135. löggjafarþing — 32. fundur
 28. nóvember 2007.
íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.
fsp. KHG, 214. mál. — Þskj. 232.

[14:09]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegur er ein helsta atvinnugreinin á landsbyggðinni og þekkt er að miklar breytingar verða í atvinnu- og íbúaþróun í kjölfar þess að minna er veitt og unnið, svo sem þegar kvóti flyst burt frá byggðarlaginu. 30% samdráttur í þorskafla hefur sömu áhrif og kvótaflutningur en meiri þó að því leyti til að minnkunin mun væntanlega koma fram miklu víðar í sjávarbyggðum landsins. Minni afli og vinnsla þýðir einfaldlega fækkun starfa og því fylgir fólksfækkun. Skýr dæmi um þetta má víða finna en e.t.v. eru skýrustu dæmin á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands bendir á í nýútkominni skýrslu um áhrif aflasamdráttar í þorski á fjárhag sveitarfélaga að fólksfækkunin hafi verið mest í aldurshópnum 40 ára og yngri og þess má vænta að svo verði einnig nú vegna þeirra áhrifa sem verða vegna samdráttar í þorskveiðum á næstu árum. Vellaunuðum störfum í útgerð mun fækka og líklega munu meðaltekjur viðkomandi byggðarlaga lækka. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands metur áhrif samdráttarins um 12 milljarða kr. á þremur árum í minnkun vergra þáttatekna á landsvæðinu utan höfuðborgarsvæðisins.

Á síðustu tíu árum hefur orðið mikil fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu, um 27 þúsund manns á árunum 1997–2006, en veruleg fækkun á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra, um 1.200 manns á hvoru svæði á þessu árabili, nánast kyrrstaða á Norðurlandi eystra en fjölgun á þeim svæðum sem liggja að höfuðborgarsvæðinu.

Á þessum tíma hafa líka orðið verulegar breytingar á meðaltekjum eftir landsvæðum í þá veru að meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu hafa vaxið meira en á landsbyggðinni og sundur dregið með svæðunum. Nú eru meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu 18% hærri en á landsbyggðinni. Meðaltekjur eru 27% hærri á höfuðborgarsvæðinu en á Suðurlandi og Norðurlandi vestra, 22% hærri en á Vestfjörðum og 17% hærri en á Norðurlandi eystra. Munurinn hefur vaxið úr því að vera 11% árið 1998 í 22% á Vestfjörðum. Á Suðurnesjum hefur munurinn vaxið enn meira, áður var munurinn aðeins 1% en er núna orðinn 14%.

Virðulegi forseti. Ég vil því í ljósi þeirrar ákvörðunar sem tekin hefur verið um að draga úr þorskveiðum á næstu árum leyfa mér að leggja fyrir hæstv. iðnaðarráðherra tvær spurningar sem er finna á þskj. 214.



[14:12]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þær spurningar sem hv. þingmaður varpar til mín jafngilda því í rauninni að hv. þingmaður vilji fá léða hjá mér kristalskúlu til að skyggnast inn í framtíðina. Slíkur spámaður er ég einfaldlega ekki.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er langlíklegast, eins og kemur fram í þeirri skýrslu sem hann vísaði til, að hin mikla þorskaflaskerðing komi harðast niður á þeim byggðarlögum sem eru háðastar sjávarútvegi. Hins vegar er ekki hægt að slá neinu föstu um það hvernig þróun verður í einstökum byggðarlögum af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi bendi ég á að þegar Byggðastofnun, sú stofnun sem hv. þingmaður veitti forstöðu fyrir nokkrum árum, gerði á því úttekt í september hvernig útgerðarmenn og þeir sem reka fiskvinnslu telja að þróunin verði, þá töldu þeir allsendis óvíst að hægt væri að spá um það þrjú ár fram í tímann.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin gripið til mótvægisaðgerða sem kosta 6,5 milljarða og munu líklega að sögn fjármálaráðuneytisins skapa 500–600 störf.

Í þriðja lagi bendi ég á að í mótvægisaðgerðunum er að finna margvíslegar úrbætur að því er menntun varðar en hv. þingmaður hefur sjálfur margoft bent á það í þessum sal að aukið framboð á menntun auki rótfestu í héraði og þar með dragi úr fólksfækkun.

Í fjórða lagi hefur ríkisstjórnin verið önnum kafin við að treysta grunngerðina á landsbyggðinni, bæði með því að bæta samgöngur, með því að taka ákvörðun um að bjóða út háhraðatengingar þar sem þær eru ekki og með því að bæta og auka samkeppni í ljósleiðarakerfinu. Þetta er allt saman aukinn og traustari grundvöllur fyrir hugmyndir manna sem vilja reyna að búa til ný störf. Þetta hefur allt saman áhrif. Á þessu stigi er því ekki hægt að halda neinu fram, eða ég treysti mér a.m.k. ekki til þess, hvernig íbúaþróunin muni verða. Hugsanlega má þó lesa vísbendingu um þessa þróun úr þeim tölum sem hv. þingmaður vísaði m.a. til áðan varðandi fólksfjöldaþróun á landsbyggðinni. Það kemur í ljós að á Austurlandi hefur fólki fjölgað um 22%, um 12% á Suðurlandi, 8% á Vesturlandi og 2% á Norðurlandi eystra. Hins vegar hefur samdráttur í hefðbundnum atvinnugreinum leitt til þess að það hefur fækkað á Vestfjörðum um 14% og 10% á Norðurlandi vestra.

Í hnotskurn er svar mitt við fyrri spurningu þingmannsins þetta: Ég er bjartsýnn á að íbúum haldi áfram að fjölga á Austurlandi, Suðurlandi og Vesturlandi og ég tel allgóðar líkur á að í sömu átt halli á Norðausturlandi, ekki síst ef ráðist verður í stórframkvæmdir í þeim landshluta. Ég vona líka að undir lok þorskaflaskerðingarinnar hægi á núverandi íbúaþróun á Vestfjörðum, m.a. vegna aðgerða Vestfjarðanefndar. Ég tel að það þurfi svipaðar aðgerðir á Norðurlandi vestra og menn gripu til á Vestfjörðum til þess að geta hægt á þróun þar og að lokum snúið henni við.

Hv. þingmaður spyr líka um áhrifin á meðaltekjur. Ég kannast ekki alveg við þær tölur sem hv. þingmaður fór með áðan um það hvernig þróunin hefur verið. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, þ.e. meðalatvinnutekjur sem reiknaðar eru sem summa árstekna í aðalstarfi í hverri atvinnugrein deilt með meðalfjölda starfa, þá voru hæstu meðaltekjur í aðalstarfi árið 2005 á höfuðborgarsvæðinu rífar 3 milljónir og lægstar á Norðurlandi vestra og Suðurlandi eða tæpar 2,5. Eins og ég sagði, og hv. þingmaður er mér sammála um, er líklegast að í þeim sveitarfélögum sem eru háðust sjávarútvegi verði afleiðingarnar erfiðastar. Við skulum ekki gleyma því að 53 þúsund íbúa landsins, 17%, búa í byggðarlögum þar sem 10% af landsframleiðslunni, ef svo má segja, koma frá þessum atvinnugreinum. Ég leitaði upplýsinga hjá Byggðastofnun, sem hv. þingmaður veitti stjórnarformennsku fyrr á árum, og hún treysti sér ekki til að spá nákvæmlega fyrir um það hvernig þorskaflaskerðingin muni hafa áhrif á meðaltekjur einstakra landshluta. Ég hef ekki gögnin og þótt ég sé spámannlega vaxinn hef ég ekki getuna til að geta lagt þetta fyrir hv. þingmann. Ég get sagt honum mitt almenna mat. Ég held að þar sem hlutfall starfa í veiðum og vinnslu er langlægst á höfuðborgarsvæðinu sé ljóst að áhrif á meðaltekjur þar verða mun minni en á landsbyggðinni og af því dreg ég þá einföldu ályktun að á meðan þorskaflaskerðingin varir dragi heldur sundur með höfuðborgarsvæðinu og þeim landshlutum sem eru háðastir sjávarútvegi og höfðu minnstar meðaltekjur árið 2005.



[14:17]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. byggðamálaráðherra á erfitt með að svara þeirri spurningu sem hér er að honum beint. Það er mikið áhyggjuefni hvernig staðan er á landsbyggðinni í dag og mjög mikið óhagræði felst í því að það verði frekari fólksflutningar hingað á höfuðborgarsvæðið. Það er mjög óhagkvæmt að horfa upp á tóm hús, tóma skóla, tómar sundlaugar o.s.frv. þannig að þetta er samfélagsverkefni sem við verðum að takast á við. Auðvitað urðu það mjög mikil vonbrigði fyrir flestalla landsmenn þegar við sáum mótvægisaðgerðirnar sem ríkisstjórnin greip til vegna þorskaflasamdráttar. Þær mótvægisaðgerðir voru allt of veikar og ómarkvissar. Ég tel að það þurfi að gera miklu betur í þessum málum, virðulegur forseti. Við eigum ekki að horfa fram á að það dragi frekar í sundur með höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Við verðum að sporna við því af því að annað er mjög óhagkvæmt fyrir okkur öll.



[14:18]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Enn og aftur fer hæstv. iðnaðarráðherra að hæla sér af mótvægisaðgerðum. Manni verður nánast illt við að hlusta á þetta bull og þessa þvælu um það að þetta sé til þess að leiðrétta og hjálpa fólki á þessum stöðum. Það er ekkert að gera fyrir fólkið á landsbyggðinni. Það er svo sorglegt. Og það er enn þá sorglegra að stjórnmálaflokkur eins og Samfylkingin lofaði því fyrir síðustu kosningar að gera breytingar á fiskveiðistjórninni sem yrði til að færa fólkinu aftur fiskinn. Margir frambjóðendur Samfylkingarinnar héldu því fram að ef þeir kæmust til valda yrðu gerðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Manni sýnist að þeir séu að svíkja öll þau loforð, allir þeir frambjóðendur sem töluðu fyrir þessu í kosningabaráttunni.



[14:19]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þá fyrirspurn sem hann leggur hér fram. Hún er þörf og í rauninni sívirk eða á alltaf að vera uppi. Eins og hér hefur komið fram er hann fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar og ég sit þar í stjórn þannig að ég tek væntanlega við einhverju kefli þar til að fylgja eftir. Mér hins vegar þykir dálítið drjúgt í lagt af hv. þm. Grétari Mar Jónssyni þegar hann er að berja niður þær tillögur sem hér hafa verið bornar uppi af hæstv. ríkisstjórn um mótvægisaðgerðir svokallaðar. Það ber að fagna því ... (GMJ: Þær eru ekki að leysa neinn vanda.) Það ber að fagna því þegar menn leggja til atlögu við þann (Gripið fram í.) vanda sem steðjað hefur að landsbyggðinni. Menn eiga að þakka fyrir það sem vel er gert en það verða alltaf verkefni til að takast á við sem betur fer og nú sjáum við það í tillögum til aðgerðar og stuðnings Vestfjörðum, við sjáum það í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar, að það er vilji til þess að taka á í fyrsta skipti í langan tíma og það ber að þakka. (GMJ: Breytið þá fiskveiðistjórnarkerfinu.)



[14:20]
Forseti (Magnús Stefánsson):

Forseti biður hv. þingmenn að halda ró sinni.



