135. löggjafarþing — 5. fundur
 9. október 2007.
byggðakvóti.

[13:47]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Byggðakvótinn er einn af öryggisventlunum fyrir byggðirnar og á að bregðast við þeim ágöllum sem eru á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og er því mjög mikilvægt verkfæri fyrir þær byggðir sem verða illa út úr þeirri þróun, sérstaklega í ljósi válegra tíðinda af stöðu þorskstofnsins.

Framkvæmd sjávarútvegsráðuneytisins og hæstv. ráðherra á úthlutun byggðakvótans er vægast sagt til vansa. Nú fyrst er verið að veiða byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2006/2007 og nýtt fiskveiðiár er hafið. Það er því eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær stendur til að útdeila byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2007/2008 sem nú er yfirstandandi og hvernig er staðan nú í veiðum á byggðakvótanum? Er ljóst hvort smábátar muni geta veitt þann byggðakvóta sem úthlutað var á síðasta fiskveiðiári? Er sá frestur nægilegur sem þeim var veittur til að veiða hann?

Það er því miður staðreynd að þessi framkvæmd hefur verið lýti á byggðakvótanum. Ég verð var við það út um land að umræðan um byggðakvóta er orðin mjög neikvæð og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé ekki vegna þess hvernig sjávarútvegsráðuneytið hefur staðið að verki í þessu mikilvæga máli. Það er mjög mikilvægt fyrir byggðirnar að frá skýr svör við því hvað hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar sér með það mikilvæga stjórntæki sem byggðakvótinn er fyrir byggðirnar.



[13:49]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur vonandi ekki farið fram hjá hv. 6. þm. Norðaust. að gerðar voru verulegar breytingar á lögum sem sneru að byggðakvótanum. Það sem var ánægjulegt í þeim efnum var að það tókst að skapa mikla samstöðu um þessi mál á Alþingi og Alþingi samþykkti þessar breytingar samhljóða. Einhvern tíma hefðu það þótt heilmikil tíðindi að breið samstaða tækist á þinginu um það hvernig að haga ætti málum varðandi úthlutun á byggðakvóta.

Þessi ákvörðun og lagasetning var gerð við lok þingsins og kallaði á alls konar breytingar sem vinna þurfti að. Þetta gerði það m.a. að verkum að kæruferlar voru gerðir gagnsærri og kærumöguleikar meiri sem hafði það í för með sér að úthlutun byggðakvótans tók lengri tíma auk þess sem þessar breytingar, sem m.a. sneru að sveitarfélögunum, kölluðu á það að menn þurftu að tileinka sér ný vinnubrögð, t.d. hjá sveitarfélögunum. Það komu í ljós margs konar vanhöld á þessu sem við vorum að reyna að bregðast við.

Það er ekki þannig að sjávarútvegsráðuneytið hafi verið að tefja úthlutun þessa kvóta. Breytingarnar sem gerðar voru gerðu það að verkum að þessi úthlutun varð einfaldlega tímafrekari en við höfðum gert ráð fyrir. Fram á þennan dag höfum við staðið í því að ljúka þessari úthlutun byggðakvótans. Ég geri ráð fyrir að byggðakvótinn verði að öllu og fullu nýttur fyrir lok þessa árs í samræmi við ákvarðanir sjávarútvegsráðuneytisins. Því er ekkert að vanbúnaði að við getum úthlutað byggðakvótunum miklu fyrr á þessu fiskveiðiári.



[13:51]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að sjávarútvegsráðuneytið er enn að vinna í kærum er snúa að byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2006/2007. Þar eru mál enn í ákveðnum farvegi. Það gefur ekki tilefni til bjartsýni um að byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2007/2008 verði úthlutað fljótlega ef marka má söguna.

Það er einfaldlega staðreynd, hæstv. forseti, að aldrei hefur verið nein sérstök hrifning meðal margra sjálfstæðismanna á því fyrirbæri sem byggðakvótinn er. Það er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvort verið sé að reyna með skipulegum hætti að sverta það orðspor sem fer af byggðakvótanum, því að framkvæmdin á úthlutun á byggðakvóta af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins hefur verið með eindæmum og við getum ekki fengið svör hér hvenær ráðuneytið ætlar að auglýsa byggðakvótann fyrir árið 2007/2008 og það er miður.



