135. löggjafarþing — 10. fundur
 16. október 2007.
umræður utan dagskrár.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[13:53]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að ræða fjárreiður tengdar kaupum á nýrri Grímseyjarferju. Nú í morgun barst minnisblað til fjárlaganefndar frá fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda þar sem í ljós kemur að hæstv. ráðherra dregur mjög úr þeim stóru og miklu yfirlýsingum sem hann hefur viðhaft um þetta mál og telur koma til greina að bæta úr ýmsu hvað þetta mál áhrærir.

En hæstv. forseti. Það er svo margt í þessu máli sem hefur farið úrskeiðis sem hæstv. ráðherrar eru ekki tilbúnir að viðurkenna. Við skulum fara í örstuttu máli yfir sögu þessa máls.

Á ríkisstjórnarfundi í apríl árið 2005 var lagt fram minnisblað af hálfu hæstv. þáverandi samgönguráðherra um heildarkostnað við kaup og endurbætur á Grímseyjarferju. Kostnaðurinn átti þá að vera 150 millj. kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur í ljós að fljótlega eftir þennan fund vissu samgönguráðuneytið og Vegagerðin að kostnaður við kaup og endurbætur á ferjunni yrði miklu hærri en ríkisstjórninni var kynnt þá.

Í nóvember árið 2005 er svo gert samkomulag á milli fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar um fjármögnun á verkefninu, væntanlega með vitund hæstv. ráðherra Árna M. Mathiesens og Sturlu Böðvarssonar. Í samkomulaginu, sem ég hef hér undir höndum, segir, með leyfi hæstv. forseta.

„Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessari vöntun nemur.“

Ég vek athygli þingheims á því að þetta er árið 2005 og Alþingi ekki einu sinni búið að afgreiða fjárlög ársins 2006 þar sem hin umdeilda 6. gr. heimild kom fyrst inn. Á minnisblaðinu eru þessu samkomulagi áætlaðar 250 millj. kr. en sá kostnaður var kynntur í ríkisstjórn fyrr á árinu sem kostnaður upp á 150 millj. kr. Hér hafa því ríkisstjórnin og Alþingi verið leynd mjög mikilvægum upplýsingum um þessi mál og það er skjalfest hér. Ríkisendurskoðun segir um þennan gjörning, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisendurskoðun gerir alvarlega athugasemd við framangreinda ákvörðun og þá aðferð sem notuð er við að fjármagna kaup og endurbætur á ferjunni og telur hana á engan hátt standast ákvæði fjárreiðulaga.“

Sjálft fjármálaráðuneytið fer á svig við fjárreiðulögin að mati Ríkisendurskoðunar. Á meðan heldur hæstv. fjármálaráðherra því blákalt fram að hér sé um eðlilegt verklag að ræða og ekkert athugavert á ferðinni.

Hæstv. forseti. Af hverju var ekki leitað eftir fjárheimildum Alþingis áður en þetta samkomulag var gert? Var málið kannski komið í þær ógöngur á haustdögum ársins 2005, þegar ljóst var að kostnaður var kominn langt umfram það sem ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma, að það þoldi ekki dagsins ljós? Mátti kannski ekki upplýsa þetta mál fyrr en eftir kosningarnar árið 2007? Því hér er vissulega um grafalvarlegt mál að ræða.

Staðreyndin er þessi: Ríkisstjórnin heimilaði kaup og endurbætur á Grímseyjarferjunni upp á 150 millj. kr. Nú er ljóst að kostnaðurinn verður að minnsta kosti 500 millj. kr. Rúmlega 300% hækkun. Allt byggt á samkomulagi sem ekki var gert opinbert. Allt byggt á samkomulagi sem fulltrúi fjármálaráðherra átti aðild að. Allt byggt á samkomulagi sem aldrei hefur komið fyrir sjónir ríkisstjórnarinnar eða hv. Alþingis fyrr en nú á sumardögum.

Í apríl árið 2006 var gengið frá samningi við fyrirtæki í Hafnarfirði, Vélsmiðju Orms og Víglundar, um endurbætur á ferjunni. Reyndar var tilboð fyrirtækisins ekki lægst og stóðst ekki upphafleg útboðsskilyrði, m.a. um lágmarkseiginfjárhlutfall. En þá var skilmálunum bara breytt. Hver stóð að því? Og ákveðnir þættir sem voru fyrirtækinu óhagstæðir voru bara felldir út úr tilboðinu. Minni hluti fjárlaganefndar vildi fá að skoða þennan þátt málsins sérstaklega. En meiri hlutinn, þessi stóri meiri hluti, neitaði minni hlutanum um það og málið var rifið út úr nefndinni án þess að þessi þáttur væri skoðaður eitthvað frekar. Ég vísa til umfjöllunar Morgunblaðsins þann 9. september síðastliðinn um þessi mál.

Þegar kostnaður við endurbætur á ferjunni er skoðaður nánar kemur í ljós að kostnaður við aukaverk Vélsmiðju Orms og Víglundar er 65 millj. kr. Sérfræðingur Siglingamálastofnunar hafði bent málsaðilum á að vanda yrði til verka þegar kæmi að aukaverkunum því þau væru dýr ef ekki væri samið um þau fyrir fram. Það var ekki gert. Og reyndar var það sérstaklega tekið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að fyrirtækið hefur nær aldrei skilað inn formlegum tilboðum í aukaverkin þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir eftirlitsaðila til þess að fá slíkt tilboð.

Er þá ekki rétt að fjárlaganefnd Alþingis skoði svona mál? Nei. Þetta mál er rifið úr höndum nefndarinnar í andstöðu við minni hluta hennar. Ég held því að vert sé að ræða þessi mál hér á Alþingi. Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli, hæstv. forseti.

Fjármálaráðherra hefur talað um fjárreiður þessa máls sem eðlilegt verklag, eins og hann sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkru. Að ekkert sé athugavert við málsmeðferðina. Ég spyr hér fulltrúa stjórnarmeirihlutans hafandi hlustað á þessa ræðu. Telja menn virkilega að ekkert sé athugavert við þetta verklag? Ekki neitt. Fyrrverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, telur að hann beri enga ábyrgð. Ég spyr meiri hlutann hér á Alþingi. Er hann sama sinnis? Hæstv. núv. samgönguráðherra, sem hóf allt þetta mál með miklum yfirlýsingum í aðdraganda síðustu kosninga, hefur kennt einum skipaverkfræðingi um allt klúðrið.

Er það virkilega svo, hæstv. forseti, að það ætli enginn að viðurkenna ábyrgð sína í þessu máli? Í þessu dæmalausa klúðri frá upphafi til enda. Hér hafa verið teknar ákvarðanir á bak við Alþingi og það er mjög alvarlegt mál. Og þingið þarf að standa vörð um þau völd sem það hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég trúi því ekki, hæstv. forseti, fyrr en ég tek á því að sá stóri meiri hluti sem er á bak við ríkisstjórnina hér á hinu háa Alþingi ætli að láta leiða sig í þessu máli. Ég trúi því heldur ekki að Samfylkingin ætli að taka sérstaklega upp hanskann fyrir þá ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem stóðu svona að málum. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessari umræðu vindur fram.



