135. löggjafarþing — 29. fundur
 21. nóvember 2007.
athugasemdir um störf þingsins.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:02]
Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það eru ýmsir dagar í almanakinu sem einhvern tíma voru helgaðir dýrlingum og voru messudagar en vandamál dagsins eru meira hér megin grafar. Þó er það kannski vafamál með þann dag sem nú er, hvorum megin hann er, hvorum megin lífs og dauða, því að það vandamál sem er helgað þessum degi er grafalvarlegt, dauðans alvara. Í dag er forvarnadagur í öllum skólum landsins og ástæða til að Alþingi hugleiði þetta mál líka. Mig langar til að víkja að þessu í spurningum hér til hæstv. heilbrigðisráðherra.

Það var mjög athyglisvert viðtal við herra forseta Íslands í Ríkisútvarpinu í morgun þar sem hann vék að mannfalli af völdum fíkniefna og hvort feimni okkar í þessum efnum væri kannski fullmikil. Okkur bæri e.t.v. að setja upp skilti sambærilegt því skilti sem er með tölum um mannfall af völdum umferðarslysa þar sem nú eru 13 fallnir á þessu ári. Við vitum ekki hversu margir eru fallnir af völdum fíkniefnanna en fáum í hverri viku fréttir af fólki sem bíður bana af þessum ömurlega vágesti.

Það er vissulega hægt að fagna því sem vel er gert í stefnumótun ríkisstjórnarinnar varðandi aukið fé til forvarnamála en það er líka áhyggjuefni að í hvunndeginum eru vandamálin samt mikil. Við höfum fréttir um það að Vímulaus æska sem hefur verið með mjög gott starf í miðbænum er núna á hrakhólum og húsnæðislaus og ríkisvaldið hefur ekki séð ástæðu til að koma þar inn í.

Það er alkunna í þessum geira að því fyrr sem ungmenni smakkar áfengi á lífsleiðinni því meiri líkur eru á að það verði fíkniefnavandanum að bráð og mér er mikið áhyggjuefni að nú skuli vera, og meira að segja með blessan hæstv. heilbrigðisráðherra, uppi um það hugmyndir að fara að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum. (Forseti hringir.) Það eru ekki góð skilaboð um þá hugarfarsbreytingu sem hér þarf að eiga sér stað.



[12:04]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að forvarnamál séu til umræðu í þingsölum og ég veit að þingmenn Vinstri grænna hafa boðað slíka umræðu með hæstv. forsætisráðherra. Ég held að það verði í næstu viku og er það mjög vel.

Eins og kemur fram hjá hv. þingmanni er vandinn stór. Ég held hins vegar að menn ættu líka að halda því til haga, vegna þess að það skiptir máli og ég vek athygli á því, að þetta mál er fyrsta málið sem ég tók upp sem ráðherra. Við erum frá fyrsta degi mínum í ráðuneytinu búin að vinna að svokölluðum forvarnamálum. Það vill svo til, sem er mjög ánægjulegt, að við Íslendingar höfum náð árangri sem meira en eftir er tekið, hann er hreinlega orðinn útflutningsvara. Við höfum gert það með skipulegum aðgerðum þar sem saman vinna rannsóknaraðilar, stefnumótandi aðilar, fjölskyldur, skólar og frjáls félagasamtök. Það hefur skilað sér í því að árangur okkar varðandi vímuefnanotkun í grunnskólum hefur farið úr 42% niður í 20% á 10 árum, þ.e. hvað varðar drykkju. Sömuleiðis hafa reykingar og notkun á hassi sem betur fer farið niður.

Stærsti einstaki vandinn sem við höfum verið að taka á núna — þetta er eilífðarmál og við megum aldrei sofna á verðinum — er að við erum að skoða sérstaklega framhaldsskólana. Sumarið milli grunnskóla og framhaldsskóla er mjög afdrifaríkt, það er mjög örlagaríkt sumar. Þá er aukningin á drykkju 105%, bara yfir sumarið. Þess vegna fórum ég og (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra í samvinnuverkefni með nemendafélögunum í framhaldsskólunum sem er einn liður í því að taka á þeim málum. Það er af mjög mörgu að taka og menn munu sjá (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) í ráðherratíð minni ýmsar aðgerðir sem m.a. verða kynntar hér í janúar.



[12:07]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég minni á að fíkniefnavandinn er víðfeðmur. Þetta er stórt mál og þess vegna einmitt hefur hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir beðið um utandagskrárumræðu um þessi mál í næstu viku. Ég held að þetta sé þríþætt og það skiptir máli að við horfum á það að þeir sem neyta fíkniefna hefja yfirleitt neyslu sína á áfengi. Skýr áfengisstefna er auðvitað lykilatriði þegar við ræðum um fíkniefni og forvarnir. Svo eru það forvarnir sem við vitum að skila frestun og það er rétt sem kom hér fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, við höfum náð árangri í því og þurfum að ná enn betri árangri með því að fara upp í framhaldsskólana.

Svo eru það meðferðarmálin. Við sjáum bara á tölunum sem tala sínu máli að tæplega 7% allra Íslendinga, eldri en 15 ára, hafa farið í áfengismeðferð. Þetta er ansi há tala. Við vitum líka að meðferð skilar árangri. 70–80% þeirra sem sækja áfengismeðferð hjá SÁÁ þurfa ekki að mæta aftur til meðferðar eftir 2–3 skipti. Meðferð skilar árangri en hins vegar sjáum við því miður allt of mörg dauðsföll og allt of mikil félagsleg vandamál og heilbrigðisvandamál í þessum málum. Mér finnst mikilvægt að við horfum á meðferðarmálin í samhengi því að við sjáum t.d. að hjá SÁÁ eru áætlaðar núna 842 millj. í kostnað fyrir árlegan rekstur en þau eru með 600 millj. á fjárlögum og óvíst hvernig á að dekka það. Ég held að við þurfum að horfa á meðferðarmálin í samhengi við forvarnamálin í þessum efnum.

Í umræðunni hér í næstu viku náum við vonandi að ræða þessi mál því að þau eru víðfeðm og við ættum að ræða það hér enn oftar.



[12:09]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er vel við hæfi að ræða forvarnamál í dag á forvarnadeginum. Forvarnir geta verið mikilvægar. Hv. málshefjandi kaus að ræða um baráttuna gegn vímuefnavandanum og það er mjög mikilvægt að á þeim vanda sé tekið heildstætt því að hann heyrir undir fleiri en eitt ráðuneyti. Við munum ræða það málefni mun nánar í næstu viku.

Mig langar til að minna á aðrar forvarnir, þá um leið þingmál sem var þverpólitískt mál sem hv. heilbrigðis- og trygginganefnd lagði fram á síðasta kjörtímabili um að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Hún lagði fram aðgerðir í þeim efnum. Það þingmál var samþykkt á miðju síðasta kjörtímabili og á síðustu dögum þingsins var dreift hér skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra um störf faghóps sem hóf vinnu í kjölfarið til að efla lýðheilsu á Íslandi. Í henni voru lagðar fram tillögur um léttara líf, tillögur að fjölþættum aðgerðum til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.

Þessi skýrsla var aldrei rædd og af því að við erum að ræða störf þingsins langar mig að leggja til að hér verði umræða um forvarnir og þá þessa mikilvægu og stóru skýrslu þar sem ýmislegt er lagt til til þess að bæta heilbrigði Íslendinga. Það er ekki minna forvarnamál en hvað annað og mjög mikilvægt. Ég vil vísa því til þingsins að þessi skýrsla verði hér til umfjöllunar á næstunni og þar verði tekið á þessum forvarnamálum, en (Forseti hringir.) fíkniefnavandann ræðum við nánar í næstu viku.



[12:11]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og hér hefur verið upplýst bíður umræða utan dagskrár um þessi mál, bíður þess að forsætisráðherra geti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar svarað fyrir um aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Við ræðum þetta væntanlega þá meira á dýptina þegar sú umræða fer fram hér eftir helgi og þar á meðal hv. málshefjandi sem örugglega verður með okkur í því.

Að sjálfsögðu er mikið starf unnið á þessu sviði á vegum skóla og samtaka og einnig er ýmislegt reynt til þess að virkja heimilin með í forvarnastarf, umræðu og fræðslu um þessi mál. Það er þó alveg ljóst að stjórnvöld gætu staðið sig miklu betur í því að búa þeim sem við þetta starfa sómasamlegt starfsumhverfi og leggja einfaldlega meiri fjármuni til virkrar forvarnastefnu, forvarnaaðgerða.

Ég hef t.d. flutt mörg undanfarin þing, eða a.m.k. af og til, frumvarp um að sá hluti áfengisgjalds sem rennur til Forvarnasjóðs verði stórhækkaður. Það er alveg hlægilega lítið af tekjum af áfengisgjaldi sem renna til Forvarnasjóðs. Með auknum fjármunum þar mætti gera miklu meira, styrkja t.d. starf ýmissa félagasamtaka og aðila sem vinna það sem kalla má félagslegt forvarnastarf. Að sjálfsögðu verða forvarnirnar ekki slitnar frá heildarstefnunni og heildarsamhengi þessara mála. Það vil ég segja, af því að hér var hæstv. heilbrigðisráðherra til svara, að ekki mun það létta okkur róðurinn ef við slökum á þeirri aðhaldssömu áfengis- og forvarnastefnu sem þó hefur verið við lýði í landinu. Vonandi snýst hæstv. heilbrigðisráðherra hugur og hann hverfur frá hugmyndum sínum um að styðja frumvarp um brennivín í búðir þvert á ráðleggingar undirstofnana sinna.



[12:13]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir að taka þetta mál hér upp í tilefni forvarnadags. Fræðsla er besta vörnin og engum blandast hugur um mikilvægi virkrar forvarna- og fjölskyldustefnu í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigðu líferni barna og ungmenna, ekki síst í ljósi þeirrar margvíslegu hættu sem steðjar að ungu fólki.

Það er ljóst að fjölmargir þurfa að koma að í þessu ágæta landi okkar til að móta hér fjölskylduvænna samfélag. Þar þurfa ríki, sveitarfélög, atvinnulífið og verkalýðsfélögin að taka höndum saman og breyta ýmsu til þess að svo megi verða. Það þarf að skoða sveigjanlegri vinnutíma foreldra til þess að þeir geti betur sinnt þeirri ábyrgð sem því fylgir að vera foreldri, það þarf t.d. að samræma vetrarfrí foreldra og barna sem snýr að skólum. Það er hægt að breyta mörgu til þess að hafa áhrif á velferð fjölskyldna, stuðla að minna álagi þeirra og hafa forvarnagildi og efla lífsgæðin en til þess að svo megi verða þurfa þessi fjögur öfl að koma saman, ríki, sveitarfélög, atvinnulífið og verkalýðsfélögin.

„Taktu þátt, hvert ár skiptir máli“ var yfirskrift forvarnadagsins á síðasta ári. Það segir allt sem segja þarf og er fyrst og síðast beint til okkar foreldra og ábyrgðar okkar. Taktu þátt í leik og starfi barna þinna, þekktu vini barna þinna og fjölskyldur, það skiptir máli. Besta forvörnin er fræðsla og hún byrjar heima hjá okkur í samræðum við börnin okkar. Forvarnir og lifandi umræða á meðal barna og ungmenna er þýðingarmikil, ekki síst í ljósi þess að innlendar rannsóknir hafa sýnt að sá tími sem ungmenni verja með foreldrum sínum daglega ræður úrslitum þegar kemur að mótstöðu hinna yngri gagnvart freistingum vímuefnanna.

Forvarnadagurinn er glöggt vitni um vilja fjölmargra ólíkra aðila til að veita þessu mikilvæga máli brautargengi. Tökum þátt, hvert ár skiptir máli, og börnin okkar (Forseti hringir.) eiga það skilið.



[12:15]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég efast hvorki um góðan vilja hæstv. heilbrigðisráðherra, og þakka honum það sem hann hefur þegar gert á stuttum ferli sem ráðherra, né um góðan vilja ríkisstjórnarinnar og þingheims alls.

En það er nú svo að það er ekkert til sem heitir unglingavandamál. Unglingavandamál er afleiðing af gjörðum okkar sem erum fullorðin. Ungur nemur, gamall temur, var sagt. Það á við um góða siði og lífsvenjur. Það á líka við um lestina og hinar brotnu lífsvenjur.

Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði: Við höfum náð árangri. Hann rakti það hér og það er rétt. Baráttan hefur skilað sér og við höfum séð árangur sem vekur athygli. Við þurfum að gera betur. Ég tek undir það hér að við megum engin þau skref stíga í íslensku samfélagi sem skapa meiri hættu. Þingið má ekki leggja til að léttvín og bjór fari inn í matvöruverslanir, það þýðir að allt áfengi fer inn í matvöruverslanir. Það er ný hætta. Það er nýr voði.

Hæstv. forseti. Á þessum degi hugsum við til foreldra sem hafa misst ástvini í hendur vímuefnadjöfulsins. Það þýðir ekki að gráta Björn bónda, sagði kvenskörungurinn forðum. Nú ber að safna liði, þétta raðirnar, leggja á ráðin, með fjölskyldum, skólum, félagasamtökum, íþróttahreyfingunni, æskulýðs- og ungmennafélagshreyfingunni, um það hvernig við byrgjum brunninn og bægjum óreglu, eiturlyfjum og áfengi, frá glæsilegri æsku landsins. Það er skylda okkar allra að standa saman og vinna að því stóra verkefni. Það (Forseti hringir.) snýr að framtíð Íslands.



[12:18]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst örfá orð um formalisma. Nú ræðum við störf þingsins og eins og fram hefur komið á hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir pantaða umræðu utan dagskrár sem hæstv. forsætisráðherra hefur samþykkt að ræða við hana í næstu viku, (Gripið fram í.) og er það vel.

Við þingmenn höfum gert með okkur heiðursmannasamkomulag um að stela ekki umræðum hvert frá öðru. Við höfum einnig gert með okkur slíkt samkomulag um að stunda ekki kapphlaup um þessa daga í almanakinu. Það er því kannski ekki nógu drengilegt af hv. þm. Bjarna Harðarsyni að fara af stað með þessa umræðu núna. Ég hvet til þess að hæstv. forseti vinni aðeins meira í því með okkur þingmönnum að halda reglu á þessum málum svo að þau heiðursmannasamkomulög sem við gerum okkar á milli haldi.

Forvarnir eru mjög mikilvægt málefni sem þarf að ræða af dýpt. Eitt af því sem hefur kannski ekki verið nefnt í þeim ræðum sem haldnar hafa verið eru orsakirnar. Reyndar kom hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir inn á að það er kannski inni á heimilunum og þegar við tökum á móti nýjum einstaklingi inn í samfélagið sem við þurfum að vera hvað mest á varðbergi. Þá skiptir líka máli að við áttum okkur á því að það tekur heila þjóð að ala upp barn. Það skiptir máli að við sýnum samábyrgð þegar nýtt barn fæðist í heiminum, að frá fyrsta degi viti það barn og þeir sem að því standa að samfélagið er tilbúið að styðja uppeldi þess. Það skiptir verulegu máli að við förum ofan í þessa rót. Þetta er til marks um að málaflokkurinn heyrir undir alla ráðherra, undir alla þingmenn, undir alla þá sem vilja efla samábyrgð í samfélaginu.



[12:20]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti vill þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að vekja athygli á þeim vanda sem forseti stendur frammi fyrir varðandi dagskrármálefni og umræður utan dagskrár. Forseti vill vekja sérstaka athygli á því formi sem við viðhöfum hér í dag. Það beinir kannski sjónum að nauðsyn þess að breyta þingsköpum á Alþingi.



[12:20]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það er ágætlega við hæfi að taka þetta mál upp í tilefni forvarnardagsins. Þótt umræðan verði stutt í dag vitum við að í næstu viku höfum við tækifæri til að ræða þetta mál betur í komandi utandagskrárumræðu.

