ég styð þessa tillögu og fagna því að hún er komin til Alþingis. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur flutt þessa tillögu nokkuð oft og núna síðast með fulltingi 33 þingmanna Alþingis. Sýnir það þverpólitískan og ágætan stuðning við málið. Ég fagna því og vona að þegar þing verður sett eftir kosningar eða næsta haust verði fáninn sýnilegur mjög nálægt forsetanum.