135. löggjafarþing — 21. fundur
 8. nóvember 2007.
utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra, ein umræða.

[10:31]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við landstjórninni 24. maí síðastliðinn og hefur nú haldið um stjórnartaumana í 168 daga. Á þeim tíma hefur fjölmargt unnist. Meira hefur farið fyrir sumum málum en öðrum og segir það ekki endilega til um mikilvægi mála hver fyrirferð þeirra er í dægurumræðunni.

Á sviði utanríkismála hefur öryggis- og varnarmál borið hæst enda ærið verkefni að leiða til lykta yfirtöku Íslands á eigin öryggi og vörnum. Ég verð því miður að segja að þar voru ýmsir lausir endar sem hnýta þurfti.

Meðal annarra mála sem unnið hefur verið að í utanríkisráðuneytinu má nefna:

Endurskipulagningu þróunarsamvinnu Íslands.

Frumkvæði í málefnum norðursvæða.

Loftslagsmál og málefni hafsins.

Aðgerðaáætlun um Miðausturlönd.

Sókn á erlendum mörkuðum, viðskiptafrelsi og bættan markaðsaðgang.

Endurskoðun vinnubragða í utanríkisráðuneytinu.

Störf í þágu friðar með sérstöku tilliti til þess að auka hlut og aðkomu kvenna.

Undirbúning nýrra verkefna í alþjóðasamfélaginu svo sem framboð til Íslands til öryggisráðsins og aukið hlutverk í stjórn og starfi Alþjóðabankans.

Tíminn leyfir ekki að hér sé gerð ítarlega grein fyrir öllum þessum fjölþættu málum og ýmislegt hefur komið til umræðu í utanríkismálanefnd nú þegar. Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég þó geta þess að í janúar næstkomandi mun ég flytja Alþingi sérstaka skýrslu um Evrópumál. Um þau verður þess vegna ekki fjallað í ræðu minni að þessu sinni.

Virðulegi forseti. Þó skammt sé liðið á tuttugustu og fyrstu öldina hefur hún nú þegar borið með sér miklar breytingar. Heimurinn breytist ört og Ísland er lifandi vitnisburður þeirra hröðu breytinga. Upptökin eru ekki lengur einfaldlega íslensk heldur í raun alþjóðleg. Ég bendi á sem dæmi frjálst flæði fjármagns, hlýnandi veðurfar, bráðnun jökla, flutninga fólks milli heimsálfa í atvinnuleit, sveiflur á heimsmarkaðsverði orkugjafa og tilkomu hins nýja alþjóðlega markaðar skapandi atvinnugreina.

Við nefnum hinar nýju aðstæður stundum einu nafni hnattvæðingu. Hnattvæðingin er ekki ný undir sólinni en á okkar öld ber hún ný einkenni. Skilin milli innanlandsmála og alþjóðamála eru að hverfa. Verksvið allra ráðherra í ríkisstjórn Íslands nær inn á alþjóðavettvang. Nýjar alþjóðareglur eða ný stefna sem mótuð er með viðskiptasamningum eða á vettvangi Evrópusamruna, hjá Alþjóðabankanum eða meðal Norðurlandaþjóða hefur bein áhrif á Ísland, á íslensk fyrirtæki og íslenskar fjölskyldur. Loftslagsbreytingar þekkja engin landamæri og það mega lausnirnar ekki heldur gera.

Íslenskum stjórnmálum er nú svo farið að heimsmál ná inn í sveitarstjórnir. Þess vegna hef ég t.d. stutt viðleitni Sambands íslenskra sveitarfélaga til að komast að borðinu í EFTA- og EES-samstarfi. Og heimaverkefni okkar Íslendinga eins og verð á lyfjum til almennings finnur bestu lausnina í fjölþjóðlegu samstarfi eins og heilbrigðisráðherra hefur gengist fyrir á síðustu vikum. Sama á við um málefni hafsins en vandað framlag Íslands sem EES-ríkis til stefnumótunar á því sviði hefur vakið verulega athygli innan Evrópusambandsins og mun skila okkur og öðrum ávinningi.

Á 21. öld eru heimsmálin einnig heimamál og heimaverkefnin eru heimsverkefni.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk utanríkisþjónustunnar að vakta þau tækifæri og þær hræringar á alþjóðavettvangi sem geta haft áhrif á íslenskan þjóðarhag, miðla þeim til réttra aðila innan lands og bregðast við eftir efnum og ástæðum. Utanríkisþjónustan á að veita bæði einstaklingum og fyrirtækjum þjónustu og gæta íslenskra almannahagsmuna.

Ég legg kapp á það að utanríkisþjónustan þróist í takt við nýja tíma. Hún þarf bæði að laga sig að þeim breyttu aðstæðum sem ég vísaði til áðan og hún þarf að vera í takt við það samfélag sem hún er sprottin úr. Það er mér því mikið ánægjuefni að tekist hefur frjótt og mikilvægt samstarf með utanríkisþjónustunni og öllum háskólum landsins. Á opnum fundum sem haldnir eru í háskólunum fara fram innihaldsríkar umræður um erindi Íslands á alþjóðavettvangi, réttindi okkar og skyldur. Það er löngu tímabært að efnt sé til slíkrar samræðu við háskólasamfélagið og allan almenning. Við eigum að hvetja til umræðu um alþjóðamál og leitast við að byggja upp sammæli Íslendinga um grunnatriði utanríkisstefnunnar ólíkt því sem einkenndi 20. öldina oft og tíðum og það stjórnmálaandrúmsloft sem þá var ríkjandi.

Eins og sjá má í stjórnarsáttmálanum vill ríkisstjórnin gera sitt til þess að bæta samskipti þings og ráðuneytis um utanríkismál. Liður í því er að í gær ritaði ég utanríkismálanefnd bréf þar sem ég greindi frá því að ráðuneytið hefði hlutast til um að alþingismönnum sem sæti eiga í utanríkismálanefnd yrði í krafti starfs síns í nefndinni veitt öryggisvottun NATO. Eins og kunnugt er hvílir trúnaður á störfum utanríkismálanefndar samkvæmt 2. mgr. 24. gr. þingskapalaga. Á það við um NATO-gögn sem sýnd verða samkvæmt ákvörðun ráðherra. Vegna þessa hefur utanríkismálanefnd nú fengið aðgang að fundargerð NATO-ráðsins frá 4. október 2001 og geta nefndarmenn því gengið úr skugga um það, eins og ég hef þegar gert sjálf, að NATO veitti ekki heimildir til fangaflugs, leynifangelsa eða pyndinga eins og látið hefur verið í veðri vaka í umræðunni. Slíkur aðgangur utanríkismálanefndar er visst sögulegt nýmæli og í bréfi mínu óskaði ég eindregið góðs samstarfs um að þessi breyting yrði til eflingar störfum Alþingis og utanríkismálanefndar. Viðbrögð nefndarmanna gefa góðar vonir um að svo muni verða.

Virðulegi forseti. Aldrei hafa fleiri Íslendingar leitað sér sérþekkingar á alþjóðamálum eins og nú er raunin og aldrei hafa fleiri menntað sig í öðrum löndum. Menntasprengjan sem orðin er á Íslandi hefur opnað heiminn fyrir ungum Íslendingum. Ungt fólk á meira val en nokkur önnur kynslóð Íslendinga um hvar það kýs að lifa eða starfa. Utanríkisþjónustan nýtur góðs af aukinni menntun ungs fólks og hefur á að skipa færu liði með fjölbreytta þekkingu um leið og byggt er á góðum grunni.

Íslensk utanríkisstefna stendur á tímamótum og nýtt tímaskeið er að renna upp. Til marks um það eru nýjar áskoranir og ný hlutverk. Á nýrri öld á utanríkisþjónustan að vera þekkingarsamfélag og í breyttum heimi þarf ný vinnubrögð. Ég skynja mikinn metnað öflugs starfsfólks til þess að efla þjónustuna og tryggja að íslenskur almenningur þekki til mikilvægra starfa hennar. Utanríkisþjónustan verður að búa að tvennu: Góðri og gegnsærri stjórnsýslu annars vegar og nýrri og ríkri þekkingu hins vegar. Áfram verður unnið að því að skerpa á vinnubrögðum og vinnulagi og gera utanríkisþjónustuna sem hæfasta til þess að mæta framtíðinni.

Norðurslóðir eru nýtt kjarnamál í íslenskri utanríkisstefnu. Málið hefur verið sett í forgang í ráðuneytinu og heildstæð stefna varðandi norðurslóðir er nú í vinnslu. Á norðurslóðum eru miklir hagsmunir í húfi eins og við vitum öll og öryggi á Norður-Atlantshafinu er tvímælalaust eitt mest áríðandi öryggismál Íslands. En málið varðar ekki Íslendinga eina og umræður á vettvangi NATO og Norðurlandaráðs nú nýverið bera þess órækt vitni að málefni norðurslóða munu verða fyrirferðarmeiri á dagskrá alþjóðastofnana hér eftir en hingað til. Því ber að fagna.

Ein ástæða þessa er þó sú að allmörg ríki gera tilkall til áhrifa og aðgangs að auðlindum á norðurpólnum. Við Íslendingar hljótum að leggja áherslu á góða samvinnu þeirra ríkja sem eiga hagsmuna að gæta á norðurslóðum en vara við kapphlaupi um auðlindir norðursins og einhliða aðgerðir.

Ísland hefur um árabil gegnt mikilvægu hlutverki við mótun alþjóðlegra leikreglna um hafið og nýtingu þess og þeirra auðlinda sem þar er að finna og Ísland hafði forustu í Norðurskautsráðinu frá 2002 til 2004. Við munum á grunni þessarar reynslu beita okkur fyrir mótun nauðsynlegra leikreglna á norðurslóðum. Þar verða alþjóðalög að vega þyngra en hnefaréttur og hagsmunir mannkyns í heild að vega þyngra en þröngir hagsmunir einstakra ríkja.

Í þessu sambandi ber að fagna þeim tíðindum sem nú berast frá Washington að Bandaríkin séu nær því að gerast aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna en nokkru sinni áður frá samþykkt hans árið 1982. Mikilvæg ástæða þess er að Bandaríkjamenn sjá sem er að aðild veitir þeim aðgang að skipulögðu samningaferli. Þeir sjá að þjóðarétturinn virkar fyrir alla.

Þá skal þess getið að mikilsverður árangur hefur náðst á þessu ári í baráttunni gegn ólöglegum veiðum hentifánaskipa á Norður-Atlantshafi.

Virðulegi forseti. Mannréttindi eiga að vera óaðskiljanlegur þáttur í utanríkisstefnu landsins og samofin öllu okkar atferli á alþjóðavettvangi.

Til að staðfesta þetta í starfi utanríkisþjónustunnar skipaði ég starfshóp innan ráðuneytisins sem mun í næsta mánuði skila til mín tillögu að heildstæðri aðgerðaáætlun á sviði mannúðar-, friðar- og þróunarsamvinnumála. Markmiðið er að mannréttindasjónarmið verki svikalaust á þróunarsamvinnu, öryggismál, friðargæslu og viðskiptasamninga.

Fyrir dyrum stendur að setja á stofn landsnefnd um mannúðarlög sem á að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi túlkun og framkvæmd alþjóðlegra mannúðarlaga og breiða út þekkingu á þeim en mikilvægt er að tryggja að sá ávinningur sem náðist eftir síðari heimsstyrjöldina með samþykki Genfarsamninganna glatist ekki.

Ég árétta þá afstöðu íslenskra stjórnvalda að baráttuna gegn hryðjuverkum megi aldrei heyja á kostnað mannréttinda og að virða skuli alþjóðlegar mannúðar- og mannréttindareglur skilyrðislaust í þeirri baráttu.

Virðulegi forseti. Í sumar hefur farið fram mikil vinna á vegum ráðuneytisins við að móta nýja rammalöggjöf um alþjóðlegt starf Íslands gagnvart þróunarríkjum. Þúsaldarmarkmiðin, átta skilgreind og mælanleg markmið sem Sameinuðu þjóðirnar vilja ná fyrir 2015, leggja grunninn að öllu þróunarstarfi á alþjóðavettvangi. Þau miða að því að bæta hag íbúa þróunarríkja með því að útrýma fátækt og hungri, bæta heilsufar, vinna að jafnrétti kynjanna, betri menntun og umhverfisvernd og stuðla að hnattrænni samvinnu um þróun.

Áherslur Íslands í þróunarsamvinnu taka vitanlega mið af þúsaldarmarkmiðunum og ég tel að við eigum á næstu árum að leggja megináherslu á menntun, heilsugæslu, jafnrétti kynjanna og sjálfbæra þróun. Leiðarljós allrar þróunarsamvinnu Íslendinga er og á að vera að styðja þróunarlöndin til sjálfsbjargar í efnahags- og velferðarmálum og þar er ekkert verkefni mikilvægara en menntun og miðlun þekkingar. Íslendingar hafa þar margt að bjóða ekki síst í Afríku þar sem þörfin er brýnust fyrir stuðning við uppbyggingu velferðarþjónustu, atvinnulífs og mannréttinda.

Það er sérstakt gleðiefni að stuðningur okkar við menntamál á vettvangi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur farið vaxandi á liðnum árum og rennur nú meira fjármagn til fræðsluverkefna í þróunarlöndunum en nokkurra annarra málaflokka. Þetta er mikilvæg þróun og ég tel að í henni felist rétt forgangsröðun.

Ljóst er að sérþekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa getur nýst afar vel fátækum þjóðum svo sem í Afríku sem margar hverjar ráða yfir ríkulegum náttúruauðlindum en hafa ekki búið yfir þekkingu til að nýta þann auð í þágu almennings. Sömu sögu er að segja af smáum eyþróunarríkjum en þar hefur verið kallað sérstaklega eftir samvinnu, þátttöku og framlagi Íslands. Því er nú verið að skoða sérstaklega að setja af stað þróunarverkefni í samvinnu við eyjar í Karíba- og Kyrrahafi sem hafi það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun, einkum á sviði fiskveiða og sjávarútvegs og í nýtingu jarðvarma og annarra endurnýjanlegra orkugjafa.

Aukin framlög Íslands til þróunaraðstoðar haldast í hendur við framangreind markmið. Ríki sem við viljum helst bera okkur saman við eins og Danmörk, Noregur, og Svíþjóð hafa öll náð því markmiði sem sett var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 1970 að hlutfall af vergri landsframleiðslu sem rennur til þróunarmála skuli nema 0,7%. Finnland mun ná markinu árið 2010 og auk þess hafa ellefu önnur ríki sett það markmið að ná þessu hlutfalli fyrir árið 2015. Sem auðugu ríki ber okkur skylda til að stefna markvisst að því að verða í hópi þeirra ríkja sem mest leggja fram til þróunarmála miðað við verga landsframleiðslu. Á þessu ári mun hlutfallið nema 0,28%, 0,31% á næsta ári og 0,35% árið 2009.

Með auknum framlögum aukast kröfur til fagmennsku. Í þessu ljósi hef ég ákveðið að Ísland gerist aðili að DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD. Með aðildinni fær Ísland beinan aðgang að reynslu og upplýsingum sem nýtast við mótun stefnu í þróunarstarfi auk þess sem DAC gerir úttekt á þróunarsamvinnu aðildarlandanna á fjögurra ára fresti. Þetta miðar að því að tryggja gæði þróunaraðstoðarinnar og veitir mikilvægt faglegt aðhald.

Engin þjóð, allra síst þjóðir sem búa við jafnmikla velmegun og við Íslendingar, á að geta skorist undan því að axla sínar skyldur og ábyrgð svo að þúsaldarmarkmiðunum, sem — þegar öllu er á botninn hvolft — varða velferð okkar allra, verði náð.

Frjáls félagasamtök vinna mikilvægt og óeigingjarnt starf á sviði þróunarmála hvort sem er hér heima eða í þróunarríkjum. Hagsmunir okkar felast ekki síst í því að virkja þann kraft sem þau búa yfir og styrkja það frumkvöðlastarf sem fram fer á þeirra vegum. Ég hef því ákveðið að tvöfalda þau framlög sem ráðstafað er til þróunaraðstoðar í gegnum íslensk félagasamtök, þannig að það hækkar á næsta ári úr 60 milljónum króna í 120 milljónir króna.

Í viðskiptalífinu hefur orðið vart vaxandi áhuga á þróunarstarfi. Í ráðuneytinu er nú í undirbúningi stofnun sérstaks viðskiptaþróunarsjóðs sem fyrirtæki geta sótt í til að fjármagna undirbúning viðskiptatengdra verkefna í þróunarríkjum sem sannanlega geta stuðlað að bættum lífskjörum í viðkomandi landi.

