135. löggjafarþing — 3. fundur
 3. október 2007.
umræður utan dagskrár.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[13:36]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli ná að fara hér fram. Ég tel mjög mikilvægt að hægt sé að ræða strax á fyrstu starfsdögum þingsins um þær alvarlegu horfur sem við okkur blasa í efnahagsmálum og hvað varðar úrlausnarefni á sviði hagstjórnar.

Því hefur verið haldið stíft að þjóðinni undanfarin ár að hér hafi ríkt mikið góðæri og hér hafi allt verið í lukkunnar velstandi í efnahagsmálum. Þegar þetta er skoðað í ljósi staðreynda, þ.e. rýnt er í hagskýrslur og tölur, þá kemur að mínu mati talsvert annað í ljós. Veruleikinn er sá að skýrslur Seðlabankans, alþjóðlegra ráðgjafarstofnana og fyrirtækja og greiningarfyrirtækja og umsagnir þeirra hafa allar hnigið í eina átt á undanförnum missirum. Samanburður þess sem nú blasir við okkur við eldri spár og áætlanir, þó ekki sé nema frá því fyrir tveimur árum, sýna hver ósköpin hér hafa gerst. Það sem við blasir auðvitað er hagstjórn í molum og hagspár og áætlanagerð úti í hafsauga. Ég efast um að nema þá á mestu verðbólgutímum hafi skeikað jafngríðarlega miklu milli þess sem menn töldu vera í vændum varðandi t.d. verðbólguþróun og viðskiptahalla og þess sem hefur orðið raunin á.

Ef við tökum aðeins eina breytu viðskiptahallans þá blasir við okkur sú dapurlega staðreynd að síðastliðin 12 ár, ef við tökum yfirstandandi ár með og förum aftur og til og með ársins 1996, hefur aðeins einu sinni náðst jákvæður viðskiptajöfnuður, 1,5% af vergri landsframleiðslu árið 2002. Að öðru leyti eru tölurnar 1,8% í mínus 1996, 1,8% aftur 1997, 6,8% bæði árin 1998 og 1999, 10,2% í halla árið 2000, 4,3% í halla árið 2001, 1,5% í plús árið 2002 eins og áður sagði, aftur halli upp á 4,8% 2003, upp á 9,8% 2004, upp á 16,2% 2005, upp á 25,7% af vergri landsframleiðslu árið 2006 og áætlaður halli upp á 15,2% í ár.

Ég veit ekki hvort allir gera sér fyllilega grein fyrir því hvað þessar tölur segja okkur í raun, að það vantaði meira en fjórðung af landsframleiðslu, af heildarveltu þjóðfélagsins upp á að við ættum fyrir samskiptum okkar við útlönd í fyrra. Tökum haustskýrslu ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem þá sat, haustið 2005, tveggja ára gamla, nákvæmlega eins plagg og það sem við fengum í fyrradag, og skoðum hverju menn spáðu þá um framtíðina. Þá var sagt að viðskiptahallinn væri að ná hámarki á árinu. Haustið 2005 sagði fjármálaráðherra: „Viðskiptahallinn er í hámarki, við ætlum að hann verði 13,3%.“ Hann spáði að hann mundi lækka og verða 12% á árinu 2006, kominn niður í 6,4% 2007 og nánast kominn í jöfnuð árin 2008 og 2009.

Hver er niðurstaðan nú sléttum tveimur árum síðar? Hún er sú að hallinn varð ekki 13,3% 2005 og hann var ekki í hámarki, hann varð 16,2%. Hallinn varð ekki 12% árið 2006 eins og fjármálaráðherra spáði þarna. Nei, hann varð 25,7% eða rúmlega tvöfaldur og hallinn stefnir ekki í 6,4% í ár. Nei, hann stefnir í 15,2%. Og hann stefnir ekki í 2,5% á næsta ári heldur 8,8% og ekki 2,5% á árinu 2009 heldur 7,6%. Skilja menn hvað þetta þýðir, að þessi geigvænlega skuldasöfnun æðir áfram og hleðst upp? Þetta er ávísun á allt hitt, verðbólguna, hina svimandi háu vexti og það sem verst er, hina miklu erlendu skuldasöfnun. Um það segir Seðlabankinn í síðasta hefti Peningamála, þess sem út er komið. Þar er fróðleg grein eftir tvo sérfræðinga um erlenda stöðu þjóðarbúsins og þáttatekjur, með leyfi forseta:

„Staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur tekið miklum breytingum á síðustu missirum. Erlendar eignir og skuldir Íslendinga hafa margfaldast á aðeins örfáum árum, en erlendar skuldir hafa aukist talsvert meira en erlendar eignir. Hrein erlend staða þjóðarbúsins er því orðin mjög neikvæð í hlutfalli við landsframleiðslu og hrein skuld með því mesta sem dæmi eru um í heiminum.“

Það er og. Ef tekin er hrein skuldastaða er enginn vafi að Ísland á heimsmetið í skuldum með yfir 200% af vergri landsframleiðslu. Það er tafla í skýrslunni, Viðauki 1, og þar eru borin saman 139 ríki. Þar eru efst ríki eins og Katar, Írland og Sviss sem eiga inni allt upp í 200% af landsframleiðslu sinni, eiga meiri eignir en skuldir. Á botninum situr Ísland við hliðina á Líbanon, Laos, Kirgisíu, Mjanmar, Gana, Tógó, Fílabeinsströndinni og Serbíu og Svartfjallalandi þar sem forsætisráðherra er kunnugur.

Erum við stolt af þessu? Er þetta efnahagsundrið? Er þetta góðærið sem við höfum verið að stæra okkur af? Frumorsakir þessa eru ljósar. Þessu var spáð. Seðlabankinn varaði við þessu, OECD varaði við þessu, Alþjóðabankinn varaði við þessu, að hinar gríðarlegu stóriðjufjárfestingar, svo ekki bættust nú við tugmilljarða skattalækkanir í þenslunni og mistökin sem menn gerðu á fasteignamarkaði, hlytu að valda slíkri upplausn í hagstjórninni. Og nú stöndum við frammi fyrir því nema hvað þetta hefur orðið u.þ.b. tvöfalt verra en menn spáðu fyrir tveimur árum síðan. Skekkjurnar eru frá 100 upp í 200%, því miður í öfuga átt, í átt til meiri viðskiptahalla, hraðari erlendrar skuldaaukningar og ört versnandi stöðu þjóðarbúsins. Þess vegna endurtaka alþjóðlegar ráðgjafarstofnanir varnaðarorðin, þess vegna lækkar lánshæfismat Íslands.

