135. löggjafarþing — 29. fundur
 21. nóvember 2007.
um fundarstjórn.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:30]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta er drengileg umræða sem hér hefur farið fram og ágætar ræður hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Hans síðustu orð voru dónaskapur, óviðeigandi og ódrengileg. (Gripið fram í: Þetta er ekki um fundarstjórn forseta.) Það skiptir ekki máli. Menn þurfa stundum að bera af sér sakir. Framsóknarflokkurinn sem flokkur hefur ekki borið áfengi í búðir. Það er rangt og það er ekki satt. Menn eiga að segja satt hér og vera drengilegir í umræðu. Framsóknarflokkurinn sem slíkur hefur á stefnuskrá sinni að áfengi fari ekki inn í matvöruverslanir. Ég vil að það komi hér skýrt fram vegna ummæla míns ágæta vinar, hæstv. heilbrigðisráðherra.



[12:30]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti vill taka fram að umræður um efni einstakra mála er ekki eðlilegt að viðhafa undir liðnum um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.) Hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tekur til máls, væntanlega um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í: Bera af sér sakir.) (Gripið fram í: Bera af sér sakir.) Forseti telur mjög langt gengið að óska eftir því, en hæstv. heilbrigðisráðherra hefur kvatt sér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta.



[12:31]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Guðna Ágústssonar um að þessi umræða er búin að vera góð og við skulum vona að hún verði á þeim nótum. Það sem ég vísaði til er einfaldlega staðreynd sem sá sem hér stendur getur ekkert gert við. Á undanförnum árum hefur verslun verið færð inn í matvöruverslanir og bensínstöðvar, í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er bara þannig og það er nákvæmlega ekkert sem sá sem hér stendur getur gert við því, það er bara staðreynd mála.

Ég vísa sömuleiðis í umræður sem hafa orðið um þessi mál en er hjartanlega sammála hv. þm. Guðna Ágústssyni og vonast til að við getum rætt þessi mál á öðrum og betri forsendum í nánustu framtíð.



[12:32]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið. Mér er nákvæmlega sama hvort liðurinn heitir um fundarstjórn forseta eða að bera af mér sakir. Ég hlýt að geta blandað mér í þá umræðu sem hér er hafin og það var auðvitað full ástæða til að gera athugasemdir við seinni ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann hefði betur sleppt henni og ekki mengað umræðuna, sem að öðru leyti var búin að vera málefnaleg um grafalvarlegt mál, með þessari aumkunarverðu málsvörn fyrir vandræði sjálfs sín í brennivínsmálinu og notað tímann í ræðustóli þegar aðrir áttu ekki lengur kost á því að svara fyrir sig — hann varð síðasti ræðumaður í 20 mínútna umræðu um störf þingsins — til að senda skeyti af þessu tagi, órökstudd og röng, í garð annarra. Það var feiknarlega lágt lagst, satt best að segja, hæstv. heilbrigðisráðherra.

Þeim áburði sem hæstv. ráðherra var með á Vinstri hreyfinguna – grænt framboð er ósköp einfaldlega til að svara að við erum fylgjandi og höfum stutt aðhaldssama áfengisstefnu. Við teljum að þessi verslun sé best komin í höndum ríkisins og þannig sé hægt að hafa með henni eftirlit og framfylgja þeim markmiðum sem opinber áfengisstefna felur í sér, en að sjálfsögðu þarf þjónustan að þróast í takt við tímann. Við höfum jafnframt stutt að þetta sé þjónusta af því tagi að hún komi til móts við kröfur almennings. Það er engin mótsögn í þessu fólgin, enda augljóst mál að ef þjónustan væri þannig að fólk gæti engan veginn sætt sig við hana í hinum opinberu verslunum yrðu þær náttúrlega hrópaðar af. Það vill liðið sem vill koma brennivínssölu í hendur einkagróðaaflanna, þess vegna er því meinilla við að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins veiti sómasamlega, hvað þá góða, þjónustu. Það passar ekki inn í formúlurnar. Þess vegna ráðast þeir eðlilega á alla þá sem standa vörð um það að þetta opinbera fyrirtæki geti sinnt þessari starfsemi þannig að það samrýmist markmiðum samfélagsins í forvarna-, heilbrigðis- og hollustumálum en komi jafnframt til móts við eðlilegar og réttmætar kröfur um nútímalega þjónustu.

Svona eru málin vaxin, herra forseti, svo að ég svari hér og hnekki þar með þessum fráleita málflutningi hæstv. heilbrigðisráðherra sem hefði betur reynt að leggja eitthvað málefnalegt og uppbyggilegt inn til umræðunnar í staðinn fyrir að reyna að ljúka henni svona.



[12:35]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég verð enn og aftur að gera athugasemdir við ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra. Mér þykir það sárt eftir jafnágæta umræðu.

Auðvitað liggur fyrir að áfengi hefur farið inn í ný og ný byggðarlög, inn í sérverslanir, inn á bensínstöðvar þess vegna, en það er algjörlega afmarkað á þeim stöðum og selt eins og út úr vínbúð. Það er ekki inni í matvöruverslunum, það er ekki almennur aðgangur að því þó að það sé í því húsi. Það er í húsi Áfengisverslunar ríkisins. Afgreiðslutími er ákveðinn þannig að þetta hefur gerst. Þess vegna var það úúrsnúningur af hálfu hæstv. ráðherra að leggjast svona lágt í lok umræðunnar. Hann viðurkenndi þó að hann og hans flokkur hefðu setið í síðustu ríkisstjórn. Hann þarf auðvitað ekki að skammast sín fyrir það því að það var góð ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Ég ítreka bara að ég harma þau ummæli sem hann hefur haft hér í garð okkar framsóknarmanna og lýsi því yfir að það er á stefnuskrá Framsóknarflokksins að áfengi skuli ekki selt í almennum matvöruverslunum. Ég vona sannarlega að niðurstaða þingsins á þessu þingi verði sú að það muni ekki opna á frelsið í þessum efnum og fara með áfengið inn í stórmarkaði þessa lands. Þá er nýr voði á ferðum.

Ég ætla ekki að skamma hæstv. heilbrigðisráðherra í dag fyrir skoðanir hans í því, hann getur í sjálfu sér haft sínar skoðanir en hann skal samt sem áður hvað þetta varðar og annað sem hann hefur sagt hér gá að sér.



[12:37]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég átta mig á því að hæstv. forseti er í nokkrum vanda með þennan lið, fundarstjórn forseta. Það er rétt sem hér kom fram hjá hæstv. forseta, við erum að ræða milli þingflokksformanna og forseta um hvernig við getum haft fyrirkomulagið á umræðum í þinginu til framtíðar. Það er áhugi á að skapa einhvers konar vettvang dagsins sem manni sýnist að þessar umræður hafi þróast út í hin síðari missiri. Ég verð þó að blanda mér í málin, virðulegur forseti, af því að mér fannst satt best að segja mjög ómaklegt af hæstv. heilbrigðisráðherra að leyfa sér í lok umræðunnar að ráðast að bæði Framsóknarflokknum og Vinstri grænum og saka þessa flokka um að vilja koma áfengi í búðirnar þegar hér er verið að ræða um forvarnamál í tilefni forvarnadagsins. Og hæstv. ráðherra er yfirmaður forvarna á Íslandi, hann er það. Það er ekki hægt að líða þessar árásir með nokkrum hætti. Það er ekki eins og hæstv. ráðherra sagði og það veit hann.

Á sama tíma er hæstv. heilbrigðisráðherra sem er yfirmaður forvarna á Íslandi að vinna að því að koma áfengi í verslanirnar. Hér er búið að snúa öllu algjörlega á haus, virðulegur forseti, og það er ekki hægt að sitja undir þessu. Ég hlýt að mótmæla því líka að þessi framkoma sé sýnd í lok umræðu þegar viðkomandi flokkar hafa ekki möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta nær ekki nokkurri átt og ég vil bara koma hér upp til að segja að ég harma þessa atburðarás, að yfirmaður forvarna á Íslandi skuli á sjálfan forvarnadaginn, ráðherra sem vinnur að því að koma áfengi í búðirnar á Íslandi, ráðast á aðra flokka og saka þá um það sama. Þetta nær ekki nokkurri átt, virðulegur forseti.



[12:39]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér hefur verið sagt og hæstv. forseti hefur sagt sjálfur, honum er nokkur vandi á höndum varðandi stjórn þingsins undir þessum lið. Eins og hv. þingmaður sem ræddi á undan mér, Siv Friðleifsdóttir, sagði hefur verið reynt að gera þennan lið um störf þingsins sem fjallað er um sérstaklega í þingskapalögum að einhvers konar vettvangi dagsins en við höfum séð aftur og aftur að kannski er ekki nógu góður bragur á því. Ein vinnuregla sem hæstv. forsetar starfa eftir er sú að ræðumönnum skal gefið orðið í þeirri röð sem þeir biðja um það.

Nú hefur hæstv. forseti stjórnað þessari umræðu eins og ígildi utandagskrárumræðu með því að hæstv. forseti gaf hv. málshefjanda orðið á nýjan leik í lok umræðunnar þegar reyndar var liðinn talsvert lengri tími en gert er ráð fyrir í þingskapalögum í þennan lið. Hæstv. forseti gerði annað, hann gaf síðan ráðherranum orðið á eftir síðari ræðu hv. málshefjanda. Þetta segir okkur sem sitjum í þingsal að hæstv. forseti vilji búa til úr þessum lið, um störf þingsins, hálfgildings eða fullgildings utandagskrárumræðu nema bara með pínulítið öðru sniði.

Hæstv. forseti hafði orð á því fyrr á fundinum að það væri þörf á því að fara að breyta þingskapalögum. Við erum að ræða um breytingar á þingskapalögum og þá vil ég bara að þau skilaboð komist núna héðan úr þessum ræðustóli að skoðun mín er sú að þessi knappi liður í upphafi hvers dags eigi að fjalla um störf þingsins. Hins vegar eigi hæstv. forseti að koma á umræðum utan dagskrár eins ört og hv. þingmenn biðja um þær. Biðji þingmaður um umræðu utan dagskrár eigi hæstv. forseti að kalla viðkomandi ráðherra í salinn eins fljótt og viðkomandi ráðherra getur komið í salinn og það sé þá háð umræða í hálftíma eða hversu langan tíma sem um semst um viðkomandi mál. Þó að við brjótum upp dagskrána og rjúfum hana með utandagskrárumræðum einu sinni á dag eða tvisvar á dag eða þrisvar á dag hleypir það því fjöri í þingið sem við viljum hafa hérna. Ég brýni hæstv. forseta í þessum efnum, að láta umræður utan dagskrár vera umræður utan dagskrár í föstu formi eins oft og þurfa þykir, eins oft og þingmönnum þykir þurfa, og setja þennan lið um störf þingsins aftur í það horf sem hann var, sem sagt liðinn um störf þingsins.



[12:42]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti vill taka fram að það vakti athygli hans að allir þeir sem báðu um orðið ræddu sama málið, um störf þingsins, þannig að forseti ítrekar að honum er nokkur vandi á höndum hvað þetta varðar.