Í allri þróunarsamvinnu Íslendinga vil ég leggja sérstaka áherslu á að málefni kvenna og barna verði sett í forgrunn. Með auknum framlögum til lykilstofnana Sameinuðu þjóðanna sem fara með málefni kvenna og barna mun Ísland skipa sér í þann flokk ríkja sem mest leggja til viðkomandi stofnana ef miðað er við hina víðfrægu höfðatölu. Erum við nú þegar efst á lista yfir framlagsríki UNIFEM og á meðal 10 efstu framlagsríkja UNICEF. Þá munum við einnig vinna ötullega með Alþjóðabankanum að málefnum kvenna og samþættingu kynjasjónarmiða.

Virðulegi forseti. Íslenska friðargæslan er borgaraleg starfsemi og á til framtíðar að verða stolt Íslendinga. Einn hinna nýju hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu er friðsamleg lausn deilumála enda óhugsandi fyrir ríki eins og Ísland, sem er öflugt smáríki, að skorast undan á því sviði. Ég hef hins vegar orðið þess vör að margir Íslendingar þekkja ekki nægilega vel til þeirra forsendna sem framlag Íslands til starfa í þágu friðar byggist á.

Eftir lok kalda stríðsins jókst áhersla á friðargæslu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hjá NATO og víðar. Nær öll ríki hófu virka þátttöku með einum eða öðrum hætti og eitt þeirra sem það gerði var Ísland.

Segja má að í upphafi hafi friðargæsluverkefnin ekki verið nægilega vel skilgreind og réttarstaðan hafi verið óljós. Á þessu ári voru samþykkt ný lög á Alþingi um íslenska friðargæslu og þar er skýrt kveðið á um borgaralega skilgreiningu á starfssviði friðargæslunnar. Þá áherslu mun ég leitast við að skerpa áfram eins og ég hef gert í sumar.

Nú eru íslenskir friðargæsluliðar við störf í Afganistan, Bosníu-Hersegóvínu, Líbanon, Líberíu, Makedóníu, Palestínu, Serbíu og á Srí Lanka. Verkefnin sem þeir taka þátt í eru á vegum NATO, Evrópusambandsins, UNIFEM, UNIFIL, UNICEF og hinnar svonefndu Eftirlitssveitar með vopnahléi á Sri Lanka.

Í Afganistan stendur NATO og alþjóðasamfélagið frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni, en þó er enginn vafi á því að mikið hefur þegar áunnist. Við þurfum að líta til þess hvar þekking okkar og geta nýtist best í því samstillta átaki sem nauðsynlegt er til að ná árangri í Afganistan sem gagnast heimamönnum til frambúðar.

Stefnt er að því að auka þátttöku í friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna og markmiðið er að senda fleiri til starfa í Miðausturlöndum.

Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna var ákveðið 1998 og fer kjörið fram innan árs á allsherjarþinginu í New York. Kosningabarátta okkar kostar aðeins brot af því sem Tyrkir og Austurríkismenn, sem eru okkar keppinautar, verja til sinnar baráttu en hún er vel skipulögð og skilvirk. Framboðið er norrænt framboð og allir utanríkisráðherrar Norðurlanda fylgjast með af áhuga, tala fyrir kjöri Íslands og hafa sent öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna bréf þar sem þau eru hvött til að greiða atkvæði með Íslandi.

Færa má rök fyrir því að Ísland, eins og önnur ríki, deili fullveldi sínu með öðrum aðildarríkjum alþjóðastofnana svo sem Sameinuðu þjóðanna ekki síst vegna valdheimilda öryggisráðsins. Þess vegna má telja að framboðið sé skref til fullnustu sjálfstæðis þjóðarinnar, að Ísland sé, rétt eins og aðrar sjálfstæðar þjóðir, fullfært um að sitja við borðið. Munum að meira en fjörutíu af fimmtíu þróunarríkjum Afríku hafa setið í öryggisráðinu.

Á alþjóðavettvangi finnst mjög mörgum að einmitt ríki eins og Ísland eigi að sitja í ráðinu; lýðræðisríki sem ekki á í deilum við önnur ríki; ríki sem samkvæmt venju leysir sín deilumál á friðsaman hátt; ríki sem virðir almenn mannréttindi; ríki sem ekki á sér forsögu sem flækt getur fyrir óhlutdrægri úrlausn deilumála.

Á hitt ber líka að líta að vinnan við framboðið skilar okkur umtalsverðum ávinningi. Framboðið er tækifæri til að dýpka þekkingu okkar á málefnum og landsvæðum sem við höfum ekki getað sinnt mikið til þessa. Það er svar við þeirri kröfu sem hnattvæðingin gerir. Liður í þessu voru ferðir sem ég fór á mínum fyrstu mánuðum í starfi, fyrst til Afríku á fund Afríkusambandsins í Accra í Ghana og þá til Miðausturlanda, þ.e. Ísraels, hernumdu svæða Palestínumanna og til Jórdaníu. Verkefni öryggisráðsins eru ekki síst tengd þessum svæðum. Í framhaldi af ferð minni samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun um Miðausturlönd, sem kynnt hefur verið fyrir utanríkismálanefnd, sem miðar að því að bæta aðstæður Palestínumanna. Í áætluninni felst m.a. tvöföldun á framlagi Íslands til svæðisins.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin miðar að því að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna. Þar höfum við stutt viðleitni til þess að þrýsta á stjórnvöld í Íran um að gera fulla grein fyrir kjarnorkuáætlun sinni. Þó mikilvægt sé að beita þeim úrræðum sem tiltæk eru til þess að sporna gegn ólöglegum aðgerðum er ekki síður mikilvægt að varast hættulegt ofmat sem einkenndi svipaða umræðu um málefni Íraks í aðdraganda innrásarinnar 2003. Íranar þurfa að gefa skýr svör til þess að eyða þeim vafa sem fyrir hendi er, en að sama skapi er áríðandi að málið sé metið með jafnaðargeði til þess að ekki komi til annarrar misráðinnar valdbeitingar sem auka mun óstöðugleika í heimshlutanum og þjáningar almennra borgara.

Virðulegi forseti. Nýtt tímaskeið er hafið í öryggis- og varnarmálum Íslands. Fram til þessa hefur Ísland verið meira og minna þiggjandi í varnarsamstarfi vestrænna ríkja en með niðurlagningu flotastöðvar Bandaríkjahers hér á landi fyrir rúmu ári eru forsendur gjörbreyttar.

Í skoðanakönnun sem gerð var í tilefni af þingi Norðurlandaráðs kom fram að 73% Íslendinga vilja að Norðurlandasamstarf fjalli um varnir og öryggi. Það er líka fagnaðarefni að grannríki okkar hafa sýnt mikinn áhuga á samstarfi á þessu sviði. Vitaskuld vegur varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 þungt í vörnum Íslands en nýir rammasamningar við Noreg og Danmörku um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála á friðartímum eru mikilvægir. Viðlíka samstarf við Bretland, Kanada, Þýskaland og Frakkland er í deiglu.

Undirstaða haldgóðrar varnarstefnu Íslands til framtíðar er að fram fari vandað og faglegt hættumat fyrir Ísland sem byggt sé á bestu þekkingu. Ég hef skipað 12 manna starfshóp fólks með víðan faglegan bakgrunn til að sinna þessu starfi næstu mánuði. Formaður verður Valur Ingimundarson prófessor og sérstakur ráðgjafi verður Alyson Bailes, sendiherra og fyrrverandi forstöðumaður CIPRI öryggisstofnunarinnar í Stokkhólmi. Verklok eru áætluð fyrir næsta haust.

Góðar og viðeigandi varnir eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar. Það er mikilvægt að þær séu ekki undirorpnar pólitískum sviptivindum á heimavelli heldur byggðar á ígrunduðu mati á langtímahagsmunum og þeim váboðum sem þjóðin kann að standa andspænis á hverjum tíma. Um þetta þurfum við að ná sátt og sameiginlegum skilningi.

Virðulegur forseti. Það er rétt að segja frá því hér að í morgun gafst aðildarríkjum NATO möguleiki á því að bjóða fram flugsveitir til loftrýmiseftirlits á Íslandi á næstu tveimur árum. Viðbrögð bandalagsríkjanna voru mjög jákvæð og m.a. stefna Frakkar að því að vera hér með flugsveitir í fimm til sex vikur næsta vor. Þá buðust Bandaríkin til þess að koma með flugsveitir í loftrýmiseftirlit sumarið 2009 og Norðmenn hafa áhuga á því að taka þátt á næsta ári og Danmörk skoðar þátttöku 2009 sem og líka Spánn. Þetta eru upplýsingar eftir fund sem haldinn var í gær.

Öryggishugtakið sjálft er gjörbreytt og nær nú til miklu fleiri þátta en áður var. Til marks um þetta er sú staðreynd að NATO skilgreinir sig ekki lengur sem varnarbandalag heldur fremur sem öryggisbandalag. Upprunalegt landvarnahlutverk er enn til staðar en í hnattvæddum heimi hefur áhersla bandalagsins færst á hinar nýju hnattvæddu ógnir. Ríki ein og sér stemma ekki stigu við útbreiðslu gereyðingarvopna, alþjóðlegri glæpastarfsemi, neikvæðum afleiðingum loftslagsbreytinga, fátækt og örbirgð eða hryðjuverkum. Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna ber einnig að skoða í þessu ljósi.

Virðulegi forseti. Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi, viðskiptafrelsi og aukin opnun markaða er forsenda þess að íslenskt atvinnulíf styrkist til framtíðar. Sanngjörn opin heimsviðskipti eru allra hagur og með það í huga gengur Ísland fram í Doha-viðræðunum sem því miður mættu ganga í heild betur en raunin er.

Nú sem endranær eru viðskiptatækifærin flest þar sem vöxturinn er mestur. Því er horft lengra en til gamalgróinna viðskiptalanda. Ísland hefur með EFTA samið um fríverslun við fjölmörg ríki í Afríku, Suður-Ameríu og Asíu.

Alls er Ísland nú aðili að fríverslunarsamningum við 53 ríki með samtals einn milljarð íbúa. Brátt má búast við að Kólombía, Perú, Taíland og ríki í Flóaráðinu bætist við með samningum við EFTA. Á næsta ári munu EFTA-ríkin hefja fríverslunarviðræður við Indland en samningur við Kanada er tilbúinn og verður undirritaður á næsta ári.

Hoyvíkursamningurinn við Færeyjar er tvíhliða samningur um fríverslun og ég hef orðið þess áskynja í vestnorrænni samvinnu hversu miklu sá samningur skiptir. Við gleðjumst líka yfir opnun aðalræðisskrifstofu Færeyinga hér við Austurvöll og í utanríkisráðuneytinu hefur nýr kraftur verið settur í að skoða samstarfsmöguleika við Grænland.

Nýmæli eru einnig viðræður um fríverslunarsamning við Kína sem staðið hafa allt þetta ár. Markmið samninga Íslands og Kína er niðurfelling tolla, takmarkaðar gagnkvæmar ívilnanir á sviði þjónustuviðskipta og samstarf um almenna einföldun viðskipta. Viðræðurnar við Kína ganga vel en mikilvægt er að standa vel að málum í þessum viðræðunum og það er ásetningur utanríkisráðuneytisins að eiga í þessu máli m.a. virkt samráð og tryggja upplýsingastreymi við samtök atvinnurekenda og við verkalýðshreyfinguna, þar á meðal við nefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) á Íslandi.

Greiðar heimssamgöngur hafa aldrei verið mikilvægari og góðar tengingar eru algjört forgangsmál fyrir Ísland. Nýir samningar liggja fyrir við Danmörku, Noreg og Svíþjóð um mikla útvíkkun loftferðasamninga ríkjanna frá sjötta áratugnum með mun víðtækari flugréttindum. Í júlí tókust samningar við Kanada eftir áralangar umleitanir. Samningurinn felur í sér mjög víðtæk flugréttindi fyrir íslenska flugrekendur vegna farþega- og farmflugs með ótakmarkaðri tíðni flugs og magns auk frjáls vals áfangastaða innan og handan Kanada.

Þá hafa tekist samningar við Malasíu og í undirbúningi eru samningaviðræður við Mexíkó og Síle eftir samráð við flugrekendur um forgangsröðun við gerð slíkra samninga.

Virðulegi forseti. Markaðir og alþjóðleg samvinna byggð á lögum eru hinir nauðsynlegu gagnvegir milli ríkja sem þurfa hvert á öðru að halda í breyttum heimi. Það er hin eiginlega samtrygging um frið og öryggi, greið viðskipti, réttindi einstaklinga, gott mannlíf og virðingu fyrir náttúrunni. Ísland varð aðili að þjóðarétti og samfélagi þjóðanna 1918. Á næsta ári verða liðin 90 ár frá því að þeim áfanga var náð.

Eðli málsins samkvæmt hefur saga Íslands oftast verið rakin frá innra sjónarhorni okkar á einstaklinga og hreyfingar hér heima, en nú þegar fjarlægð er náð á 20. öldina á Íslandi er mikilvægt að ná víðari sýn, að sjá okkar eigið land líka í alþjóðlegu ljósi. Allar götur frá fullveldi hafa ýmsar mikilvægar framfarir á Íslandi tengst alþjóðlegri viðurkenningu og þróun í samvinnu ríkja. Fullveldi var náð vegna alþjóðlegrar viðurkenningar á sjálfsákvörðunarrétti þjóða, útfærsla landhelginnar var viðurkennd vegna þróunar alþjóðlegs hafréttar, viðskiptafrelsi innleitt með aðild að alþjóðasamningum og tækniframfarir tryggðar með samskiptum við útlönd.

Ég hef lýst því í samtölum við starfssystkini mín frá Afríku hvernig Ísland reis úr því að vera nýlenda og meðal fátækustu ríkja Evrópu í upphafi síðustu aldar — í raun þróunarríki langt fram eftir öldinni — til þess að vera nú í hópi ríkustu samfélaga heimsins. Árangur Íslands á ýmsum sviðum er þeim áhugaefni og getur verið lifandi fordæmi.

Sannleikurinn um stöðu Íslands er sá að það er horft til okkar. Við höfum enga þá almennu sérstöðu sem skilur okkur frá skyldum í samfélagi þjóðanna. Aðrir horfa til okkar til að læra af reynslu okkar eða vegna þess að vænst er af Íslandi samstöðu og framlags innan alþjóðasamfélagsins. Þetta er ekki háleitt hugsjónatal heldur augljós staðreynd. Stefna ríkisstjórnarinnar er að svara kalli tímans og efla af skynsemi þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi.

Stjórnarsáttmálinn kveður á um að nýir hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu séu mannréttindi, þróunarsamvinna og friðsamleg lausn deilumála. Þessi yfirlýsing hefur siðferðilegt inntak og vísar til mikils metinna gilda í íslensku samfélagi og menningu. Íslendingar hafa aldrei farið með ófriði á hendur öðrum þjóðum í hefðbundnum þjóðréttarlegum skilningi og aldrei haft efni til að heyja árásarstríð af nokkru tagi. Á Íslandi skiptir hver mannssál máli og allir eru taldir með. Það er einnig kjarni mannréttinda og mannhelgi. Á Íslandi hafa líka kannanir sýnt að almenningur vill að þjóðin leggi meira af mörkum úr sameiginlegum sjóðum til þróunarsamvinnu auk þess sem óvenjumargar fjölskyldur greiða beint til barna eða fjölskyldna í þróunarlöndum.

Lýðveldið Ísland er öflugt smærra ríki í alþjóðasamfélaginu. Það er dýrmætt að ógna engum, geta gengið fram óbundin af annarlegum hagsmunum, vera þekkt fyrir að standa með alþjóðalögum í hvívetna og eiga viðskipti á heiðarlegum grunni.



[11:02]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að mikið hefði verið unnið að loftslagsmálum í utanríkisráðuneytinu. Ég hlýt að spyrja, hæstv. forseti, hvort það geti verið. Hvernig er staðan á ríkisstjórnarheimilinu varðandi loftslagsmál? Jú, þegar umhverfisþing var haldið sagði hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir að ekki ætti að sækjast eftir svokölluðu íslensku ákvæði í næstu samningalotu. Þau orð voru látin falla án þess að búið væri að ræða málið í ríkisstjórn. Hvað gerist svo? Jú, hæstv. forsætisráðherra segir á Norðurlandaráðsþingi 30. október, í andsvari við mig og ég ætla að fá að lesa þetta orðrétt, virðulegi forseti, á norsku:

„Jeg synes den klausulen vi fikk siste gang, var veldig fornuftig. Den var også veldig verdifull for Island. Det som skjer i framtiden, har vi ikke tatt stilling til. Vi har ennå ikke drøftet dette i vår regjering, og vi har ikke tatt offisiell stilling til det vis-à-vis andre land.“

Hér segir að þetta hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn en að þessi klásúla hafi verið skynsamleg.

Hvað gerist síðan? Þarna fer hæstv. forsætisráðherra varlega en í gær 7. nóvember segir hæstv. forsætisráðherra að Ísland eigi að sækja um þessa klásúlu, þetta íslenska ákvæði. Ég tel raunar að það sé skynsamleg og rétt afstaða. Þetta var mjög mikilvægt ákvæði og gott fyrir loftslagið eins og við vitum. Hæstv. forsætisráðherra skar úr um það í gær að sækja eigi um þessa klásúlu.

Hæstv. umhverfisráðherra bætir um betur í gær og segir: Nei, það á ekki að gera það. Ég hlýt að spyrja, virðulegi forseti: Hvað eru ráðherrarnir að hugsa? Þarna tala lykilráðherrar. Lykilráðherrarnir eru umhverfisráðherra, iðnaðarráðherra, forsætisráðherra og utanríkisráðherra og ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Er ekki verið að skaða samningsstöðu Íslands á erlendri grund með þessu tali út og suður í ríkisstjórninni?



[11:04]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Loftslagsmálin eru vissulega til umfjöllunar í utanríkisráðuneytinu rétt eins og í umhverfisráðuneytinu, forsætisráðuneytinu og ríkisstjórninni allri, enda málið þess eðlis að það varðar okkur öll og ekki síst Alþingi.

Málið er í undirbúningi í umhverfisráðuneytinu og núna er stefnt að því að fara á fundinn í Kaupmannahöfn sem haldinn verður 2009. Það er sá fundur sem er mikilvægastur í þessu máli. Við leggjum aðaláherslu á, eins og fjölmörg önnur ríki á þessu stigi, að ná öllum ríkjunum að þessu borði þannig að Sameinuðu þjóðirnar geti gert um málið bindandi samkomulag, sem bindur ekki síst stærstu þjóðirnar. Það er aðalatriðið núna, að ná þessu fram. Þegar því hefur verið náð fram þá geta menn velt því fyrir sér hvernig eigi að útfæra samninga varðandi einstök ríki. Aðalatriðið núna er að ná bindandi samkomulagi sem allar þjóðir, ekki síst þær sem mest menga, verða aðilar að og á það er lögð áhersla fyrir fundinn í Kaupmannahöfn árið 2009.



[11:06]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú staða sem upp er komin er grafalvarleg. Íslenska ákvæðið náðist í gegn með þrotlausri vinnu ráðherra og embættismanna á erlendum vettvangi. Við þurftum að sannfæra önnur ríki um stöðuna þannig að aðrir ráðherrar áttuðu sig á því að átta sinnum betra er að framleiða t.d. eitt tonn af áli hér, fyrir loftslagið, en framleiða það með olíu og kolum. Þetta sáu allir umhverfisráðherrar annarra ríkja og samþykktu íslenska ákvæðið. Það er mikilvægt fyrir lofthjúpinn.

Hvað er svo að gerast á Íslandi núna? Ráðherrar koma með mjög misvísandi skilaboð. Hæstv. samfylkingarráðherrar sem hafa hingað til talað hafa verið á móti ákvæðinu og reyndar alla tíð. En hæstv. forsætisráðherra talar með ákvæðinu, telur það skynsamlegt, að það haldi sveigjanleika fyrir framtíðina o.s.frv. Það er hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra og er ekki boðlegt, virðulegur forseti, að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki telja þetta alvarlegt mál. Við gætum skaðað samningsstöðu okkar og það er ekki hægt að ná íslenska ákvæðinu fram á ný nema þeir ráðherrar sem eiga að fara í samningaviðræðurnar beiti sér af fullum krafti við að viðhalda ákvæðinu.

Ég spyr, hæstv. forseti: Er líklegt að menn beiti sér í málinu þegar þeir tala eins og hér hefur komið fram? Ráðherrarnir tala út og suður í málinu og þrír af þessum fjórum lykilráðherrum í málinu eru frá Samfylkingunni. Það eru hæstv. umhverfisráðherra, hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Þá er staðan ekki góð. Ég bið hæstv. utanríkisráðherra að íhuga þessa stöðu. Það er hlutverk hæstv. utanríkisráðherra að halda utan um samningsstöðu okkar á erlendum vettvang. Þessi staða er ekki boðleg fyrir ríki eins og Ísland.



[11:08]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einhver misskilningur á ferðinni af hálfu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur vegna þess að engar samningaviðræður af þessu tagi eru í gangi. Samningaviðræðurnar núna snúast um að ná öllum að þessu borði, að ná að búa til alþjóðlegt samkomulag sem skuldbindi þjóðir heims, ekki bara sumar heldur allar og ekki síst þær sem mest menga. Það er það sem skiptir mestu máli á þessu stigi, að þetta náist fram. Um það eru t.d. allar þjóðir Norðurlandanna sammála, að því takmarki þurfi að ná í Kaupmannahöfn árið 2009. Það eru samningsmarkmiðin á þessu stigi fyrir þjóðir heims að ná þessu fram.

Síðan geta menn, eins og ég sagði, virðulegur forseti, velt því fyrir sér hvernig vinna eigi úr málinu en á þessu stigi snýst það um að ná fram alþjóðlegri bindandi niðurstöðu í málinu.



[11:09]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort það séu svo miklar gleðifréttir að nokkur helstu herveldi NATO geti hugsað sér að koma hingað með stríðstól sín á næstu tveimur árum til að leika sér í lofthelginni, að það eigi erindi sem sérstakur innskotskafli í ræðu hæstv. utanríkisráðherra. En þeirrar skoðunar var greinilega hæstv. iðnaðarráðherra sem kom boðskapnum hingað til hennar í púltið.

Ég þakka þessa munnlegu skýrslu sem kemur eðli málsins samkvæmt víða við eins og umfang þessa málaflokks er orðið. Það má velta því fyrir sér hvort ekki sé orðið tímabært að kaflaskipta þessari umfjöllun þannig að menn taki t.d. sérstaklega fyrir það sem hér er kallað varnarmál, annars vegar þróunarsamvinnu og slíka hluti, í þriðja lagi hin klassísku alþjóðastjórnmál og utanríkismál og þar fram eftir götunum. Umfang málaflokksins vex. Það sjáum við af efnisþáttunum sem þar falla undir en líka af útgjöldum utanríkisráðuneytisins sem ég mun aðeins koma inn á á eftir. En fyrst nokkur atriði úr ræðu hæstv. ráðherra sem ég vil staldra við.

Í upphafi ræðir ráðherra um það verkefni sem ný ríkisstjórn hafi staðið frammi fyrir á sviði öryggis- og varnarmála í kjölfar brottfarar Bandaríkjahers. Hún talar um að ýmsir lausir endar hafi verið óhnýttir. Ég held að þetta sé vægt til orða tekið hjá ríkisstjórn sem hefur stofnað til stórfelldra útgjalda af þessu tilefni án heimilda í fjárlögum og þarf að sækja um hálfa og heila milljarða í viðbót samkvæmt fjáraukalögum eða fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Hæstv. utanríkisráðherra nefnir einnig fyrirbærið hnattvæðingu. Ég hefði haft gaman af því að hæstv. ráðherra hefði þá umræðu aðeins dýpri og m.a. kæmi í ljós hvort hæstv. utanríkisráðherra skrifar upp á það fyrirbæri eins og almennt er um það fjallað, sem ætla mætti af þessum texta. Forvitnilegt væri að vita hvort hæstv. ráðherra fylgir þeim sem gagnrýna fyrirbærið, a.m.k. að því leyti sem því er áfátt og tekur ekki tillit til mannréttinda, félagslegra sjónarmiða og umhverfismála.

Í kafla um utanríkisþjónustu nýrrar aldar sem ráðherra ræðir má til sanns vegar færa að utanríkisþjónustan verður að laga sig að nýjum tímum og nýjum verkefnum. En það þurfa auðvitað fleiri að gera. Ég vil í því samhengi nefna stöðu Alþingis og utanríkismálanefndar. Ég held að það sé óumflýjanlegt að taka til skoðunar að efla utanríkismálanefnd og gera hana betur í stakk búna til að sinna sínu hlutverki á þessu sviði, fylgjast með þeim stórauknu útgjöldum sem á komandi árum eiga að renna til þróunaraðstoðar, til varnarmála ef svo heldur sem horfir eða hvað sem menn vilja kalla það.

Ég fagna áherslum á norðurslóðir sem forgangsverkefni. Ég hef sjálfur verið talsmaður þess að Íslendingar settu sér það sem ég hef stundum kallað nærsvæðastefnu, að safnað yrði saman áherslum okkar á sviði samskipta við grannríkin og norðursvæðin. Í því sambandi vil ég leyfa mér að nota tækifærið og fagna sérstaklega ræðismannsskrifstofu Íslands í Færeyjum og færeyskum fulltrúa í Reykjavík. Ég vona að sem allra fyrst komist sambærileg skipan mála á í samskiptum okkar við Grænland.

Þá að öðrum atriðum. Í kafla V um störf sem er gefin sú fallega yfirskrift Störf í þágu friðar er m.a. komið inn á Afganistan, friðargæsluna og stöðu mála þar. Þar segir hæstv. ráðherra að þótt verkefnið sé gríðarlega erfitt sé enginn vafi á því að mikið hafi þegar áunnist. Er það? Hefur mikið þegar áunnist í Afganistan? Hver er staða mála þar? Er ekki veruleikinn sá að ástandið er verra þar í dag en það hefur verið mjög lengi, að slepptu kannski stuttu tímabili á síðustu mánuðum ársins 2001, þ.e. eftir að ófriðnum lauk og fyrri hluta árs 2002? Er ekki veruleikinn sá að talíbönum vex ásmegin og ýmsum fleiri hópum og héraðshöfðingjum, að mannfall óbreyttra borgara er vaxandi og að ópíumframleiðslan er í hæstu hæðum. Er ekki veruleikinn sá að fullur tugur þúsunda óbreyttra borgara hefur þegar látið lífið vegna átakanna frá því að árásirnar voru gerðar á Afganistan snemma vetrar 2001? Þar af hafa fallið fleiri óbreyttir borgarar í Afganistan á síðasta einu og hálfa árinu en féllu í árásunum á Bandaríkin 11. september nefnt ár.

Ég held að við þurfum að taka til skoðunar stöðu okkar að þessu leyti. Ég vísa til umræðu sem varð hér í gær um íslensku friðargæsluna og spurningarinnar um hvort hún eigi yfir höfuð erindi í Afganistan við þær aðstæður sem þar eru og í ljósi þeirra lagaákvæða sem sett voru á Alþingi síðastliðið vor um þá starfsemi að hún skuli annars vegar alfarið vera á borgaralegum forsendum og hún megi hins vegar aldrei brjóta í bág við mannréttindasamninga og sáttmála.

Svo kemur að liðnum öryggi og varnir í ræðu hæstv. ráðherra og mætti margt um það allt saman segja. Ég held að ég staldri aðeins við þá staðreynd, sem er ástæða til að fari ekki fram hjá mönnum, að inn á íslensku fjárlögin á nú að koma samkvæmt frumvarpi í fyrsta sinn liðurinn Varnarmál 03.213 og á hann á að setja 533,8 millj. kr. En þá er ekki allt talið. Ef við tökum rekstur Ratsjárstofnunar með á hún að kosta 822,3 millj. á næsta ári. Þá erum við komin í 1.356 millj. Ef við tökum fastanefnd Íslands hjá NATO með á rekstur hennar að kosta 100 millj. Ef við tökum árgjaldið til NATO, iðgjaldið til að fá að vera í klúbbnum, þá er það 65 millj. Þá erum við komin vel yfir 1,5 milljarða og við þetta bætist að á fjáraukalögum þessa árs á að biðja um a.m.k. 600 ef ekki 800 millj. kr. eftir því hvort við tökum 200 millj. til loftflutninga á vegum NATO þarna með. Með öðrum orðum: Sá veruleiki blasir við okkur að á einu og hálfu ári eða varla það eiga renna úr ríkissjóði Íslands 2,1–2,5 milljarðar kr. í hernaðarleg verkefni. Þá vantar mikið upp á að öllum útgjöldum sem þessu tengjast sé til haga haldið því ljóst er að aðilar eins og Landhelgisgæslan, ríkislögreglustjóri og sýslumannsembættið á Suðurnesjum, svo eitthvað sé nefnt, bera heilmikil útgjöld og vaxandi sem þessu tengist.

Auðvitað þarf að fara yfir og kortleggja hvað þessi ósköp öllsömul kosta okkur, móttaka á erlendum herjum til æfinga hér á landi o.s.frv., samanber fagnaðarerindið sem skotið var inn í ræðu utanríkisráðherra áðan. Vel að merkja, allt þetta brölt er undir þeim formerkjum að það sé á svokölluðum friðartímum, þetta eru útgjöldin á svokölluðum friðartímum, því ef þeir verða ekki fyrir hendi og ófriðlegar horfir, þá á gamli samningurinn við Bandaríkin að bjarga okkur, ekki þetta.

Ég held að við séum að glata hér niður sorglega góðu tækifæri til að brjóta í blað í utanríkismálum Íslands og endurskilgreina þetta viðfangsefni. Það erum við því miður ekki að gera, þetta er allt saman fast í gamla farvegi hernaðarhyggjunnar og „militarismans“. Í staðinn fyrir að skilgreina þau verkefni sem núna blasa við okkur á borgaralegum forsendum, björgunarstörf, mengunarvarnir og annað slíkt sem snýr að hafinu, að Ísland verði ekki bara herlaust land heldur afvopnað svæði, „demilitariserað“ með hliðstæðum hætti og t.d. Álandseyjar, kjarnorkuvopnalaust svæði og friðlýst sem slíkt og að við öflum þeirrar stöðu okkar viðurkenningar á alþjóðavettvangi í staðinn fyrir að hrökklast í þann farveg að fara að taka inn á íslensku fjárlögin nýtilkomin útgjöld til hernaðarlegra málefna svo nemur engum smáfjárhæðum. Á næsta ári kostar þetta meira en allur rekstur Háskólans á Akureyri, sem vissulega fær of lítið fé.

Síðan að öryggi og öryggishugtakinu sem hæstv. ráðherra nefnir þarna og stöðu NATO í því sambandi og það tengist líka því sem ég ræddi áður um Afganistan og erindi okkar þar. Hæstv. ráðherra telur það til marks um breytta tíma í þessum efnum að NATO skilgreinir sig nú ekki lengur sem varnarbandalag heldur sem öryggisbandalag. Það er rétt að NATO hefur breyst og sú þróun hófst strax upp úr 1990 með fundum í Róm, New York og víðar. En hvernig hefur það breyst og hvað er þá fólgið í þessu nýnefni öryggisbandalag í staðinn fyrir varnarbandalag? Jú, það er væntanlega hið nýja hlutverk NATO að geta látið til sín taka utan landamæra aðildarríkjanna, það sem á ensku er kallað „Out of Area Strategy“ og við höfum séð dæmin um og tveir atburðir eru táknrænir fyrir. Það eru loftárásir NATO á Júgóslavíu á sínum tíma þar sem m.a. var skotið á borgaraleg skotmörk eins og útvarpsturninn í Belgrad sem er klárt brot á alþjóðalögum, og það er Afganistan og það hlutverk sem NATO tók við þar, eða Bandaríkjamenn hentu í NATO sumarið 2003, að NATO er orðið að einhvers konar hreinsunardeild eftir Bandaríkjamenn þar sem þeir hafa farið um með báli og brandi. Það er nú hlutverkið.

Hvað eigum við að gera í þeim klúbbi? Hvaða erindi eigum við í klúbb sem nú er kominn með þetta hlutverk? Við áttum það svo sem aldrei, en enn þá fjarstæðukenndara er það í dag að slíkt sé í samræmi við þær áherslur og þá arfleifð Íslands að vera herlaus og hlutlaus og friðsöm smáþjóð, að eltast við þetta. Þess vegna er ég algjörlega andvígur þeim áherslum sem lesa hefur mátt á köflum út úr ræðum og málflutningi nýs utanríkisráðherra, að við eigum að leggja sérstaka og aukna áherslu á virka þátttöku í NATO. Ég tel að það sé verið að fara í ranga átt.

Má ég þá líka spyrja, af því að ráðherra kemur inn á það hér að skipaður hafi verið sérstakur 12 manna starfshópur fólks með víðan faglegan bakgrunn til að framkvæma vandað og faglegt hættumat við Ísland: Hvar er öryggismálanefndin nýja og hverju sætir að hún er ekki komin á koppinn? Henni var lofað fyrst í september fyrir meira en ári síðan þegar Bandaríkjaher var að hverfa úr landi og það er endurtekið í stjórnarsáttmála og sagt: „Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál.“ Hvaða óskaplega tíma tekur að koma þessu á? Er svona rosalega erfitt að semja bréfið til flokkanna og biðja þá um fulltrúa? Hvað vefst svona fyrir mönnum? Ég mótmæli því að þessi vettvangur skuli ekki vera kominn til sögunnar, hann hefði auðvitað átt að vera það strax í fyrrahaust og full þörf á, sérstaklega ef menn eru að setja mál í nýjan farveg og aðilar eru að fara að vinna verkefni af þessu tagi, að framkvæma þetta áhættumat, sem munu kosta fjármuni. Þá hefði auðvitað verið eðlilegt að það hefði verið undir yfirumsjón eða a.m.k. í tengslum við starf slíks öryggismálahóps eigi hann að verða eitthvað annað en orðin tóm, ef þetta á að verða eitthvað meira en sýndarmennskan, ég tala nú ekki um ef þetta á aldrei að verða neitt, ef þetta á bara að standa þarna en ekkert að gerast. Þarna hefur greinilega ekki verið unnið af neinum miklum krafti að hlutunum, verð ég að segja.

Ég vil að síðustu segja um ástand heimsmála almennt að það er auðvitað mjög dapurlegt að standa frammi fyrir því á nýrri öld, sem hæstv. ráðherra ræðir um í upphafi ræðu sinnar, að við skulum horfast í augu við ástand af því tagi sem er í Írak og Afganistan, sem er í Miðausturlöndum og Palestínu, sem er núna í Pakistan og Tyrklandi, á landamærum Tyrklands og Íraks, svo fátt eitt sé nefnt og maður sleppi Afríku í bili. Að við skulum líka horfa upp á þær hrikalegu andstæður sem fara vaxandi í samskiptum norðurs og suðurs, að við skulum horfa upp á svokallaða hnattvæðingu sem er fjarri því að geta talist sjálfbært fyrirbæri, er rekin áfram af forsendum stórfyrirtækja og áhættufjárfesta og gengur gegn þeim markmiðum sem alþjóðasamfélagið að öðru leyti er að reyna að ná fram, t.d. með þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og sjálfbæra framvindu.

Hér hef ég ekki nefnt vígbúnaðarkapphlaupið sem er auðvitað á fullu og þá staðreynd að á þessu ári og hinu næsta verður varið meiri fjármunum í heiminum til vígbúnaðar og vígvæðingar en nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni. Þar er forusturíki Bandaríkin sem þróa ný kjarnorkuvopn þvert á samninga um hið gagnstæða að eyða þeim og þannig mætti lengi áfram telja. Menn geta skammast út í Íran og haft af því áhyggjur en hvernig standa kjarnorkuveldin sjálf að málum? Eru þau ekki að þróa vopn og ýmiss konar vígbúnað þeim tengdan, með stjörnustríðsáætlanir og fleira í þeim dúr, sem auðvitað gengur þvert á viðleitni alþjóðasamfélagsins að öðru leyti, að halda aftur af útbreiðslu kjarnorkuvopna og hvað þá að þeim verði eytt eins og á að gera samkvæmt samningnum, enda hafa þau verið dæmd ólögleg af Alþjóðadómstólnum í Haag, bæði tilvist þeirra sem slík og hótunin um að beita þeim?

Það er ekki svo að hægt sé að segja að meginstraumarnir í þróun alþjóðamála séu jákvæðir nema að mjög litlu leyti, því miður. Vonandi tekst mönnum t.d. að koma málum á rekspöl hvað varðar gróðurhúsaáhrif og losun mengandi lofttegunda eins og hæstv. ráðherra ræddi hér og rætt var í andsvari. Það er vissulega rétt að mikilvægt er að ná öllum helstu mengunarríkjunum saman að því borði og þar verður Ísland akkúrat í hópnum því að nú stefnir í (Forseti hringir.) að við verðum heimsmethafar í losun gróðurhúsalofttegunda á mann.



[11:25]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni að íslensk stjórnvöld hefðu glatað tækifæri til að endurmeta varnarviðbúnað frá grunni í kjölfar breyttra aðstæðna. Því er þveröfugt farið. Hv. þingmaður nefndi kostnaðarliði sem fallið hafa á íslenska ríkið vegna brottfarar varnarliðsins. Það er alveg ljóst að viðbúnaður varnarliðsins var með tilteknum hætti og endurskipulagning á þessum verkefnum stendur yfir. Það er líka algjörlega ljóst, eins og fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, að ætlunin er að nýta það tækifæri sem nú er, það lag sem nú er til að byggja nýja og annars konar samstöðu um markmið í öryggis- og varnarmálum landsins.

Hv. þingmaður talar hér fyrir því „demilitarisera“ landið og virðist þar vera að tala fyrir úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Þar held ég hins vegar að skilji milli hans og meiri hluta þingheims í þessu máli. Ég held að þvert á móti séu öll rök fyrir því að við byggjum framtíðaröryggis- og varnarviðbúnað okkar á grundvelli aðildar að Atlantshafsbandalaginu en það hefur sýnt sig að það er að þróast mjög jákvætt yfir í að verða öryggisbandalag. Hv. þingmaður nefndi hér afmarkað tilvik til að kasta rýrð á það hlutverk hér áðan. Ég held að við ættum líka að horfa til þess hvernig það varð hlutverk Atlantshafsbandalagsins að binda enda á þjóðarmorðin í Bosníu og hvernig það varð aftur hlutskipti Atlantshafsbandalagsins að koma í veg fyrir sams konar þjóðarmorð í Kosovo.



[11:27]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að tala um víðtækara endurmat en bara það sem menn mundu kalla mat á varnar- eða öryggismálum í hefðbundnum skilningi þess orðs. Ég tel að meta eigi utanríkispólitíska stöðu Íslands að þessu leyti í heild sinni á nýjum grunni og að við eigum kjörið tækifæri til þess að endurmeta þá hluti þegar það fagnaðarefni ber okkur að höndum að erlendur her hverfur loks úr landinu vegna þess að hann telur enga þörf lengur fyrir veru sína hér sjálfur. Þá finnst mér það ákaflega umhendis að við förum að reyna að sannfæra okkur um að það verði samt eitthvað að koma í staðinn, þannig að við verðum að reyna fá Norðmenn og Frakka og Spánverja til að koma hingað svona af og til með herþotur því að annars líði okkur illa. En bandaríski herinn sem á að hafa eitthvert vit á þessu taldi enga þörf fyrir veru sína sjálfir. Samfylkingin er greinilega ósammála honum og telur að hér þurfi samt eitthvað sem að vísu má ekki kalla harðar hervarnir heldur mjúkar. Það er orðalagið sem notað er í skýrslu utanríkisráðherra og vísar sjálfsagt til þess sem hv. þm. Árni Páll Árnason var að tala um, aðildina að NATO, um þróun þess fyrirbæris.

Um þann klúbb erum við í grundvallaratriðum ósammála. Ég tel að þróunin í NATO síðastliðin 15 ár sé hörmuleg og mannkynið glataði sögulegu tækifæri að menn skyldu ekki leysa NATO upp eftir að Varsjárbandalagið leystist upp og hverfa frá hugsun hernaðarbandalaganna til alþjóðlegrar lýðræðislega uppbyggðrar öryggisgæslu í heiminum og efla stofnanir eins og ÖSE, og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í því skyni og láta þær fá sínar eigin sveitir til friðargæslu í staðinn fyrir að þurfa áfram að byggja á hernaðarhugsuninni og afnotum af sveitum herja til friðargæslu í heiminum. Ég tel þróun NATO vera þvert á móti mjög varhugaverða og Ísland eiga enn síður erindi í þann klúbb í dag en það gerði áður fyrr.



[11:29]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varnarlið Bandaríkjanna fór af landi brott vegna þess að Bandaríkjamenn mátu hagsmunum sínum ekki best borgið með áframhaldandi veru þess. Það mat byggðist ekki að neinu leyti á mati á íslenskum hagsmunum eða íslenskum þörfum. Mér er það nokkurt undrunarefni, hafandi í huga að hv. þingmaður hefur ekki sýnt mikla trú á dómgreind bandarískra hernaðaryfirvalda eða núverandi stjórnvalda í Washington, að hann skuli byggja svo mjög á mati bandarískra stjórnvalda og telja að það sé fullnaðarmat út frá íslenskum hagsmunum og íslenskum þörfum í nútíð og framtíð.

Um það sem hv. þingmaður sagði um Atlantshafsbandalagið og hlutverk þess og að við hefðum glatað sögulegu tækifæri með því að leysa ekki upp Atlantshafsbandalagið eftir lok kalda stríðsins, vil ég bara segja og minna á að á fjögurra ára tímabili voru hundruð þúsunda manna myrt í átökum í Bosníu. Það var atbeini Atlantshafsbandalagsins sem batt enda á það blóðbað. Á sama tíma var það alveg ljóst að allar aðrar alþjóðastofnanir voru komnar í algjört þrot um lausn á þeim vanda. Engin önnur alþjóðastofnun var í stakk búin til þess að taka á því máli.

Er ástandið í Bosníu í dag með þeim hætti að hv. þingmaður þurfi að skammast sín fyrir það eða að við sem Íslendingar og aðildar að NATO þurfum að skammast okkur fyrir það? Nei, það var þvert á móti tafarlaust bundinn endi á það blóðbað. Gríðarlega mikil orka var lögð í að byggja upp lýðræðislegar stjórnarstofnanir og þar hefur náðst umtalsverður árangur. Það er langtímaverkefni sem mun örugglega taka einhverja áratugi áður en atbeina alþjóðasamfélagsins lýkur þar endanlega. En það er líka hlutur sem við verðum að vera tilbúin að gera, að standa í ístaðinu svo lengi sem þarf til að hjálpa meðbræðrum okkar.



[11:31]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Ekki er tími fyrir dýpri hugmyndafræðilega umræðu sem þó hefði verið fróðlegt og gaman að fara í og varpa upp spurningunni: Hvernig hefur leið hernaðarhyggjunnar og vígbúnaðarins gefist mannkyninu til að skapa frið í heiminum? Erum við nær því marki en við vorum fyrir 10 til 50 árum? Er þessi aðferðafræði, sem búið er að ástunda í þúsundir ára með styrjöldum og blóðbaði, ekki að verða fullreynd hjá mannkyninu? Vopn hafa tilheigingu til að vera notuð þar sem þeim er hlaðið upp, þar á meðal á Balkanskaga. Þar var eitt svakalegasta vopnabúr af hefðbundnu tagi sem fyrirfannst í Evrópu eins og kunnugt er. Það var heldur betur notað og ég vona að hv. þingmaður sé ekki að reyna að gera mig ábyrgan fyrir þjóðernishreinsunum og blóðbaði þar þótt að ég leyfi mér á hugmyndafræðilegum forsendum að gagnrýna hernaðarhyggjuna. (Gripið fram í.)

Við gætum þess vegna rætt um samningaviðræðurnar í Rambúje og hvernig þeim var strandað. Var mikill vilji hjá þeim sem ætluðu sér að fara í stríð til þess að leysa málið með diplómatískum og pólitískum hætti? Eigum við að ræða það? Við gætum líka rætt um styrjaldaraðilana í Kosovo sem hétu skæruliðar og glæpahópar þangað til það hentaði vestrænum aðilum að kalla þá frelsisher Kosovo. Þeir urðu svo að skæruliðum aftur sex mánuðum síðar. Þannig var nú hræsnin og tvískinnungurinn þar en við skulum sleppa því hér.

Það er ógæfulegt að menn skuli ekki ná pólitískum forsendum til að endurskilgreina öryggismál og öryggisgæslumál heimsins. Þau eru föst í viðjum hernaðarhyggjunnar og hernaðarbandalaganna. Lýðræðislegar öryggisgæslustofnanir, ÖSE og sjálft öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, sem menn hafa af veikum mætti reynt að byggja upp, eru máttlausar (Forseti hringir.) vegna þess að herveldin vilja ekki færa verkefnin til þeirra. Það hentar stórvelda- og hernaðarhagsmunum þeirra að deila og drottna og það er sú pólitík sem mér finnst hv. þingmaður skrifa upp á, því miður.



[11:34]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alltaf spennandi þegar við ræðum utanríkismál og ég vek athygli á því að við munum ekki ræða Evrópumálin sérstaklega núna því að hæstv. utanríkisráðherra hefur boðað að sérstök skýrsla um Evrópumál komi síðar til umræðu í þinginu. Það verður spennandi að sjá hvort þessi nýbreytni skili sér í góðum umræðum.

Ég vil byrja á að taka undir það sem fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og einnig í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að áherslurnar eru vissulega breyttar og tvennt stendur upp úr. Annars vegar eru það varnarmálin en í ljósi breyttrar stöðu er miklu meiri þungi á varnarmálum, bæði í vinnu okkar á Alþingi og í samfélaginu almennt. Hins vegar eru það þróunarmálin en pólitísk samstaða er um að stórauka framlög til þróunarmála og reyna að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að auka framlög upp í ákveðna prósentu af vergri þjóðarframleiðslu. Sátt er um þau mál og menn vilja auka framlögin sem fyrst. Það verða því talsverð útgjöld bæði á sviði varnarmála og þróunarmála. Eins og fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er mikilvægt fyrir okkur í utanríkismálanefnd Alþingis að hafa aðhald á framkvæmdarvaldinu og fylgjast með þessum tveimur málaflokkum og útgjöldunum til þeirra.

Virðulegur forseti. Ég vil ræða aðeins um varnarmálin. Bandaríkjamenn fóru af landinu í fyrra sem varð til þess að við þurftum að hugsa öryggismál okkar upp á nýtt. Ríkisstjórnin hefur nú boðað að setja eigi upp einhvers konar samráðsvettvang. Ekki er búið að koma honum á stofn enn þá en mikilvægt er að það verði gert sem fyrst og ég bind miklar vonir við hann.

Það sem helst hefur borið til tíðinda í varnarmálum er að Bandaríkjamenn hafa talsvert minni viðveru hér á svæðinu almennt, á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Segja má að öryggismálin hafi veikst hér á svæðinu og þá sömuleiðis afl okkar í björgunarmálum. Það hefur orðið til þess að við þurfum að endurskipuleggja þau mál sérstaklega með hagsmuni okkar í huga.

Ljóst er að á næstu árum munu mörg skip sigla í kringum landið með olíu. Talað er um að árið 2015 sigli 500 skip í kringum Ísland með þúsund tonn af olíu hvert og við vitum líka að um 20% af olíu- og gasauðlindum í heiminum er að finna á Barentssvæðinu. Við þurfum því að vera vakandi gagnvart þessu og að sjálfsögðu þurfa öll ríki að gæta öryggismála sinna.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gerði tvo rammasamninga þegar hún var utanríkisráðherra, bæði við Dani og Norðmenn. Ég bind miklar vonir við samningana, að þeir verði fylltir út með nánari ákvæðum því að þeir eru frekar óljósir eins og þeir eru í dag.

Við fengum upplýsingar í utanríkismálanefnd Alþingis varðandi Ratstjárstofnun sem er mikilvæg stofnun í þessu sambandi. Fundur var haldinn í utanríkismálanefnd 9. ágúst þar sem rædd voru loftvarnamál landsins því að Bandaríkjamenn hættu að reka ratsjárstöðvarnar 15. ágúst sl. Ég tel ástæðu til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvenær fáum við lagafrumvarp um ratsjáreftirlitið? Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir lagði fram frumvarp í vor sem stoppaði reyndar í ríkisstjórninni. Hvers vegna kemur frumvarpið ekki fram? Ég tel mjög mikilvægt að það gerist sem fyrst. Búið er að segja upp öllum starfsmönnum á Ratsjárstofnun með sex mánaða fyrirvara og uppsagnirnar taka gildi snemma á næsta ári en þá verðum við að vera komin með nýja löggjöf. Tíminn er því afar naumur og starfsmennirnir búa við mikla óvissu.

Ég vil líka í þessu sambandi koma inn á mál sem mér hugnast illa en það er hvernig staðið er að starfsmannamálum. Gert hefur verið að umræðuefni í fjölmiðlum hvernig starfslok forstjóra Ratsjárstofnunar bar að. Á forsíðu Fréttablaðsins var sagt að forstjórinn hafi gengið á dyr en það er ekki rétt. Fréttamaðurinn studdist, að því er virðist, við upplýsingar úr utanríkisráðuneytinu.

Bæði utanríkisráðuneytið og fyrrverandi forstjóri Ratsjárstofnunar sendu frá sér sérstakar yfirlýsingar varðandi starfslokin. Þar kemur fram að utanríkisráðuneytið hafi ekki haft neitt út á vinnu forstjórans að setja og þakkar honum gott starf. Fyrrverandi forstjóri, Ólafur Örn Haraldsson, kom því sérstaklega á framfæri í fréttatilkynningu að hæstv. utanríkisráðherra hafi hreinlega beðið hann um að hætta án þess að nokkuð hafi verið hægt að finna að störfum hans.

Mikill árangur hafði náðst í rekstri Ratsjárstofnunar. Rekstrarkostnaður lækkaði um 400 milljónir, úr 1,2 milljörðum í 800 milljónir og búið var að segja upp 50 manns. Þetta voru mjög sársaukafullar aðgerðir og fyrrverandi forstjóri fór í gegnum þær án teljandi vandræða. Ég álykta því að störf hans hafi verið góð og það er reyndar staðfest af utanríkisráðuneytinu. Ég hlýt því að spyrja: Hvað er hér á ferðinni?

Virðulegur forseti. Ég mun nú lesa upp úr leiðara Morgunblaðsins sem skrifaður var af þessu tilefni. Þar er minnst á mannabreytingar og eru þar sérstaklega nefndir tveir menn, Ólafur Örn Haraldsson, forstjóri Ratsjárstofnunar, og Alfreð Þorsteinsson sem leiddi uppbyggingarstarf nýs sjúkrahúss hér í bæ. Tilvitnun hefst:

„Í eina tíð var það siður í íslenskri pólitík að þeir sem völdin höfðu hverju sinni beittu þeim til þess að flæma pólitíska andstæðinga úr stöðum eða koma í veg fyrir að þeir fengju vinnu. Um þetta eru ljót dæmi þótt ekki sé leitað lengra aftur en til lýðveldistímans. Svo lagðist þessi siður af.“

Á öðrum stað segir:

„Það væri stórt skref aftur á bak ef horfið yrði til gamalla ósiða í þessum efnum og ómögulegt að segja hvenær og hvar þeim vígaferlum yrði lokið og hverjir hefðu orðið fórnarlömb þeirra.“

Aðeins neðar stendur:

„Þess vegna er mikilvægt fyrir nýja valdamenn að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar þeir beita nýfengnum völdum. Auðvitað verða þeir að hafa svigrúm til að koma fram margvíslegum breytingum. En þótt það geti verið einber tilviljun að tveir trúnaðarmenn Framsóknarflokksins hafi horfið úr þýðingarmiklum störfum á undanförnum vikum, hættir það að vera tilviljun ef fleiri framsóknarmenn bætast í þann hóp.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort ný kynslóð stjórnmálamanna freistast til þess að taka upp gamla ósiði og koma fram hefndum á pólitískum andstæðingum.“

Virðulegur forseti. Þetta er umhugsunarvert því að Ratsjárstofnun er búin að ganga í gegnum miklar breytingar og ég tel stofnuninni ekki til bóta að auka enn frekar á óróleikann. Mér finnst það mjög ankannalegt með hagsmuni Ratsjárstofnunar í huga. Ég hef talsverða reynslu sem fyrrverandi ráðherra og ýmsir pólitískir forustumenn unnu í stofnunum sem tilheyrðu þeim ráðuneytum sem ég stýrði á sínum tíma. Ég nefni af handahófi menn sem stóðu sig mjög vel: Magnús Jónsson á Veðurstofunni, Jón Gunnar Ottósson í Náttúrufræðistofnun Íslands, sat í stjórn Samfylkingarinnar, og Karl Steinar Guðnason í Tryggingastofnun. Þeir eru allir prýðilegir forstöðumenn. Ég hafði ekkert út á þeirra störf að setja og stuggaði ekki við þeim. Ég spyr því: Hvað er hér á ferðinni? Ég vona að við sjáum ekki meira af þessu því að ég tel að það jaðri við pólitískar ofsóknir og þá er mikið sagt.

Ég vil einnig fjalla um málefni friðargæslunnar og nefni að í september sl. tilkynnti hæstv. utanríkisráðherra að frá og með 1. október mundi íslenska friðargæslan hætta þátttöku í þjálfunarverkefni NATO í Írak. Ég gerði verulegar athugasemdir við það því að verkefnið byggist á öryggisákvæðum, tilmælum í öryggisráðinu. Um er að ræða NATO-verkefni og var ein manneskja á okkar vegum við friðargæslu í Írak. Á sama tíma og við sækjumst eftir sæti í öryggisráðinu, sem ég styð, köllum við heim fulltrúa okkar. Þetta er alls ekki hernaðarverkefni eins og hæstv. utanríkisráðherra leyfði sér að kalla það í fjölmiðlum eins og DV. Ég tel að þetta hafi verið röng ákvörðun og að við höfum með henni veikt stöðu okkar gagnvart framboði í öryggisráðinu, hún hefði betur ekki verið tekin.

Virðulegur forseti. Ég vil jafnframt tala um mál sem tengist framgöngu okkar við erlend ríki og tengja það þúsaldarmarkmiðunum. Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á þúsaldarmarkmiðin í ræðu sinni með ágætum hætti. Við, eins og önnur ríki, höfum skuldbundið okkur til að stuðla að því að þúsaldarmarkmiðunum verði náð. Eitt þeirra er að minnka fátækt, bæta aðgengi að hreinu vatni og draga úr ungbarnadauða.

Ég vil því koma með ábendingu til hæstv. utanríkisráðherra um mál sem tekið hefur verið upp á norrænum vettvangi. Það er tillaga sem komið hefur frá miðjumönnum en var flutt inn í velferðarráð Norðurlandaráðs sem ég er formaður fyrir. Norðurlandaráð er nú búið að samþykkja þessa tillögu en það var gert í þarsíðustu viku. Tillagan byggist á því að hin ríku ríki eigi ekki að lokka til sín heilbrigðisstarfsmenn frá öðrum ríkjum því að það vantar heilbrigðisstarfsmenn í þróunarríkjunum. Sem dæmi má nefna að í Frakklandi eru fleiri læknar frá Benín en í því landi sjálfu og á Manchestersvæðinu í Bretlandi eru sömuleiðis fleiri heilbrigðisstarfsmenn frá Malaví en í landinu sjálfu.

Við Íslendingar eigum ekki að taka þátt í að lokka til okkar heilbrigðisstarfsmenn frekar en önnur þróuð ríki. Norðurlöndin eiga að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að gerður verði alþjóðasamningur um að lönd leiti ekki með virkum hætti til þróunarríkja til að fá heilbrigðisstarfsmenn. Ég vil tengja þetta við stöðuna á menntun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Við höfum færri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða hér á Íslandi á hverja 100 þúsund íbúa en á öllum hinum Norðurlöndunum. Við höfum reyndar fleiri lækna en okkur vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.

Við reynum að bjarga okkur, auglýsum á Norðurlöndunum eftir starfsmönnum og hingað koma t.d. danskir og norskir hjúkrunarfræðingar. Hin Norðurlöndin leita svo til þróunarríkjanna og sækja sér heilbrigðisstarfsfólk þaðan. Þetta hangir því allt saman. Á sama tíma og okkur vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eru fjöldatakmarkanir í hjúkrunarfræðideild við Háskóla Íslands. Við tökum ekki alla inn sem við getum tekið á móti. Fólk nær prófum en fær þó ekki inngöngu. Við gerðum reyndar átak á sínum tíma, sú er hér stendur og hæstv. menntamálaráðherra, og hækkuðum kvótann en betur má ef duga skal. Við þurfum að vera sjálfbær í þessum efnum og eigum ekki að lokka til okkar fólk frá þróunarríkjunum.

Á sumum svæðum í Afríku er ekki hægt að bólusetja ungbörn af því að það vantar lækna og hjúkrunarfólk. Við vinnum því gegn þúsaldarmarkmiðunum með því að taka heilbrigðisstarfsfólk frá þróunarríkjunum en öldruðum, sem þurfa á þjónustu heilbrigðisstarfsfólks að halda, fer ört fjölgandi í vestrænum samfélögum.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum benda á, eins og ég reyndi að gera í stuttu andsvari áðan, að alvarleg staða er komin upp í ríkisstjórninni varðandi loftslagsmálin. Það er ekki boðlegt að hæstv. utanríkisráðherra komi og segi að mikil vinna varðandi loftslagsmálin sé í gangi í utanríkisráðuneytinu. Gott ef satt væri en ráðherrarnir tala í kross. Hæstv. forsætisráðherra vill viðhalda íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni en það vill hæstv. umhverfisráðherra ekki gera.

Þótt rétt sé að við viljum fá þróunarríki inn í samninginn, svo sem Kína og Indland, og jafnframt ríki eins og Bandaríkin sem eru ábyrg fyrir 36% af losuninni, geta hæstv. ráðherrar ekki horft fram hjá mikilvægi þess að Ísland sýni trúverðugleika á erlendum vettvangi og tali einni röddu í þessu máli. Það þýðir ekki að tala út og suður í mikilvægum málum.



[11:49]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vildi ég gera að umtalsefni það sem hv. þingmaður nefndi um heimkvaðningu fulltrúa í friðargæsluverkefnunum í Írak. Um það starf gildir annað en um önnur störf sem unnin eru á vegum íslensku friðargæslunnar. Þetta er eina starfið innan íslensku friðargæslunnar sem ekki uppfyllir skilmála DAC um borgaraleg störf í þágu friðargæslunnar. Það er eðlismunur á þessu starfi og öðrum störfum og á þeim grundvelli er sú ákvörðun sem tekin var fullkomlega eðlileg.

Hvað varðar hinn sérkennilega kafla í ræðu hv. þingmanns, sem laut að forstjóra Ratsjárstofnunar, verður maður að spyrja sig hvert markmiðið með þeirri ræðu hafi verið. Hægt er að hafa mörg orð um mannaráðningar á vegum Framsóknarflokksins á liðnum árum. Ég hélt satt að segja að þingmenn Framsóknarflokksins hefðu áhuga á að forðast þá umræðu og alla vega hefja hana ekki að fyrra bragði.

Í Ratsjárstofnun er samankomið mikið starfslið og þar eru unnin verkefni sem hingað til hafa fyrst og fremst verið unnin á forsendum bandarískra stjórnvalda og fyrir þau. Þessi verkefni sitja íslensk stjórnvöld uppi með. Það þarf algjörlega að endurhugsa þessa stofnun. Ég þekki það frá gamalli tíð í starfi mínu í utanríkisþjónustunni að höfuðverkefni þessarar stofnunar var að finna nýjan kostnað og réttlæta hann til að geta sent hærri reikninga til bandarískra stjórnvalda. Það var grundvallarmarkmið stofnunarinnar svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það þarf að hugsa þessa stofnun algjörlega frá grunni og til þess þarf að hafa hreint borð og meta verkefni stofnunarinnar út frá íslenskum hagsmunum. (Forseti hringir.)



[11:51]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður sér þessa atburðarás, og hún er öll staðfest í fjölmiðlum og í fréttatilkynningum frá bæði utanríkisráðuneytinu og frá viðkomandi starfsmanni, Ólafi Erni Haraldssyni, getur maður ekki dregið aðrar ályktanir en þær að hér hafi eitthvað mjög furðulegt verið á ferðinni. Engar ásakanir eru um að viðkomandi hafi ekki staðið sig vel í starfi, það er hreinlega tekið fram að viðkomandi hafi staðið sig vel í starfi. Maður kemur að mínu mati ekki svona fram við ríkisstarfsmenn.

Ég nefndi nokkra aðila sem voru í störfum fyrir önnur ráðuneyti á sínum tíma og sumir starfa þar enn. Það var verið að gera breytingar á þessum stofnunum, það er alltaf verið að breyta stofnunum. Á það bara að hreinsast út? Ég tel þetta mjög ankannalegt og þetta verður til þess að Morgunblaðið tekur málið sérstaklega upp í leiðara og fer að vísa í gamaldags vinnubrögð, ráðningar upp á flokksskírteini o.s.frv., að hreinsað sé út þegar nýir valdhafar koma.

Ég hlýt að draga þetta fram eftir að hafa skoðað sérstaklega gögnin sem lúta að þessu máli. Þetta er allt í opinberum gögnum. Þessa sér stað í fréttatilkynningum frá aðilum eða í fréttum. Að vísu geta fréttir stundum verið rangar en ég vísa í fréttatilkynningar. Það er mjög ankannalegt hvernig staðið hefur verið að verki.

Varðandi það að draga til baka aðila okkar í friðargæslunni í Írak þá bað Írak um þetta verkefni sérstaklega. Ég vil einnig draga það fram að DAC er ekki höfuðatriðið í þessu máli. Við höfum verið að aðstoða við uppbyggingu í Írak. Við erum að undirbúa samfélagið til að takast á við framtíðina. Hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sagði opinberlega að hann hefði ekki gert þetta. Þannig að ég hlýt að gagnrýna (Forseti hringir.) þessa gjörð. Ég tel að hún hafi verið röng.



[11:53]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engin sérstök ill meðferð á ríkisstarfsmanni að um hann gildi sama og um alla aðra starfsmenn viðkomandi stofnunar. Öllum starfsmönnum stofnunarinnar var sagt upp með nákvæmlega jafnlöngum fyrirvara. Þannig liggur það mál. Hæstv. utanríkisráðherra getur að sjálfsögðu betur útskýrt hvernig málum vék nákvæmlega að hverjum og einum að því leyti sem það á erindi í umræðu hér á hinu háa Alþingi.

Ég vil hins vegar undirstrika að þessi staða var ekki auglýst á sínum tíma. Ég held að það sé mikilvægt að menn slái nýjan tón og stöður af þessu tagi séu auglýstar og fram fari hæfnismat. Maður hlýtur að spyrja sig: Með hvaða hætti hefur slíkt hæfnismat farið fram í fortíðinni?

Mér finnst það óviðeigandi að koma hingað á hið háa Alþingi með nafnalista yfir fólk í öðrum stjórnmálaflokkum sem hefði nú verið hægt að stugga við. Hvað á slíkur málflutningur að þýða? Er það hlutverk stjórnmálamanna að tala í skildagatíð um að þeir hefðu nú kannski getað gert eitt og annað gegn einhverju tilteknu fólki? Er það markmið stjórnmálamanna að halda úti einhverjum listum yfir þá menn sem eru í stjórnmálaflokki og undir þá heyra? Hvers konar stjórnsýsla er þetta? Hvernig dettur fólki í hug að hugsa með þessum hætti og hvað þá tala með þessum hætti?

Allir eiga að vera frjálsir skoðana sinna og allir eiga að geta verið í flokki hvar svo sem þeir starfa og hvernig, þeir eiga að vera frjálsir framgöngu sinnar. Ráðherrar eiga ekkert með að halda úti einhverjum listum yfir það í hvaða flokki fólk sem undir þá heyrir er.

Það er tímabært að leiða önnur vinnubrögð fram. Menn eiga að fá að vera frjálsir skoðana sinna og þann grundvallarrétt eigum við að verja. Það á að auglýsa störf, gera stífar hæfniskröfur til þeirra sem sækja um og velja bestu umsækjendurna.



[11:55]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að þetta er mjög viðkvæmt fyrir hv. þm. Árna Pál Árnason. En staðreyndin er sú að það er ráðherra sem tekur ákvörðun um að viðkomandi hætti og það eftir að viðkomandi hefur náð miklum árangri í starfi, búinn að lækka útgjöld stofnunarinnar um 400 millj. kr., úr 1,2 milljarði í 800 millj. kr. Um 50 starfsmönnum var sagt upp og þetta fór allt frekar vel fram. Þetta eru mjög viðkvæmar aðgerðir.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Hann skilaði þeirri umbreytingu af sér með miklum sóma og náði verulegri hagræðingu í rekstrinum“ — og honum eru þökkuð góð störf.

Í fréttatilkynningu viðkomandi starfsmanns segir síðan, með leyfi forseta:

„Ráðuneytinu var því ekki aðeins kunnugt um starfslok mín heldur voru þau ákvörðun ráðherrans og á þeim tíma sem ráðherrann óskaði og tilkynnt bæði honum og ráðuneytisstjóra skriflega með tölvupósti.“ — Þannig að þetta er ákvörðun ráðherra.

Það er ljóst að þetta er mjög sérstakt þetta mál. Ég get bætt við listann af því að það er alltaf viðkvæmt þegar þingmenn fara í önnur störf, það er kannski ekki um auðugan garð að gresja hjá þeim, því miður, ef við miðum okkur við önnur ríki. Ég tekið sem dæmi sendiherra sem hafa verið ráðnir til utanríkisþjónustunnar. Var það gert með auglýsingu? Ég efast um það. Ég get nefnt hér sendiherra eins og Svavar Gestsson, best að nefna nokkra samfylkingartengda, Jón Baldvin Hannibalsson, Guðmund Árna Stefánsson og Sighvat Björgvinsson. Þessir menn hafa staðið sig afar vel.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að draga það fram að núverandi ríkisstjórn hefur ýtt tveimur framsóknarmönnum (Forseti hringir.) út, Alfreð Þorsteinssyni og Ólafi Erni Haraldssyni. Ég tek það sérstaklega hér upp og (Forseti hringir.) Morgunblaðið gerir þetta líka að umtalsefni í leiðara.



[11:58]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirgripsmikla ræðu í upphafi umræðunnar og get tekið undir margt af því sem þar kom fram. Eitt af því er að hnattvæðingin, sem hefur verið mjög áþreifanleg síðustu árin og heldur áfram með vaxandi hraða, hefur áhrif á þjóðlífið á mörgum sviðum sem menn þurfa að aðlagast. Hún leiðir af sér breytingar sem menn hafa kannski ekki séð fyrir fyrir nokkrum áratugum.

Helstu einkenni hinna hnattrænu áhrifa eru auðvitað loftslagsbreytingar og umhverfismál. Fyrir utan loftslagsbreytingarnar er rætt um nýtingu fiskstofna í hafinu, nýtingu hafsbotnsins og þess sem undir honum er. Allt þetta kallar á alþjóðlega samninga. Menn komast lítið áfram á eigin spýtur og þörfin fyrir að starfa á alþjóðlega vísu í samkomulagi við aðrar þjóðir verður æ ríkari eftir því sem þeir málaflokkar verða þýðingarmeiri. Hver og ein þjóð hefur minni tök á að stjórna því fyrir sig.

Mér hefur fundist vægi umhverfismála fara hraðvaxandi á síðustu árum. Þau verða æ alþjóðlegri í eðli sínu eins og loftslagsmálin eru skýrasta dæmið um en þau mál snerta okkur líka á sviði innanlandsmála á flestum sviðum. Ef til vill er tímabært að gera umhverfismálunum verðug skil í þingsölum til samræmis við aukna þýðingu þess málaflokks með því að efna til sjálfstæðrar umræðu um umhverfismál með skýrslu eins og flutt er um utanríkismál í dag. Ég held að góður svipur væri á því. Það væri gott verkefni fyrir Alþingi og ríkisstjórn að efna til slíkrar umræðu með sambærilegum hætti.

Um loftslagsbreytingarnar þurfum við ekki mikið að segja umfram það sem komið hefur fram síðustu daga í umræðum af hálfu okkar frjálslyndra. Við lítum á þetta sem hnattrænt mál og leitum að lausnum á loftslagsbreytingunum út frá því. Framlag Íslands er þekkt í þeim efnum. Það var ekki samþykkt vegna þess að önnur ríki heimsins hefðu sérstakan áhuga á að gera Íslendingum sérstaklega til góða í þeim efnum til að fá þá til samstarfs. Ég hygg að hlutur Íslendinga einna mundi ekki skipta miklu máli í þeim efnum. Ástæðan fyrir því að samþykkt var það ákvæði sem stundum hefur verið nefnt íslenska ákvæðið er einfaldlega sú að það er skynsamlegt og hagkvæmt út frá alþjóðlegu sjónarhorni. Þess vegna eigum við að halda því á lofti og því munu aðrar þjóðir taka vel undir þann málflutning vegna þess að það hentar þeim ekki síður en okkur. Við eigum ekki að neita okkur um að nýta slík tækifæri jafnvel þó að það nýtist okkur betur en mörgum öðrum vegna þeirra auðlinda sem við höfum upp á að bjóða. Það er engin þörf á að ganga um berfættur í kufli í þessum efnum ef aðrir kostir bjóðast og eru jafngóðir eða betri í alþjóðlegum skilningi.

Hnattvæðingunni fylgja breytingar á mörgum sviðum. Fólk flytur meira á milli landa en áður var, ekki bara til varanlegrar búsetu heldur til skammtímadvalar eða nokkurra ára dvalar. Það er að verða æ algengara að fólk flytjist á milli landa frá sínu heimalandi til annars, vinni þar eða búi hluta af starfsævi sinni og flytji síðan aftur heim til heimalands síns eða enn annars lands um tíma áður en það flyst heim. Þessi þróun mun halda áfram og gerir að verkum að samsetningin á vinnumarkaði í hverju ríki breytist, hún verður fjölþjóðlegri. Við verðum auðvitað að taka mið af því. Þessi þróun er flestum þjóðum ef ekki öllum hagfelld. Það er kallað eftir vinnuafli í þeim löndum sem fólk flyst til. Við eigum að bregðast við því. Við nýtum okkur krafta erlendra starfsmanna. Þeir skapa tekjur og hagvöxt og þjóðin hefur ávinning af því vinnuafli en það má segja að hér á landi hafi menn verið fullseinir að bregðast við og stofna til þeirra útgjalda sem hljóta að fylgja, eins og þarf að vera til að sinna erlendum starfsmönnum með sómasamlegum hætti, t.d. að bjóða upp á íslenskukennslu og aðra þjónustu í skólum og víðar, sem nauðsynlegt er. Þar höfum við setið eftir og við þurfum að gera miklu betur í þeim efnum.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að halda fast um hagsmuni Íslendinga í samningum við aðrar þjóðir um réttindi hafsins hvort sem það eru fiskstofnar eða hafsbotnsréttindi, við Hatton-Rockall svæðið og við Svalbarða. Það er full ástæða til að leitast við að ná samkomulagi um þau réttindi við aðrar þjóðir sem í hlut eiga en það er líka ástæða til að halda fram okkar hlut af fullum myndugleik og muna eftir því að til er alþjóðlegur dómstóll í Haag sem hægt er að skjóta ágreiningsmálum til ef samstarfs- og viðræðuþjóðir reynast erfiðar í viðræðum og ekki líklegt að viðeigandi samningar náist. Við eigum ekki að gefa frá okkur tilkall til þessara réttinda nema fá mjög ásættanlega samninga um það.

Þær breytingar eru að verða, m.a. vegna loftslagsbreytinga, að flutningsleiðir munu fyrirsjáanlega breytast á næstu árum. Gas- og olíuflutningar munu líklega aukast hjá norðurheimskautinu til Norður-Ameríku og Evrópu. Það er að mörgu leyti áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga þó í því felist auðvitað líka ákveðin tækifæri. En áhyggjuefnið er vegna fiskimiðanna umhverfis landið. Hvert og eitt af þessum skipum sem kemur til með að sigla um þessar siglingaleiðir er það stórt að ef eitthvað misferst í þeim efnum verður skaðinn gríðarlegur og líklega óafturkræfur. Við eigum mikið undir því að tryggja sem best öryggi í slíkum siglingum þannig að við verðum ekki fyrir miklum skakkaföllum með fiskstofna okkar.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef dálitlar áhyggjur af þessu máli. Mér finnst að hagsmunirnir fyrir okkur í að vernda fiskimiðin og lífríki í hafinu umhverfis landið séu miklu meiri en þeir hagsmunir sem hugsanlega kunna að verða af því að hafa ávinning eða atvinnu af þessum flutningum. Ég er ekki hvatamaður að því að Íslendingar gangist á næstu árum fyrir því að láta rannsaka og hefja nýtingu á olíu á svokölluðu Drekasvæði. Ég held að það hlaupi ekki frá okkur það sem þar kann að vera í hafinu og efnahagsaðstæður hér á landi um þessar mundir og á komandi árum eru þannig að engin sérstök þörf er á að efna til mikillar atvinnustarfsemi ef þar fyndist olía. Það er sjálfsagt að rannsaka svæðið og kanna hvað þar kann að vera fyrir hendi en það er svo önnur ákvörðun hvort rjúka eigi í að nýta svæðið. Ég hygg að það gæti verið skynsamlegt að geyma það um einhvern tíma, a.m.k. þangað til við höfum aðgang að tækni og búnaði sem gerir það öruggt að ekki verði skaði af þó að einhver slys verði við þá starfsemi.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að taka upp mál sem nefnt hefur verið í þingsölum og víðar, að taka upp samninga við Grænlendinga og Dani fyrir þeirra hönd eftir atvikum um nýtingu á hafsvæðinu og fiskimiðum milli Íslands og Grænlands, um að íslensk fyrirtæki og íslenskar hafnir veiti Grænlendingum þjónustu eftir því sem þörf er á því staðreyndin er sú að Íslendingar eru næstu nágrannar Grænlendinga austan megin frá. Það eru tækifæri í því fyrir okkur Íslendinga að koma á fót samskiptum og viðskiptum á milli Íslendinga og Grænlendinga.

Varðandi þróunarsamvinnu tökum við eindregið undir áhersluna á hana. Íslendingar eiga í krafti auðs síns og velmegunar að leggja mikið af mörkum til að hjálpa öðrum þjóðum að komast áfram til betri efnahags. Við eigum að einbeita okkur að því, eins og kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra, að hjálpa þróunarlöndum til sjálfshjálpar og horfa til menntunar og heilsugæslu, jafnréttis kynjanna og stuðla að sjálfbærri þróun. Þetta eru allt viðamikil viðfangsefni og við erum yrðum fullsæmd af því að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að ná fram framförum á þessum sviðum í viðkomandi löndum.

Varðandi friðargæsluna erum við ekki eins hrifnir af þeirri þróun sem orðið hefur á síðustu árum. Ég hygg að megi segja að hún hafi að sumu leyti verið án vitneskju, vitundar og samþykkis Alþingis í þá veru að koma upp hópum sem starfa undir herskipulagi og herstjórn, hafa heimild til að bera vopn og gera það eftir því sem þurfa þykir. Okkar afstaða er sú að Íslendingar eigi ekki að einbeita sér að þessum þætti í alþjóðastarfi. Friðargæsluliðar eru ekki að okkar mati það sem við eigum að leggja til heldur friðarliðar. Við leggjumst eindregið gegn því að þeir séu undir vopnum, undir herskipulagi og herstjórn. Það er skýr afstaða af okkar hálfu og við hvetjum til þess að ríkisstjórnin falli frá uppbyggingu á þessu sviði.

Ég spyr mig hvað muni gerast, sem væntanlega hlýtur að gerast fyrr eða síðar, ef íslenskur friðargæsluliði undir vopnum beitir þeim og skaðar mann eða fellir. Hvernig verður unnt að rannsaka það mál? Mun einhver gera það? Verður ákært í því og dæmt? Það segir í lögunum um íslensku friðargæsluna að þeir heyri undir íslensk lög í þessum efnum. En mér er til efs að ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri hafi möguleika á að rannsaka vettvang og atvik eins og þörf er á til að unnt sé að leggja mat á hvort eigi að gefa út ákæru og stefna fyrir dóm. Erum við þá komin í þá stöðu að Íslendingar hafi heimild til að bera vopn og beita þeim? Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst það ekki skemmtileg tilhugsun að sú staða kunni að koma upp í reynd þótt ekki sé hún beinlínis skrifuð inn í lögin.

Varðandi framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þá er það nokkuð samdóma afstaða okkar að við hvetjum ekki til þess. Við höfum ekki beitt okkur í að hvetja íslensk stjórnvöld til að sækja um setu í öryggisráðinu. Hins vegar hefur sú ákvörðun verið tekin og framboð er hafið af hálfu Íslendinga og stjórnvöld vinna að því að afla stuðnings við setu Íslendinga í ráðinu og ná kosningu á næsta ári. Við munum ekki tala gegn því framboði heldur fremur reyna þá að leggja stjórnvöldum lið í þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð. Þótt við séum ekki sammála henni þá teljum við rétt að miða afstöðu okkar við það sem fyrir liggur og verður ekki breytt.

Fleira má segja, virðulegi forseti, sem ástæða er til að fara yfir í umræðunni um utanríkismál, svo sem stöðu Ratsjárstofnunar. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í það að öðru leyti en því að ég legg áherslu á að sú stofnun gæti öryggis um land allt en ekki bara á einu svæði landsins og það endurspeglist í starfsmannahaldi og viðbúnaði þeirrar stofnunar þegar gengið verður frá lögum um hana og ráðningu starfsfólks til stofnunarinnar.



[12:13]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi vegna þess sem kom fram í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar varðandi samstarf við Grænlendinga, varðandi nýtingu hafsvæðisins á milli Grænlands og Íslands og þá umferð sem væntanleg er á komandi árum á þessu svæði, skipaumferð með olíu og gas frá Barentshafi og til Bandaríkjanna, upplýsa að auðvitað hafa Grænlendingar af þessu áhyggjur rétt eins og við. Grænlendingar hafa líkja áhyggjur af því að nú sækja stór skemmtiferðaskip til Grænlands sem þeir hafa lítinn viðbúnað til að mæta ef slys verða eða eitthvað gerist varðandi slíkar skipakomur.

Ég held að það sé mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að eiga sem best og mest samstarf við Grænlendinga um nýtingu hafsvæðisins milli Austur-Grænlands og Vestfjarða. Ég tel að þar séu ýmsir möguleikar á samstarfi sem geti skipt báðar þjóðir miklu máli. Ég hef þess vegna þegar skrifað fyrir nokkru síðan Aleqa Hammond sem fer með utanríkismál fyrir grænlensku heimastjórnina. Ég hitti hana meðan ég var á þingi Norðurlandaráðs og hefur verið ákveðið að ég fari til Grænlands þegar tækifæri gefst til að ræða sameiginleg hagsmunamál landanna og reyna að finna leiðir til að þróa þau áfram. Það verður að segjast alveg eins og er að við höfum ekki sinnt þessu nógu vel, ekki ræktað nógu vel sambandið við þessa frændur okkar. Ég tel að full ástæða sé til þess og vil gjarnan beita mér í því að við eigum sem best og mest samstarf við nágranna okkar.



[12:15]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra og vonast til þess að af þessu verði árangur fyrr eða síðar. Það er mikilvægt að ná góðu sambandi við Grænlendinga í þessum efnum og í því felast líka mikil tækifæri fyrir okkur Íslendinga sem við eigum ekki að láta liggja ónotuð öllu lengur. Það hefur verið ýtt á þetta á undanförnum árum, að reyna að koma á betra sambandi við Grænlendinga til að koma á viðskiptum og samningum um nýtingu hafsins og fiskstofnanna og til að veita þeim þjónustu frá íslenskum höfnum. Ég vek athygli á því að vestfirskar hafnir liggja næst austurströnd Grænlands og þar er sá flugvöllur í Evrópu sem er næst Grænlandi og þangað geta Grænlendingar sótt þjónustu fyrr og nær sér en til Danmerkur eða annarra Evrópulanda. Það er því mikið að vinna í þeim efnum, virðulegi forseti, og ég vonast til að árangur verði af viðræðum utanríkisráðherra við viðeigandi aðila á komandi árum.

Ég vil svo undirstrika áhyggjur mínar af þessum miklu siglingum sem fyrirsjáanlegar verða einmitt í sundinu milli Íslands og Grænlands. Ég held að Íslendingar ættu að beita sér fyrir því að ná samningum um þær skipaleiðir og siglingaleiðir þannig að sem minnstar líkur verði á alvarlegum skaða ef eitthvað ber út af á þeirri leið. Við eigum eins og Grænlendingar mikið undir því að þessar siglingar verði óhappalausar, virðulegi forseti.



[12:17]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara aðeins ítreka það sem ég sagði hér áðan um samstarfið við Grænlendinga og taka það fram að þegar ég var á ferð á Ísafirði nú fyrir skömmu átti ég fund með fulltrúum úr atvinnumálanefnd Ísafjarðar þar sem þeir lögðu einmitt mikla áherslu á möguleikana sem gætu verið á samstarfi milli Ísafjarðar og Vestfjarða og síðan byggðarlaga á austurströnd Grænlands. Það má nefna í því sambandi að það hefur verið talað um að námuvinnsla fari fram í Scoresby-sundi á Grænlandi. Þaðan er innan við klukkutímaflug til Ísafjarðar en ég held að það sé nærri tveggja tíma flug þaðan og til Nuuk á vesturströnd Grænlands og síðan enn þá lengra til annarra staða sem geta veitt þessa þjónustu. Þarna geta því verið ýmsir möguleikar en auðvitað verður þetta að fara fram á forsendum Grænlendinga sjálfra og það verður að vera þannig að þeir sjái sér hag af samstarfinu.

Varðandi siglingaleiðina fram hjá landinu þá tek ég undir með þingmanninum að það er full ástæða til þess að athuga hvort hægt er að setja reglur og þá með hvaða hætti, varðandi skipaleiðir, stærð skipa og þann flutning sem hér fer þannig að það geti líka verið sá viðbúnaður sem þarf ef eitthvað kemur upp á.



[12:18]Útbýting:

[12:19]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hennar og það ágæta yfirlit sem hún flutti þinginu um stöðu utanríkismála. Það er ljóst af ræðu hennar að það eru næg verkefni á sviði utanríkismála, mörg járn í eldinum og það hefur margt gerst og á mörgu verið tekið og málum þokað fram veginn frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum nú á vormánuðum eða í sumar öllu heldur.

Ég ætla að leyfa mér að byrja á því að tala í örfáum orðum um það sem ræða hæstv. utanríkisráðherra fjallaði ekki um sem eru Evrópumálin. Ég fagna því að ráðherrann skuli hafa tekið ákvörðun um að gera þeim málaflokki hærra undir höfði með því að taka Evrópumálin til sérstakrar umfjöllunar síðar en eins og fram hefur komið verða Evrópumálin rædd hér sérstaklega í janúarmánuði. Þetta er í samræmi við tillögur Evrópunefndarinnar um að ríkisstjórnin geri Alþingi sérstaka grein fyrir stöðu Evrópumála og það er ástæða til þess að fagna því að þetta sé nú komið til framkvæmda. Ég ætla ekki, af þeirri ástæðu að þau eru ekki hér sérstaklega til umfjöllunar, að fara nánar út í efnisatriði þess en ég tel mikilvægt að við förum almennt að taka utanríkismál og þá ekki einungis Evrópumálin, til dýpri umræðu hérna á þinginu og ég kem kannski aðeins að því í máli mínu.

Það má taka undir með utanríkisráðherra um að hnattvæðingin beri nú á dögum með sér ný einkenni og að skilin milli innanlandsmála og alþjóðamála fari minnkandi með því að heimsmálin verða einnig heimamál. Eins og fram kom í ræðu ráðherra er ljóst að verkefni okkar hér á þinginu eru í síauknum mæli tengd hinu alþjóðlega umhverfi. Ég tel að í störfum okkar á Alþingi þurfum við að horfa í auknum mæli til þessara breytinga og þá ekki síst þess að þingið verði virkara í aðhaldi sínu með utanríkisstefnunni, að þingið verði meira — við skulum segja bara hreinlega „á staðnum“ þar sem við erum þátttakendur og samráðið við utanríkismálanefnd og þingið almennt verði aukið. Ég sé jafnframt fyrir mér að fastanefndirnar komi í ríkara mæli að umræðu um þessi mál en verið hefur.

Ef við horfum fyrst til eins af stóru málunum sem fjallað er um í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, þróunarsamvinnunnar, þá sjáum við í fjárlagafrumvarpinu að fjárveiting til þess málaflokks er aukin um 750 milljónum á næsta ári. Upphæðin saman, í þróunarsamvinnu og alþjóðastofnanir er eitthvað lægri, í kringum 500 milljónir, en vegna lækkunar til alþjóðastofnana sér maður að verið er að bæta verulega háum fjárhæðum í þróunarsamvinnuna. Ég held að það sé mikilvægt og það er í samræmi við langtímamarkmið að við aukum við framlög okkar í þennan málaflokk til þess að nálgast það að standa undir þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett um að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna verji 0,7% af þjóðarframleiðslunni til þróunarmála. Við erum á ágætum rekspöl með að fylgja eftir langtímamarkmiði okkar í þessu efni, eins og fram kom í ræðu ráðherrans, við erum að skríða yfir 0,30% viðmiðið en ætlum að vera komin í 0,35% árið 2009.

Það var bara allnokkuð metnaðarfullt markmið þegar það var sett þó að við værum ekki komin nema hálfa leið að því sem við sjáum að gildir hjá nágrannaþjóðum okkar og þeim sem við viljum helst bera okkur saman við og sumar þeirra eru reyndar farnar enn lengra fram úr okkur en sem þessu nemur. Það er engu að síður ánægjulegt að við skulum vera á réttri leið, að við skulum hafa haldið okkur á sporinu. Í því samhengi er það auðvitað sérstaklega ánægjulegt að við höfum haldið þannig á málum hér á Íslandi í efnahagslegu tilliti að við höfum full efni á því að standa undir þessu metnaðarfulla markmiði. Ég held að ef við setjum okkur þetta markmið og þessi auknu framlög í samhengi við framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna dyljist það væntanlega engum hversu mikilvægt það er að við stöndum við það sem við höfum áður sagt í þessu efni.

Svo ég vitni aftur til ræðu hæstv. ráðherra þá fylgja þessum auknu framlögum auknar kröfur til fagmennsku og þingið hlýtur að gera auknar kröfur til að slík fagmennska sé til staðar. Það getur til að mynda fólgist í því að einstaka þingnefndir — þá er ég fyrst og fremst með utanríkismálanefnd í huga — geri sér far um að fara á vettvang þar sem við erum virk í þróunarsamvinnunni, geri sér far um að fara þangað sem við höfum einbeitt okkur að því að leggja lið en eins og hefur komið fram þá höfum við látið verulega til okkar taka í einstökum verkefnum. Það eru dæmi um verkefni þar sem við erum miðað við höfðatölu fremst meðal þjóða í framlögum. Við höfum lagt áherslu á að styðja við verkefni þar sem er unnið að jöfnuði og stuðningur við kvenfrelsi og aukna þátttöku kvenna í uppbyggingu nýrra samfélaga skiptir máli, þar má t.d. nefna UNIFEM.

Ástæðan fyrir því að þessi mál hafa ekki fengið mikla umfjöllun hér á þinginu er kannski sú að við höfum ekki verið að fylgja þessum verkefnum neitt sérstaklega eftir. Við höfum ekki lagt okkur fram við að kynna okkur starf þeirra alþjóðastofnana sem við verjum fjármunum til og ég held að þessu þurfum við að breyta. Þetta á líka og ekkert síður við um tvíhliða aðstoðina sem helst fer fram undir merkjum Þróunarsamvinnustofnunarinnar, þar þurfum við þingmenn í auknum mæli að gera okkur far um að fylgjast með. Ég ítreka það sem ég sagði áður í ræðu minni að á næsta ári ætlum við að verja 750 milljónum til viðbótar við það sem áður var gert til þessa málaflokks.

Auðvitað kallar það á að þingið fari að sinna málunum betur en gert hefur verið og ég leyfi mér einfaldlega að segja að reglur forsætisnefndar þingsins, til að mynda um utanferðir og fjármál og rekstrarkostnað til fastanefnda þingsins í þessu samhengi eru að verða úreltar ef þær eru ekki þegar orðnar það. Það gengur ekki að þingið sjálft setji sér svo þröngan ramma á sama tíma og það ver meiri fjármunum í þennan málaflokk. Ef við tölum almennt um utanríkismálin þá þurfum við ekki að gera samanburð nema örfá ár aftur í tímann til þess að sjá að við höfum aukið framlög til utanríkismálanna og það er vegna þess að við ætlum okkur að verða virkari þátttakendur þar og við höfum aðstöðu til þess, við höfum efnahagslegan styrk og eins og framboðið okkar til öryggisráðsins sýnir teljum við okkur eiga fullt erindi, sem skiptir ekki síður máli.

Það er víða komið við í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram þó að mér þyki hún kannski á köflum hafa verið dálítið einkennileg eins og þegar er fram komið þá hefur hún haft tilhneigingu til þess að einangrast í afskapalega afmörkuð ráðningarmál og annað þess háttar, en ég tel að í ræðu ráðherra sé komið inn á öll helstu atriðin sem við eigum að vera að horfa til og hugsa um nú á þessu þingi.

Við höfum í dag átt dálitla umræðu um íslensku friðargæsluna og það er í sjálfu sér rétt sem þar hefur komið fram að það er fagnaðarefni að við skulum ekki hafa orðið fyrir neinum sérstökum áföllum þar, við höfum ekki orðið fyrir neinu mannfalli. Sú stefna sem við höfum markað okkur þar, nú síðast með nýrri lagasetningu um íslensku friðargæsluna, er einmitt til þess hugsuð að reyna að forða því að slíkir atburðir eigi sér stað þó að við þurfum ávallt að vera því viðbúin að á átakasvæðum geti óvæntir atburðir gerst. Það er sérstakt fagnaðarefni í tengslum við íslensku friðargæsluna að okkur hefur tekist nokkuð farsællega að skilgreina þá þætti þar sem við höfum eitthvað fram að færa, þar sem við höfum sérþekkingu, og við sjáum það á þeim verkefnum sem okkur hafa verið falin að við höfum getað leyst þau af hendi með mikilli sæmd. Það á t.d. við um flugvellina sem við höfum komið yfir í borgaraleg not og það á líka við um mörg verkefni sem við höfum unnið á sviði heilbrigðisþjónustunnar og fleira væri hér hægt að tína til. Í því sambandi get ég nefnt sérstaklega verkefni UNIFEM í Pristína þar sem íslenska friðargæslan hefur starfað, þar sem var til að mynda unnið mjög mikilvægt grasrótarstarf í því að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnarmálum og skólum þess héraðs. Við höfum komið víða við og eins og ég sagði áðan tel ég að við á þinginu þurfum að fara að dýpka aðeins umræðuna um þessi mál og ekki eftirláta hana alfarið framkvæmdarvaldinu og taka hana einungis til umræðu hér í tveggja, þriggja tíma umræðum einu sinni til tvisvar á ári.

Ég ætla ekki að eyða miklum tíma af þeim takmarkaða tíma sem ég hef til þess að fjalla meira um framboð til öryggisráðsins en segi þó það að mér finnst því framboði hafa verið markaður afskaplega skynsamur farvegur með því að fara fram af ákveðinni hógværð og raunsæi þegar kemur að því að ákveða hversu miklu við ætlum að kosta til, en mér hefur fundist á umliðnum mánuðum á því sem mér hefur verið kynnt sem formanni utanríkisnefndarnefndar að við séum bara að ná býsna góðum árangri þegar horft er til þess hvað við getum þó gert miðað við það sem við ætlum okkur í þessum framboðsmálum. Það verður síðan að koma í ljós hvernig til tekst þegar upp úr kjörkössunum verður talið en mér sýnist allt stefna í að við séum að reka þetta framboð af mikilli sæmd.

Í lokin vil ég koma örstutt inn á öryggis- og varnarmálin. Það er ljóst að þegar við tókum við því hlutverki að taka yfir öll mannvirki í Keflavík og að miklu leyti eigin varnir var þar um að ræða gríðarlega stórt verkefni sem kom með skömmum fyrirvara í fangið á okkur. Það er algjörlega óhætt að segja í dag að okkur hefur tekist að tryggja snurðulausa yfirfærslu flugvallarins til íslenskra stjórnvalda og það er sérstök ástæða til þess að fagna því vegna þess að það var á engan hátt sjálfsagt mál. Það liggur jafnframt ljóst fyrir að mjög mikil vinna hefur hvílt á utanríkisráðuneytinu og starfsmönnum þess sem hafa greinilega staðið sig vel í því að tryggja að þessi farsæla yfirfærsla gæti átt sér stað. Enn eru þó ýmis verkefni óleyst og við eigum væntanlega von á á þessu þingi að lagt verði fram frumvarp um rekstur ratsjárstöðvanna og ýmis rekstrartengd mál sem enn eru til úrlausnar, en þessi mál eru öll í góðum farvegi og öryggisþátturinn sem hvað mestu máli skiptir virðist vera í öruggum höndum.

Hér rétt í lokin um viðskiptamálin en við höfum átt gríðarlegri farsæld að fagna í efnahagslegu tilliti, m.a. vegna aðildar okkar að EFTA og í gegnum EFTA að Evrópska efnahagssvæðinu. Varðandi fríverslunarsamningana er samningurinn sem núna er í deiglunni við Kína gríðarlega spennandi og við eigum eftir að sjá hvernig þær viðræður enda. En ég vil leyfa mér að fagna loftferðasamningnum sem við höfum náð að ljúka við Kanada og fleiri slíkir eru í burðarliðnum. Slíkir loftferðasamningar hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir íslenska flugrekendur.



[12:34]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna efnismikilli og góðri ræðu hæstv. utanríkisráðherra hér í upphafi. Mér fannst hún bera með sér heilsteypta sýn á utanríkismál, og þau viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir, og djúpan skilning á því hvernig við þurfum að nálgast verkefni á þessu sviði, og það hversu samtvinnuð þau eru þeim daglegu verkefnum sem við þurfum að vinna innan lands.

Heimsmál eru heimamál, sagði ráðherra í ræðunni, og fátt er betri lýsing á því umhverfi sem við búum við. Við búum við það að eftirspurn erlendra fjárfesta eftir útgáfu á skuldabréfum í íslenskum krónum hefur bein áhrif á stýrivaxtahækkanir Seðlabankans og hefur þar af leiðandi bein áhrif á gengi krónunnar sem svo aftur hefur bein áhrif á eftirspurn eftir því að koma hér og taka stöðu til skamms tíma í innlendum gjaldmiðli. Þessar staðreyndir um eftirspurn erlendra aðila eftir innlendum gjaldmiðli hafa lykiláhrif á þann sveigjanleika sem Seðlabankinn hefur í ákvörðun stýrivaxta og hafa líka lykiláhrif á svigrúm ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Við sjáum mörg fleiri dæmi. Ráðherrann rakti sum og það er óþarfi að tína þau öll til. En grundvallaratriðið er að hnattvæðingin er staðreynd og hún er annað og meira en merkimiði. Hún er orðin raunveruleiki íslenskrar þjóðar með þeim hætti að efnahagsmál okkar og samfélagslíf eru samtvinnuð örlögum annarra þjóða og verkefni þau sem við viljum leysa á innanlandsvettvangi getum við í langflestum tilvikum ekki leyst með skilvirkum hætti nema í samstarfi við aðrar þjóðir eða á alþjóðlegum vettvangi. Við sem smáríki, sem á meira undir alþjóðaviðskiptum og fjölþættari milliríkjaviðskiptum en nokkru sinni fyrr, eigum mikið í húfi að þessu leyti. Líklega eiga fáar þjóðir meira undir þróun á alþjóðavettvangi að þessu leyti.

Ég get því ekki verið sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem nefndi áðan að það væri spurning um að hvaða leyti maður gæti verið á móti hnattvæðingunni. Ég held að við getum ekki verið á móti henni frekar en við getum verið á móti Esjunni. Hún er staðreynd. Hún er komin til að vera. En það sem við getum hins vegar gert sem þjóð er að reyna að hafa áhrif á þróun hnattvæðingarinnar, reyna að slá þá réttu tóna sem geta gert hnattvæðinguna þannig að hún færi ávinning sem víðast. Ég fagna sérstaklega umfjöllun í ræðu ráðherra um áherslur á mannréttindi og þróunarsamvinnu og hinar víðari stærðir í hinu hnattræna tilliti.

Þessi staðreynd krefst þess að við horfum með allt öðrum hætti á það hvernig við nálgumst heiminn en við höfum gert hingað til. Utanríkisþjónustan þarf að vera skilvirkari. Hún þarf að þjónusta hnattvætt efnahagslíf. Viðskiptalíf okkar er blessunarlega hnattvætt í síauknum mæli. Íslensk utanríkisþjónusta þarf að vera í stakk búin til að þjóna því hér eftir sem hingað til. Ef ekki hefði verið fyrir EES-samninginn hefði ekki verið um að ræða neina útrás í þeim skilningi sem við höfum upplifað á undanförnum árum. Ef ekki væri fyrir þéttriðið net fríverslunarsamninga, tvísköttunarsamninga og annarra viðskiptasamninga væri tal um ný tækifæri á erlendum vettvangi orðin tóm. Þetta net þarf að halda áfram að vinna og það þarf að halda áfram að tryggja íslenskum fyrirtækjum markaðsaðgang út um víða veröld. Utanríkisþjónustan þarf að hafa til að bera fagmennsku til þess að geta unnið þessi verk og í því skyni er mjög mikilvægt að við hlífum utanríkisþjónustunni við ófaglegum mannaráðningum og mörkum með skýrum hætti þá stefnu að fagmennska ráði í mannaráðningum í utanríkisþjónustunni til langframa. Við þurfum líka að tryggja skilvirkni utanríkisþjónustunnar þannig að hún verði í stakk búin til að bregðast við ólíkum þörfum á ólíkum tímum.

Hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Suðvest., formaður utanríkismálanefndar, gerði að umtalsefni hlutverk utanríkismálanefndar og þörf á breytingu á því. Ég tek undir hvert orð sem hann sagði um það atriði. Það er úrelt að líta svo á að hlutverk utanríkismálanefndar sé með einhverjum hætti annars eðlis en annarra þingnefnda. Verksvið framkvæmdarvaldsins, sem utanríkismálanefnd þarf að hafa eftirlit með, er í ríkum mæli á erlendri grundu og aðbúnaður nefndarinnar og svigrúm hennar þarf að helgast af því. Það er líka mjög mikilvægt, í ljósi þess hversu rík tenging er orðin milli verkefna á alþjóðavettvangi og verkefna innan lands, að utanríkismálanefnd hafi fullnægjandi tæki til að halda á sínu lýðræðislega eftirliti með framkvæmdarvaldinu á öllu starfssviði þess.

Ég fagna þeirri ákvörðun utanríkisráðherra að halda sérstaka ræðu um Evrópumál. Þau eru orðin það mikill hluti af og enn meiri hluti af viðfangsefnum okkar innan lands, að þau réttlæta fullkomlega sérstaka ræðu og sérstaka athugun.

Virðulegi forseti. Við stöndum á miklum tímamótum í öryggis- og varnarmálum landsins. Við höfum fengið upp í hendurnar mikið tækifæri. Eins og góður maður sagði: Það má kannski segja að við séum nú fyrst að verða sjálfstætt aðildarríki NATO. Af því höfum við mjög takmarkaða reynslu. Við höfum verið aðilar að NATO að meira og minna leyti á forsendum varnarsamstarfs sem nú hefur breytt um eðli. Það er vel. Það er vel að þetta gerist þegar við erum sem þjóð tilbúnari en áður til að standa í fæturna og axla ábyrgð okkar í alþjóðavæddum heimi. Við höfum fengið reynslu af alþjóðasamstarfi og við erum vel í stakk búin til að axla þessa ábyrgð.

Það er líka gaman að axla þessa ábyrgð nú þegar miklar breytingar eru að verða almennt á skilningi á öryggis- og varnarmálum. Hér kom fram áðan að Atlantshafsbandalagið hefur breytt um skilgreiningu og lítur á sig sem öryggisbandalag. Það er líka athyglisvert að t.d. okkar nána grannþjóð Danir hefur það ekki lengur sem skilgreint hlutverk síns herafla að verja danskt landsvæði. Landvarnir eru ekki verkefni danska hersins lengur. Danski heraflinn hefur það hlutverk að vinna í fjölþjóðlegu herliði verkefni til að styðja við öryggisgæslu og friðarframkvæmd utan Danmerkur.

Það er því eingöngu jákvætt að við skulum nálgast þetta verkefni á þessum tímum. Ég held líka að sú aukna áhersla sem hefur orðið á málefnum norðurslóða á síðustu árum sé okkur til gagns í þessu efni. Breyttar aðstæður í umhverfismálum með hlýnun hafsins og opnun nýrra siglingaleiða skapa auðvitað hættu en líka tækifæri og allt breytir þetta hinni landfræðilegu sýn og öryggismati á þessu svæði. Með öðrum orðum hefur hin „geostrategíska“ staða, með leyfi forseta, breyst.

Þessi atriði voru rædd á þingi Norðurlandaráðs í Ósló nú nýverið, m.a. fyrir tilverknað Vestnorræna ráðsins sem hafði vakið athygli á hvað þessi þróun þýddi fyrir björgunarmál á Norður-Atlantshafi, líka í ljósi þess að liðstyrks Bandaríkjamanna í Keflavík nýtur ekki lengur við hvað björgun varðar. Það er fagnaðarefni að utanríkisráðherra hefur vakið máls á þessum þáttum víða. Við sjáum líka að dómsmálaráðherra hefur verið að ræða möguleika á samstarfi landhelgisgæslna á Norður-Atlantshafi og allt er það mjög jákvætt.

Ég bind vonir við að við munum áfram á vettvangi Norðurlandaráðs og norræns samstarfs ná að ræða öryggismál með nýjum hætti. Þar eigum við langa hefð fyrir opinni og fordómalausri umræðu með mikilli þátttöku almannasamtaka og almennri þátttöku í umræðu. Við vísum best veginn með því að ræða öryggis- og varnarmál með opnum hætti og fordómalaust.

Ég fagna sérstaklega frumkvæði utanríkisráðherra, sem hún nefndi í ræðu sinni, að setja á fót sérstakan vettvang um samráð í öryggismálum. Ég verð líka að hrósa ráðherra fyrir það frumkvæði sem hún tók varðandi það að afla öryggisvottunar fyrir utanríkismálanefnd og gera utanríkismálanefnd þar með kleift að fá aðgang að gögnum, sem þrætt hefur verið um, frá Atlantshafsbandalaginu á fundi í morgun. Það er mjög mikilvægt að víkka með þessum hætti aðgang að upplýsingum um öryggis- og varnarmál. Við þurfum að treysta hvert öðru í umfjöllun um öryggis- og varnarmál, á það hefur skort í meira en hálfa öld. Það er eitt af brýnustu verkefnum okkar á næstu árum að byggja upp það traust og brúa það bil.

Virðulegi forseti. Mig langar að lokum að víkja örstutt að framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég átti þess kost nýverið að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og kynntist þá því starfi sem unnið hefur verið í New York til að vinna framboði Íslands brautargengi. Það vakti athygli mína að sjá hversu mikil sál er komin í þetta framboð og sjá að það er ekki lengur orðin tóm. Ísland stendur fyrir ákveðinni sýn og ákveðnum gildum og býður sig fram á þeim forsendum.

Mér þótti kærkomið nýmæli að Íslendingar töluðu stoltir af sögu sinni um það hverju þeir hefðu að miðla gagnvart fátækum ríkjum sem eru nú að feta sín fyrstu skref í átt frá nýlendukúgun til bjargálna. Það er vissulega sérstakt að geta sagt sögu Íslands sem hefur á undraskömmum tíma í öllu sögulegu samhengi náð að rísa úr mikilli fátækt til mikillar velmegunar án þess þó að feta leiðina sem margir postular boða fátækum ríkjum. Við höfum byggt upp velferðarkerfi, við höfum varið rétt þeirra sem lakast standa, við höfum tryggt mannréttindi kvenna og barna, við höfum náð að halda spillingu í lágmarki og á þeim grunni höfum við komist til efnahagslegrar velmegunar.

Það er mikils virði fyrir fátæk ríki að heyra þetta, ríki sem þurfa daginn út og daginn inn að sitja undir boðskap sjálfskipaðra postula sem segja að eina lausnin til framfara sé sú að hafa helst ekkert regluverk, byggja helst enga innviði og mæta hnattvæðingunni á forsendum fjármagnsins. Mér fannst mest til þess koma að sjá hversu heilsteyptan málflutning Íslendingar gátu haft í frammi og hversu vel honum var tekið af hálfu þessara ríkja.

Allt finnst mér þetta, þegar maður tekur það saman, bera vitni um sjálfstraust. Sjálfstraust okkar Íslendinga til þess að standa sjálfir fyrir því sem við erum og miðla af því sem við höfum án yfirlætis, án þess að ætla okkur að leysa hvers manns vanda á einni nóttu, en með því að leggja gott til, styðja við sprota, hjálpa til á hverjum vettvangi. Smáríki sem á allt undir milliríkjaviðskiptum má aldrei við því að hafa gluggann lokaðan gagnvart umheiminum. Það er mikilvægt að við höldum áfram að opna glugga, því fleiri því betra, því að enginn veit á endanum hvar það er sem skrautblómin ná að vaxa.



[12:49]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það er nauðsynlegt að hafa vel opna glugga og fá góða loftið inn, en það má kannski ekki hafa gluggana svo stóra og svo galopna að það verði ekkert skjól í húsinu og menn fjúki út úr því.

Hv. þingmaður vék að ummælum mínum um afstöðu mína til hnattvæðingar og virðist eitthvað hafa misskilið. Mín sýn er einmitt sú að hnattvæðing sé ekki einsleitt fyrirbæri og mér hefur alltaf þótt barnalegt og lítt uppbyggilegt að reyna að stilla hlutum þannig upp að menn séu annaðhvort með henni eða á móti. Það sem við tölum um sem hnattvæðingu felur í sér margar jákvæðar breytingar. Það er ýmislegt sem auðveldar lífið í dag vegna tækni, framfara og þekkingar, og mannkynið hefur að mörgu leyti betri aðstæður til að glíma við vandamál sín og meiri burði til þess en nokkru sinni fyrr með tækni og þekkingu að vopni og mikinn auð. En um leið er þessi geta mannkynsins að hluta til vandinn sjálfur, þ.e. sú mikla eyðsla, sóun og álag á auðlindir jarðarinnar sem lífshættir sérstaklega Vesturlanda valda. Ég vil þess vegna taka gagnrýna afstöðu til hnattvæðingarinnar þannig að sjá á henni bæði kost og löst og vera í liði með þeim sem berjast gegn hinum neikvæðum þáttum og vilja breyta þeim, þáttum eins og félagslegum undirboðum í þróunarríkjunum og að vinnuafl og auðlindir þróunarríkjanna sé blóðmjólkuð í þágu græðginnar á Vesturlöndum. Við líðum ekki barnaþrælkun, ekki mansal og vændi, ekki umhverfisfórnir, eyðingu auðlinda eins og regnskóganna í þágu vestrænna viðskiptahagsmuna. Ég veit ekki hvort þetta þýðir að við séum eitthvað ósammála en haldi hv. þingmaður að ég sé í þeim hópi sem vilji bara greiða atkvæði um það, já eða nei, hvort menn séu með eða á móti hnattvæðingu er það misskilningur.

Það var einu sinni stjórnmálamaður hér og ekkert fyrir löngu sem reyndi að stilla dæminu svona upp, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson. Hann sagði þetta einhvern tíma í útvarpsviðtali og vék orðum að þeim sem hér stendur, sagði að það væru undarlegir menn sem væru bara á móti hnattvæðingunni. (Forseti hringir.) Svo einfalt er málið ekki.



[12:51]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari skýringu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég held að við sjáum hnattvæðinguna með nokkuð líkum hætti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gætum nákvæmlega að þessu og að við styðjum fátæk ríki til þess að byggja upp heilbrigð samfélög sem eru sjálfbær til lengri tíma litið. En í því samhengi má aldrei gleyma að ávinningur okkar af efnahagslegri uppbyggingu skapast ekki bara af því að við höfum byggt upp gott velferðarkerfi. Hann skapast líka af því að við höfum opnað glugga og leyft umtalsverðum trekk að myndast og við höfum skipulagt heilu og hálfu atvinnugreinarnar og satt að segja allt þjóðlífið, sérstaklega á síðustu árum, með upptöku evrópskra reglna, ekki með séríslenskum reglum, heldur með alþjóðlega viðurkenndu regluumhverfi. Það hefur gert það að verkum að fjárfestar okkar hafa átt tækifæri til að fara til annarra landa, skapa þar auð og flytja hann aftur heim. Við höfum búið í haginn til að aðrir geti komið og nýtt sér með sama hætti frelsi hér á Íslandi. Grundvallaratriðið held ég að sé að við eigum að byggja upp með nákvæmlega sama hætti og hv. þingmaður nefndi innviði fátækra ríkja og styðja þau til þess. Við verðum jafnframt að styðja þau til þess að hafa sjálfstraust og getu til að taka við erlendu fjármagni, bjóða það velkomið og byggja upp með þeim hætti atvinnulíf í löndunum. Lykilatriðið í því efni er að hafa gluggana býsna vel opna, leyfa umtalsverðum trekk að myndast þannig að vel gusti um.



[12:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu skipta alþjóðaviðskiptin máli og alþjóðlegar fjárfestingar og allt það. Þá erum við komin að því að ræða alþjóðaregluverkið í þeim efnum og hvernig menn eru að þróa það, hver forskriftin hefur verið, hvaða hugmyndafræði hefur ráðið ferðinni. Þar kemur að því sem ég er mjög gagnrýninn á, undirliggjandi hreyfikrafta hnattvæðingarinnar sem eru auðvitað fyrst og fremst stórfyrirtækin, fjölþjóðafyrirtækin og alþjóðafjármagnið, áhættufjárfestingarfjármagnið sem hefur rutt sér braut og sett út olnbogann í heiminum og er að ná æ meira tangarhaldi á auðlindum og mörkuðum í þróunarríkjum. Forskriftin sem fylgt hefur verið hefur í allt of miklum mæli verið gagnrýnislaus og hrár kapítalismi, einkavæðing þar sem það er vanrækt að byggja upp innviði og efla velferð. Jafnvel er lítt þróuðum ríkjum uppálagt, eða a.m.k. var, af Alþjóðabankanum og fleiri slíkum að skera niður þann litla infrastrúktúr sem þau hafa á sviði menntunar, heilsugæslu o.s.frv. Nú hafa menn viðurkennt viss mistök í þeim efnum en regluverkið er samt stórgallað að þessu leyti, bæði sú pólitík sem Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgja, Alþjóðaviðskiptastofnunin og í raun forskrift Doha-viðræðnanna, þar vantar í allt of miklum mæli hinar félagslegu víddir, umhverfisþættina o.s.frv. Þetta hefur leitt til þess að sjálfsprottnar hreyfingar eru komnar fram úr alþjóðastofnununum að þessu leyti og eru að ryðja brautina fyrir fyrirbæri eins og „fair trade“ í viðskiptum, að menn geti fengið vottað að þeir stundi félagslega ábyrga fjárfestingarstefnu. Við þurfum þess konar áherslur í stað þess hnattvædda græðgiskapítalisma sem hnattvæðingin því miður í allt of miklum mæli er.



[12:55]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum verið sammála um það, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ég, að það er mikilvægt að við beitum afli okkar og þrótti til að byggja upp innviði fátækra ríkja, hjálpa þeim til sjálfsbjargar og greiða jafnframt fyrir efnahagslegri þróun þeirra með því að byggja upp forsendur fyrir fjárfestingu í ríkjunum og uppbyggingu sjálfbærs efnahagslífs. Það er einmitt það sem ég fagna sérstaklega í áherslum hæstv. utanríkisráðherra í ræðu hennar áðan, hversu heilsteypt sýn liggur að baki því frumkvæði sem hún leggur til að íslensk stjórnvöld taki í uppbyggingu og samskiptum við þróunarríkin.

Þá þýðir það væntanlega líka að við verðum að fara að taka okkur tak sjálf og þá verðum við að leggja af þann leiða sið sem við höfum stundað núna árum og áratugum saman á alþjóðlegum vettvangi þegar rætt er um frelsi í viðskiptum að fyrir hádegi sjáum við á því öll tormerki að nokkurt ríki megi hafa nokkurn toll á fiski en eftir hádegi setjumst við niður með ríkustu ríkjum heims og gerum okkur þar far um að útiloka fátæk ríki frá mörkuðum okkar með landbúnaðarvörur. Þessum tvískinnungi verður að ljúka. Við verðum að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég held að það sem hv. þingmaður sagði áðan um mikilvægi þess að hægt sé að votta félagslega ábyrg viðskipti og annað slíkt sé mikilvægt. En við megum gæta okkur á því að láta aldrei slíka merkimiða verða innihaldslausa þannig að þeir geti orðið skálkaskjól þeirra sem ekki vilja í reynd frjáls viðskipti. Frjáls viðskipti, aðgangur þróunarríkja að okkar mörkuðum, eru besta þróunarhjálpin sem við getum veitt.