135. löggjafarþing — 29. fundur
 21. nóvember 2007.
tengsl NATO við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar o.fl..
fsp. SJS, 81. mál. — Þskj. 81.

[12:42]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsins hefur síðustu tvö til þrjú árin eða svo rannsakað leynifangelsi eða leynda geymslustaði bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Evrópu og ólöglega flutninga sama aðila á föngum landa og heimsálfa á milli. Í annarri skýrslu nefndarinnar frá því í vor sem unnin var undir forustu svissneska þingmannsins Dicks Martys er það sagt byggt á staðreyndum, þ.e. á enskunni „factually established“, að slíkir leynigeymslustaðir og slíkir ólöglegir fangaflutningar hafi farið fram og að með þessu hafi átt sér stað gróf alvarleg mannréttindabrot, fólki hafi verið rænt á götum úti, það flutt á laun til landa þar sem ómanneskjuleg meðferð og pyntingar eru leyfðar og fólk jafnvel horfið þannig af yfirborði jarðar missirum eða árum saman án þess að aðstandendur eða aðrir hefðu hugmynd um hvar það væri. Þetta hefur átt sér stað án efa bæði gagnvart fólki sem mögulega kann að hafa brotið af sér eða haft slíkt í hyggju, en sannanlega hefur líka alsaklaust fólk orðið fyrir þessu. Má þar nefna að kanadískur rannsóknardómari hefur kveðið upp úr um það að kanadískur ríkisborgari sem var rænt í New York og fluttur til Sýrlands til pyntinga hafi verið alsaklaus og engin ástæða til að ætla að hann hafi brotið neitt af sér, enda virtist þar hafa verið farið mannavillt.

Um þessar aðgerðir gilti viðamikil áætlun Bandaríkjastjórnar. Allt saman fór leynt samkvæmt trúnaðarreglum NATO undir yfirskini þjóðaröryggis. Það er kunnara en frá þurfi að segja að fangaflugvélar hafa ýmist lent eða flogið um íslenska lofthelgi í hundruð skipta þannig að Ísland tengist þessum atburðum bæði sem NATO-ríki og sem land sem varð fyrir barðinu á þessari starfsemi.

Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra:

1. Hver eru tengsl ákvarðana NATO-fundarins 4. október 2001 við þessar aðgerðir Bandaríkjamanna? Ég vek athygli á orðalaginu „tengsl ákvarðana NATO-fundarins og aðgerða Bandaríkjamanna“ því að því er ekki haldið fram í skýrslunni að fundurinn sem slíkur hafi heimilað aðgerðirnar eða fjallað um þær sérstaklega, heldur hafi Bandaríkjamenn túlkað það sem þar var ákveðið sér í hag og til þess að auka olnbogarými sitt.

2. Hyggst ráðherra gera Alþingi grein fyrir málinu og gera opinberar allar upplýsingar?

3. Hafa íslensk stjórnvöld hugleitt að fylgja fordæmi Kanada og Bosníu-Hersegóvínu sem hafa viðurkennt ábyrgð sína í málinu og jafnvel greitt þolendum bætur?

4. Hvernig hefur utanríkisráðuneytið hingað til brugðist við skýrslum laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um málið og viðeigandi ályktunum?



[12:45]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr mig fjögurra spurninga varðandi meint fangaflug og pyntingar á föngum.

Í fyrstu spurningu er spurt um tengsl ákvarðana NATO-fundarins í október 2001 við fangaflug og leynifangelsi bandarísku leyniþjónustunnar.

Ekkert bendir til að um nein tengsl sé að ræða milli varnaráætlunar NATO gegn hryðjuverkum og meintra fangafluga eða leynifangelsa bandarísku leyniþjónustunnar. Aðalframkvæmdastjóri NATO gaf greinargóða lýsingu á þessari varnaráætlun í yfirlýsingu til fjölmiðla í lok fundarins 4. október 2001 sem birtist þá á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins. Ég hef raunar líka afhent fulltrúum í utanríkismálanefnd afrit af fundargerð frá þessum fundi þannig að þeir hafa séð hvað þar var ákveðið.

Varnaráætlunin kveður á um almenna heimild til yfirflugs sem háð yrði tvíhliða samkomulagi við hvert aðildarríki fyrir sig, fyrir loftför Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja á grundvelli þeirra innlendu reglna sem gilda í hverju aðildarríki fyrir herflug sem tengist aðgerðum gegn hryðjuverkum. Ekki er með nokkru móti hægt að túlka ákvæðið svo að það veiti heimild til flugs með fanga sem eiga á hættu að verða pyntaðir eða settir í fangelsi án dóms og laga. Íslensk stjórnvöld mundu aldrei samþykkja slíkt og hafa skuldbundið sig samkvæmt alþjóðasamningum til að koma í veg fyrir slík mannréttindabrot innan íslenskrar lögsögu.

Í öðru lagi er spurt hvort ég hyggist gera Alþingi grein fyrir málinu og gera opinberar allar upplýsingar sem utanríkisráðuneytið hafi undir höndum um málið, þar með talið þær sem snúa að efni og ákvörðunum NATO-fundarins 4. október 2001. Það er ekki á mínu valdi að gera opinberar trúnaðarupplýsingar frá NATO en ég hef gert það sem í mínu valdi stendur til að utanríkismálanefnd sem er auðvitað eftirlitsnefnd þingsins með þessum málum fái þessi gögn, og þau hefur hún þegar fengið.

Þá setti ég niður starfshóp á vegum utanríkisráðuneytisins sem var falið að takast á hendur skoðun á staðhæfingum um að loftför sem liggja undir grun um að hafa verið notuð í meintu ólögmætu fangaflugi hafi lent á Keflavíkurflugvelli og/eða Reykjavíkurflugvelli. Skýrslan hefur þegar verið gerð opinber og henni dreift m.a. til utanríkismálanefndar. Í þeirri vinnu var ekki ætlunin að staðfesta eða kanna frekar hvort um ólögmæta fangaflutninga um íslenskt yfirráðasvæði hafi verið að ræða, einfaldlega vegna þess að ef ólögmætur flutningur fanga hefur átt sér stað er vart mögulegt að sannreyna slíkt eftir á. Hins vegar var farið yfir flugnúmeralista og þeir staðfesta að loftför sem sökuð hafa verið um þátttöku í meintu ólögmætu fangaflugi leyniþjónustu Bandaríkjanna hafa haft viðkomu á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli auk þess að hafa farið um íslenska lofthelgi á því tímabili sem könnunin náði til, frá september 2001 til loka júlí 2007.

Utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um ferðir loftfara um íslenska lofthelgi, Keflavíkurflugvöll eða Reykjavíkurflugvöll, með fanga eða meinta hryðjuverkamenn sem hvorki njóta verndar né meðhöndlunar samkvæmt alþjóðasáttmálum. Pyntingar eru skilyrðislaust og undantekningarlaust bannaðar samkvæmt alþjóðasamningum. Flutningar á föngum um lofthelgi Íslands sem ekki samrýmast alþjóðalögum væru í algjörri óþökk íslenskra stjórnvalda og með öllu óviðunandi.

Í þriðja lagi er ég spurð hvort íslensk stjórnvöld hafi hugleitt að fylgja fordæmi Kanada og Bosníu-Hersegóvínu og viðurkenna ábyrgð sína í málinu. Ég lít svo á að þeirri spurningu hafi verið svarað hér á undan. Við tókum þátt í afgreiðslunni hjá NATO og þar er engin heimild veitt til að stunda ólögmætt fangaflug. Ég árétta það sem ég sagði, pyntingar eru mjög alvarlegur glæpur og ég hef því í hyggju að láta skoða með hvaða hætti er hægt að auka eftirlit með loftförum sem hér millilenda, horfa sem sagt til framtíðar í þessu máli. Utanríkisráðuneytið hefur þegar tekið frumkvæði að því að þetta mál verði skoðað af hlutaðeigandi ráðuneytum og farið inn í þær vélar sem bera þessi flugnúmer þegar þær lenda hér.

Þá er spurt hvernig utanríkisráðuneytið hafi hingað til brugðist við skýrslum laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um málið.

Utanríkisráðuneytið hefur svarað með fullnægjandi hætti öllum beiðnum um upplýsingar, m.a. beiðni frá framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til aðildarríkjanna dags. 21. nóvember 2005. Formaður þingmannasendinefndar Íslands hefur einnig svarað erindi laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins með bréfi dags. 10. október 2007. Í ljósi niðurstaðna skýrslugjafar laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins ákvað ég að stofna starfshóp í ráðuneytinu eins og ég hef þegar drepið á til að fara yfir þessi mál.



[12:51]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýr og greinargóð svör í þessu efni. Það er mikilvægt að hér sé leitt í ljós að Ísland hefur með engum hætti komið að neinum ákvörðunum sem heimila ólögmætt fangaflug. Bandarísk stjórnvöld hafa kosið að skerast úr leik í samfélagi vestrænna þjóða og heimila meðferð á fólki sem ekki samrýmist grundvallarreglum vestrænna lýðræðisríkja. Það ber að harma.

Atlantshafsbandalagið hefur ekki staðið að slíkum ákvörðunum. Íslensk stjórnvöld bera ekki ábyrgð á slíkum ákvörðunum og íslensk stjórnvöld hafa ekkert gert til að heimila slíka framgöngu. Þvert á móti er ánægjuefni að heyra frá ráðherra þann skýra ásetning að standa við þá alþjóðasamninga sem við erum bundin af sem eiga að tryggja að við þolum ekki að hægt sé að fara um íslenska lofthelgi með fólk til að láta það sæta pyntingum eða ómannúðlegri meðferð annars staðar.



[12:52]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek líka undir að ég tel að hæstv. utanríkisráðherra hafi komið með nokkuð skýr svör. Það er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld hafa ekki komið að neinum heimildum sem heimila fangaflug. Það er líka verið að skoða það að auka hér eftirlit með flugvélum almennt. Í því sambandi nefni ég sérstaklega einkaþotuflug á Reykjavíkurflugvelli. Við þurfum að vera mjög vakandi yfir öllu flugi en það er ekkert, miðað við upplýsingar sem við höfum í höndunum núna, sem bendir til þess að eitthvað hafi misfarist hjá okkur Íslendingum.

Ég vil líka nota tækifærið í þessari stuttu athugasemd til að draga fram að mér þótti mjög ánægjuleg nýbreytni þegar hæstv. utanríkisráðherra beitti sér fyrir því að utanríkismálanefnd fékk sérstaka heimild til að skoða fundargerðir NATO og sérstaklega frá þeim fundi sem hér er til umræðu, (Forseti hringir.) 4. október 2001. Eins og ég skynja þetta mál er hér ekkert á ferðinni sem við eigum að hafa (Forseti hringir.) mjög miklar áhyggjur af.



[12:53]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau eru greinargóð svo langt sem þau ná en ég get því miður ekki verið sammála því mati að öll kurl séu komin til grafar hvað varðar tengsl NATO-fundarins 4. október 2001 og þessara aðgerða CIA. Þó að ég hafi séð fundargerðirnar og geti staðfest að þar er ekki með neinum beinum hætti fjallað um og þaðan af síður heimilaðar aðgerðirnar sem slíkar — enda hefur enginn haldið því fram. Í skýrslu Dicks Martys og félaga er hins vegar rætt um tengslin og hvernig CIA hafi túlkað þær aðgerðir sem þar var skrifað upp á í svokallaðri baráttu gegn hryðjuverkum, þar á meðal og ekki síst annars vegar trúnaðarreglur NATO í skjóli þjóðaröryggis og hins vegar yfirflugs- og lendingaheimildir. Þingnefndir eru að rannsaka þessi mál ofan í kjölinn í nálægum löndum, t.d. í Þýskalandi, og það verður fróðlegt að sjá hvað þar kemur upp úr pokunum.

Varðandi einn afmarkaðan þátt þessa máls sem snýr að því hvort Ísland hafi með beinum hætti komið við sögu finnast mér menn býsna yfirlýsingaglaðir að telja að nú sé nokkuð ljóst að svo hafi ekki verið. Ég hef miklar efasemdir um að allt þetta gríðarlega flug hefði farið hér um og lent hér, þar á meðal í mörgum tilvikum beint frá Rúmeníu þar sem annað leynifangelsið var sannarlega staðsett, í sumum tilvikum á leiðinni vestur um haf til Gvantanamó-fangelsisins illræmda á Kúbu, ef það þjónaði engum tilgangi, ef það hefðu allt verið tómar vélar til að villa um þó að vissulega sé vitað að CIA hefur verið mikið í því að senda vélar fram og til baka, breyta flugleiðum o.s.frv. til að villa um.

Ég hef fengið ábendingu um eitt sem við gætum gert til að kanna þessi mál betur hér heima, og ég beini því til utanríkisráðherra að kanna þann mat sem vélarnar fengu um borð þegar þær lentu hér. Ég hef frá aðilum sem eru gjörkunnugir málinu að stundum megi ráða að um borð í vélunum hafi verið mannskapur þegar beðið var um mat og það fylgdi sérstaklega sögunni að hnífapör (Forseti hringir.) mættu ekki fylgja með.



[12:55]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu kom nokkuð við sögu í skýrslu minni til Alþingis nýverið þar sem ég ræddi um utanríkismál og ég gat þess sérstaklega hvernig þetta mál sneri við okkur. Ekkert bendir til þess, og ég ítreka það, að NATO hafi með nokkrum hætti veitt samþykki eða heimild fyrir því að slíkt fangaflug væri stundað. Það getur verið spurning um það hvernig CIA hafi túlkað þessa samþykkt NATO-fundarins en um það getum við bara ekkert sagt. Það gerir íslensk stjórnvöld ekki ábyrg fyrir málinu. Það gerir NATO ekki ábyrgt fyrir málinu. Ég held að við verðum að hætta að berja höfðinu við steininn hvað þessa þætti varðar. Við höfum gert það sem í okkar valdi stendur til að skoða þetta mál. Íslensk stjórnvöld bera ekki ábyrgð á meintu fangaflugi eða því sem þrifist hefur í skjóli þess. Við munum fylgjast betur með þessu í framtíðinni og reyna að sjá til þess að við vitum hvaða fólk eða hvaða birgðir eru um borð í þessum einkavélum sem hingað koma til lendingar. Það er alveg sjálfsagt, almennt öryggisatriði að mínu viti að við höfum skrár yfir það eins og í farþegafluginu.

Ég held að það þjóni litlum tilgangi að kanna kostinn (Gripið fram í: Jú.) því að það getur vel verið að fólk hafi verið um borð þó að það hafi ekki verið fangar. Allir þurfa að borða, hvort sem þeir eru fangar eða ekki, þannig að ég held að það muni ekki gefa okkur neinar sérstakar upplýsingar.