135. löggjafarþing — 24. fundur
 14. nóvember 2007.
þjónusta við aldraða.
fsp. VS, 175. mál. — Þskj. 188.

[15:40]
Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Væntir ráðherra þess að þjónusta við aldraða, svo sem rekstur heimahjúkrunar og hjúkrunarrýma, færist til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu?

Ástæða þess að ég ber fyrirspurnina fram er sú að við höfum fengið nýjan heilbrigðisráðherra og það er áhugavert að heyra skoðanir hans og stefnu í jafnmikilvægum málaflokki sem þessum. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga er vissulega eilíft umræðuefni og algengt er að stjórnmálaflokkarnir álykti á landsfundum um mikilvægi þess að fjölga verkefnum sveitarfélaga á kostnað ríkisins.

Vitna má í stefnu Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Landsfundurinn telur að sveitarfélögin eigi að bera ábyrgð á nærþjónustu svo sem heilsugæslu, öldrunarþjónustu, hjúkrunarheimilum, heimahjúkrun og heimaþjónustu. Fundurinn leggur áherslu á að þessir málaflokkar verði fluttir heim í hérað sem fyrst.“ — Svo mörg voru þau orð.

Þá má vitna í samþykktir frá Samfylkingunni, sem er hinn stjórnarflokkurinn, þar segir, með leyfi forseta, undir fjórða lið: „Flytja málefni aldraðra til sveitarfélaga. Þannig gefst tækifæri til að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun.“

Miðað við þetta má vænta breytinga. Þess má geta að í tíð Framsóknarflokksins í þessum málaflokki lá nærri að á næstsíðasta kjörtímabili tækist að ná niðurstöðu og samkomulagi við sveitarfélögin um að þessi tilflutningur ætti sér stað. Á síðustu stundu gerðist eitthvað sem varð til þess að svo varð ekki. Hef ég grun um að stóru og öflugu sveitarfélögin á suðvesturhorninu hafi, þegar á reyndi, komið í veg fyrir það.

Einnig má geta þess að fyrrv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, skipaði nefnd til að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mögulega tilfærslu verkefna sem tengjast málefnum aldraðra. Sú nefnd er líklega að ljúka störfum um þetta leyti miðað við það sem kemur fram í erindisbréfi. Vissulega hlýtur það að verða veganesti þar sem um þverpólitíska nefnd er að ræða, veganesti fyrir hæstv. ráðherra í þessum mikilvægu málum.



[15:43]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðaust. spyr hvort ég vænti þess að þjónusta við aldraða, svo sem rekstur heimahjúkrunar og hjúkrunarrýma, færist til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu.

Eins og þingmanninum er kunnugt standa fyrir dyrum umfangsmiklar skipulagsbreytingar á stjórn um málefni aldraðra þar sem yfirumsjón málaflokksins, eins og hann er skilgreindur í lögum um málefni aldraðra, flyst frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Heilbrigðisþjónusta við aldraða verður engu að síður áfram á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins líkt og gildir um heilbrigðisþjónustu við landsmenn almennt. Á það þar með við um heimahjúkrun og heilbrigðisþáttinn í rekstri hjúkrunarrýma.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar frá því í maí sl. kemur fram að stefnt verði að því að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða og fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Þar kemur einnig fram að tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið.

Virðulegi forseti. Ég er talsmaður þess að efla sveitarstjórnarstigið og fela sveitarfélögum sem mesta sjálfsstjórn verkefna sem varða daglegt líf íbúa þeirra og teljast til nærþjónustu. Ég legg hins vegar áherslu á að sé farið út í slíkan verkefnaflutning verði að gera það heildstætt þannig að það sé til þess fallið að skýra ábyrgð, einfalda þjónustukerfið og bæta þjónustuna. Það tel ég að verði ekki raunin séu skyldir þjónustuþættir aðskildir og fluttir á milli stjórnsýslustiga í bútum.

Hv. þingmaður spyr hvort ég vænti þess að heimahjúkrun við aldraða verði flutt til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu. Ég hef ítrekað lýst þeirri skoðun að til þess að efla og bæta þjónustu inni á heimilum fólks sem þarf á stuðningi að halda sé æskilegt að hafa félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun á sömu hendi. Leiðir að því marki eru ýmsar færar. Ég er nú í viðræðum við nokkur sveitarfélög um samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Í Reykjavík er vinna í þessum efnum hvað lengst komin enda hófst hún snemma í sumar í tíð fyrri borgarstjórnarmeirihluta.

Virðulegi forseti. Þjónusta á sviði heilbrigðis- og velferðarmála er mikilvæg forsenda velferðar landsmanna. Öllu máli skiptir að þjónustan sé fagleg, að hún sé veitt í samræmi við þörf hvers og eins, að framboð á þjónustu sé nóg og hún sé aðgengileg öllum. Ef þetta er tryggt tel ég ekki skipta máli hver veiti þjónustuna eða hvernig stjórnskipulaginu að baki sé háttað. Með þessu hugarfari kem ég að stjórnun heilbrigðismála í landinu, reiðubúinn að ráðast í skipulagsbreytingar og opinn fyrir öllum nýjum leiðum sem geta leitt til betri þjónustu frá því sem nú er. Markmiðið er að bæta þjónustu við fólk. Það er sama hvaða leiðir við förum að því markmiði ef góður árangur næst.

Dæmin sanna að stjórnskipulagsbreytingar geta tekið óratíma samanber yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna en sú umræða hefur staðið í mörg ár. Ég vil ekki að þeir sem þurfa á þjónustu að halda þurfi að bíða árum saman eftir breytingu á stjórnskipulagi ef unnt er að ráðast strax í að bæta þjónustuna eftir öðrum leiðum. Hvort rekstur heimahjúkrunar og hjúkrunarrýma muni flytjast til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu eða ekki er í mínum huga ekki aðalatriðið heldur skiptir mestu máli að vel og skipulega verði staðið að slíkum tilflutningi, að þess sé gætt að sveitarfélögin séu tilbúin að taka við samþættri þjónustu við aldraða. Hér þurfa allir að vera samstiga.

Ég tel ekki rétt að láta skipulagsatriði af þessu tagi koma í veg fyrir eða tefja þá samþættingu á þjónustunni við aldraða sem nauðsynleg er til að koma til móts við þarfir einstaklinganna. Fyrir mér er þjónustan við fólkið í fyrirrúmi.

Ég vona að með þessu hafi ég veitt fullnægjandi svör við spurningu hv. þingmanns.



[15:47]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á þessu svari hæstv. heilbrigðisráðherra. Hér spurði hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir einfaldrar og skýrrar spurningar, um hvort líklegt væri að málefnin færðust til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu, þ.e. rekstur hjúkrunarrýma og heimahjúkrunin. Þetta er ekki flókin spurning. Það eru heil fjögur ár sem hæstv. ráðherra hefur í starfi ef hann situr út kjörtímabilið.

Þetta var ekkert svar. Hæstv. ráðherra sagði bara: Ég er opinn fyrir öllu og það er ekki gott fyrir sjúklingana að bíða lengi, að aðalatriðið væri að veita góða þjónustu. Ég vil bara benda hæstv. ráðherra á að það er fullkomin samþætting verði málaflokkurinn fluttur. Þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins og stefna fleiri flokka, stefna Framsóknarflokks og fleiri flokka.

Ég vil bara ítreka fyrirspurnina. Mér finnst mjög spennandi að fá svar við henni. Ætlar ráðherrann að flytja málaflokkinn? Ég skil hann núna þannig að svarið sé nei. Er það rétt skilið hjá mér? Á ekki að flytja málaflokkinn?



[15:48]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna ummælum hæstv. heilbrigðisráðherra og er fyllilega sammála honum í því efni að ekki sé eftir neinu að bíða í að gera þjónustu við aldraða enn betri en hún er nú þegar.

Ég er fullkomlega sannfærð um það og er þeirrar skoðunar að þessi þjónusta eigi að vera á einni hendi til að koma í veg fyrir að einstaklingur eða einstaklingar falli á milli laga, á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég er þeirrar skoðunar, sem er í takt við stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins sem hv. fyrirspyrjandi las upp úr, að nærþjónustunni sé betur fyrir komið á hendi sveitarfélaga.

En fyrst og síðast er ég sammála ráðherranum í þeim efnum og fagna því að hann hafi þegar tekið til hendinni og sé að undirbúa umbætur og góð verk í þessum málaflokki.



[15:50]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ná megi árangri í því að ríki og sveitarfélög sameini krafta sína í heimahjúkruninni. Með því væri hægt að veita betri þjónustu með einni samhæfðri stjórn á því máli.

Það má vera að skynsamlegt sé að flytja rekstur hjúkrunarrýma til sveitarfélaga. Ég vil þó leyfa mér að setja fyrirvara við það. Ég held að menn verði að nálgast þessi mál þannig að undir heilbrigðisráðuneyti heyri heilbrigðismál en ekki undir félagsmálaráðuneyti.

Þótt lagt sé til í stjórnarfrumvarpi að málefni aldraðra fari til félagsmálaráðuneytis þá er það vegna þess að það er eðlilegt. En hjúkrunarþátturinn hlýtur að heyra undir heilbrigðisráðherra og ég sé ekki að það sé framför í að rugla því máli með óskýrari línum (Forseti hringir.) en eru í dag.



[15:51]
Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég segi eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, að mér fundust svörin frekar óljós miðað við það að stefna þessara tveggja flokka virðist skýr. Reyndar má segja að ræða hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur hafi verið skýrari en svör hæstv. ráðherra í þessum efnum.

En ég tel mikilvægt, þar sem ég veit að hæstv. ráðherra á eftir að koma upp aftur, að hann kveði úr um hvort unnið verði að því að flytja þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna eða ekki. Ég ítreka það sem fram kom í fyrri ræðu minni, að ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn, sem á þeim tíma hafði mikil völd hér á suðvesturhorninu og hefur reyndar enn í sumum sveitarfélögum, hafi í rauninni komið í veg fyrir að af þessu varð um árið þegar mikil vinna fór fram til þess að af því gæti orðið, að málefni aldraðra flyttust yfir til sveitarfélaganna.

En ég minntist á nefnd áðan sem hæstv. ráðherra kannski þekkir til. Hún er um það bil að skila niðurstöðu þessa dagana. Það væri forvitnilegt að vita hvort hæstv. ráðherra þekkir til þess starfs og hvort ekki megi treysta því að hann muni gera mikið með niðurstöðu nefndarinnar í framhaldinu.



[15:53]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa komið fram áhugaverðar ábendingar. Spurning hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur var hvort ráðherra ætlaði bara ekki að flytja málaflokkinn. Hún sagði að þetta væri svo einfalt og ráðherra hefði heil fjögur ár til að gera þetta. Nú er þetta þannig og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir veit það auðvitað jafn vel og allir aðrir að ráðherra flytur ekki málaflokka si svona. Það er bara ekki gert.

Við þekkjum að mikil umræða hefur verið í gegnum tíðina um að flytja hinu ýmsu málaflokka yfir til sveitarfélaga. En sem betur fer þarf tvo til að ná niðurstöðu í því. Ég hélt að þingheimur vissi þetta. Ef þetta væri svo einfalt þá hefði væntanlega eitthvað gerst hvað þetta varðar á síðustu 12 árum, mundi maður ætla, virðulegi forseti.

Ég held að það sé rétt að menn tali um hlutina eins og þeir eru. Mér fannst hv. þm. bæði Ragnheiður Elín Árnadóttir og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gera það ágætlega. Ég held að það sé víðtæk samstaða um að nærþjónusta sé almennt betur komin hjá sveitarfélögunum, það sé almenna reglan. Við erum í þeirri stöðu eins og við þekkjum að sveitarfélögin á Íslandi eru vægast sagt misjöfn. Við erum með 50 manna sveitarfélag og við erum með 116 þúsund manna sveitarfélag. Ég býst fastlega við því að það sé eina ástæðan fyrir því að gengið hafi hægt í ýmsu sem snýr að því að færa verkefni á milli þótt pólitískur vilji sé fyrir því.

Skýrt dæmi um þetta eru málefni fatlaðra sem ég held að menn hafi í áratug rætt um að færa á milli, til sveitarfélaga, en ekkert gengið eins og allir vita. Málið er ekki einfalt. Í mínum huga er hins vegar algjörlega ljóst að fólk getur ekki beðið eftir þessu. Þess vegna hóf ég strax undirbúning þess að samþætta þessa þjónustu. Hvers vegna? Vegna þess að fólkið getur ekki beðið og það (Forseti hringir.) er útgangspunkturinn.