Nú eru börn alveg upp í 9. bekk að huga að þeirri ógn sem áfengis- og vímuefnaneysla hefur í för með sér. Það verður stöðugt mikilvægara að renna styrkari stoðum undir forvarnastarf í landinu. Í því efni þarf að kalla sem flesta aðila í þjóðfélaginu að borði, börn, foreldra, menntastofnanir, ríkisvaldið og ekki síst atvinnulífið.

Við finnum að fyrirtæki í landinu styðja í vaxandi mæli við forvarnastarf, bæði einstök verkefni á því sviði og einnig annars konar verkefni, t.d. á sviði listsköpunar barna og íþróttastarfsemi sem hefur án efa mikið forvarnagildi. Ég held að alls ekki megi gera lítið úr þætti listsköpunar í uppeldi barns.

Vinkonurnar Ragnhildur Ásta Valsdóttir og Sunneva Sverrisdóttir, sem rætt var við í Morgunblaðinu í dag, telja afar mikilvægt að ekki sé fjallað um algert áfengis- og tóbaksneyslubann. Sunneva Sverrisdóttir segir, með leyfi forseta:

„Það er ekkert verið að tala um að það eigi aldrei að drekka áfengi eða aldrei að reykja. Það er bara verið að benda okkur á að hvert ár sem við bíðum með að drekka áfengi skiptir máli og minnkar líkurnar á því að neyslan leiði út í eitthvað meira.“

Það er mín skoðun að nauðsynlegt sé að horfa sérstaklega á þann hóp ungmenna sem er að ljúka grunnskóla, hvort sem þau halda áfram skólagöngu eða fara út á vinnumarkaðinn. Þetta er viðkvæmur aldur. Grunnskólinn er ákveðinn hjúpur fyrir börnin og margt nýtt tekur við að honum loknum. Ég held því að við þurfum að huga sérstaklega að forvarnastarfi fyrir þann hóp sem er á bilinu 16 til 20 ára.

Hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra stigu ákveðin skref í þessa átt þegar þau settu af stað verkefni um heilsueflingu (Forseti hringir.) og forvarnir í framhaldsskólum. Þar var sleginn ákveðinn tónn í stefnumörkun til lengri tíma og munum við leggja okkur fram um að vanda til verka.



[12:22]
Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Ég gleðst yfir orðum hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann talaði um það áðan að leggja ætti aukna áherslu á forvarnir í framhaldsskólum. Þar kreppir skórinn. Það er mjög ánægjulegt ef farið verður út í það.

Reyndar er þessi málaflokkur svo gríðarlega víðtækur að hann nær yfir öll svið samfélagsins eins og fram kom í máli eins hv. þingmanns. Þessi mál koma inn á svið fangelsismála, inn á svið heilbrigðismála, inn á svið menntamála og fjármála og svo mætti lengi telja, (Gripið fram í: Og trúmála.) og trúmála líka.

Við þurfum að velta því fyrir okkur hversu margir aðilar í samfélaginu eru að ræða þessa hluti, einn talar hér og hinn talar þar o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að koma þurfi á fót einhverju batteríi sem hefur heildarsýn yfir þennan málaflokk og yfirumsjón yfir honum. Við erum ekki einungis að tala um heilbrigðismál heldur líka félagsmál, fangelsismál, dómsmál, lögreglumál o.fl.

Við vitum að fangelsi Íslands eru full af fólki sem hefur lent í miklum vandræðum út af vímuefnaneyslu. Á bak við það eru mikil ógæfa og sorg eins og kom fram hér áðan. Það vitum við öll. Þegar fólk kemur síðan út úr fangelsunum eða út af meðferðarheimilum eða sjúkrahúsum þurfum við að geta búið betur að því en nú er gert. Það eru líka forvarnir. Þannig stuðlum við að því að fólk sem hefur verið í ógæfunni losni við hana og öðlist nýtt, heilbrigt og gleðilegt líf án alkóhóls, án eiturlyfja (Forseti hringir.) eða utanaðkomandi efna sem fólk tekur til að fá inn í sig gleði. Hún á að koma innan frá, (Forseti hringir.) gleðin.



[12:25]
Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur orðið. Mér þótti reyndar leitt að vera sakaður um ódrengskap að hafa vakið máls á þessu. Ég vil taka fram að mér var ekki kunnugt um þá umræðu sem vinstri grænir höfðu hugsað sér í næstu viku og get því ekki tekið þá ásökun á mig. Ég vil þó vekja athygli á því að vinstri grænir eru meðal þeirra sem oft vekja máls á þörfum málum og ekki er fundið að því með viðlíka hætti.

Ég vil taka undir flest af því sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði. Við skulum þó varast að líta á það sem sérstakan árangur þó að Íslendingar geti sagt að þeir standi í fremstu röð. Við þurfum að hafa metnaðinn mjög mikinn í þessum málum því að vandamálið er ekki bara stórt, það er í rauninni algjörlega óásættanlegt.

Við erum að tala um ungmenni, oft okkar besta fólk, bráðgreind og vel gerð ungmenni, og ungmenni úr allra handa aðstæðum, sem falla í valinn langt um aldur fram. Þótt þau séu hlutfallslega færri hér en í einhverjum öðrum löndum getum við ekki talið að ástandið sé þar með ásættanlegt.

Við skulum líka hafa hugfast að fórnarlömb í þessu stríði eru gríðarlega mörg. Þau eru miklu fleiri en neytendurnir. Fórnarlömbin eru ekki síður aðstandendur, heilu fjölskyldurnar og heilu vinahóparnir, og er mjög mikilvægt að þar sé vel unnið. Ég tek undir orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, ábyrgðin er okkar allra í þessum efnum. Við þurfum virkilega að beina sjónum að hugarfarsbreytingu og þá út frá (Forseti hringir.) fjölskyldunum. Ég tel líka mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra endurskoði afstöðu sína til þess áfengismálafrumvarps sem nú liggur fyrir.



[12:27]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi stutta umræða, sem eðli málsins samkvæmt var stutt því að ræðutíminn var stuttur, var að stærstum hluta málefnaleg og góð. Ég held að þetta mál sé þess eðlis að við þingmenn getum verið sammála um hlutina og getum líka vonandi sammælst um að ræða málin á þeim forsendum.

Hv. þm. Bjarni Harðarson skildi orð mín á þann veg að ég væri að tala um að árangurinn væri ásættanlegur og við gætum slakað á. Það sagði ég aldrei. Ég lagði ekki út af því með neinum hætti, virðulegi forseti. Ég sagði þvert á móti að um væri að ræða eilífðarmál og við mættum aldrei slaka á.

Ég tel hins vegar eðlilegt að skoða það sem hefur gengið vel hjá okkur og hvernig við getum heimfært það yfir á önnur svið. Þess vegna vorum við að taka þessa hluti í gegn í grunnskólunum, setjast yfir það og skoða hvernig við getum unnið í framhaldsskólunum. Ef við höfum náð árangri — og hann er til staðar, hann er vísindalega sannaður, ef þannig má að orði komast — skulum við heimfæra það yfir á fleiri svið.

Ég held að við getum verið sammála um þetta. Mjög gott innlegg kom frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Ólöfu Nordal og fleirum. Þar var komið inn á það grundvallaratriði að við berum ábyrgð. Fjölskyldan ber ábyrgð og við getum ekki vikið okkur undan því. Jafneinfaldir hlutir og það að eiga eins margar samverustundir með börnum okkar og ungmennum og við getum skila árangri. Það skilar árangri að börn og ungmenni séu í heilbrigðum tómstundum og eins og hér kom fram munar um hvert ár sem unga fólkið drekkur ekki áfengi.

Menn hafa rætt í þessu sambandi, og finnst einhver ávinningur af því í pólitískum hráskinnaleik, ákveðið frumvarp sem ég hef lýst stuðningi við. Það verður að koma fram, af því að menn fara þessa leið, (Forseti hringir.) að það voru framsóknarmenn sem fóru með áfengi í búðirnar. (Forseti hringir.) Áfengi er löngu farið í búðirnar og vinstri grænir hafa farið fram á (Forseti hringir.) að ríkið beiti sér fyrir því að áfengi verði selt á fleiri stöðum um landið (Forseti hringir.) en ég hef gert.