[14:01]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru þrjú meginatriði hvað heimildirnar varðar sem hafa verið gagnrýnd í þeirri umræðu sem farið hefur fram um Grímseyjarferjuna. Í fyrsta lagi eru það 6. greinar heimildirnar en þær þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að kaupa eða selja fasteignir eða skip fyrir hönd ríkisins. Í þessu tilfelli er um að ræða hefðbundna sölu og kaupaheimild í 6. gr.

Í öðru lagi eru það fjárheimildir Vegagerðarinnar sem allan þann tíma sem þetta verk hefur staðið og verið í gangi hafa verið nægjanlegar og langt umfram það sem þarf til þess að kaupa og framkvæma endurbyggingu á skipinu.

Í þriðja lagi eru það samgönguáætlanir en allan þann tíma sem þetta mál hefur verið í gangi hefur legið fyrir núgildandi langtímaáætlun í samgöngum sem gerir ráð fyrir fjármunum til þessa verkefnis.

Loks er það fjórða atriðið sem kom upp þegar farið var að skoða þetta mál og hvað það atriði varðar hafði fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið frumkvæðið. Það er hvernig kostnaður og fjármunir eru færðir varðandi verkefni sem þetta í fjárlögum, í ríkisbókhaldi, í ríkisreikningi og í lokafjárlögum.

Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu fyrir fjárlögum ársins 2008 að þar væri gerð breyting á því hvernig þessu er stillt upp í fjárlögunum og að verkefni eins og þetta væru þar færð á framkvæmdalið en ekki á rekstrarlið eins og verið hefur undanfarin ár. Ég tel að það sé eðlilegt þar sem um er að ræða stofnkostnað en ekki rekstrarkostnað eins og á að vera á rekstrarliðnum.

Þá vaknar sú spurning: Hvernig á að fara með færslur á þessu á árinu 2007? Í fyrsta lagi er hægt að færa fjármuni sérstaklega á heimildargreinina sjálfa, heimildargreinina sem tengist 6. gr. en 6. gr. fylgja fjármunir á heimildargrein. Í öðru lagi er hægt að færa kostnaðinn á framkvæmdaliðinn í stað þess að færa hann á rekstrarkostnaðarliðinn í samræmi við það sem lagt er til að gert verði í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2008. Í þriðja lagi er hægt að færa fjármuni af framkvæmdaliðnum og yfir á rekstrarliðinn þar sem þetta verkefni hefur verið vistað fram til þessa. Síðan getum við auðvitað velt því fyrir okkur líka hvernig hægt er að færa þetta í lokafjárlögum ársins 2006.

Í samræmi við álit meiri hlutans í skýrslu fjárlaganefndar um að ríkja þurfi sameiginlegur skilningur hjá framkvæmdaaðilum og eftirlitsaðilum fjárlaga hef ég farið yfir þessi mál með ríkisendurskoðanda og við höfum rætt þetta án milligöngu fjölmiðla. Við höfum komist að eftirfarandi niðurstöðu í þremur liðum:

Í fyrsta lagi að 6. gr. heimildin sem lögð er til grundvallar er hefðbundin í tilvikum á borð við kaup á hinni nýju Grímseyjarferju. Hins vegar sé eðlilegt, með hliðsjón af ófyrirséðum atvikum og deilum um túlkun greinarinnar, að skoða hvernig svona greinar eru skrifaðar í framtíðinni. Á hinn bóginn er auðvitað engin leið að fara að túlka textann eins og hann hefur verið á annan hátt þegar verkið er hálfklárað. Það væri eins og að skipta um hest í miðri á.

Í öðru lagi höfum við orðið sammála um að rétt sé að færa stofnkostnaðinn, eins og reyndar lagt er til í frumvarpi til fjárlaga 2008, á framkvæmdaliðinn en ekki á rekstrarliðinn en gera jafnframt til viðbótar þá breytingu að tilfærsluliðirnir í rekstrarkostnaðinn, rekstur á ferjum og þar fram eftir götunum, verði líka færðir á framkvæmdaliðinn og þeim lið síðan breytt og hann fái nafnið Framlög til samgöngukerfis.

Í þriðja lagi höfum við komist að þeirri niðurstöðu, sem er í samræmi við það sem ég nefndi á undan, að færa þá af framkvæmdaliðnum í fjárlaukalögum á árinu 2007 yfir á stofnkostnaðarlið, að fjármálaráðherra leggi til að það verði gert. Til viðbótar því erum við sammála um þá tillögu sem þegar er í fjárlagafrumvarpinu um árið 2008.

Þessi atriði sem hér eru nefnd eiga að leysa úr öllum þeim meginatriðum sem upp hafa komið hvað varðar fjárheimildir og heimildir til kaupa og sölu á Grímseyjarferju. Hins vegar fóru auðvitað mjög mörg atriði úrskeiðis og ég ætla ekki að halda því fram að við séum með þessu móti að leysa úr þeim öllum. Þetta er í samræmi við það sem ég hef sagt að við eigum að reyna að læra af reynslunni og þeim mistökum sem gerð hafa verið og horfa fram á veginn varðandi það hvernig við tökum á þessum málum.

Mér finnst hins vegar svolítið einkennilegt að málshefjandi í þessu máli skuli vera hv. þm. Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar. Þegar 6. gr. heimildin, sem hefur verið umdeild í þessu efni en er hefðbundin eins og fram hefur komið, var samþykkt á Alþingi síðastliðið haust var hann sem formaður fjárlaganefndar síðasti maður til að fara höndum um hana. Þegar maður skoðar það líka í ljósi þess að hv. þingmaður er þingmaður Norðausturkjördæmis og Grímsey er í því kjördæmi og samgöngur til Grímseyjar því eðlilega viðfangsefni og hugðarefni þingmanna þess kjördæmis og hafi hann haft einhverjar efasemdir um að ekki væri rétt og eðlilega staðið að þessu máli, hvers vegna kom það þá ekki upp við meðferð fjárlaganefndar og meðferð hv. þingmanns á málefninu í 6. gr. við afgreiðslu fjárlaga ársins 2007?

Ég held að það geti ekkert verið sanngjarnara en þetta í þessu efni því að tillagan var samþykkt eftir meðferð í fjárlaganefnd við fjárlagaafgreiðslu 2007 og fjárlagaafgreiðslu 2006. Á þessari grein byggist síðan framganga framkvæmdarvaldsins í því að kaupa og selja Grímseyjarferju.



[14:09]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta mál snýst um grundvallaratriði, það snýst um prinsipp, það snýst um það hvort farið er að lögum og það snýst um góða stjórnsýsluhætti. Öll viljum við að góð ferja gangi frá Grímsey til lands, milli lands og eyjar eins og sagt er, um það er ekki deilt.

Mál sem verður til með þessum hætti í stjórnsýslunni er ámælisvert. Hér er upphafið rakið. Hinn 12. apríl 2005 heimilar ríkisstjórnin kaup á írsku ferjunni Oilean Aran sem átti að koma í stað Grímseyjarferjunnar Sæfara. Málið fer samt ekki inn á fjárlög. Áætlað kaupverð er 150 millj. kr. ásamt endurbótum. Og 25. nóvember sama ár undirrita samgönguráðuneytið og fjármálaráðuneytið yfirlýsingu þar sem með beinni tilvitnun í Ríkisendurskoðun stendur, með leyfi forseta:

„Ákveðið að fjármagn nýrrar Grímseyjarferju verði af ónotuðum heimildum Vegagerðarinnar fram til ársins 2007 og 2008. Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessu nemur.“

Þarna eru komin þrjú ár þar sem fjárlög eru afgreidd á Alþingi án þess að málið komi þar inn. Var að furða þó að Ríkisendurskoðun gerði mjög harða athugasemd við þetta og segi í umsögn sinni í skýrslu sem hún sendi frá sér, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar stenst þessi aðferð á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu.“

Sú setning stendur. Ef við komum síðan að þætti fjárlaganefndar þá kom málið til fjárlaganefndar, skýrsla Ríkisendurskoðunar. Þar voru höfð uppi digurmæli um að nú yrði farið mjög gaumgæfilega í þetta mál og var fjárlaganefnd sammála um það. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sendum reyndar ráðherra, bæði samgönguráðherra og fjármálaráðherra og fjárlaganefnd erindi þar sem við óskuðum eftir að sett yrði sérstök nefnd í málið sem kannaði hvort ekki væri hagkvæmara og öruggara og þjónaði best framtíðarhagsmunum að endurbætur á þeirri ferju sem nú er unnið að yrðu stöðvaðar og hún seld í því ástandi sem hún væri og í stað hennar væri samið um byggingu nýrrar ferju sem þjónaði farþega- og vöruflutningum sem best á þessari leið. Ef höfð yrðu snör handtök á og ákvörðun tekin fljótlega gæti ný ferja byggð frá grunni verið tilbúin 2009 þegar undanþáguheimild fyrir núverandi ferju rynni út.

Fjárlaganefnd kallaði allmarga aðila á sinn fund og fór yfir málin. Svo kom eitthvert bakslag í forustu nefndarinnar þannig að hún afgreiðir málið frá sér eða gefur bráðabirgðaskýrslu þar sem það er afgreitt frá nefndinni. Meiri hlutinn afgreiðir það svona frá sér en segir þó í lokin, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til að reglur um flutning fjárheimilda á milli verkefna og milli ára verði gerðar skýrari en þær virðast nú og að því verkefni komi fjárlaganefnd, Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneyti.“

Málið var ekki afgreitt af hálfu nefndarinnar heldur af þessum þremur aðilum sameiginlega.

Við í minni hlutanum skiluðum séráliti þar sem við vorum óánægð með málalok eða þessar lyktir en úr því að þetta var bara áfangaskýrsla gerðum við grein fyrir hvað við vildum að gert yrði frekar. Hvað gerist svo í málinu? Í morgun er dreift hér minnisblaði frá fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda og þá kem ég aftur að góðri stjórnsýslu og hvernig farið er með framkvæmdarvaldið. Hér tilkynnir hæstv. fjármálaráðherra okkur að hann hafi ásamt ríkisendurskoðanda gengið frá samkomulagi um það hvernig fjárveitingum til þessa verkefnis skuli háttað, bæði á fjáraukalögum og á fjárlögum næsta árs. Málið er enn í þinginu, málið er enn í þingnefnd. Fjármálaráðherra og ríkisendurskoðandi eru ekkert fjárlagavald. Hér birtist aftur valdhroki fjármálaráðherra þegar hann kemur inn á Alþingi og tilkynnir fjárlaganefnd að hann virði hana ekki viðlits. Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar: Ætlar hann að taka þessu kjaftshöggi fjármálaráðherra þegjandi, að það komi honum ekkert við með hvaða hætti málið sé afgreitt á þinginu? (Forseti hringir.) Þetta er slæm stjórnsýsla, herra forseti, og ég stend áfram með ríkisendurskoðanda í því að hér er verið að fara á svig (Forseti hringir.) við fjárreiðulög.



[14:15]
Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, fyrir það að vekja athygli á málinu. Ég hélt um tíma, þegar þingið var að byrja í haust, að menn væru búnir að gleyma þessu máli. Hitinn í þessu máli hefur minnkað frá því sem var í sumar eða haust og sýnir sig í áhuga fjölmiðla á málinu.

Vissulega er gott að ræða þetta mál á þinginu. Ástæðan er einfaldlega sú að skýrsla okkar fjárlaganefndar var lögð fram í lok september. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fjárlaganefndarmönnum sem þeir settu í það — hv. þm. Jón Bjarnason, hlustaðu nú — settu í að klára þessa skýrslu saman. Það má vel vera að einhverjum hafi þótt sem við værum að rífa þetta út úr nefndinni en nefndin var hins vegar einhuga í því, a.m.k. meiri hluti hennar, að setja þetta í ákveðinn farveg. Í framhaldinu var skipaður starfshópur sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson leiðir og í situr auk mín skuggaráðherra fjármála, hv. þm. Jón Bjarnason. Sá þingmaður vísaði til þess sem starfshópnum er ætlað að gera. En það var sjónarmið meiri hluta nefndarinnar að fara yrði yfir þann túlkunarágreining sem kom upp sérstaklega vegna 6. gr. fjárlaga fyrir 2006.

Ég hvet einfaldlega þingmenn sem sitja bæði í fjárlaganefnd og fastanefndum þingsins, út af því að við erum að fjalla um fjáraukalög og fjárlög fyrir árið 2008, að fara yfir þessi atriði. Ég hef fundið fyrir því í fjárlaganefndinni að menn ræða að sjálfsögðu slíkar heimildir. Með hliðsjón af því sem fjárlaganefndin ályktaði og því sem hér hefur komið fram frá hæstv. fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda í morgun í kjölfar skýrslu okkar sem lögð var fram á þingskjali í gær tel ég ljóst að þessir tveir aðilar taka undir þá túlkun sem ég held að minni og meiri hluti nefndarinnar deili nú og við getum verið sátt um það. Menn telja eðlilegt og tímabært að endurskoða orðalag heimilda af þessu tagi í því skyni að girða fyrir túlkunarágreining. Við vildum ná því fram og á það benti ég í upphafi umræðunnar um þetta mál þegar ég kom að því í lok ágúst nú í ár.

Í sjálfu sér stendur álit meiri hluta fjárlaganefndar fyrir sínu. Ég á von á að starfshópurinn sem hefur verið skipaður og í eru þrír fulltrúar og stjórnarandstaðan á fulltrúa sé að hefja störf. Við skulum vona að ekki þurfi að bíða eftir því að sú nefnd fari af stað. Að öðru leyti liggur fyrir álit hæstv. fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda, það kom fram í morgun og var dreift á minnisblaði.

Ég vil að lokum segja við hv. þingmenn að það var ekki ætlunin í störfum fjárlaganefndar að taka upp hanskann fyrir einn eða neinn í þessu máli. Við unnum þetta eins faglega og við gátum gert og menn geta þá gagnrýnt þau faglegu vinnubrögð. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson þekkir það mætavel eins og ég hvernig er að standa í stappi í fjárlaganefndinni. Hann reyndi á sínum tíma að gera sitt besta í þeim efnum og hvað varðar þær yfirlýsingar, að hæstv. fjármálaráðherra hafi gefið mér kjaftshögg með þessu minnisblaði í morgun, sem voru yfirlýsingar hv. þm. Jóns Bjarnasonar, vil ég benda hv. þingmanni á að á sama hátt hef ég þá fengið kjaftshögg frá ríkisendurskoðanda því að þetta er sameiginlegt minnisblað þeirra. Ég verð þá að standa undir því en ég lít ekki svo á að þetta minnisblað sé sett fram með þeim hætti.

Ég vil að lokum benda hv. þingmönnum á að aðgát skal höfð í nærveru sálar í þessum efnum. Mér hefur oft og tíðum fundist umræðan snúast um að ómaklegt sé að vera með ferju milli lands og eyjar, ekki það að við þingmenn þekkjum ekki betur en við skulum hins vegar gæta okkar í orðavali þegar kemur að því að klára þetta verk.



[14:20]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að renna í stuttu máli yfir feril þessa máls. A.m.k. í fyrri ræðu minni.

Í fyrsta lagi snýst málið um að ákveðið var að kaupa nýtt skip í staðin fyrir Sæfara sem hefur sinnt siglingum til og frá Grímsey. Menn fóru að svipast um eftir skipi á hæfilegu verði eða möguleikanum á að smíða nýtt og niðurstaðan varð sú að menn ákváðu að kaupa notað skip. Fyrstu forsendur þess að menn völdu þá leið vænti ég að hafi verið að í skýrslu Einars Hermannssonar kemur fram að hugsanlegt kaupverð skipsins sé 80 millj. og endurbætur 60 millj. eða 140 millj. alls. Þannig fóru menn af stað. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því að Vegagerðin, sem ég held að hafi ekkert sérstakt vit á skipum, velji þann kost að kaupa skip á einn fjórða af því verði sem nýtt skip kostaði, en því var lýst að það kostaði 600–700 millj. Þannig fer þetta mál af stað.

Það er greinilegt að verðmatið var í upphafi rangt. Það þarf enginn að efast um það. Svo margar skoðanir hafa farið fram á þessu skipi síðan og það oft verið endurmetið, m.a. af mönnum frá Siglingastofnun. Upphaflegt kostnaðarmat við endurbyggingu var vanmetið. Það liggur fyrir, en hvað um það? Verkefnið fer þannig af stað og þá hefjast verkferlar Vegagerðarinnar sem mér finnast að mörgu leyti mjög ámælisverðir og leiða þetta mál áfram. Eins og hv. fyrsti málshefjandi í dag vakti athygli á var strax farið að tala um 250 millj. kr. að lágmarki í að gera upp skipið.

Það er mjög margt að athuga í þessu ferli bæði hvað varðar ríkisstofnanir eins og Vegagerðina, útboðsferlið, aukaverkin sem ekki var samið um o.s.frv. Það sýnir í raun alveg ótrúlegan barnaskap við að endurbyggja skip að semja ekki um aukaverk og hvernig eigi að fara með þau.

Þá kemur að öðrum þætti þessa máls sem við komum að, þ.e. hvernig fjármögnun á að fara fram á slíku verki. Þar höfum við þá staðreynd að menn velja að nota 6. gr. heimild í fjárlögum til að færa fyrir því rök að unnið hafi verið eins og gert hefur verið. Um það standa vissulega deilur eins og um málið allt, eins og ég hef lítillega rakið.

En það sem vekur athygli er í fyrsta lagi að menn hafa ekki viljað skoða þetta mál vel. Það má minna á fund hv. samgöngunefndar frá föstudeginum 4. maí 2007 sem hafnaði því að skoða þetta mál. En þar segir, með leyfi forseta, í niðurlagi að ekki sé ástæða til að fjalla frekar um málið að sinni. Allar upplýsingar síðan hafa gefið tilefni til að skoða þetta mál betur. Nú fer meiri hluti fjárlaganefndar fram og segir að málinu skuli lokið af hennar hendi og hún sjái ekki ástæðu til að skoða málið frekar. Minni hluti fjárlaganefndar hefur hins vegar uppi þau sjónarmið að vilja skoða þetta mál ofan í kjölinn. Ég geri ráð fyrir því að það sé tilgangur minni hlutans í fjárlaganefnd að læra af þessu máli, skoða það alveg frá upphafi til enda, bæði verkferli, útboð og hvernig þessar milljónir og hundruð milljóna leggjast hvert ofan á annað. Verklag fjármálaráðuneytisins í þessu máli þarf einnig að skoða.

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst einkennilegt þegar ríkisendurskoðandi tekur sér það fyrir hendur að segja við fjármálaráðherra með sérstakri yfirlýsingu í dag hvað eigi að standa í fjárlögunum. Ég vissi ekki til að ríkisendurskoðanda væri ætlað að segja fyrir um fjárveitingar í fjárlögum. Mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að gefa slíka yfirlýsingu sjálfur vegna þeirrar athugasemdar sem ríkisendurskoðandi hefur við málið en ekki að ríkisendurskoðandi og fjármálaráðherra leggi slíka yfirlýsingu fyrir þingið.



[14:25]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í 6. gr. fjárlaga 2006 var veitt heimild til að selja Grímseyjarferjuna MS Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju. Fyrir þá sem leggja sig fram er þetta ákvæði ekkert sérstaklega flókið og ber ekki að túlka öðruvísi en samkvæmt orðanna hljóðan. Allt tal um ágreining um túlkun þessara orða tel ég því miður eingöngu frá fjármálaráðuneytinu komið til að réttlæta málstað sinn í þessu undarlega máli.

Þrátt fyrir þetta skýra ákvæði ákveður hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen og hæstv. fyrrv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson að gera samkomulag við Vegagerðina um að bæði kaup og endurbætur á ferjunni verði fjármögnuð með ónýttum heimildum hennar. Svo bæta þeir um betur og veita Vegagerðinni ótakmarkaðan yfirdrátt úr ríkissjóði ef Vegagerðin hafi ekki svigrúm til að nýta ónotaðar fjárheimildir sínar. Þessi aðferð stenst því miður engan veginn ákvæði fjárreiðulaga eins og Ríkisendurskoðun bendir réttilega á. Þá var hvergi gert ráð fyrir útgjöldunum í fjárlögum fyrir árið 2006 eins og bar að gera. Mál þetta snýst ekki um venjulegan yfirdrátt eða umframkeyrslu á fjárlögum eins og rætt hefur verið um víða í fjölmiðlum. Á hverju ári fara fjölmargir fjárliðir fram úr veittum fjárheimildum og það er vitaskuld alvarlegt mál. Því má alls ekki rugla við það mál sem hér er til umræðu. Hér er um að ræða verkefni sem hlotið hefur formlegt samþykki Alþingis og ákveðin upphæð ætluð til verksins. Mál þetta snýst fyrst og fremst um það hvort fjármálaráðherra geti ráðstafað fé úr ríkissjóði án atbeina Alþingis og hvort ráðstöfun úr ríkissjóði sé einkamál fjármálaráðuneytisins.

