135. löggjafarþing — 29. fundur
 21. nóvember 2007.
reglur Evrópusambandsins á sviði orkumála.
fsp. SJS, 201. mál. — Þskj. 216.

[13:25]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Evrópusambandið hefur staðið í miklum æfingum hvað varðar skipulag orkumála. Ætlunin hefur verið að markaðsvæða og eftir atvikum einkavæða þá starfsemi eins og ýmislegt fleira á þeim bæ. Og endurteknar tilskipanir eða reglugerðir hafa verið gefnar út í þessu skyni sem við Íslendingar höfum illu heilli innleitt hér á landi án þess að almennilega væri nokkurn tíma farið ofan í saumana á því hvort við þyrftum að gera það.

Í umræðum um það í fyrra komu fram nýjar upplýsingar til iðnaðarnefndar um að málin hefðu alls ekki verið vaxin eins og sagt var á sínum tíma af hálfu þáverandi utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra. Í ljós kom að fjölmörg aðildarríki Evrópusambandsins hafa fengið mismunandi stig undanþágna eða heimilda til að framkvæma þessi mál með sínum sérstaka hætti, þar á meðal eyjar í Miðjarðarhafinu og jafnvel landlaust ríki inni á miðju meginlandi Evrópu eins og Lúxemborg, ný aðildarríki eins og sum Eystrasaltsríkjanna og þar fram eftir götunum.

En nú er svo komið að þeir úti í Evrópu eru lagðir af stað á nýjan leik og 19. september síðastliðinn voru kynnt áform orkumálakommissars og samkeppniskommissars Evrópusambandsins um nýtt regluverk á sviði orkumála. Hér höfum við tækifæri til að fylgja málinu eftir og fylgjast með því frá byrjun.

Það hefur verið rætt hér á þessum stað, úr þessum ræðustóli, m.a. fyrir nokkrum dögum, að Alþingi komi of lítið að málum á undirbúningsstigi. Við höfum a.m.k. enga afsökun í þessu tilviki því nú liggur það fyrir og hér með er það vonandi öllum ljóst að slík vinna er nú farin af stað innan Evrópusambandsins og hún mun hafa áhrif á okkur í fyllingu tímans ef þessi nýja regluskipan verður sett. Hún virðist eiga að ganga út á, ef marka má bæði ræður orkumálastjórans og samkeppnisstjórans sem og það sem Barroso sjálfur sagði í Madríd 1. október síðastliðinn, að höggva raforkumarkaðinn enn meira niður og fara í frekari aðskilnað framleiðslu, dreifingar og sölu og höggva þar frekar á eignartengsl eða eignarbönd en núgildandi regluverk gerir.

Það mun þá hafa áhrif hér, jafnfáránlegt og það er í raun, enda engar eiginlegar samkeppnisforsendur fyrir hendi á íslenskum raforkumarkaði. Það voru allt saman brandarar frá upphafi. Fyrirtækin nánast öll í opinberri eigu og Ísland afmarkaður og einangraður orkumarkaður með engin tengsl við önnur lönd nema þá þeim óbeinu sem fólgin eru í samkeppninni um staðsetningu fyrirtækja.

Þess vegna voru og eru öll rök til þess að Ísland skipi þessum málum á þann hátt sem hagstæðast er fyrir okkur, út frá okkar aðstæðum og okkar hagsmunum, og reyni að leita eftir undanþágum frá því að þurfa að uppfylla ákvæði frá Evrópu sem alls ekkert eiga við hér.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra. Hefur ráðuneytið fylgst með þessari vinnu á vegum Evrópusambandsins? Hvaða áhrif mundu reglur í þessa veru hafa hér á landi? Og kemur til greina að Ísland sæki um undanþágu frá því að þurfa að uppfylla þær?



[13:28]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Svarið við fyrstu spurningu hv. þingmanns er já. Ráðuneytið hefur fylgst með þessu og starfsmenn ráðuneytisins hafa setið fundi vinnuhópa EFTA, sem ég held reyndar að hafi bara verið einn til þessa um þetta mál. Þar kynnti fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar þetta fyrir þessum vinnuhópi. Það er auðvitað ljóst að iðnaðarráðuneytið mun fylgjast með umfjöllun um þessar tillögur og framvindu þeirra innan stofnana Evrópusambandsins.

