135. löggjafarþing — 35. fundur
 3. desember 2007.
þingsköp Alþingis, frh. 1. umræðu.
frv. StB o.fl., 293. mál (starfstími Alþingis, eftirlitshlutverk, ræðutími o.fl.). — Þskj. 333.

[20:01]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti Alþingis hefur talað fyrir breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Ég minni á að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gagnrýnt þetta frumvarp harkalega og vinnubrögðin sem því tengjast og það er dapurlegt til þess að hugsa að hæstv. forseti skuli stefna þessu máli inn í umræðu í þingsal í ósætti við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ég gerði grein fyrir afstöðu okkar við upphaf þessarar umræðu undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta og vísa til þess sem þar kom fram. Ég gat þess jafnframt þá að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði boðað til fundar með fréttamönnum í dag til þess að skýra afstöðu okkar til þessa frumvarps en greinargerð sem fjölmiðlum var afhent var jafnframt komið í hólf sérhvers þingmanns. Ég ætla að lesa upphaf þessarar greinargerðar og fara síðan orðum um þær tillögur sem hér liggja fyrir. Í upphafsorðum greinargerðar þingflokks VG segir, með leyfi forseta:

„Hornsteinar stjórnskipunar Íslands, eins og annarra vestrænna lýðræðisríkja, er þrískipting valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þannig er leitast við að tryggja viðunandi jafnvægi í samfélaginu milli lýðræðislegs valds almennings, beins og óbeins, í gegnum kjörna fulltrúa og framkvæmdarvaldsins sem situr í umboði Alþingis þar sem hér ríkir þingræði og þingbundin ríkisstjórn er við völd. Dómsvaldið sker úr ágreiningi. Almennt er ekki um það deilt að á Íslandi er þjóðþingið veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu og hefur því miður fremur veikst en hitt undanfarinn einn til einn og hálfan áratug. Staða Alþingis sem slíks gagnvart framkvæmdarvaldinu snýst eðli málsins samkvæmt einkum og sér í lagi um möguleika og réttindi minnihlutans hverju sinni til þess að sinna sínu mikilvæga hlutverki, hlutverki stjórnarandstöðunnar, aðhaldshlutverkinu. Mikilvægur liður í þessu hlutverki stjórnarandstöðu, eða hvers og eins þingmanns ef svo ber undir, er að standa fyrir rökræðum og koma mismunandi sjónarmiðum á dagskrá og út í samfélagið. Því má aldrei gleyma að hlutverk Alþingis er margþætt, sem sagt ekki bara löggjafarstarf, heldur er Alþingi líka helsti vettvangur pólitískra skoðanaskipta og umræðu í landinu. Þar takast stjórnmálaflokkarnir og lýðræðislega kjörnir fulltrúar á og þeirri viðureign verður að skapa viðunandi umgjörð sem felst einkum og sér í lagi í því að tryggja réttindi minni hlutans, tryggja málfrelsi hans og rétt til þess að vera ávallt á varðbergi og koma ávallt að sínum sjónarmiðum.

Því fer fjarri að það sé ræðutíminn einn sem skipti hér máli heldur er hann hluti af stærri heildarmynd. Réttindi stjórnarandstöðunnar og ákvæði þingskapa sem tryggja eiga lýðræðisleg skoðanaskipti, umræður, vönduð vinnubrögð og vandaða lagasetningu Alþingis eru allt ein heild. Réttindi stjórnarandstöðunnar, þar á meðal möguleikar hennar til málflutnings, eru hluti af stærri heildarmynd og verða ekki frá henni skilin. Það er ekki markmið í sjálfu sér að halda langar ræður og þaðan af síður leiðinlegar eða innihaldsrýrar. Markmiðið er að tiltekið lágmarksjafnvægi sé alltaf til staðar á Alþingi Íslendinga, þar sem kjörnir fulltrúar allra helstu sjónarmiða í stjórnmálum landsins eiga sinn vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þingsköp Alþingis geyma þar af leiðandi fjölmörg ákvæði sem öll miða að því sama: að tryggja vandaða umfjöllun um mál, að tryggja að þingnefndir geti sinnt rannsóknaskyldu sinni, að tryggja að öll sjónarmið fái að heyrast og tryggja að framkvæmdarvaldið geti ekki í krafti meiri hluta síns rúllað umdeildum eða viðamiklum málum í gegn fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Það gefist bæði tími, ráðrúm og aðstæður til þess að rannsaka mál og ræða og vekja um leið í gegnum hinn opna umræðuvettvang Alþingis, þar sem fundir fara fram í heyranda hljóði, athygli á því sem þar er á dagskrá.“

Í greinargerðinni minnum við á þær breytingar sem gerðar hafa verið á þinginu. Árið 1991 voru málstofur þingsins, efri og neðri deild, sameinaðar í eina. Áður höfðu öll lagafrumvörp önnur en fjárlög farið hið minnsta í gegnum sex umræður í þinginu. Þó að ég ætli ekki í þessari ræðu minni að fara að elta ólar við einstaka þætti í málatilbúnaði og röksemdafærslu hæstv. forseta þingsins þegar hann mælti fyrir þessu frumvarpi verð ég þó að segja að mér finnst ansi langt gengið þegar sagt er að með þessu frumvarpi sé verið að rýmka málfrelsi á Alþingi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að nú geti menn fengið að tala svo oft.

Eins og sakir standa gengur það fyrirkomulag sem við búum við núna út frá því að við 2. og 3. umr. lagafrumvarpa sé ótakmarkaður ræðutími. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er hugmyndin sú að við 2. og 3. umr. fái sérhver þingmaður 15 mínútur í upphafi máls, fyrsta ræða 15 mínútur. Síðan kemur að því sem hæstv. forseti segir að sé svo mjög til góðs til að rýmka málfrelsið, menn fá að tala eins oft og þeir vilja eftir þetta, 5 mínútur í senn. Með öðrum orðum, einstaklingur sem ætlar að koma málstað sínum á framfæri og röksemdafærslu í flóknu máli á 50 mínútum þarf að taka tíu sinnum til máls. Þetta er frelsið sem hæstv. forseti þingsins, Sturla Böðvarsson, býður stjórnarandstöðunni upp á.

Er ekki eitthvað undarlegt við það, er ekki eitthvað bogið við það að reynt sé að þröngva í gegnum þingið breytingum á þingsköpum sem ganga í blóra við það sem stjórnarandstaðan vill, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn vill? Er ekki eitthvað að því?

Breytingar hafa verið gerðar á þingskapalögum á undanförnum árum. Gerðar voru breytingar á þingskapalögum síðast í vor en á síðasta vetri voru einnig lögfestar breytingar á þingsköpum. Hvaða breytingar voru það? Þar var fyrst og fremst verið að laga þingið, þingsköpin, lögin sem gilda um þinghaldið, að þeim breytingum sem í reynd höfðu átt sér stað, að færa til samræmis veruleikann og lögin. Það voru þær breytingar sem verið var að gera vegna þess að þingið er að sjálfsögðu að þróast, þingið er að breytast. Frá þeim tíma sem ég kom fyrst til þings, 1995, hafa orðið breytingar á ýmsum þáttum í vinnulagi þingsins, sumt mjög til góðs. Þannig hefur það verið að breytast, tel ég, að afgreiðsla á málum sem lítill ágreiningur er um gengur hraðar fyrir sig en áður.

Yfirleitt eru umræður um þingmál stuttar á Alþingi Íslendinga og yfirleitt fer fram vönduð umræða í nefndum þingsins. Þetta er það vinnulag sem gildir um allflest þingmál. Síðan eru undantekningarnar og hverjar skyldu þær vera? Þær eru einkum af tvennum toga. Annars vegar þingmál sem koma frá ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta sem að kröfu ríkisstjórnar eða viðkomandi ráðherra þurfa að fá mjög hraða afgreiðslu. Við þekkjum það hvernig málum hefur verið hent inn í þingið og þingheimi síðan þröngvað til að afgreiða málin með miklum hraða og þá gerast slysin. Þá hafa menn reynt að spyrna við fórum og knýja fram málefnalega umræðu um viðkomandi mál.

Hins vegar eru mál sem hafa kallað á mikla umræðu. Það eru þau hitamál sem heitast brenna á þjóðinni hverju sinni. Þetta eru ekki mörg mál. Ef við lítum aftur til ársins 1990 eða þar um bil hygg ég að þetta séu á milli 10 og 15 mál, (ÖS: Þrjú.) Þrjú, hugsanlega, segir hæstv. iðnaðarráðherra. Þetta eru mjög fá mál. Hvaða mál eru þetta? Það er EES-samningurinn, það var deilt um það hér dögum og reyndar vikum saman hvort hann stæðist stjórnarskrá Íslands. Er ekki eðlilegt að taka góða umræðu um slíkt? Jú. Úti í þjóðfélaginu voru háværar kröfur um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, þjóð og þing kölluðust á. Það var líflega umræða um málið, mynduð voru samtök úti í þjóðfélaginu. Hefði verið eðlilegt að hespa þessu máli af? Ég segi nei. Einkarekinn gagnagrunnur á heilbrigðissviði, var ekki eðlilegt að menn tækju sér tíma til að ræða það mál? Kárahnjúkavirkjun kallaði á mikla umræðu. Hún var ekki ýkjamikil úti í þjóðfélaginu áður en málið kom til kasta þingsins. Hópur listamanna var reglulega með fundi og vakningarsamkomur fyrir utan þingið til að reyna að vekja okkur og vekja samfélagið. Síðan fór það að gerast smám saman að þjóð og þing fóru að kallast á, umræða skapaðist í fjölmiðlum. Er það slæmt? Nei, það er bara mjög gott.

Það á að vera erfitt að koma umdeildum málum í gegnum þing og lögfesta þau. Menn þurfa að geta sannfært þingið og menn þurfa að geta sannfært þjóðina. Við skulum ekki gleyma því heldur að mörg þeirra mála sem hafa verið hvað umdeildust fengu ekki lýðræðislega umfjöllun í þjóðfélaginu áður en þau komu skyndilega fram sem tillögur stjórnarmeirihluta um lagabreytingar. Ég er að vísa hér í einkavæðingu undangenginna ára og í ýmis mál sem hafa verið hvað mest umdeild á liðnum árum. Ég tala fyrir því að við förum mjög varlega þegar við takmörkum lýðræðislega umræðu, við eigum að stíga þar varlega til jarðar.

Hv. þm. Helgi Hjörvar talaði hér um daginn. Helgi Hjörvar er skemmtilegur ræðumaður og var ræðusnillingur fyrr á tíð. Hann sagði að ef einhver þyrfti að tala lengur en í 15 mínútur um tiltekið málefni þyrfti að senda viðkomandi í endurmenntun. Menn höfðu svolítið gaman af þessu, þótti þetta vera hnyttið. Mig langar þá líka til gamans að lesa hér úr umhugsunarverðum pistli eftir Þorstein Siglaugsson um nákvæmlega þetta efni. Hann segir um þessi ummæli Helga — ég vík að þessu af því að mér finnst þetta snerta kjarna málsins að ýmsu leyti — hann segir, með leyfi forseta:

„Ef við rýnum aðeins í orð Helga Hjörvars virðist sem að baki þeim liggi sú afstaða að tilgangur þingræðna sé sá einn að koma skoðunum á framfæri. En er það svo? Til hvers starfar þingið? Til hvers halda þingmenn ræður?

Ef markmiðið með ræðuhöldum á þingi er bara það að koma skoðun á framfæri mætti væntanlega að ósekju stytta ræðutímann í fimm mínútur, jafnvel eina eða hálfa mínútu. Líka mætti enn auka skilvirknina og sleppa ræðuhöldunum alveg enda geta þingmenn auðvitað komið skoðun sinni á framfæri í atkvæðagreiðslu.

Ég vissi hins vegar ekki betur en svo að tilgangur löggjafarsamkundunnar væri sá að tryggja að mál fengju vandaða umfjöllun. Að þau væru rökrædd í þaula.

Sum þingmál eru flókin. Stundum eru þingmál þess eðlis að til að hægt sé að fjalla um þau af skynsamlegu viti þarf langar ræður því öðruvísi er ekki hægt að rekja röksemdirnar með eða á móti í samhengi, með þeim tilvísunum til gagna sem þörf er á.

Engum hefur, mér vitanlega, komið til hugar að takmarka þann tíma sem lögmenn hafa til að spyrja vitni eða flytja ræður í rétti. Ástæðan er auðvitað sú að slíkt kemur niður á málflutningi. Alþingi er ekki réttarsalur. En í réttinum er starfað eftir lögum sem Alþingi setur. Ef rétturinn takmarkar ekki málflutningstíma er þá ekki enn síður ástæða til að löggjafarsamkundan sem setur lögin sjálf takmarki hann?

Helgi Hjörvar er gamall ræðusnillingur úr Morfís. Ræðuhöld í Morfís snúast um að höfða til tilfinninga áheyrendanna og fá þá til að snúast á sveif með ræðumanni, oft á mjög yfirborðslegum forsendum. Fyrir löngu síðan gagnrýndi Sókrates morfísmenn síns tíma, sófistana. Hann sagði ræðusnilld þeirra innantóma og spillandi því hún leiddi athyglina frá sannleika málsins að yfirborði og aukaatriðum. Sókrates skrifaði engar bækur en það sem eftir honum er haft fyllir margar bækur, líklega merkilegustu bækur heimspekisögunnar. Í þeim er ekki aðeins verið að „koma skoðunum á framfæri“ heldur færa fyrir þeim rök. Ég er ekki viss um að mikið vit yrði eftir í Gorgíasi eða Faídoni eftir Platón ef Helgi Hjörvar stytti þessi verk niður í fimmtán mínútna yfirlit um skoðanir Sókratesar, jafnvel þótt hann sé góður penni.

Það er vissulega rétt að stundum eiga þingmenn það til að tala lengi bara til að tala lengi og tala þá stundum um ekki neitt. En stundum flytja þeir líka langar ræður sem geisla af rökvísi og viti. Lausnin á vondum málflutningi er ekki sú að banna vandaðan málflutning. Hún felst í því að bæta málflutninginn.

Það er því skoðun mín að með því frumvarpi sem nú liggur fyrir sé verið að hefla viðinn í líkkistu þingræðisins því verði það að lögum verður oft á tíðum einfaldlega ekki hægt að halda uppi vitrænni umræðu um flókin þingmál. Ég hefði auðvitað getað látið duga að setja skoðun mína fram rakalaust. Það hefði orðið miklu styttri texti. Ég bið Helga Hjörvar og félaga hans afsökunar á því, að láta það ekki duga.“

Mér finnst þetta vera skemmtileg hugleiðing og snerta kjarna máls.

Það er tvennt sem ég vil gera hér að umfjöllunarefni og snertir aðdragandann að því að við höfum þetta frumvarp hér fyrir framan okkur. Þegar hæstv. forseti þingsins, Sturla Böðvarsson, tók við stjórnartaumum þar lýsti hann eindregnum vilja að gerðar yrðu breytingar á þingskapalögunum. Hann er ekki einn um að lýsa yfir slíkum vilja því að það hafa nánast allir forverar hans gert enda ekkert nema gott um það að segja að menn vilji bæta starfsumhverfi sitt og þau lög og þær reglur sem við störfum eftir.

Hann gerði hins vegar þau mistök að mínu mati að tengja tvennt saman — og svo ég vitni í hans eigin orð, „órjúfanlegum böndum“ — annars vegar breytingar á starfsaðstöðu þingsins og þingmanna almennt og breytingar á þingskapalögunum hins vegar. Ágreiningur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við aðra þingflokka hér, bæði stjórnarmeirihluta og Framsóknarflokk og Frjálslynda flokksins snerist að hluta til um þetta, við vildum höggva þarna á milli. Hæstv. forseti vísaði í skínandi utanferðir sem bíða þingmanna núna, aðstoðarmenn flokksforingja og bætta aðstöðu, bætta aðstöðu í þinginu almennt, (Gripið fram í: Nei.) og hér er komin skýringin á því að við töluðum um verslun og viðskipti. Við vildum ekkert hafa með slíkt að gera. Það ætti ekki að tengja breytingar á þingskapalögum … (GÁ: Ómerkilegt.) Ómerkilegt, segir hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. Ég er að lýsa veruleikanum, hann er ekkert ómerkilegur. Ef hv. þingmanni finnst hann vera ómerkilegur ætti hann að horfa í spegil síns eigin flokks og spyrja hvernig þeir hafi komið fram í þessu máli, flokksmenn hans.

Við vorum að segja að ágreiningur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við aðra flutningsmenn þessa frumvarps byggir að hluta til á þessu, að við vildum greina þarna á milli, höggva þarna á milli. Við vildum og viljum bæta aðstöðu þingsins en gera þetta óháð. Andstaðan og gagnrýnin sem kom hér fram í dag þegar greidd voru atkvæði um fjárlög og þá m.a. fjárlagaliði sem lúta að þinginu var að þeir voru tengdir breytingu á þingskapalögunum, orðalagið var á þá lund. Þetta var eitt sem við lögðum áherslu á, að þarna yrði gerður alger greinarmunur á milli.

Áður en ég vík frá þessum þætti málsins, þ.e. bættri aðstöðu þingsins, vil ég leggja mjög ríka áherslu á að við höfum um árabil barist fyrir því að starfsaðstaða þingsins verði stórefld, verði stórbætt, og við höfum viljað láta efla nefndasviðið með það að markmiði. Ég vil lýsa því yfir hér að ég tel mjög brýnt að það sé gert í góðu samstarfi og góðri sátt við starfsmenn þingsins. Ég tel mikilvægt að þetta sé gert í samráði og góðri samvinnu við þá. Hér eru starfandi starfsmannasamtök og mér finnst eðlilegt að teknar séu upp formlegar viðræður við þau um þessar breytingar. Ég hef alllanga reynslu sem forsvarsmaður í stéttarfélögum og hlýt að gera sömu kröfu hér og ég geri annars staðar þar sem verið er að gera skipulagsbreytingar á starfsumhverfi starfsfólks. Á þetta vil ég leggja ríka áherslu.

Þetta var annar þátturinn sem varð til þess að slit urðu með okkur og stjórnarmeirihlutanum ásamt Framsóknarflokki eða forsvarsmönnum framsóknar og Frjálslynda flokknum, að við vildum höggva þarna á milli þessara þátta, fresta breytingu á þingskapalögunum.

Síðan kemur að hinum þættinum, þ.e. breytingum á sjálfum þingskapalögunum. Við áttum ágæta fundi um þetta efni í sumar, bæði á fundum þingflokksformanna og síðan ræddust menn við innbyrðis að einhverju leyti og reyndu að þreifa fyrir sér um samkomulag, nokkuð sem við vildum skjóta á frest fram yfir áramót, við lögðum mjög ríka áherslu á það. Á hinn bóginn tefldum við fram hugmyndum sem byggðu á því að við einblíndum á markmiðin sem við vildum ná, þ.e. að tryggja málefnalega og ítarlega umræðu og koma í veg fyrir að umdeild mál, flókin hitamál yrðu samþykkt hér með miklum hraði. Hvernig yrði það gert? Meðal annars með því að breyta vinnulaginu í þinginu með tilliti til vinnutíma. Við vildum lengja þinghaldið og færa umræður sem iðulega fara fram að nóttu til inn í dagsljósið, stytta vinnudaginn. Eins og hæstv. forseti vék að áðan þá var á einhverju stigi teflt fram þeirri hugmynd að vinnudagurinn yrði ekki lengri en til klukkan fimm, það er það sem fjölskyldufólk talar um, þegar rætt er um fjölskylduvænan vinnudag þá er verið að horfa til barnanna og barnafólks að þessu leyti.

Í þessu frumvarpi eru stigin fyrstu skrefin í þá átt og hæstv. forseti sagði að sá dagur kynni að renna upp að við færðum okkur yfir í slíkt fyrirkomulag. Það höfum við ekki gert enn. Það stóð ekki á svari frá okkur um frumvarpið, við sögðum: Við föllumst á að ótakmarkaður ræðutími sem nú er í 3. umr. um þingmál verði takmarkaður og farið inn í sama eða svipaðan farveg og er við 1. umr. Þetta vorum við búin að fallast á. Við vildum hins vegar skilja 2. umr. eftir með ótakmörkuðum ræðutíma þar til frekari skref yrðu stigin, þótt á allra síðustu metrunum léðum við máls á því við forseta þingsins í leit að samkomulagi að við skoðuðum einnig einhverjar breytingar á þessu.

Við höfum lagt áherslu á að þessi mál, eins og kemur fram í þeim texta greinargerðarinnar sem ég las upp, séu skoðuð heildstætt, að þær breytingar sem gerðar eru byggist á því að náum því sameiginlega markmiði að gera þinghaldið markvissara en vandað. Til að tryggja jafnræði með stjórn og stjórnarandstöðu hefur sú hugmynd líka verið viðruð á þessum fundum að æskilegt gæti verið að nefndir þingsins lytu stjórnarformennsku þingmanna úr stjórnarandstöðu og að forseti þingsins komi úr röðum stjórnarandstöðunnar. Það er einnig hugmynd sem hefur iðulega skotið upp kollinum bæði í þessari umræðu og í umræðu á síðustu missirum þegar rætt hefur verið um þessi mál. Þetta er að sjálfsögðu umræða sem er ekkert að byrja núna í sumar eða haust, þetta er umræða sem hefur farið fram á undanförnum árum, og eins og ég segi hefur vinnulagið við þingið verið að taka breytingum smám saman og það sem við höfum verið að hamra á er að þegar gerðar eru breytingar á sjálfri lagaumgerðinni verði það ekki gert nema með samkomulagi allra.

Ég hef heyrt því haldið fram, og þannig mun þetta hafa verið kynnt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins a.m.k., að við þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi ekkert þýtt að tala, að þingflokkurinn hafi ekki viljað gera samkomulag eða verið líklegur til þess. Er það sem ég er að nefna hér ekki vilji til breytinga á samkomulagi? (Gripið fram í.) Ha? Hér er fyrirspurn utan úr sal. (Gripið fram í: … þetta er rangt sem þú ert að halda fram.) Nú, þetta er rangt sem ég er að halda fram. Með öðrum orðum, það er verið að segja við mig núna að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykki að setja frumvarpið fram án aðildar og samkomulags við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, bara eins og blankan tékka. Mér finnst þetta nánast verra ef þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur samþykkt frumvarpið eins og það lá fyrir án þess að hann haldi að tilraun hafi verið gerð til þess að ná samkomulagi við stærsta þingflokkinn í stjórnarandstöðunni. (Gripið fram í.)

Ég er ekkert að snúa út úr. Ég er bara að horfa á þá staðreynd að fyrir þinginu liggur frumvarp um breytingar á starfsreglum Alþingis sem verið er að setja fram af stjórnarmeirihluta og hann ætlar að knýja í gegn, gegn mótmælum stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Þetta er veruleikinn. (Gripið fram í.) Ég er líka að benda á að hefðin er sú að þegar breytingar eru gerðar á þingskapalögum eru þær gerðar með samþykki allra. Sú hefð er nú rofin og við höfum verið að mótmæla því og lýsa furðu okkar á því að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkur skuli standa að því sameinaður að slík vinnubrögð séu viðhöfð.

Ég hef einnig lýst hryggð minni yfir því að Samfylkingin, sem stóð með okkur í stjórnarandstöðu árum saman og við töluðum einum rómi gegn vinnubrögðum af þessu tagi, skuli núna taka höndum saman með hinum stjórnarflokknum um að knýja fram breytingar á þingskapalögum eins og hér er gert. (Gripið fram í: Hefðin hefur verið sú að koma þessu ekki í gegn.)

Venjan er sú og niðurstaðan hefur orðið sú, segir hæstv. forseti Alþingis, að koma þessu ekki í gegn. Það eru ýmsar breytingar sem á ekki að koma í gegn nema með samþykki þingsins alls. Ég tala ekki um þegar um er að ræða þau tæki sem stjórnarandstaðan hefur til þess að veita stjórnarmeirihluta aðhald. Að sjálfsögðu á ekki að gera breytingar á slíku fyrirkomulagi nema í sátt og samlyndi. Það er hefðin, það er hin þingræðislega hefð. Þegar ég spyr sjálfan mig: Er líklegt að stjórnarmeirihlutinn, meiri hlutinn á Alþingi, gæti komið þessu máli fram óbreyttu? Já, að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu knýr hann málið óbreytt í gegn, ef hann vill. Ef hann heldur áfram að vinna á þann hátt sem hér er unnið mun honum takast það á nákvæmlega sama hátt og honum tókst að knýja fram Kárahnjúkavirkjun, einkarekinn gagnagrunn á heilbrigðissviði, öryrkjamálið á sínum tíma og önnur mál þar sem meirihlutavaldi er beitt.

Meiri hlutinn á Alþingi á að sjálfsögðu að ná sínu fram þegar upp er staðið. Við erum einvörðungu að tala um hvaða vinnulag skal haft á og hvort æskilegt sé að flókin hitamál sem brenna heitt á þjóðinni fái ítarlega og djúpa málefnalega umræðu á Alþingi. Um það snýst þetta mál. Við erum að vara við því að settar séu reglur sem geri meiri hluta, ég tala nú ekki um meiri hluta sem styðst við yfirgnæfandi meirihlutafylgi eins og nú er, kleift að geta þrýst og þröngvað í gegnum þingið umdeildu máli á mjög skömmum tíma. Um það snýst þetta mál.

