135. löggjafarþing — 22. fundur
 12. nóvember 2007.
athugasemdir um störf þingsins.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:03]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka hér upp mjög misvísandi yfirlýsingar einstakra ráðherra í ríkisstjórninni um stöðu stóriðjumála eða stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Hæstv. forsætisráðherra var í viðtali í Ríkisútvarpinu í morgun og var þá m.a. spurður út í stöðu stóriðjumála og hvort nýleg ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar hefði þar áhrif á. Hæstv. forsætisráðherra kvað svo ekki vera, hér væri ekki um pólitíska ákvörðun að ræða heldur viðskiptalega ákvörðun fyrirtækisins og engin stóriðjuáform væru í sjálfu sér útilokuð af þessum sökum og engin stefnubreyting hefði orðið hjá ríkisstjórninni. Þetta er allt annað en ráða má af lestri afurða hins mjög svo ritglaða hæstv. iðnaðarráðherra, eða á maður kannski að segja bloggarans Össurar Skarphéðinssonar. Þar er ekki annað en sjá en ríkisstjórnin sé að taka meiri háttar beygju og hverfa frá því sem þar er kallað „hin blinda stóriðjustefna framsóknarmanna“. En forsætisráðherra les sem sagt öðruvísi í þessa hluti og það skyldi nú ekki vera að hann sjái hvað á bak við liggur af hálfu Landsvirkjunar, enda virðist ekki allt sem sýnist ef netþjónabú sem á að nota 5–8 megavött af raforku í fyrstu lotu er notað sem réttlæting fyrir 250 megavatta virkjunum í heild sinni, þ.e. öllum virkjununum í Neðri-Þjórsá. Og jafnvel þó að kísilhreinsun eða kísilflöguframleiðsla, sem er meðalstór iðnaðarkostur og notar kannski tugi megavatta í afli, bætist þar við er ljóst að einungis minnsta virkjunin af þremur í neðsta hluta Þjórsár dygði.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Á hverju á að taka mark? Gilda yfirlýsingar iðnaðarráðherra um stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnar eða gilda orð hans frá því í morgun um að þetta hafi engin áhrif og afstaða og stefna ríkisstjórnarinnar sé óbreytt? Reyndar hefði maður getað búist við því að hæstv. forsætisráðherra hefði tekið því fagnandi að reyna að slá á væntingar um stóriðjuframkvæmdir í ljósi upplýsinga um verðbólgu sem voru að koma fram en hæstv. forsætisráðherra kaus að gera það ekki. Það verður fróðlegt að heyra svör hæstv. forsætisráðherra.



[15:05]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú ákvörðun sem stjórn Landsvirkjunar tók síðastliðinn fimmtudag skipti verulegu máli. Þar er mörkuð stefna varðandi nýtingu þeirrar orku sem ætlunin er að afla á næstu árum af hálfu fyrirtækisins. Stefnan byggist á því að hámarka það verð sem fæst fyrir orkuna en jafnframt nota tækifærið og dreifa áhættu í viðskiptum með því að auka fjölbreytni í hópi viðskiptavinanna. Þetta er hægt vegna þess að nú eru fjölmörg fyrirtæki að leita eftir orkunni sem er nýmæli í 40 ára sögu Landsvirkjunar og rúmlega það, þannig að uppi er ný staða hvað þetta varðar. Vissulega þýðir þetta að óbreyttu að ekki verður reist álver í Þorlákshöfn eða nýtt álver á Suðvesturlandi. Ég vek athygli á því sem segir í fréttatilkynningu Landsvirkjunar, með leyfi forseta: „Landsvirkjun mun þess vegna ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- og Vesturlandi.“ Þessi ákvörðun fyrirtækisins skýrir sig sjálf að mínum dómi. Ég tel að hún sé skynsamleg eins og sakir standa og hún muni ekki hafa áhrif á fyrirhugaða byggingu álvers á Bakka við Húsavík sem er í undirbúningi af hálfu fyrirtækisins vegna þess að það er utan þess landsvæðis sem tilgreint er og heldur ekki á þá uppbyggingu sem önnur orkufyrirtæki hafa hugsað sér að taka þátt í suður í Helguvík.

Hvað síðar verður varðandi framtíð Alcans í Straumsvík er það náttúrlega úrlausnarefni þeirra stjórnenda sem þar eru en mér er tjáð að fyrirtækinu standi til boða að kaupa nokkurt magn af raforku til að gera skipulagsbreytingar og auka afköst í verksmiðju sinni eins og hún er núna.



[15:08]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Mér kemur ekki á óvart þótt misvísandi orð komi frá ríkisstjórninni. Þau eru daglegt brauð og ríkisstjórnin minnir auðvitað á fjölskylduna góðu, Jónas og fjölskyldu sem oft var í útvarpinu einu sinni, hin skemmtilegasta fjölskylda af því að hún var alltaf á öndverðum meiði. Menn eru vanir því. Hitt er annað mál að ál var mikið mál fyrir nokkrum árum. Þar á ekki að reka blinda stefnu en það hefur haft mikil áhrif á íslenskt viðskiptalíf og nú blasir það t.d. við að útflutnings- og viðskiptajöfnuðurinn, útflutningstekjurnar á þessu kjörtímabili, gjaldeyristekjurnar, munu sennilega verða meiri af áli en sjávarútveginum öllum. Þetta hefur því mikið að segja í búi ríkisstjórnarinnar.

Ég vil ekki reka blinda stóriðjustefnu og það viljum við framsóknarmenn ekki en þar liggja tækifærin fyrir okkur og heiminn líka. Þar eigum við auðvitað að fara af varúð og láta þar fara saman varúð og uppbyggingu. Það vill svo til að það er framsóknarmaður í formennsku í Landsvirkjun, Páll Magnússon, sem nær þessari stóru samhljóða ákvörðun í stjórninni og horfir nú til netþjónabúa. Þar eru ný tækifæri sem blasa við til að selja orkuna dýrar. Ég fagna því og við getum auðvitað hægt á hinum megin, ný tækifæri blasa við og þetta er bara staðan. Hins vegar ber svo við að hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson lætur það í veðri vaka að ríkisstjórnin og Landsvirkjun hafi þar með slegið á orkuverin og tekið þátt í því að ákveða að þau verði ekki byggð upp. Auðvitað er þetta tímabundin ákvörðun, ríkisstjórnin kemur hvergi að málinu. Þetta er viðskiptaleg ákvörðun sem stjórn Landsvirkjunar tekur á viðskiptalegum forsendum og hefur trúlega ekki spurt ríkisstjórnina. Ég vil a.m.k. fá það á hreint. Spurði stjórn Landsvirkjunar hæstv. forsætisráðherra áður en ákvörðun var tekin? Svona horfir þetta við, þetta er auðvitað ný staða og nýir möguleikar í samfélagi okkar.



[15:10]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar um að selja ekki frekari raforku til áliðnaðar markar að sjálfsögðu heilmikil tímamót. Hún hefur heilmikil áhrif, hún hefur pólitísk áhrif í atvinnuuppbyggingu en hún er hins vegar tekin af stjórn Landsvirkjunar á viðskiptalegum forsendum.

Um er að ræða 15 orkukaupendur, 15 aðila sem keppa um orkuna. Það er af sem áður var, nú eru margir um hituna. Stjórn Landsvirkjunar tók þá mjög svo skynsamlegu ákvörðun að mínu mati að selja orkuna til aðila sem eru að framleiða annað en ál. Verið er að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf, fleiri undirstöður. Um er að ræða að ekki verða teknar ákvarðanir um nýjar álverksmiðjur á suður- og suðvesturhluta landsins. Um er að ræða uppbyggingu í hátækniiðnaði í nýjum greinum og á þeim á að grundvalla nýtingu á óseldri orku til framtíðar. Því er þessi ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar sérstakt fagnaðarefni af því að útkoman er sú að atvinnulífið verður fjölbreyttara, orkufrekur iðnaður verður miklu fjölbreyttari en áður þegar öll eggin voru sett í sömu körfuna. Hvort sem um er að ræða uppbyggingu netþjónabúa, kísilflöguverksmiðju fyrir sólarpanela eða hvað annað sem út úr viðræðum stjórnar Landsvirkjunar kemur, þá ber allt að sama brunni að þetta markar ákveðin skil í atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Ekki verða fleiri ný álver á þessum hluta landsins á næstu árum og missirum, það liggur ljóst fyrir eftir þessa ákvörðun. Það er fagnaðarefni fyrir þá sem vilja sjá fjölbreyttari atvinnuhætti, fjölbreyttari uppbyggingu í hátækniiðnaði og nýjum greinum sem honum tengjast. Þess vegna er sú ákvörðun sem hér er komin fram fagnaðarefni og ég held að flestir taki undir það. Ég hef a.m.k. ekki heyrt neinn harma þá ákvörðun á nokkurn hátt.



[15:12]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Maður verður alltaf meira og meira hissa á þessari ágætu ríkisstjórn. Ráðherrarnir virðast tala hver í sína áttina. Ef þeir væru um borð í litlum árabát væru þeir að róa í mismunandi áttir og það hefur aldrei verið talið gott, og yfirlýsingar hæstv. umhverfisráðherra eru auðvitað í allt aðra átt en hæstv. forsætisráðherra talar.

Við erum að ræða um Landsvirkjun og nú eru Landsvirkjun og stjórn Landsvirkjunar að taka ákvörðun og gefa út yfirlýsingu um að þeir ætli ekki að selja meiri raforku til álvera þrátt fyrir að sveitarfélög eins og Þorlákshöfn hafi staðið í undirbúningi við að fá til sín álver og fólk í Árnes- og Rangárvallasýslum þar sem mest af orkunni sem við notum á Ísland er framleidd vill auðvitað sjá þessa orku nýtta heima í héraði. Af því verður ekki, alla vega ekki hvað varðar álver í Þorlákshöfn eða áliðngarða eins og fyrirhugaðir voru í Þorlákshöfn. Væntanlega verður ekki af því í þessari atrennu en mögulegt er auðvitað að nýta orku í auknum mæli á Hellisheiði og þá væri hugsanlegt að nota hana til ákveðinna verka í Þorlákshöfn og nágrenni. Þetta kemur manni verulega á óvart, ég hélt að stjórnvöld mundu móta stefnu í þessum málum en létu ekki einhverja kjörna fulltrúa í Landsvirkjun ákveða hvernig farið verður með raforku í framtíðinni.



[15:14]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Væri hér um grundvallarstefnubreytingu að ræða en ekki sjónhverfingar af hálfu stjórnar Landsvirkjunar væri ástæða til að fagna. En stjórnarflokkarnir tala auðvitað hvor í sína áttina eins og stundum áður og túlka þessa niðurstöðu með gerólíkum hætti. Þannig var hæstv. forsætisráðherra spurður í morgun, með leyfi forseta:

Spyrill: En eruð þið að hverfa frá stóriðjustefnunni?

Geir H. Haarde: Nei.

Spyrill: Ertu sammála Össuri um það?

Geir H. Haarde: Þetta hefur ekkert með það að gera. Sko, þetta er bara viðskiptaákvörðun sem nú er verið að taka af hálfu Landsvirkjunar og það er talað um að hún muni ekki í bráð semja við kaupendur á þessu sviði.

Spyrill: Þannig að stóriðjan er í fullu gildi?

Geir H. Haarde: Ja, það hefur ekkert verið tekin nein ákvörðun um að hætta hér að byggja upp orkufrekan iðnað.

Hann slær algerlega af þá túlkun sem hæstv. iðnaðarráðherra hafði uppi á heimasíðu sinni, fyrirgefið, bloggarinn Össur Skarphéðinsson hafði uppi á heimasíðu sinni. Stundum fær maður það á tilfinninguna að það sé ekki sami maðurinn, bloggarinn Össur Skarphéðinsson og iðnaðarráðherra, dr. Össur Skarphéðinsson.

Spurningin er auðvitað sú hvor les rétt í útspil Landsvirkjunar, hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. iðnaðarráðherra, Sjálfstæðisflokkurinn eða Samfylkingin. Og er ekki veruleikinn sá, eins og í raun kom fram í svari hæstv. forsætisráðherra, að þetta breytir engu um áform um uppbyggingu álvers á Bakka, þetta breytir engu um áform um uppbyggingu álvers í Húsavík og það er sérstaklega tekið fram í samþykkt Landsvirkjunar að það sé opið fyrir stækkun og meiri sölu til Straumsvíkur og það sé opið fyrir stækkun og meiri sölu til Grundartanga. Ætli þetta fernt hefði ekki hvort sem er dugað mönnum eitthvað næstu missirin? Er þá ekki niðurstaðan sú að þessi samþykkt Landsvirkjunar breytir sennilega engu að öðru leyti en því, sem er vissulega jákvætt, að aðrir aðilar eins og netþjónabú sem nota kannski nokkur megavött í fyrsta áfanga eru teknir til viðræðna. Það er að sjálfsögðu ástæða til að fagna því en hitt held ég að menn ættu að fara varlega í að trúa að hér hafi orðið einhver grundvallarbreyting hvað varðar trú manna á álbræðslustefnuna.



[15:16]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ankannalegt að þurfa að standa hér dag eftir dag og spyrja út í stefnu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherrar virðast í hverju málinu á fætur öðru koma með mjög misvísandi skilaboð. Hérna er eitt dæmið enn. Ég skil ekki bloggarann og hæstv. iðnaðarráðherra öðruvísi en svo að hann sé á skjön við aðra eftir því sem hann segir á heimasíðu sinni, með leyfi forseta:

„Það verða einfaldlega engum nýjum álverum seld orka.“

En hæstv. forsætisráðherra kemur hér upp og segir að þessi ákvörðun, viðskiptaleg ákvörðun Landsvirkjunar, hafi ekki áhrif á Bakka. Svo er líka búið að vitna í önnur samtöl sem áttu sér stað í morgun í fjölmiðlum við hæstv. forsætisráðherra um að ekki sé verið að hverfa frá því að við getum selt álverum orku.

Virðulegur forseti. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvaða fáránlega uppákoma er þetta hjá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar? Þeir tala svona út og suður í hverju málinu á fætur öðru. Hæstv. iðnaðarráðherra skellir því líka fram að það sé verið að hverfa frá einhverju sem hann kallar „blinda stóriðjustefnu Framsóknarflokksins“. Hvað er hér átt við, virðulegur forseti? Er verið að tala um Kárahnjúkavirkjun, eða hvað?

Ég ætla bara að minna Samfylkinguna á það að hún studdi Kárahnjúkavirkjun. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Það endaði með því.) Hún studdi að lokum Kárahnjúkavirkjun. Það voru reyndar þrír, ef ég man rétt, sem sátu hjá, (Gripið fram í: Tveir.) Tveir sátu hjá. (Gripið fram í: … á móti.) Það eru allir að reyna að rifja þetta upp. Nú held ég að ég bara lesi þetta upp, a.m.k. það sem ég er búin að finna út. Þrír voru fjarverandi, tveir sögðu nei og 12 sögðu já. (Forseti hringir.) Er það þessi stóriðjustefna sem Samfylkingin er að tala um — sem hún studdi sjálf?



[15:19]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað markmið allra að hafa sem fjölbreyttasta atvinnustarfsemi í landinu, en mér finnst ástæða til að gagnrýna stjórn Landsvirkjunar fyrir það verklag sem hún hefur í þessu máli. Það gengur ekki að koma á skjön við það sem menn hafa verið að vinna að og koma í farveg í samningamálum og könnunum um langt skeið og slá þar striki undir.

Vinnubrögð Landsvirkjunar eru auðvitað, ef svo má segja, blaut tuska framan í sveitarstjórn Ölfuss og framan í Alcan sem hefur verið tryggur viðskiptavinur Landsvirkjunar. Svo er hún líka stofnuð vegna tilkomu Ísals. Þetta er hlutur sem menn verða að hafa í huga. Þetta er vandmeðfarið.

Að mínu mati er ekki hægt að kasta mönnunum fyrir borð. Það verða allir að sitja við sama borð í samningaviðræðunum og ekki skilgreina gult, hvítt eða svart í þeim efnum. Það má kannski segja að einu rökin fyrir svona afstöðu séu þau að stofna til hærra raforkuverðs, að raforkan verði verðmætari. Það þýðir samt ekki að það sé ástæða til að útiloka einn eða neinn í samningaferli í þessum efnum. Það finnst mér eiga að vera lykilatriðið í þessu, að menn sitji við sama borð og að Landsvirkjun taki ekki ákvörðun um að stöðva ferli sem í sumum tilvikum var komið á leiðarenda, hefði mátt vænta niðurstöðu á næstu vikum og skekkir þannig möguleika þar sem menn hafa viljað byggja upp með raforkunni, ná sóknarfærum í atvinnu og styrkari stöðu byggðanna.



[15:21]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í viðtalinu sem hæstv. forsætisráðherra var í í útvarpinu í morgun var hann spurður hvernig þetta samstarf nýju ríkisstjórnarinnar gengi. Hann átti vart til orðin til að lýsa því hve vel þeim liði saman, stjórnarflokkunum, og hversu vel gengi. Það var alveg greinilegt að hæstv. forsætisráðherra var með bros á vör í þessum kafla viðtalsins sem ég verð að viðurkenna að maður sér allt of sjaldan á andliti hæstv. forsætisráðherra.

Á sama tíma afhjúpar hann gríðarlega alvarlegan ágreining þessara tveggja stjórnarflokka varðandi atvinnumál og orkumál. Nú skulum við átta okkur á því að það er ekki hægt að tala um þau einstöku verkefni sem eru inni á borði hjá einhverjum orkufyrirtækjum eins og Landsvirkjun á þeim nótum að þetta séu bara ákvarðanir um þetta verkefni eða hitt verkefnið, þetta er spurning um stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Ætlum við að feta veg sjálfbærrar þróunar eða ætlum við ekki að gera það? Þetta er spurning um stefnu í orkumálum þjóðarinnar og auðlindamálum. Ætlum við að feta veg sjálfbærrar þróunar í orkumálum eða ætlum við ekki að gera það?

Þessi ríkisstjórn ætlar greinilega ekki að gera það. Þar með er hún að svíkjast undan merkjum í samkomulagi þjóðanna, t.d. samkomulagi Norðurlandaþjóðanna sem hafa hvatt ríkisstjórnir sínar á síðustu árum til að feta veg hinnar sjálfbæru þróunar. Það gerum við ekki með því að fara í hár saman innan ríkisstjórnar eins og þessarar um það hvort það eigi að fara í einhæfan þungaiðnað eða fjölbreyttan orkufrekan iðnað, eins og hæstv. iðnaðarráðherra orðaði það hér.

Ég spyr: Hver er munurinn á blindri stóriðjustefnu Framsóknarflokksins sem hæstv. iðnaðarráðherra kallar svo og stefnu Samfylkingarinnar um fjölbreyttan orkufrekan iðnað sem hæstv. viðskiptaráðherra talar um? Mér finnst fullkomlega afhjúpuð sú staðreynd hérna að Samfylkingin er sami stóriðjuflokkur og hún hefur alltaf verið. Og þar gengur hún auðvitað hönd í hönd með bros á vör með hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra.



[15:23]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Já, það er nú þannig að stjórn Landsvirkjunar hefur það verkefni með höndum að vega og meta hvernig hagsmunum fyrirtækisins er best háttað í það og það skiptið. Það er alveg rétt sem hér var bent á að formaður stjórnar Landsvirkjunar núna er afar hæfur maður úr Framsóknarflokknum. Stjórn fyrirtækisins komst samhljóða að þeirri niðurstöðu sem kynnt hefur verið. Hún er ósköp skýr og auðskiljanleg. Landsvirkjun ætlar ekki að selja nýjum orkufyrirtækjum, nýjum álfyrirtækjum, á suðvesturhorninu rafmagn að sinni og hyggst ekki hefja viðræður um það efni.

Landsvirkjun hefur ekki verið í viðræðum við Norðurál um að byggja álver í Helguvík og þess vegna hefur þessi ákvörðun engin áhrif á þær fyrirætlanir, hvorki af né á. Og álverið á Bakka við Húsavík er ekki á suðvesturhorninu. Það fellur heldur ekki undir þessa ákvörðun enda er það nokkur ár inni í framtíðinni hvort sem er. Þetta er alveg skýrt.

Ég tel að menn ættu að fagna því að fyrirtækið fái hærra verð fyrir orku sína en það hefur fengið út úr því að selja til álframleiðslu og ég tel að menn eigi að fagna því að fyrirtækið og þar með þjóðarbúið geti skotið nýjum stoðum undir starfsemi sína með því að færa út kvíarnar hvað varðar gagnamiðstöðvar sem sumir kalla netþjónabú eða kísilhreinsun fyrir sólarrafala.

Þetta er það sem núna er fram undan. Ég tel að önnur mál sem þessu tengjast séu vel viðráðanleg og hægt að vinna úr þeim í góðri samvinnu allra aðila sem hlut eiga að máli. Ég vona svo sannarlega að það eigi einnig við um álverið í Straumsvík sem er í eigu Alcans. (VS: Þannig að iðnaðarráðherra lúffaði.)