135. löggjafarþing — 5. fundur
 9. október 2007.
fyrning kröfuréttinda, 1. umræða.
stjfrv., 67. mál (heildarlög). — Þskj. 67.

[14:36]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fyrningu kröfuréttinda. Til að draga fram kjarna málsins má segja að verið sé að færa fyrningarreglur í íslenskum lögum til nútímans en í gildi eru lög frá 1905 í því efni. Lögin eru því orðin meira en 100 ára gömul og kominn tími til að færa þau til nútímans og samræma hinar ólíku reglur um fyrningu eftir því við hvað er átt. Það er mjög mikilvægt að samræma þessar reglur og færa þær til réttlátari og sanngjarnari vegar, t.d. þannig að ekki sé hægt að elta fólk uppi í óhóflega og fáránlega langan tíma út af litlum skuldum, smáum skuldum, ef ekki hefur náðst að ljúka þeim einhvern veginn með öðrum og eðlilegri hætti, að ekki sé verið að elta fólk uppi í áratug út af gömlum símareikningi eða einhverri vangoldinni smáskuld. Það er sanngirnismál að fyrningarfrestur kröfuréttinda verði styttur niður í það sem hér er kveðið á um eða í fjögur ár.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lagaákvæðum um fyrningu kröfuréttinda en þau eru nú í lögum um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda eins og ég gat um frá árinu 1905. Á lögunum hafa litlar breytingar verið gerðar á þeim 100 árum sem liðin eru frá gildistöku þeirra og rúmlega það og ákvæði laganna miðast því eðli málsins samkvæmt í mörgu við löngu horfna og breytta viðskiptahætti. Í þau vantar reglur um ýmis atriði sem æskilegt verður að teljast að mælt sé fyrir um í settum lögum.

Reglur um fyrningu eru ein tegund réttarreglna sem mæla fyrir um lagaleg áhrif aðgerðaleysis. Það sem almennt býr að baki fyrningarreglunum er að tryggja að endi verði bundinn á skuldbindingar sem stofnað hefur verið til á ákveðnum tímapunkti þannig að réttarstaða neytenda og hins almenna borgara í samfélaginu batni verulega þegar fyrningarreglur hafa verið samræmdar og færðar í það að almennt séu þær fjögur ár en ekki tíu eins og nú er.

Hugtakið fyrning hefur verið skilgreint á þann veg að réttindi falli niður eða missi réttarvernd sína að meira eða minna leyti fyrir það að þeirra er ekki neytt um tiltekinn tíma og ekki gerðar aðrar ráðstafanir um þau sem að lögum gætu varnað því að þau fyrnist.

Gildissvið frumvarpsins takmarkast að meginstefnu til við kröfuréttindi. Í því felst að við úrlausn um hvort tiltekin réttindi séu undirorpin fyrningu verður að líta til almennra lagasjónarmiða um hvort réttindin séu kröfuréttareðlis.

Að mestu má segja að frumvarpið sé lögfesting á því sem talið hefur verið gildandi réttur. Þó eru nokkur nýmæli þar fyrir utan. Helstu nýmæli frumvarpsins eru eftirtalin:

Í fyrsta lagi er lagt til að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda verði fjögur ár, eins og ég gat um áðan. Meginregla gildandi fyrningarlaga er aftur á móti sú að kröfur fyrnist á tíu árum, sbr. 2. tölul. 4. gr. laganna. Reyndin er hins vegar sú að flestar kröfur fyrnast á fjórum árum, þó ekki næstum því allar. Er að því leytinu um að ræða lögfestingu á gildandi reglu í mörgum tilvikum þó ekki í öllum að sjálfsögðu, enda ekki lögfestur fyrningarfrestur.