Við höfum gert grein fyrir því og ég hef verið að vísa til þess í ræðu minni á hvern hátt við teljum að hægt sé að gæta jafnræðis, a.m.k. einhvern vísi að jafnræði með aðilum, stjórn og stjórnarandstöðu, með öðrum hætti, með því að verkstjórinn á þinginu komi úr röðum stjórnarandstöðunnar, með því að verkstjórar í fagnefndum þingsins komi úr röðum stjórnarandstöðunnar, með því að breyta vinnutímanum, með því að lengja þinghaldið, með því að stytta vinnudaginn, með því að auka vægi nefndanna. Þá getum við búið til munstur sem tryggir að við í stjórnarandstöðu náum markmiðum okkar og getum rækt það hlutverk sem okkur er ætlað að rækja, að veita stjórn og stjórnarmeirihluta verðugt aðhald á Alþingi. Um það snýst þetta mál. Það er mikil afvegaleiðing að telja fólki trú um að málið snúist um það eitt að tryggja stjórnarandstöðunni langan ræðutíma á þingi. Málið snýst ekki um það. Það snýst um þetta samhengi hlutanna.

Undir lok máls míns vil ég minna á umræðu sem fór hér fram fyrir fáeinum dögum, það var umræða um fjárlög ríkisins. Þetta er stærsta mál hvers þings. Í fjárlögum eru ákvörðuð skilyrði fyrir nánast allar velferðarstofnanir landsins, alla vega þær sem njóta fjárstuðnings úr ríkissjóði, spítalana, heilbrigðisstofnanirnar, stofnanir fyrir fatlaða, stjórnsýsluna almennt og að sjálfsögðu þá sem hafa tekjur sínar úr ríkissjóði, aldraða, öryrkja. Það skiptir miklu máli hvernig á því er haldið.

Hvað tókum við langan tíma í þá umræðu? 2. umr. um fjárlög, sem að jafnaði er lengsta umræðan sem fram fer um fjárlögin, tók tvo daga. Við hófum umræðuna að morgni dags á fimmtudag og lukum henni um kvöldmatarleytið á föstudag. Er eitthvað athugavert við það? Nei. Stjórnarandstæðingar jafnt sem stjórnarsinnar fluttu ítarlegar ræður, sumir langar, sumir stuttar. Ég fylgdist með öllum þessum umræðum og hafði mikið gagn af. Það var vakið máls á ýmsum athyglisverðum þáttum í stuttum ræðum og í löngum ræðum. Þingmenn úr mínum hópi, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, fluttu sumir allítarlegar ræður. Formaður flokksins fór yfir stöðu efnahagsmála, vék að þeim skýrslum sem fram hafa verið reiddar frá Seðlabanka, bönkum, greiningardeildum, og fjallaði um stöðuna nú og framtíðarhorfur og mátaði síðan fjárlögin inn í þann ramma. Fulltrúi okkar í fjárlaganefndinni fór yfir vinnubrögðin þar og síðan tóku einstakir þingmenn til umfjöllunar þá málaflokka sem þeir höfðu sérstaklega beint sjónum sínum að og höfðu starfað við. Er eitthvað athugavert við þetta? Nei. Þetta er gott, þetta er sjálfsagt, þetta er okkar starf. Auðvitað eigum við að sinna þessu.

Stjórnarsinnar svöruðu á móti. Ég saknaði helst ráðherra við umræðuna. Að undanskildum hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra voru þeir flestir fjarri góðu gamni. Auðvitað eiga þeir að sitja umræðuna. Við getum stórbætt þinghaldið, t.d. við umræðu um fjárlög, með því að tryggja að fagráðherrar séu ætíð viðstaddir umræðu um sinn málaflokk. Við getum sameinast um að gera þetta. Það eru margir aðrir þættir sem lúta að störfum þingsins sem við getum hæglega bætt ef vilji er til og ég hef trú á því að vilji sé hjá öllum til að gera það. En með þeim vinnubrögðum sem hér eru ástunduð undir forustu þess aðila sem á að hugsa um hag okkar allra, hæstv. forseta þingsins.

(Forseti (StB): Og er að því.)

Hann fer því miður fram með þetta þingskapafrumvarp þvert á óskir okkar. Við báðum um að málið yrði látið bíða, látið kyrrt liggja um sinn og við freistuðum þess að ná samkomulagi. Ég er sannfærður um að það hefði tekist ef menn hefðu haft raunverulegan vilja til þess að semja um málin. Það er hægt, að sjálfsögðu er enn hægt að semja um þessi mál. Þetta þingskapafrumvarp er ekki orðið að lögum. Ég vek athygli á niðurlagsorðum í greinargerð okkar sem allir þingmenn fengu í hendur í dag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er jafnáhugasamur og fyrr um að endurskipuleggja starfshætti Alþingis, bæta og vanda mun meir til vinnubragða við lagasetningu, þróa Alþingi í átt til faglegri og fjölskylduvænni vinnustaðar og gera breytingar sem raunverulega styrkja þingið, þingræðið og lýðræðið í landinu. Þessum markmiðum ná hins vegar hvorki óbreytt frumvarp forseta og þaðan af síður þau vinnubrögð að rjúfa hefð um samstöðu um slík mál og keyra þau áfram í ágreiningi við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar. Breytingar á hvoru tveggja, frumvarpinu og vinnubrögðum forseta, eru því óhjákvæmilegar eigi farsæl niðurstaða að nást.“

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að farsæl niðurstaða náist.



[20:40]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er svo málsnjall að hann þarf ekki, líkt og mesti ræðuskörungur hinnar fornu Rómar, Cíceró, að æfa sig með því tala í kapp við hafölduna. En um hann gildir, eins og alla góða ræðumenn, jafnvel hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sem situr að baki hv. þingmönnum, hið sama og sagt var um Cíceró þegar honum elnaði nokkuð aldur, að því betri urðu ræður þeirra sem þær styttust.

Ég hef tekið þátt í því síðustu 12 árin með hv. þingmanni að etja hér kappi við ríkisstjórnina margoft með löngum ræðum og ég verð að segja það um sjálfan mig og þá menn tvo sem eru í beinni sjónlínu við mig, hv. þingmenn Ögmund Jónasson og Steingrím J. Sigfússon, að bestu ræður okkar hafa jafnan verið þær sem stuttar eru og snjallyrtar, það gildir að minnsta kosti um þá báða. Ég segi þetta ekki, frú forseti, vegna þess að ég sé einhver sérstakur ákafamaður um þetta frumvarp, ég tel að skoða þurfi ákaflega vel þær takmarkanir á tíma sem þarna eru settar.

Ég kem aðeins hingað til að verja hæstv. forseta Sturlu Böðvarsson. Ég er ósammála hv. þingmanni þegar hann talar um verslun og viðskipti þegar um er að ræða annars vegar þessar takmarkanir sem hér er verið að leggja til og hins vegar ákveðnar bætur á stöðu stjórnarandstöðunnar. Ef stjórnarandstaðan telur að það sé verið skerða hlut sinn finnst mér réttlátt og sanngjarnt af hæstv. forseta að hafa forgöngu um að gera síðbúnar bætur á aðstöðu stjórnarandstöðunnar. Ég tel fullkomlega réttlætanlegt að gera þær bætur þótt deila megi um einstakar þeirra, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Ég tel algjörlega rökrétt að taka þetta tvennt saman. Ég tel að til þess að stjórnarandstaðan geti sinnt starfi sínu þurfi að stórbæta aðstöðu hennar (Forseti hringir.) og ég hef alltaf verið talsmaður þess, enda töluvert ríkur að reynslu úr stjórnarandstöðu.



[20:42]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst víkja að þeim ásökunum okkar um að hér hafi farið fram verslun og viðskipti. Ég er einfaldlega að vísa í það sem kom frá hæstv. forseta þingsins. Þegar við óskuðum eftir að skýr greinarmunur yrði gerður á tillögum sem fram kæmu um að bæta stöðu þingsins, stjórnarandstöðunnar og alla aðstöðu manna þar, ég vék að utanferðum, aðstoðarmönnum og öðru af því tagi, þá sagði hæstv. forseti að það væru órjúfanleg tengsl á milli þess að stjórnarmeirihlutinn féllist á þessar breytingar og svo hins að við féllumst á að stytta ræðutímann og veikja þau vopn sem við höfum í þessum þingsal til að veita stjórnarmeirihlutanum, ríkisstjórn og þeim meiri hluta sem hún styðst við hverju sinn, aðhald.

Það var þetta sem ég kallaði verslun og viðskipti. Þetta eru að mínu mati óeðlileg tengsl, þetta er óeðlileg tenging, en hæstv. forseti Sturla Böðvarsson sagði að þarna væru órjúfanleg bönd á milli. Með öðrum orðum: ef þið fallist ekki á að veikja stöðu ykkar innan þingsins, hér í þingsalnum, með því m.a. að stytta stórlega ræðutímann, verður ekki fallist á að bæta stöðu ykkar sem stjórnarandstöðu og þingmanna á Alþingi.



[20:44]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég er ekki í hópi ákafamanna um framgang þessa frumvarps. Hins vegar er staðan einfaldlega þannig að ef stjórnarandstaðan væri ekki svona sundurklofin væri hugsanlega önnur staða uppi í þessu máli. (Gripið fram í.) Það hefur komið fram hér að þeir menn sem hafa talað harðast og farið háðuglegum orðum hver um annan í umræðum um þetta mál eru hv. þingmenn Framsóknarflokksins og hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Eins og ég sagði áðan hef ég töluverða reynslu af því að snúa bökum saman með hv. þm. Ögmundi Jónassyni í stjórnarandstöðu. Ég man ekki eftir neinu máli þar sem málþóf hefur beinlínis leitt til þess að því hafi verið hrundið út af borðinu. Við höfum náð frestun oft og tíðum og stundum notað þessar aðferðir til þess að ná þrýstingi á önnur mál, það þekkjum við báðir. En ég segi það aftur að ég er ósammála hv. þingmanni um að hér séu einhvers konar hrossakaup uppi. (Forseti hringir.) Ég tel eðlilegt að þetta tækifæri sé notað til þess að stórbæta stöðu stjórnarandstöðunnar í þinginu.



[20:45]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að aðrir staðir séu heppilegri fyrir viðskipti með hross en Alþingi en þarna gerðist hv. þingmaður og hæstv. ráðherra svolítið seinheppinn eins og ýmsir hafa gerst núna síðustu dægrin þegar hann segir að ítarlegar viðræður sem hann kallar málþóf hafi ekki skilað árangri í þingsal. Ég minni á ríkisútvarpsfrumvarpið sem kom fram í þrígang og að mati allra batnaði heldur í hvert skipti sem það kom fram. En ég ætla að minna hann á annað og það eru vatnalögin. (Gripið fram í: Þau voru samþykkt …) Þar var frumvarpinu frestað eða samþykkt þess og við höfum yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar um að það muni ekki fara fram óbreytt, að á því verði gerðar grundvallarbreytingar. Undir það hefur formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, tekið og undir það (Forseti hringir.) hefur hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson tekið líka. Þarna tókst stjórnarandstöðunni að taka stórhættulegt mál út úr þinginu (Forseti hringir.) og beina því inn í farveg þar sem gerðar verða á því grundvallarbreytingar, þ.e. ef menn standa við sitt.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmenn eru beðnir að virða tímamörk.)



[20:47]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég kom á þing 1995 varð mér mjög starsýnt á þetta fyrirbæri sem voru óskaplega langar ræður í 2. og 3. umr., sérstaklega um þetta leyti árs, rétt fyrir jól. Hér sátu menn löngum stundum langt fram á nótt, til klukkan þrjú, fjögur, og hlustuðu á óskaplega langhunda. Auðvitað voru einstaka góðar ræður inn á milli en þær týndust. Ég hef margoft bent á að svona fyrirkomulag eyðileggur alla rökræna umræðu vegna þess að þegar maður ætlar að ræða við viðkomandi þingmann veit maður ekki hvort hann verður búinn eftir eina mínútu eða eftir fjóra klukkutíma. Maður getur ekki setið í þingsal allan tímann og beðið. Ég gerði það reyndar einu sinni en Jesús minn, frú forseti, það er mikið á mann lagt. (Gripið fram í: Þú ætlaðir líka bara að vera í fimm ár.) Einmitt. (Gripið fram í.) Ég tel að menn eigi að geta meitlað hugsanir sínar þvílíkt í orð að þeir komi þeim frá sér á 15 mínútum í hæsta lagi og ef þeim tekst það ekki geta þeir komið aftur í ræðustól eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir og ég bind miklar vonir við.

En það sem gerðist hér einu sinni var að minni hlutinn á Alþingi beitti meiri hlutann ofbeldi, hann beitti hreinlega ofbeldi með því að tala út í eitt um eitthvert ákveðið mál til þess að fresta einhverju öðru máli og tókst það furðuoft. Ég ætla að vona að menn hætti slíku og það lýðræði fái að ríkja inni á Alþingi að þeir þingmenn eða sá meiri hluti sem þjóðin hefur kjörið og kosið yfir sig fái að ráða með eðlilegum hætti á Alþingi en þurfi ekki að hlusta á einhverjar óskaplegar umræður með því markmiði að ná að stöðva eitthvert mál.



[20:49]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir réttilega á að það sé slæmt að vita ekki hve lengi umræður komi til með að standa einfaldlega vegna þess að ræðutími sé ótakmarkaður og þingmaður geti talað í fáeinar mínútur eða í nokkra klukkutíma, og að þetta sé slæmt. Ég er sammála honum um það á sama hátt og það er slæmt líka að þingheimur viti ekki hve lengi þingfundur standi, hvort það er til 5, 7, 8, 12 á miðnætti eða til morguns daginn eftir. Þá er spurningin: Hvernig getum við sem erum óánægð með þetta fyrirkomulag náð saman? Hvernig gerum við það? Jú, við finnum einhvern milliveg þarna á milli þar sem við stillum saman ræðutímann og lengd vinnudags og lengd þinghaldsins á ári hverju, við komumst að samkomulagi um þetta. Þarna voru menn byrjaðir að tala saman um að finna þessa fínstillingu. Við vorum búin að fallast á verulegar breytingar á ræðutímanum. Við settum að vísu fram róttækari breytingar en forsetinn vill hvað varðar forræði á þinginu. Við vildum að verkstjórnin væri á hendi stjórnarandstöðunnar sem héldi þá uppi merki þingsins en ekki ríkisstjórnarinnar hverju sinni eins og því miður hefur verið allt of oft, að forseti þingsins hefur þurft að lúta meirihlutavaldi og stjórnarstefnunni hverju sinni. Við höfum verið með tillögur um að finna þetta nýja samhengi hlutanna og vorum á leið með að gera það, við hefðum þurft að gefa okkur einhverja mánuði til þess. (Gripið fram í.) Hversu marga, spyr hv. þingmaður? Kannski hefði okkur (Forseti hringir.) ekki tekist það, ég veit það ekki, en við ættum að reyna það vegna þess að það á að vinna að þessum málum og þessum breytingum í breiðri samstöðu og samkomulagi við alla.



[20:51]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög miður að ekki hafi náðst samstaða allra flokka um þetta mál en það gengur náttúrlega ekki þannig að einn flokkur ætli að fara að segja hinum fyrir verkum, hvað þeir eigi að gera, hvernig eigi að hafa þetta, annars samþykki hann það ekki. Hann er kannski vanur því í gegnum tíðina að geta alltaf sagt fyrir hvað hann vill fá með langhundum, málþófi o.s.frv. Auðvitað gengur það ekki endalaust. Mér sýnist að þolinmæði hinna flokkanna hafi brostið í því að bíða eftir hv. þingmönnum Vinstri grænna þar sem þeir vildu ná sínu fram og engu öðru.



[20:52]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er náttúrlega grafalvarleg umræða og ekki ástæða til að henda gaman að henni. En óneitanlega er það svolítið skondið að fulltrúi úr Sjálfstæðisflokki skuli koma hér upp og segja að það gangi náttúrlega ekki að einn flokkur ráði, að einn flokkur ráði í þinginu, í ríkisstjórn. Hver hefur ráðið í ríkisstjórn og hér á þinginu síðan 1991 (PHB: Því miður ekki einn.) annar en Sjálfstæðisflokkurinn. Því miður ekki einn, segir hv. þingmaður. Og hann bætir um betur, því miður réð hann ekki einn, því miður gat hann ekki valtað yfir allt og alla. Við erum ekki að tala fyrir því að einn flokkur ráði. Við erum ekki að tala fyrir því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð ráði. Ég er búinn að gera grein fyrir þeim hugmyndum sem við höfum haft og á hvern hátt við höfum teflt þeim inn í nýjan samkomulagsgrundvöll. Við höfum verið að gera grein fyrir því til að reyna að ná samkomulagi og sáttum í þessu mikilvæga máli.



[20:53]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er eiginlega agndofa yfir ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og ég virðist ekki nú frekar en áður hafa sama málskilning og hv. þingmaður. Hann talar í fyrsta lagi um að þetta sé frumvarp forseta en hér eru flutningsmenn fyrir utan hæstv. forseta þingflokksformenn allra annarra flokka en Vinstri grænna. Mér sýnist að það þýði að að baki þessu frumvarpi gætu verið 54 þingmenn í heildina á meðan Vinstri grænir eru níu og segja nei. Þá spyr ég: Hvert er lýðræðið? Ef fjórir flokkar ásamt forseta þingsins eru sammála frumvarpinu og vilja leggja það fram í þessari mynd en þingflokkur Vinstri grænna segir nei, hvert er þá lýðræðið? (Gripið fram í.)

Í öðru lagi leyfir hv. þingmaður sér að tala þannig a.m.k. til okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins að við völtum yfir allt og alla á meðan honum er svo tamt að tala um mannréttindi og hvernig fólk eigi að koma þokkalega fram hvert við annað, virða skoðanir og annað í þeim dúr. Ég spyr hv. þm. Ögmund Jónasson: Hvernig skilgreinir þú lýðræðið þegar að baki þessu frumvarpi eru allir flokkar á þingi nema Vinstri grænir?

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna þingmenn á að beina máli sínu til forseta.)



[20:55]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um það hvernig ég skilgreini lýðræðið. Ég hallast svolítið að skilgreiningu Johns Stuarts Mills eins og hann setur hana fram í sínu afbragðsriti Frelsinu sem er grundvallarrit frjálslyndu stefnunnar og klassískt hvað varðar skilgreiningar á lýðræði, ekki bara hlutverki og valdi meiri hluta heldur einnig framkomu gagnvart minni hluta í þjóðfélaginu almennt og á þingum eins og okkar. Ég vildi gjarnan taka ágæta umræðu og ítarlega um þetta mál, þetta er grundvallaratriði og skiptir að sönnu miklu máli.

Hvers vegna vísað er í frumvarp hæstv. forseta Alþingis. Það geri ég einfaldlega vegna þess að hann er verkstjórinn í þessu máli. Það var hann sem lagði þetta frumvarp fram. Það var hann sem orðaði hlutina þannig, þegar spurt var hvort menn væru reiðubúnir til samkomulags t.d. um að sleppa takmörkunum í 2. umr. um þingmál, að þetta væri úrslitakostur af sinni hálfu. Þannig var málið sett fram. Ég er einfaldlega að horfa á veruleikann eins og hann blasti við mér og hefur blasað við okkur. Síðan er það alveg rétt að aðrir þingflokkar en Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafa fallist á þessar tillögur hæstv. forseta Alþingis og ég efast ekki um að þeir eigi drjúgan þátt í því líka að móta þessar tillögur og hafi sett fram hugmyndir að sjálfsögðu líka. Ég hef verið að gera grein fyrir áherslum sem við höfum haft. Þær hafa líka komið frá Samfylkingu, Framsóknarflokki og Frjálslyndum, að sjálfsögðu, en ég er að vísa til þess að það er síðan á forræði forseta þingsins að móta úr þessum hugmyndum sem fram hafa komið. (Forseti hringir.) Það sem við höfum verið að gagnrýna er endahnúturinn af hans hálfu, þegar sýnt er að hann hefur ekki náð því ætlunarverki að sætta alla þingflokka við þær hugmyndir sem hann leggur fram þá gefst hann upp.



[20:58]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er einn flutningsmanna að því frumvarpi sem hér er til umræðu ásamt hv. þingflokksformönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins auk hæstv. forseta Alþingis.

Ég verð að játa að ég hef verið dálítið hugsi yfir þeirri umræðu sem fram hefur farið frá því að þetta þingskapamál leit dagsins ljós. Mér hefur þótt málflutningur hv. þingmanna Vinstri grænna vera þess eðlis að ég er nokkuð viss um að seinna og síðar meir muni þeir sjá eftir þeim stóryrðum sem fallið hafa í umræðunni. Ég er sannfærður um að þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram eru til þess fallnar að styrkja þingið, styrkja Alþingi sem stofnun, styrkja eftirlitshlutverk Alþingis, styrkja Alþingi sem löggjafarsamkundu og styrkja Alþingi sem umræðuvettvang samfélagsins. Ég er sannfærður um að við erum á réttri leið hvað það varðar með þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir.

Ég hef lagt mig í framkróka við að reyna að átta mig á hverjar röksemdir hv. þingmanna Vinstri grænna eru. Ég hef frá því í sumar tekið þátt í að vinna að þessu máli, leita eftir hugmyndum og sjónarmiðum sem hafa verið til þess fallin að styrkja málið og það vita þeir sem til þekkja og hafa fylgst með málinu frá því í sumar að það hefur tekið verulegum breytingum frá upprunalegum hugmyndum. Það frumvarp sem nú liggur fyrir hefur því þroskast mikið og þróast í meðförum og að þeirri umræðu hafa allir þingflokkar komið og einnig þingflokkur Vinstri grænna þó að á endanum hafi ekki allir náð saman um það. En það breytir ekki hinu þegar við stöndum frammi fyrir því að þingflokkar hafa náð saman um breytingar, stjórnarflokkar og meiri hluti stjórnarandstöðu, að þá hlýtur að vakna sú spurning hvort rétt sé að láta staðar numið og að einstaka þingflokkar hafi neitunarvald um að málið sé lagt fram eða hvort ganga eigi fram með málið. Í þessu tilviki var tekin ákvörðun um að fara fram með málið.

Mér hefur líka þótt athyglisvert í þessari umræðu að hv. þingmenn hafa gengið mjög hart fram í því að halda fram að hefðin sé sú að þingskapamál hafi aldrei verið lögð fram nema í sátt. Það er ekki alveg rétt því að árið 1936, þegar gerðar voru verulegar breytingar á þingsköpum, á grundvallaratriðum sem gilda jafnvel enn þann dag í dag eins og til að mynda í atkvæðagreiðslu, þ.e. að þeir sem ekki greiða atkvæði teljast til þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslu, var frumvarp til þingskapa samþykkt í neðri deild með 17 atkvæðum gegn 9. Sama frumvarp var samþykkt í efri deild með 9 atkvæðum gegn 5. Þessi þingsköp giltu að stofni til til ársins 1985. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram að undantekningarlaust hafi verið alger samstaða í flutningi þingskapamála eins og haldið hefur verið fram í umræðunni hér. Þá er einnig ástæða til að rifja upp og nefna að síðastliðið sumar var gerð breyting á nefndaskipan. (Gripið fram í: Í nokkurn veginn hálfa öld.) Það hafa ekki verið gerðar miklar breytingar á þingsköpum, það eru ekki mörg önnur fordæmi til að horfa til þannig að það er vert að hafa það í huga. Síðastliðið sumar voru gerðar breytingar á þingsköpum, breytingar á nefndum sem ekki var heldur samstaða um. Mér finnst mikilvægt að þetta sé í heiðri haft í umræðunni og horft til þess þegar menn láta þau stóryrði falla að það þekkist ekki að þingsköp hafi verið lögð fram nema alger samstaða sé um málið. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Spurningin sem við stóðum frammi fyrir var einfaldlega þessi: Á einn þingflokkur að hafa neitunarvald þegar stjórnarflokkarnir hafa náð saman um mál og meiri hluti stjórnarandstöðunnar er tilbúinn að taka þátt? Þessari spurningu er að sjálfsögðu svarað með því að leggja frumvarpið fram en það breytir ekki hinu að ég hefði gjarnan viljað sjá alla þingflokka taka þátt í að leggja málið fram. Eins og kom fram í máli forseta mun þingið taka sér þann tíma sem þarf til að ljúka málinu og að sjálfsögðu er ekki útséð um það þegar málið verður afgreitt á endanum hvort hv. þingmenn gangi í takt og við eigum eftir að sjá hvort við náum slíkri lendingu en það væri mikill akkur í því.

Ég vil líka nefna sérstaklega við þessa umræðu vegna þess að mér hefur þótt heldur að hæstv. forseta Alþingis vegið að að minni hyggju hefur hann leitast við að draga fram sjónarmið allra í umræðu um málið. Hann hefur lagt sig fram um að reyna að ná samstöðu. Ef ég man sögu málsins rétt þá lagði hæstv. forseti það fyrst fram á fundi forsætisnefndar í júlí eða ágúst sl. og síðan hefur það verið til umræðu og á forræði þingflokksformanna og menn hafa leitast við að ná sameiginlegri lendingu sem því miður ekki tókst.

Erindi mitt í ræðustól er kannski fyrst og fremst að reyna að mæta þeim röksemdum sem gagnrýnendur frumvarpsins hafa komið fram með. Í fyrsta lagi hefur það verið gagnrýnt að málfrelsið sé skert. Þá hljótum við að spyrja okkur: Hver er kjarninn í málfrelsinu? Kjarninn í málfrelsi og tjáningarfrelsi hlýtur að vera sá að menn geti komið á framfæri sjónarmiðum sínum og skoðunum. Það hlýtur að vera lykilatriðið, og að menn geti gert það þannig að engar hindranir séu í veginum. Þegar við horfum til þess að þetta frumvarp fer í gegnum þrjár umræður, verði það að lögum, og að hv. þingmenn geta talað eins oft og þeim sýnist, þá er ekki hægt að halda því fram með rökum eða af sanngirni að verið sé að skerða málfrelsið. Það er ekki sanngjarnt. Að mörgu leyti má líka halda því fram að það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til sé miklu líklegra til að leiða til rökræðu en ekki einræðu og það skiptir mjög miklu máli. Ég hef trú á því að sú breyting verði, miðað við það sem hér hefur ríkt í langan tíma, að þingmenn stjórnarliðsins muni taka miklu meiri þátt í umræðunni og að niðurstaðan verði meiri rökræða en einræða eins og hér hefur verið á köflum og sá sem hér stendur hefur einnig tekið þátt í því og ég ætla ekki að draga minn þátt út í þeim efnum.

Af því að hér hefur verið vísað til umræðna um fjárlög, sem kveðið er á um í stjórnarskrá, þá held ég að það sé atriði sem við hljótum að skoða mjög vandlega hvort ástæða sé til að rýmka þá umræðu sérstaklega og að sjálfsögðu á eftir að skoða það vel í nefnd. Við erum nýfarin í gegnum umræðu um fjárlög sem tók 11–12 klukkustundir í það heila og ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að hv. þingmenn Vinstri grænna hafi talað í tæpa 7 tíma af þessum 12, ég verð þá leiðréttur ef ég fer ekki rétt með. Þessar 7 tíma ræður kölluðu ekki fram rökræður, þær kölluðu ekki fram breytingar á fjárlagafrumvarpinu og þær höfðu kannski efnislega ekki nein áhrif á frumvarpið. Ég er ekki að segja að þessi breyting endilega þýddi það en við horfum hins vegar fram á að sú umræða gaf okkur ekki fyllri eða betri mynd eða breytti á nokkurn hátt því sem hér var afgreitt í dag og það hlýtur að vera umhugsunarefni.

Röksemdafærsla sem hér hefur einnig verið beitt er að hitamál samtímans hafi tekið breytingum vegna mikillar og langrar umræðu. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að menn höfðu vondan málstað og vegna þess að menn voru á rangri leið. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að hv. þingmenn hafi komið fram með athugasemdir sem full ástæða var til að horfa til og taka mark á sem hafi breytt þeirri umræðu en ekki bara langar ræður. Ég held að það sé lykilatriði og ekki sé hægt og ekki sé sanngjarnt að leggja það þannig upp að málþóf eitt út af fyrir sig hafi tryggt einhverjar breytingar. Ég held að það sé miklu frekar að hlutaðeigandi ríkisstjórn hafi verið á rangri leið og menn hafi uppgötvað það og þar af leiðandi hafi tekist að draga fram einhverjar breytingar. Þegar þetta er dregið saman þá er það ósanngjarnt og stóryrði sem ekki standast að hér sé verið að svipta menn málfrelsi, það heldur ekki, vegna þess að kjarninn í málfrelsinu er að menn fái undanbragðalaust að koma sínum sjónarmiðum að og þar séu ekki hindranir og það er ekkert í þessu frumvarpi sem skerðir málfrelsið.

Í annan stað er spurningin, eins og m.a. hv. þm. Ögmundur Jónasson vísaði til í ræðu sinni, hverjir möguleikar stjórnarandstöðunnar eru til að veita ríkisstjórninni aðhald. Það hlýtur eðlilega að vera einn mælikvarðinn sem lagður er á þetta þingskapamál vegna þess að eitt meginhlutverk stjórnarandstöðunnar er að veita aðhald. Í þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir er alveg ljóst að staða stjórnarandstöðunnar er bætt. Mál fara til nefndar eftir 1. umr. og eftir 2. umr. ef þeim er breytt þannig að þau fara a.m.k. tvisvar til nefnda. Dregið er úr því að hægt sé að keyra mál í gegn, m.a. með því að mál sem koma fram síðar en í nóvember koma ekki á dagskrá fyrr en eftir áramót. Þetta er stórvægileg breyting frá því sem verið hefur og mun án efa hafa áhrif í þessa veru. Þá er lagt til að í stað þess að hæstv. ráðherrar komi og svari vegna gjörða sinna tvisvar í mánuði í svokölluðum óundirbúnum fyrirspurnum er ætlunin að hafa slíkar fyrirspurnir átta sinnum í mánuði þar sem hægt verður að spyrja ráðherra út úr, á hvaða ferðalagi þeir séu. Hér er verið að rýmka þetta enn frekar. Einnig er lagt til að þinginu sem umræðuvettvangi samfélagsins verði á hverjum degi ætlaðar a.m.k. 30 mínútur, sem er a.m.k. 10 mínútna framlenging frá því sem nú, til að hægt sé að taka upp mál dagsins þannig að möguleikar til að veita ríkisstjórn og meiri hluta á hverjum tíma aðhald í þingstörfunum eru án efa auknir. Því er ekki hægt að halda þeim sjónarmiðum fram að mínu viti að hér sé verið að skerða tækifæri stjórnarandstöðunnar til að veita aðhald. Mér finnst þau sjónarmið eiga mjög undir högg að sækja í þessari umræðu og ég finn þeim ekki stað. Ég lít svo á að hér sé verið að auka enn frekar möguleika stjórnarandstöðunnar. Það er staðreynd að það hefur fyrst og fremst verið hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita ríkisstjórninni aðhald, og það er kannski mál sem vert er að ræða sérstaklega, hugsanlega mætti þingið skoða hvort fleiri ættu ekki að koma að þeirri umræðu, hefðin hefur verið sú og þess vegna þurfum við að horfa á það þegar við breytum þingsköpum að tryggja að stjórnarandstaðan hafi þennan möguleika.

Enda þótt spyrt hafi verið saman í þessari umræðu annars vegar framlögum til að styrkja þingið og hins vegar frumvarpi til þingskapalaga sérstaklega virðist mér eins og málin hafi verið að þróast þannig að fjárlögin verði afgreidd og líklega án þess að frumvarp til þingskapalaga hafi verið afgreitt þannig að þá hefur sá aðskilnaður væntanlega átt sér stað sem hér hefur verið talsvert gagnrýndur. Í grundvallaratriðum er alveg ljóst að stjórnarandstaðan og þingið verður ekki styrkt nema einhver fjárframlög komi til. Það er algert lykilatriði í þessari umræðu. Ég fæ því ekki séð að hægt sé að gagnrýna það á þennan hátt og þess vegna þykir mér miður, af því að sá er hér stendur hefur tekið þátt í því með mörgum þeirra sem nú eru í stjórnarandstöðu að veita ríkisstjórn aðhald, að nú þegar að minni hyggju er verið að styrkja þingið, bæta það og efla, skuli hv. þingmenn Vinstri grænna ekki koma með okkur í það ferðalag. Þetta hefur valdið mér miklum vonbrigðum og er full ástæða til að það komi fram í þessari umræðu.

Í þriðja lagi hlýtur að sjálfsögðu löggjafarstarfið sjálft að vera sá mælikvarði sem lagður er á þetta frumvarp. Erum við að reyna að bæta löggjafarstarfið? Erum við að reyna að vanda vinnuna? Erum við að reyna að tryggja að þau mistök sem átt hafa sér stað í fortíðinni endurtaki sig ekki? Að sjálfsögðu getum við ekki tryggt það til fulls en það er ljóst að það frumvarp og þær hugmyndir sem hér liggja fyrir stefna að því.

Ég hef sagt í þessari umræðu að ég líti svo á að þetta frumvarp til þingskapalaga sé skref í rétta átt. Þetta er enginn fullnaðarsigur og þetta er engin endanleg endurbót en með þessum hugmyndum hefur tekist að ná fram samstöðu fjögurra flokka af fimm á hinu háa Alþingi. Það er ákveðinn áfangi þó að ég telji, eins og ég sagði áðan, að það sé ekki útilokað þegar við lokum þessu máli á endanum að allir gangi í takt. En þá er spurningin kannski þessi: Hvað er það raunverulega sem verið er að skerða? Því sem haldið hefur verið fram og menn hafa verið að rugla saman er annars vegar málfrelsið og hins vegar rétturinn til málþófs. Það má kannski segja sem svo að þarna hafi hv. þingmanni orðið fótaskortur á tungunni ef svo má að orði komast, en ef menn vilja tala um réttinn til málþófs, (Gripið fram í.) nei, hv. þingmaður sem hér tjáir sig um þetta, það er spurningin um réttinn til málþófs. Þegar þetta frumvarp er skoðað þá er alveg ljóst, ef menn vilja horfa til þess, að þetta fyrirkomulag býður a.m.k. upp á mjög góða möguleika á að hafa umræður langar og miklar. Má bara taka sem dæmi að 5 mínútna ræða með fullum andsvörum gefur u.þ.b. 23 mínútur ef þau eru nýtt í botn, það er hægt að fylgja 5 mínútna ræðu eftir með 18 mínútna andsvörum. Það er því alveg ljóst að ef markmiðið er bara að hafa langan tíma, þ.e. að umræður taki langan tíma, þá er ekkert í þessu frumvarpi sem kemur í veg fyrir að hægt sé að halda umræðu um mál lengi áfram. Það er ekkert hér sem stöðvar það.

Í þessum hugmyndum er einnig gengið út frá því að hver þingflokkur geti óskað eftir að tvöfalda ræðutíma sinn a.m.k. tvisvar á vetri sem gefst þá þeim þingflokki stjórnarandstöðunnar sem hér er kannski fyrst og fremst verið að ræða um. Umræðuefnið hlýtur að vera það hvort verið sé að vega að stjórnarandstöðunni eða ekki. Niðurstaða mín er sú að verið sé að styrkja stjórnarandstöðuna. Ég virði það að aðrir hafi uppi annað sjónarmið en ég hef reynt að rýna í þau og hlýða á þau sjónarmið en mér finnst þau ekki sannfærandi. Ég verð að segja það alveg eins og er. Einnig getur hæstv. forseti tekið ákvarðanir um að framlengja umræðuna. Einnig er hægt að óska eftir því við forseta að umræðan verði lengri, þannig að það er ekki sanngjarnt að halda því fram að það sé útilokað að hafa langar umræður. Mér þykja röksemdirnar sem fram hafa komið til andstöðu við þetta mál á engan hátt sannfærandi og mér finnst þurfa betri sjónarmið ef sannfæra á einhvern, ég skal kannski ekki segja um það, en a.m.k. þingflokksformenn 54 hv. þingmanna á þinginu hafa lagt til að þessi leið verði farin og ef hv. þingmenn Vinstri grænna ætla að sveigja þá þingmenn yfir á sitt band þurfa þeir að mínu viti að koma með betri og vandaðri sjónarmið en komið hafa fram af þeirra hálfu.

Ég hef ekki heyrt að á öðrum Norðurlöndum eða annars staðar í Evrópu, þar sem ræðutími er sennilega mun takmarkaðri en hér er lagt til, sé því haldið fram að tjáningarfrelsi eða málfrelsi sé skert eða að þingmenn hafi verið sviptir því. Ég lít svo á, virðulegi forseti, að hlutverk þingsins sé í fyrsta lagi að setja lög og löggjafarstarfsemin er styrkt. Í annan stað er hlutverk þingsins að veita ríkisstjórninni aðhald og eins og hefðin hefur verið hér að tryggja stjórnarandstöðunni möguleika á að veita ríkisstjórninni aðhald, ég held að það sé betur tryggt nú en áður. Í þriðja lagi að þingið verði öflugur umræðuvettvangur samfélagsins og það er verið að styrkja það einnig. Að minni hyggju er fyrst og fremst verið að styrkja og bæta þingið, efla það sem stofnun, og að hér sé verið að stíga lítil skref í rétta átt. Sá sem hér stendur er svo sem ekkert saklaus að því að geta vel hugsað sér að taka stærri skref í þessa átt en í þessari umferð náðist sátt um þær breytingar a.m.k. hjá fjórum þingflokkum af fimm að taka þetta skref. Ég held, virðulegi forseti, að við eigum að taka þetta skref, við eigum að nota þann tíma sem við þurfum núna til að bæta það frumvarp sem hér liggur fyrir í meðförum þingsins og ég er nokkuð viss um að hv. þingmenn Vinstri grænna munu taka þátt í þeirri umræðu og hver veit nema við munum öll ganga í takt við þegar málið verður á endanum afgreitt.



[21:20]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti þeirri skoðun minni síðasta fimmtudag að ég teldi frumvarpið á margan hátt mjög jákvætt. Það er rétt viðleitni að færa Alþingi til nútímalegs horfs, gera það skilvirkari og um leið fjölskylduvænni vinnustað en verið hefur. Ég tel hins vegar að ganga megi mun lengra í þessum efnum. Þetta er fyrsta skrefið í rétta átt en við þurfum að gera enn betur.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að í málfrelsinu fælist fyrst og fremst það að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri og að það gætu menn gert án hindrana. Ég tek undir orð hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar um að ég er ekki fullviss um að rétt sé að stytta ræðutímann niður í 15 mínútur. Ég tel það of langt gengið og brýni þingmenn til að ná samstöðu um það mikilvæga mál. Málfrelsið er mjög mikilvægt. Við þurfum að fjalla um það á mjög yfirvegaðan og rólegan hátt og leita allra leiða til að ná samstöðu.

Hv. þingmaður talaði annars vegar um rökræðuna og hins vegar um einræðuna, og er þá líklega að vísa í hið svokallaða málþóf. Ég vil benda á þriðju aðferðina sem er hin svokallaða kappræða. (Forseti hringir.) Ég tel að við séum því miður að færa umræðuform á Alþingi (Forseti hringir.) úr rökræðustíl í kappræðustíl.



[21:23]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi ekki til mín neinni sérstakri spurningu en setti fram athyglisverð sjónarmið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að frumvarpið er liður í því að reyna að gera Alþingi fjölskylduvænni og betri vinnustað — ég veit ekki hvort ég vil kalla þjóðþingið vinnustað en menn koma jú þar saman og vinna sín verk. Ég treysti mér ekki til að meta hvort tryggt sé að málfrelsi haldist óskert með 15 mínútna, 20 mínútna eða 25 mínútna ræðutíma, ég hef ekki fullmótaða skoðun á því. Hér er lagt til að hann verði 15 mínútur en það breytir því ekki að nefnd á eftir að fara yfir málið og á þetta ef til vill eftir að mótast enn betur. Við fáum þá hugsanlega einhverjar aðrar hugmyndir. En ég þori ekki að fullyrða að málfrelsi sé tryggt með 15, 20, 25 mínútum nú eða 10 mínútum.



[21:24]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir ræðu sem var að mörgu leyti ágæt. Hún var ágæt vegna þess að hún var málefnaleg, hún tefldi fram röksemdum og ræðumaður lýsti skoðunum sínum. Ég er ekki sammála skoðunum hans að öllu leyti en er tilbúinn að íhuga röksemdirnar. Ég vil taka fram að þótt hann hafi fundið þess dæmi frá öndverðri 20. öld að ekki hafi verið samstaða um breytingar á þingsköpum og einnig dæmi frá síðasta vori, þá er hefðin sú í seinni tíð að leitað hefur verið eftir samstöðu um breytingar á þingskapalögum. Ég minni á þær breytingar sem voru gerðar í byrjun 10. áratugar síðustu aldar og á síðustu árum og ég vísa í umræðuna um það efni sem hefur byggst á virðingu fyrir þessari hefð.

Hv. þingmaður sagði að samkvæmt frumvarpinu gæfist þingheimi tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og er þá að vísa í 2. og 3. umr. þar sem menn geta talað í 15 mínútur í fyrstu ræðu og síðan heilar 5 mínútur. Það er alveg rétt. Menn geta komið skoðun sinni á framfæri á 5 mínútum en þegar kemur að því að rökræða í þaula flókin þingmál þurfa menn hugsanlega á lengri tíma að halda. Ég gæti vísað í þingmál sem hafa verið hér til meðferðar og hafa hreinlega þurft á því að halda að kafað væri í hlutina.

Hvort stjórnarandstaðan telji að sér vegið? Já, hún telur svo vera. Á hún þá ekki að hlíta vilja meiri hlutans í þinginu? Það fer eftir því hvernig menn vilja standa að breytingum af þessu tagi. Stjórnarmeirihlutinn og (Forseti hringir.) meiri hlutinn í þinginu vill hafa vit fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. Það er kölluð forræðishyggja og það (Forseti hringir.) er henni sem við viljum hafna í þessari umræðu.



[21:27]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að fagna tóninum í ræðu hv. þingmanns, það eflir trú mína á að þegar við á endanum afgreiðum málið verði allir í takt.

Hv. þingmaður sagði að stjórnarandstöðunni fyndist að sér vegið. En það er nú einu sinni þannig að minni hluta stjórnarandstöðunnar þykir að sér vegið, 9 af 20 þingmönnum stjórnarandstöðunnar telja að sér vegið en 11 telja að frumvarpið sé ekki til þess fallið að veikja stjórnarandstöðuna. Ég virði fyllilega þau sjónarmið sem komið hafa fram þó að mér þyki þau ekki sannfærandi, eins og ég hef áður sagt. En ég er líka viss um að þingskapamálið á hugsanlega eftir að taka breytingum í meðförum þingsins. Markmiðið hlýtur á endanum að vera að efla Alþingi sem stofnun, efla eftirlitshlutverk þess með framkvæmdarvaldinu og efla það sem umræðuvettvang. Það er markmiðið og ég er sannfærður um að við erum á réttri leið.



[21:28]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um mikilvægi þess að efla Alþingi sem umræðuvettvang. Það er kjarninn í málflutningi okkar, að standa vörð um rökræðuna á Alþingi. Erum við málsvarar þess að menn standi í ræðustól og tali klukkustundum saman? Nei. Við erum hins vegar andstæðingar þess að frumvörp, illa grunduð og í óþökk þjóðarinnar, séu keyrð með offorsi í gegnum þingið. Staðreyndin er sú að við höfum oftar en ekki staðið hér í ræðustól án þess að geta fengið vitneskju um það hvort umræðu um það mál sem er til umfjöllunar hverju sinni verður endanlega lokið við sólarupprás eður ei. Það er þess vegna sem við höfum verið að reyna að samþætta þessi sjónarmið eða þessar reglur, ræðutímann, vinnudaginn, þinghaldið.

Við höfum talað fyrir því að þinghald verði lengt, að þingárið verði lengt, fyrirkomulaginu á vinnudeginum breytt í grundvallaratriðum og að sjálfsögðu líka hitt að valdahlutföllum innan þingsins verði breytt. Það er í því samhengi sem við höfum talað um að forseti þingsins komi úr röðum stjórnarandstöðu, verkstjórinn á þingi, að formenn þingnefnda veljist til starfa á grundvelli reynslu og þá ekki síður úr stjórnarandstöðu en herbúðum stjórnarsinna.

Tillögur okkar ganga með öðrum orðum út á að efla þingið (Forseti hringir.) þannig að það standist framkvæmdarvaldinu og stjórnarmeirihlutanum á þinginu snúning.



[21:31]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Ögmundur Jónasson erum algjörlega sammála um að við viljum tryggja það að illa ígrunduð lög fari ekki hér í gegn. Um það erum við algjörlega sammála og við vitum það líka báðir, hv. þingmenn, að nefndastarfið er lykilatriði ef tryggja á vandaða meðferð. Þar fer hin raunverulega vinna fram. Það er þar sem menn uppgötva hnökrana á frumvörpum alla jafna. Þannig að við hv. þingmenn erum samstíga um þetta. Ég tel að þingskapalögin tryggi og bæti þessa vinnu.

Í annan stað nefnir hv. þingmaður að það sé erfitt að gera áætlanir því menn viti ekki hvort umræðu ljúki fyrir sólarupprás eða ekki. Hér er verið að stíga það skref að ekki verði kvöldfundir nema á þriðjudögum, þ.e. að það sé eini dagurinn sem sé tekinn frá, að öðru leyti ljúki þingfundum ekki síðar en klukkan átta. Þetta er að sjálfsögðu skref í þá átt sem hv. þingmaður nefnir hér.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að eftir að hafa hlýtt á hv. þingmann tala, eftir að hafa tekið þátt í umræðunni og andsvörum þá virðist mér hv. þingmaður ekki endilega vera að gagnrýna það frumvarp sem hér liggur fyrir, heldur fyrst og fremst að gagnrýna það sem ekki stendur í frumvarpinu, t.d. að taka hefði mátt stærri skref til að styrkja stjórnarandstöðuna. Hv. þingmaður nefndi forseta þingsins, formenn í nefndum o.s.frv. Þar kannski liggur hin raunverulega efnislega gagnrýni en hún liggur ekki endilega í gagnrýni á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Mér þykir ágætt að þetta hafi komið fram við þessa umræðu. (Gripið fram í: Ég er að gagnrýna aðstandendur og ákvæði.)



[21:33]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil við upphaf þessarar umræðu af minni hálfu og fyrir hönd Framsóknarflokksins taka sérstaklega undir það sem þingflokksformaður okkar sagði hér á dögunum, hv. þingmaður, Siv Friðleifsdóttir, með leyfi forseta:

„Alþingi Íslendinga verður að hlýða kalli tímans. Það eru breyttir tímar og við verðum að taka það til greina í vinnubrögðum okkar. Það er ekki mönnum bjóðandi að hafa ræðutímann eins og hann hefur verið og þetta segi ég, þó að ég sé í stjórnarandstöðu. Hér hafa stundum verið fluttar ræður sem staðið hafa í marga klukkutíma, heilu næturnar og þetta er vopn sem stjórnarandstaðan hefur oft beitt til að reyna að koma málum af dagskrá.“

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir þessi varnaðarorð og ég vil segja við upphaf þessarar umræðu að við Íslendingar segjum oft á mikilvægum stundum að við eigum elsta þjóðþing heimsins. Stofnað á Þingvöllum árið 930, elsta og virðulegasta þjóðþing heimsins, sem á mörgum sviðum hefur verið fyrirmynd margra annarra þjóðþinga og menn hafa horft hingað reynslunnar vegna og viljað læra af okkur. Þess vegna er það náttúrlega mjög mikilvægt fyrir okkar forna og nýja þing að vera áfram í þeim fararbroddi, finna til í stormum samtímans, taka breytingum og kalli breyttra tíma til þess að vera áfram í fremstu röð.

Íslendingar voru oft veikir, og það er kannski vert að minnast þess líka hér að Alþingi Íslendinga var um langt skeið lagt niður og marga hugsjónamenn okkar á 19. öldinni dreymdi um að þing yrði endurreist. Þar voru Fjölnismenn og snarorðir snillingar sem sáu að frelsi þjóðarinnar og staða Íslendinga yrði veik og engin ef ekki risi upp öflugt Alþingi.

Jónas Hallgrímsson, sá mikli snillingur sagði:

 

Hörðum höndum

vinnur hölda kind

ár og eindaga;

siglir særokinn,

sólbitinn slær,

stjörnuskininn stritar.

Traustir skulu hornsteinar

hárra sala;

í kili skal kjörviður;

bóndi er bústólpi,

bú er landstólpi,

því skal hann virður vel.

 

Svo bætti hann við:

 

Ríða skulu rekkar,

ráðum land byggja,

fólkdjarfir fyrðar

til fundar sækja,

snarorðir snillingar

að stefnu sitja;

þjóðkjörin prúðmenni

þingsteinum á.

 

Sannarlega eru þetta orð í tíma töluð á hverjum tíma, þjóðkjörin prúðmenni, menn sem að virða hvern annan, hvort þeir skipa meiri hlutann í þetta sinn eða hinn tímann. Kannski er það nú svo þegar ég fer yfir stöðu Alþingis um langa hríð — ég hef fylgst með Alþingi lengi, setið hér lengi, og geri mér grein fyrir því að þingið, Alþingi Íslendinga er ekki lengur í fremstu röð í heiminum sakir vinnubragða sinna. Alþingi Íslendinga er ekki það sjálfstæða þing sem menn dreymdi um. Alþingi Íslendinga er veik stofnun af mörgum ástæðum.

Hér tala menn mjög um virðingu stjórnarandstöðunnar og það þurfi að styrkja stjórnarandstöðuna. Það er útúrsnúningur og fyrirsláttur. Alþingi Íslendinga er fyrst og fremst veikt af því það hvílir í fangi framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarflokkanna á hverjum tíma. Það er kannski sá aðskilnaður og sú stóra stund sem þarf að renna upp til þess að breyta hér starfsháttum, að menn átti sig á því að þar liggur veikleiki þingsins.

Ég er búinn að sitja hér dálítið langan tíma, eins og ég sagði. Því miður hefur mér fundist að þingmenn stjórnarflokkanna hefðu oft og tíðum ekki það frelsi sem þeir ættu að hafa og nýti þeir það frelsi þá eru þeir stundum ekki lengur í sátt í sínum hópi. Því miður sjáum við gerast hér í þinginu hluti sem ekki eiga að eiga sér stað. Þá á ég t.d. við það mál sem við ræðum á morgun. Hvernig má það vera að tveir forustumenn sem stýra ríkisstjórn semji um stjórnarráðslögin og breytingar á milli ráðuneytanna á einum tveggja manna fundi á Þingvöllum? (Gripið fram í: Við vorum fjögur.) Þannig að það er ljótur svipur á slíkum vinnubrögðum.

(Gripið fram í.) Nú grípur hér fram í sá garpur sem hefur haldið 500 ræður á hverju einasta þingi, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skýtur hér kolli sínum inn í ræðu mína. Ég held satt að segja að við þurfum líka að fara yfir það hvernig þingið starfar. Löngu ræðurnar setja ljótan svip á þinghaldið. Ég minnist þess t.d. þegar ég var að byrja á þingi þá vorum við hér oft dag og nótt. Við vorum stundum fram á Þorláksmessu eða nánast aðfangadag. Við vorum á milli jóla og nýárs. Og ég minnist þess með einstöku þakklæti þegar forsætisnefnd einhvern tíma á tíunda áratugnum fór að senda út í sjónvarpið umræður Alþingis. (Gripið fram í: … málþóf á milli jóla og nýárs.) Ég hef aldrei haldið langar ræður í þinginu, aldrei verulega langar. Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið málþófsflokkur, (Gripið fram í.) hefur aldrei verið málþófsflokkur.