Hver er staðan nú? Hún er auðvitað sú að í fyrsta lagi tikka nú kosningavíxlar fyrri ríkisstjórnar og setja fjármuni í umferð. Margt af því var þarft og gott að gera en það þarf að hafa það í huga samt. Í öðru lagi koma til mótvægisaðgerðirnar. Auðvitað þarf að grípa þar til ráðstafana og það væri vel viðráðanlegt og rýmanlegt innan hagkerfisins ef ekki kæmi annað til en það kemur fleira til. Það blasir líka við að fram undan er gríðarlegt framkvæmdamagn bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila. Það er verið að byggja tónlistarhús við höfnina í Reykjavík fyrir 15 milljarða. Háskóli Íslands er í stórbyggingum. Háskólinn í Reykjavík er að fara að byggja nýtt „háskólakomplex“, nýjan „campus“ við Nauthólsvík. Landspítalabyggingin er að fara af stað og það er búið að taka frá 18 milljarða kr. í fyrsta áfangann. Það á að fara að byggja mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, 1. áfangi eða 1. hluti, 3 milljarðar kr. Tvöföldun Reykjanesbrautar er í gangi, Sundabraut er fram undan, tvöföldun Suðurlandsvegar. Landsbankinn er að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar og fleiri fjármálastofnanir að stækka við sig. Grand Hótel er að ljúka byggingu stærsta hótels á Íslandi. Kísilflöguverksmiðja í Helguvík, aflþynnuverksmiðja er að fara af stað á Akureyri. Þar er verið að byggja menningarhús, stækka verslunarmiðstöð, það á að fara að lengja Akureyrarflugvöll og vonandi komast Vaðlaheiðargöng þar í gang og svo framvegis. Með öðrum orðum, fram undan er hrina stórframkvæmda, bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila, og ofan í þetta virðist ríkisstjórnin ætla að bæta þremur, fjórum, fimm risavöxnum álversverkefnum. Hvernig á þetta að rúmast innan hagkerfisins, hæstv. forsætisráðherra? Trúa menn því virkilega enn að það sé bara hægt að láta þetta flæða um dal og hól, að menn geti bara verið í útlöndum og látið þetta sjá um sig sjálft hérna heima? Til hvers er forsætisráðherra í sínu embætti ef hann reynir ekki a.m.k. að sýna lit í hagstjórninni og hvers vegna reynir ríkisstjórnin ekki frekar að vinna með Seðlabankanum en á móti honum eða breytir þá samkomulagi sínu við bankann um þau verðbólguviðmið sem bankinn skal lögum samkvæmt starfa eftir? Það þýðir ekki að kenna aðila úti í bæ, sem er bundinn af lögum frá Alþingi og samkomulagi við ríkisstjórn, um tiltekna hluti að gera ekki eitthvað allt annað. Það er ómaklegt.

Ég vona að hæstv. forsætisráðherra geti gefið okkur einhverjar upplýsingar um það hvernig ríkisstjórnin hyggst á næstunni standa að málum og veitir ekki af því að trúverðugleikaskortur hennar á þessu sviði er á góðri leið með að verða eitt af alvarlegustu efnahagsvandamálum þjóðarinnar.



[13:46]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. málshefjanda varð tíðrætt um eitt atriði í heildarefnahagsmynd okkar Íslendinga, þ.e. stöðu þjóðarbúsins út á við og viðskiptahallann. Ég geri ekki lítið úr því að 25% viðskiptahalli eins og var á síðasta ári er vandamál. Það er reyndar gert ráð fyrir því að hann verði 15% á þessu ári og lækki síðan á næstu árum. En þingmaðurinn lét algjörlega hjá líða að útskýra með hvaða hætti þessi halli er til kominn og hvaða greinarmun verður að gera á fjármálum hins opinbera og hvaða áhrif þau hafa á viðskiptahallann og svo það sem einkafyrirtækin í landinu gera og er auðvitað í okkar tilviki langstærsta skýringin á þeim halla sem um er að ræða í viðskiptum við útlönd.

Hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því eins og allir aðrir að hér ríkir frelsi á fjármagnsmarkaði og fjármálastofnanir og fyrirtæki hafa leyfi til þess að flytja inn fjármagn til þess að fjármagna starfsemi sína, það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að setja tálma á nýjan leik á fjármagnsflutninga á milli landa. Það eru því fyrirtækin í landinu og fjármálastofnanirnar sem hafa stofnað til þeirra skulda sem hv. þingmaður var að fjalla um, vegna þess að allir vita og ég hygg meira að segja að hv. þingmaður viðurkenni það að staða ríkissjóðs að þessu leyti er allt önnur. Það kemur mjög vel fram bæði í fjárlagafrumvarpi og í heftinu um þjóðarbúskap hér, hver staða opinberra fjármála er og með hvaða hætti aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum hefur verið stillt upp við hliðina á peningamálastefnu Seðlabankans. Það verður að gera þennan greinarmun, ríkissjóður er búinn að vera að borga bæði innlendar og erlendar skuldir í mjög ríkum mæli. Hann hefur verið að styrkja stöðu sína og hann hefur notað sitt svigrúm til þess að styrkja og efla Seðlabankann þannig að hann geti brugðist við með öflugri hætti ef á reynir. Þetta hafa menn verið að gera með skipulegum hætti á undanförnum missirum, tekið gjaldeyrislán til þess að efla bankann og lagt honum til aukið eigið fé auk þess sem ríkissjóður hefur byggt upp miklar innstæður í bankanum.

Þetta vita allir sem kynna sér staðreyndir eins og hv. þingmaður sagði, staðreyndir sem hægt er að finna í hagskýrslum og tölum. Það þýðir ekki að skoða bara eitthvert eitt tiltekið atriði og láta eins og önnur atriði skipti ekki máli. Það er staðreynd að hér hefur verið mikill hagvöxtur á undanförnum árum og innlend eftirspurn hefur verið með mesta móti ef við tökum bara undanfarin þrjú ár eða svo. Undanfarin þrjú ár hefur hagvöxturinn í landinu samtals verið um 20%. Svo halda menn að það taki ekkert í, að það reyni ekki á hagkerfið við slíkar aðstæður, 20% hagvöxtur og reyndar meiri, töluvert meiri raunaukning í þjóðarútgjöldunum.

Ég tel hins vegar mjög athyglisvert hvernig okkur hefur tekist að komast áfallalaust í gegnum þessar miklu breytingar og miklu hræringar án teljandi skakkafalla. Eða telja menn það ekki einhvern árangur að meðan aðrar þjóðir hér í nágrannalöndum og víða um heim berjast við böl atvinnuleysisins skuli atvinnuleysi á Íslandi vera nánast ekki neitt? Það er auðvitað vegna þess að hér hefur gengið vel í efnahagsmálum, við höfum þurft að flytja inn vinnuafl í stórum stíl eins og allir þekkja.

Ég hygg, eins og ég sagði í stefnuræðu minni í gærkvöldi, að fram undan sé aukinn stöðugleiki sem m.a. birtist í því að viðskiptahallinn fer minnkandi og leitar jafnvægis, en það mun auðvitað taka nokkur ár að koma honum í fullt jafnvægi. Hv. þingmaður býsnaðist yfir því að á undanförnum 10 eða 15 árum hefði aðeins eitt ár verið afgangur á viðskiptajöfnuði. Ég held að menn verði nú aðeins að kynna sér hagsögu Íslands ef þeir ætla að fara að tala á þessum nótum vegna þess að Íslendingar hafa í gegnum öll ár verið innflytjendur á fjármagni, þeir hafa ekki haft úr nógu miklu að spila hér og þurft að taka lán í útlöndum til þess að byggja sig upp og fjármagna ýmsar fjárfestingar í landinu, þannig að það er ekkert einsdæmi. Það er algjör undantekning, örfá ár síðustu áratugina sem við höfum verið með jákvæðan viðskiptajöfnuð. Auðvitað má segja að það hefði verið æskilegt ef við hefðum verið með það fleiri ár. Við vorum með það 1978, 1984 ef ég man rétt og svo þau ár sem hv. þingmaður nefndi. En almenna reglan er sú að vegna uppbyggingarinnar í þjóðfélaginu og efnahagskerfinu höfum við ekki getað byggt upp afgang á viðskiptajöfnuði nema sem undantekningu.