[14:20]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er merkilegt að sjá hv. stjórnarliða koma upp og halda ekki vatni yfir þessum svokölluðu mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti með svo hástemmdum hætti síðasta sumar. Þá sagði hæstv. ráðherra að það ætti að flytja 80 opinber störf á Vestfirði og að tillögurnar yrðu komnar til framkvæmda áður en þing kæmi saman. (Iðnrh.: 30 sagði ég.) Áttatíu. (Iðnrh.: Nei, nei, nei.) Hver er staðreynd mála? (Gripið fram í: Hringdu í þá.)

Hæstv. forseti. Því miður var það þannig að hæstv. ríkisstjórn vakti gríðarlegar væntingar. Mörg byggðarlög hringinn í kringum landið standa utan við þessar mótvægisaðgerðir og á sama tíma er ríkisstjórnin meðal annars að fækka störfum á Akureyri með því að leggja niður starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar. Hvert á að flytja það? Til Reykjavíkur! Til Reykjavíkur! Það eru mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart Akureyringum. Svo koma menn hér upp (Forseti hringir.) og hæla sér af þessum svokölluðu mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Svei mér þá.



[14:22]
Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að koma með þessa tímabæru fyrirspurn. En með sama hætti verður að segja það varðandi iðnaðarráðherra að það sem kemur fram hvað skýrast í svörum hans er að ríkisstjórnin er ekki að marka neina langtímastefnu um það hvernig menn telja að eigi að haga byggðaþróun í þessu landi. Það sem skín út úr þessum svörum er að það er engin langtímastefnumörkun til. Það er engin hugmynd. Og hér stóð iðnaðarráðherra áðan í volæði sínu og segir að hann sé hugsanlega spámannlega vaxinn en hann geti ekki spáð fyrir um það hvernig hlutirnir eigi að vera og ber síðan fyrir sig að ákveðin stofnun hafi ekki gefið honum svör sem sýnir það að ríkisstjórnin er nákvæmlega ekkert að gera í málinu heldur hefur birt ákveðna yfirlýsingu (Forseti hringir.) um mótvægisaðgerðir sem er áróðursplagg án eða með mjög takmörkuðu innihaldi eins og ég skrifaði um á bloggsíðu mína.



[14:23]
Jón Björn Hákonarson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar fyrirspurnir hjá Kristni H. Gunnarssyni. Hæstv. ráðherra fór yfir breytingar á íbúaþróun, þá breytingu sem varð á Austurlandi og hana má kannski þakka þeim miklu framkvæmdum sem þar eru og verða teknar í gagnið að hluta til á föstudaginn þar sem Kárahnjúkavirkjun er. Það sýnir okkur að til að rjúfa þá miklu kyrrstöðu sem vill verða þarf svona stórar framkvæmdir. Það er svolítið grátlegt að á sama tíma virðist ríkisstjórnin og Samfylkingin vera í þeirri stöðu að blása af kannski aðra slíka framkvæmd á Húsavík þar sem við erum að horfa á erfiða hluti. Ég vildi taka fram að það var mikill stórhugur sem ýtti þeim verkum af stað og það er kannski líka nauðsynlegt. En ég hætti mér ekki út í umræðu um mótvægisaðgerðir á einni mínútu.



[14:24]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Það gerðist í haust og sumar að boðaðar voru einhvers konar mótvægisaðgerðir og orðið stórkostlegasta var að mínu mati gengisfellt verulega af hæstv. iðnaðarráðherra vegna þess að þær reyndust ekkert sérstaklega stórkostlegar.

Þetta snýst fyrst og fremst um samkeppnisaðstöðu landsbyggðarinnar. Í stuttu máli þarf að styrkja grunngerðir. Við þurfum að hugsa stærra í samgöngumálum. Við þurfum að huga stærra í menntamálum og við þurfum að skapa einingar. Við þurfum að skapa heild á Norðurlandi. Við eigum að skapa heild á Vestfjörðum og skapa heild á Austurlandi. Við getum skapað þar miðju þannig að svæðin nýtast hvert öðru.



[14:25]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg ótrúleg umræða sem hér fer fram. Það sem ég varð eiginlega mest undrandi yfir er að heyra hv. þingmenn Frjálslynda flokksins og þeirra orðbragð í salnum. Hv. þm. Jón Magnússon talar um að ráðherra standi hér í volæði sínu. Það er nákvæmlega ekkert volæði í gangi hvað varðar byggðamálin. Það sést svo glögglega í fjárlagafrumvarpinu sem núna er verið að vinna með. Þar er verið að setja milljarðatugi í að byggja upp innviðina úti á landi. Það er verið að leggja milljarðatugi í samgöngumál. Það er verið að gera nákvæmlega það sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi í sinni ræðu rétt áðan.

Virðulegi forseti. Ég vil líka segja alveg eins og er að það er merkilegt að heyra hv. þingmenn Framsóknarflokksins koma hér upp og gagnrýna það sem verið er að gera þegar þeir eru búnir að vera með byggðamálaráðherrann árum saman og það gerðist nákvæmlega ekkert í byggðamálum, nákvæmlega ekkert. Það sem hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) er að gera hér (Forseti hringir.) bæði með mótvægisaðgerðum og fleiri aðgerðum eins og átaki í samgöngumálum, er að hefja stórsókn í uppbyggingu landsbyggðarinnar. (JM: Stórsókn til Reykjavíkur.)

(Forseti (MS): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tóm til að flytja sínar ræður.)



[14:27]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mér þykir þetta orðin alveg afskaplega undarleg umræða og að hlusta á Framsóknarflokkinn æpa yfir því að ekkert hafi verið gert í byggðamálum eftir að hafa setið með byggðamálaráðuneytið (Gripið fram í.) árum saman er náttúrlega alveg með ólíkindum. Það er þannig að þessar mótvægisaðgerðir (Gripið fram í.) sem nú … Forseti, getur þú tryggt að ég geti fengið að tala hérna.

(Forseti (MS): Forseti ítrekar óskir sínar til þingmanna að hafa hljóð meðan ræðumaður …)

Það er verið að fara í stórkostlegar mótvægisaðgerðir. Þetta er algert nýmæli. Þetta hefur ekki verið gert áður (Gripið fram í.) og ég vil að það komi fram sérstaklega og þess vegna er ánægjulegt að lesa upp úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar — en það kom reyndar til áður en skerðingin varð á þorskveiðikvótanum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Úrbætur í samgöngum eru lykilatriði til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og lækka flutningskostnað. Styttri vegalengdir milli byggðarkjarna og öruggari vegir skapa möguleika á stærri og lífvænlegri atvinnu- og búsetusvæðum. Ráðist verði í stórátak í samgöngumálum og aukin áhersla lögð á umferðaröryggi og almenningssamgöngur.“



[14:28]
Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég gat ekki annað en kvatt mér hljóðs eftir að ég hlustaði á alveg ótrúlega ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Að hugsa stærra í samgöngumálum og hugsa stærra í menntamálum! Ég meina, hvað er maðurinn að fara? Það hefur aldrei verið gert jafnmikið og núna stendur fyrir dyrum í báðum þessum málaflokkum úti á landi. (EMS: Þeir skammast sín.) Mér finnst alveg ótrúlegt að þinn flokkur, hafandi verið í ríkisstjórn undanfarin ár, skuli höggva í þetta. Hvað kemur fram í fjárlagafrumvarpinu? Hvergi og aldrei hefur verið gert meira átak gagnvart landsbyggðinni í þessum efnum.



[14:29]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og ráðherranum fyrir svörin. Að mörgu leyti er ég sammála því sem hann dró saman sem sína niðurstöðu, að það sé líklegt að þróunin verði þannig að á þeim svæðum landsins þar sem þróunin hefur verið afleit á síðustu árum, þ.e. Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og að hluta til á Austurlandi muni draga meira í sundur með höfuðborgarsvæðinu og þeim svæðinu bæði í tekjum og störfum. Það mun þýða áframhaldandi fólksfækkun á þeim svæðum og líklega hraðari fólksfækkun en verið hefur til þessa vegna áhrifanna af svona mikilli skerðingu á þorskveiðiheimildum. Það er auðvitað alvarleg staða sem verður að bregðast við.

Formaður Samtaka fiskvinnslustöðva hefur áætlað að samdrátturinn í þorskveiðiheimildum einum muni fækka störfum í fiskvinnslu um 500 og hann áætlar að störfum í sjávarútvegi muni fækka um 1.000. Mér þykir einkennilegt að stofnanir ríkisins skuli ekki hafa tiltækar neinar áætlanir um hvernig þróunin verði á næstu árum í kjölfar þessarar ákvörðunar sem er pólitísk ákvörðun fyrst og fremst þó að hún sé byggð á tilteknum forsendum. Þeir sem taka slíka ákvörðun eiga að mínu viti að undirbúa þær með því að leitast við að gera sér grein fyrir áhrifunum og koma síðan fram með aðgerðir sem eiga að vega þar upp á móti.

Ég tel að allt það sem gert er í nafni mótvægisaðgerða sé af hinu góða og geri hver þáttur í því sitt gagn hvort sem það eru samgöngubætur eða flutningur starfa. Það sem ég held hins vegar, virðulegi forseti, er að það sem gert er í mótvægisaðgerðum sé ekki nema brot af hinu sem er verið að draga saman og þess vegna verði áhrifin svona slæm.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að huga betur að því (Forseti hringir.) hvernig þróunin verður á köldustu svæðum landsins í skilningi hagvaxtar, á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, og spyr hann um það hvað hann er að hugleiða varðandi Norðurland vestra með ummælum sínum áðan.



[14:31]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þarna talaði rödd skynseminnar í Frjálslynda flokknum. Hv. þm. Jón Magnússon talaði hér þvert á það sem hann hefur áður sagt og ættu menn nú að lesa heimasíðu hans þar sem hann kvartaði undan því þegar mótvægisaðgerðirnar voru kynntar að þar væri verið að bera eldsneyti á bál þenslunnar. Akkúrat — og hann kinkar kolli.

Með öðrum orðum, hv. þm. Jón H. Magnússon er í reynd tveir persónuleikar, sá sem skrifar á heimasíðuna sína og sá sem stendur hér í þinginu. [Hlátur í þingsal.] Ég gat ekki varist að nota þessa samlíkingu. (JM: Margur heldur mig sig.)

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson er allt of góður og vel gerður þingmaður til þess að koma hér með hrópyrði, ekki síst vegna þess að með ummælum sínum vegur hann að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson dró saman kjarnann í svörum mínum og sagðist vera sammála þeim. Hann sagði að vísu að svörin hefðu ekki verið nægilega skýr og skammaðist svolítið út í sína gömlu stofnun. En hann sagði hins vegar líka að hann væri sammála mótvægisaðgerðunum og því sem þar kæmi fram. Allt það væri af hinu góða.

Rödd skynseminnar í Frjálslynda flokknum er því sem betur fer miklu bjartari en rödd úrtölunnar. Úrtölumennirnir tveir, (Gripið fram í.) alveg eins og sumir þingmenn Framsóknarflokksins sem hér hafa talað, þeir tala niður landsbyggðina. Allir nema hv. þm. Jón Björn Hákonarson, sem kom hérna og er ekki enn búinn að læra á gangvirkið í Framsóknarflokknum og talaði með öðrum hætti en liðið sem þar situr fyrir á bekkjum. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði mig einnar spurningar um Norðurland vestra. Hvað hyggst ég fyrir? Ég sagði að til þess að snúa við þróuninni og bæta stöðuna þar yrði að grípa til einhverra svipaðra aðgerða og menn gerðu á Vestfjörðum. Það kann vel að vera að það gangi ekki nógu langt en það er það sem ríkið (Forseti hringir.) getur gert.