Við verðum líka að greina á milli hvað er málþóf og hvað er ekki málþóf. Ég get t.d. tekið sem dæmi af því hv. þingmaður grípur hér fram í að það hafa margir hringt í mig utan úr þjóðfélaginu út af umræðunni um 2. umr. fjárlaga sem var rétt fyrir helgina og harma það hvað hún var einhliða af því tveir menn yfirtóku allan miðjan daginn. Þetta fólk sem fylgist með Alþingi vildi á þessum tíma meiri lýðræðislega umræðu. Það vildi heyra í fleiri mönnum en tveimur. Og þótt allir flokkar sem hér eru hafi tekið þátt í málþófi þá vitum við að Alþingi styrkist ef það hverfur frá löngum ræðum yfir í beittar umræður.

Breska þingið er t.d. á margan hátt til fyrirmyndar þar sem oft verða mjög snörp átök á milli ráðherra og þingmanna. Það er lýðræðislegt og það vekur áhuga fyrir þinginu. Þess vegna er ég sannfærður um að það sem við undirbjuggum hér í lok síðustu aldar, það þingskapafrumvarp sem nú liggur fyrir, það mun bæta Alþingi Íslendinga, það eru málamiðlanir og að menn nái samkomulagi, eins og hefur komið fram.

Ég fagna því að Alþingi starfi t.d. allt árið. Það er komið að því að við þurfum ekkert að vera að kveðjast hér fyrir jólin og fara í svokallað jólafrí. Þingið getur komið saman hvenær sem er. Alveg eins á vorin. Við þurfum að lengja þingtímann og gera hann skipulagðari. Því að hverfa heim á vorin, kannski í maí og koma ekki aftur saman fyrr en í október, þá er þingið ekki með í þjóðfélagsumræðunni.

Ég hefði að vísu t.d. viljað sjá það að 1. september kæmi saman nýtt þing, ekki gamla þingið, að nýtt þing byrjaði aftur 1. september og ég hygg að það verði svo í framtíðinni. Það er því margt í þessu. Eins er það með ræðutímann. Við gætum auðvitað velt því fyrir okkur hvort við séum að ganga of langt á einhverjum sviðum. Erum við að gera alveg hárrétt? En þetta er niðurstaða sem hefur orðið til.

Það er ágreiningur á milli flokkanna. Þingmenn vinstri grænna hafa ekki fallist á þessa niðurstöðu. Sú niðurstaða sem kom eftir margra vikna umræðu meðal formanna þingflokka í forsætisnefnd þingsins, í stjórnmálaflokkunum kom mér að vísu dálítið á óvart, af því mér fannst það vera vilji allra að ná saman.

Ég skal viðurkenna það, hæstv. forseti, að mér sárnar það á þessari stundu að forustumenn vinstri grænna skuli bera það á aðra eins og þeir hafa gert í dag, og lýsa því yfir við þjóðina að aðrir hafi verið í einhverri kaupmennsku. Umræða um að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðunnar. Það er mjög rangur áburður og mjög alvarlegur áburður.

Hv. þingmenn sem hafa, alveg eins og við hinir, skrifað undir drengskaparheit um að fylgja sannfæringu sinni eiga ekki að bjóða okkur þessar umræður. Það gerðu sér allir ljóst þegar þessi umræða hófst hjá hæstv. forseta Sturlu Böðvarssyni, sem hafði eins og okkur mörg dreymt um að þingið stigi ný skref, að þar var auðvitað verið að ræða um stórt mál, bæði til þess að breyta þinginu og styrkja það á svo mörgum vígstöðvum. Þetta hlaut út af fyrir sig að vera eitt mál og menn gátu ekki klofið það og valið úr því við þessar aðstæður. Þannig gerist ekkert þegar svo stórt mál er tekið fyrir í þinginu. Ég bið menn því að gæta hófs í þeirri umræðu.

Við í Framsóknarflokknum margræddum þetta mál. Við komum athugasemdum okkar á framfæri, við sjáum mjög margt í þessu máli sem breyta mun þinginu og efla það en það er ekki þar fyrir að við teljum allt sé eins og það eigi að vera. Sannarlega er það svo með mig.

Þegar þessi klofningur varð hittumst við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og ræddum þetta okkar á milli. Við höfðum náð saman með meiri hlutanum á þinginu en við gengum á fund hæstv. forseta Sturlu Böðvarssonar til að fara yfir það hvort einhver leið væri til að ná saman með Vinstri grænum. Nú hefur það ekki orðið. Ég átta mig að vísu ekki á þeim ágreiningi. Mér finnst hann fyrst og fremst snúa að því að þeir vilji halda áfram sínum löngu ræðum hér. Ég minni t.d. á að Alþýðubandalagið gamla, sem er grunnur að Vinstri grænum, var líklega fyrsti þingflokkurinn sem tók að takmarka ræðutíma á þingflokksfundum. Mig minnir að það hafi verið þrjár mínútur. Það var því ekki mikið frelsi gefið til langrar umræðu á þeim tíma.

Margrét Frímannsdóttir, sem þá var þingflokksformaður, gerði sér auðvitað grein fyrir því að þarna voru margir mælskir menn sem vildu taka langan tíma. Ég held að þetta hafi verið svona, að um hvert mál sem til umræðu var gátu menn talað í þrjár mínútur. Ég hefði alveg getað lifað með Alþýðubandalaginu og haft gaman af þessum fundum. En ég verð að segja fyrir mig að mér finnst þinghaldið með þeim löngu ræðum sem við ástundum ekki heillandi vettvangur. Það er ekki heillandi fyrir þá sem vinna hér. Það er ekki líklegt til að menn sitji í þingsalnum því að enginn hefur verið kjörinn til þess að sitja hér undir hverju sem er. Menn yfirgefa þingsalinn og fara út á skrifstofur sínar. Það er ekki heillandi fyrir þá mörgu sem í vaxandi mæli hafa tamið sér að fylgjast með þinginu. Og ég er sannarlega þeirrar skoðunar, eins og ég rakti áðan, að ræður þingmanna hafi batnað þegar farið var að sjónvarpa frá þingfundum. Þær styttust, þær breyttust og þær urðu markvissari.

Ég held að það sé stórt mál fyrir þingið að hugsa til þess hvort ekki sé hægt að útvarpa og sjónvarpa hverri einustu umræðu sem fram fer í þinginu. Sú umræða sem nú er fer fram hér í skjóli kvölds og nætur verður í sjónvarpinu í fyrramálið. Það væri mikill fengur að því ef hún gæti verið inni á heimilunum í kvöld. Menn geta jú horft á þingið á netinu og gera það sjálfsagt um víða veröld en ég held að við þurfum að huga að þessum breytingum. Við skulum gá að því að ríkisstjórnin hefur breytt störfum sínum, ráðherrarnir ráðuneytum. Hæstiréttur hefur breytt störfum sínum í takt við tímann. (Gripið fram í.) og takmarkað ræðutíma. Og eitt er ljóst, hv. þm. Jón Bjarnason, sem ert nú málglaður hér og tekur langan tíma að fréttir fjölmiðlanna eru jafnlangar hvern einasta dag hvað sem um er að vera. (Gripið fram í.) Það er rétt, við erum ekki þar. En við verðum samt sem áður að koma þinginu í það horf að þar geti bæði verið rökræða, kappræða og lifandi umræða. Ég held að full ástæða sé til þess að breyta mörgu í störfum okkar .

Við eigum líka að velta einu fyrir okkur sem ég held að sé stórmál og getur ráðist af umgjörð þingsins og vinnubrögðum: Sækist ungt fólk í dag eftir þingmennsku? Jú, sem betur fer sjáum við það koma en samt sem áður skal ég viðurkenna það að aðstæður í íslensku samfélagi eru allt aðrar en þær voru þegar ég kom inn á þing fyrir 20 árum. Ungt, vel menntað fólk á úr miklu meiru að velja. Virðing þingsins veltur á aðbúnaði, hún veltur á vinnutíma og hún veltur líka á launakjörum sem hér er boðið upp á. Við erum mjög sátt við það, alþingismenn, að þurfa ekki að ráða kaupi okkar sjálf. Ég held að það gengi aldrei upp. En það má spyrja sig að því, miðað við þá breyttu stöðu og breyttu tækifæri sem nú eru í samfélaginu: Hvernig hugsar kjararáð t.d. þegar það markar alþingismönnum samtímans laun? Markar það þingmönnum laun eins og þeir séu í hlutastarfi? Því sannleikurinn er sá, þegar við skoðum stöðuna í dag og hið breytta þjóðfélag, að gríðarlega há laun eru borguð hjá mörgum stéttum samfélagsins. Millistjórnendur í bankakerfinu eru sjálfsagt með tvöföld þingmannslaun. Við sjáum að Kjaradómur markar ríkisforstjórum mun hærri laun en þingmönnum og ráðuneytisstjórar eru á hærri kjörum en ráðherrarnir. Einkageirinn hefur náttúrlega gengið allt of langt á mörgum sviðum í að taka margföld laun ráðherra og alþingismanna. Við þurfum því að velta þessu fyrir okkur: Fjallar kjararáð um Alþingi eins og það starfi bara hálft árið eins og var t.d. fyrir 35 árum?

Við þingmenn, a.m.k. landsbyggðarinnar, vinnum mjög langan vinnudag, við erum oft og tíðum að vinna með okkar fólki og fara um landið þá daga sem þing er ekki að störfum, að halda fundi og hitta fólk. Við vitum að þingið hefur lagt það á þingmenn sína með breytingu á kjördæmalögunum að kjördæmin eru orðin gríðarlega stór og erfið og eiginlega óvinnandi vegur fyrir menn að sinna öllum þeim skyldum sem þeir sannarlega þurfa að gera með sínu fólki. Það er ekki bara spurning um að láta sjá sig, fólkið á landsbyggðinni gerir kröfur um að þingmenn kynni sér málin og haldi fundi og séu á vettvangi. Þarna hafa orðið miklar breytingar.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því þegar við sitjum yfir þessari breytingu á þingsköpum og ræðutíma að sveitarstjórnastigið á Íslandi hefur tekið stórkostlegum breytingum. Sveitarstjórnarmenn, hvort sem er í borgarstjórninni í Reykjavík eða í sveitarstjórnum á landsbyggðinni, hafa horfið að mestu frá hinum löngu ræðum. Þeir hafa takmarkað ræðutímann. (Gripið fram í.) Þeir hafa breytt fundarforminu og ég hygg að það sé svo komið a.m.k. í borgarstjórn Reykjavíkur að launakjör borgarfulltrúa eru mun hærri en alþingismanna. Svo ég taki það sem dæmi. (Gripið fram í.) Enda heyri ég einn hv. þingmann kalla inn að hann hafi stórlega lækkað í launum með því að koma til starfa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Svo er það hárrétt, sem betur fer, að hér er annar þingmaður sem fimmfaldaði laun sín með því að setjast inn á þing í stuttan tíma og það segir okkur kannski hversu mikil misskiptingin er í launakjörum á vinnumarkaðnum

Þegar ég fer yfir það frumvarp sem hér er til umræðu þá styð ég heils hugar aðalatriði þess, að lengja reglulegan starfstíma Alþingis. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Þingið getur ekki verið fjarri vettvangi, ég held að við öll séum sammála um það. Þingið verður að geta komið saman nánast fyrirvaralaust, það verður að starfa sumar, haust, vetur og vor. Það fylgir þessari breytingu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að efla eftirlitshlutverk þingsins. Framtíðin er auðvitað sú að gera nefndarstörf á Alþingi enn þá öflugri, einnig mætti opna nefndirnar fyrir fjölmiðlum ákveðna daga og við ákveðna umræðu og almenningur gæti þá fylgst með þeim störfum sem þar fara fram til að gera nefndarstarfið skilvirkara

Það er líka alveg skýlaus krafa, sem ég hygg að flestir þingmenn séu sammála um og vinstri grænir líka, að draga úr kvöld- og næturfundum því að það er ekki fallegur svipur á þessum vinnubrögðum og þess vegna er mjög mikilvægt að marka fundartíma skýrt. Ég segi fyrir mig að það hlýtur að vera skylda forsætisnefndar, eftir að ræðutími hefur verið takmarkaður með þessum hætti, að afmarka þinghaldið við dagvinnutíma. (Gripið fram í.) Menn þurfa að fara yfir það því að við ætlum að skapa öðruvísi umræðu sem mun á einhverjum tíma þróast þannig, en þá megum við ekki standa frammi fyrir því að menn hafi sama frelsið til að tala fram á kvöldið og inn í nóttina og áður var.

Þá er atriði sem mér finnst mjög mikilvægt, að ráðherrar komi oftar á fundi þingnefnda, sem ekki hefur verið regla hér í þinginu. Ég hygg t.d. að þann tíma sem ég starfaði sem landbúnaðarráðherra, í átta ár, hafi ég aldrei verið kallaður á fund landbúnaðarnefndar, kannski treystu nefndarmenn mér mjög vel og flest það sem ég var að gera var auðvitað gott eins og þingmenn þekkja. (Gripið fram í.) Ég held að það sé bæði gagnlegt fyrir ráðherrann og nefndina að hittast. Auðvitað hittumst við stundum, ég átti góða stund með nefndinni einu sinni á ári til að skiptast á skoðunum og kynnast og síðan í ágætum ferðalögum um landið sem gaman var að.

Að gera umræður markvissari og styttri. Ég held að þetta atriði sé allt af hinu góða.

Síðan er það sem kannski skiptir máli þegar við hugsum um Alþingi Íslendinga, löggjafarþingið sjálft, mikilvægustu stofnun Íslands, að það er enginn vafi að þingið hefur í rauninni sætt sig við það, eins og ég var að rekja, að ríkisstjórn á hverjum tíma stjórni þinginu að vissu marki. Og sannarlega er það svo þó að mörgum finnist stundum, a.m.k. þegar laun alþingismanna eða ráðherra hækka og þegar einhver kostnaður er í viðbót, að þingið sé dýrt en þegar við gætum að kostar Alþingi Íslendinga minna en flest ráðuneytin og undirstofnanir þess. Íslenska þjóðin er því ekki að leggja mjög mikið í löggjafarþing sitt hlutfallslega. Í rauninni eigum við að kalla eftir meiri virðingu, vinnu og aðhaldi og störfum í þinginu en um leið kallar það á viðbótarfé til þess að tryggja lýðræði og eftirlit og störf hér.

Undir þetta allt saman tek ég. Svo er hitt auðvitað ljóst sem kom fram í dag, skyldur á Alþingi hafa vaxið stórlega á síðustu árum í alþjóðlegu starfi Alþingis og alþingismanna sem eru líka mjög mikilvægar. Þegar ég var strákur var það einn maður sem fór til útlanda oft og tíðum, það var utanríkisráðherrann. Það voru teiknaðar af honum myndir og gert að honum grín fyrir að vera á miklum ferðalögum. Nú eru það orðnar miklu meiri skyldur á öllum ráðherrum, forsetanum og sem betur fer á þingnefndum og þingmönnum. Þeir þurfa að taka þátt í þessu alþjóðlega og evrópska starfi til að fylgjast með, geta sótt og varið íslenska hagsmuni, vera vel að sér í þinginu í umræðu og koma afstöðu Íslendinga áfram. Hér er stórt verkefni og í rauninni stigið stutt skref til að breyta þinginu.

Ég er sannfærður um að við hvert skref sem við stígum munum við sjá að við þurfum að stíga ný skref til að bæði efla þingið og breyta því. Starfsvettvangur fyrirtækjanna er öðruvísi en hann var fyrir 10 eða 15 árum. Ákvarðanir þarf að taka með markvissari hætti og á styttri tíma.

Ég tel, hæstv. forseti, að hér séum við á réttri leið en ég hvet auðvitað til þess að menn fari vel yfir málið á milli umræðna og leiti sátta og hvort menn nái saman um þær breytingar. Mig langar t.d. til að heyra við umræðuna — ég er ekki búinn að heyra það — hvað það er sérstaklega sem vinstri grænir vilja leggja áherslu á. Þeir eru í rauninni búnir að segjast vera sammála öllum þeim atriðum sem ég hef rætt um. Þeir vilja að vísu kljúfa í sundur málið og klára annan hluta þess en ekki hinn. Þeir vilja geyma ræðutímann. Kannski er það þessi svellkalda þrá þeirra til að tala í 3–4 tíma hver og einn í hverju einasta máli. (Gripið fram í: Gerum við það?) Mjög margir. (Gripið fram í: Gerum við það?) (Gripið fram í: … í hverju máli.) Mjög margir, auðvitað tala menn minna í samstöðumálum, en þó er það svo í málþófi að menn tala oft mikið um samstöðumálin. Ég vildi fá það á hreint hér hvar sá vettvangur er sem þeir, eins og við öll hin, hafa gefið eitthvað eftir. Ég var ekki sáttur við allt. Ég varð að fella mig við það. Ég er einn af 63 þannig að eitthvað sem ég sé fyrir mér í þinghaldinu kemst ekki áfram núna en vonandi síðar. Ég lýsi eftir að fá að heyra það í kvöld hvar vinstri grænir geta mætt okkur í ræðutímanum.

Þegar ég fór í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið voru strax komnir á mælendaskrá 25 þingmenn. Í mörgum þjóðlöndum er þetta gert miklu snarpara. Þá er það talsmaður flokks og styttri, snarpari og lýðræðislegri umræða þar sem skoðanaskiptin komast áfram. Hér var hins vegar a.m.k. einn þriðji þingsins strax kominn á mælendaskrá og við tókum í hana tvo daga. Ég er ekki viss um nema þessi umræða um t.d. fjárlögin hefði verið snarpari með allt öðrum hætti, sterkum talsmönnum í 20 mínútur hver og síðan styttri ræðum til að fylgja eftir og hafa verkaskiptingu innan þingflokka til að fylgja eftir einhverjum aðalatriðum sem við leggjum áherslu á.

Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, að við framsóknarmenn höfum tekið þá afstöðu eftir mjög ítarlegar umræður að fylgja þessu máli eftir og styðja það. Við teljum það skref fram á veginn til að breyta starfsaðstöðu og störfum Alþingis til að gera það að sterkari stofnun. Ég frábið mér umræðu um að þetta sé gert fyrir stjórnarandstöðuna. Þetta er fyrst og fremst gert fyrir þingræðið og ég minni á að stundum er talað um að það sé sundrung í stjórnarandstöðunni. Hvernig í ósköpunum á annað að vera, t.d. milli okkar formannanna, mín og Steingríms J. Sigfússonar — hann harðvítugur vinstri maður úti á kanti, ég leikandi léttur á miðjunni (Gripið fram í: Léttur á bárunni.) — en að einhvern tíma verði ólík sjónarmið okkar á milli? Við erum hvor í sínum flokknum. Ég hef verið í hans flokki, og svona flokkur þarf að vera í hverju einasta þjóðþingi. Gagnrýnendurnir verða að vera til staðar. Ég hef ekkert við það að athuga. Hann er harðvítugur vinstri maður og heiðarlegur stjórnmálamaður þannig að ég hlusta oft á hann. Oft er ég honum sammála en í meginatriðum skilur okkur margt að pólitískt, á vettvangi stjórnmálanna. Þess vegna er mjög undarlegt þegar menn koma hér upp eins og hæstv. iðnaðarráðherra og tala um að stjórnarandstaðan sé sundruð. Við erum miklu meira undrandi á því hvernig þeir sem hafa ákveðið að vera í hjónabandi og ríkisstjórn, eins og nú er, tala hver um annan og hver við annan og láta hin sundurlyndu sjónarmið koma fram. Því fylgja alltaf brestir.

Ég frábið mér umræðu um að þetta sé gert fyrir okkur. Ég tel þetta gert fyrir þingræðið og ég hef lýst því yfir að ég hef áhyggjur af stjórnarmeirihlutanum. Ég hef áhyggjur af hinum frjálsbornu þingmönnum stjórnarflokkanna oft og tíðum og í rauninni er ekkert hættulegra í lýðræðisríki en ef flokksræði tekur völdin. Því miður finnst mér á síðustu árum hafa örlað nokkuð á því að menn sætti sig umræðulaust við mál sem þeir ekki styðja.

Ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, með því að vonast til að samstaða náist um málið, að við getum farið yfir það og náð saman um það. Ég vona að þetta mikla mál sem mun styrkja Alþingi og breyta því verði að lögum fyrir jól.



[22:08]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson flutti athyglisverða ræðu og notaði til þess rúmar 35 mínútur, þ.e. honum hefði ekki dugað tvöfaldur sá ræðutími sem samkvæmt hinu nýja frumvarpi á að leyfa við umræður um hin stærstu mál. Ég tel að litlu hafi verið ofaukið í þessari ræðu hv. þingmanns og hann nýtt tíma sinn ágætlega og þótt hann hafi klárað hann.

Ég kom inn á þing á vordögum 1983. Ég var þá enn við nám í Háskóla Íslands og ég held að ég verði að segja að mér fannst vinnustaðurinn býsna fornfálegur. Ég veit ekki úr hvaða heimi þeir koma sem tala eins og að hér hafi ekkert breyst og Alþingi ekki áttað sig á því að það séu nýir tímar. (Gripið fram í.) Þeir þekkja lítið til sögunnar og muna ekki það Alþingi sem ég kynntist fyrst. Þá var margt með öðrum brag en er í dag. Ætli meðalaldur starfsmanna, einkum þingmanna, hafi ekki verið 65–70 ár hið minnsta, þ.e. starfsmanna, helst þingvarða. Hér gengu um virðulegir jakkafataklæddir eldri karlar ráðnir af þingmönnum sem þeir höfðu þekkt. Alþingi starfaði í tveimur deildum. Tölvur voru að sjálfsögðu óþekkt fyrirbæri. Tveir til þrír þingmenn deildu skrifstofum ef skrifstofur skyldi kalla, kompum undir súð í Þórshamri, og þannig mætti áfram telja.

En það fór ýmislegt að gerast á 9. áratugnum. Starfshættir og vinnubrögð á Alþingi voru tekin til rækilegrar skoðunar, m.a. var settur á fót starfshópur fulltrúa allra þingflokka sem fékk erlenda ráðgjafa sér til liðs til að gera úttekt á Alþingi og vinnubrögðum þess og koma með tillögur til úrbóta. Sömu aðilar höfðu reyndar unnið að sambærilegum athugunum á þjóðþingum annars staðar. Ráðgjafarfyrirtækið Haberstad var þarna á ferð og upp úr þessum hugmyndum og þessari vinnu spruttu að hluta til breytingarnar á þingsköpum 1991 sem voru langróttækustu breytingar sem gerðar voru á þinginu, nánast frá endurreisn þess, þegar það var sameinað í eina málstofu, nefndasvið stofnað og aðstaða þingmanna stórbætt. Miklir svardagar voru uppi hafðir um það að þetta skyldi ekki gert á kostnað þess að vinnubrögð yrðu óvandaðri og mistök jafnvel líklegri við lagasetningu heldur þvert á móti, m.a. með því að vanda alveg sérstaklega umfjöllun um mál eftir að þau væru komin í eina málstofu, öll frumvörp nema fjárlagafrumvarp sem áður hafði verið í sameinuðu þingi, tryggja ítarlega rannsókn þeirra í þingdeildum og búa betur að því starfi öllu saman. Það mál var afgreitt í góðri sátt. Fyrst í stað held ég að menn hafi virkilega lagt sig fram um að standa við hin stóru fyrirheit um vönduð og sanngjörn vinnubrögð. Liður í þessu var breytt valdajafnvægi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Menn vildu styrkja þingið í sínum eigin rétti og draga úr þeirri miklu aðgreiningu í meiri hluta og minni hluta sem oft hafði verið hér landlæg. Liður í því var að stjórnarandstaðan tók við forustu í þingnefndum nokkurn veginn í hlutfalli við þingstyrk sinn og staða stjórnarandstöðu var styrkt á ýmsan hátt í stjórnkerfi þingsins.

Því miður entist þetta stutt. Ég verð að segja að frá miðjum síðasta áratug eða svo hefur þetta meira og minna allt saman gengið til baka. Hin skarpa aðgreining í meiri hluta og minni hluta og sú hugsun að Alþingi sé fyrst og fremst afgreiðslustaður fyrir málefni, frumvörp og mál framkvæmdarvaldsins hefur gerst æ ágengari. Ráðherrar hafa tekið með miklu meiri léttúð á þeim skyldum sínum að sækja þingfundi og vera til svara og það gerist iðulega að þeir mæta ekki til umræðna þótt eftir því sé leitað.

Þannig hef ég því miður upplifað þetta á síðustu árum og það er enginn vafi í mínum huga á því að Alþingi Íslendinga er mun veikara en þjóðþingin í nágrannalöndunum og kemur þar margt til. Það hefur veikst gagnvart framkvæmdarvaldinu miklu frekar en styrkst. Á þessu má náttúrlega leita skýringa ef menn vilja en ég held að m.a. sé þær augljóslega að finna í því að hér hafa setið mjög sterkar meirihlutaríkisstjórnir. Alþingi þekkir nánast ekki minnihlutastjórnarhefð en það er alkunna að þjóðþingin styrkjast gjarnan við þær aðstæður að ríkisstjórn þarf að semja um framgang mála sinna á þingi. Menn geta svo sagt að það geti gengið út í öfgar og það má vel til sanns vegar færa, en ekki held ég að menn kvarti þó almennt undan því eins og í Noregi þar sem menn bjuggu í meira en 20 ár samfellt við minnihlutastjórnir sem hafði augljóslega þau áhrif að staða þingsins styrktist jafnt og þétt. Hér hafa líka verið við völd ráðamenn sem hafa ástundað mikil valdboðsstjórnmál, viljað knýja sín mál í gegn og hafa ekki haft mikla samúð með Alþingi sem eitthvað hefur verið að þvælast fyrir þeim.