[13:52]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér þessa dylgjupólitík hv. þingmanns. Það var einfaldlega verið að breyta lögum. Það var einfaldlega verið að reyna að bregðast við m.a. athugasemdum umboðsmanns Alþingis. Alþingi komst samhljóða að niðurstöðu um það hvernig standa ætti að úthlutun byggðakvótans. Það þýddi m.a. að kæruferlar voru lengri en þeir voru líka gerðir gagnsærri. Við vitum að við vorum að fara inn í nýtt umhverfi. Allmörg tilvik komu upp þar sem sveitarfélög höfðu gert tillögur um tiltekna úthlutun á byggðakvóta. Þegar þau sáu hvert það leiddi óskuðu þau eftir því sjálf að þessi mál yrðu tekin upp að nýju. Þetta gerði það að verkum að úthlutun byggðakvótans í tilteknum tilvikum gekk hægar fyrir sig. Sú staðreynd að útgerðarmenn og sjómenn og aðrir sem höfðu hagsmuni af málinu gátu sent kærur til sjávarútvegsráðuneytisins gerði það líka að verkum að þessi mál gengu hægar fyrir sig.

Ég er hins vegar sannfærður um að við höfum lært af þessu og menn hafa áttað sig betur á því lagalega umhverfi sem Alþingi setti í kringum þetta mál og það verður þess vegna hægt að úthluta byggðakvótanum fyrr en ella. (Forseti hringir.) En ég ætla ekkert að fara að festa mig í dagsetningum og hv. þingmaður sem er með þessar dylgjur hér ætti að reyna að halda sig við efni málsins.



[13:54]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Mér heyrist að þetta málefni sé dálítið viðkvæmt fyrir ráðherrann miðað við hvernig hann hagar sér í ræðupúlti Alþingis. Hér er einfaldlega um staðreyndir að ræða, engar dylgjur. Málið vegna fiskveiðiársins 2006/2007 er enn í farvegi í ráðuneytinu og það veit hæstv. ráðherra vel. Hæstv. ráðherra þarf því ekki að tala um dylgjur hér.

Ég held, hæstv. forseti, að það sé kominn tími til að jarðtengja þessa ríkisstjórn. Jarðtengja hana segi ég, því að hæstv. ráðherra kemur hér upp og talar um hvað það sé mikil ánægja og mikil samstaða um byggðakvótann. Hefur hæstv. ráðherra ekkert heyrt í sveitarstjórnarmönnum vítt og breitt um landið? Er mikil ánægja hjá sveitarstjórnarmönnum með það hvernig staðið er að málum hér? Sýnir reynslan það? Nei, því miður. Ég held að það þurfi að jarðtengja þessa ríkisstjórn því að eins og ríkisstjórnin hélt að fólkið í byggðunum væri ánægt með þær mótvægisaðgerðir sem hún stendur að þessa dagana, þá er raunin ekki sú heldur, enda ekki nema von því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert rætt við sveitarstjórnarmenn (Forseti hringir.) um þau vandamál sem steðja að byggðunum.



[13:55]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að hv. þingmaður er kominn á flótta undan því máli sem hann hóf máls á í upphafi. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég er viðkvæmur gagnvart því þegar hv. þingmaður er með dylgjur um það að við séum af annarlegum ástæðum að reyna að koma í veg fyrir úthlutun byggðakvóta þegar hann veit betur. Hann veit að þetta byggir m.a. á því að fram hafa komið sérstakar óskir frá tilteknum sveitarfélögum um að endurúthluta byggðakvótanum og sjávarútvegsráðuneytið hefur verið að reyna að bregðast við því til þess m.a. að koma til móts við sveitarfélögin. Hv. þingmaður virtist alveg hafa gleymt því. Var hann sofandi, var hann fjarstaddur eða vissi hann ekki hvað hann var að gera þegar hann greiddi atkvæði með þeim lagabreytingum sem samþykktar voru í vor? Hv. þingmaður talar eins og hann hafi hvergi komið nærri. Hv. þingmaður er farinn að þvo algerlega fortíðina af sér sem er undarlegt vegna þess að hann á glæsilega fortíð í góðu stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum.