135. löggjafarþing — 24. fundur
 14. nóvember 2007.
eignir Ratsjárstofnunar.
fsp. BVG og ÞBack, 156. mál. — Þskj. 167.

[15:30]
Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn til utanríkisráðherra um eignir Ratsjárstofnunar. Ég geri þetta fyrir hönd og með varaþingmanni, Birni Val Gíslasyni, sem sat hér fyrir Steingrím J. Sigfússon um þriggja vikna skeið. Eftir heimsókn okkar þingmanna Norðausturkjördæmis um kjördæmið í kjördæmavikunni heyrðum við í mörgum sveitarstjórnarmönnum. Við heyrðum m.a. í fulltrúum Langanesbyggðar sem lýstu ástandi í sínu sveitarfélagi, atvinnuástandi og íbúaþróun. Það hafði verið þungt högg fyrir það fámenna sveitarfélag að Ratsjárstofnun skyldi verða lögð niður á Gunnólfsvíkurfjalli.

Þessi starfsemi hafði vegið þungt hvað varðar íbúaöryggi, búsetu fólks á hinum litla stað Bakkafirði og yfir á Þórshöfn. Með brottflutningi ratsjárstöðvarinnar og þeirra sem við hana unnu álitu sveitarstjórnarmenn að þau hús sem höfðu verið íbúðarhús þessara starfsmanna gætu hugsanlega nýst ef hægt væri að stuðla að nýrri atvinnustarfsemi á svæðinu.

Sveitarstjórnarmenn og íbúar svæðisins vissu ekki betur en Ratsjárstofnun ætti þessi íbúðarhús. Eftir að starfsmennirnir voru farnir hafði sveitarstjórn samband við fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra og óskaði eftir því að húsin yrðu ekki seld nema í góðu samráði við sveitarstjórn þar sem verið væri að vinna að hugsanlegri annarri atvinnustarfsemi á svæðinu og því mikilvægt að hafa þessi hús til umráða. Í ljós kemur svo nú í septembermánuði að búið er að selja húsin. Ratsjárstofnun átti ekki húsin heldur fjárfestingarfélagið Lýsing sem var þá búið að selja húsin beint fyrir framan nefið á sveitarstjórnarmönnum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hvernig var staðið að sölu eigna Ratsjárstofnunar á Gunnólfsvíkurfjalli, hverjum voru eignirnar seldar og hvert var söluverðið?

2. Var haft samráð við sveitarfélög í grennd um ráðstöfun eignanna og hugsanlega nýtingu þeirra?



[15:33]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er spurð að því hér hvernig staðið hafi verið að sölu eigna Ratsjárstofnunar á Gunnólfsvíkurfjalli, hverjum voru eignirnar seldar og hvert var söluverðið.

Ákveðins misskilnings gætir í fyrirspurninni. Þegar spurt er um eignir Ratsjárstofnunar á Gunnólfsvíkurfjalli er væntanlega átt við fasteignir á Bakkafirði — eins og ég líka skildi hv. þm. Þuríði Backman — sem Ratsjárstofnun var með í fjármögnunarleigu þegar stofnunin var rekin undir samningi við Bandaríkjamenn. Með öðrum orðum voru þessar fasteignir í eigu fjármögnunarfyrirtækis en ekki í eigu Ratsjárstofnunar eða Bandaríkjamanna. Við lok samnings Ratsjárstofnunar við Bandaríkjamenn í ágúst sl. voru fjármögnunarsamningar vegna þessara eigna gerðir upp og fasteignum skilað til eigenda þannig að þessar eignir komu ekki til kasta utanríkisráðuneytisins en við tókum við Ratsjárstofnun þann 15. ágúst sl.

Því er sem sagt til að svara að Ratsjárstofnun hafði ekki með sölu þessara eigna að gera, enda ekki eigandi þeirra. Mér er því ekki ljóst hverjum eignirnar voru seldar og hvert var söluverð eignanna því að eins og fyrr sagði gilti fjármögnunarsamningur um þessar eignir.

Í öðru lagi var spurt hvort haft hafi verið samráð við sveitarfélög í grennd um ráðstöfun eignanna og hugsanlega nýtingu þeirra. Því get ég ekki svarað, virðulegur forseti, þar sem Ratsjárstofnun var ekki eigandi umræddra fasteigna og hafði því hvorki með ráðstöfun né hugsanlega nýtingu þeirra að gera. Mér var hins vegar ljóst í sumar, þegar ég ferðaðist um Langanesbyggð í ágústmánuði sl. og átti þá m.a. fund með Birni Ingimarssyni, sveitarstjóra Langanesbyggðar, að menn hefðu nokkrar áhyggjur af þessum fasteignum. Ég fór einmitt á Bakkafjörð og sá þessar eignir. En vandinn er þessi, virðulegur forseti, að þær komu ekki til okkar kasta því að Ratsjárstofnun kemur ekki til utanríkisráðuneytisins fyrr en 15. ágúst og þessar fasteignir voru ekki í hennar eigu.



[15:36]
Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra svörin. Ég verð að segja að ég lái ekki sveitarstjórnarmönnum og íbúum á Bakkafirði og á Þórshöfn að halda allan tímann sem ratsjárstöðin var starfrækt að utanríkisráðuneytið hefði eitthvað með íbúðarhúsin að gera. Það er þessi nýja stefna sem hefur verið tekin upp af stjórnvöldum undanfarin ár, þ.e. að koma húsnæði, hvort sem það eru skrifstofur eða annað húsnæði sem ráðuneyti eða stofnanir hvers ráðuneytis þurfa á að halda, yfir í fjármögnunarleigu eða kaupleigusamninga þar sem viðkomandi stofnun hefur ekkert með fasteignirnar að gera.

Í þessu tilfelli átti fjárfestingarfélag þessi hús og því má segja að utanríkisráðuneytið hafi í sjálfu sér ekki haft með ráðstöfun þeirra að gera. Ég tel samt sem áður að ábyrgðin hafi legið hjá hæstv. ráðherra að reyna að minnsta kosti að hafa áhrif á það að íbúðarhúsunum á Bakkafirði yrði haldið til haga, að þau yrðu ekki seld með það sama, að minnsta kosti þar til fyrirsjáanlegt væri að þau nýttust ekki eins og sveitarfélagið (Forseti hringir.) óskaði eftir, þ.e. fyrir starfsmenn annarrar stofnunar. Ég tel (Forseti hringir.) að hæstv. utanríkisráðherra og aðrir ráðherrar eigi að hafa í huga (Forseti hringir.) samráð við sveitarstjórnir og íbúa.



[15:38]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og ég gat um áðan fluttist Ratsjárstofnun og verkefni hennar ekki yfir til íslenska ríkisins fyrr en 15. ágúst sl. en fram til þess tíma var stofnunin á forræði Bandaríkjamanna. Þó að ég ætli ekkert að fullyrða um það geri ég ráð fyrir að ekki hafi komið sérstaklega til kasta utanríkisráðuneytisins að hafa þennan tiltekna hátt á varðandi þessar húseignir, þ.e. að þær skyldu vera í fjármögnunarleigu. Hvernig sem því er háttað er ljóst að Ratsjárstofnun átti ekki eignirnar og þess vegna runnu þær til sinna réttmætu eigenda þegar hætt var að nýta þær í þágu Ratsjárstofnunar.

Ég veit ekki hvernig sölu þeirra var háttað. Aðalatriðið í þessu máli hlýtur hins vegar að vera það að þessar húseignir, þessi íbúðarhús, séu notaðar og standi ekki auðar, burt séð frá því hvernig eignarhaldi á þeim er háttað.