Ég vildi nefna það hér vegna þess að það skiptir líka mjög miklu máli og það mun koma betur fram á morgun í umræðum um fjárlagafrumvarpið að staða ríkissjóðs er nú með þeim hætti að allir hljóta að fagna því, nema þeir sem af einhverri sérstakri meinbægni sjá ekki ástæðu til þess, að okkur hefur tekist að grynnka þannig á skuldum að nettóstaða ríkissjóðs er orðin þannig að hann á nú eignir í stað skulda. Nettóstaðan er neikvæð hvað varðar skuldirnar og samanlagður afgangur á ríkissjóði á árunum 2004–2008 nemur tæplega 300 milljörðum kr. hvort sem reiknað er með óreglulegum liðum eða ekki, það jafnast út yfir þetta tímabil. Þessi staða hygg ég að sé nær einsdæmi í Evrópu og sýnir að vel hefur verið staðið að málum hér að þessu leyti til á undanförnum árum. (Gripið fram í.) Þessi mikli árangur hefur verið notaður til þess að byggja upp eiginfjárstöðu Seðlabankans auk þeirra eigna sem ríkissjóður á þar inni.

Auðvitað segir það sig sjálft að þetta hefur aukið aðhald í hagstjórninni og stutt við það aðhald sem peningamálastefna veitir. Og ef við tökum áhrif hagsveiflunnar út úr afkomutölum ríkissjóðs er afgangurinn samt 3–5% af landsframleiðslu á árunum 2005–2007. Þess vegna er þetta tal um það — sem er nú frekar hvimleitt — að ríkissjóður og ríkisfjármálin leggi ekki nægilega mikið af mörkum í hagstjórn í landinu, það tal styðst ekki við rök. Og það er alltaf frekar hlægilegt að hlusta á pólitíska aðila sem sí og æ gera kröfur um aukin útgjöld á aðra höndina, koma síðan á hinn bóginn og segja: Það vantar hérna aðhald, það vantar meira aðhald af hálfu ríkisins, það vantar meiri samdrátt í ríkisútgjöldum o.s.frv. Þetta er ekki trúverðugt, svo maður noti nú það orð sem hv. þingmaður notaði hér áðan.

Hins vegar get ég tekið undir ýmislegt af því sem fram kom hjá hv. þingmanni í gærkvöldi hvað varðar íslenska gjaldmiðilinn og kaflann í ræðu hans um það efni. Það er auðvitað ekki hægt að gera því skóna að íslenski gjaldmiðillinn sé eitthvert sérstakt böl í hagkerfi okkar. Ef menn skoða sveiflurnar á honum miðað við sambærilega hávaxtagjaldmiðla eru þær mjög líkar, t.d. á þessu ári. Menn gleyma því alltaf að það eru miklar sveiflur í öðrum gjaldmiðlum, dollari og evra sveiflast hvort á móti öðru og það á við um alla gjaldmiðla, þannig að sú umræða er að mörgu leyti á villigötum að mínu mati.

Aðalatriðið er það, að hvað sem líður viðskiptahalla þá er grunnstaða íslenska þjóðarbúsins alveg gríðarlega sterk og hefur ekki áður verið betri. Það á við um flesta þætti í efnahagsmálum og þess vegna höfum við getað leyft okkur að ráðast í mjög öflugt átak til að byggja upp innviði samfélagsins í samgöngum og á mörgum öðrum sviðum eins og við höfum rætt og farið iðulega yfir hér í sölum Alþingis og því mun verða haldið áfram. Og það er sérstök ástæða til þess núna við þær aðstæður sem uppi eru í sjávarútveginum að halda áfram slíku átaki til þess að byggja upp atvinnutækifærin víða um landið.



[13:56]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Síðasta ríkisstjórn skilaði af sér góðu búi. Viðsnúningur náðist í efnahagslífinu, efnahagsstjórnin var sterk og menn meðvitaðir um að íslenskt efnahagslíf þyrfti að ná magalendingu eftir mikið hagvaxtarskeið. Umsnúningurinn hefur verið slíkur að ríkissjóður er rekinn með miklum afgangi ár eftir ár, kaupmáttaraukning landsmanna er sú mesta og samfelldasta frá lýðveldisstofnun, hagvöxtur hefur verið mikill, landsframleiðslan hefur tekið stórt stökk fram á við samhliða skattalækkunum og nánast útrýmingu atvinnuleysis.

Skuldir ríkissjóðs hafa einnig verið greiddar niður og nú er svo komið að vaxtatekjur ríkissjóðs eru hærri en vaxtagjöld. Þegar framsóknarmenn settust í ríkisstjórn voru vaxtagjöld þriðji hæsti útgjaldaliður ríkisins. Svona mætti lengi halda áfram og það deilir enginn um að árangurinn hefur verið glæsilegur eins og staða ríkisfjármála gefur glöggt til kynna.

Því miður vekja ýmis ummæli forkólfa ríkisstjórnarinnar þann ugg í brjósti mér að á komandi missirum eigi að blása til mikillar veislu og eyða miklu á skömmum tíma. Hvað svo tekur við getur hins vegar orðið önnur saga og öllu óskemmtilegri. Þjóðin þarf síst af öllu á því að halda að tala sig út og suður um mikilvæg efnahagsleg mál. Það að tala íslensku krónuna út í óvissuna, eins og hæstv. viðskiptaráðherra stundar nú, gerir ekkert annað en að valda óvissu á fjármálamörkuðum og veikja annars hina sterku stöðu íslensks fjármálalífs á erlendum vettvangi. Íslenskt efnahagslíf þarf miklu frekar á því að halda að rætt sé um krónuna á faglegan og yfirvegaðan hátt.

Það sem mest kom á óvart eftir síðustu kosningar var hinn nýi Sjálfstæðisflokkur sem mætti til leiks, flokkurinn sem ásamt Framsóknarflokknum sigldi Íslandsskútunni af festu og öryggi hefur nú leyst landfestar án þess að nokkur merki sjáist um mannaferðir um borð. Hæstv. fjármálaráðherra hefur fullyrt að það sé venja að veita forstöðumönnum ríkisstofnana ótakmarkaða yfirdráttarheimild þegar engin heimild finnst í fjárlögum fyrir útgjöldum stofnunarinnar. Nú er boðað í nýjum fjárlögum að sömu forstöðumenn geti fengið lán hjá ríkissjóði ef fjárlagaheimildir duga ekki fyrir rekstri stofnunarinnar. Ekki er getið um hvaða vaxtakjör eiga að vera á þeim lánum og hvað þá viðurlög ef stofnunin endurgreiðir ekki lánið. Gera menn sér fyllilega grein fyrir á hvað er verið að opna í þessum efnum?

Þá koma einnig á óvart órökstuddar fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra um að þenslan í íslensku efnahagslífi sé á undanhaldi. Um leið boðar hann hátt í 20% útgjaldaaukningu frá síðasta fjárlagafrumvarpi, skattalækkanir og lausatök í ríkisfjármálunum.

Þjóðin þarfnast ekki miðilshæfileika þegar kemur að því að stjórna þjóðarskútunni heldur styrkrar framsýnar á hvert hún ætlar sér að sigla. Þau umskipti í efnahagslífinu sem gerðust í ríkisstjórnartíð okkar framsóknarmanna gerðust ekki af sjálfu sér heldur eru þau afleiðing mikillar og markvissrar baráttu frá því að við settumst í ríkisstjórn fyrir 12 árum og síðasta ríkisstjórn íhalds og krata lét af störfum.

Það þarf hins vegar sterk bein til að þola góða daga og það er auðvelt að glutra góðum árangri niður á skömmum tíma. Menn þurfa því að hafa það í huga að ganga hægt um gleðinnar dyr og sýna forsjálni.