Það sem var alvarlegt í þessu máli var að fjármálaráðherra virtist ekki sýna neinn vilja til að breyta því verklagi sem viðgekkst í ráðuneytinu. Þvert á móti réðst hann í ritdeilur við eftirlitsstofnun Alþingis, Ríkisendurskoðun, sem er fádæmi í stjórnsýslunni og þótt víðar væri leitað. Því miður bar fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 2007 aðeins með sér að sami háttur skyldi hafður á áfram. Þar kom hvergi fram tillaga um að mæta útgjöldum vegna Grímseyjarferjunnar.

Á minnisblaði sem hæstv. fjármálaráðherra sendi til fjárlaganefndar í dag ásamt Ríkisendurskoðun kemur fram að leita verði heimilda fyrir kaup og endurbætur á Grímseyjarferjunni í fjáraukalögum fyrir 2007 og í fjáraukalögum fyrir 2008. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en sem viðurkenning á þeirri túlkun að heimild til slíkra framkvæmda verði að vera á fjárlögum hvers árs og fjármálaráðherra geti ekki ráðstafað fé úr ríkissjóði án atbeina Alþingis. (Forseti hringir.) Það verður einnig að túlka viðhorfsbreytinguna þannig að sá kattarþvottur sem meiri hluti fjárlaganefndar viðhafði (Forseti hringir.) er engan veginn fullnægjandi til að klára þetta mál.



[14:29]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu lýsa yfir ánægju minni með að fjármálaráðherra og ríkisendurskoðandi séu komnir að ákveðinni niðurstöðu um þann túlkunarágreining sem upp kom milli þeirra varðandi málið. Jafnframt vil ég líka lýsa yfir nokkurri undrun á því hvernig sú umræða sem farið hefur fram um málefni Grímseyjarferju hefur snúist á þeim fáu dögum sem ég hef setið á hinu háa Alþingi.

Í mínum huga snýst þetta mál um ákveðin grundvallaratriði. Í fyrsta lagi um hvernig samgöngum við Grímsey er háttað. Hins vegar hefur umræðan nær eingöngu snúist um framkvæmd sem hefur farið fram úr áætlun. Ég verð að upplýsa að miðað við yfirferð mína yfir fjáraukalög, stöðu ríkisstofnana á sex mánaða uppgjöri og þriggja mánaða uppgjöri, og vinnu við fjárlagagerð ársins 2008, þá er það lítið fréttnæmt að rekstur stofnana eða framkvæmdir fari fram úr fjárlögum. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt. Það er nær því að það væri meiri frétt ef framkvæmd eða rekstur stofnana stæðist fjárlög eða væri undir fjárlögum. Þess vegna er undarlegt að hlýða á reynda þingmenn, m.a. fyrrverandi stjórnarþingmenn, ganga um sali með yfirlýsingar um að þetta komi þeim allt í opna skjöldu, þegar maður hefur upplýsingar um að í samgönguáætlun áranna 2003–2014 var gert ráð fyrir 400 millj. kr. framlagi til Grímseyjarferju. Svo ræða menn það eins og þetta komi þeim gersamlega í opna skjöldu.

Um það er ekki deilt að formlegar fjárveitingar merktar í krónum hefur skort inn í fjárlög við vinnslu þessa máls, miðað við þann skilning sem menn vilja leggja í þetta núna. En miðað við hefðina og miðað við reynsluna af því hvernig slík verk hafa áður verið unnin þá er ekkert óeðlilegt við það. Ágreiningurinn í málinu snýst um túlkun á ákvæðum fjárreiðulaga, sérstaklega 37. gr. og síðan einnig varðandi heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga. Hér liggur fyrir í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra og Ríkisendurskoðunar vilji til að fara í þá vinnu með fjárlaganefndinni að endurskoða þessi ákvæði og hvernig þeim er beitt.

Þetta mál er í mínum huga ágætisáminning til okkar þingmanna um að standa vörð um fjárveitingavaldið á hinu háa Alþingi. Ríkisendurskoðun er vissulega eftirlitsaðili okkar í þeim efnum. Fjárlaganefndin hefur eins og henni ber sett málið í ákveðinn farveg og ég lýsi yfir sérstakri ánægju með þær undirtektir sem það verklag hefur hlotið.



[14:32]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að málefni Grímseyjarferjunnar séu tekin til umræðu utan dagskrár. Mikið hefur verið skrifað og sagt um þau mál öll og langt í frá að öll kurl séu komin til grafar. Engum blöðum er um það að fletta að margt hefur farið úrskeiðis í því ferli og í raun er óviðunandi að ábyrgðinni sé varpað á milli aðila og enginn axli ábyrgð á axarsköftunum.

Það hefur komið fram að meðferð fjármuna ríkisins eru á skjön við lög og reglur svo ekki sé meira sagt. Það eitt ætti að sjálfsögðu að kalla á að hæstv. fjármálaráðherra axlaði ábyrgð. Það er ólíðandi að fjármálaráðuneytið hagi sér eins og það sé jafnframt fjárveitingavaldið. Það vald liggur hjá hv. Alþingi sem verður að sjálfsögðu að taka hlutverk sitt alvarlega og vinna sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Á vettvangi samgöngunefndar hafa málefni ferjunnar komið til umræðu. Nefndin fékk m.a. á fund sinn fulltrúa ráðuneyta, Vegagerðar og Ríkisendurskoðunar. Þá heimsótti samgöngunefnd, að minni tillögu, Grímsey í haustferð sinni um Norðausturland og átti ágætan fund með sveitarstjórninni þar. Hins vegar er umfjölluninni um málið hvergi nærri lokið á vettvangi samgöngunefndar. Það hlýtur að vera ásetningur formanns nefndarinnar að vinna greinargerð eða skýrslu um málið, mál sem hv. formaður samgöngunefndar hefur kallað klúður á klúður ofan.

Svara þarf margvíslegum spurningum sem lúta að samgöngum milli lands og Grímseyjar og hvernig sú ferja sem ætlað er að sinna því hlutverki er í stakk búin til siglinga á þeirri leið. Hvernig þjónar hún hagsmunum Grímseyinga og mætir þörfum þeirra og til hversu langs tíma yrði sú fjárfesting? Það kom skýrt fram hjá sveitarstjórn Grímseyjar að þar hafa alltaf verið miklar efasemdir um það skip sem ákveðið var að kaupa og það er rangt sem haldið hefur verið fram, að heimamenn hafi sérstaklega verið með í ráðum enda er komið á daginn að viðvörunarorð þeirra hafa átt fullan rétt á sér.