Í öðru lagi er lagt til að ábyrgðarskuldbindingar fyrnist eftir sömu reglum og krafa á hendur aðalskuldara og að reglurnar verði einfaldaðar nokkuð frá því sem nú er, það er verið að samræma og einfalda þessar reglur.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu nýtt ákvæði um fyrningu flestra skaðabótakrafna utan samninga og skaðabótakrafna vegna líkamstjóns. Þar er lagt til að skaðabótakröfur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur er fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Þó er gert ráð fyrir að krafa fyrnist í síðasta lagi 20 árum eftir að tjónsatburði lauk með tilteknum undantekningum varðandi líkamstjón. Undantekningarnar varða í fyrsta lagi þau tilvik þegar tjónið sem um ræðir hefur orðið í atvinnustarfsemi eða starfsemi sem má jafna við hana og í öðru lagi gildir 20 ára fyrningarreglan ekki meðan tjónþoli er undir 18 ára aldri. Hún byrjar ekki að telja fyrr en tjónþoli er orðinn 18 ára gamall. Þetta er gert til að mæta því að slík tjón, líkamstjón og skaðabótakröfur fyrir utan samninga, eru annars eðlis og eðlilegt að þeir sem í þeim lenda hafi rýmri tíma en aðrir. Þó að hér sé um að ræða almennar samræmdar fjögurra ára reglur þá er verið að tala um í þessum tilfellum að krafan verði til á tjónsdegi og þegar umfang tjónsins er ljóst, t.d. ef einhver lendir í bílslysi og afleiðingarnar koma ekki að fullu fram fyrr en löngu seinna. Þá byrjar fjögurra ára fyrningin að gilda hafi þetta umfang komið fram innan 20 ára tímabilsins. Hér er sem sagt verið að samræma og einfalda með þeim undantekningum er varða líkamstjón, börn o.s.frv. þannig að ýtrustu sanngirni sé gætt gagnvart þessum aðilum.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir fleiri úrræðum til að slíta fyrningu en er samkvæmt núgildandi lögum. Þannig er lagt til að unnt verði að slíta fyrningu með því að leggja málið fyrir stjórnvald sem hefur úrskurðað um málið sem og kærunefndir. Eins og samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að unnt sé að semja um lengri eða skemmri fyrningarfresti en lögin mæla fyrir um.

Loks er í frumvarpinu lagt til að settar verði almennar reglur um upphaf fyrningarfrests og því verði afnumdar sérreglur um það.

Hér er um að ræða frumvarp þar sem lögð er til endurskoðun á meira en 100 ára gömlum lögum eins og ég gat um áðan og ein af ástæðum þess að nauðsynlegt er talið að endurskoða gildandi fyrningarlög er að orðalag laganna er oft og tíðum bæði torskilið og flókið. Með hliðsjón af því hefur verið leitast við að einfalda uppbyggingu frumvarpsins og gera það eins gagnsætt og kostur er. Þá miðar frumvarpið að því að færa fyrningarreglur til nútímans og þar er kveðið á um ýmis atriði sem þörf er á að kveðið sé á um í lögum en gildandi lög eru þögul um. Því er mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga sem allra fyrst. Ég óska eftir að málinu verði vísað til viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.

Aðeins um það sem ég nefndi áðan um 9. gr. frumvarpsins þar sem lagður er til fjögurra ára fyrningarfrestur um þau tjón sem þar um ræðir. Ábendingar hafa komið fram t.d. frá Lögmannafélaginu, talsmanni neytenda og fleirum að umhugsunarvert sé hvort stytta eigi fyrningarfrestinn í fjögur ár eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. þó með þeim tilslökunum sem við leggjum þar til með 18 ára aldurinn og 20 ára regluna frá því að umfangið er að fullu komið fram. Ég mun beina því til nefndarinnar að fara mjög vandlega ofan í þetta, hvort ástæða sé til að endurskoða þetta eða halda tíu ára fyrningunni þarna til að ganga eins langt og hugsanlega er hægt gagnvart þeim sem verða fyrir líkamstjóni utan atvinnustarfsemi, verða fyrir tjóni á unga aldri o.s.frv. Þetta er að sjálfsögðu ekkert sem er klappað í grjót eða hefur verið ákveðið endanlega eða tekin endanleg niðurstaða um. Ég tel þetta mjög skoðunarvert. Ég hef velt því mikið fyrir mér eftir mjög málefnalegar ábendingar frá þeim sem ég nefndi áðan, Neytendasamtökunum, Lögmannafélaginu, talsmanni neytenda og fleirum, að þetta verði skoðað. Kæmi mér ekki á óvart þótt nefndin færi ítarlega ofan í það mál, hvort þetta ætti að fyrnast áfram á tíu árum eftir að 18 ára aldri er náð og eftir að tjón eru komin fram að fullu, þannig að það verði gengið mjög langt þar og vikið frá þessu fjögurra ára samræmi. Það verður að sjálfsögðu skoðað málefnalega í nefndinni og er mál sem á að fara mjög ítarlega yfir.



[14:45]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Þessu frumvarpi er ætlað að leysa af gömul lög. Það er í sjálfu sér ekki alltaf rétt að leggja niður gömul lög, þau hafa reynst ákaflega vel (Iðnrh.: … vatnalögin?) en þarfnast úrbóta. Ég vil taka fram að hér er verið að breyta meginreglunni úr tíu ára fyrningu í fjögurra ára, en í raun hefur meginreglan verið fjögur ár vegna fjölda undantekninga.