[14:01]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Manni er nokkur vandi á höndum að fara inn í þá umræðu sem mér heyrist helst á milli þeirra stjórnarandstöðuflokka sem hafa lýst því yfir að þeir ætli að standa saman í andstöðu sinni við ríkisstjórnina. Mér heyrist umræðan hérna fyrst og fremst vera á milli þessara tveggja flokka, annars vegar dregur forustumaður Vinstri grænna upp mjög dökka mynd af því ástandi sem Framsóknarflokkurinn hefur átt þátt í að skapa sem dregur aftur upp þá mynd að hér hafi allt verið í lukkunnar velstandi þar til núna. Nú muni að sjálfsögðu allt fara á verri veginn af því að Framsókn sé ekki lengur kjölfestan í ríkisstjórninni. Þetta er myndin sem þessir tveir stjórnarandstöðuflokkar draga upp.

Auðvitað er hagstjórn á Íslandi mjög vandasöm. Hún er vandasöm og hefur alltaf verið það. Þetta er lítið hagkerfi og þar af leiðandi hafa stórar fjárfestingar alltaf verulega áhrif á það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í hagkerfinu, ekki síst eftir að flæði fjármagns er orðið frjálst eins og gerðist með aðildinni að EES-samningnum. Það gerir það að verkum að stjórntækin sem við höfum til að takast á við hagstjórnina eru miklu færri. Stórar fjárfestingar, eins og hafa átt sér stað á umliðnum árum, miklar fjárfestingar á okkar íslenska mælikvarða en kannski ekki á erlenda mælikvarða, setja mikið álag á hagstjórnina. Það vissum við, það vitum við og við vitum líka að fara þarf í samstilltar umbætur á öllum sviðum hagstjórnarinnar. Þetta er vandasamt og tímafrekt verkefni vegna þess að ákveðið ójafnvægi hefur sett svip sinn á íslensk efnahagsmál á undanförnum missirum. Við þurfum að stefna að því að draga úr því misvægi á næstu árum.

Vandi hagstjórnarinnar um þessar mundir er ekki síst sá að einhliða beiting stýrivaxta Seðlabankans til að hafa hemil á verðbólgunni — það er eina tækið sem Seðlabankinn hefur — heldur gengi krónunnar háu sem aftur veldur viðskiptahalla. Háir vextir, of mikill vaxtamunur milli Íslands og annarra landa, lágvaxtalanda — við getum tekið Japan, fólk tekur lán í Japan og kaupir skuldabréf á Íslandi á háum vöxtum til að ávaxta sitt pund — dregur skammtímafjármagn til landsins sem einnig heldur uppi genginu. Þetta er vandi hins frjálsa flæðis fjármagns í opnu hagkerfi sem er með sína eigin mynt, ákveðinn vítahringur sem við eigum við að etja.

Formaður Vinstri grænna hjó í Samfylkinguna í gær fyrir að tala um peningamálastefnuna, fyrir að tala um gengismálin og spyr svo: Af hverju er ekki bara breytt samkomulaginu frá því í mars 2001 um verðbólgumarkmið við Seðlabankann? Það er vegna þess að þannig aðhafast stjórnvöld ekki, þau taka ekki geðþóttaákvarðanir um að breyta þessu stýritæki. Áður en ákvörðun yrði tekin um slíkt þyrfti að fara fram mjög vel ígrunduð fagleg umræða eins og gerðist áður en lögunum um Seðlabankann var breytt 2001. Það var ekki gert bara sisvona. Menn fóru yfir það, m.a. nokkrir af okkar bestu hagfræðingum. Ég vísa til greinar sem birtist í Fjármálatíðindum, eftir Arnór Sighvatsson, Má Guðmundsson og Þórarin G. Pétursson, þar sem þeir fóru yfir þá kosti sem við ættum um gengisstefnu fyrir Ísland. Niðurstaða þeirra þá var sú að það væri líklega best fyrir okkur að vera með formlegt verðbólgumarkmið. En eins og þeir sögðu þá þyrfti það ekki að útiloka annað þegar fram liðu stundir. Þeir segja beinlínis þar að það þurfi ekki að útiloka inngöngu í myntbandalag síðar. Það er umræða sem við eigum líka eftir.

Við tökum engar skyndiákvarðanir í þessu efni en við verðum að þora að ræða peningamálastefnuna rétt eins og aðra hluti. Það er ekki boðlegt að formaður Vinstri grænna komi og segi: Af hverju breytum við þá ekki bara samkomulaginu? (Forseti hringir.) Þannig standa menn ekki að málum, hv. þingmaður.



[14:05]
Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Mér þótti það sérkennilegt og tíðindum sæta að hæstv. utanríkisráðherra skyldi gera sérstaka athugasemd við að ágreiningur væri meðal stjórnarandstöðuflokkanna sem kæmi fram og kristallaðist í þessum umræðum. Á sama tíma birtist okkur ágreiningur milli stjórnarflokkanna í afstöðunni til gjaldmiðilsins. Hæstv. forsætisráðherra sagði að íslenski gjaldmiðillinn væri ekki sérstakt böl. Það eru ekki margir dagar síðan hæstv. viðskiptaráðherra lét hafa eftir sér að þetta væri það mikið böl að það kostaði meðalfjölskylduna í kringum 700 þús. kr. á ári. Það er talsvert mikið böl.

Hæstv. utanríkisráðherra segir að við séum í vítahring með gjaldmiðilinn þar sem um er að ræða háa vexti, hávaxtastefnuna sem er afleiðing þess að Seðlabankinn reynir að halda sig innan við verðbólgumarkmið sem hafa verið sett. Það leiðir til þess að við erum með erlendan gjaldmiðil á útsölu sem leiðir síðan aftur til þess sem bent var á í umræðunum að við erum með sívaxandi stórkostlegan viðskiptahalla og erum meðal skuldugustu þjóða í heimi.

Hæstv. utanríkisráðherra talar um að nauðsynlegt sé að taka umræðu um íslenska gjaldmiðilinn og hvert beri að stefna. Að sjálfsögðu er það hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra. Á sama tíma lætur hæstv. forsætisráðherra í það skína að allt sé í himnalagi með þennan ágæta gjaldmiðil, þrátt fyrir að þetta sé minnsti sjálfstæði gjaldmiðill á markaðsgengi, og íslenskan krónan sé eins og korktappi í ólgusjó. Minnstu hræringar á erlendum gjaldeyrismörkuðum geta leitt til þess að heimilin í landinu verði fyrir gríðarlegum búsifjum, jafnvel þannig að horft geti til fjölda gjaldþrota ef veruleg gengisfelling veður vegna aðstæðna sem koma íslenskum efnahagsmálum kannski í sjálfu sér lítið við vegna þess hve tengd þau eru orðin alþjóðaefnahagsmálum. Þar af leiðandi þurfum við að sýna sérstaka aðgát.

Sú hækja sem íslenska krónan styðst við, þ.e. verðtrygging útlána, er hætta sem vofir yfir öllum heimilum í landinu. Það er brýnasta hagsmunamál unga fólksins í landinu að við búum við sambærileg lánakjör og annars staðar á Norðurlöndunum en ekki gjaldmiðil sem þarf að reiða sig á hækju verðtryggingar eins og við höfum í dag. Það er grundvallaratriði að gjaldmiðillinn sé það traustur að hann geti verið lögeyrir í öllum viðskiptum manna en ekki bara þegar um er að ræða viðskipti með kartöflur og mjólk. Hann á líka að vera lögeyrir í lánaviðskiptum.

Það eru mörg hættumerki á ferðinni, viðskiptahallinn er eitt það alvarlegasta. Alvarlegasta atriðið, sem sett getur tálma fyrir fyrirtækin í landinu, tálma á þá möguleika, þá útrásarmöguleika og sköpunarmátt sem býr með ungu fólki og framtakinu í landinu, er að ríkisstjórnin ætlar að efna til meiri veislu en nokkrum hefur áður dottið í hug, að hækka fjárlög frá þeim sem lögð voru fram á síðasta ári um 20%. Af því gætu orðið alvarlegar afleiðingar.

Hæstv. forseti. Ég tel að þar séu komin rök (Forseti hringir.) fyrir því að við þurfum virkilega að gæta að okkur og skera niður ríkisútgjöld frekar en að bæta við.



[14:10]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór skilmerkilega yfir þau hættumerki sem eru á lofti í efnahagsástandinu hér á landi. Ég held að flestum ætti að vera ljóst að efnahagsmálin verða eitt stærsta mál þessa þings. Því er ekki að neita að hér hefur verið þensla, einkum á höfuðborgarsvæðinu og Miðausturlandi sem hefur ekki síst byggst á stóriðjuframkvæmdum þar eystra, hækkandi húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu, sem er orðið með slíkum endemum að venjulegt fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign nær varla endum saman.

Það þarf að slá á þensluna meðan hægt er. Ástandið er mjög viðkvæmt þó að ríkissjóður standi vel og fjármuni ríkissjóðs þarf að nýta skynsamlega og ekki í frekari þenslu- og verðbólguhvetjandi stóriðju og byggingaframkvæmdir, ekki í skattalækkanir sem helst nýtast þeim sem best hafa það heldur í annars konar aðgerðir.

Ég minni á að kjarasamningar eru fram undan. Það skiptir miklu að kjör þeirra sem lægst hafa launin í samfélaginu verði bætt umtalsvert um leið og stoðir velferðarkerfisins og almannaþjónustunnar verði styrktar. Slíkar aðgerðir eru ekki þensluhvetjandi á sama hátt og hreinar framkvæmdir og miða að því að endurheimta efnahagslegan og ekki síður samfélagslegan stöðugleika. Staðreyndin er sú að hér hefur þróunin því miður orðið sú að bil á milli manna og bil á milli launa hefur aukist. Sumir geta baðað sig í gullpeningum eins og Jóakim aðalönd en aðrir geta vart lifað af launum fyrir heiðarlega vinnu. Flótti er brostinn á í leikskólum og á spítölum. Fólkið sem sinnir sjúkum, öldruðum og börnum leitar í önnur störf og heimilin í landinu líða fyrir.

Bilið breikkar smátt og smátt. Um það má helst ekki tala því að þá er maður talinn öfundsjúkur en við verðum hreinlega að tala um það því að launabilið í samfélaginu snýst ekki bara um að sumir hafi meira en aðrir, það snýst um samfélagsgerð okkar Íslendinga. Við höfum átt því láni að fagna að byggja hér eitt samfélag en þegar munur milli manna verður svo mikill, á sama tíma og talað er um nýja þróun í velferðarkerfinu, aukin notendagjöld, aukinn einkarekstur, svo að dæmi sé tekið, horfum við upp á ógnvænlega þróun sem er gliðnun samfélags, eitt alvarlegasta vandamál sem nútímaríki þurfa að takast á við. Gliðnunin stafar ekki bara af því að menn hafi mismikið milli handanna því að einnig er ýtt undir muninn með ólíkri þjónustu innan velferðarkerfisins, fyrsta og annars flokks þjónustu.

Að sjálfsögðu þarf að ræða kjaramálin á ábyrgan hátt. Það þýðir ekki að um leið og nefnt er að hækka laun þeirra lægst launuðu geti menn rokið upp og talað um launaskrið og verðbólgu. Það hljómar eins og hjóm í eyrum þeirra sem minnst hafa í ljósi þess að hér var 8% verðbólga á tímabili í fyrra og enn stendur Seðlabankinn á bremsunni í von um að ná 2,5% verðbólgumarkmiði.

Forseta lýðveldisins varð tíðrætt um samkenndina í samfélaginu hér á þingsetningardaginn. Ég mundi segja að samkenndin í samfélaginu væri eitt stærsta verkefni þessarar ríkisstjórnar. Þegar kjarasamningar eru fram undan skiptir máli að ríkisstjórnin taki pólitíska ábyrgð. Það gengur ekki að drepa málum hér á dreif þegar rætt er um hagstjórn og peningamál með því að ræða bara um gjaldmiðla og hvort taka eigi upp evru eða krónu, þar sem ríkisstjórnin virðist í rauninni hafa verið nokkuð ósamstiga í því máli. Við vitum líka að evra er nokkuð sem tekur mörg ár að taka upp, yrði sú ákvörðun tekin. Því þjónar sú umræða litlum öðrum tilgangi en þeim að draga athyglina frá mun brýnni verkefnum sem varða daginn í dag, manneklunni í umönnunar- og þjónustustörfum og hag fólksins í landinu.

Það þarf að ná tökum á hagstjórninni, slá á þensluna með stöðvun stóriðjuframkvæmda og nýta þá fjármuni sem ríkissjóður hefur yfir að ráða til að bæta kjör hinna lægst launuðu og koma í veg fyrir að samfélagið gliðni hér í sundur í tvö Íslönd, eitt ríkt og annað fátækt.



[14:14]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég rak augun í litla frétt í Fréttablaðinu í morgun. Fyrirsögnin var, með leyfi forseta: „Ísland í 10. sæti.“ Þar var fjallað um niðurstöðu mælingar á vegum Alþjóðabankans á því hvar í heiminum viðskipti ganga auðveldast fyrir sig. Ísland er þar í 10. sæti af 178 ríkjum og í efsta sæti ef aðeins er litið til smærri þjóða. Þetta þykja mér ánægjuleg tíðindi.

Markmið stjórnvalda á liðnum árum hefur verið að koma Íslandi í fremstu röð á meðal þjóða og tryggja að Íslendingar búi við bestu kjör sem völ er á. Þessu verkefni lýkur að sjálfsögðu aldrei. Viðfangsefnin eru fjölmörg og flókin.

Hæglega má viðurkenna að sveiflur í íslensku efnahagslífi að undanförnu hafa verið meiri en æskilegt er. Það hefur gengið á ýmsu undanfarin missiri, enda miklar framkvæmdir í gangi auk þess sem mikill atgangur hefur verið á íbúðalánamarkaðnum. Þetta hefur óneitanlega reynt á þanþol hagstjórnarinnar í landinu. Þess vegna er mikilvægt að færa efnahagslífið nú til meira jafnvægis með hóflegum hagvexti, áframhaldandi vaxandi kaupmætti almennings, minni verðbólgu og viðskiptahalla. Allar vísbendingar sýna að íslenskt efnahagslíf stefnir í átt til jafnvægis og er ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins staðfesting á því.

Í þessum tilgangi er frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008 nú lagt fram með tæplega 31 milljarðs kr. afgangi og er aðhald í ríkisfjármálunum meira en þekkst hefur áður. Fram undan eru rólegri tímar og vísbendingar um að þenslan sem hér hefur verið sé á undanhaldi. Staða ríkissjóðs er afar góð og því sérstaklega ánægjulegt að heyra hæstv. forsætisráðherra boða það í stefnuræðu sinni í gær að íslenskur almenningur og fyrirtækin í landinu eigi að fá að njóta þess beint með frekari lækkun á sköttum.