Því er afar áleitin spurning hvort yfirvöld samgöngumála hafi einfaldlega veðjað á rangan hest þegar ákveðið var að kaupa umrædda ferju og gera á henni umtalsverðar breytingar, jafnvel þannig að ráðleggingar skipaverkfræðinga voru að engu hafðar. Alls er óvíst að skipið verði nokkru sinni haffært. Þeim spurningum og mörgum fleirum verður ekki svarað nema með óháðri rannsókn málsins frá upphafi til enda þar sem öllum steinum verður velt við. Samgönguráðherra hefur að vísu ákveðið að láta skoða feril málsins eitthvað en fær til þess verks þá sem unnið hafa alla vinnuna til þessa. Enginn verður dómari í eigin sök og þess vegna er nefndarskipun hæstv. samgönguráðherra hreinn kattarþvottur. Hið sama á við um álit meiri hluta fjárlaganefndar sem nú hefur skilað áfangaskýrslu til Alþingis um málið.

Herra forseti. Það er brýnt að Alþingi sýni myndugleik og trúverðugleika í þessu máli. Meiri hluti fjárlaganefndar svarar engum spurningum í áliti sínu í málinu og leggur í raun blessun sína yfir vinnubrögðin og óráðsíuna. (GSv: Það er ekki rétt.) Það er alvarlegt og ámælisvert. (KÞJ: Þetta er rangt.) Alþingi skuldar Grímseyingum að taka af myndarskap á þessu máli og tryggja að samgöngumálum Grímseyinga verði komið í viðunandi (Forseti hringir.) horf til frambúðar.



[14:35]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Í umræðunni sem hér fer fram um Grímseyjarferjuna svokölluðu hefur ekkert nýtt komið fram nema, eins og skýrt var frá hér í upphafi, að ágreiningnum um túlkunina er lokið og það er gott.

Ég ætla á þeim fáu mínútum sem mér eru ætlaðar í þessari umræðu að fara aðeins yfir málið eins og það er statt núna. Ég hef nýlega farið í enn eina ferðina út í Hafnarfjörð í Grímseyjarferju, kynnt mér stöðu verksins og rætt við verktakana sem þar vinna, þ.e. eigendur vélsmiðju Orms og Víglundar. Þeirra verk er nokkurn veginn á þeirri áætlun sem gerð var eftir að sú verkefnastjórn sem ég skipaði tók við málinu. Stefnt er að því að verkinu ljúki í lok nóvember að mestu leyti. Ég er sæmilega bjartsýnn á það og vona að skipið verði tilbúið í byrjun ársins 2008. Nú eru um 20 til 25 manns að vinna um borð í skipinu og vinna þar hörðum höndum sex daga vikunnar.

Aftur að þeirri verkefnastjórn sem ég gat um áðan — verkefnastjórn sem skipuð var en ekki nefnd — en hún gengur þannig frá núna, vegna þess að hv. þm. Birkir Jón Jónsson málshefjandi talaði um aukaverkin, að nú er samið um hvert einasta aukaverk með undirskrift. Þannig er þetta unnið í dag. Vonandi er að ferjan verði tilbúin á þeim tíma sem ég nefndi áðan.

Í umræðunni í þjóðfélaginu hefur verið talað um kröfur Grímseyinga en ég vil ekki orða það þannig, tala um kröfur Grímseyinga. Þeir setja ekki fram neinar kröfur. Þeir hafa hins vegar komið með ábendingar um hvernig þessi ferja þurfi að vera, hverju hún þurfi að vera búin til að uppfylla það sem hún á að gera, þ.e. þjóna íbúum Grímseyjar með vöruflutningum til og frá og þeim fjölmörgu ferðamönnum sem sækja Grímsey heim. Þær ábendingar hafa verið teknar til greina. Sumt af því var sett inn í útboðið, annað ekki.

Ég er með öðrum orðum að segja, og ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að notendur mannvirkja, sama hvort það er opinbert hús eða í þessu tilfelli ferja, eigi að hafa töluvert um það að segja og eigi að geta komið því til hönnuða hvernig hlutirnir þurfi að vera að þeirra mati. Ég held að í verkefnastjórninni hafi það verið gert.

Ég sé það núna að tíma mínum er lokið. Ég vil segja það að lokum vegna bréfs sem hv. þm. Jón Bjarnason ritaði okkur fyrir hönd vinstri grænna (Forseti hringir.) að Grímseyingar verða boðaðir á fund verkefnastjórnar sem átti að vera á morgun en mun verða frestað um eina viku vegna þess að fulltrúi frá (Forseti hringir.) NAVIS er ekki á landinu. En hann þarf að vera á þeim fundi.



[14:39]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er deginum ljósara að hefur margt farið úrskeiðis í öllu þessu máli og margir bera ábyrgð. Æðstu yfirmenn Vegagerðar ríkisins geta ekki vikið sér undan ábyrgðinni á sínum þætti í þessu máli né heldur ráðgjafi þeirra. Ráðherrar sem komu að málinu á upphafsstigum geta heldur ekki vikið sér undan ábyrgð í þessu máli né heldur ríkisstjórnin öll sem þá sat.

Málið hefst með samþykkt ríkisstjórnarinnar í apríl 2005 þar sem hún heimilar kaup og endurbætur á ferju. Menn gera sér kannski ekki grein fyrir því að ríkisstjórnarfundir eru í sjálfu sér engin stjórnsýslustofnun. Ríkisstjórnin fer ekki með neitt framkvæmdarvald sem heitið getur. Ríkisstjórnarfundir eru bara huggulegir tefundir þar sem stjórnmálamenn koma saman og ná sameiginlegri niðurstöðu um það sem þeir ætla að gera. Menn taka ekki ákvörðun á ríkisstjórnarfundi um að eyða 150 millj. kr. úr ríkissjóði. Menn hafa ekki vald til þess. Stjórnarskráin heimilar það ekki. Engu að síður hefur það verið vaxandi tilhneiging hjá ráðherrum á undanförnum árum að taka sér þetta vald og gefa út tilkynningar með þeim hætti að þeir tilkynni: Við höfum ákveðið að ráðast í þetta verkefni. — Svo er verkefnið sett í gang þrátt fyrir að heimildina skorti.

Þetta er mikið vandamál, virðulegi forseti, sem einskorðast ekki við þá tvo ráðherra sem helst koma að þessu tiltekna máli. Allir ráðherrar sem setið hafa á mörgum undanförnum árum hafa verið þátttakendur í því, af fúsum og frjálsum vilja, að rýra hlut Alþingis og auka sinn hlut með ólögmætum hætti, virðulegi forseti.

