135. löggjafarþing — 20. fundur
 7. nóvember 2007.
íslenska friðargæslan.
fsp. SJS og ÖJ, 74. mál. — Þskj. 74.

[15:16]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þegar stjórnarfrumvarp til laga um íslensku friðargæsluna kom inn á þing á síðasta vetri gagnrýndi ég og fleiri strax við 1. umr. þess máls markmiðsgrein frumvarpsins. Þar var gerður greinarmunur á annars vegar þátttöku okkar í formi þess að senda fólk til starfa við svokölluð almenn friðargæsluverkefni, þar á meðal, eins og sagði í b-lið frumvarpsins, til þátttöku í aðgerðum til að halda hættuástandi á átakasvæðum í skefjum annars vegar og hins vegar verkefnum borgaralegra sérfræðinga sem féllu undir friðargæsluna.

Við lögðum strax til, stjórnarandstæðingar, með breytingartillögu, að þátttaka Íslands að þessu leyti yrði alfarið á borgaralegum forsendum, skilgreind sem borgaraleg verkefni og gert yrði ljóst að ekki væri um neins konar þátttöku okkar að ræða í verkefnum sem væru hernaðarlegs eðlis eða á hernaðarlegum forsendum. Því var og bætt við að okkar tillögu að verkefni íslensku friðargæslunnar mættu aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar- og mannréttindasamninga.

Skemmst er frá því að segja að Alþingi féllst á þessar breytingar og þær voru efnislega teknar inn í 1. gr. og eru þar af leiðandi nú gildandi lög í þessum efnum. Segja má að Alþingi hafi þar með tekið í taumana og mótað stefnuna að þessu leyti. Þetta voru ekki formbreytingar heldur beinar efnisbreytingar og höfðu mikla efnislega og pólitíska skírskotun.

Í framhaldi af því hefði ég talið eðlilegt að íslenskt friðargæslulið sem var við störf á hernaðarlegum forsendum eða undir hernaðarlegri stjórn hefði verið kallað heim og verkefni okkar að öllu leyti endurskilgreind í ljósi þeirrar stefnu sem Alþingi hafði þannig sjálft mótað.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra:

1. Er þess að vænta að íslenskir friðargæsluliðar verði kvaddir heim frá Afganistan? — Má ég þá minna á hvernig það verkefni gengur og það fúafen sem NATO-liðið er að sökkva ofan í í Afganistan og versnar dag frá degi.

2. Hefur farið fram eða stendur yfir endurmat á þátttöku Íslendinga í friðargæsluverkefnum í kjölfar nýrra laga um íslensku friðargæsluna?

3. Telur ráðherra að þátttaka íslenskra friðargæsluliða í verkefnum á vegum NATO — og þá er ég fyrst og fremst að vísa til Afganistan — sé samrýmanleg ákvæðum 1. gr. laga, nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu?

Ég vísa þar sérstaklega til þess að verkefninu er stjórnað af NATO, íslensku friðargæsluliðarnir bera þar hernaðarleg starfsheiti og mannfall óbreyttra borgara í Afganistan er tvímælalaust brot á alþjóðamannréttindasamningum. Ég tel því að það brjóti bæði ákvæði efnismálsgreinar og síðustu málsgreinar 1. gr. laga um íslensku friðargæsluna að við stöndum að málum eins og við gerum í Afganistan.



[15:19]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa beint til mín fyrirspurn um íslensku friðargæsluna sem er í þremur liðum og fyrsti liðurinn er á þessa leið:

„Er þess að vænta að íslenskir friðargæsluliðar verði kvaddir heim frá Afganistan?“

Því er til að svara að nú eru 15 friðargæsluliðar að störfum í Afganistan en þar eru nú einar 36 eða 38 þjóðir með þátttöku í friðargæsluliðinu. Tíu þeirra starfa við rekstur flugvallarins í Kabúl, þrír friðargæsluliðar starfa í höfuðstöðvunum þar inni á skrifstofu fjölmiðlafulltrúa og á skrifstofu sérlegs fulltrúa framkvæmdastjóra NATO. Þrír starfa í endurreisnar- og uppbyggingarsveit sem staðsett er í Shak Sharan í norðurhluta Afganistans.

Það stendur ekki til og ekki talin ástæða til að endurskoða veru þessara friðargæsluliða í Afganistan. Við metum að sjálfsögðu í okkar stefnumörkun hvernig stöður og hvernig verkefni það eru sem við viljum einbeita okkur að og auðvitað hefur orðið ákveðin þróun og breyting á því með aukinni áherslu á störf innan borgaralega hluta alþjóðlega friðargæsluliðsins. Allir þeir starfsmenn sem þarna er um að ræða eru borgaralegir sérfræðingar.