Það er með ólíkindum að hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu um efnahagsmál sem og í umræðum á Alþingi í gærkvöldi um stefnuræðu forsætisráðherra. Formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs brá þar ekki út af vana sínum. Hann dró upp alla gömlu þreyttu frasana sem hann hefur notað svo ótæpilega í gegnum árin, talaði um andvaraleysi ríkisstjórnarinnar, skort á trúverðugleika, blekkingarleiki, að ógleymdum uppáhaldsfrasanum, hagstjórnarmistökunum sem hann talar um í hvert sinn sem hann fær tækifæri til. Hér á allt að vera í kaldakoli, glasið er algerlega hálftómt eins og vanalega. Einnig blása stjórnarandstæðingar á öll frekari áform um skattalækkanir eins og fyrri daginn. Ég veit satt að segja ekki í hvaða raunveruleika formaðurinn lifir.

Það vita það allir sem fjalla um íslensk efnahagsmál af þekkingu að þegar á heildina er litið getur staða efnahagsmála hér á landi ekki talist annað en býsna góð. Eða vill formaðurinn ekki búa við það ástand í efnahagsmálum að hér sé full atvinna, mikill hagvöxtur, mikill kaupmáttur almennings, hagstætt skattaumhverfi, bullandi uppgangur og gróska í atvinnulífi? Ég get a.m.k. svarað fyrir sjálfa mig að í þannig umhverfi vil ég búa.

Samkvæmt nýlega endurskoðuðum tölum frá Hagstofu Íslands hefur hagvöxtur hér á landi verið samfelldur frá árinu 1993. Spár gera einnig ráð fyrir hagvexti á þessu ári og áfram næstu fjögur ár. Þetta þýðir sem sagt á mannamáli að hér á landi hefur verið samfelldur hagvöxtur í 14 ár í röð og að hér á landi verði samkvæmt spám þá samfelldur hagvöxtur 18 ár í röð. Öruggt er að slík niðurstaða er fáséð annars staðar í heiminum ef nokkur sambærileg dæmi má finna. Ég leyfi mér a.m.k. að fullyrða að ef viðlíka dæmi eru á takteinum er jafnframt öruggt að þá eru þar á ferðinni lönd sem við höfum einfaldlega mikinn áhuga á að bera okkur saman við.

Það er líka nær einsdæmi í heiminum að ríkissjóður sé allt að því skuldlaus en þannig er staðan hér. Það er mikil breyting frá því sem hún var fyrir nokkrum árum eða áratugum þegar ríkissjóður greiddi tugi milljarða kr. í vaxtagjöld af erlendum lánum ríkissjóðs. Það má svo sannarlega gera margt fyrir þessa fjármuni sem áður fór í vaxtakostnað. Þannig hefur verið unnt að styrkja velferðarkerfið meira og betur en annars staðar (Forseti hringir.) hefur verið mögulegt að gera og á þeirri braut ætlum við að vera áfram. Þetta finnst mér vera góð sýn til framtíðar.



[14:18]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þegar nánast sömu stjórnmálaöfl fóru frá fyrir um 12 árum, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur, var atvinnuleysi hér mjög mikið. Um 20. hver vinnufús maður var atvinnulaus á Íslandi og staða efnahagsmála var þá slæm. Nú í vor tóku sömu stjórnmálaöfl við, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Nú er staðan hins vegar önnur. Þessir flokkar taka við einu blómlegasta búi sem um getur í Íslandssögunni. Atvinnuleysi er ekkert og allar hirslur eru fullar fjár þótt það sé rétt sem hér kom fram að við skuldum erlendis og það eru blikur á lofti.

Við framsóknarmenn erum stolt af því að hafa tekið þátt í að skapa þessar kjöraðstæður á sama tíma og okkur tókst að halda uppi öflugu velferðarsamfélagi á Íslandi. Alltaf þarf hins vegar að bæta það, það kemur ný tækni og nýjar kröfur þannig að við munum standa að því að bæta velferðarsamfélagið áfram inn í framtíðina.

Hér var áðan minnst á það að við höfum verið í 10. sæti hvað varðar fjármálamarkað. Ég vil benda á það að við erum í 1. og 2. sæti varðandi heilbrigðismál og það er sá mælikvarði sem helst er notaður við að mæla hvernig staðan er í samfélögum almennt þannig að við getum verið nokkuð stolt af þeirri stöðu. Ríkisstjórnin er því að mínu mati í óskastöðu. Hún sest að dúkuðu borði og hún er líka með ægivald. Af hverju segi ég ægivald? Jú, það er ofurmeirihluti hér á þinginu. Af 63 þingmönnum eru 43 í stjórnarflokkunum, en 20 í stjórnarandstöðu, þ.e. minna en einn þriðji þingheims. Þetta er ægivald.

Hvernig liggja svo þræðirnir í hinu svokallaða fjórða valdi? Fjórða valdið er vald fjölmiðlanna. Hvernig liggja þræðirnir þar? Það er auðvelt að svara því. Þeir sem hafa lesið dagblöðin í morgun geta séð að í leiðara tveggja stærstu dagblaðanna er gefin skýr lína. Hver er sú lína? Það er hægt að draga hana saman, þá línu, hér með því að segja í samandregnu máli: Sjálfstæðisflokkurinn er æðislegur. Hann hefur alltaf verið æðislegur og hann verður æðislegur í framtíðinni. Þetta er sú lína sem fjórða valdið gefur út í dag. Þetta er sú lína sem við höfum auðvitað fundið mörg hver um nokkurt skeið að er að skapast hjá hinu svokallaða fjórða valdi, valdi fjölmiðlanna. Þetta er Ísland í dag.

Eins og fram hefur komið er þenslan eitt helsta vandamálið í efnahagskerfinu í dag. Vextir eru himinháir og eru að sliga mjög marga. Verðbólga er undirliggjandi, atvinnuleysi er ekkert og gengi krónunnar er ekki rétt skráð. Minni fyrirtæki eiga í vandræðum með þessa stöðu. Á þessum tíma eru gefnar út tilkynningar um skattalækkanir og ég leyfi mér að gera athugasemdir við það að ríkisstjórnin er að tala upp þensluna með því að tala alltaf um skattalækkanir. Framsóknarmenn styðja skattalækkanir en við tökum undir með hagfræðingum að rétti tíminn er ekki núna. Hér hefur komið fram að Samfylkingin hefur verið gagnrýnd fyrir að veikja krónuna með því að reyna að tala hana niður og gert það með óábyrgum hætti. Ég vil líka benda á að það er óábyrgt að tala þensluna upp með skattalækkunum þegar við vitum öll hér inni að fram undan eru kjarasamningar og þar eru stórar stéttir, sérstaklega kvennastéttir, sem ætlast til þess með réttu að kaup þeirra verði leiðrétt. Við eigum að reyna að einbeita okkur að því að styðja við það en síðan geta (Forseti hringir.) skattalækkanirnar komið í kjölfarið.



[14:22]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Forsætisráðherra rakti hér ágætlega áðan þann efnahagslega bakgrunn sem hefur leitt til þeirrar stöðu í efnahagsmálum sem við búum við í dag. Það hefur verið mikil uppbygging í landinu og hagvöxtur undanfarin ár, það er mikill hiti í hagkerfinu og við erum í sjálfu sér að fást við þær afleiðingar.

Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. frummælanda, Steingrími J. Sigfússyni, að viðskiptahalli er að sönnu mikill en þó ber að hafa í huga að viðskiptahalli mælir ekki með réttu lagi vægi annars vegar skuldbindinga og hins vegar eigna. Þannig er að við höfum, Íslendingar, tekið fé að láni fé í útlöndum til að kaupa eignir. Sumar af þeim eignum og vonandi sem flestar eru arðberandi en það er rétt að hafa í huga að erlendar eignir eru metnar á bókfærðu verði í þessum samanburði þannig að væntanlega eru þar inni einhver óinnleystur hagnaður en víst er um það að viðskiptahallinn er samt sem áður óþægilega mikill.

