135. löggjafarþing — 3. fundur
 3. október 2007.
umræður utan dagskrár.

mótvægisaðgerðir.

[14:40]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt í upphafi þings að þingið eigi þess kost að ræða við hæstv. forsætisráðherra sem fer með efnahagsstjórnina í ríkisstjórninni og ber þess vegna mikla ábyrgð. Hér hefur farið fram mikil umræða, bæði í gærkvöldi og í dag, um hið þanda hagkerfi og þær hættur sem blasa við og mikilvægt að menn takist á við þá erfiðleika.

Hitt er kannski enn stærra mál sem ég ætla hér að taka upp, það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um niðurskurð á þorskveiðikvótanum og ákveðnar mótvægisaðgerðir sem síðar voru kynntar. Ég er þar að tala um byggðir sem hafa orðið fyrir gríðarlegu áfalli vegna ástandsins á þorskstofninum og þess mikla niðurskurðar sem ákveðinn var. Það eru byggðarlög sem búa ekki við neinn hagvöxt í stærsta stíl. Þau búa ekki við hagvöxt, þar er ekki þensla, þar getur eitt lítið högg, ein lítil ákvörðun, ráðið úrslitum um framtíð fjölskyldunnar á staðnum, um framtíð byggðarlagsins. Þessu gerðu menn sér grein fyrir þegar hið alvarlega ástand þorskstofnsins blasti við. Hins vegar róaði hin góða staða ríkissjóðs menn í byggðunum, hinar miklu tekjur, en fyrst og fremst voru það miklar og stórar yfirlýsingar af hálfu hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni.

Hæstv. forsætisráðherra dáðist að sjávarútvegsráðherra að taka þessa ákvörðun en gat þess gjarnan að ríkisstjórnin mundi fara mjög vel yfir mótvægisaðgerðir til þess að draga úr þessu höggi og byggðirnar gætu beðið eftir stækkandi þorskstofni og gaf útgerðinni fyrirheit um að veiðigjaldið yrði skorið niður í tvö ár, sem ber að þakka hér.

Það var engin spurning að sjávarútvegsráðherra, sem tók verulega stóra ákvörðun, bæði fyrir sína hönd og íslenskrar þjóðar, batt greinilega vonir við að samstaða yrði í ríkisstjórn sinni um marktækar mótvægisaðgerðir.

Með leyfi forseta, sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hinn 23. júlí:

„Hún [þ.e. ríkisstjórnin] ætlar að koma til móts við þau landsvæði þar sem tekjusamdrátturinn verður mestur og við það verður staðið. Þetta er ekki flóknara en það.“

Sannleikurinn er sá að við í stjórnarandstöðunni höfum ekki búið til hin stóru lýsingarorð um aðgerðir ríkisstjórnarinnar frá 12. september þegar mótvægisaðgerðirnar birtust. Það eru stór lýsingarorð sem koma bæði frá fiskverkafólki, sjómönnum, útgerðarmönnum, sveitarstjórnarmönnum úr öllum flokkum í sjávarbyggðum sem hafa lýst mestu vonbrigðum í lífi sínu með þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti. Og sannleikurinn er sá að þær eru auðvitað fyrst og fremst háðulegar, ég hef sagt: Fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús. Hvergi var komið til móts við sjómennina, sem í stórum stíl eru að tapa vinnu sinni, og að litlu leyti gagnvart fiskverkafólkinu. Útgerðin stendur lömuð því að það er mikið tekjufall að missa 15–20 milljarða út úr atvinnuveginum. Við sjáum það í Morgunblaðinu síðast í morgun að sjávarútvegurinn er kannski ekkert mjög vel búinn til að takast á við þessa erfiðleika. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa aukist á tíu árum um 200 milljarða, skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna eru á fjórða hundrað milljarða þannig að þar blasa erfiðleikar við.

Ég vil í upphafi aðeins fara yfir stöðu þorskstofnsins. Hæstv. forsætisráðherra fór upp í Valhöll sl. laugardag til þess að lýsa því yfir að hann hefði ekki getað gengið í þessar harkalegu aðgerðir ef Framsóknarflokkurinn hefði setið í ríkisstjórn. Þetta er hárrétt. „Það hefði verið ófært að skera niður með Framsókn,“ segir hæstv. forsætisráðherra. Við vildum ekki ganga svo langt sem ríkisstjórnin gerði og það er af ákveðnum ástæðum. Hins vegar lá það fyrir í öllum stjórnmálaflokkum, meðal allra vísindamanna og útgerðarmanna að menn töldu miðað við stöðu þorskstofnsins óhjákvæmilegt að ganga til mikils niðurskurðar á fiskveiðiheimildum. Það vildum við líka gera en með öðrum hætti.

Það er engin spurning að þorskstofninn er í alvarlegri stöðu og það þarf að byggja hann upp. Það er stórt og mikið verkefni sem okkur ber að fara í og við erum sammála um. Við vorum lengi að veiða 300–400 þús. tonn, hér var Bretinn inni á miðunum, og við höfum tekið upp verndarkerfi sem er kvótakerfi sem við teljum að sé þannig upp byggt að menn viti hvað þeir eru að gera og taki ekki meira af stofninum þannig að hann verði sjálfbær. En það er mjög alvarlegt hvernig samdrátturinn hefur orðið, hvernig lífsstofn þorsksins hefur minnkað í gegnum áratugina. En auðvitað kemur þetta til með að reyna á kvótakerfið sem við höfum stuðst við. En það er ekki stóra málið í þessu. Við framsóknarmenn töldum að það væri mjög mikilvægt nú um leið og menn skæru niður að þeir áttuðu sig á því að þetta yrði erfitt fyrir sjómennina, fiskverkafólkið, útgerðirnar og byggðirnar og að fara niður í 130 þús. tonn hefði mikil áhrif, ekki bara á þorskstofninn heldur líka á ýsu og ufsa. Þær þrjár tegundir eru á sömu slóð á miðunum og það hefði verið heiðarlegra af hálfu sjávarútvegsráðherra að skera þá niður á móti í þeim tegundum. Þetta getur kallað á brottkast á nýjan leik sem væri mjög alvarleg staða. Sem betur fer hefur á síðustu árum dregið úr umræðunni um brottkastið.

Við framsóknarmenn vildum styðjast við þá ráðgjöf sem Norður-Atlantshafsfiskveiðiráðið lagði til, um 150 þús. tonna niðurskurð. Við töldum það raunhæfan möguleika. Við styðjumst því í tillögum okkar líka við vísindin og teljum að þetta hefði verið miklu heppilegra, bæði út frá þorskstofninum, að síður komi til brottkasts, og líka út frá ýsustofninum og ufsanum. Ég orða það því svo að tillögur okkar voru um skynsamlegan niðurskurð til þess að byggja þorskstofninn upp, kannski á örlítið lengri tíma en þær voru mjög raunhæfar.