En hinu er ekki að neita að hæstv. fjármálaráðherra hefur gengið lengra en nokkur ráðherra áður í því að sniðganga ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins og ákvæði fjárreiðulaga með því að heimila að stofna til útgjalda vegna verkefnis sem Alþingi samþykkti ekki fjárveitingu til. Hann heimilaði að auki að stofna til yfirdráttar til viðbótar þeim fjárveitingum sem stofnunin hafði að öðru leyti til annarra verkefna.

Þessi þáttur málsins er hið alvarlegasta í þessu máli þótt það eigi sér skírskotun til annarra mála sem á undan hafa farið. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn taki á þessari stöðu ráðherra og það duga engin vettlingatök í því, virðulegi forseti.



[14:42]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að góðar og tryggar samgöngur séu á milli staða, hvort sem er í þéttbýli eða utan þess og um það snýst þetta mál. Tryggar samgöngur eru forsenda byggðar í landinu og þróun byggðar á Íslandi felst fyrst og síðast í tryggum samgöngum, í víðasta skilningi þess orðs. Góðar samgöngur milli lands og eyja, líkt og á við í því máli sem hér um ræðir, á milli Grímseyjar og fastalandsins eru augljóst dæmi um gildi þess og tryggilega þarf að standa að slíkum málum og hvergi má gefa afslátt.

Það verður hins vegar að segjast að það hefur ekki átt við varðandi málsmeðferðina vegna hinnar nýju Grímseyjarferju, sé hægt að tala um nýja ferju í þessu samhengi. Meðferð þess máls er sorglegt dæmi um hvernig ríkisstjórn og ráðherrum hefur tekist að klúðra málum, einstökum málum, með svo afgerandi hætti að þegar upp er staðið stendur ekki steinn yfir steini og stefnan og markmiðin sem lagt var af stað með í upphafi hafa snúist í andhverfu sína.

Í upphafi var það svo að Grímseyingar sjálfir vöruðu stjórnvöld eindregið við að kaupa þá skipsnefnu sem á endanum var keypt til að bæta samgöngur á milli Grímseyjar og lands. Grímseyingar lögðu bæði í mikla vinnu og kostnað við að kanna þá kosti sem í boði voru, líka þann sem ríkisstjórnin illu heilli hrasaði um, og þeir vöruðu ákveðið við því að eyða fé og frekari fyrirhöfn í þau kaup sem við sitjum nú uppi með. Þau hafa ekki og munu ekki verða neinum til góðs þegar upp verður staðið. Grímseyingar færðu ítarleg rök fyrir máli sínu en á þá var ekki hlustað.

Það er ljóst að hin svokallaða nýja ferja mun ekki þjóna þeim tilgangi sem til var ætlast. Hún mun ekki þjóna Grímseyingum með fullnægjandi hætti. Hún mun ekki þjóna landsmönnum með fullnægjandi hætti og hún stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til samgöngutækja í dag nema að litlu leyti.

Eftir allt það klúður sem þegar er orðið við samgöngubætur til Grímseyjar eru það Grímseyingar sjálfir sem sitja í súpunni meðan aðrir reyna að þvo hendur sínar vegna málsins og neita að viðurkenna mistök sín. Það munu Grímseyingar hins vegar ekki geta gert. Þeir sitja uppi með afraksturinn af öllu klúðrinu í formi ferju sem þeir hvorki báðu um né vildu fá. Orðspor Grímseyjarferjuklúðursins mun hins vegar verða lífseigt og það munu Grímseyingar sitja uppi með á meðan aðrir víkja sér undan ábyrgð.

Það er síðan kaldhæðni örlaganna sem ræður því að það mun líklega koma í hlut núverandi hæstv. samgöngumálaráðherra, Kristjáns Möllers og Grímseyjarferjugagnrýnanda, að færa Grímseyingum þessa miklu afurð mistaka og klúðurs. Það verður á hans ábyrgð að koma þessu fleyi tjónlaust á milli tveggja hafna, yfir hafið og til nýrra heimkynna, þangað sem enginn vildi fá það.

Það er því ekki úr vegi fyrir ráðherrann að hafa í huga, þegar lagt verður upp í þá örlagaríku ferð, að hafið býr yfir hundrað hættum, eins og segir í ljóðinu, ekki síst (Forseti hringir.) þegar fleyið er ekki burðugra en það sem hér um ræðir.



[14:45]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Málið sem hér er til umræðu í dag var mikið rætt í sumar sem leið og margir hafa látið stór orð falla í þeirri umræðu. Ég dreg enga dul á að mér finnst þetta mál að mörgu leyti klúður á klúður ofan. Ónógur undirbúningur og vond áætlunargerð gerði það að verkum að flest sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis. Lögmál Murphys birtist okkur hér í sinni fegurstu mynd.

Þegar menn gera mistök eiga menn að læra af þeim og tryggja að slíkt gerist ekki aftur. Ég ætla ekki að velta mér upp úr því á þeim stutta tíma sem ég hef í þessum ræðustól nú eða elta uppi einhverja einstaklinga til ábyrgðar og heimta afsagnir. Það er nóg að stjórnarandstaðan sjái um það í þessari umræðu.

Ég verð þó að segja að mér finnst býsna holur hljómur í gagnrýni t.d. fyrrverandi formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, upphafsmanns umræðunnar í dag. Hvers vegna segi ég það? Jú, var ekki hv. þingmaður einmitt formaður nefndar sem átti að hafa eftirlit með fjárreiðum í máli sem skók samfélagið á síðasta ári og var stundum kennt við Byrgið? Mér finnst það ekki þjóna neinum tilgangi að ásaka einhverja einstaklinga fram og aftur. Mér virðist umræðan í þinginu í dag fyrst og fremst vera sett fram til að fá fram skylmingar, skylmingar á vettvangi, ekki til þess endilega að ná fram niðurstöðu eða til að koma með lausnir eða læra af málinu.

Á vettvangi samgöngunefndar hefur verið fjallað um málið. Við bíðum nú eftir skýrslu frá ráðuneytinu um lúkningu málsins. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef undir höndum og fékk frá ráðuneytinu í morgun er gert ráð fyrir að ferjan verði tilbúin til siglinga öðrum hvorum megin við áramótin og er áætlaður kostnaður 487 millj. kr. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom hér upp áðan og efaðist um haffærni ferjunnar. Það er bara tóm della, vil ég leyfa mér að segja, að halda slíku fram. Þessi ferja mun sigla öðrum hvorum megin við áramótin.

Niðurstaða mín í þessu máli er sú að skortur á undirbúningi og vond áætlunargerð auk þess að eftirlitið klikkaði sé ástæða þess að svo fór sem fór. Á undirbúningsstigi þessa máls kom t.d. samgöngunefnd aldrei með beinum hætti að málinu. Því segi ég: Lærum af þessu, vöndum áætlunargerð og tryggjum að eftirlitshlutverk þingnefnda virki í málum sem þessum í framtíðinni. Fyrir því mun ég beita mér sem formaður samgöngunefndar.



