135. löggjafarþing — 32. fundur
 28. nóvember 2007.
veiðar Færeyinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.
fsp. GMJ, 179. mál. — Þskj. 192.

[13:55]
Fyrirspyrjandi (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn um fiskveiðar Færeyinga við Ísland.

1. Hver var heildarafli Færeyinga á Íslandsmiðum síðastliðin tvö fiskveiðiár og hver er staðan nú á fiskveiðiárinu 2007/2008?

2. Hvernig skiptist aflinn eftir tegundum?

3. Hvaða veiðarfæri voru notuð við veiðarnar?

4. Hvernig er eftirliti með veiðunum háttað?

5. Hefur verið beitt svonefndum skyndilokunum gagnvart veiðum Færeyinga?

6. Hversu oft á fyrrnefndu tímabili hefur verið farið um borð í færeysk skip til eftirlits og afli og veiðarfæri skoðuð?

7. Hversu oft hafa verið gerðar athugasemdir í skoðunarferðum?

8. Hefur komið til leyfissviptinga vegna brota á reglum?

9. Hvar er afla Færeyinga af Íslandsmiðum landað?

10. Er eitthvert eftirlit með löndunum?

Þær mótvægisaðgerðir sem gripið var til vegna niðurskurðar á þorski bitna hart á fólki á landsbyggðinni og í sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið, og það er tilefni þessara spurninga. Ég spyr hvort við höfum hreinlega efni á að leyfa Færeyingum að veiða á Íslandsmiðum. — Minni atvinna er fyrirsjáanleg og lægri tekjur hjá bæði sjómönnum og fiskvinnslufólki. Því er vert að skoða í alvöru hvort þeir samningar sem við höfum gert við Færeyinga, fiskveiðisamningar, séu réttlætanlegir á meðan við þurfum að skera niður veiðiheimildir í miklum mæli.

Eftirlitinu hefur stundum verið talið ábótavant. Skipstjórar sem hafa verið að fiska við hliðina á færeyskum bátum hafa oft og tíðum talað um að þeir hafi verið með aðra aflasamsetningu en Færeyingarnir. Færeyingarnir hafa oft náð að drýgja veiðiheimildir, sem þeir hafa haft, mjög lengi og miklu betur en íslenskum sjómönnum hefur tekist að gera. Þess vegna ber ég fram þessar spurningar og vænti góðra svara frá ráðherra.



[13:57]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru nú tíu spurningar þannig að ég verð að setja í einhvers konar fluggír til þess að reyna að klára þetta á þeim skamma tíma sem ég hef hér fyrir höndum.

Heildarafli Færeyinga á Íslandsmiðum var tæp 55 þús. tonn árið 2006, tæp 59 þús. tonn árið 2005. Það sem af er þessu ári, 2007, er heildaraflinn rétt liðlega 56 þús. tonn. Ég vil vekja athygli á því að samningar okkar við Færeyjar eru gerðir á almanaksári en ekki fiskveiðiári.

Í magni talið veiða Færeyingar mest af loðnu í íslenskri lögsögu, þar næst síld, kolmunna, þorsk, löngu, ýsu og svo minna af öðrum tegundum.

Færeysk skip veiða botnfisk á handfæri og línu en uppsjávarafli þeirra er veiddur í nót og flottroll.

Landhelgisgæsla Íslands hefur eftirlit með ferðum og athöfnum færeyskra skipa í íslenskri lögsögu. Í fyrsta lagi er um að ræða eftirlit frá varðskipum, þar sem m.a. er farið um borð í skipin til eftirlits þar sem afli og veiðarfæri eru skoðuð og afli borinn saman við uppgefinn afla skipa. Í öðru lagi er um að ræða eftirlit úr lofti en þá eru staðsetningar og athafnir skipanna skráðar og sendar til varðskipa og stjórnstöðva. Í þriðja lagi er um að ræða tilraunir sem hafa verið gerðar til eftirlits með radar og gervihnöttum, m.a. á Færeyjahrygg.

Hjá Landhelgisgæslunni eru upplýsingar um veiðiheimildir, síðustu aflatilkynningar og staðsetningar ávallt fyrirliggjandi. Færeysk skip eru í fjareftirliti samkvæmt samningi þar um milli Íslands og Færeyja. Kerfið sendir með sjálfvirkum hætti „entry“-skeyti þegar skip er komið inn í íslenska lögsögu og kemur það um leið fram í fjarskipaeftirliti Landhelgisgæslunnar.

Upplýsingar um staðsetningu skipa berast á tveggja stunda fresti með sjálfvirkum hætti á meðan skipið er innan íslenskrar lögsögu. Þegar skip yfirgefur svo lögsöguna berst „exit“-skeyti og staðsetningarskeyti hætta þá jafnframt að berast. Jafnframt senda færeysk skip daglega aflaskeyti auk tilkynninga um komu inn í lögsöguna sem og um brottför úr lögsögunni. Þessar upplýsingar eru skráðar í gagnagrunn Landhelgisgæslunnar og úr grunninum er síðan unnið yfirlit um sundurliðun á afla. Upplýsingarnar eru síðan notaðar til samanburðar þegar farið er um borð í skipin til eftirlits.

Í kerfinu liggja jafnframt fyrir upplýsingar um hvaða skip hafa veiðileyfi og er þannig fylgst með því að einungis skip með slík leyfi séu að veiðum í lögsögunni. Í þeim tilfellum þegar varðskipsmenn fara um borð í skipin eru allar skoðanir þeirra skráðar og sendar í gagnagrunn þar sem gerður er samanburður við fyrirliggjandi upplýsingar sem áður hafa borist.

Samkvæmt 10. gr. laga, nr. 79 frá 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum, getur, með leyfi forseta: „Hafrannsóknastofnunin bannað tilteknar veiðar á ákveðnum svæðum í allt að 14 sólarhringa með tilkynningu til strandstöðva og í útvarpi. Jafnframt skal veiðieftirliti Fiskistofu og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynnt um skyndilokanir.“

Skyndilokun er bann við veiðum á afmörkuðu svæði með tilteknu veiðarfæri eða veiðarfærum vegna skaðlegra veiða, t.d. of hás hlutfalls smáfisks í afla. Skyndilokunum er ekki beitt gegn einstökum skipum eða útgerðum og þar af leiðandi eru þær ekki skráðar með þeim upplýsingum. Samkvæmt reglugerð nr. 151 frá 2001, um botnfiskveiðar færeyskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi, skulu færeysk skip hlíta sömu reglum og íslensk skip við sams konar veiðar, m.a. um veiðibann, friðunarsvæði og aðra lokun svæða. Á árunum 2005–2007 tóku engar skyndilokanir gildi, sem byggðust á mælingum á afla veiddum af færeyskum skipum.

Á árinu 2005 var farið 14 sinnum um borð í færeysk fiskiskip frá varðskipum Landhelgisgæslunnar til skoðunar á afla og veiðarfærum. Árið 2006 var farið 27 sinnum um borð í færeysk fiskiskip frá varðskipum Landhelgisgæslunnar til skoðunar á afla og veiðarfærum. Alls hefur verið farið 13 sinnum um borð í færeysk fiskiskip frá varðskipum Landhelgisgæslunnar á þessu ári til skoðunar á afla og veiðarfærum. Tvö tilvik hafa komið upp, þar sem gerðar voru athugasemdir. Í báðum tilvikum var það vegna meintra ólöglegra veiða á bannsvæðum. Ekki hefur komið til leyfissviptinga.

Mestu af afla færeyskra skipa, sem var veiddur innan íslenskrar landhelgi, er landað annars staðar en hér á landi. Fiskistofa hefur ekki fylgst sérstaklega með löndun færeyskra skipa, en fær hins vegar gögn frá Færeyjum um landanir færeyskra skipa á afla úr íslenskri lögsögu og ber þær upplýsingar saman við afla samkvæmt tilkynningum Landhelgisgæslunnar. Færeysk yfirvöld sjá hins vegar um löndunareftirlitið í Færeyjum og bera ábyrgð á því sem og að tilkynna um afla til íslenskra stjórnvalda.



[14:01]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að í þessum þingsal eiga Færeyingar vinum að mæta. Hv. þingmaður spurði hvort við hefðum efni á því við núverandi aðstæður eða hvort það væri réttlætanlegt að Færeyingar fengju kvóta hér. Mitt svar er a.m.k. afdráttarlaust já. Ég byggi það á því að hvergi höfum við fengið eins mikinn stuðning á umliðnum árum þegar við höfum verið að gera ýmsa erfiða alþjóðlega samninga um sjávarútveg og fiskveiðar og hjá þeim. Það er Færeyingum að þakka að okkur tókst árum saman fyrir ákveðna hjálpsemi þeirra að veiða okkar síldarkvóta. Það voru ekki síst Færeyingar sem leiddu til þess að við fengum kvóta í makríl, þeir studdu okkur í því, og við erum að veiða núna tugi þúsunda tonna af makríl. Ég tel þess vegna að þeir hafi endurgoldið okkur alla vild sem við höfum sýnt þeim.

Ég hef áður lent í svona umræðu þegar skerðingin var 1992 eða 1993. Þá sat ég í ríkisstjórn og við ákváðum að skerða ekki kvóta Færeyinga, það á ekki að gera. Það eina sem á að gera varðandi kvóta þeirra er (Forseti hringir.) að ekki á að leyfa þeim að veiða lúðu, þeir hafa fengið sérstakan kvóta á það. Það er af því að hún er nánast komin í útrýmingarhættu.



[14:03]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Grétari Mar Jónssyni fyrir að vekja athygli á þessum málum. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, að dást að því hvernig hæstv. ráðherra fór að því að svara öllum þessum spurningum því að hér er um tíu spurningar að ræða sem hæstv. ráðherra hefur einungis fimm mínútur til að svara. Mér finnst vert, hæstv. forseti, að við reynum að fækka spurningunum þannig að ráðherra hafi tóm til að svara jafnviðamiklum spurningum og hér eru lagðar fram, því að þegar um svo mikilvægt mál er að ræða finnst mér ófært með öllu að leggja fram tíu spurningar í fyrirspurn þannig að ráðherra hafi innan við 30 sekúndur til að svara hverri og einni. Það getur ekki verið umræðunni til góðs og ég held að við ættum að læra af þessu að stilla spurningum í hóf, a.m.k. skipta þeim þannig upp að við fáum greinarbetri svör.

Hæstv. ráðherra á heiður skilið fyrir að hafa farið á hundavaði yfir allan þennan fjölda af spurningum sem fyrir hann voru lagðar.



[14:04]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hafi gert störfum þingsins mikinn greiða með því að bera fram margar spurningar á einu skjali og leggja þá þraut fyrir hæstv. ráðherra að svara þeim öllum í einni ræðu sem báðum tókst vel, annars vegar fyrirspyrjandanum að bera fram spurningarnar og hins vegar ráðherranum að svara þeim. Ég held að hitt sé ekki eins góð leið, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur farið, að fjöldaframleiða sömu spurningarnar og dreifa þeim á alla tólf ráðherrana og taka upp mikinn tíma þingsins við að svara sömu spurningunum. (BJJ: Ræða byggðamál.) Ég vildi því mælast til þess að hv. þingmaður léti það að vera að vanda hér um við aðra þingmenn.



[14:05]
Fyrirspyrjandi (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hef náttúrlega miklu meira álit á hæstv. sjávarútvegsráðherra en nokkurn tíma framsóknarmaðurinn hv. þm. Birkir Jón Jónsson og ég vissi að hann færi létt með að svara tíu spurningum um svona mál.

Það sem ég hefði viljað leggja áherslu á í þessum spurningum er að það kæmi skýrt fram hvað Færeyingar veiða mikið af þorski í íslenskri lögsögu og það er kannski sú tegund sem við erum hvað forvitnastir um. Auðvitað skiptir loðnukvótinn máli, sem úthlutað var með minnsta móti á síðustu tveimur árum, það hefur sjaldan verið úthlutað minni kvóta af loðnu, og hvað þeir fá af honum.

Þegar fólk á landsbyggðinni býr við það að sjá fram á svartnætti á næstunni þá er það einfaldlega spurning hvort við höfum efni á því að vera góð við Færeyinga. Færeyingar hafa tekið tillit til okkar þegar við höfum átt við erfiðleika að stríða, í eldgosum og einhverju slíku, þá hafa þeir hjálpað okkur vel en þeir skilja okkur líka þegar við þurfum að skera niður veiðiheimildir. Það er líka spurning hvort Færeyingar, okkar bestu vinir, muni ekki skilja það þótt við þyrftum að útiloka þá frá þorskveiði um tíma.



[14:06]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka í mikilli auðmýkt fyrir þau fallegu orð sem féllu um það að mér hafi tekist að fara í gegnum allar tíu spurningarnar en það er auðvitað ekki mér að þakka heldur er það fyrst og fremst viðurkenning á þeirri góðu lestrarkennslu sem hefur farið fram í barnaskólanum í Bolungarvík.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson spurði mig að því hver þorskveiðin væri sem hlutfall af þeirri veiði sem ég rakti hér áðan. Þorskveiði Færeyinga hefur verið rúmlega þúsund tonn á undanförnum þremur árum. Ýsuveiðin, svo ég taki hana til samanburðar, hefur verið um 1.300 og upp í 1.500 tonn á þessu tímabili. En langstærstur hluti þessarar veiði er vitaskuld veiði á uppsjávarfiski, þ.e. loðnu. Ef ég tek síðasta ár þá var loðnan 30 þús. tonn af 54 þús. tonnum, síldin var 11 þús. tonn og kolmunninn 8.400 tonn. Þetta eru stærðargráðurnar í veiðunum. Það er auðvitað uppsjávarfiskurinn sem ber uppi magnið.

Við göngum til samninga við Færeyinga einu sinni á ári og gert er ráð fyrir að við gerum það öðru hvorum megin við næstu áramót. Það kann að spila inn í að kosningar eru fyrirhugaðar í Færeyjum um miðjan janúar en það getur auðvitað haft áhrif á hvernig þessar samningaviðræður fara fram, hvenær þær fara fram og hvernig þær ganga.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að við höfum verið að taka ákvarðanir um það undanfarin eitt eða tvö ár að liðka til fyrir Færeyinga. Það hefur verið ákvæði í samningnum við Færeyinga um að þeir geti ekki ráðstafað loðnuafla sínum nema til bræðslu, þeir hafa ekki fengið að vinna hann í eigin höfnum nema til bræðslu en þeir hafa getað landað honum til manneldis á Íslandi. Þeir hafa lagt mikla áherslu á að fá þessu breytt og um það hefur verið ágreiningur. Við höfum hins vegar gengið til móts við Færeyinga í þessum efnum og ég tel að við höfum komið ágætlega fram við þá. Vitaskuld eru þessi mál öllsömul undir og þá ekki síst þeir stofnar sem eru í hættu eins og (Forseti hringir.) hæstv. iðnaðarráðherra nefndi varðandi lúðuna.