Ég tel líka mjög mikilvægt að fara yfir þær mótvægisaðgerðir sem kynntar voru og ná ekki tilætluðum árangri. Ég ætla ekki að minnast á lýsingarorðin sem komu frá byggðunum. Það eru mikil vonbrigði og þegar er farið að segja upp hundruðum starfsmanna og hundruð sjómanna munu missa starf sitt, það verður mikill samdráttur. Menn munu selja skip frá byggðunum og sjá ekki að tillögur ríkisstjórnarinnar muni leysa vandann.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort til greina komi að endurskoða þessar aðgerðir, marka þær betur, til hverra þær fari og til hvers því að margt er enn ósagt í þeim efnum af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig úthlutun er varið.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. forsætisráðherra því að allir eru sammála um að meira fjármagn þurfi til hafrannsókna: Deilt er um togararallið, sjómenn töldu á síðasta vetri að það væri mikill þorskur í sjónum og benti margt til þess að þorskstofninn væri stækkandi. Þetta kom þeim því á óvart og því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji að í mótvægisaðgerðunum eigi ekki að leggja meiri áherslu á vísindin og rannsóknirnar. Deilt er um ákvörðun Hafrannsóknastofnunar. Frá 1984 hefur togararallið verið á sama stað og sama tíma. Sjómennirnir segja að fiskurinn sé farinn af þeirri slóð og annars staðar. Menn sjá nýjar tegundir þorsks í sjónum, eða að þorskurinn sé fleiri en ein tegund, þannig að ég hefði talið eðlilegt að Háskóli Íslands, (Forseti hringir.) með líffræðiþekkingu og verkfræðiþekkingu, kæmi inn í hafrannsóknirnar. Ég spyr (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra hvort hann vilji stuðla að því. Enn fremur spyr ég hvort hann telji ekki mikilvægt við þessar aðstæður að stórefla þorskeldi á Íslandi og hvort ríkisvaldið með sína góðu stöðu eigi ekki að koma inn í það með atvinnulífinu (Forseti hringir.) til að efla framtíðina á landsbyggðinni og forustuhlutverk íslenskrar þjóðar.



[14:50]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þessum síðustu spurningum hv. þingmanns liggur það fyrir að það er hluti af mótvægisaðgerðunum að efla Hafrannsóknastofnun, það er verið að setja meira fjármagn í þorskeldi og það er verið að setja meira fjármagn í samkeppnissjóði til að fleiri geti lagt stund á nauðsynlegar rannsóknir á þessu sviði. Ég veit ekki annað en að samstarfið milli Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar um þessi mál sé mjög gott, auk þess sem leitað er reglulega út fyrir landsteinana eftir ráðgjöf sem hefur í hvívetna staðfest niðurstöður Hafrannsóknastofnunar varðandi ástand þorskstofnsins. Það er einmitt ástæðan fyrir því að sjávarútvegsráðherra tók þá ákvörðun með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar að draga úr heimildum í þorskveiðum um þriðjung á næsta ári. Vissulega var það sársaukafull og erfið ákvörðun. Hún hefur verið rökstudd ítarlega af hans hálfu og okkar í ríkisstjórninni og ég ætla ekki að fara nánar yfir þau mál en hugmyndin með þessu og meiningin er auðvitað sú að byggja upp þorskstofninn til framtíðar, til þess að byggðarlögin í landinu, útgerðarstaðirnir, sjómennirnir og landverkafólkið, geti haft örugga atvinnu af þessu þegar fram líða stundir. Menn taka hér á sig tímabundna fórn.

Þá vaknar spurningin: Hver er þörfin fyrir mótvægisaðgerðir? Hugmyndin með þeim er auðvitað sú að þessir aðilar geti bjargað sér með slíkri aðstoð í gegnum þá erfiðleika sem nú eru fram undan næstu 2–3 árin, að gerðar séu ráðstafanir til að þessir aðilar og þessi byggðarlög koðni ekki niður á meðan. Síðan er þess vænst að þorskstofninn rétti sig af og þá fái þessir aðilar á ný möguleika á að blómstra. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að þeir sem nú færa fórnir og missa aflaheimildir fái þær til baka þegar ástandið batnar. Þess vegna var ákveðið að ráðast í þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið. Þær eru kannski svolítið öðruvísi en Framsóknarflokkurinn hefði viljað. Ég sé það í fréttatilkynningu Framsóknarflokksins að hann vill frekar vera upp á gamla móðinn í þessu, stofna sjóði og rétta mönnum aura með beinum hætti eins og stundum var gert á árum áður með hörmulegum árangri.

Hvers vegna var ákveðið að ráðast í þessar mótvægisaðgerðir? Það er vegna þess að án aðkomu stjórnvalda hefðu verið meiri líkur á því að þessar aðstæður hefðu getað riðið byggðarlögunum að fullu. Með aðgerðum stjórnvalda er verið að auðvelda þeim að komast í gegnum þessar þrengingar. Jafnframt eru þessar aðgerðir lagðar upp á þann hátt að það er ekki tjaldað til einnar nætur, heldur haft að markmiði að styrkja stöðu sjávarbyggðanna til framtíðar og skjóta fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið, m.a. með því að byggja upp vegi og fjarskipti.

Samtals verður um 6,5 milljörðum varið á næstu þremur árum til fjölmargra nýrra verkefna sem ætlað er að styðja atvinnulíf í sjávarbyggðunum og koma til móts við sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélög vegna tímabundins samdráttar í tekjum. Þar til viðbótar verður framkvæmdum í samgöngum fyrir ríflega 4 milljarða kr. flýtt og verða þær unnar á næstu þremur árum til viðbótar við þá miklu aukningu sem er í fjárlagafrumvarpi næsta árs vegna samgöngumála og ég hygg að fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins þekki mætavel til. Næsta ár, miðað við fjárlagafrumvarpið, verður algjört metár í samgönguframkvæmdum.

Auðvitað er ljóst að þessar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt sem mótvægisaðgerðir koma ekki nákvæmlega í staðinn fyrir 60 þús. tonn af þorskafla en þær eiga til lengri tíma litið að stuðla að því að byggðirnar standi styrkari eftir en áður með fjölbreyttara atvinnulíf. Ég vil nota þetta tækifæri til að skýra aðeins nánar frá helstu aðgerðunum sem þarna er um að tefla. Aðgerðum til skamms tíma er ætlað að koma til móts við fyrirsjáanlegt tekjutap útgerðar og sveitarfélaga. Veiðigjald vegna þorskveiða næstu tveggja fiskveiðiára, samtals um 550 millj. kr., er fellt niður og ég fagna undirtektum hv. þingmanns við þeirri ráðstöfun. Létt verður á skuldum Byggðastofnunar um 1.200 millj. kr. og stofnunin verður því betur í stakk búin til að liðsinna sjávarútvegsfyrirtækjum í þessum byggðarlögum í samvinnu við lánastofnanir þeirra.

Það er rétt að vekja athygli á því sem ég sagði hér í gær, að vegna breytinga í fjármálaumhverfinu og einkavæðingar bankanna eru bankarnir í dag allt aðrar stofnanir en þeir voru og miklu betur í stakk búnir til að koma til móts við viðskiptavini sína úti á landi í þessum tímabundnu erfiðleikum. Þessu til viðbótar verður 750 millj. kr. varið til að koma til móts við minnkandi tekjur sveitarfélaga vegna aflasamdráttar. Megináherslan er hins vegar lögð á að efla grunnstoðir atvinnulífsins í sjávarbyggðunum þannig að þær verði betur í stakk búnar til að bregðast við óvæntum tímabundnum ytri áföllum í framtíðinni. Það er lögð áhersla á að auka tækifæri í menntun og að bæta stöðu þeirra sem hingað til hafa haft takmarkaða möguleika á vinnumarkaði. Framtíðarmöguleikar einstakra staða byggjast mjög á því að þar búi fólk sem aflað hefur sér menntunar og náms- og starfsþjálfunar. Það helst í hendur við að þar geti orðið til störf í nútímasamfélagi. Þess vegna verður ráðist í sérstök átaksverkefni til að treysta atvinnuuppbyggingu á þessum svæðum, m.a. gert með auknum framlögum til atvinnuþróunarstarfs og atvinnuþróunarfélaga í einstökum landshlutum og þar m.a. byggt á því ágæta starfi sem fyrrverandi iðnaðar- og byggðamálaráðherra hafði frumkvæði að, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir.

Það skiptir miklu að efla nýsköpun í starfandi fyrirtækjum og að auðvelda nýsköpun á meðal frumkvöðla. Það verður þó ætíð að hafa hugfast að árangur af aðgerðum stjórnvalda á þessu sviði hlýtur að byggjast mjög á frumkvæði heimamanna.

Góðar samgöngur og fjarskipti eru mikilvægar forsendur fyrir nútímaatvinnustarfsemi á þessum svæðum. Það er m.a. vegna þess sem vegaframkvæmdum verður flýtt og sömuleiðis verður uppbyggingu í fjarskiptaþjónustu hraðað, jafnt farsímaþjónustu sem háhraðatengingum, og var þó þegar ákveðið verulegt átak í því efni eins og þingmenn þekkja. Fjarskiptasjóður hefur unnið mjög ötullega að því máli eftir að honum var komið á laggirnar þegar búið var að einkavæða Símann.

Það verður líka gert sérstakt átak í viðhaldi opinberra bygginga. Það er þekkt að vinnuaflið sem þar á í hlut er gjarnan menn sem ella hefðu kannski verið á sjó og þess vegna er þetta vel til fundin aðgerð við þessar aðstæður.

Einnig verður efldur stuðningur við jarðhitaleit á þeim svæðum sem hingað til hafa verið talin köld. Náðst hefur góður árangur víða vegna slíks átaks og við í fyrrverandi ríkisstjórn beittum okkur fyrir þessu og því verður haldið áfram með sérstökum viðbótarfjármunum. Ég vil síðan geta þess sem fram kom í upphafi máls míns að stjórnvöld hafa þegar lagt línurnar að eflingu hafrannsókna og þess mun sjá stað í fjárlögum næsta árs, vænti ég, nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga. Jafnvel þegar á þessu ári má gera ráð fyrir að gerð verði tillaga um viðbótarfjármuni í fjáraukalögum. Jafnframt fær hópur sérfræðinga það verkefni að leggja mat á veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og það verður farið yfir fyrirkomulag togararallsins og gerðar tillögur um úrbætur og að sjálfsögðu hlustað á alla sem hafa eitthvað fram að færa hvað það varðar. Þeir eru margir sem þekkja vel til á þessu sviði.

Af þessu má ljóst vera að mótvægisaðgerðir stjórnvalda hafa breiða skírskotun og ná til allra þeirra þátta sem mestu skipta til að treysta sjávarbyggðir og auðlindir þjóðarinnar í hafinu. Það skýtur því skökku við þegar þingflokkur framsóknarmanna telur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gangi ekki nærri nógu langt og þær gagnist ekki þeim sem fyrir mestum áföllum verða. Hins vegar hafa aðrir aðilar í þjóðfélaginu gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að ganga of langt í þessum efnum og fyrir að vera yfir höfuð með aðgerðir af þessi tagi þegar ekkert atvinnuleysi er í landinu. Ég tel mig hafa útskýrt hvers vegna þetta eru nauðsynlegar aðgerðir og við teljum að við höfum einmitt náð að setja saman markvissan pakka með aðgerðum sem gagnast mest þeim sem þarna eiga hlut að máli og munu gera það hratt og örugglega og séu hæfilega víðtækar án þess þó að valda þenslu í efnahagslífinu og séu innan skynsamlegra marka að því leyti til.



[15:00]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Fyrir síðustu kosningar lofuðu allir stjórnmálaflokkar að jafna samkeppnisstöðu og kjör íbúa landsins óháð búsetu. Heilu byggðirnar hafa verið í þeirri stöðu að vera fyrst og fremst veitendur en ekki þiggjendur samfélagsins. Þar á ég við sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið þar sem vinnufúsar hendur, hugvit og kraftur einstaklinga og samfélaga í nálæg gjöful fiskimið hafa lagt grunn að því velferðarkerfi sem við búum við í dag.

En hvar eru loforðin? Hvar eru loforðin um strandsiglingar, um jafnrétti í fjarskiptamálum, jöfnun flutningskostnaðar, lækkun raforkuverðs sem ítrekað hefur verið lofað? Ég veit af fólki í ferðaþjónustu sem mátti búa við það að Síminn var bilaður í meira en tvær vikur um háannatímann. Það var búið að einkavæða Símann. Hann hafði engar samfélagsskyldur. Einkavæðing almannaþjónustunnar hefur bitnað hart á samfélögum í dreifbýlinu.

Vegaframkvæmdir voru skornar niður á síðasta kjörtímabili, liðlega 6 milljarðar kr., sérstaklega á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Vegna þenslu á suðausturhorninu var sagt. Nú eru það kallaðar mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskheimildum að taka nokkuð af þessum niðurskurði til baka.

Ef rætt er um að flytja opinbert starf út á land eða byggja upp nýja þjónustu er spurt: Hvað leggur sveitarfélagið á móti? Er spurt að því hér?

Já, misréttið er alveg hrópandi. Álver sem varla er tekið til starfa býður íbúum á Vestfjörðum ókeypis flutning og flutningsstyrki. Það sama álver fær hins vegar raforkuna á liðlega krónu, eða hvað, meðan fiskvinnslan, þessi stóra atvinnugrein íslensku þjóðarinnar verður að borga fimm- eða sexfalt raforkuverð miðað við álverin. Er þetta jafnrétti? Og nú ætla stjórnvöld að hafa nákvæmlega sama háttinn á að bjóða fólki flutningsstyrk. Það hafa verið nefndar 200 þús. kr. til að yfirgefa allt sitt og flytja burt af þessum svæðum. Þegar flutningar til Vesturheims stóðu sem hæst, um 1880, voru dæmi um það að opinberir aðilar buðust til að greiða skipsfarið vestur um, sérstaklega þegar þeir óttuðust að fólkið lenti á sveit. Eru það þessir tímar sem eiga að koma aftur með þeirri ríkisstjórn sem nú situr hér?

Sveitarfélögin tóku frumkvæðið, sendu tillögur inn um aðgerðir sem þau vildu grípa til. Þau voru ekki virt viðlits. Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra hafa beðið um starfshóp með ríkisstjórninni um málefni sín. Þau hafa ekki verið virt svars. Það þarf fullkomna hugarfarsbreytingu, frú forseti, hjá stjórnvöldum til atvinnu- og byggða- og búsetumála í landinu.

Mér kæmi ekki á óvart þótt forseti lýðveldisins hafi einmitt lesið svokallaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar og þær hafi gefið honum tilefni til ræðu hér sl. mánudag. Ákall forseta lýðveldisins til þingsins um að taka á málum byggðanna vítt og breitt um landið, hann kallaði á hugarfarsbreytingu. Þess er ekki að sjá stað hér og ekki að sjá stað í mótvægisaðgerðunum. Ég leyfi mér, frú forseti, að vitna til orða forseta lýðveldisins í ákalli til þingsins um þetta mál, um framtíð byggðanna, með leyfi forseta:

„Framtíð þessara byggða vítt og breitt um landið allt verður því aldrei hægt að meta á arðsemiskvarðann einan, né árangurinn aðeins mældur í ársreikningum. Hér er meira en fjárhagur í húfi — öllu heldur sjálfar rætur þjóðarinnar, uppruni okkar og eðlisþættir.“

Höfum þetta í huga, frú forseti.



[15:04]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason sagði að það þyrfti fullkomna hugarfarsbreytingu gagnvart byggðum og byggðamálum. Ég er sammála því. Ég held hins vegar að sá sem þurfi helst á slíkri hugarfarsbreytingu að halda sé hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. Ég verð að segja það um leið og ég þakka honum fyrir að taka þetta mikilvæga mál til umræðu að ég sakna þess bjartsýna baráttumanns sem áður gekk hér keikur um sali. Í staðinn er kominn formaður Framsóknarflokks sem er fullur af bölmóð, fastur í pólitísku þunglyndi og sér ekki til sólar. Við þekkjum það hins vegar sum af eigin reynslu, við sem höfum gengið í gegnum þennan djúpa dal sem hann er í núna, að á meðan forustumenn stjórnmálaflokka tala af slíkri vantrú á landsbyggðina og vantrú á sína eigin þjóð þá eru þeir um leið að tala niður fylgi síns eigin flokks. Það var töluverður munur á ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og formanns Framsóknarflokksins hérna áðan og kannski er það skýringin á því að Vinstri grænir hafa verið að eflast á kostnað Framsóknarflokksins sem hefur undir bölmóðstauti formannsins tapað um fjórðungi fylgisins á örskömmum tíma.

Frú forseti. Það er því alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að það þarf hugarfarsbreytingu. En hennar sér stað í þeim rauðu þráðum sem renna í gegnum mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Á hvað leggur ríkisstjórnin áherslu? Á að efla grunngerðina. Á að bæta innviðina og það felst í því eins og allar ályktanir sveitarstjórnar lögðu fram: bæta samgöngur, bæta menntun, bæta fjarskipti og ýta undir nýsköpun starfa á landsbyggðinni. Það er þetta sem hefur verið gert. Það hafa verið lagðir fimm, fast að sex milljarðar í að flýta samgöngubótum á landsbyggðinni, þessi svæði hafa forgang, skiptir það ekki máli? Það hafa verið lagðar 800 millj. í að bæta endurmenntun og menntastig landsbyggðarinnar? Skiptir það ekki máli?

Það hafa verið settar 500 millj. í að efla hafrannsóknir og efla rannsóknir á þorskeldi þegar teknar eru þær upphæðir sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu og í mótvægistillögunum. En það er eins og hv. þm. Guðni Ágústsson hafi ekki lesið tillögurnar.

Það eru næstum því 600 millj. sem eru teknar til að efla nýsköpun á landsbyggðinni. Það eru settar 180 millj. kr. í vaxtarsamning á landsbyggðinni, þar á meðal á Norðurlandi vestra þar sem Framsóknarflokkurinn beiddi upp í fyrra og á norðausturhorninu þar sem Framsóknarflokkurinn hafði greinilega engan sérstakan áhuga á því að setja upp vaxtarsamning. Svona mætti lengi telja.

Í fjölmiðlum hefur formaður Framsóknarflokksins farið háðulegum orðum um aðgerðir sem kosta samtals í nýjum útgjöldum 6,5 milljarða. Samtals eru hreyfðir fast að 13 milljörðum. Hann hefur kallað þetta mús, hann hefur kallað þetta fúsk, hann hefur kallað þetta vitleysu og hann hefur kallað þetta plat. Hann kvartar meira að segja undan því og stillir sér upp með stórútgerðarvaldinu að það fái ekki nóg í sinn hlut. Það fær þó 500 millj. kr. sem eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði í gær að væri umdeilanlegt og það er það. Hann gefur ekkert fyrir þó að Byggðastofnun sé reist úr þeirri öskustó sem Framsóknarflokkurinn skildi hana eftir í. Hlustaði hv. þingmaður á fréttir í gær? Byggðastofnun er þegar farin að vinna sitt verk. Það er verið að búa til 25–30 störf á Ísafirði fyrir atbeina Byggðastofnunar. Formaður Framsóknarflokksins hefur greinilega ekki lesið heima sem er sjaldgæft. Þær tillögur sem hann hefur verið að berjast fyrir eru allar utan eina að finna í tillögum ríkisstjórnarinnar. Svo einfalt er það nú, hv. formaður, og óska ég honum nú góðs dags og meiri bjartsýni í framtíðinni.



[15:08]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra fer mikinn. (Gripið fram í: Iðnaðarráðherra.) Iðnaðarráðherra, fyrirgefðu. Þetta var nú einu sinni sama ráðuneytið. En burt séð frá því ætluðum við að tala um mótvægisaðgerðir og ef hann heldur að viðhald á opinberum byggingum, 1.200 milljarðar í Byggðastofnun, lagfæring á fjarskiptasambandi sem var lofað þegar Síminn var seldur og 6 milljarðar í flýtiframkvæmdir í samgöngumál (Gripið fram í: En í nýsköpun og menntun?) og síðan einhverjir smáaurar í menntun nýtist fólki í sjávarbyggðunum, sem það gerir ekki, hvorki sjómönnum né fiskvinnslufólki, þá er það svolítið sorglegt að menn haldi að slíkar aðgerðir séu fyrir fólkið. Það eina sem dugar fyrir fólkið í sjávarbyggðunum er að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og það væri gaman að heyra í ráðherranum með það hvort Samfylkingin ætlar að halda óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfinu áfram eða hvort þeir ætla að leggjast á sveif með okkur um að gera breytingar á þessu kerfi sem er að leggja, og búið að leggja sjávarbyggðirnar í rúst. Það er það sem þetta snýst um, hæstv. ráðherra.

Frú forseti. Ég benti á það í gær að ef við settum allan fiskinn á fiskmarkað þá mundu tekjur sjómanna hækka. Þá mundu tekjur sveitarfélaga hækka, þá mundi tekjuskattur hækka og fiskvinnslur án útgerðar fengju sama aðgang að auðlindinni og stórsægreifakompaníin fá í dag. Þetta er raunhæf aðgerð. En allt snýst þetta um fólkið, það er fólkið sem skiptir máli. Sá félagslegi þáttur sem fólkið býr við þegar búið er að rústa möguleikum þess að hafa lifibrauð sitt í sjávarbyggðunum er mjög alvarlegur. Og að bjóða svo þessu fólki flutningsstyrk til að flytja sig í burtu, það er náttúrlega ekkert annað en ósvífni. Ef bjóða á fólkinu einhverja valkosti og ef stjórnvöld ætla að halda þessu fiskveiðistjórnarkerfi áfram þá eiga þau að segja við fólkið í landinu: Við ætlum að borga ykkur sannvirði, rétt verð fyrir fasteignir ykkar og gefa ykkur tækifæri til að flytja í burtu vegna þess að við ætlum að vera með óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi og við ætlum ekki að leyfa ykkur að lifa áfram af nálægð ykkar við fiskimiðin sem byggðarlög ykkar voru byggð upp út af. Þau voru nálægt fiskimiðum. Þið fáið ekki að nýta þau lengur. Við ætlum að láta aðra sjá um þetta, kvótagjafaþegarnir sem fengu kvótann gefins mega hafa hann en ekki fólkið. Það væri gaman að heyra í hæstv. iðnaðarráðherra um hvað Samfylkingin ætlar að gera í þessu. Það er hægt að gera ýmislegt en til þess þarf kjark. En það er ekki gróska í atvinnulífinu úti á landi og við þurfum ekki að fara lengra en í Þorlákshöfn til að sjá það. Þar er verið að segja upp fólki í stórum stíl og þar er verið að leggja skipum og jafnvel miklar blikur á lofti um enn þá meiri samdrátt og fækkun atvinnutækifæra.