[14:48]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Umræðan í dag verður vonandi til þess að í framtíðinni lærum við að fara öðruvísi að en farið hefur verið að í þessu máli öllu saman. Auðvitað vænti ég þess að þegar upp verði staðið fái Grímseyingar ferju í hendurnar sem tryggt geti þeim örugga flutninga til og frá eyjunni á komandi árum.

Það er auðvitað ekki þannig að ekki sé hægt að endurbyggja gömul skip og gera þau góð til flutninga ef vel er að verki staðið. Það er auðveldlega hægt, en ég hygg að enn þá séu nokkur atriði sem þurfi að skoða í sambandi við þá ferju sem verið er að endurbyggja. Ég hygg að ábendingar Grímseyinga og áhafnar ferjunnar Sæfara í þessu máli hefðu mátt komast betur til skila en virðist hafa verið í öllu þessu ferli.

Menn velta því t.d. enn fyrir sér hvort burður í dekki þessa skips sé nægjanlegur til þess að leysa þau verkefni sem ferjunni eru ætluð. Þess vegna er ýmislegt sem menn þurfa að velta betur fyrir sér í verkferlinu öllu. En að lokum held ég að menn eigi einfaldlega að sameinast um að reyna að ljúka þessu máli, koma skipinu í haffært og öruggt ástand. Við bætum ekkert með því að þær fjárveitingar sem settar hafa verið í þetta skip nýtist ekki.

Mitt ráð er að lokum, hæstv. forseti, að reynt verði, úr því sem komið er, að klára þetta skip með fullum sóma þannig að þegar það siglir verði það öruggt til margra ára.



[14:51]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu en ég held að hún sé einungis upphaf umræðunnar sem við eigum eftir að taka um þetta grátlega mál á vettvangi þingsins.

Það mátti heyra á nýjum formanni fjárlaganefndar að honum virtist létt yfir því að hann teldi að fjölmiðlar hefðu ekki orðið mikinn áhuga á þessu máli, þetta væri ekki fréttnæmt. Hann vakti sérstaka athygli á því. Það er ekki mælikvarði á alvarleika mála. Það er heldur ekki mælikvarði á alvarleika mála sem hv. varaformaður fjárlaganefndar nefndi í sinni ræðu, að það væri ekkert nýtt að fjárlagaliðir færu fram úr heimildum.

Ríkisstjórnin ákvað á sínum tíma að verja 150 millj. kr. til verksins árið 2005. Nú er kostnaðurinn kominn yfir 500 millj. kr. Er það ekki fréttnæmt? Ég er ansi hræddur um það. Ég vona að nýr meiri hluti í fjárlaganefnd líti ekki svo léttvægt á þetta mál sem þó virðist.

Það var dapurlegt, hæstv. forseti, að þurfa að sitja undir því, sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, að menn segðu einkennilegt að ég skyldi standa upp og taka hin og þessi mál til umræðu eða leyfa mér að ræða sum mál. Hæstv. ráðherra sagði að ég hefði manna síðastur handfjatlað þá heimildargrein sem hefur leitt til rúmlega 500 millj. kr. útgjalda til þessa verkefnis.

Hæstv. forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að Alþingi Íslendinga og þáverandi ríkisstjórn hefði verið leynd ákveðnum gögnum. Þessi umframkeyrsla kom aldrei inn á borð fjárlaganefndar og engum fjárlaganefndarmanni datt í hug að spyrja sérstaklega út í það vegna þess að við yfirferð viðkomandi ráðuneyta á málinu sáu embættismenn enga ástæðu til þess að ræða málið sérstaklega. Þingið var leynt þessum upplýsingum. Það er staðreynd málsins. Ég hafna því fyrir hönd fyrrverandi fjárlaganefndar að hún beri fyrst og fremst ábyrgð á þessu verki eins og hæstv. fjármálaráðherra ýjaði að, sem ber höfuðábyrgðina.

Hæstv. forseti. Ég sakna þess að Samfylkingin, sem hóf þetta mál í aðdraganda síðustu kosninga, skuli hafa runnið á rassinn eins og raun ber vitni. Þar vísa ég til ræðu formanns samgöngunefndar, hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ég vil segja við hv. þingmenn stjórnarliðsins: Horfið til hægri og vinstri á ráðherrana á bekkjunum. Keisarinn er ekki (Forseti hringir.) í neinum fötum. Við skulum viðurkenna það í þessu máli.



[14:54]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég er alla vega með bindi.

Herra forseti. Að leyna upplýsingum? Ef upplýsingum hefði verið leynt værum við ekki að ræða þetta mál. Við erum einmitt að ræða málið af því að upplýsingum var ekki leynt.

Varðandi tilboðið í viðgerðina á ferjunni vil ég segja: Þegar fallið hafði verið frá lægsta og eina gilda tilboðinu í verkið var tilboð skipasmíðastöðvarinnar í Hafnarfirði lægsta tilboðið og því ekki um annað að ræða en ganga til samninga við þá aðila.

Síðan vil ég segja, herra forseti, varðandi kaupin í árslok 2005, að þau voru reyndar gerð með fyrirvara um samþykki Alþingis enda varð það samþykki síðan að veruleika nokkrum dögum síðar. Við verðum líka að hafa það í huga að í fjárlögum samþykkjum við heimildir til stofnana til þess að ráðstafa fjármunum. Í tilfelli Vegagerðarinnar er ekkert í fjárlögum tilgreint um einstök verkefni sem þeir fjármunir eigi að fara í. Það er hins vegar gert í samgönguáætlun en samgönguáætlunin hefur ekki lagagildi. Þegar samgönguáætluninni lýkur, þegar ekki er getið um verkefni þannig að það dugi til þess að ráðstafa öllum fjármununum falla heimildirnar ekki niður. Þá hefur auðvitað stofnunin möguleika á að nota þá fjármuni til sinna lögbundnu verkefna, eins og í tilfelli Grímseyjarferjunnar.

Varðandi heimildir fjármálaráðherra til þess að gera samninga eins og gerðir voru við Vegagerðina þá eru þeir samningar auðvitað ekki skilyrðislausir. Þeir þurfa auðvitað að vera í samræmi við lög og reglur sem um þetta gilda eins og 4% svigrúm og síðan um ófyrirséð útgjöld þar sem fjármálaráðherra getur samþykkt og greitt út fé. En það ræðst síðan af kringumstæðum. Samgönguáætlunin gerir ráð fyrir þessum fjármunum og er ótrúlegt að heyra hvernig fólk sem samþykkti þá áætlun talar um málið núna.

Ef fara ætti eftir túlkun hv. þm. Höskulds Þórhallssonar á greininni þá hefðum við auðvitað selt ferjuna en ekki keypt neina aðra. Þar af leiðandi væri engin ferja sem gæti siglt til Grímseyjar.

Ég vil, herra forseti, að lokum taka undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur með að skylmingar um þetta mál eru algjörlega ástæðulausar. Við skulum læra af málinu og horfa fram á veginn.