Þessi viðskiptahalli og þróun undanfarinna ára hefur leitt af sér verðþrýsting. Við þær aðstæður er Seðlabankanum aðeins einn kostur tiltækur, þ.e. að beita stýrivaxtahækkunum í samræmi við þau meðul sem honum eru tæk. Það hefur Seðlabankinn gert. Þessar stýrivaxtahækkanir hafa hækkað vexti óverðtryggðra skuldbindinga en hafa ekki náð að slá á þensluna að neinu marki. Þetta heitir það sem hagfræðingar kalla að miðlunarkerfi peningamálastefnunnar sé ófullkomið, þ.e. stýrivaxtahækkanirnar hafa ekki þau áhrif sem til er ætlast.

Það er nákvæmlega þessi vandi sem allir hagfræðingar landsins hafa verið að tala um og það er nákvæmlega þessi vandi sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur gert að umtalsefni og hæstv. utanríkisráðherra líka. Það er þessi staðreynd að við búum við þær aðstæður að peningamálastefnan, tækið sem við höfum, hefur ekki náð með fullnægjandi hætti að taka á þessu ástandi. Það er auðvitað ástand sem við verðum að ræða með opnum huga og við verðum að leita bestu lausna. Það kann vel að vera að það séu mögulegar lausnir sem rúmist innan þess gjaldmiðils sem við búum við í dag. Það þarf að ræða, kanna og hugleiða en við búum ekki til það umhverfi um efnahagsmál að ekki megi ræða þær efnahagslegu staðreyndir sem uppi eru á borðinu. Það er með öðrum orðum verkefni stjórnmálamanna að finna faglegri umræðu sem auglýst var eftir hér áðan búning með þeim hætti að við hlustum á fyrirtækin í landinu, á aðila vinnumarkaðarins og leitum leiða til þess að tryggja hér til langframa stöðugleika í landinu. Og það er rétt að hafa í huga að það voru hagfræðingar aðila vinnumarkaðarins sem komu með þær ágætu tölur um kostnaðinn af krónunni sem hér var klifað á að hæstv. viðskiptaráðherra hefði sett fram.

Virðulegi forseti. Málflutningur vinstri grænna er nokkuð undarlegur. Það er ekki bent á eitt einasta úrræði. Eina úrræðið sem hv. frummælandi hefur bent á er að við eigum að koma í veg fyrir frekari stóriðjuframkvæmdir til að vinna bug á þenslunni. Ég ætla að benda hv. frummælanda á að í forsendum fjárlaga er ekki reiknað með neinum stóriðjuframkvæmdum. Þess vegna segi ég enn og aftur: Hver er tilgangurinn með þessari umræðu? Hvaða úrræði býður Vinstri hreyfingin – grænt framboð upp á í efnahagsmálum, hvaða lausnir? Eru það gjaldeyrishöft? Er það afturhvarf til þess tíma þegar við hindruðum fólk í að ráðstafa sínu eigin fé? Eru það lausnirnar sem verið er að bjóða upp á?



[14:26]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í fjarlagafrumvarpi næsta árs er nú gert ráð fyrir betri afkomu en áður voru áætlanir um. Þannig hefur raunþróun verið undanfarin ár að vegna þenslu hafa tekjur ríkissjóðs vaxið mikið. Viðbótin er hreinar þenslutekjur að langmestu leyti. Viðskiptahallinn var 25% árið 2006 en þá var spáð 12% viðskiptahalla. Hann varð sem sagt helmingi meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Varasamt er að trúa því nú að viðskiptahallinn lækki eins og spáð er fyrir næstu ár. Þenslan er til staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu og alls ekki fyrirséð að þar hægi á á næstu árum. Mikil eftirspurn er eftir erlendum verkamönnum, einkum í byggingarvinnu og engin merki um að þar dragi úr aðstreymi erlends vinnuafls. Jafnvel er talið að hátt í 2.000 manns séu í vinnu hér á landi óskráð.

Bankarnir lýsa því að þeir hafi nægt fé til lánveitinga og lausafjárstaða þeirra sé næg án nýrra langtímalána í eitt ár. Væntanlega ætla bankarnir að lána það fé til ávöxtunar og þar komum við að mikilli þenslu í húsbyggingum, einkum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er sem sagt fátt sem bendir til þess að úr þenslunni dragi á þessu svæði.

Í blöðunum í morgun er m.a. umfjöllun eftir Björn Rúnar Guðmundsson, forstöðumann greiningardeildar Landsbankans, sem segir í fyrirsögn: Ekkert hlé í augsýn. Og þegar kíkt er í þessa grein segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hagspá Landsbankans fyrir næstu þrjú ár gerir ráð fyrir því að þegar á næsta ári aukist fjárfesting á nýjan leik eftir mikinn samdrátt á þessu ári. Ekki aðeins er reiknað með áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum heldur liggur fyrir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði verður áfram mikil auk þess sem umfangsmiklar opinberar framkvæmdir standa fyrir dyrum. Þessu til viðbótar má nefna stór verkefni á vegum einkaaðila sem koma til með að standa yfir allt spátímabilið. Það er því ekki að sjá að mikill samdráttur verði í vinnuaflseftirspurn á næstu árum …“ segir hér.

Þetta er alls ekki í samræmi við það sem ríkisstjórnin er að spá um að það hægi á þenslunni.

Þessu er hins vegar öfugt farið á landsbyggðinni. Þar ákveður ríkisstjórnin hörkusamdrátt með vanhugsuðum niðurskurði þorskaflans sem bitnar harkalega á aðalatvinnuveginum, fiskveiðum og -vinnslu með tekjusamdrætti upp á 20 milljarða í atvinnugrein sem er yfirskuldsett.

Einnig var fjallað um skuldir sjávarútvegsins í blöðunum í morgun. Í Morgunblaðinu segir að skuldir sjávarútvegsins hafi vaxið sem aldrei fyrr og stefni í 300 milljarða kr. á sama tíma og aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu taka niður tekjur sjávarútvegsins um 20 milljarða kr. Við erum sem sagt að horfa á það að aðalatvinnuvegur landsbyggðarinnar mun veikjast mjög á komandi árum. Þetta eru mikil hættumerki í þjóðfélagi okkar. Það eru mikil hættumerki þegar annars vegar eru allar horfur á því að þenslan haldi áfram á fullri ferð hér á ákveðnu svæði landsins en annars staðar dragi verulega saman og aðalatvinnuvegur landsbyggðarinnar haldi áfram að safna skuldum. Sýnist mönnum e.t.v. að kvótakerfið hafi eflt byggðina eða sé að því og að því eigi að stefna? Ég held að ríkisstjórnin ætti að fara að hugsa sinn gang almennt í þessum málum.



[14:31]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka þátttöku í henni og hæstv. forsætisráðherra fyrir svör eða ræður skulum við segja, ég man nú ekki hvort þar var miklu svarað.