[15:13]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Íslenskar sjávarbyggðir hafa trúlega aldrei glímt við eins alvarleg vandamál og nú um stundir í framhaldi af mjög umdeildri ákvörðun sem ríkisstjórnin tók um samdrátt í þorskveiðum Íslendinga. Það beið því mjög metnaðarfullt verkefni nýlegrar ríkisstjórnar um að taka á þeim miklu vandamálum og þar hefði þurft að vanda mjög vel til verksins. Það er því undarlegt að ríkisstjórn sem gefur sig út fyrir að vera ríkisstjórn samræðu og samráðs skuli hafa viðhaft það verklag sem raun ber nú vitni. Ekkert samráð hafði ríkisstjórnin við útvegsmenn, við sjómenn, við fiskvinnslufólkið, hvað þá við sveitarfélögin, sjávarbyggðirnar sem glíma við stærstu vandamál í sögunni.

Hæstv. forseti. Ekki skorti á yfirlýsingarnar hjá hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni um þær mótvægisaðgerðir sem átti að kynna áður en þing kæmi saman, þær yrðu flottar. En að öllum öðrum ólöstuðum átti hæstv. iðnaðarráðherra mestan þátt þar í máli með mjög digrum yfirlýsingum á sumarmánuðum. Það átti að flytja 80 opinber störf á Vestfirði. Glæsilegustu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar. Hvar eru þessi 80 störf í dag? Hafa þau litið dagsins ljós? Hvað með aðra landshluta sem glíma við sambærileg vandamál og Vestfirðir? Eiga þau svæði ekki rétt líka á því að opinber störf verði sett í viðkomandi byggðarlög?

Hæstv. forseti. Það er ljótur leikur sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur leikið. Hann hefur nefnilega vakið upp væntingar í hinum dreifðu byggðum. Ríkisstjórnin hefur svikið sjávarbyggðirnar. En hverjar eru hinar raunverulegu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar? Jú, Samfylkingin er að vinna að því með samþykki sjálfstæðismanna að gera tillögur sem eru alger uppgjöf fyrir vandanum. Það á að borga fólki fyrir að flytja úr sjávarbyggðunum. Það á að borga fólkinu, alger uppgjöf fyrir vandanum. Og hvað kemur svo í ljós í fjárlagafrumvarpinu sem hin nýja glæsilega ríkisstjórn hefur kynnt? Það á að afnema flutningsjöfnun á olíu og bensíni. Hvers lags skilaboð eru það til hinna dreifðu byggða? Flutningsjöfnunarsjóður hefur greitt bensín Þórshafnarbúa niður um 3,30 kr. Þó er verðið þar miklu hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Dísilolíuna niður um 2,20 kr. Var verðið á eldsneyti á landsbyggðinni ekki nógu hátt fyrir? Hvers lags aðgerðir eru þetta sem ríkisstjórnin er að boða hér? Sem þingmaður allrar þjóðarinnar, landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins get ég ekki setið þegjandi undir þessu. Við getum ekki aukið óréttmætið og gliðnunina á milli þjóðfélagshópa hér með þeim hætti sem raun ber vitni. Og það er í raun og veru ótrúlegt að ný ríkisstjórn skuli telja að það eigi að vera forgangsmál að hækka eldsneytisverð á landsbyggðinni.

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra kom í umræðuna og sagði að Framsóknarflokkurinn hefði vantrú á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Fjármálaráðherra.) Tillögur Framsóknarflokksins á mótvægisaðgerðum, raunverulegum mótvægisaðgerðum sýna að Framsóknarflokkurinn hefur trú á landsbyggðinni. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar mikla vantrú á þeirri ríkisstjórn sem nú er að hefja störf.



[15:17]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það var athyglisvert að fylgjast með umræðum hér í dag um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Það eina sem vinstri grænir tala um er skortur á samráði við sveitarfélögin. (Gripið fram í.) Ég efast um að meira samráð hafi verið haft við sveitarfélögin í öðrum málum á undanförnum árum en gert var í þessu máli. Nánast hvert einasta sveitarfélag sem þetta mál snertir hefur sent inn tillögur til ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) sem farið hefur verið eftir og tillit tekið til.

Það eina sem Grétar Mar Jónsson hefur til málanna að leggja eru fullyrðingar og gífuryrði um að þessi aðgerðin eða hin gagnist ekki þessum eða hinum. Ég leyfi mér að fullyrða að hv. þingmaður veit nákvæmlega ekkert um hvað hann er að tala. Allar þessar aðgerðir gagnast einhverjum af þeim sem í hlut eiga.

Framsóknarflokkurinn, sem er nýstiginn út úr ríkisstjórn, kemur hins vegar mjög sterkur til leiks miðað við aðra flokka stjórnarandstöðunnar. Hann setur fram tillögur, mér liggur við að segja fullbúnar tillögur, sem hann leggur með sér í umræðuna. Ekki er annað hægt að segja um þær tillögur en að þær séu að flestu leyti ágætar enda eru þær allar í sama dúr og tillögur ríkisstjórnarinnar, fjalla um nákvæmlega sömu atriði og tillögur ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar eru þær á sama veg og maður hefur margsinnis áður upplifað hjá stjórnarandstöðunni, eini munurinn á þeim og tillögum ríkisstjórnarinnar er að þar er um að ræða yfirboð. Á sama tíma talar fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd um það að ríkisstjórnin komi fram með þenslufjárlög.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson telur ákvarðanirnar mjög umdeildar. Hann er greinilega ekki á sama máli og formaður flokksins sem sagði: Við vildum líka ganga til mikils niðurskurðar, bara ekki alveg á sama hátt og ríkisstjórnin vildi gera. Greinilega ekki alveg sami taktur hjá þeim félögum og ég kannaðist við áður. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði líka um flutningssjóð olíuvara, að hann skipti máli í þessu sambandi vegna þess að verið er að gera breytingar á honum í fjárlagafrumvarpinu.

Fyrir einum þremur árum stóðum við saman að því að leggja niður svipaðan sjóð um flutningsjöfnun á sementi. Það tókst ágætlega og flutningsverð og verð á sementi lækkaði við þá breytingu. (JBjarn: Á Vestfjörðum? Nei.) Við skulum sjá til hvort sú aðgerð sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu hefur ekki sömu áhrif.