Eins og hv. þingmaður ugglaust veit er uppi ágreiningur meðal aðildarþjóðanna, þ.e. Frakkar og Þjóðverjar eru ósammála ýmsum öðrum þjóðum. Þetta mál er komið í það ferli sem við höfum þýtt sem sáttaferli milli ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Það er því allsendis óljóst hvað út úr því kemur. En það er alveg ljóst að ráðuneytið mun eiga samráð við íslenska hagsmunaaðila sem eiga að gæta íslenskra hagsmuna. Ég nefni t.d. að fyrirhugaður er fundur á næstunni með fulltrúum Samorku til þess að upplýsa það.

Út frá því sem hv. þingmaður sagði um yfirlýstan vilja þingsins sem hér hefur komið fram til að fylgjast vandlega með málum á fyrri stigum þá er alveg sjálfsagt, ef eftir því er óskað, að ráðuneytið láti þær upplýsingar í té um framvindu þessa máls gagnvart iðnaðarnefnd eða öðrum nefndum ef eftir því yrði óskað.

Hv. þingmaður spyr síðan hvaða áhrif þetta muni hafa hér á landi. Nú er einungis um að ræða breytingartillögur og þær í ferli og allsendis óljóst hver niðurstaðan verður. Það er hins vegar alveg ljóst að ef gildandi tilskipanir yrðu samþykktar óbreyttar þá gætu þær, eins og hv. þingmaður var að segja, gert strangari kröfur um aðskilnað flutningsfyrirtækisins, þ.e. Landsnets í okkar tilviki, frá samkeppnisþáttum.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður var í reynd að segja, að framkvæmdarstjórnin er þeirrar skoðunar að það sé heppilegast frá hennar sjónarhóli að aðskilja í ríkari mæli eign flutningskerfa frá framleiðslueiningunum. Hins vegar er rétt að það komi fram að þessar tillögur, eins og ég þekki þær, bjóða líka upp á aðra valkosti í þessum efnum. Þannig að þegar hv. þingmaður spyr mig hver áhrifin verði af þessari tilskipun þá get ég ekki svarað því á þessu stigi öðruvísi en svo að ég hef lýst að hvaða pólitísku stefnu þessar breytingartillögur hníga. Sömuleiðis þá munu áhrifin ráðast nokkuð af því hvaða leið er valin til þess að innleiða reglur tilskipunarinnar.

Síðan spyr hv. þingmaður, í ljósi reynslunnar væntanlega, hvort það komi til greina að Ísland leiti eftir undanþágu frá væntanlegum reglum. Það er alveg ljóst að ef að skoðun stjórnvalda á Íslandi leiðir það í ljós að efni þessara tilskipana geti raskað hagsmunum okkar, sem við skilgreinum sem íslenska hagsmuni, þá kemur að sjálfsögðu til greina að leita eftir undanþágu.

Eins og hv. þingmaður benti á er enn þá hægt að leita eftir undanþágum frá ýmsum ákvæðum tilskipunar þessara breytingartillagna, svo fremi sem Íslendingar geti sýnt fram á sterk rök fyrir umsókn um slíkt.



[13:32]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta dálítið skrýtin umræða, ég neita því ekki. Mér fannst hæstv. iðnaðarráðherra tala óskaplega lengi en hef ég bara 46 sekúndur? (Iðnrh.: Ég talaði 5 tíma.) En það er kannski af því að mér fannst ekki mjög skemmtilegt að hlusta á hann en það er eins og það er.

Í fyrsta lagi, út af ræðu fyrirspyrjanda, væri fróðlegt að vita hvað það er í þeirri tilskipun sem við innleiddum sem hentar svona illa fyrir Ísland. Ég geri mér ekki grein fyrir hvað það er satt að segja. Ég held að þetta fyrirkomulag henti ágætlega á Íslandi. Það sem væntanlega er þá á leiðinni frá Evrópusambandinu, til viðbótar því sem við höfum þegar innleitt, er þá fyrirtækjaaðskilnaður. Fyrirtækjaaðskilnaður er mikið lausnarorð í þeirri umræðu sem nú fer fram á Íslandi í orkuiðnaðinum, en ekki náðist að innleiða hann í tíð Framsóknarflokksins í iðnaðarráðuneytinu vegna andstöðu frá orkufyrirtækjunum.



[13:33]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þetta kannski betur við annað tækifæri en ég hef alltaf áhuga á og ánægju af að ræða við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um þá mislukkuðu aðgerð að fara að reyna að markaðsvæða raforkumarkaðinn hér. Svo því sé svarað hvað hentar okkur svona illa, þá hentar það okkur ákaflega illa að þurfa að fara að skipta okkar fyrirtækjum upp. Þar myndast svokölluð öfug samlegðaráhrif með tilheyrandi tilkostnaði.

Það hentar okkur líka illa að þvinga opinber fyrirtæki í samfélagslegri eigu til að fara að reikna sér arð. Af hverju mega þau ekki láta arðinn ganga til eigenda sinna, þ.e. fólksins sem nýtur þjónustu þeirra. Þessi markaðsvæðing hentar ekki á orkumarkaði sem er skilgreindur sem almannaþjónusta eins og við höfum fram að þessu gert. En Framsókn var að burðast við að gera þetta hákapítaliskt, markaðsvætt og einkavætt líka, eins og allt annað.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Öfugt við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fundust mér þau góð. Ég var ánægður með ráðherrann og tel að hann hafi svarað þessu vel miðað við stöðu málsins. Það er ekki hægt að biðja um meira en það. Ráðuneytið hefur þegar sett sig inn í þetta og ætlar að fylgjast vel með því og eiga um það samráð við orkufyrirtækin og eftir atvikum við iðnaðarnefnd Alþingis, sem ég tel alveg einboðið. Nú skulum við ekki sofa á verðinum eins og við gerðum síðast.

Árið 1998, ef ég man ártalið rétt, stóð hér maður og varaði við því að það sem þarna væri að fara af stað í Evrópusambandinu kynni að henta Íslendingum illa. Sá maður heitir Hjörleifur Guttormsson. Það hlustaði enginn á hann. Þegar við lögðumst gegn því að Ísland innleiddi þetta, félli frá stjórnskipulegum fyrirvara, ég og nokkrir aðrir þingmenn, tók enginn undir það. En þegar menn stóðu frammi fyrir alvöru málsins, árið 2003–2004, þá allt í einu snarfjölgaði í þeim hópi sem sagði: Heyrðu, við ættum nú kannski að reyna að fá undanþágu frá þessu. En þá var það auðvitað of seint. Þá stóðu m.a. upp margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sögðu — í borgarstjórn Reykjavíkur var það rætt: Við hefðum kannski frekar átt að fá undanþágu. Nú skulum við ekki endurtaka sömu mistökin. Að síðustu fagna ég því að ráðherra skuli segja að til greina komi að sækja um undanþágu frá þessum ákvæðum ef þau henta okkur illa.



[13:36]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er með hálfum huga að ég hætti mér inn í þessar deilur á milli stjórnarandstöðuflokkanna. Ég vil bæta því við að ég er eiginlega snortinn og mér er orða vant yfir hrósyrðum frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Það hefur ekki gerst í háa herrans tíð að hann hafi borið mér lof með þessum hætti. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar segja það alveg skýrt að ég tel að til greina komi — ef það þjónar íslenskum hagsmunum, sem við erum ekki alveg fær um að skilgreina enn þá hverjir eru út frá breytingartillögunum, vegna þess að við vitum ekki hvernig þær líta út að lokum.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að á sínum tíma hefði verið hægt að sækja um undanþágu frá tilskipuninni þegar hún kom fram. Það hefðum við getað gert í krafti þess að við erum lítið og einangrað raforkukerfi. Eins og ég skildi það mál allt, og tók þó aldrei til máls um það hér í þinginu, hefðum við ekki getað sótt um undanþágu frá framleiðslukaflanum sjálfum. Það er hins vegar heldur ekki of seint að sækja um þá undanþágu ef við teljum að íslenskir hagsmunir bjóði það. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Þær tillögur sem þarna eru uppi, og hv. þingmaður gerði að umræðuefni, varða aðallega það að framkvæmdastjórnin hefur lagt til, eða það er hennar vilji, að fyrirtæki sem eiga bæði flutningskerfi og orkuframleiðslu verði skyldug til að selja hluta af sínum eignum. Það hugsa ég að fari svolítið undir hreistrið á hv. þingmanni. Hins vegar eru þar líka aðrir valkostir sem felast í því að flutningskerfið sé rekið af sjálfstæðu fyrirtæki eins og Landsnet er í dag og ekki fari fram sú uppskipting sem er nú boðuð með mestum þunga af framkvæmdastjórn.