Þriðja ástæðan sem má nefna er sú að það er ekki mikil hefð í íslenskum stjórnmálum fyrir svokölluðum samstöðustjórnmálum eða konsensusstjórnmálum. Það er einhvern veginn ekki andinn sem hér hefur svifið yfir vötnum að mönnum beri að leggja mikið á sig til að reyna að ná samstöðu um mál ef þess er nokkur kostur, óháð því hvort þeir þurfa endilega á því að halda til að koma málum sínum fram, þurfa endilega á að halda þeim atkvæðum sem það snýst um Ég get ekki annað en endurtekið vonbrigði mín og eiginlega undrun á þeim vinnubrögðum sem forseti Alþingis hafði forustu um þegar þetta mál var í fæðingu. Þegar forseti boðaði það í ræðum sínum í vor að hann hefði hug á að gera breytingar held ég að flestir hafi tekið því vel, en þær væntingar sem við það voru bundnar fóru heldur illa í frostkuldunum þegar í ljós kom að hæstv. forseti ætlaði að standa þannig að þessu að hann héldi utan um undirbúning málsins einn og legði fram í trúnaði í þröngum hópum, fyrst forsætisnefnd og síðan við formenn þingflokka, frumvörp sem höfðu verið samin á hans vegum og voru að hans sögn í raun ekki til umræðu þar sérstaklega, heldur kynningar af því að að hluta til væru þeir kostir sem þar voru uppdregnir óumbreytanlegir, ultimatum, úrslitakostir.

Forseta var gert það ljóst strax í haust að a.m.k. nokkur atriði í frumvarpsdrögum hans væru óaðgengileg fyrir okkur. Forseti reyndist ekki til umræðu um að koma til móts við þau sjónarmið okkar en stillti málinu þvert á móti þannig upp að ekki bara væru þær tillögur sem hann hefði látið setja á blað um ræðutíma og annað í þeim dúr óumbreytanlegar heldur væru þær algerlega fastbundnar þeim hugmyndum um úrbætur á starfsaðstæðum þingmanna og efndir gamalla loforða eins og frá kjördæmabreytingu fyrir níu árum sem héngu á spýtunni. Þessari framsetningu mótmæltum við strax og vöruðum við henni. En það kom fyrir ekki, svona kaus forseti að stilla dæminu upp.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nefndi hér að það væri spurning hvort einn þingflokkur eða einstakir þingmenn, hópur þingmanna, ættu að hafa neitunarvald í máli af þessu tagi. Er nú ekki dálítið djúpt í árinni tekið að kalla það að menn vilji taka sér neitunarvald ef þeir láta ekki bjóða sér hvað sem að þeim er rétt í þessum efnum og þegar það er lagt á borðið sem úrslitakostir strax í byrjun? Við höfum ekki farið fram á neitt neitunarvald í þessum efnum, en við höfum neitað að láta kúga okkur undir hluti sem við erum á móti. Hvað gefur forseti þessu máli langan tíma í raun og veru í efnislegri umræðu og skoðun eftir að trúnaði er aflétt af málinu? Í 2–3 vikur stóð málið opið. Það er allt og sumt. Og þetta er í byrjun kjörtímabils þegar nógur tími er til stefnu við að vinna hlutina áfram, ræða málin og átta sig á því hvort ekki er hægt að halda þeirri hefð að reyna að gera breytingar af þessu tagi í samkomulagi og hafa frið og samstöðu um undirstöðuvinnureglurnar í þessari stofnun. Það er stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar sem forseti trakterar með þessum hætti. Leggur það enga ábyrgð á herðar forseta þegar þær aðstæður koma upp að það var ekki einu sinni hægt að skoða það í klukkutíma, hvað þá daga, og fékk þó forseti eins og hér kom reyndar fram áskoranir um það víðar að en frá okkur þegar formenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna gengu á hans fund.

Því er hampað mjög að í þessu felist miklar úrbætur. Það má til sanns vegar færa að ýmislegt í þessu frumvarpi og málum sem því tengjast er skref í rétta átt. Það þýðir samt ekki að menn geti ekki haft hlutina með öðrum hætti og gengið frá þeim í einstökum atriðum öðruvísi en hér á að leggja upp. Hvert eru menn komnir ef ekki má ræða með rökum hluti af því tagi sem við leggjum fyrst og fremst höfuðáherslu á, að þessar breytingar megi undir engum kringumstæðum verða til þess að veikja enn stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu? Staða Alþingis í þeim skilningi er fyrst og fremst mæld út frá réttindum minni hluta og stjórnarandstöðu hvers tíma. Þannig er það í þingræðinu. Lýðræðið snýst einkum og sér í lagi um að búa um og tryggja réttindi mismunandi hópa og minni hluta. Af meiri hlutanum sem með völdin fer þarf að sjálfsögðu ekki að hafa áhyggjur í þeim efnum.

Það er ekki að ástæðulausu sem þingsköpin geyma fjölmörg úrræði, fjölmargar reglur og takmarkanir sem eru ætlaðar til að tryggja vandaða og rækilega málsmeðferð og koma í veg fyrir að menn rúlli málum í gegn hraðfari, fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Það á alltaf að gefast góður tími til að gaumgæfa og rannsaka mál, ræða þau, koma öllum sjónarmiðum á framfæri og leyfa þeirri umræðu að bergmála út í þjóðfélagið af fundum sem hér eru haldnir samkvæmt ákvæðum í lögum og stjórnarskrá í heyranda hljóði. Reglur um ræðutíma og málfrelsi verða ekki aðskildar frá öðrum ákvæðum þingskapanna að þessu leyti. Það er hluti af einni heild sem eru þeir frestir sem eru innbyggðir í þingsköpin og þær varnir og þau réttindi sem einstakir þingmenn, minni hluti og þingið allt, eiga að hafa lögvarin í starfsreglum sínum.

Þess vegna eru þingsköp Alþingis landslög. Það er þetta heildarsamhengi sem við erum að tala um. Það verður ekki fram hjá því horft að réttindi til málflutnings hér eru hluti af því sem hefur áhrif á jafnvægið ef jafnvægi skyldi kalla hérna inni. Það er ósköp einfaldlega ekki á dagskrá af hálfu okkar sem stærsta flokksins í stjórnarandstöðunni nú að standa að breytingum ef við óttumst að þær verði frekar en hitt til að veikja frekar Alþingi sem er fyrir allt of veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er okkar megináhersla. Það er okkar meginpunktur og því er ekki að mínu mati þannig varið í hinum nýju hugmyndum um fundartíma og ræðutíma að þar sé ásættanlegu landi náð. Það er allt of langt gengið.

Fyrsta umræða er takmörkuð umtalsvert frá því sem nú er. Reglur gildandi þingskapa eru þannig að í umræðum um frumvörp hafa menn 20 mínútna og síðan 10 mínútna ræðutíma og það er sjálfstæður óskilyrtur réttur hvers einasta þingflokks eins oft og er óskað eftir að tvöfalda þann tíma í 40 og 20 mínútur. Strax við 1. umr. eru reglur þessa frumvarps mun takmarkaðri en þær eru að gildandi lögum, þ.e. 15 og 5 mínútur. Síðan er eins og áður hefur komið fram og allir vita ótakmarkaður tími við 2. og 3. umr. Minna má nú gagn gera en að sauma þetta niður eins og nú á að gera samkvæmt þessu frumvarpi, líka við 2. umr., meginefnisumræðu um öll stærstu mál. Ekki einu sinni fjárlagafrumvarpið er undanskilið þessum þröngu tímamörkum.

Þá munu menn sjálfsagt segja að forseti hafi heimildir í 12. gr. frumvarpsins til að rýmka ræðutíma — en forsetinn hefur þær heimildir og hann hefur einn vald á þeim. Hvernig er þetta með fundartímann sem okkur er sagt að eigi að koma á móti þessum miklu takmörkunum á ræðutíma? Það stendur að vísu í 1. gr. að almennt skuli fundir ekki standa lengur en til kl. 8 síðdegis. Svo bætist við að frá því megi þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um. Gott og vel, ef allir þingflokkar ná samkomulagi um á þetta sjálfsagt að lesast — en svo segir: … eða ef þingið samþykkir, sbr. 67. gr. Í hvað er vísað þar? Það er verið að vísa í ákvæði þingskapanna um að einfaldur meiri hluti ráði. Það er ekki vísað í 79. gr. um afbrigði þar sem 2/3 þurfa að samþykkja. Og hvað segir svo? „Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara.“ Fimm mínútum fyrir átta á hverjum einasta fundi getur forsetinn, ef honum svo býður, borið fyrirvaralaust upp tillögu um að lengja fundinn og einfaldur meiri hluti ræður niðurstöðunni. Það er ekki þannig að stjórnarandstaðan hafi, ef í harðbakkann slær, mikið hald í þessu. Það skyldi þó ekki þurfa að athuga þessa hluti svolítið betur? Er alveg víst að allir þingmenn sem hafa tekið trú á þetta hafi skoðað þetta ofan í kjölinn? Ég er ekki viss um það. Ég hef heyrt menn hér á göngum tala um að nú verði þetta allt annað líf því að það verði aldrei fundir nema til átta nema einu sinni í viku, þá megi þeir vera til 12. Það er bara ekki þannig.

Í öðru lagi er það svoleiðis hvað þetta snertir að ekki stendur til samkvæmt þessu frumvarpi að hrófla við þröskuldinum til að veita afbrigði frá þingsköpunum almennt í hverju sem er. Það geta menn gert á hverjum tíma, stundum með einföldum meiri hluta varðandi fresti til framlagningar mála og annað í þeim dúr en síðan með 2/3 ef um bein afbrigði frá fundarsköpum að öðru leyti er að ræða. Hver er staðan á Alþingi Íslendinga núna? Hún er sú að ríkisstjórnin hefur meira en þessa 2/3 sem hún þarf til að veita sjálfri sér afbrigði í krafti meiri hluta síns. Stendur til að hækka þennan þröskuld í ljósi þessarar stöðu? Nei. Það er þriðja meginmálið sem við höfum lagt mikla áherslu á í þessum efnum. Þingsköpin eru einfaldlega nú í allt öðru samhengi en þau hafa eiginlega og sennilega nokkurn tímann verið áður, nema þá í einhvern mjög stuttan tíma, af því að nú er svo óvenjulega stór meiri hluti hér að hann getur veitt sjálfum sér afbrigði. Hvað þýðir það? Það þýðir að ákvæðinu um að ekki skuli líða minna en tveir sólarhringar frá því að mál kemur fram og þangað til það getur komið til umræðu er hægt að kippa burtu. Það þýðir að það er hægt að kippa burtu kröfunni um að það líði sólarhringur milli 1. og 2. umr., og 2. og 3. umr. Það er hægt að falla frá því að þingsköp skuli koma fram daginn áður en umræða fer fram um mál o.s.frv.

Sett í þetta samhengi sést að þetta þingskapalagafrumvarp býður upp á allt aðra hraðferð fyrir sterkan meiri hluta með mál sín í gegnum þingið en nokkurn tímann hefur áður verið hægt í sögu þingræðis á Íslandi. Það er himinn og haf á milli þeirra vinnubragða sem óvandaður meiri hluti gæti ástundað í skjóli svona þingskapalaga og sterks meiri hluta og þess sem var t.d. hér meðan Alþingi starfaði í tveimur málstofum. Þá þurfti hvert einasta frumvarp að fara í gegnum sex umræður í tveimur deildum og aftur til fyrri deildar ef því var breytt í hinni síðari. Það gat lent í því og endað í 7–8 umræðum og að lokum í sameinuðu þingi ef deildirnar urðu ekki samstiga. (GÁ: Þetta man enginn nema við.) Þá var minni hætta á að menn gerðu mistök eða færu illa með vald sitt hér í skjóli myrkurs. (Gripið fram í.) Ó, já, ætli það sé ekki almennt viðurkennt að mjög oft hafi mál haft gott af því að fara til seinni deildar og fá þar skoðun. Menn vita að menn höfðu ekkert ógaman af því í seinni deildinni að finna einhver mistök frá hinni fyrri og benda henni á þau. Mál gengu mjög oft aftur til fyrri nefndar með smálagfæringum frá síðari þingdeild.

Því er oft haldið fram að Alþingi Íslendinga sé að þessu leyti algerlega einstakt og ræðutími allt annar og takmarkaðri í öðrum þingum. Þá er rétt að menn hafi í huga hvernig aðstæður eru þar. Þar erum við t.d. að tala um þjóðþing annars staðar á Norðurlöndunum sem eru frá því að vera um 165 og 180 þingmenn á norska og danska þinginu og upp í 350 á því sænska. Þegar af þessum ástæðum þarf að fara varlega í svona samanburð.

Í öðru lagi er verkferli og undirbúningur mála með allt öðrum hætti yfirleitt í hinum þjóðþingunum.

Í þriðja lagi eru þingnefndir mun stærri og hafa upp að vissu marki sambærilegu hlutverki að gegna í umræðum um mál og pólitískan málflutning og salurinn hefur hér, þ.e. nefndir þar sem er kannski upp undir helmingur af fjölda þeirra sem hér sitja á þingi sem fundar fyrir opnum tjöldum með áheyrendur. Þar fer stór hluti hins pólitíska málflutnings og vinnunnar fram. Þar er stór hluti af málfrelsi þingmanna tryggður, málfrelsi þeirra sem sinna viðkomandi málaflokki fyrir sína flokka. Svona mætti halda lengi áfram ef menn hafa raunverulega áhuga á því að bera saman stöðu Alþingis Íslendinga og annarra þinga. Ég þykist vera alveg þokkalega fær um þann samanburð, ég hef setið í Norðurlandaráði í yfir 10 ár og þekki nokkuð vel til pólitískra starfa og þingstarfa annars staðar á Norðurlöndunum.

Þá skulum við ekki gleyma því að annars staðar á Norðurlöndunum koma forustumenn í þingstörfunum iðulega jöfnum höndum úr stjórnarandstöðu og meiri hluta. Núna sjáum við t.d. að danska þingið er að velja sér forustumenn í nefndir og alþjóðanefndir. Hver er formaður dönsku sendinefndarinnar til Norðurlandaráðs? Það er stjórnarandstæðingur, og þannig mætti lengi áfram telja. Forsetar þjóðþinganna annars staðar á Norðurlöndunum koma iðulega úr röðum stjórnarandstöðu, sérstaklega þegar minnihlutastjórnir sitja og það þarf að semja í þinginu um skiptingu trúnaðarstarfa þar. Það var á köflum þannig að það var frekar regla en hitt að forsetar kæmu frá stærsta stjórnarandstöðuflokknum. Þá er ólíku saman að jafna þeirri aðstöðu sem menn hafa til að stjórna verklagi og reyna að ná samstöðu um hlutina.

Hvernig er staðan á Alþingi Íslendinga, herra forseti? Hverju kynntumst við núna í vor sem leið af viðhorfum hins nýja meiri hluta? Jú, það er þannig að í fyrsta skipti held ég bara nokkru sinni er engin einasta trúnaðarstaða af neinu tagi í höndum stjórnarandstöðunnar. Fyrsti forseti þingsins og 1. varaforseti koma úr stjórnarliðinu. Allir formenn þingnefnda og allir varaformenn þingnefnda koma úr þessum lýðræðiselskandi meiri hluta. Allir formenn og varaformenn alþjóðadeilda koma frá meiri hlutanum. Það var þó eitt undantekningartilvik ef ég man rétt á síðasta kjörtímabili, hv. þm. Össur Skarphéðinsson naut þess einstaka trúnaðar þáverandi ríkisstjórnar að vera formaður sendinefndar Íslands hjá NATO — og verði honum að góðu. En það var þá ein undantekning sem sannaði regluna en hún er ekki til í dag, engin. Ekki í einu einasta tilviki sá meiri hlutinn ástæðu til að dreifa völdum, hvað þá auðvitað sem maður er náttúrlega alveg hættur að ætlast til að líta eitthvað til reynslu manna eða þess hvað þeir gætu kannski lagt af mörkum í þágu þingsins og þjóðarinnar, hvort sem væri í störfum innan lands eða utan. Nei, það skiptir engu máli þó að menn hafi fengist eitthvað við slíka hluti, hafi á þeim þekkingu og hafi reynslu fram að færa. Ef þeir tilheyra ekki meiri hlutanum skulu þeir hvergi vera á blaði. Eru menn eitthvað hissa á því þó að við kaupum það með dálitlum fyrirvörum að hugarfarið sé svona dásamlegt á bak við þetta mál og lýðræðisástin eins mikil og menn láta í veðri vaka? Nei, það er ekki þannig.

Mér finnst mikil afturför að ekki skuli reynt með einhverjum hætti að dreifa öðruvísi forustustörfum í þinginu. Það er dapurlegt að ekki vottar fyrir breytingu þó að Samfylkingin hafi nú tekið sæti í ríkisstjórn, flokkur sem stundum hefur talið sig umfram aðra flokka eiga eignarrétt á hugtakinu lýðræði og viljað ástunda samræðustjórnmál og guð má nú vita hvað. Þess sér alltént ekki stað enn þá. Við höfum núna dæmi um það að þessi ríkisstjórn og meiri hluti hennar hikar ekki við að beita hér afli sínu eins og var sýnt strax í vor þegar menn tóku umdeild frumvörp um breytingar á Stjórnarráðinu, þingsköpum og fleiru á dagskrá með afbrigðum sem þeir veittu sér sjálfir í krafti hins aukna þingmeirihluta. Þar er komið að öðrum mjög afgerandi skurðpunkti þessa máls. Ef menn væru í ljósi aðstæðna tilbúnir til að hækka þröskuldinn fyrir afbrigðum eru menn að slá skjaldborg um þær varnir sem eru innbyggðar í þingsköpin að öðru leyti, ekki bara ræðutíma heldur líka fresti milli umræðna og annað í þeim dúr.

Veruleikinn er sá að völdum er dreift með þeim hætti sem raun ber vitni og það er ekki verið að bjóða upp á breytingu á því. Við spurðum: Eru menn þá tilbúnir til að festa í sessi ákvæði sem tryggja öðruvísi valdajafnvægi í þinginu í tengslum við breytingarnar? Ekki í einu einasta tilviki hefur verið opnað á eitt eða neitt í þeim efnum. Það kom á daginn að það var ræðutíminn sem leiðangurinn var allan tímann gerður út eftir, það er nefnilega mergurinn málsins, að skerða stöðu stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst að því leyti að hún legði frá sér, eða öllu heldur kannski seldi frá sér í eitt skipti fyrir öll, það vopn sem er auðvitað bara eitt í forðabúri hennar en skiptir miklu máli og hefur margoft í þingsögunni sannað sig í þeim efnum.

Ég er ekki uppnæmur fyrir því þó að menn komi hér og ætli að slá sér upp á því að tala um að einhverjir flytji langar og leiðinlegar ræður, eins og hv. þm. Guðna Ágústssyni frá Brúnastöðum virðist alveg sérstaklega hugleikið. Svo talar hann sjálfur að vísu í hartnær 40 mínútur. Það er að sjálfsögðu ekki markmið og hefur aldrei verið að flytja langar ræðu lengdar þeirra vegna, en stundum hefur það skipt miklu máli að þessu vopni væri hægt að beita þannig að ríkisstjórn kæmist ekki upp með að troða hér hlutunum í gegn á örfáum sólarhringum. Það má spyrja hvort það hefði verið til góðs að þessi nýju þingsköp hefðu gilt þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kom hér inn með fjölmiðlafrumvörpin sín. Ætli þjóðin upplifi það beinlínis þannig að það hefði verið í þágu lýðræðis og þingræðis við þær aðstæður?

Ætli ekki hafi verið allt í lagi að menn höfðu rétt til að ræða dálítið um byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða öryrkjadóminn þegar hann féll á sínum tíma? Var það til tjóns fyrir lýðræðið í landinu? Nei. Var ekki bara í góðu lagi að sameinuð stjórnarandstaðan gat á síðasta kjörtímabili stöðvað einkavæðingu á vatni, komið gildistöku þess frumvarps aftur fyrir kosningar sem nú hefur leitt til þess að málið er komið í heildarendurskoðun?

Gleymum þá ekki því að staða stjórnarandstöðunnar hér og möguleikar hennar til að láta til sín taka og þvinga menn til að hlusta á sjónarmið hennar skipta oft sköpum í því að fá málum breytt og fá hluti lagfærða sem umdeildir eru. Það er misskilningur að þetta snúist um einhverjar málþófsorrustur sem annaðhvort vinnist eða tapist í þeim skilningi að málin falli dauð eða fari í gegn. Það er ekki þannig, þetta snýst um að hér séu einhver sanngjörn hlutföll og aðstæður séu þannig að það sé hægt að færa fram málflutning og sjónarmið og tala fyrir þeim málstað sem menn hafa tekið að sér að verja á þingi.

Það er ekki tjáningarfrelsi, málfrelsi, þingmannanna í raun sem er verið að takmarka heldur þeirra sem kusu þá. Við erum ekki bara hér sjálfra okkar vegna til að halda hér ræður eða reyna að hafa áhrif, við erum fulltrúar þeirra sem sendu okkur hingað. Þar er uppspretta valdsins, hjá þeim þúsundum og tugum þúsunda kjósenda sem standa t.d. að baki þeim þingflokki sem hér andæfir sem þetta mál beinist að miklu meira en okkur.

Við hefðum getað hugsað okkur og höfðum gert það alveg ljóst að við gætum að sjálfsögðu sætt okkur við og vildum m.a. gjarnan gera breytingar á ræðutíma hér, setja um hann skýrari ramma í þágu þess að fundarhald gæti orðið skipulegra, reglubundnara, fyrirsjáanlegra og vinnustaðurinn faglegri og fjölskylduvænni að þessu leyti. Við buðum upp á það að við 3. umr. giltu sambærilegar takmarkanir og gilda við 1. umr. eða þess vegna þær sem töflurnar hér fela í sér. En við sögðum: Gagnvart 2. umr., meginefnisumræðu um frumvörp, er gengið allt of langt. Þar verður að vera almennt rýmri tími til að ræða hlutina, a.m.k. þegar stórmál eiga í hlut, og það verða að vera einhver úrræði til þess að fá ótímabundna umræðu um allra stærstu átakamál eða flóknustu og viðamestu mál hvers tíma.

Við segjum líka: Fjárlagafrumvarp, breytingar á stjórnarskrá, jafnvel nokkur önnur stærstu mál hvers tíma eins og meginskýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál eiga að hafa mun meira svigrúm. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi, að því leyti er það að mínu mati alveg ótrúlega einfeldningslega fram sett vegna þess að ég hygg að þegar menn hugsa málin sjái þeir að það er engin ástæða til þess, það er beinlínis ljótur svipur á því að þingmenn almennt geti ekki talað nema í 15 mínútur einu sinni og síðan vesælar 5 mínútur um jafnvel stærstu mál hvers þings — eins og fjárlagafrumvarpið.

Væri þetta svona úr garði gert og aðbúnaður og starfsaðstæður þingmanna efldar jafnframt og þá þannig að það sannarlega væri í þágu stjórnarandstöðunnar en ekki einhverra fljótandi mannaráðninga inn á nefndasvið sem ekki einu sinni eru sérstaklega eyrnamerktar stjórnarandstöðunni eða henni ætlaðar, væri þingið t.d. styrkt með rannsóknardeildum, hagdeild sem styddi við fjárlaganefnd, mannréttindadeild, öflugra starfi á bak við utanríkismálanefnd, væri það vissulega mikið framfaraskref. En það er nú ekki verið að gera stóra hluti í þeim efnum, það er aldeilis ekki verið að því.

Hvað er það tvennt sem er verið að gera fyrir utan að reyna að standa loksins við gamla loforðið frá kjördæmabreytingunni 1999 um aðstoðarmenn fyrir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna? Jú, það er ráðning þriggja manna á nefndasvið og aðstoðarmenn fyrir formenn stjórnarandstöðuflokkanna. Það er allt og sumt sem þarna er í hendi. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst algerlega fráleitt að reyna að hengja á þessa þingskapalagabreytingu hlut eins og þann að ætla nú loksins að reyna að standa við svikin loforð um að þingmenn hinna stóru landsbyggðarkjördæma fái aðstoð, sem forsætisráðherra þess tíma ábyrgðist að staðið yrði við. Það á ekki að vera á kostnað núverandi stjórnarandstöðu, að hún þurfi að sæta afarkostum að öðru leyti ef hún metur það svo, eins og við gerum hér í sambandi við ræðutímann, að kaupa efndir slíkra hluta.

Ef völdum yrði dreift hér, ef það væri í þessu frumvarpi að leitast skyldi við að ná fram samstöðu um hlutdeild minni hlutans á hverjum tíma varðandi forustu þingnefnda og alþjóðanefnda — og helst auðvitað sjálfan forsetann en látum nú vera þótt það fengist ekki — væri auðvitað ólíku saman að jafna. Þó að það væri ekki nema það að meiri hlutinn t.d. sýndi þann lit að horfa ekki í styrkleikahlutföllin þegar kosið er í forsætisnefnd og leyfa minni hlutanum að eiga 1. varaforseta. En það var til of mikils mælst, það var ekki hugsun á því, nei, það var vissara að meiri hlutinn ætti bæði fyrsta og annan forseta. Ef þröskuldurinn yrði hækkaður í, segjum, 3/4 þannig að menn einfaldlega gripu strax inn í þegar þeir stæðu frammi fyrir því að þær afbrigðilegu aðstæður hefðu komið upp að 2/3 þröskuldurinn væri of lágur, næði ekki því markmiði sínu og meiri hluti hvers tíma þyrfti samkomulag við stjórnarandstöðuna til að veita afbrigði frá þingsköpum — auðvitað er það hugsunin. Það er engin meining fyrir auknum meiri hluta nema sú að menn vilja að breiðari samstöðu þátttakendanna þurfi hér um afbrigðin. Það þýðir á mannamáli að stjórnarandstaðan eða minni hlutinn sé því sammála, felli sig við það.

Við munum standa vörð, eftir því sem við framast getum, um það sem við teljum mikilvægt, málfrelsi og rétt þingmanna sem hluta af sterkri stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, það mikilvæga hlutverk Alþingis að það sé opinn vettvangur til skoðanaskipta í heyranda hljóði um þjóðmál, jafnt stór sem smá. Við munum reyna allt sem við getum til að ekki verði gengið þannig frá málum að ríkisstjórn og meiri hluti hennar geti rúllað hér í gegn á örfáum klukkutímum, ef svo ber undir, með stór og umdeild mál. Það er því miður það sem er verið að opna fyrir með hinum stífu takmörkunum um ræðutíma, með því að meiri hlutinn getur hvenær sem er skammtað sér með einföldum meiri hluta aukinn og lengri fundartíma þannig að viðmiðanirnar hér um fundi til átta á kvöldin eru að sjálfsögðu eingöngu viðmiðanir.

Hvernig vill það fara þegar ríkisstjórn er komin með puttana í málið rétt fyrir þinglok, fyrir jól og aftur á vorin, og leggur ofuráherslu á að fá málin sín í gegn? Hvað verður þá um vinnureglur og hefðir ef þær eru ekki lögbundnar og lögvarðar? Hvernig fer þá með réttinn til að senda mál út til umsagnar? Jú, því verður sleppt. Höfum við ekki upplifað að þá segi meiri hlutinn: Nei það er ekki tími til þess, þetta verður að fá afgreiðslu fyrir jól? Hvað verður umfjöllunin í þingnefndinni löng? Jú, kannski nokkrir klukkutímar. Það hefur endurtekið gerst og mun gerast áfram ef ég veit rétt og reynist sannspár að menn munu segja: Ja, nú er bara staðan svona, nauðsyn brýtur lög — ég segi nú ekki lög en alla vega hefðir og venjur — og við höfum ekki tíma til að láta málin fá skoðun. Við beitum afbrigðum til að rúlla þeim hérna í gegn. Ætli menn hafi ekki lent í því einhvern tíma að hugarfarið hafi verið nákvæmlega þannig?

Þess vegna er mikið alvörumál að búa hluti ekki út þannig. Þó að þeim sé pakkað inn í fallegar umbúðir og þetta eigi allt að vera voðalega fínt og gott skulum við huga vel að því áður en við opnum hér upp leiðir fyrir enn frekari hraðafgreiðslu mála gegnum þingið en þó hefur verið hægt samkvæmt gildandi þingsköpum. Þar held ég að menn ættu að gæta sín afar vel og mikið.

Það er sannfæring mín, virðulegur forseti, að hverjar sem lyktir þessa máls verða muni sannast að það er bara til ein leið til að tryggja farsæla verkstjórn á þessum stað og til þess að hlutir gangi skikkanlega fyrir sig, það er leið sæmilegrar samstöðu um vinnubrögðin hér, leið friðar og viðleitni til að sýna sanngirni í samskiptum. Og því spái ég hæstv. forseta Sturlu Böðvarssyni að honum muni lærast þetta, þ.e. ef honum endist aldur á embættisstóli sem forseti. Það er ekki hægt að stjórna Alþingi með farsælum hætti í grenjandi stríði og ágreiningi við hluta þingmanna. Það verður að leita sæmilegrar samstöðu og sýna sanngirni í þeim samskiptum. Hæstv. forseti byrjar illa í þeim efnum, það verð ég að segja. Það er mér engin gleði að segja þessi orð en þau eru sannfæring mín og ég vona því að hæstv. forseti hugsi sinn gang og bjóði upp á það — og þá meina ég í alvöru — að taka þetta mál upp til efnislegrar skoðunar og breytinga á því svo að maður tali nú ekki um að hverfa frá þeim vinnubrögðum sem leiddu til þess að málið kom fram með þeim hætti sem raun bar vitni.

Ég held að virðingu Alþingis verði best borgið og hver og einn þingmaður leggi best sitt af mörkum í þeim efnum með því að vinna vel, með því að mæta hérna, með því að gera skyldu sína í þeim efnum. Það hef ég a.m.k. reynt að gera í gegnum tíðina, ég vona að enginn reyni að halda öðru fram. Ég tel mig hafa alveg bærilega reynslu af því hvernig þessir hlutir ganga vel fyrir sig, ég hef upplifað hér bæði erfiða tíma og leiðinlega þegar mikill ágreiningur og áflog voru og ég hef líka upplifað aðra og skemmtilegri tíma þegar hlutirnir voru unnir í meiri samstöðu og það var meiri gagnkvæmur vilji og marghliða vilji allra helstu aðila að láta hlutina ganga sæmilega liðugt fyrir sig. Þá vinnst þinginu vel og þá er mun skemmtilegra að starfa hér en á þeim tímum þegar allt nötrar stafnanna á milli í ágreiningi.

Veruleikinn er sá að Alþingi hefur þrátt fyrir allt og óháð breytingum á þingsköpum þróast heilmikið í vinnubrögðum á ýmsa lund á síðustu árum þó að þar hafi vissulega því miður orðið bakslag að sumu leyti. Það er t.d. staðreynd sem ekki verður á móti mælt að vinnutími hefur tekið miklum breytingum. Það var löngu tímabært að lengja starfstíma Alþingis og lotuskipta honum, það er skref í rétta átt en mætti ganga lengra í því að okkar mati og funda lengra inn á sumarið ef svo bæri undir. Veruleikinn er líka sá að hinar löngu ræður, kvöld- og næturfundir, sem menn virðast óttast svona óskaplega heyra að mestu leyti sögunni til nú þegar. Það er svipur hjá sjón, gerist örsjaldan (StB: Og er það ekki til bóta?) borið saman við það sem áður var. Já, það er til bóta en það gerist með þróun án nokkurrar þvingunar og án þess að tekinn sé af mönnum réttur sem er þrátt fyrir allt mikilvægur og miðlægur. Íslenska stjórnarskráin ætti auðvitað að vernda hann rétt eins og finnska stjórnarskráin verndar rétt hvers einasta þingmanns, 200 talsins, á finnska þinginu til að tjá skoðun sína og taka þátt í umræðum um mál á öllum stigum umfjöllunar og afgreiðslu um þau. Þannig er frá málum gengið í því ágæta lýðræðisríki og lýðveldi Finnlandi sem við getum nú gjarnan borið okkur saman við því að við erum, eitt Norðurlandanna fyrir utan Finnland, lýðveldi með þannig stjórnskipun. Margt er gott í hinni nýju finnsku stjórnarskrá sem við gætum tekið mið af.

Virðulegi forseti. Fyrir hönd Alþingis og vegna þess vona ég að menn komist út úr ógöngum sínum og ófærum í þessu máli og nái farsælli lendingu. Við erum, eins og hér hefur komið fram, tilbúin til að leggja okkar af mörkum í þeim efnum og höfum allan tímann verið sé það í boði að ræða við okkur á þeim forsendum sem eru aðgengilegar, þ.e. að okkur sé ekki stillt upp frammi fyrir óaðgengilegum úrslitakostum fyrir fram. Eigi að halda því áfram er það tilgangslaust en verði boðið upp á eiginlegar umræður um málið erum við sannarlega (Forseti hringir.) tilbúin til þeirra.



[22:48]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Farið hafa fram hinar ágætustu umræður enda var samið um umræðuna á fundi okkar þingflokksformanna í kvöld. Við sjáum því fram á að við munum ljúka umræðu um þetta ágæta frumvarp samkvæmt samningum sem gerðir voru á milli þingflokksformanna. (Gripið fram í: Og forseta.) Og forseta að sjálfsögðu, undir góðri verkstjórn og leiðsögn forseta.

Það er staðföst skoðun mín að frumvarpið sem við fjöllum nú um, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, sé mikið framfaraskref og góður áfangi á þeirri leið að styrkja stöðu Alþingis. Eins og menn sjá, fylgir frumvarpinu góð greinargerð þar sem farið er yfir markmiðin sem við flutningsmenn settum okkur með samningu frumvarpsins. Einnig er gerð grein fyrir þeim ráðstöfunum sem áform er um að grípa til í þeim tilgangi að styrkja stöðu Alþingis enn frekar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er eitt af þeim góðu markmiðum sem fylgja frumvarpinu.

Auðvitað eru það mikil vonbrigði að hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, skyldi ekki vera flutningsmaður með okkur á frumvarpinu. Ég vil hér með hvetja hv. þingmenn vinstri grænna til að endurskoða afstöðu sína við vinnslu málsins í þingnefndinni því að ég held að til mikils sé að vinna að ná samstöðu um niðurstöðuna sem við náum um frumvarpið.

Frumvarpið er afrakstur vinnu undir forustu hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson tók framan af góðan þátt í þeirri vinnu. Hins vegar er ljóst að enn þá hafa þingmenn VG ekki fallist á rök okkar hinna um nauðsyn lýðræðislegra umræðna um þingmál og þar með betra skipulagi á ræðutíma. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmenn VG fallist á sjónarmið okkar þegar þeir hafa skoðað rökin betur.

Helsta markmið frumvarpsins er að bæta lagasetningu og það eigum við alltaf að hafa í huga. Það á einnig að gera umræður markvissari, auka skoðanaskipti í þingsalnum og efla eftirlitshlutverk þingsins. Eins er markmið með frumvarpinu að stuðla að því að gera vinnustaðinn Alþingi skipulagðari og fjölskylduvænni. Allt er það gert til að styrkja Alþingi í því hlutverki sínu að vera sá lýðræðislegi vettvangur sem allt þjóðskipulag okkar byggist á. Það skulum við hafa í huga. Það er skylda okkar að standa vörð um Alþingi sem vettvang þar sem lýðræðisleg skoðanaskipti geta farið fram. Í þingsalnum er því mikil nauðsyn á hægt sé að skipuleggja umræður með þeim hætti að sem flestir þingmenn hafi möguleika á að koma að umræðum.

Í þessu skyni eru gerðar allmiklar breytingar á ræðutíma þingmanna og ráðherra samkvæmt þeim tillögum sem eru í frumvarpinu og er það meginmarkmið þeirra að gera umræðuna markvissari og ef til vill fjörugri en nú er. Markmiðið er alls ekki að setja takmarkanir á málfrelsi þingmanna né hindra að hver og einn þingmaður geti með eðlilegum hætti gert grein fyrir sjónarmiðum sínum við meðferð þingmála, heldur þvert á móti. Meginreglan við 2. umr. um lagafrumvörp verður sú, ef breytingarnar verða að veruleika, að þingmenn og ráðherrar mega tala eins oft og þurfa þykir í stað þess eins og nú er að menn tali eins lengi og þeim þyki hæfa en þá eingöngu tvisvar sinnum.

Hæstv. forseti. Eins og málum hefur verið háttað í þingsölum við umræður um meiri háttar mál hefur komið fyrir að stjórnarþingmenn, sérstaklega, hafa ekki fengið að taka þátt í umræðum um þingmál. (Gripið fram í.) Það er staðreynd. (Gripið fram í.) Ástæðan er sú að við þær aðstæður þegar koma hefur þurft málum áfram, eins og við orðum það gjarnan, oft umdeildum málum, hefur stjórnarandstaðan tekið upp allan tímann sem við hæfi er að láta umræðuna standa. Auðvitað hafa allir þingmenn einhver sjónarmið sem gild eru í umræðunni og sum mundu jafnvel stuðla að betri og vandaðri lagasetningu. Þekkt er að stjórnarandstaðan setji á málþóf í fullkomnum samkomulagsmálum. Það þekkjum við, sérstaklega frá fyrri tíð. Hvers vegna er það gert? Það er gert til að hindra að umdeild mál komist á dagskrá. Það er nú lýðræðið sem gildir í því.

Hæstv. forseti. Tíminn er takmörkuð auðlind. Þegar einn tekur of mikinn tíma er verið að ganga á tíma annarra til þess að koma skoðunum á framfæri og færa fyrir þeim rök, gleymum því ekki. Oft hefur það nefnilega verið þannig að okkur stjórnarþingmönnum hefur ekki veist tími til þess að koma fram með skoðanir okkar og færa fyrir þeim rök.

Við eigum að hafa nokkurt jafnvægi á þessu og jafnræði með þingmönnum, alla vega svo að þegar þingmönnum liggur eitthvað á hjarta í þingmálum hafi allir þingmenn tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er algjört lágmark og ég vona svo sannarlega að það takist með þeim hugmyndum sem eru í því ágæta frumvarpi sem við ræðum nú.

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega benda á 15. gr. sem ég er afar sátt við því að þar eru tillögur sem gera ráð fyrir að þegar samið er um takmarkaðan ræðutíma milli þingflokksformanna, komist meira jafnræði á hvernig ræðutíma er skipt milli þingflokka. Gert er ráð fyrir að samið sé um að helmingur ræðutíma skiptist jafnt á milli þingflokka en aftur á móti að hálfum umræðutímanum verði skipt í hlutfalli við þingstyrk þingflokkanna.

Ég fagna því ákvæði sérstaklega. Ekki þarf að taka fram að upp hefur komið sérkennileg staða þegar fjögurra manna þingflokkur hefur haft sama tíma og 25 manna þingflokkur í takmörkuðum umræðum. Það er afar sérkennileg staða. Eins hafði tveggja manna þingflokkur sama ræðutíma og allur þingflokkur okkar sjálfstæðismanna sem þá var 26 manna á kjörtímabilinu 1999–2003. Það gilti í eldhúsdagsumræðum, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra og í utandagskrárumræðum. Skyldi nú engan furða þó að nokkuð væri farið að reyna á þolinmæði sumra þingmanna. Ég held að menn hljóti að skilja það. Ég vil því sérstaklega fagna því, það er þó alla vega skref í rétta átt að hálfur umræðutíminn skiptist í hlutfalli við þingstyrk þingflokkanna.

Hæstv. forseti. Við vitum að umræður á Alþingi eiga nú mun greiðari leið til landsmanna allra eins og fram hefur komið og hefur þar orðið mikil breyting á skömmum tíma. Umræðum er m.a. sjónvarpað og þær sendar út á netinu. Hægt er að nálgast allar umræður í rituðum texta á netinu og því er auðvitað líka nauðsynlegt að Alþingi bregðist við breyttum tíma með því að laga umræðuformið að nýjum miðlum, ekki síst veraldarvefnum. Tillögur um breyttan ræðutíma miða að því að betur sé hægt að fá fram mismunandi sjónarmið þingflokka og þingmanna til mála. Þegar það berst út í þjóðfélagið með svo skjótum hætti fáum við viðbrögð almennings með mun skjótvirkari hætti en áður var.

Hæstv. forseti. Ég nefndi að mikil nauðsyn væri á því að koma betra skipulagi á þingstörfin. Stór hluti starfa þingmanna eru ýmiss konar fundir og viðtöl utan þings. Sífellt eru gerðar meiri og ríkari kröfur til þingmanna að mæta á ráðstefnur og fundi sem aðrir skipuleggja. Það er augljóslega nauðsyn á að þingmenn geti sinnt þeim skyldum og hafi svigrúm til að kynna sér mál og málefni sem brenna á fólki í samfélaginu. Oft hefur það reynst þingmönnum erfitt vegna þess að skyndilega þarf að breyta skipulagi á þingstörfum. Við sem hér erum könnumst öll við að vera búin að tilkynna okkur á ráðstefnu, fundi eða aðrar uppákomur en þurfa svo að breyta öllum okkar áformum með stuttum fyrirvara vegna þess að skipulagi á þingstörfum hefur verið breytt. Auðvitað skilur fólk almennt ekki, sem við skipuleggjum fundi með, að ekki sé hægt að hafa málum betur fyrirkomið hér.

Ég nefndi einn ókost tengdan því hversu erfitt er að skipuleggja þingstörfin en þeir eru auðvitað ótal fleiri. Með breyttum áherslum í seinni tíð á fjölskyldumál hefur verið nefnt hversu erfitt er fyrir fjölskyldur þingmanna, og ekki síst starfsmanna þingsins, að búa við að geta sjaldan treyst á skipulag vinnutíma á Alþingi og ég tek undir þau sjónarmið. Það er alveg fullgilt sjónarmið inn í umræðuna. Það eru þó ekki eingöngu þingmenn og starfsmenn sem eru þolendur þess ástands, það eru líka fjölskyldur þeirra.

Í vinnu við endurskoðun þingskapalaganna komu fram sjónarmið sem eiga sannarlega rétt á sér, að starfsaðstæður þingmanna væru ekki fullnægjandi. Það er því mikil nauðsyn á breytingu ef þingmenn eiga að geta sinnt skyldum sínum, m.a. hvað eftirlitsskyldu varðar, og sinna auknum kröfum um alþjóðlegt samstarf. Í greinargerð með frumvarpinu eru því upplýsingar um breytingar sem áætlað er að gera til að koma til móts við þau sjónarmið.

Ég vil taka fram, hæstv. forseti, miðað við þær umræður sem farið hafa fram, að áformin um að styrkja þingið, eins og fram kemur í greinargerðinni, eru fullkomlega eðlileg. Mér hafa ekki þótt við hæfi þeir orðaleppar sem fylgt hafa að það skyldi vera gert í samhengi við þingskapafrumvarpið því að fullkomlega eðlilegt er að gera það með þessum hætti. Markmið frumvarpsins í heild er að styrkja og efla þingið og þess vegna er eðlilegt að áformin komi hér fram.

Þau eru í fyrsta lagi að aðstoða minni hluta í nefndum og efla eftirlitshlutverk nefnda. Í öðru lagi að formenn stjórnarandstöðuflokka fái aðstoðarmenn. Í þriðja lagi að auka alþjóðasamstarf þingmanna þannig að þingmenn geti fylgst með og fengið aukin tækifæri til að fylgjast með hinni vinsælu Evrópuumræðu á þeim vettvangi þar sem hún fer fram. Þeir gætu jafnvel hitt systurflokka í Evrópuþinginu og tekið þar þátt í umræðum um mál sem auðvitað hafa með einum eða öðrum hætti áhrif á okkur. Í fjórða lagi að bæta aðstoð við þingflokka og í fimmta lagi að þingmenn Norðvestur-, Norðaustur og Suðurkjördæma fái aukna aðstoð, þ.e. aðstoðarmenn í kjördæmum.

Sagan á bak við það ákvæði er sú að í tengslum við kjördæmabreytinguna 1999 var rætt um að þingmenn Norðaustur- og Suðurkjördæma fengju sérstaka aðstoðarmenn og er það gert með hliðsjón af því hversu stór kjördæmin eru að flatarmáli og erfið yfirferðar af þeim sökum. Mjög áhugavert er fyrir þingmenn Reykvíkinga að skoða aðstöðuna sem þingmenn landsbyggðarkjördæmanna búa við. Ég trúi því að þegar þeir skoða málin vel, hafi þeir fullan skilning á því. Ég veit að það mun væntanlega koma fram í ræðu hv. þm. Jóns Magnússonar á eftir.

Þegar ákvæðið kom fram árið 1999 var niðurstaðan sú að stjórnmálaflokkarnir sjálfir fengju fé til ráðstöfunar í því skyni að styðja við þingmenn landsbyggðarkjördæmanna en reynslan hefur orðið sú að fjármunirnir hafa hjá flestum flokkum farið í almennan rekstur flokkanna en ekki verið nýttur í þeim tilgangi að aðstoða þingmennina.

Landsbyggðarþingmenn þurfa að yfirvinna miklar landfræðilegar hindranir til að geta verið í eðlilegum samskiptum við kjósendur sína, við sveitarstjórnarmenn, og þau samskipti fara mjög vaxandi, enda hefur sveitarstjórnarstigið eflst og styrkst með árunum. Þingmenn þurfa einnig að hitta fulltrúa ýmissa hagsmunasamtaka og hagsmunaaðila í kjördæmum sínum en vegna landfræðilegra aðstæðna getur reynst mjög erfitt að skipuleggja slíkt starf.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka hæstv. forseta Sturlu Böðvarssyni fyrir staðfestuna við að leiða vinnuna við frumvarpssmíðina. Ljóst er að við sjálfstæðismenn hefðum viljað hafa ýmislegt í frumvarpinu með öðrum hætti, m.a. ræðutímann. Um þennan texta náðist þó samstaða og því stöndum við auðvitað heils hugar að frumvarpinu.

Það er von þingflokks sjálfstæðismanna að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi, ég legg áherslu á að það gerist á þessu þingi og trúi því að það verði. Það er einnig trú okkar að þær breytingar sem frumvarpið boðar muni verða til góðs fyrir löggjafarstarfið í landinu.



[23:07]
Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil af hálfu Frjálslynda flokksins lýsa yfir stuðningi við það frumvarp sem hér liggur fyrir en þingflokksformaður Frjálslynda flokksins er einn af flutningsmönnum þess. Þó er það svo að mér finnst mjög mikilvægt að leitað verði þeirra leiða sem færar eru til að málinu ljúki með þeim hætti að allir þingflokkar geti staðið að þeirri endanlegu lagasetningu sem um verður að ræða.

Mér finnst ástæða til að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa haft frumkvæði að því að koma frumvarpinu fram og leiða þá vinnu sem hér um ræðir. Ég endurtek að æskilegt hefði verið ef það hefði getað gerst með tilstilli og vilja allra þingflokka en það verður að sjá til hvort það næst ekki við meðferð málsins í nefnd.

Ég get ekki séð annað þegar frumvarpið er skoðað en það eigi að geta leitt til mun skilvirkari vinnubragða en hingað til hafa verið viðhöfð á þinginu og er það ágætt. Spurningin er hvort ganga hefði mátt lengra á ákveðnum sviðum, hvort taka hefði þurft frekar fram með hvaða hætti ákveðnar stofnanir þingsins starfa, með hvaða hætti t.d. frumvörp eru lögð fyrir af hálfu framkvæmdarvaldsins, í hvaða búningi og með hvaða formerkjum. Hér hefur komið hver ræðumaðurinn á fætur öðrum og talað um nauðsyn þess að þingið hafi sterka stöðu og þá sérstaklega gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er kannski eitt mesta vandamálið sem íslenska þingið á við að stríða að framkvæmdarvaldið hefur algert ofurvald í landinu.

Í raun mætti segja að hér sé með takmörkuðum hætti um þrískiptingu valds að ræða svo sem ætti að vera vegna þess að ráðherrar, fulltrúar framkvæmdarvaldsins, sitja sem kjörnir þingmenn og þeir hafa um langt árabil kosið að fela ákveðnum þingmönnum ýmiss konar umsýslustörf af hálfu framkvæmdarvaldsins sem gerir það að verkum að þá verður þingmaður ekki aðeins fulltrúi löggjafarvaldsins heldur er líka að hluta til kominn yfir borðið hinum megin til framkvæmdarvaldsins. Þar af leiðandi hefði ég talið æskilegt að gerð væru meiri skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, m.a. með því að ráðherrar ættu ekki sæti á Alþingi. Í annan stað að gerð yrði sú breyting í þingsalnum að ráðherrar sætu ekki andspænis þinginu heldur væri það með öðrum hætti þannig að þeir væru ekki settir í sérstaka og æðri stöðu gagnvart löggjafarvaldinu. Ég lít þannig á að þegar ráðherra gengur í þingsal í dag hætti hann að vera fulltrúi framkvæmdarvalds og gerist fulltrúi löggjafarvalds, hann sé með sömu réttindi og nýtur sömu virðingar og aðrir alþingismenn og á þar af leiðandi að taka sér stöðu sem slíkur en ekki sérstaka stöðu í þjóðþinginu sjálfu. En ég ítreka að ég hefði talið æskilegt að gerð yrði sú breyting að um leið og ráðherrar gerast handhafar framkvæmdarvalds láti þeir af störfum sem fulltrúar löggjafarvalds til að auka á skilin milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins.

Talað hefur verið um annars vegar starf í þingsal og hins vegar starf í nefndum og það er nú einu sinni svo að meðan menn halda í það íhaldssama viðhorf að hafa þetta þinghús og þennan þingsal þá eru möguleikarnir til að hafa sæmilega og vistvæna aðstöðu fyrir þingmenn í þingsal mjög takmarkaðir. Í sjálfu sér lít ég þannig á að þó að Alþingi Íslendinga sé íhaldssöm stofnun eins og þjóðþing eiga sjálfsagt að vera þá sé það tímaspursmál hvenær taka verður á því að búa þingið þannig að nauðsynlegir hlutir séu í þinghúsinu sjálfu og skrifstofur alþingismanna séu þar en ég get ekki séð að það væri skipulagsmálum í Reykjavík til framdráttar að ætla að koma hér upp þeim steypuklumpi á þingreitinn sem ætlaður er en það er annað mál.

Síðan er spurningin með hvaða hætti nefndir starfa og ég verð að segja það sem nýr þingmaður að ég er mjög hugsi yfir því hvernig nefndir þingsins starfa. Ég ætlast til þess að í nefndum þingsins sé fjallað um löggjafarmálefni þannig að þau frumvörp sem berast nefndunum séu skoðuð ítarlega, að fram fari virk umræða í nefndunum sjálfum um frumvörpin en mér virðist sem meginþunginn og megináherslan sé sú að kalla til fólk fyrir nefndina, í sumum tilvikum fólk sem á ekkert erindi til að fjalla um þau löggjafarmálefni sem þar er um að ræða, a.m.k. lítið erindi, og getur ekki í mörgum tilvikum fært neina þekkingu til nefndarinnar sem þar er ekki þá þegar til staðar.

Þegar talað er um tíma og að gera Alþingi að fjölskylduvænni stofnun tel ég að það sé ekki neitt markmið í sjálfu sér því að það hlýtur að vera meginmarkmiðið með starfi Alþingis að löggjafarvaldið sé virt, þetta sé sá farvegur lýðræðis sem Alþingi á að vera og þeir sem gefa kost á sér til þingstarfa verða að undirgangast þær skyldur sem í því felast. Ég verð að segja að þar sem meiningin er að taka af sem mest kvöldfundi þá finnst mér gaman að geta þó verið á síðustu metrunum í því og á sínum tíma þegar ég kom inn sem varaþingmaður háttaði iðulega þannig til að fundir stóðu lengi fram eftir og ég minnist þess ekki að það hafi verið leiðinlegustu fundir sem ég hef setið á Alþingi. Ég lít þannig á að þingmenn verði að taka því þegar þeir eru á annað borð kjörnir til þessara starfa að þeim beri að sinna þeim jafnvel þó að orðið sé áliðið. Hitt er annað mál að það er í sjálfu sér alveg nauðsynlegt að gera störf þingsins sem allra skilvirkust.

Varðandi nefndirnar er tvennt sem mér finnst nauðsynlegt að gera að umtalsefni hér. Í fyrsta lagi tel ég nauðsynlegt að undirbúningur framkvæmdarvaldsins við lagasetningu þurfi að vera annar og mun betri en nú er, þ.e. að þar sé vandað til löggjafar sem máli skiptir og þá er ég að tala um löggjöf þar sem um er að ræða verulega breytingu á lagaatriðum sem fyrir hendi eru, að af hálfu framkvæmdarvaldsins sé látin fara fram ákveðin umræða og skoðanaskipti við hagsmunaaðila sem verði síðan lögð fram við framlagningu frumvarpsins fyrir Alþingi. Þannig væri ákveðnum hluta vinnuferlisins lokið og þegar fagnefndin tæki við af hálfu Alþingis færi tíminn fyrst og fremst í það að vinna að og skoða með hvaða hætti og hvernig þau lagaatriði sem fyrir nefndina hafa verið lögð eru og síðan væru kallaðir til þeir aðilar sem geta skipt máli, upplýst mál og varpað nýju ljósi á þau atriði sem um er fjallað.

Í einu tilviki þar sem ég sit í nefnd verð ég að segja að þetta hefur gengið með ágætum, það var varðandi ný fyrningalög. Ég tel að nefndin sem fjallaði um þau hafi gert það eins og æskilegt hlýtur að teljast með störf nefnda við lagasetningu. Í sumum tilvikum er það þannig og umboðsmaður Alþingis hefur bent á það að Alþingi hafi ekki vandað sig nægilega vel við lagasetningu og það er ekki vansalaust fyrir þjóðþingið. Að löggjafarstarfinu sé sinnt með þeim hætti sem verður að ætlast til að Alþingi geri er sú skylda sem hvílir ekki síst á formönnum nefndanna, fastanefnda Alþingis og forseta þingsins og síðan getur enginn þingmaður vikið sér undan ábyrgð á því.

Við vorum að fjalla um það fyrir nokkru að við værum í þeim hópi sem skipuðum efsta sæti á lista Sameinuðu þjóðanna í ákveðnum tilvikum, sem er ágætt. Það hlýtur þá að vera markmið okkar sem sitjum á Alþingi að fylgja því eftir sem þjóðin hefur áunnið sér á öðrum vettvangi og vera líka í fyrsta sæti, þannig að það séu ekki fleiri lög hér sem þurfa að koma til endurskoðunar vegna þess að vinna löggjafarvaldsins sé gölluð, heldur mun færri en í nágrannalöndum okkar. Ég lít svo á að með breytingu á þingsköpum Alþingis, með því að gera starf Alþingis skilvirkara eða freista þess þá séum við líka að leita leiða til þess að vanda vinnu við setningu löggjafarinnar af því að það getur aldrei verið markmið í sjálfu sér að létta af einhverri umræðu eða draga úr umræðum í þingsal. Meginatriðið, höfuðatriðið, aðalatriðið er það að hér verði um skilvirka, góða löggjafarstarfsemi að ræða.

Ég tel það vera til bóta og er sammála þeim atriðum í frumvarpi því sem hér liggur fyrir, að lengja starfstíma Alþingis. Ég tel að hið svokallaða langa sumarfrí þingmanna sé ekki eðlilegt eins og nú háttar til í þjóðfélaginu og mér finnst þau ákvæði vera til bóta. Þá er spurningin sem við höfum mikið fjallað um og þingmenn Vinstri grænna hafa farið mikinn í ræðustól og í fjölmiðlum um það hvort verið sé að skerða málfrelsið. Það kann vel að vera að þeim finnist eitthvað úr því dregið en ég bendi á að miðað við þau ákvæði sem eru í 12. gr. samanber 80. gr. laganna þá er heimilt tvívegis á þingi að lengja ræðutíma þannig að almennur þingmaður hefur þó samanlagðan ræðutíma við meðferð málsins upp á 140 mínútur eða rúmar tvær klukkustundir og flutningsmaður í 300 mínútur eða 5 klukkustundir. Skyldi nú sumum finnast að það væri ærið nokkuð sem þar væri þó úr að moða með þann mikla tíma sem um er að ræða.

Ég get bent á að við málflutning fyrir Hæstarétti setur Hæstiréttur lögmönnum skorður. Í Hæstarétti Bandaríkjanna er við það miðað að lögmenn þurfa að hafa komið öllum þeim sjónarmiðum sem þeir hafa fram að færa við réttinn á 30 mínútum. Þegar þeim 30 mínútum lýkur er slökkt á hljóðnemanum og það er ekkert meira um það að ræða og algjör undantekning ef lengri tími er heimilaður. Það er að sjálfsögðu annað þegar við erum að fjalla um ræðuhöld fyrir dómstólum eða á löggjafarþingi en ég bendi á að það er samt sem áður í þeim tilvikum líka oft og tíðum um flókin mál að ræða.

Það kann vel að vera að einhverjum finnist það ekki nóg að þingflokkur geti beðið tvívegis um lengda umræðu. Þá er spurningin hvort einhver breyting varðandi 12. gr. í frumvarpinu geti orðið til þess að samkomulag náist til að koma frumvarpinu áfram með samþykki allra þingflokka.

Varðandi spurninguna um bætta starfsaðstöðu þingmanna þá fór ég og skoðaði niðurstöðu frá kjararáði, síðustu birta launavísitölu með síðustu hækkun æðstu embættismanna. Þá kom í ljós að á sama tíma og næstu 12 mánuði á undan höfðu laun almennt hækkað um 11% en laun embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa sem heyra undir kjararáð höfðu hækkað um tæplega 5,6%, þ.e. 2,5% 1. janúar og 3% 1. júlí, þetta var árið 2006. Það getur því varla verið mikill hvati ef laun æðstu embættismanna, þar meðtalinna þingmanna, hækka um helming miðað við það sem launakjör hækka í landinu almennt. Einhverjir mundu kannski segja og við þekkjum það markaðshyggjufólkið, að þetta er alltaf spurning um framboð og eftirspurn og þess vegna, ef um slíkt mætti ræða, gætu laun þingmanna lækkað. En þetta er líka spurning um það hvers konar fólk og hvaða gæði starfa við erum að sækjast eftir.

Það er talað um bætta starfsaðstöðu þingmanna og ég velti því fyrir mér t.d. í framhaldi af ræðu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur þar sem hún fjallaði um að með þessu væri verið að tala um að þingmenn landsbyggðarkjördæma fengju aukna aðstoð. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a., með leyfi forseta:

„Samhliða frumvarpi þessu er samkomulag milli þingflokka, sem að því standa, um að bæta starfsaðstöðu þingmanna, ekki síst stjórnarandstöðuþingmanna.“

Þarna er um að ræða marga ágætishluti eins og t.d. að aðstoða minni hluta í nefndum og efla eftirlitshlutverk nefnda. Ég verð að taka það sérstaklega fram að mér finnst það mjög gott sem kemur fram í þessu frumvarpi um það að ákveðinn lítill hluti nefndarmanna geti óskað eftir því að ráðherra komi til að gefa skýringar á nefndafundum, mér finnst slíkt horfa mjög til bóta varðandi starfsemi nefndanna.

Í öðru lagi að formenn stjórnarandstöðuflokka fái aðstoðarmenn sem er líka verulega til bóta og ég get líka tekið undir þau sjónarmið sem koma varðandi það að auka alþjóðastarf þingmanna og bæta aðstöðu þingflokka að því sem þar kemur fram varðandi ritaraþjónustu og annað.

Síðan koma aðrir hlutir sem hljóta að orka mjög tvímælis. Ég vil leyfa mér að vitna í það sem stendur í greinargerðinni en þar segir, með leyfi forseta:

„Í tengslum við kjördæmabreytinguna 1999 var rætt um að þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma fengju sérstaka aðstoðarmenn eða stöðuhlutfall aðstoðarmanns með hliðsjón af því hve stór þessi kjördæmi eru að flatarmáli og erfið yfirferðar af þeim sökum. Niðurstaðan varð hins vegar sú að fá stjórnmálaflokkunum fé til ráðstöfunar í þessu skyni, en ljóst er að það fé fer að mestu í almennan rekstur flokkanna.“

Við skulum átta okkur á einu í þessu sambandi, hér er verið er að segja: Það voru markaðir ákveðnir fjármunir til þess að þingmenn þeirra þriggja kjördæma sem þarna eru nefnd, þ.e. Norðaustur-, Norðvestur- og Suðurkjördæmi, fengju ákveðna fjármuni og það var varið ákveðnum fjármunum til þingflokkanna í því sambandi. Hvað er verið að segja hér? Að fjármunirnir hafi ekki verið notaðir eins og átti að nota þá og hvað á þá að gera? Þá snýst málið um það að nú á að leggja út enn þá meiri peninga, og til hvers? Til að aðstoða þingmenn úr þeim kjördæmum sem hér ræðir um, þ.e. úr Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum. Það er talað um að þeir fái sem svari einum þriðja stöðugildis sem aðstoð við sig en spurningin er hvaða bætta stöðu þingmenn annarra kjördæma fá. Þingmenn Reykjavíkurkjördæma og Suðvesturkjördæma, kjördæmanna þar sem eru flestir kjósendur á bak við hvern einasta þingmann, þeir eiga alls ekkert að fá. Ég verð að segja að mér finnst þetta atriði gersamlega óásættanlegt.

Það er einu sinni þannig að þingmenn eru þjóðkjörnir. Ég lít á mig sem þingmann þjóðarinnar en ekki ákveðins landshluta. Ég lít svo á að hlutverk þingmannsins sé að setja lög fyrir þjóðina en ekki að sinna sérhagsmunum einstakra byggðarlaga eða svæða. Þingmenn eru kjörnir af fólki en ekki að flatarmáli, ökrum eða engjum eða túnum eða húsum. Þingmenn eru þjóðkjörnir og að sjálfsögðu á að miða við það, það er það eina sem hægt er að miða við ef meta á stöðu þingmanna. Ég tel mjög mikilvægt að við hættum að líta á okkur sem sérstaka fulltrúa ákveðinna sjónarmiða, atvinnuhagsmuna eða byggðarlaga en lítum fyrst og fremst á okkur sem þingmenn þjóðarinnar, sem fulltrúa þjóðarinnar til að setja þjóðinni skynsamlega löggjöf og koma og þoka málum þannig að það geti orðið þjóðinni sem heild sem best.

Þegar verið er að meta og skoða hvaða aðstoð eigi að veita þingmönnum þá finnst mér að við eigum að líta þannig á að þingmenn njóti jafnræðis. Ég tel það í raun ekki ganga upp að þingmenn hafi mismunandi aðstöðu. Ef svo er get ég ekki séð að ákvæðum jafnræðis sé fullnægt því að jafnræðisreglan hlýtur að gilda jafnt um þingmenn sem aðra borgara þessa þjóðfélags. Ættu sumir þingmenn að vera undanþegnir því að njóta jafnræðis við einhverja aðra? Ég get ekki með nokkru móti séð að það geti gengið og út af fyrir sig gæti það verið verðugt verkefni til að fara með og fjalla um hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, hvort slík lagaákvæði eða slíkir starfshættir gætu gengið, að við árið 2008 á Alþingi Íslendinga settum sérreglur fyrir flatarmál en ekki fólk. Það er fólk sem kýs þingmenn. Þingmenn eru þjóðkjörnir.

Mér finnast sjónarmiðin og hugleiðingarnar sem koma fram í greinargerðinni einhver endurómur aftan úr grárri forneskju, einhver viðmið varðandi stöðu þingmanna þegar þeir sáu um pakkasendingar milli landshluta sem er löngu aflagt. Ég veit ekki til annars, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, en þokkalegt símasamband og tölvusamband sé komið um allt land og því er álíka auðvelt fyrir þingmenn að ná sambandi við kjósendur sínar hvar svo sem þeir eru á landinu. Ég geri mér grein fyrir því að eins og störf þingmanna hafa þróast þá telja sumir þingmenn nauðsynlegt að fara langar vegalengdir til að hitta fólk persónulega en láta sér ekki nægja að tala einungis við fólk og afla sér þannig upplýsinga og það er í sjálfu sér bara ákveðin starfsvenja sem fólk velur sér.

Í þéttbýlinu má fólk hafa samband við kjósendur sína, það er venjulega ekkert sérstaklega auðveldara en almennt gerist því að það eru þessir almennu miðlar sem um er að ræða. Möguleikar á því að ná sambandi með rafrænum hætti ásamt nútímafjölmiðlun hefur gert það að verkum að þingmennirnir eru í miklu jafnari stöðu en þeir voru áður.

Ég hef ekki gert úttekt á því hvort ég svara fleiri kjósendum sem eru af Norðvesturlandi eða í Suðvesturkjördæmi í því bréfaflóði sem ég fæ til mín á hverjum degi. En ég reikna með því að það skiptist nokkuð hlutfallslega eftir landshlutum og að þannig sé það með marga þingmenn. Ég skal ekki draga úr því að sjálfsögðu skiptir miklu máli fyrir þingmenn að geta verið í góðu sambandi við kjósendur sína og þess vegna persónulegu sambandi. Þess vegna eiga þingmenn kost á því að ferðast um landið með ódýrum hætti og skattgreiðendur standa undir kostnaði við slík ferðalög. Á þá núna sækja meiri peninga í vasa skattgreiðenda til að standa straum af því sem átti að vera búið að sjá fyrir? Mér finnst þungamiðja þessa máls vera að hér er um virðingu Alþingis að ræða og að skilvirkri löggjafarstarfsemi sé sinnt með eðlilegum hætti.

Þingmenn eiga kost á sérfræðiþjónustu við meðferð ýmissa mála þar sem þess gerist þörf. Mér finnst hafa orðið mjög ánægjuleg breyting á Alþingi frá því að ég kom hér fyrst að því leyti að starfsfólk þingsins er mjög hæft og veitir þingmönnum mjög góða aðstoð í mörgum málum og ég satt að segja varð undrandi yfir því hvað þetta hafði breyst mikið á þeim tíma sem leið frá því að ég sat hér sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og þangað til ég kom á þing í sumar en það er bara af hinu góða. En það geta komið upp hlutir og gera raunar nokkrum sinnum á hverju þingi þar sem þingmaður þarf nauðsynlega að leita sér sérfræðiaðstoðar sem hann á yfirleitt ekki kost á innan þingsins. Þá er spurningin: Með hvaða hætti gerir hann það? Á hann einhverja kosti? Hann getur átt kost á því að gera það með því að einhverjir í hans flokki vinni sjálfboðavinnu við það að útfæra þá sérfræðivinnu sem annars væri unnin. Ef það er ekki fyrir hendi þarf hann að greiða það sjálfur úr eigin vasa.

Mér finnst koma til greina að gefa þingmönnum kost á því að geta fengið fjárveitingar til þess að afla sér ákveðinna skilgreindra upplýsinga vegna meðferðar mála eða undirbúnings mála þegar þeir geta ekki sótt aðstoðina hjá starfsfólki Alþingis. Það gæti afsakað fjárveitingu í þessu skyni til einstakra þingmanna en ekki á grundvelli flatarmáls kjördæmanna heldur á grundvelli þess að við viljum vinna að skilvirkri lagasetningu. Við viljum líka vera númer eitt þegar kemur að því að það starf sem Alþingi Íslendinga vinnur er metið.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum til viðbótar um það frumvarp sem hér liggur fyrir enda er ég búinn að lýsa yfir stuðningi við það að meginstefnu til. Mér finnst þó að það hljóti að koma til skoðunar í fagnefndinni sem fær frumvarpið til meðferðar að athuga hvort hægt er að gera ákveðin ákvæði frumvarpsins ákveðnari, ákvæði sem núna eru komin undir geðþóttaákvörðun forseta í ýmsum málum. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þau atriði, það gefst tækifæri til þess þegar málið kemur til nefndar.

Mér finnst skipta verulega miklu máli, hæstv. forseti, að reynt verði svo sem mögulegt er að ná samkomulagi um það frumvarp sem hér er um að ræða þannig að lögum um breytingar á þingsköpum Alþingis geti allir þingflokkar staðið þegar málið kemur til endanlegrar afgreiðslu.



[23:35]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hvet hv. þm. Jón Magnússon til að kynna sér betur þau sjónarmið sem liggja að baki því að talið var rétt að í frumvarpinu væru uppfyllt áform sem menn höfðu uppi við breytingar á kjördæmaskipun árið 1999, sem tengjast því að þingmenn í kjördæmum sem væru stór að flatarmáli ættu hugsanlega við tæknilega örðugleika að stríða við að yfirvinna það stóra flatarmál. Hér er gert ráð fyrir einum þriðja stöðugildis í að aðstoða þingmenn í þeirri stöðu og finnst mér ekki of mikið í lagt. Þingmenn landsbyggðarkjördæma vinna vissulega að lagasetningu fyrir alla landsmenn, allt landið eins og hv. þingmaður nefndi, en þeir þurfa engu að síður að yfirvinna vissar tæknilegar hindranir til þess að geta gegnt skyldum í kjördæmi sínu. Það á jafnt við þingmenn höfuðborgarsvæðisins og þingmenn landsbyggðarinnar að ákveðnum skyldum þarf að sinna í kjördæminu.

Hv. þingmaður hlýtur að sjá að erfiðara er fyrir þingmann í víðfeðmu kjördæmi — t.d. í kjördæmi sem nær frá Siglufirði út á Langanes, suður á Djúpavog, eða í kjördæmi sem nær frá Akranesi á Patreksfjörð, Bolungarvík, Trékyllisvík, Skagaströnd, Fljótin — að komast á milli staða og skipuleggja störf sín í kjördæminu. Því er talin ástæða til að aðstoða þingmenn úr slíkum kjördæmum umfram þá þingmenn sem eru á höfuðborgarsvæðinu.



[23:37]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki á því af hverju þingmenn þurfa að yfirvinna flatarmál. Þeir eru ekki kjörnir til að yfirvinna flatarmál, þeir eru kjörnir til að setja þjóðinni lög. Ég veit ekki heldur hvaða tæknilegu hindranir hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir þarf að yfirvinna til að komast í Trékyllisvík eða hvaða erindi hún á þangað yfir höfuð. En hins vegar skal ég viðurkenna að þekking hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur á landafræði er yfirgripsmikil og góð og það er í sjálfu sér ágætt.

Ég lít hins vegar ekki þannig á að starf þingmannsins sé fyrst og fremst það að ferðast aftur á bak og áfram um kjördæmi sitt. Ég lít á það sem hlutverk þingmannsins að vera í sambandi við fólk í sínu kjördæmi og þess vegna landsmenn varðandi þau löggjafarmálefni sem eru til meðferðar hverju sinni og hlusta eftir óskum fólks, hverju það vill að þingmaðurinn sinni, hverju það sé andvígt o.s.frv. En það getur gerst og gerist án þess að fólk þurfi að vera á staðnum. Aðstæður hafa hvað þetta varðar gerbreyst frá því sem var meðan menn voru meira og minna símasambandslausir og þurftu að vera á staðnum og hitta viðkomandi. Á tímum hestvagnanna hefði kannski verið hægt að skoða þetta.

En ég ítreka að þingmenn eru kjörnir af fólki til að setja lög fyrir fólkið í landinu. Þeir eru ekki kosnir af flatarmáli, engjum, fjósum eða byggingum. Það er mergurinn málsins. Það verður að líta á stöðu þingmanna sem þingmanna þjóðarinnar sem setja lög fyrir þjóðina en ekki einstaka landshluta. Þess vegna eiga kjör þingmanna að vera þau sömu óháð því úr hvaða kjördæmi þeir eru kosnir.



[23:39]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær tæknilegu hindranir sem ég var að tala um að þyrfti að yfirvinna eru flatarmálið. Það tekur tíma að fara yfir stórt svæði, það er ætlast til þess og þingmönnum ber skylda til þess að fara um kjördæmi sitt, hitta fólk, kynna sér aðstæður til þess að geta staðið sig sem þingmenn. Það er vissulega rétt að þingmenn eru hér fyrir fólk og kosnir af fólki og þess vegna er algerlega nauðsynlegt fyrir þingmenn að hitta það fólk sem kýs þá til starfa.

Ég hvet hv. þm. Jón Magnússon til að ræða þessi mál við samflokksmenn sína, þá hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristin H. Gunnarsson. Ég er sannfærð um að þegar þeir verða búnir að ræða þau mál til hlítar í þeim samstæða og góða þingflokki sem þingflokkur Frjálslyndra er muni hv. þm. Jón Magnússon hafa fullkominn skilning á því við hvaða aðstæður þingmenn á landsbyggðinni búa. Reyndar hvet ég hann einnig til þess að fara dálítið til fundarhalda úti á landi til að hitta fólk sem býr við aðrar aðstæður en fólk gerir hér í 101 Reykjavík þar sem hv. þingmaður er fæddur og uppalinn og hefur alið sinn aldur. Hann hefur mjög góðan skilning á stöðu fólks í kjördæminu en það er jafnframt algerlega nauðsynlegt fyrir hann, af því að hann segist vera þingmaður allra landsmanna, að kynna sér aðstæður fólks úti um land. Þar eru aðstæður að sumu leyti aðrar en í nágrenni við þinghúsið þar sem við höfum góða starfsaðstöðu, eins og hann nefndi, og gott fólk til að aðstoða okkur.



[23:41]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að byrja á því að leiðrétta eina rangfærslu hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur (Gripið fram í.) — nei, ég skal koma að því síðar. Það er í fyrsta lagi það að ég er ekki fæddur og uppalinn í 101 Reykjavík. Það skiptir sjálfsagt ekki miklu máli þó svo hefði verið en ég er reyndar fæddur uppi á Akranesi og það skiptir í sjálfu sér heldur ekki máli. Ég hef heldur aldrei búið í 101 Reykjavík og geri það ekki enn þá, en það skiptir ekki máli hvar maður er búsettur eða hvar maður er fæddur, ekki í sambandi við það að reyna að sinna skyldum sínum sem löggjafi fyrir þjóðina.

Hv. þingmaður hvatti mig til að eiga orðastað við tvo þingmenn Frjálslynda flokksins sem hún nafngreindi. En hún gleymdi að nefna hv. þm. Grétar Mar Jónsson sem er þingmaður Suðurkjördæmis og mundi falla undir þetta sjónarmið líka, ég veit ekki af hverju hann varð út undan í þeirri upptalningu. En við höfum rætt þetta mál og ég, af því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er einn flutningsmanna þessa frumvarps, gerði strax grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef verið að rekja, sem mér finnst mjög mikilvæg, að um það væri að ræða að miða við jafnstöðu þingmanna hvað varðar aðstöðu. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að það kostar töluvert að vera í sambandi við kjósendur þegar fólk fer langar vegalengdir. Ég tel ekkert eftir mér þó að ég sé þingmaður Reykjavíkurkjördæmis að fara út á land til fundar við fólk, og geri það í mjög ríkum mæli. Ef tækifæri gefst vegna þingstarfa mun ég reyndar fara á fund í kjördæmi hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur á fimmtudagskvöldið. Ég vona að þingstörfum verði þannig háttað að ég geti rækt þær skyldur mínar að hitta kjósendur og lagt það flatarmál að velli sem til þarf til að hitta þá, og tel það ekki eftir mér. (ArnbS: Það geri ég ekki heldur.)



[23:44]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, eins konar grundvallarsamskiptareglur í störfum þingsins, afskaplega mikilvægt mál um breytingu á mikilvægum lögum sem hér er til umræðu.

Ég vil byrja á að segja að ég harma hvernig þetta mál bar að. Ég get upplýst að þótt ég hafi ekki, eins og ég hef sagt áður í þessum ræðustól, mjög langa reynslu af þingstörfum þá hef ég um langt skeið tekið þátt í stjórnmálastarfi og átt sæti í sveitarstjórn stærsta sveitarfélags landsins í um 13 ár og m.a. gegnt þar störfum formennsku í borgarstjórnarflokki og forseta borgarstjórnar. Af þeim sökum hef ég oft og tíðum þurft að eiga samskipti við alla þá flokka sem skipa borgarstjórnina um margt það er varðar starfshætti þeirrar ágætu samkomu.

Ég hefði talið afar þýðingarmikið með svona grundvallarmál að um það hefði náðst breið og góð samstaða allra sem eiga að starfa eftir þeim reglum sem þingsköpin kveða á um. Þess vegna harma ég að ekki hafi verið reynt til þrautar að ná slíkri samstöðu áður en frumvarpið var lagt fram. Ég gagnrýni því forseta Alþingis fyrir vinnubrögðin.

Hins vegar fagna ég því að það hefur komið fram í þessari umræðu af hálfu margra sem hafa tekið til máls ríkur vilji til að ná þeirri breiðu samstöðu sem við erum að kalla eftir, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það hlýtur að vita á gott þegar margir þingmenn, m.a. úr röðum stjórnarflokkanna og úr röðum annarra flokka sem eiga aðild að þessu þingmáli, lýsa því yfir í þessari umræðu að mikilvægt sé að reyna að ná slíkri samstöðu í þingnefnd úr að það tókst ekki áður en frumvarpið var lagt fram. Þessu vil ég fagna sérstaklega.

Það eru allnokkur atriði í þessu frumvarpi sem hér hafa einkum verið tekin til umræðu. Ég hygg að það megi fullyrða að í umræðunni út á við hafi mest borið á því að deilur séu um ræðutímann, takmörkun á ræðutíma frá því sem gildir í núgildandi þingsköpum og til þess sem verða á verði þetta frumvarp óbreytt að lögum. Það er svo sem ekkert sérkennilegt að það hafi orðið fyrirferðarmikið í umræðunni vegna þess að í frumvarpinu er gengið býsna langt í að takmarka ræðutíma frá því sem nú er að mínu mati.

Nú er það alls ekki svo að ég sé andvígur því að það séu takmarkanir á ræðutíma, þess vegna í öllum umræðum um lagafrumvörp og báðum umræðum um þingsályktunartillögur. En ég er þeirrar skoðunar að í því frumvarpi sem hér liggur fyrir sé gengið allt of langt hvað þetta snertir. Það er langur vegur frá því að ræðutími sé ótakmarkaður eins og í 2. umr. um lagafrumvörp í það að hann sé skorinn niður í 15 mínútur og síðan 5 mínútur. (Gripið fram í: Ekki vildi Ragnar Arnalds það.) Nú er ég ekki að ræða um álit eða skoðanir manna sem sátu á þingi áður heldur er ég að lýsa skoðunum mínum. Ég vona að forseti reikni með því að menn lýsi hér eigin skoðunum á því máli sem hér er til umfjöllunar. Það er ég að gera. Ég tel að hér sé gengið býsna langt í þessu efni.

Það er sagt að ekki sé dregið úr málfrelsinu með neinum hætti vegna þess að menn geti núna, miðað við þessa tillögu, talað eins oft og þeir kjósa, í 5 mínútur í senn. Frá mínum bæjardyrum séð er ég ekki sannfærður um að það verði sérstaklega góður bragur á því, ef út í það er farið, að menn komi upp trekk í trekk og tali í 5 mínútur í senn. Eitt er víst að það verður ekki samfelld röksemdafærsla sem fæst með þeim hætti.

Á einum stað í greinargerð er sagt að þetta muni leiða til þess að umræður verði líflegri. Það kann vel að vera. En er það endilega það sem við keppum eftir í umræðum á Alþingi, að þær séu líflegar, fjörlegar og skemmtilegar? Það er að vísu kostur þegar menn geta gantast í umræðunni og mikil hlátrasköll verða í salnum af og til. En fyrst og fremst hljótum við að vera að ræða þetta mál út frá því að við vöndum okkur betur í því starfi sem okkur er falið að sinna, þ.e. í löggjafarstörfunum. Ég er ekki sannfærður um að þær breytingar sem hér eru lagðar til muni leiða til þess.

Einn hv. þingmaður sagði í sinni ræðu, hv. þm. Jón Magnússon, að við byggjum við ofurvald framkvæmdarvaldsins og mikilvægt væri að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég fæ ekki séð að það dragi úr þessu ofurvaldi í því frumvarpi sem hér liggur fyrir jafnvel þótt það kunni að vera ásetningurinn, eins og oft hefur verið getið um í þessari umræðu. Ég fæ ekki séð að það sé dregið úr þessu ofurvaldi. Hins vegar er, að okkar mati, dregið úr þeim tækjum sem stjórnarandstaðan hefur til að hafa áhrif á þingstörfin, sem hún á að sjálfsögðu að geta haft. Hún á að sjálfsögðu að hafa áhrif á þingstörfin og gang mála jafnvel þótt hún hafi ekki neitunarvald um úrslit mála, vitaskuld ekki. Það hefur enginn ætlast til þess eða sagt að svo eigi að vera.

Ég vil líka segja að mér finnst skorta á röksemdir í greinargerð með frumvarpinu fyrir þeim fullyrðingum sem þar er að finna um að verið sé að styrkja starf þingsins og styrkja og efla stjórnarandstöðuna sérstaklega. Mér finnst vanta rök fyrir því. Þegar stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sá flokkur sem væntanlega þarf að hafa forustu um að vera í stjórnarandstöðu, segir það fullum fetum að hann upplifi það ekki með þeim hætti sem flutningsmenn frumvarpsins tala um þá hljóta menn að leggja við hlustir og spyrja. Ég sé að forseti hristir höfuðið yfir því. En ef þeir sem eru í stjórnarandstöðu, í forustu stjórnarandstöðu, telja að ekki sé verið að koma til móts við þeirra sjónarmið og ekki verið að styrkja hlutverk stjórnarandstöðunnar er þá ekki eitthvað mark á því takandi? Er það stjórnarmeirihlutinn sem á að skera úr um það og hafa mest um það að segja hvernig hlutverk eða staða stjórnarandstöðunnar verði best efld? Ætli það sé ekki stjórnarandstaðan sjálf sem hefur mesta þekkingu á því og þeir sem hafa mikla reynslu af því að vera í stjórnarandstöðu, ég tala nú ekki um. (Gripið fram í.) Já, það eru margir sem hafa þá reynslu. Ég hvet sérstaklega til þess að þeir sem fá þetta mál til meðferðar í þingnefnd hlusti eftir þessum sjónarmiðum og leggi sig fram um að koma til móts við þau.

Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna, efnisleg sem ég mundi telja að þyrfti sérstaklega að vinna með og athuga hvort hægt væri að ná góðri samstöðu um. Í fyrsta lagi er þetta sem ég hef þegar nefnt um ræðutímann, einkum í 2. umr. um lagafrumvörp. Ég tel að þar sé of langt gengið jafnvel þó ég vilji alls ekki leggjast gegn því að þar verði um einhverjar takmarkanir að ræða.

Í öðru lagi vil ég nefna það sem þegar hefur komið fram, m.a. af hálfu þingmanna Vinstri grænna, um afbrigðin. Ég tel mjög þýðingarmikið að skoða það að hækka þröskuldinn hvað varðar afbrigðin, t.d. í þrjá fjórðu. Það er ekki alveg eðlilegt að stjórnarmeirihluti þótt hann sé stór, geti skammtað sér þessi afbrigði sjálfur, einfaldlega vegna þess að það er verið að víkja frá meginreglunni þegar afbrigði eru veitt. Það á ekki að vera sérstaklega auðvelt mál að gera það og þarf a.m.k. að tryggja að verulega góð samstaða sé um slíkt.

Ég vil líka nefna ákvæði í 2. mgr. 12. gr. sem lúta að því að forseta sé heimilt að rýmka ræðutíma. Ég tel að þetta ákvæði þurfi að styrkja þannig að réttur stjórnarandstöðuþingflokka verði styrktur í þessu efni, að það sé ekki algerlega undir ákvörðun forsetans á hverjum tíma komið hvort orðið verði við óskum um aukinn ræðutíma.

Ég vil líka nefna, af því að það kom fram í umræðum fyrir helgi, m.a. frá hv. þm. Helga Hjörvar, að hann hefði sem forseti borgarstjórnar haft forgöngu um að setja takmarkanir á ræðutíma í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann vitnaði til þess að ég hefði m.a. átt þátt í því og það er rétt en þar var þó ekki gengið eins langt og hér, með að takmarka ræðutíma við 15 mínútur heldur má tala 30 mínútur í þeirri umræðu og hefði ég talið að menn gætu haft það til hliðsjónar í þessu samhengi. En þar er þó sú almenna regla að viss stórmál eru algerlega undanþegin þessari reglu. Ég nefni t.d. umræðu um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þá er umræðan ótakmörkuð. Hið sama gildir um ársreikning sveitarfélagsins og nefni stórmál eins og aðalskipulag sveitarfélagsins. Slík mál lúta ekki takmörkunum á ræðutíma. Ég hefði þess vegna velt fyrir mér í þessu samhengi að stór mál sem hér koma inn, t.d. fjárlögin eða breytingar á stjórnskipunarlögum eða önnur stór mál, ættu sjálfkrafa að vera undanþegin þessum tímatakmörkunum og án þess að það þyrfti sérstaklega að biðja um það eða þannig að menn geti tekið það af sínum kvóta, sem hér er lagt til að sé á þingflokkum samkvæmt 12. gr., þ.e. að tvisvar á hverju þingi geti menn beðið um lengri ræðutíma.

Mér finnst ekki eðlilegt að ef menn óska eftir lengri ræðutíma um fjárlög þá sé það tekið af þessum kvóta. Ég tel það ekki og ég bendi á að í síðustu viku fór fram 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2008. Mér er til efs að nokkur ræðumaður hvort sem hann var úr stjórn eða stjórnarandstöðu hafi talað í minna eða undir 15 mínútum (Gripið fram í: Ögmundur.) nema kannski Ögmundur Jónasson. Ég verð ekki var við að menn hafi litið á það sem eitthvert sérstakt málþóf nema síður sé. Ég tel að það hafi verið ítarlegar og góðar umræður.

Nú vil ég að vísu segja, varðandi markvissari umræðu um mál sem hér hefur borið á góma, að ég held að það sé alveg hægt að ná því fram, m.a. með því að fram fari meiri umræða í nefndum. Þar nefni ég fjárlögin sérstaklega. Ég teldi eðlilegt, ég vísa þar til reynslu minnar frá störfum að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, að það væru fleiri en fjárlaganefndin sem kæmi að þeirri umræðu. Það væri miklu meiri og ítarlegri umræða í fagnefndunum um fjárlagatillögur í hverjum málaflokki og að ráðherrar væru viðstaddir í umræðum um fjárlagatillögur sinna ráðuneyta. Þá held ég að auðvelt væri að takmarka ræðutímann um fjárlögin, ef þetta fylgdi, en ég sé það hvergi í þessum tillögum. Nú kann vel að vera að forseti og flutningsmenn þessa frumvarps hafi hugsað sér það en ég fæ ekki séð að það sé tryggt. Ég tel að þarna væri hægt að ná betri árangri.

Ég veit að svona er þetta unnið í þjóðþingum í löndunum í kringum okkur, að það fer fram umræða um fjárlagatillögur einstakra málaflokka inni í fagnefndunum og jafnvel opnar umræður fyrir fjölmiðla eða aðra sem vilja fylgjast með störfum, a.m.k. að einhverju leyti, sem ekki hefur verið gert hér. Þar tel ég að mætti gera bragarbót og það yrði til mikilla bóta fyrir störf Alþingis.

Menn hafa talað talsvert um réttinn til málþófs. Ég vil alls ekki setja samasemmerki milli þess að menn flytji langar ræður og að það sé málþóf. Við þekkjum að hægt er að setja á langar ræður ef menn vilja tefja mál og reyna að koma í veg fyrir að það fái afgreiðslu. Það hefur kannski verið notað og kannski eru menn að reyna að koma í veg fyrir slíkt. En auðvitað er það líka þannig að í stórum málum flytja menn langar og ítarlegar ræður af því að menn eru að reyna að koma rökstuðningi á framfæri. Þar eru kannski flókin mál á ferðinni, stórir lagabálkar sem einfaldlega tekur langan tíma að ræða. Á sama hátt er hægt að halda uppi málþófi með því frumvarpi sem hér liggur fyrir um breytingu á þingsköpum verði það að lögum. Auðvitað geta menn komið sér saman um það að setja á endalausar 5 mínútna ræður hver á fætur öðrum ef út í það er farið. Það verður ekki komið í veg fyrir þennan möguleika á málþófi með þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að það verði betri bragur á því nema síður sé.

Ég ætla líka að koma inn á það er varðar störf þingsins og hlutdeild stjórnarandstöðunnar í forustu fyrir þingið, þingnefndir o.s.frv. Ég tel mikilvægt að það komi fram í nefndaráliti eða þess háttar að ásetningurinn sé að stjórnarandstaðan eigi líka hlutdeild í forustustörfum í þinginu, í þingnefndum, alþjóðanefndum o.s.frv., í samræmi við þann styrk sem hún hefur hverju sinni. Það mundi styrkja þingið. Það væru mjög skýr skilaboð að mínu viti um að þingið sé sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þetta tel ég mikilvægt.

Ég vil nefna það að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur nýtt sinn styrk til hins ýtrasta, t.d. þegar kosið var í nefndir og ráð í vor og í raun miklu meira en það. Hér er notast við ákveðna reglu sem kölluð er d’Hondt-regla við kosningu í nefndir. Hún er ekki ný en samkvæmt henni er stjórnarmeirihlutinn, sem hefur um 65 eða 67% þingmanna, með 80% fulltrúa í sumum nefndum, t.d. öllum fimm manna nefndum. Þegar hér var kosið í yfirkjörstjórnir allra kjördæma, sem eru fimm manna, þá veldur þessi regla því að stjórnarliðar hafa fjóra af fimm nefndarmönnum, þ.e. 80% nefndarmanna í öllum kjörstjórnum sem eiga að hafa eftirlit og umsjón með kosningum. Þarna tel ég að ríkisstjórnarmeirihlutanum hefði verið í lófa lagið að segja: Nei, það er nóg fyrir stjórn að vera með þrjá af fimm mönnum, þ.e. 60% sem hefði verið miklu nær því hlutfalli sem stjórnin hefur hér á þingi.

Það má t.d. nefna fimm manna alþjóðanefnd eins og EFTA-nefndina sem ég á sæti í en þar er einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar á móti fjórum fulltrúum stjórnarliðsins. Þarna tel ég að menn gangi allt of langt í að nýta til fulls þingmeirihluta sinn í stað þess að reyna að sýna sanngirni í þessum málum og að stjórnarandstaðan fái eðlilega hlutdeild í þessum störfum.

Ég vil líka nefna skipulag þingfunda Það hefur komið mér spánskt fyrir sjónir og mér finnst ekki nógu gott skipulag á þingfundum. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þess að það liggur sjaldnast fyrir fyrr en að kvöldi dags hvaða mál verða á dagskrá daginn eftir. Þingmenn sem eru með mál sem þeir ætla að tala fyrir og eru fyrstu flutningsmenn að vita það gjarnan ekki fyrr en kvöldið áður að þeir eigi að tala daginn eftir í málum. Þetta finnst mér að þurfi að laga og skipuleggja þingfundi lengra fram í tímann. Ég held að þarna séu hlutir sem mætti gjarnan vinna með. Það er kannski erfitt að koma því inn í þingskapalögin sjálf en þetta eru hlutir sem mættu gjarnan koma fram í nefndaráliti þegar mál kemur úr nefnd.

Hér er talað um það að styrkja þingið í alþjóðlegu samstarfi. Ég fagna því og ég tek undir að eðlilegt sé að gera það. En það þarf þá að gera mönnum það kleift. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna eitt sem ég hef ekki heyrt nefnt í umræðum til þessa en það eru reglur um innkomu varamanna. Ég tel að fyrir stjórnarandstöðu, sérstaklega við þær aðstæður eins og nú eru, þar sem ríkisstjórnarmeirihlutinn er mjög mikill, sé mjög erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að manna þau erlendu samskipti sem hún á að taka þátt í miðað við þær reglur sem gilda um innkomu varamanna í dag og sinna jafnframt þeim skyldum sem eru á Alþingi. Ég mundi því gjarnan vilja heyra frá forseta Alþingis hvort hann hafi eitthvað leitt hugann að þessu þegar hann kom fram með þetta markmið, að auka alþjóðastarf, sem ég er almennt sammála að eigi að gera. Mér finnst spurning um hvort hægt væri að koma til móts við stjórnarandstöðuna í þessu samhengi.

Eitt atriði vil ég gjarnan nefna enn sem lýtur að skipulagi þingsins og þingstarfanna. Við þekkjum það og frá því er greint í frumvarpinu að í starfsáætlun skuli tilgreina hvenær eigi að vera þingfundir, hvaða daga einvörðungu fundir í nefndum og hvaða dagar eru kjördæmadagar. Allt gott um þetta en ég vil nefna eina hugmynd við forseta í þessari umræðu, sem ég kynntist fyrir stuttu þegar ég var í opinberum erindum í Strasbourg á vegum EFTA-nefndarinnar þar sem okkur gafst kostur á að hitta og kynnast störfum Evrópuþingsins. En fyrir utan það að í starfsáætlun Evrópuþingsins er skilgreint hvenær eru þingfundadagar, hvenær nefndadagar og hvenær kjördæmadagar, ef svo má kalla þ.e. þegar þingmenn fara heim til síns lands og starfa þar, eru líka sérstakir þingflokksfundadagar í starfsáætlun þingsins, þ.e. inni í starfsáætluninni er gert ráð fyrir því að þingflokkar hafi tiltekna daga með reglulegu millibili allt þingið sem eru fráteknir til þingflokkanna að vinna í stórum málum. Þetta finnst mér mikilvægt vegna þess að eins og ég upplifi málin í þinginu þá eru þingflokksfundir tvisvar í viku en það eru stuttir fundir, þeir eru knappir og þeir rúma í raun fyrst og fremst yfirferð yfir þau mál sem við erum að ræða þann dag eða allra næstu daga. Í mínum huga gefst allt of lítill tími yfir þingtímann sjálfan í þingflokksfundi til að fara í saumana á stórum mikilvægum málum, t.d. fyrir 2. umr. um fjárlög, svo dæmi sé tekið. Ég skýt þessu að í umræðunni núna sem hugmynd, að gert verði ráð fyrir sérstökum þingflokksfundadögum á starfsáætlun þingsins.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það er hægt að fjalla um svona stórt og ítarlegt mál á skemmri tíma en þeim sem ýtrustu tímatakmarkanir leyfa, sem hafa verið sett í þessa umræðu. Ég tel að ég hafi farið yfir þau helstu mál sem ég vildi koma á framfæri en vísa að öðru leyti til þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Steingrími J. Sigfússyni varðandi afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við viljum gjarnan taka þátt í að skapa góða og styrka umgjörð um þingstörfin. Við erum að sjálfsögðu reiðubúin að leggja okkar hugmyndir inn í þetta púkk. Við höfum reynt að gera það. Ég held að það væri öllum fyrir bestu, fyrir alla þingflokka, fyrir þingið í heild og forseta, að góð og breið samstaða náist um þessar grundvallarvinnureglur sem við störfum eftir og eru lögin um þingsköp Alþingis. Við munum a.m.k. fara í þá vinnu í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, hver sem hún verður, með það hugarfar að hafa áhrif á frumvarpið eins og það liggur fyrir. Við viljum að lögin verði til bóta út frá þeim sjónarmiðum sem við höfum sett fram og ég vænti þess að aðrir muni gera slíkt hið sama, koma að þeirri vinnu með opnum huga. Þá er ekki loku fyrir það skotið að gera megi einhverja bragarbót á þessu frumvarpi sem geti leitt til þess að um það verði breið samstaða.



[00:08]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar umræður og í langflestum atriðum mjög málefnalegar og tel að þessi 1. umr. hafi verið mjög gagnleg fyrir framhald málsins.

Umfram allt þakka ég fyrir að samkomulag skyldi nást um þessa umræðu sem sýnir að á Alþingi er hægt, þegar menn leggjast á eitt, að ná skynsamlegri niðurstöðu. Hér hefur eins og við var að búast margt komið fram og afstaða hv. þingmanna er skýr. Annars vegar kemur fram hjá hv. flutningsmönnum þessa frumvarps ríkur vilji til að ná fram mikilvægum breytingum á þingsköpum. Hins vegar hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gert miklar athugasemdir og leggjast gegn frumvarpinu. Hins vegar vakti athygli mína afar merkileg ræða sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson flutti í lokin þar sem hann kom fram með athugasemdir, fyrirspurnir og ábendingar sem ég tel gagnlegt að fá fram og teldi að af hálfu þingmanna Vinstri grænna hefðu þurft að koma fram fyrr.

Einhverra hluta vegna kemur þetta fram núna. Mér sýnist það benda til að það geti lofað góðu að því leyti að í meðförum þingsins og í nefndinni kunni að vera meiri stuðningur af hálfu vinstri grænna við málið en við höfðum kannski gert ráð fyrir.

Ég ætla ekki að fara ofan í einstök atriði í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hún olli mér miklum vonbrigðum. Ég verð að segja það eins og það er. Sú ræða hlýtur að vekja þær spurningar hjá mér um hversu mikil alvara hafi verið af hálfu hv. þingmanns gagnvart þessu máli. Hvað um það? Ræða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar bendir til að ef til vill sé nokkur vilji til þess af hálfu þeirra þingmanna sem þar eru á ferðinni að ná góðri niðurstöðu og samstöðu með okkur.

Umræðan hefur verið gagnleg og mikilvæg. Ég tel t.d., líkt og komið hefur fram, að við þurfum að skipuleggja þinghaldið betur. Það er hárrétt og ég tek undir það. Frumvarpið er til þess gert. Ég er hins vegar algerlega ósammála því að frumvarpið veiki stöðu þingsins. Ég tel að það sé af og frá. Þau spor sem við stígum með frumvarpinu eru einmitt til að styrkja stöðu þingsins. Ég tel jafnframt að þær ábendingar sem hafa komið fram um ræðutíma segi okkur að það skipti miklu máli hvernig fyrstu skrefin verða hjá okkur, að breyttum lögum. Sú ábyrgð er lögð á herðar forseta, að ná góðu samkomulagi, ná niðurstöðu um ræðutíma sem víkur frá meginreglum á grundvelli þeirrar heimildar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég tel afar mikilvægt að við gerum ráð fyrir því að t.d. í umræðum um fjárlög, í umræðu um samgönguáætlun eða önnur slík mál, að það verði lengri ræðutími en ýtrasti rammi gerir ráð fyrir. Þess vegna eru þessar heimildir inni, heimildir um lengri tíma á grundvelli þess að forseti taki þá ákvörðun.

Ég tel t.d. hvað varðar fjárlagaumræðuna að eðlilegt væri að fjárlaganefndin færi yfir þau mál og að til forsætisnefndar og formanna þingflokkanna kæmu tillögur frá t.d. fjárlaganefnd um hvernig umræðum verði háttað um fjárlög. Það mættu koma tillögur um heildarumræðutíma o.s.frv. Þetta eru allt atriði sem við þurfum að þróa í þeim tilgangi að tryggja lýðræðislegar umræður og tryggja að rökræður fari fram, eins og við hljótum að gera kröfur um.

Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessar umræður í kvöld. Ég þakka fyrir þær og tel að næsta skref sé að vinna vel í nefnd að málinu og leitast við að ná fullkominni sátt um það. Mér sýnist margt benda til þess að hægt sé að ná um málið sátt eftir þær umræður sem ég hef hlýtt á, ekki síst eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar.



[00:15]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur að mörgu leyti verið ágæt og margt athyglisvert hefur komið fram. Ég kveð mér hljóðs í andsvari við hæstv. forseta til að fullvissa hann um að hinni fornu stjórnunaraðferð Rómverja, að deila og drottna, verður ekki beitt á Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Við stöndum algjörlega einhuga í málflutningi okkar um þetta þingskapafrumvarp og höfum gert alla tíð. Við höfum farið mjög rækilega yfir þessi mál í okkar hópi og eigum eftir að gera enn. Sannast sagna, þó að við höfum lagt okkur í líma, og ég hef gert það, að sjá líka hinar jákvæðu hliðar á frumvarpinu, þá, eftir því sem ég skoða málin betur, leynast þar greinar sem eru afar varhugaverðar og hafa í reynd ekki komið til umfjöllunar hér í kvöld. Ég nefni 15. gr. laganna sem takmarkar rétt þingmanna, takmarkar málfrelsi og tengir málfrelsið stærð þingflokka.

Ég nefni þetta sem dæmi um málefni sem á eftir að taka til gagngerrar umræðu þegar þetta frumvarp er annars vegar. En ég vildi sannfæra hæstv. forseta um að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs talar einum rómi í þessu máli.



[00:17]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil með sama hætti vekja athygli á því, vegna þess sem m.a. hefur komið fram hjá hv. þingmanni, að mikill stuðningur er við það frumvarp sem hér er verið að flytja. Hann vísaði í 15. gr. og telur að með henni sé verið að takmarka málfrelsi en ég tel að því sé öfugt farið. Þar er verið að tryggja að sem flestir eigi möguleika á því að taka þátt í umræðum. Það er afar mikilvægt, ekki síst á hinu háa Alþingi, að standa þannig að málum, binda þannig um hnúta, að umræður geti verið á þeim forsendum að sem flestir komist að.



[00:18]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að ýmsu er að hyggja þegar þessi mál eru annars vegar, málfrelsi og þá ekki síður jafnræði á milli sjónarmiða vegna þess að í þinginu takast á ólíkir straumar og mismunandi sjónarmið.

Ég vek athygli á því að í mestu hitamálum undangenginna ára hefur tiltekinn stjórnmálaflokkur, sem heitir Vinstri hreyfingin – grænt framboð, staðið vaktina öðrum flokkum fremur. Ég nefni t.d. Kárahnjúka. Ef málfrelsið hefði verið bundið við stærð þingflokka er ég ansi hræddur um að umræðan hefði orðið á annan veg en hún raunverulega varð. Þetta er einn þáttur sem þarf að hyggja að en ég geri mér grein fyrir að flokki hæstv. forseta þingsins, Sjálfstæðisflokknum, hefur alla tíða verið umhugað um að skerða málfrelsi smærri flokka hér á þingi, (Gripið fram í: Þetta er nú ekki rétt.) þannig að það er ekkert nýtt sem hér er uppi. (Gripið fram í.)

Ég ítreka að við umræðuna hefur af hálfu flestra sem til máls hafa tekið komið fram vilji til sátta en ég verð að lýsa hryggð minni yfir lokaorðum hæstv. forseta þingsins. Hann virðist vilja leggja sig í líma að deila og drottna með því að gefa einhverjar afareinkunnir þeim manni sem sennilega þekkir best til þingskapa þeirra sem sitja nú á þingi, sem er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vísa slíkum einkunnagjöfum algerlega á bug og út í hafsauga.

Að lokum vil ég ítreka vilja okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til þess að stuðla að farsælli lausn í þessu máli þar sem sjónarmið allra verði virt. Við höfum lýst því yfir að við erum (Forseti hringir.) reiðubúin að slá af ýtrustu kröfum okkar. Það verða aðrir að gera að sama skapi.