Þær tillögur og þær aðgerðir sem lagt er upp með til að vega upp á móti þorskniðurskurði eru vel ígrundaðar, þær hafa ákveðin markmið. Markmiðin eru þau að hjálpa þeim sem verða fyrir þessum breytingum, hjálpa þeim að fá ný störf, hjálpa þeim til að búa sig undir ný störf og hjálpa sveitarfélögunum til að skapa ný störf í byggðarlögunum og viðhalda því framkvæmdastigi og þeirri þjónustu sem þar þarf að vera þrátt fyrir niðurskurðinn. Við skulum vona að okkur takist að lögfesta tillögurnar tímanlega á þessu þingi til þess að þær geti farið í gang og þá geta þær — jafnvel þó að að einhverju leyti sé meiningarmunur um magn á milli ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins — (Forseti hringir.) farið að hafa áhrif í þá veru sem við erum sammála um.



[15:21]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Fyrir allmörgum árum sagði mér margfróð kona að Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, hefði lýst því yfir í upphafi ríkisstjórnarferils síns 1991 að byggðastyrkir væru ekki á dagskrá ríkisstjórnar hans. Við það fyrirheit hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið upp á punkt og prik í fjögur kjörtímabil.

En landsbyggðarfólk er hvorki að biðja um styrki né ölmusu. Það krefst þess einungis að sitja við sama borð og aðrir landsmenn og á rétt á því samkvæmt stjórnarskránni. Hver var staða landsbyggðarfólks fyrir kvótaskerðinguna? Jú, fjölmargir þeirra njóta ekki háhraðatenginga og ekki farsímaþjónustu, sem er þó grundvöllur menntunar og reksturs í dag. Ríkisstjórnarár Sjálfstæðisflokksins eru vörðuð af sviknum loforðum í samgöngumálum og er jafnvel svo að íbúum sumra sjávarbyggða eru búnir átthagafjötrar lélegra samgangna. Dæmi er um að ungur drengur hafi teppt netsamband við heilt byggðarlag í þrjá tíma meðan hann var að hala niður kvikmynd af netinu.

Heilsugæsla á landsbyggðinni hangir víða á bláþræði, aðbúnaður aldraðra og hreppaflutningar eru til skammar og skólamál vanrækt. Flest sveitarfélög á landsbyggðinni bjuggu fyrir við fjársvelti vegna þess að þeim voru ekki úthlutaðir nógir tekjustofnar eða þá að búið var að fela þeim verkefni sem ekki var gert ráð fyrir tekjustofnum til.

Það vita líka allir að íbúar á landsbyggðinni búa yfir miklum krafti og hugmyndaauðgi til athafna. Þeir hafa á takteinum fullt af hugmyndum til nýsköpunar, til atvinnuuppbyggingar. En þeir koma þeim ekki í framkvæmd vegna okurvaxta og vegna þess að einokunarbankarnir sinna þeim ekki. Hvaða heilbrigður rekstur ber 20% raunvexti? Eina von landsbyggðarinnar er að Byggðastofnun verði stórefld og veiti þolinmótt fjármagn á heilbrigðum vöxtum til langs tíma. Tólf hundruð milljónir til Byggðastofnunar er eins og að pissa í skóinn sinn, það dugir ekki til. (Gripið fram í.)

Horfa verður til fleiri þátta en kvótaskerðingar. Fiskveiðistjórnarkerfið hefur brugðist, það er gjaldþrota. Í stað verndunar og eflingar nytjastofna er þorskstofninn í sögulegu lágmarki og fróðir menn segja að alls engin vissa sé fyrir því að þessi ákvörðun, með óbreyttum veiðiaðferðum, með veiðum á óbreyttri veiðislóð, með veiðum á óbreytt veiðarfæri, bjargi nokkru án hliðaraðgerða. Það liggur fyrir að í stað traustrar atvinnu er stórfellt atvinnuleysi hjá sjómönnum og í stað traustrar byggðar í landinu er fólksflótti. Reynslan sýnir að brýn þörf er á allsherjarendurskoðun.

Þeir milljarðar sem veita á í mótvægisaðgerðir upp í umrædda 20–40 milljarða kr. skerðingu, 6,5 milljarðar, eru ekki neitt. Þetta er eins og blaut tuska framan í landsbyggðina. Þessar hálfkáksaðgerðir eru enn ömurlegri fyrir þá sök að vitlaust er forgangsraðað í þjóðfélaginu og þær eru ömurlegar fyrir þá sök að afgangur af ríkissjóði á þessu ári umfram fjárlög er milli 60 og 70 milljarðar. Það var borð fyrir báru til að gera miklum mun betur.

Það sem ég hef sagt hér sýnir og sannar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan vilja til að tryggja byggð í öllu landinu og til að íbúar landsbyggðarinnar njóti jafnræðis á við aðra. Mótvægisaðgerðirnar megna ekki að koma í veg fyrir þá stórfelldu viðbótarbyggðaröskun og fólksflótta sem blasir við, megna það alls ekki. Grípa hefði þurft til aðgerða í stíl við þær sem gripið var til 1971 þegar fólk flúði landsbyggðina og flúði land. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að gera það með þessum mótvægisaðgerðum.



[15:26]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér í dag mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á kvóta og málshefjandi er formaður Framsóknarflokksins sem hefur nú skipt um ham.

Ég ætla aðeins að rifja það upp að þegar ég kom til leiks í pólitíkinni fyrir ári ferðaðist ég mikið um Norðvesturkjördæmið og fór að skoða ástandið þar. Og að hvaða niðurstöðu komst ég? Ákveðna þætti á landsbyggðinni þurfti að lagfæra. Það voru samgöngur, það voru menntun og þjónusta og það voru fjarskipti. Þá höfðu stjórnað landinu þeir flokkar sem við þekkjum til og formaður Framsóknarflokksins verið þar í forustuliði. Á norðvestursvæðinu nam fækkun íbúa tugum prósenta. Þannig var staðan. Við bjuggum við fiskveiðistjórnarkerfi sem hafði í för með sér að nú þarf að grípa til sérstakra aðgerða til þess að vernda þorskstofninn. Í upphafi þessa stjórnarsamstarfs stöndum við frammi fyrir því að þurfa að skera þorskkvótann niður um 30%.

Það náðist samkomulag um það í ríkisstjórninni við stofnun hennar að það skyldi vera eitt af forgangsverkefnunum — til að auka jafnrétti og jafnræði í landinu — að efla landsbyggðina og grípa til mótvægisaðgerða til að reyna að snúa við þeirri þróun sem Framsókn átti þátt í. Ég treysti á að mikil einlægni búi þar að baki, að minnsta kosti er svo af hálfu Samfylkingarinnar, og þess vegna sjáum við forgangsverkefnin í samgöngum, fjarskiptum og menntamálum. Þess vegna er ég líka sáttur við þær mótvægisaðgerðir sem hér hafa verið kynntar. Þær eru liður í því að styrkja grunngerð samfélagsins til lengri tíma og búa þannig í haginn að við getum með nokkuð góðri samvisku sagt að landsbyggðin búi við sömu kjör og höfuðborgarsvæðið, að fólk á landsbyggðinni búi við sömu kjör og aðrir landsmenn.