Í öðru lagi:

„Hefur farið fram eða stendur yfir endurmat á þátttöku Íslendinga í friðargæsluverkefnum í kjölfar nýrra laga um íslensku friðargæsluna?“

Því er til að svara að í sjálfu sér kallaði lagasetningin ekki fram breytingar eða endurmat á þátttöku í verkefnum nema því eina verkefni sem ég hef þegar endurmetið, þ.e. þátttakan í Írak. Hins vegar, með hliðsjón af stefnu ríkisstjórnarinnar um að leggja áherslu á mannréttindi, aukna þróunarsamvinnu og friðsamlega úrlausn deilumála, hafa verið og verða gerðar ákveðnar áherslubreytingar. Til dæmis stendur til að auka þátttöku í friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna og við erum nú í viðræðum við Sameinuðu þjóðirnar um það. Einnig er ráðgert að senda fólk til starfa fyrir alþjóðastofnanir í Miðausturlöndum til að taka þar þátt í að styðja uppbyggingarstarf og stöðugleika.

Í þriðja lagi:

„Telur ráðherra að þátttaka íslenskra friðargæsluliða í verkefnum á vegum NATO sé samrýmanleg ákvæðum 1. gr. laga, nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu?“

Því er til að svara að ég tel að þátttaka Íslands í verkefnum Atlantshafsbandalagsins sé samrýmanleg inngangsákvæði laganna. Þar er talað um borgaralega sérfræðinga sem sendir eru til starfa og síðan nefnd dæmi um hvers konar störf það geti verið. Við leggjum til sérfræðiþekkingu og ákveðna reynslu í þau verkefni sem við tökum þátt í. Í sumum tilvikum starfa friðargæsluliðar okkar innan hernaðarskipulags og bera þá í samræmi við ákvæði laganna um friðargæsluna, nota bene, einkennisföt og tign. Sá þáttur er ekki aðalatriði í starfi þeirra. Tign og einkennisklæðnaður er hluti af skipulaginu í þeirri heild sem þeir starfa og markar hvaða stöðu þeir hafa innan þess samfélags í samskiptum við þá eða aðra sem þeir hafa eftirlit með og starfa með.

Virðulegur forseti. Eins og skýrt kemur fram í lögunum, sem hér er vitnað til, er gert ráð fyrir að friðargæsluliðar á vegum íslensku friðargæslunnar geti starfað í herskipulagi, verið með tign og einkennisföt, en hins vegar séu þetta allt borgaralegir sérfræðingar og taki ekki þátt í að koma á friði heldur að reyna að varðveita frið, þótt brothættur sé, á svæðum þar sem mikil átök hafa átt sér stað.

Varðandi Afganistan er það svo að mjög er kallað eftir því að þjóðir heims leggi þar meira af mörkum. Það er ljóst að þar er staðan þannig að menn verða að ætla sér að vera þar um óákveðinn tíma. Ég vil nefna sérstaklega í því sambandi að nú hafa norsk stjórnvöld, ef ég veit rétt, ákeðið að auka verulega viðveru sína í Afganistan og leggja sitt af mörkum með þeim hætti.



[15:24]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því endurmati sem fram hefur farið í utanríkisráðuneytinu á síðustu mánuðum á friðargæsluverkefnum. Ég tel mjög mikilvægt að fara yfir þau á þeim grundvelli hvernig þau samræmist þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í ljósi nýrra laga og að það sé algjörlega skýrt að um verkefni sem samrýmast þessu borgaralega markmiði sé að ræða. Þau verkefni geta oft verið innan ramma liðs frá Atlantshafsbandalaginu. Fyrir því eru mörg dæmi og mörg dæmi eru um að við höfum lagt til lið sem mikið hefur munað um í samstarfi okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Ég vil minna á hjúkrunarlið sem var lykilatriði þess að vel gengi að koma á friði í Bosníu á sínum tíma.

Ég vil því fagna þessari stefnubreytingu.



[15:25]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það blása vissulega aðrir vindar í utanríkisráðuneytinu nú en verið hefur mörg undanfarin ár og er það að mörgu leyti fagnaðarefni. Ég vil þó segja um svonefnda friðargæsluliða að mér er það þvert um geð að á vegum íslenskra stjórnvalda starfi Íslendingar undir vopnum og í herskipulagi og undir herstjórn. Ég tel að við ættum ekki að skipa okkur undir þau merki. Það er nóg af verkefnum á þessu alþjóðlega sviði sem þurfa liðsinni og atbeina okkar og við getum sinnt með sómasamlegum hætti og látið okkar framlag til alþjóðamála koma fram með fullkomlega burðugum hætti sem við getum verið fullsæmd af. Mér er þvert um geð að Íslendingar gangi um með vopn jafnvel þó að þeir heiti friðargæsluliðar.