Það er atriði sem ég vildi nefna hérna sem hæstv. ráðherra kom inn á í lok ræðu sinnar. Ég vek athygli á því að skv. 5. gr. fyrnast skuldabréf á tíu árum, eftirlaun skv. 6. gr. og framfærslueyrir á tíu árum en svo bregður við í 9. gr. að kröfur vegna skaðabóta fyrnast á fjórum árum. Þar er um umtalsverða breytingu að ræða og hallar þar á tjónþola.

Kröfur um skaðabætur eru ekkert nema framtíðarlífeyrir, annars vegar varanlegur miski og varanleg örorka, framtíðartekjur. Það er algjörlega augljóst að þessar framtíðartekjur ættu að lúta sömu reglum og eru í 6. gr. um eftirlaun og fleira slíkt. Ég skil ekki af hverju þetta ákvæði kemur inn, þessi fjögurra ára tími á skaðabótakröfu. Þetta lyktar einhvern veginn af tryggingafélögum. Mér sem gömlum lögmanni finnst sem verið sé að skjóta þessu inn að tilefnislausu.

Ég vek athygli á því að með þessu ákvæði er verið að skapa ákveðna réttaróvissu. Hún felst í því að í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um að það eigi að miða við hinn svonefnda stöðugleikatímapunkt og það liggur líka þannig að í umferðarlögum er sérstakt fjögurra ára fyrningarákvæði. Um þessar fyrningarreglur er engin réttaróvissa. Það er alveg skýr dómaframkvæmd og engin réttaróvissa. Með því að breyta þessu er verið að búa til réttaróvissu, hæstv. ráðherra, sem kallar á nýjar úrlausnir dómstóla og annað slíkt. Og það er algjör óþarfi að kasta þessu þannig inn í umræðuna.

Af hverju segi ég réttaróvissa? Jú, vegna þess að vísbending er gefin um svonefndan stöðugleikatímapunkt, þ.e. þegar hinn slasaði hefur náð þeirri heilsu eftir slys að ekki má vænta frekari bata. Þessi stöðugleikatímapunktur er iðulega ákvarðaður löngu eftir að hann er kominn á. Þegar lögmenn eru með tjónþola og skaðabótamál til meðferðar líður oft langur tími þangað til maður sannreynir eða fær vottorð frá lækni um að núna sé tímabært að kalla eftir endanlegu örorkumati. Þá getur matsnefndin, tveggja lækna mat eða örorkunefnd komist að þeirri niðurstöðu með matsgerð dagsettri á tilteknum degi að stöðugleikatímapunkturinn hafi dottið á fyrir tveimur árum og þá eru þegar liðin tvö ár af fyrningarfresti.

Ég beini þeim eindregnu tilmælum til nefndarinnar sem fjallar um þetta, viðskiptanefndar, að halda óbreyttum ákvæðum um fyrningarfrest skaðabótakrafna. Undantekningarákvæði í umferðarlögunum um fjögurra ára fyrningu þar heldur áfram en þetta varðar líka vinnuslys og það er mjög oft erfitt að sannreyna tjónið og tekur oft langan tíma. Það er um framtíðartekjur tjónþola að ræða. Það er verið að bæta tekjumissi til framtíðar og nákvæmlega sömu rök eiga við um skaðabætur skv. 9. gr. og lífeyri sem ætlaður er tíu ára fyrningarfrestur skv. 6. gr. þannig að ég vara við breytingum á fyrningarfresti skaðabótakrafna.



[14:49]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um fyrningu kröfuréttinda sem er heildarendurskoðun á lögum um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda frá árinu 1905. Þessi heildarendurskoðun hófst fyrir nokkrum árum og var það þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sem leiddi það mál þannig að í grunninn erum við framsóknarmenn hlynntir því að taka þessi málefni til heildarendurskoðunar.

Hins vegar tek ég undir t.d. með hv. þm. Atla Gíslasyni að það er mjög mikilvægt að við förum yfir þetta málefni í nefndinni. Það eru nokkur álitamál þarna sem við þurfum að fara betur yfir og rétt eins og hæstv. ráðherra kom að hér þurfum við að taka tillit til ýmissa sjónarmiða og að sjálfsögðu verður þetta frumvarp sent út til umsagnar til hlutaðeigandi aðila.

Ég legg áherslu á að hér er um mjög stórt mál að ræða sem er mikilvægt að nefndin fari vel yfir. Hins vegar vildi ég að það kæmi hér fram að það var m.a. fyrir hlutdeild okkar framsóknarmanna sem þessi heildarendurskoðun fór fram. Ég legg mikla áherslu á að það er mjög mikilvægt að vanda vel til verka í því nefndarstarfi sem er fram undan.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til viðskn.