Ég vil segja við hv. þm. Ragnheiði Árnadóttur að þjóðhagsspáin 2005 spáði því líka að fram undan væru betri tímar og jafnvægi og að þenslan mundi fara minnkandi og viðskiptahallinn minnkandi strax á næsta ári. Tveimur árum síðar stöndum við frammi fyrir því að þróunin varð þveröfug, viðskiptahallinn varð tvöfalt meiri en spáð var. Hvað segir okkur að sömu aðilar geti ekki gert sömu mistökin nú? Gæti verið að við stöndum frammi fyrir krónískri tilhneigingu fjármálaráðuneytisins til að fegra myndina eftir að svo fór að Þjóðhagsstofnun, sem átti að vera sjálfstæð og óháð matsstofnun á þessu sviði, var lögð niður og við verðum aðallega að reiða okkur á þá hluti hvað spár varðar sem koma frá fjármálaráðuneytinu, að minnsta kosti þangað til önnur gögn koma fram síðar í haust.

Ég vil búa við þannig aðstæður að innstæður séu fyrir því sem við eyðum, að við séum ekki að halda veislu núlifandi kynslóða í landinu sem við ætlum börnunum okkar að borga, að vöxturinn sé sjálfbær. Og ég get fullvissað hv. þm. Árna Pál Árnason um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið með tillögur sínar um aðgerðir á þessu sviði á hreinu. Við höfum ein flokka undanfarin þrjú ár flutt hér á Alþingi tillögur um beinar aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, þar á meðal stóriðjustopp sem Samfylkingin tók upp á arma sína fyrir um ári. Hvar er það núna, hv. þingmaður?

Við hæstv. utanríkisráðherra vil ég segja, sem hóf mál sitt á því að ræða um misstemmingar innan stjórnarandstöðu sem kemur úr ólíkum áttum: Af mikilli tillitssemi við fortíð hæstv. utanríkisráðherra minntist ég ekki einu orði á málflutning Samfylkingarinnar um efnahagsmál á fyrra kjörtímabili. Þar eru margar ræðurnar til sem gaman væri að rifja upp.

Hæstv. forsætisráðherra talar um að ekki megi einblína á einn hlut, þ.e. viðskiptahallann. Hann segir að vísu að hann viðurkenni að viðskiptahalli upp á 25% sé vandamál. Ég held að hann hafi ekki sagt „visst vandamál“ en hann gerði ekki mikið úr því að það væri vandamál, og ræddi svo um að ekki mætti einblína á hann og gera yrði greinarmun á hlut hins opinbera og einkaaðila í því. Vissulega. En 25% viðskiptahalli eða þaðan af meira er kominn langt út fyrir öll mörk sem þýðir að ræða um að geti verið sjálfbært.

Hinn frægi viðskiptahalli Bandaríkjanna, hver er hann? Hann hefur verið frá 1% og upp í 6% undanfarin ár, svona að meðaltali 2–4%. Þar er hrein staða Bandaríkjanna innan við 30% af vergri landsframleiðslu í skuldum. Þar ræða menn um hvort þessi viðskiptahalli geti verið sjálfbær en það þýðir ekki hér. Það segir okkur meira að brjóta viðskiptahallann upp og skoða hvað eru fjárfestingar og kaup á framleiðslutækjum og hvað er eyðsla, neysla. Þá kemur í ljós að því miður er aðeins 1/3 hluti þessa gríðarlega viðskiptahalla undanfarin ár fjárfestingar í arðgefandi framleiðslutækjum og fjárfestingum til framtíðar. Afgangurinn er eyðsla þjóðarbúsins umfram það sem verið er að afla. Það er veisla hverrar reikning er verið að senda á framtíðina, það blasir við okkur og þýðir ekki að neita því.

Ég var að vona að einhver svör kæmu frá hæstv. ríkisstjórn um það hvers væri að vænta af hennar hálfu í efnahagsmálum. Hún hefur skilað auðu hingað til. Mín niðurstaða er því miður sú af þessari umræðu að algjör ringulreið ríki á stjórnarheimilinu hvað varðar viðhorf (Forseti hringir.) til þessara mála. Flokkarnir tala út og suður í gjaldeyris- og peningastefnumálum (Forseti hringir.) og ég fékk engan botn í það að ríkisstjórnin sé að ná sér saman um nokkurn skapaðan hlut.



[14:35]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki meint það sem hann sagði um vinnubrögð fjármálaráðuneytisins við að semja þessa skýrslu tvisvar á ári. Hann gaf til kynna að þar væru menn að misnota aðstöðu sína og fegra myndina frá því sem raunin væri. Þetta er mjög alvarlegur áburður á þá sem þessa skýrslu vinna sem eru nú, og hafa verið, toppfagmenn. Málið er auðvitað það að síðan er fjöldinn allur af öðrum aðilum sem gefur út þjóðhagsspár alveg eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi varðandi þjóðhagsspá Landsbankans. Það eru auðvitað ýmsir aðrir sem standa í þessu.

Í töfluyfirlitinu í þessari skýrslu geta menn borið saman mismunandi spár og ráðuneytið birtir hér sjálft yfirlit yfir það hvernig spárnar frá ráðuneytinu hafa breyst í áranna rás. Þær breytast ekki vegna þess að menn hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera á einhverju tímabili heldur vegna þess að forsendurnar breytast og umhverfið breytist. Það er ástæðan fyrir því að þannig er.

Hv. þm. Árni Páll Árnason vakti athygli á veigamiklu atriði í sambandi við viðskiptahallann. Það er náttúrlega þannig að á móti þeim skuldum sem hann býr til myndast eignir og Íslendingar hafa verið að byggja upp miklar eignir í útlöndum. Þær eru í þessu bókhaldi öllu saman metnar á bókfærðu verði, þ.e. kaupverði, þær eru ekki metnar á markaðsverði. Í flestum tilvikum eru því eignirnar sennilega vanmetnar á móti skuldunum og það hefur heilmikil áhrif á þetta uppgjör, en það er líka þannig að þær skuldir sem hér er verið að tala um, og standa að baki viðskiptajöfnuðinum, eru byggðar á viðskiptum einkaaðila sem væntanlega lána ekki fjármuni nema til arðgefandi starfsemi sem þeir þá eiga von á að geti borgað lánin til baka. Það þarf að hafa allt þetta í huga.

Því hefur jafnframt verið haldið fram af ábyrgum aðilum hér í þjóðfélaginu að mikil skekkja sé í þessu dæmi. Ég minni á það sem fram hefur komið, til að mynda frá Samtökum atvinnulífsins, hvað þetta mál varðar.

Nóg um það, ég ætla ekki að gera lítið úr því að viðskiptahallinn er of mikill hvað sem þessu öllu líður. Við höfum verið að byggja hér upp atvinnuvegi í landinu, m.a. með stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi, til þess að auka útflutninginn, til þess að afla gjaldeyris til þess að efla þann jöfnuð sem um er að tefla. Það er búið að flytja mikið inn til þess að geta búið til þessi útflutningstækifæri síðar meir. Hv. frummælandi vék að því, gerði nú heldur lítið úr því, en það er alveg rétt sem hann sagði, að einkaneysla hefur verið mikil í landinu og innflutningur sem af henni hefur stafað. En grunnstoðirnar í íslenskum þjóðarbúskap eru mjög sterkar. Það viðurkenna allir menn, það kemur fram í öllum mælingum sem alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki birta um stöðu okkar og að því er dáðst víða um heim hvernig Íslendingar hafa getað komið ár sinni fyrir borð efnahagslega með sitt litla hagkerfi. Það er móðgun að nefna land eins og Mjanmar eða Laos eða önnur slík lönd í sömu andrá og Ísland hvað varðar efnahagsmál. Það fær náttúrlega ekki staðist með nokkrum hætti, okkar staða er svoleiðis margfalt, margfalt betri en hjá slíkum aðilum og eiginlega fyrir neðan virðingu manna að koma með slíkan samanburð. (Gripið fram í.)