[15:26]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin um leið og ég hlýt að lýsa yfir nokkrum vonbrigðum með þau og lýsa mig ósammála niðurstöðu hæstv. ráðherra. Ég mun óska eftir því að utanríkismálanefnd haldi áfram að fara yfir þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar að það samrýmist alls ekki þeim breytingum sem Alþingi ákvað á frumvarpinu um íslensku friðargæsluna að skilgreina hana alfarið sem borgaralegt verkefni og taka út þann tölulið upphaflega frumvarpsins sem heimilaði að senda fólk til aðgerða til að halda ástandi á átakasvæðum í skefjum. Sá liður féll út úr frumvarpinu. Hann hefði átt beint við ástandið í Afganistan eins og það er núna.

Ég bendi á að tíu af fimmtán friðargæsluliðum í Afganistan starfa innan herkerfisins á Kabúl-flugvelli og bera starfsheiti eins og Deputy Commander, Assistant Commander, J1 Officer o.s.frv. Hvert í íslenskan veruleika eru þessi starfsheiti sótt?

Ég vísa einnig til þess að Alþingi vildi með breytingu sinni tryggja að verkefni eða þátttaka Íslendinga mætti aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar og mannréttindasamninga, þar með talið Genfarsamninganna, ekki síst um vernd óbreyttra borgara. Mikil umræða er nú um það á alþjóðavettvangi að hið óheyrilega borgaralega mannfall í Afganistan, sem NATO-liðið ber ábyrgð á, samrýmist engan veginn framgöngu manna ef þeir vilja hafa í heiðri þessa samninga. Ég tel því að í ljósi þess að Alþingi gerði þessar efnisbreytingar og að ástandið er eins og raun ber vitni sé meira en full þörf á því að endurskoða þessa framkvæmd okkar. Eðlilegast væri að gera það með því að kalla liðið heim og móta nýjar áherslur, þó fyrr hefði verið, og standa síðan að þátttöku okkar að þessu leyti þannig að hafið væri yfir vafa að það væri í samræmi við lög (Forseti hringir.) og vilja Alþingis í þessum efnum.



[15:28]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan eru þau verkefni sem starfsmenn okkar í friðargæslunni sinna í Afganistan alfarið borgaraleg verkefni. Hins vegar starfa þeir í skipulagi þar sem gert er ráð fyrir að þeir beri tign og búninga. Gert er ráð fyrir því í lögum um friðargæsluna að þannig geti háttað til í þeim friðargæsluverkefnum sem við tökum þátt í þannig að þetta er algjörlega í samræmi við lögin eins og þau eru.

Ég er fullkomlega sammála fyrirspyrjanda, það er ekki verkefni okkar fólks að beita sér með þeim hætti að það haldi aftur af hættuástandi. Til þess höfum við ekki þekkingu eða reynslu. Þess vegna m.a. var þetta tekið út úr frumvarpsdrögunum þegar þau lágu fyrir í þinginu.

Í Afganistan er það hins vegar þannig að ástandið er ekki það sama alls staðar. Afganistan, Kabúl, Suður-Afganistan, Norður-Afganistan, ástandið er mismunandi á þessum svæðum. Við fylgjumst með því í utanríkisráðuneytinu, við fáum um það skýrslur, hvernig ástandið er á þeim stöðum þar sem Íslendingar eru. Ef við teljum að ástandið sé að breytast þannig að ekki sé lengur hægt að segja að um friðargæslu sé að ræða verðum við auðvitað að skoða stöðuna í hvert eitt sinn. Það er alveg ljóst að í Suður-Afganistan er um átakasvæði að ræða. Þar erum við ekki starfandi. Við erum á Kabúl-flugvelli, við erum í þessum uppbyggingarverkefnum, þessum héraðsverkefnum í Norður-Afganistan og ekki er talið að ástandið sé þannig á þessum svæðum að ástæða sé til þess að við drögum þetta fólk til baka.

Við verðum líka að axla þá ábyrgð sem fylgir því að við ákváðum að taka þátt í þessu verkefni. Við gerðum það, við ákváðum að taka þátt í þessu verkefni ásamt 36 eða 37 öðrum þjóðum. Við getum ekki bara hlaupið á brott (Forseti hringir.) af vettvangi þegar eitthvað bjátar á.