Við höfum búið við mikla þenslu sem hefur skapað misrétti. Það er okkar að snúa dæminu við og það er reynt með mótvægisaðgerðunum. Hvort það tekst eða ekki er í höndum þingsins og það skiptir okkur miklu máli að allir flokkar standi þar saman að verki, leggist á árar og reyni að fylgja því eftir að landsbyggðin fái forgang, ekki aðeins í mótvægisaðgerðunum heldur líka í fjárlagafrumvarpinu öllu.

Einn af kostunum við mótvægisaðgerðirnar er einmitt það sem sumir hafa gagnrýnt þær hvað mest fyrir, þ.e. að ekki er allt njörvað niður í fyrstu lotu. Það er enginn hér í þessum sal sem veit nákvæmlega hvað bíður landsbyggðarinnar í framhaldi af kvótaskerðingunni. Þess vegna er svo mikilvægt að vera tilbúinn til að grípa inn í og koma með viðbótaraðgerðir þegar komið er fram á kvótaárið, þegar við sjáum hvernig niðurskurðurinn verður. En einmitt vegna fiskveiðistjórnarkerfisins má búast við að flutningur verði á kvóta sem getur þýtt að aðgerðirnar komi með öðrum hætti niður á byggðunum en nú er reiknað með.

Í tillögunum, eins og ég sagði áður, er fjallað um samgöngur, fjarskipti og menntun. Við sjáum hvernig reynt er að efla og styrkja sveitarfélögin, það eru þau sem koma fyrst að varðandi þjónustu við einstaklingana, það eru þau sem verða að grípa inn í og hjálpa þar sem atvinnuleysi verður. Það eru þau sem verða að bregðast við stöðu fólks á hverjum tíma. Þessi sveigjanleiki í mótvægistillögunum skiptir miklu máli og það er verkefni okkar þingmanna, þegar við förum að fjalla um fjárlögin, að setja landsbyggðargleraugu á allar framkvæmdir sem fara í gang og skoða með hvaða hætti við getum hlúð að landsbyggðinni og staðið við það ákvæði í stjórnarsáttmálanum að jafnræði gildi í landinu.



[15:30]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin sá hvorki fyrir það alvarlega ástand sem skapaðist á landsbyggðinni þegar hún ákvað að fara að mjög svo hæpnum tillögum Hafrannsóknastofnunar um niðurskurð á þorskafla um 60 þús. tonn á nýbyrjuðu fiskveiðiári né að uppsagnir fiskvinnslufólks hæfust á fyrstu mánuðum fiskveiðiársins.

Formaður Samtaka fiskvinnslustöðva segir að hátt í þúsund manns verði sagt upp störfum á næstu 6–12 mánuðum í sjávarbyggðunum. Svokallaðar mótvægisaðgerðir koma að sáralitlu leyti því fólki til góða sem missir vinnuna, þ.e. sjómönnum og fiskvinnslufólki. Í þjónustugreinum sjávarútvegs dregur einnig úr þjónustu og störfum heldur áfram að fækka hjá iðnaðarmönnum í vélsmiðjum, tækja- og rafmagnsverkstæðum, slippum og dráttarbrautum. Landsbyggðarfólki hefur nú verið boðinn flutningsstyrkur til að flytjast búferlum frá sinni heimabyggð í stað þess að efla atvinnu á stöðunum. Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, landsbyggðarmaður og þingmaður Norðvesturkjördæmis, kjördæmis sem mest hefur átt undir högg að sækja um þessar mundir, stendur nú fyrir fólksflutningum frá landsbyggðinni með ótrúlegri ákvörðun um 130 þús. tonna þorskafla. Sveitarstjórnir vítt og breitt um landið hafa ályktað um að þessar svokölluðu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gerðu sáralítið gagn og minnst gagnvart því fólki sem er að missa vinnuna, sjómönnum og fiskvinnslufólki.

Í fréttum Ríkisútvarpsins um daginn sagði að það vantaði 20 þúsund manns á höfuðborgarsvæðið þar sem allt er að springa vegna þenslu og stórfelldra íbúðabygginga. Húsin spretta upp og það vantar fólk í þau. Er ríkisstjórnin e.t.v. að bregðast við þeim vanda? Styrkir það byggðir landsins að greiða fólki fé fyrir að flytjast þaðan, er þetta hin nýja byggðastefna ríkisstjórnarinnar? Hefur ríkisstjórnin hugleitt hvar það fólk er statt í lífinu sem þarf að flytjast búferlum frá heimahögum sínum bæði vegna rangra ákvarðana stjórnvalda í fiskveiðistjórn og aðgerðaleysis í atvinnumálum?

Íbúðarhús þessa fólks og aðrar eignir á stöðunum seljast ekki á raunvirði og á nýjum stað sem ríkisstjórnin vill að fólkið verði flutt til þarf það að byrja upp á nýtt eins og landnemarnir í Vesturheimi forðum. Framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart fólkinu í sjávarbyggðunum vítt og breitt um Ísland er ósanngjörn og ómanneskjuleg á allan hátt. Fyrrum sjávarútvegsráðherrar, þeir Lúðvík Jósepsson og Matthías Bjarnason, svöruðu á sinni tíð tillögum fiskifræðinga um að þorskstofninn væri að hruni kominn efnislega á þá leið að það stæði ekki til að drepa fólkið og friða þorskinn. Sömu afstöðu tók Halldór Ásgrímsson haustið 1983, að sjávarbyggðirnar yrðu að halda velli og þess vegna yrði ekki farið að ýtrustu kröfum fiskifræðinga þá varðandi niðurskurð þorskafla.

Aðeins sjávarútvegsráðherrar síðustu ára, þeir Þorsteinn Pálsson, Árni M. Mathiesen og nú Einar Kristinn Guðfinnsson, fara þessa leið. Niðurskurðurinn undanfarin ár hefur engum árangri skilað. Við höfum ekki notið ávaxtanna af þeim niðurskurði sem sjávarútvegsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ákveðið. Þar má byrja á að rifja upp niðurskurðinn í þorskveiðunum á árunum 1992–1995. Staðreyndin er sú að það eru aðrar ástæður, m.a. mjög illa hannað kvótakerfi sem vegur að þorskstofninum og vegur að byggðum landsins. Við verðum að snúa af þeirri braut og við verðum einnig að tryggja að þorskstofninn hafi nægjanlegt æti. Þá mun okkur farnast betur.



[15:34]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli mína við þessa umræðu að enn gerist það að hæstv. sjávarútvegsráðherra fær ekki að tala. Hér situr hann hjá. Þeir forsætisráðherra mættu hvorugir þegar mótvægisaðgerðirnar voru kynntar. Ég hef haldið því fram að hann, drengurinn af Vestfjörðum, hafi orðið undir í ríkisstjórninni. Hann trúði því að gerðar yrðu ákveðnar mótvægisaðgerðir sem mundu gagnast til að koma til móts við byggðirnar. Þetta vekur athygli.

Það er rétt sem hér hefur komið fram, hæstv. forsætisráðherra, það fer engum vel að vera í fýlu og vondu skapi og ég vona að ég sé það ekki en ég er að tala hér um dauðans alvöru, mikið mál sem mun bitna á byggðunum. Eins og mér fer það illa að vera í vondu skapi fer hæstv. forsætisráðherra mjög illa að snúa út úr. Það er ekki réttur svipur. Hann reyndi að hæða tillögur Framsóknarflokksins en þar segir: „Beinar aðgerðir til stuðnings sjómönnum og launafólki, nám á launum.“

Hefur forsætisráðherra heyrt áður um nám á launum? (Iðnrh.: Hver var ráðherra ...?) Nei. Þá gæti það gerst í þeim efnum, hæstv. byggðamálaráðherra, að starfsmaður, sjómaður, fiskverkafólk, og fyrirtæki sæju sér leik á borði að fresta uppsögn, notaði fjórar vikur til að fara til náms á einhverju sviði eða í endurmenntun. Þetta eru ekki einhverjar gamaldags aðgerðir, forsætisráðherra, þetta er þekkt aðferð í nútímanum og hluti af tillögum ríkisstjórnarinnar miðar líka að endurmenntun. Þetta er því hreinn og beinn útúrsnúningur, hæstv. forsætisráðherra, sem fer illa í svona umræðu. Ég bið þig um að lesa þetta, þetta er upp á 1,2 milljarða og 150 milljónir til að fólk geti farið á námskeið.

Ég vil hins vegar þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans innlegg í þessa umræðu. Ræðan var að hluta til málefnaleg. Hann virti þá viðleitni okkar framsóknarmanna að koma með konkret tillögur sem eru 4 til 5 milljörðum hærri og margar ganga til beinni verka, hefðu róað útgerðarfyrirtækin, fólkið í byggðunum og komið að verulegu gagni. Ég þakka fyrir þessi ummæli. Um leið segi ég náttúrlega við hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. ráðherra var að grobba sig af því að hann hefði fundið 49 milljarða óvænt, tekjurnar væru slíkar, og það flóði upp úr öllum döllum hjá hæstv. fjármálaráðherra. Byggðasvæðin sem nú eiga í miklum erfiðleikum í tvö, þrjú ár valda því ekki þenslu, hagvöxtur er í mínus í þessum byggðarlögum. (Gripið fram í: Arfleifð Framsóknar.) Nei, þorskurinn er ekki arfleifð Framsóknar. Þess vegna hefði verið auðvelt að koma að með meiri og myndarlegri hætti og ég er að hvetja ríkisstjórnina til þess.

Ég spái því að hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi líka eins og hvað hvalamálið varðar, þegar hann sneri frá því, eftir að snúa frá þessari vitlausu ákvörðun og tilkynna það, vonandi, að staðan í sjónum sé betri en útlit er fyrir og hann eigi eftir að auka þessar tillögur upp í 150 þús. tonn. Það mun hjálpa okkur í ýsuveiðum og ufsaveiðum eins og ég hef getið hér og það mundi hjálpa byggðarlögunum mjög.

Ég ætla ekki að fara að karpa hér við hinn glaða hæstv. byggðamálaráðherra sem telur lífið skemmtilegt, sem það er, en mér finnst samt sem áður að menn geti ekki talað af gáleysi um svona stórt mál. Við erum öll sammála um að okkur er mikið í mun að halda landinu í byggð, öllum sem hér erum, og þess vegna hélt ég að hæstv. (Forseti hringir.) ríkisstjórn mundi leggja mikið á sig. Því miður eigum við framsóknarmenn ekki lýsingarorðin sem nú blasa við í öllum fjölmiðlum. Það eru sjálfstæðismenn, (Forseti hringir.) jafnaðarmenn, sveitarstjórnarmenn og útgerðarmenn (Forseti hringir.) sem eru undrandi og hryggir yfir tillögum ríkisstjórnarinnar. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að lokum að endurskoða þessar tillögur og gera þær öflugri.



[15:39]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Í gegnum árin og aldirnar hefur iðulega orðið aflabrestur á Íslandsmiðum og þeir sem hafa átt afkomu sína undir sjávarútvegi hafa þurft að glíma við slíkan vanda ítrekað. Það sem við erum að gera með þessum ráðstöfunum, í kjölfar mikilvægrar ákvörðunar sem tekin var um að minnka aflaheimildirnar, er að koma til móts við fólk sem er í sambærilegri aðstöðu og oft hefur verið hér áður fyrr á árum.

Það er talið að tekjusamdrátturinn í þjóðfélaginu vegna þeirrar ákvörðunar að minnka þorskkvótann geti verið á bilinu 10–15 milljarðar árlega nettó þegar búið er að draga frá kostnaðinn við að afla teknanna. Þær aðgerðir sem við höfum kynnt hérna eru upp á u.þ.b. 11 milljarða yfir tvö til þrjú ár og mörgum finnst vel í lagt. Sú gagnrýni hefur komið frá ýmsum hagfræðingum, sem mikið hefur verið vitnað til hér í dag, að það sé vel í lagt. Það er mjög athyglisvert að heyra t.d. fulltrúa Vinstri grænna segja hér í dag: Það var borð fyrir báru til að gera miklum mun betur. Hann hefur greinilega ekki hlustað á formann sinn fyrr í dag sem kvartar yfir óráðsíu og allt of mikilli útþenslu og miklum ríkisútgjöldum. (Gripið fram í: Forgangsraða ...)

Málið er eftirfarandi: Hér er verið að taka mjög mikilvægar ákvarðanir um framtíð þorskstofnsins. Það er verið að lina þjáningar þeirra sem mestan hlut eiga að máli til að hjálpa þeim að komast í gegnum þrengingar á meðan þorskstofninn er í þessari lægð og öll hljótum við að vona að hann nái sér á strik á nýjan leik. Sveigjanleikinn í íslenskum sjávarútvegi er nú mikill, fyrirtækin eru gríðarlega öflug og ég hef fulla trú á að þau muni geta endurskipulagt starfsemi sína á þessu erfiðleikatímabili og komi heil og ósködduð út úr því þó að auðvitað verði þetta mörgum erfitt. Enginn dregur það í efa og eins og sjávarútvegsráðherra hefur sagt og ég hef líka sagt að þessar aðgerðir geta ekki komið beint í staðinn fyrir 60 þús. tonn af þorski. Þær geta aldrei runnið beint í vasana á sama fólki og þarna á hlut að máli, það er óframkvæmanlegt. Hins vegar er verið að byggja hér upp betri innviði í samfélaginu, fjölga menntunartækifærum, búa til ný atvinnutækifæri með ýmsum hætti til að koma til móts m.a. við fiskvinnslufólkið og sjómennina til að milda þetta högg. Það er auðvitað fáránlegt þegar menn tala um það af einhverri sérstakri meinbægni að ríkisstjórnin hafi gripið til þessara ráðstafana út af landsbyggðarfjandsamlegri stefnu hennar. Sú rödd hefur sem betur fer ekki verið hávær í þessum sal í dag en við höfum heyrt annars staðar frá því að sú ákvörðun var kynnt að þarna sé ríkisstjórninni rétt lýst, nú sé hún að fylgja eftir stefnu sinni um að ráðast sérstaklega á landsbyggðina. Það er auðvitað algjörlega af og frá. Með þessum mótvægisaðgerðum erum við að vinna frekar úr þessu máli, eins og heitið var í upphafi, innan skynsamlegra marka. Það verður auðvitað að hafa í huga heildarsamhengi hlutanna, heildartölurnar í þessu máli og ég fór með þær áðan. Síðan getur hver og einn reiknað fyrir sig.



[15:43]Útbýting: