135. löggjafarþing — 37. fundur
 5. desember 2007.
fátækt barna á Íslandi.
fsp. HHj, 127. mál. — Þskj. 128.

[14:34]
Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið, ég var að verða úrkula vonar um að komast að í dag. Tilefni þeirrar fyrirspurnar sem ég hef lagt fyrir hæstv. forsætisráðherra má rekja til síðasta kjörtímabils þegar við fórum, nokkur hópur þingmanna, ítrekað fram á að fá skýrslu um fátækt barna á Íslandi. Eftir að núverandi hæstv. forsætisráðherra tók við embætti skilaði hann í þingið ágætri skýrslu um það efni sem lögð var fram fyrir að verða ári, hygg ég, og sýndi okkur fram á að í okkar efnaða og að mörgu leyti sterka samfélagi væru á fimmta þúsund börn undir fátæktarmörkum OECD.

Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að sú niðurstaða skýrslunnar fyrir árið 2004 hafi komið fólki í öllum flokkum óþægilega á óvart og vakti umræðu um það hvort við hugum ekki nægilega vel að stöðu efnalítilla barnafjölskyldna, hvort við getum gert betur í því efni. Ég held að við hljótum öll að hafa metnað til þess þegar lífskjör barnafjölskyldna og einkum þeirra efnalitlu eru annars vegar að þá sé mikilvægt að við séum líka númer eitt. Ég lofaði þá að ganga eftir því að við fylgdumst áfram með þessu og fengjum tölur fyrir árin eftir 2004, 2005 og 2006, vegna þess að til þess að ræða málið og grípa til aðgerða er grundvallaratriði að þetta sé mælt en þetta hafði ekki verið mælt árlega áður en skýrslan var gerð.

Ég hef því beint fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um það hvernig þessar tölur líti út fyrir árin 2005 og 2006, hve hátt hlutfall barna búi undir skilgreindum fátæktarmörkum OECD og hversu mörg þau eru til að sjá hvort þessi staða hafi eitthvað batnað hér. Síðan er spurt um samanburð við önnur Norðurlönd sérstaklega, því að það kom í ljós að innan OECD stóðum við býsna vel. Við vorum í fyrsta flokki þar ásamt öðrum Norðurlöndum. Það kom hins vegar í ljós að við vorum umtalsverðir eftirbátar annarra Norðurlanda í því að ná fátækum barnafjölskyldum upp fyrir fátæktarmörkin. Þeir virtust ná miklu betri árangri í því með skatta- og bótakerfum og því er um það spurt. Loks inni ég hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort fyrirhugaðar séu aðgerðir á kjörtímabilinu sem muni bæta fyrirsjáanlega hag þessara fjölskyldna eða hvort hann telji koma til álita að grípa til sérstakra aðgerða í því skyni, t.d. ef og þegar svigrúm gefst til frekari skattalækkana á kjörtímabilinu.



[14:37]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var á síðasta vetri lögð fram á Alþingi skýrsla forsætisráðherra um fátækt barna á Íslandi. Þessi skýrsla var tekin saman að beiðni nokkurra þingmanna og var hv. fyrirspyrjandi þar í fararbroddi. Í skýrslunni kom fram talnaefni sem unnið var með hliðsjón af þeim aðferðum sem OECD hafði beitt og voru tölur fyrir Ísland bornar saman við tölur nokkurra OECD-ríkja árin 1994 og 2004. Ekki hefur orðið framhald á þessum útreikningum. Meginástæðan er sú að Hagstofa Íslands birti skömmu síðar fyrstu útreikninga fyrir Ísland um fátækt barna og fleira sem gáfu færi á mun nákvæmari samanburði við önnur lönd en fyrri útreikningar. Þessi rannsókn fer fram ár hvert eftir samræmdri forskrift um framkvæmd, aðferðir, skilgreiningar og úrvinnslu í öllum þátttökuríkjum en það eru öll aðildarríki ESB, Ísland, Noregur og Sviss. Rannsóknin á því að gefa niðurstöður sem eru eins samanburðarhæfar þjóða í milli og kostur er. Þessar fyrstu tölur voru fyrir árin 2003 og 2004 og von er á niðurstöðum fyrir árið 2005 í febrúar á næsta ári og svo koll af kolli. Af þessum sökum liggja því miður ekki fyrir á þessari stundu tölur um árið 2005.

Aðferðafræði hinnar samræmdu lífskjararannsóknar EES-ríkja er um margt svipuð þeirri sem OECD hefur beitt. Í báðum tilvikum er miðað við ráðstöfunartekjur heimila, tekjur eru reiknaðar á neyslueiningu og lágtekjumörk eða fátækt er skilgreind á hlutfallslegan mælikvarða. Skilgreiningar eru þó að sumu leyti ólíkar. Neyslueiningar eru ekki reiknaðar á sama hátt og lágtekjumörkin eru ólík. Samkvæmt skilgreiningu OECD eru lágtekjumörk 50% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu en í evrópsku rannsókninni eru lágtekjumörkin 60% af miðgildi. Í þessu felst að niðurstöður evrópsku lífskjararannsóknarinnar og tölur OECD eru ekki sambærilegar og fleiri teljast undir lágtekjumörkum í evrópsku rannsókninni en í tölum OECD.

Helstu niðurstöður könnunar Hagstofu Íslands eru eftirfarandi:

1. Hér á landi voru 10% barna 15 ára og yngri á heimilum undir lágtekjumörkum árið 2004 samkvæmt evrópsku lífskjararannsókninni. Þetta svarar til um 7.500 barna.

2. Ekki er teljandi munur á stöðu Íslands og annarra Norðurlanda. Hins vegar er talsverður munur á stöðu Norðurlandanna og annarra Evrópuþjóða í þessum efnum. Kemur það heim og saman við það sem hv. málshefjandi nefndi. Fjöldi barna á heimilum undir lágtekjumörkum var þar 8–10% árið 2004 og var hvergi lægri í Evrópu. Hlutföllin voru 8% í Svíþjóð, 9% í Noregi og 10% í Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Meðaltal 25 ESB-ríkja var þá 19% og í 13 ríkjanna var hlutfallið 20% eða hærra, hæst 29%.

3. Þessi niðurstaða sýnir að Ísland er í hópi þeirra landa þar sem fátækt barna mælist hvað minnst. Þetta endurspeglast líka í því að fátækt almennt mælist næstminnst á Íslandi á eftir Svíþjóð og að tekjujöfnuður er hvað mestur.

4. Sem fyrr segir teljast fleiri undir lágtekjumörkum í evrópsku lífskjararannsókninni en samkvæmt aðferð OECD. Þetta er þó ekki raunin ef niðurstöður evrópsku rannsóknarinnar eru miðaðar við sama hlutfall af miðgildi ráðstöfunartekna og OECD gerir, þ.e. 50%. Þá mælast um 6% barna hér á landi eða um 4.600 börn vera á heimilum undir lágtekjumörkum árið 2004. Þetta er mjög svipað hlutfall og var árið áður og svipað og þær niðurstöður sem byggjast á aðferð OECD og fram komu í skýrslu forsætisráðherra á síðasta þingi.

Við túlkun þessara niðurstaðna má m.a. hafa eftirfarandi í huga, virðulegi forseti:

1. Hlutfall barnafjölda á heimilum undir lágtekjumörkum er hér á landi og á öðrum Norðurlöndum mjög svipað og hlutfall landsmanna almennt. Börn eru því ekki hópur sem er í sérstakri áhættu í þessum löndum hvað þetta atriði varðar.

2. Rannsóknir sýna að heimili með ráðstöfunartekjur undir lágtekjumörkum staldra stutt við í slíkum hópi. Með öðrum orðum eru lágar heimilistekjur oftar en ekki tímabundið ástand, ekki síst meðal ungs fólks sem varir meðan það er í námi og er að koma undir sig fótunum á vinnumarkaði.

Það er ljóst að skatta- og bótakerfið hefur umtalsverð tekjujöfnunaráhrif eins og sést best á því að mæld fátækt lækkar um nær helming þegar tekið er tillit til þess kerfis. Þá er rétt að hafa í huga að frá því að þessar mælingar voru gerðar hafa bæði barnabætur og skattleysismörk verið hækkuð verulega sem ætti að birtast í enn hagstæðari niðurstöðu en var á árinu 2004. Enn fremur má nefna að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru boðaðar margvíslegar aðgerðir í þágu barna og barnafjölskyldna, m.a. með heildstæðri aðgerðaáætlun í málefnum barna og unglinga sem Alþingi hefur þegar afgreitt. Þar er m.a. kveðið á um hækkun barnabóta til tekjulágra fjölskyldna.



[14:42]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að vekja athygli og máls á hlutskipti fátækra barna. Það hlýtur að verða okkur tilefni til að spyrja hvað það er helst sem hefur áhrif á hag barnafjölskyldunnar og sérstaklega þeirra sem hafa litlar tekjur.

Í fyrsta lagi að sjálfsögðu tekjurnar sem fjölskyldurnar hafa og húsnæðið. Það er ljóst að á undanförnum árum hefur sigið á ógæfuhliðina í þeim efnum, húsnæðiskostnaður hefur orðið meiri og framlag ríkisstjórnarinnar frá því að hún settist að völdum hefur verið það eitt til þessa að hækka vextina og hvetja bankana til að gera slíkt hið sama.

Í öðru lagi er það heilbrigðiskostnaðurinn. Hvert er framlagið þar? 160 milljónir í komugjöld, með öðrum orðum sjúklingaskatta.

Í þriðja lagi eru það barnabæturnar (Forseti hringir.) sem hæstv. félagsmálaráðherra sagði að væri þjóðarskömm og minnismerki um óheilindi fyrrverandi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) og bætti í í umræðu á þinginu, — ég er að ljúka máli mínu — með leyfi forseta: „Ríkisstjórnin hefur farið illa með barnafjölskyldur (Forseti hringir.) og það verður sannarlega bætt þegar núverandi ríkisstjórn fer frá og við tekur ríkisstjórn okkar jafnaðarmanna.“

Við sáum merkin um það í gær (Forseti hringir.) þegar hún kynnti frumvarp um raunskerðingu barnabóta.



[14:44]
Forseti (Magnús Stefánsson):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutíma. Í stuttri athugasemd er gert ráð fyrir að ræðumenn hafi eina mínútu en síðasti ræðumaður talaði næstum því í eina og hálfa mínútu. Ég vil biðja hv. þingmenn að virða þær reglur sem hér gilda um ræðutíma.



[14:44]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég skildi svar hæstv. forsætisráðherra á þann veg að um 4.500 börn væru undir þessum mörkum hér á landi og gætu talist fátæk. Einnig var dregið fram að ekki væri mikill munur á Íslandi og Norðurlöndunum. Hins vegar væri mikill munur á Norðurlöndum annars vegar og öðrum löndum hins vegar. Í heildina væri staðan því betri almennt á Norðurlöndunum en í öðrum ríkjum. Það er auðvitað ánægjulegt þó að 7.500 börn séu að sjálfsögðu of mikið, ég held að allir geti verið sammála um það.

Það er mjög mikilvægt að mati okkar framsóknarmanna að styðja við barnafjölskyldur með sérstaklega mikilli áherslu á þær sem hafa lægstar tekjurnar og þar koma barnabæturnar til. Sveitarfélögin hafa líka ríkum skyldum að gegna varðandi alla félagslega aðstoð.

Það er gaman að heyra að Samfylkingin skuli taka þessi mál upp af því að fyrir kosningar laug hún því að þjóðinni að hér væri allt í voða varðandi þessi mál, (Forseti hringir.) að hér væru miklu fleiri fátæk börn en annars staðar en það er sem sagt ekki rétt.



[14:45]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að halda við umræðunni um fátækt barna á Íslandi og ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni að 7.500 börn undir fátæktarmörkum hér á landi eru 7.500 börnum of mikið. Í þessu ríka landi eigum við ekki að þurfa að tala um að fátækt bitni á börnum. Mér þykir miður, og þess vegna bið ég um að gera stutta athugasemd, að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa sagt að börn væru ekki áhættuhópur í þessum efnum. Ég vil minna á að fátækt hefur mjög alvarleg áhrif bæði á andlega og líkamlega líðan barna, veldur þeim auknum sjúkdómum, bæði andlegum og líkamlegum, hefur áhrif á námsárangur, veldur því að þau lenda fremur í útistöðum, bæði við félaga sína, jafnaldra og síðar við yfirvöld og það er miður að við skulum ekki sjá annað en einhverjar boðaðar aðgerðir, (Forseti hringir.) engar raunverulegar aðgerðir hjá ríkisstjórninni.



[14:46]
Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir (Fl):

Herra forseti. Ég tel að fátækt sé ekki endilega mælanleg. Það er til dulin fátækt og það er sannanlegt að ekki geta öll börn tekið þátt í félagsstarfi í sínum skólum og ekki rétt að segja að við höfum það jafngott og á hinum Norðurlöndunum. Þar er oft ókeypis skólamáltíð, þar eru fjölskyldukort í íþróttir og ýmislegt sem við mættum taka eftir.



[14:47]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að vekja máls á málefninu en engu að síður er það svo að það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Það er orðið hlutskipti Samfylkingarinnar í núverandi ríkisstjórn, að ganga á bak orðanna sem hún lét falla í kosningabaráttunni sl. vor þegar hún ætlaði að gera allt fyrir alla og ekki síst fyrir barnafjölskyldur og fátæk börn. Við hljótum að velta fyrir okkur hvers vegna þess sér ekki stað í fjárlagafrumvarpi sem Samfylkingin ber a.m.k. að hálfu ábyrgð á fyrir næsta ár, að hækkaðar séu t.d. barnabætur og vaxtabætur. Af hverju hefur Samfylkingin fellt breytingartillögur við fjárlagafrumvarp frá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem miða m.a. að því að bæta afkomu fátækra fjölskyldna í landinu. (Forseti hringir.) Ég er sannfærður um að hv. þm. Helgi Hjörvar getur gert grein fyrir afstöðu sinni á þeim tveimur mínútum (Forseti hringir.) sem hann hefur til umráða.



[14:49]
Dýrleif Skjóldal (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Það er til skammar að á Íslandi sé fátækt fólk yfir höfuð.

Ég minntist á hið svokallaða góðæri fyrir nokkrum dögum síðan. Það er mikið góðæri hjá því fólki sem býr í tjaldi í Laugardalnum rétt fyrir jól. Fátæktin er sannanlega hjá fullt af fólki sem jafnvel er í tveimur launuðum störfum á skítakaupi, það er alvarlegt. Það er mjög alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að allir kjarasamningar eru lausir og þá er strax byrjað að tala um að góðærið sé svo mikið að ekki sé þorandi að borga fólki hærra kaup. Börn líða fyrir það, fólk líður fyrir það, t.d. gamalt fólk, (Forseti hringir.) og það er til skammar.



[14:50]
Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og þingmönnum fyrir þátttökuna. Ég fagna því að fylgjast eigi árlega með fátækt barna og mæla hana og bera saman við önnur lönd. Þannig getum við fylgst með því hvaða árangri aðgerðir okkar skila og þegar hefur verið gripið til ýmiss konar aðgerða og ber að fagna því.

Tölurnar sem hæstv. forsætisráðherra nefndi fyrir árið 2004 komu ekki á óvart, að hér væru 7.500 börn undir lágtekjumörkum. Þær eru í sjálfu sér í samræmi við það sem fram kom í skýrslunni og ekki langt frá því sem gerist á hinum Norðurlöndunum, 2% lakara en í Svíþjóð. Við skulum þó ekki gleyma því að 2% eru 1.500 börn og við eigum ekki að láta af metnaði okkar í að draga úr ójöfnuði í tekjuskiptingu og skapa efnalitlu barnafólki sem bestar aðstæður í samfélaginu.

4.600 börn undir neðri mörkunum, undir 50% mörkunum, er hins vegar of mikið og það er verulega meira heldur en á hinum Norðurlöndunum. Ástæðan er sú að við virðumst ekki ná sama árangri með bóta- og skattkerfinu í að styðja efnalitlar barnafjölskyldur. Boðað hefur verið að milli 2. og 3. umræðu um fjárlög komi tillögur okkar stjórnarmeirihlutans um að leggja til í bótakerfið til að styðja betur við lífeyrisþega, öryrkja og ellilífeyrisþega og það er fagnaðarefni. Ég tel að tölur þær sem við höfum séð um fátækar barnafjölskyldur í landinu gefi okkur fullt tilefni á kjörtímabilinu til að leggja sérstaka áherslu á að styðja afkomu og aðstöðu efnalítilla barnafjölskyldna í landinu þegar og ef svigrúm gefst til skattalækkana. Við erum jú öll sammála um að 7.500 börn undir lágtekjumörkunum og 4.600 börn undir fátæktarmörkum OECD er einfaldlega of mikið.



[14:52]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu margs að gæta þegar farið er með tölur af þessu tagi. Þær eru að sjálfsögðu ekki einhlítar og beitt er aðferðum, að hluta til í tilraunaskyni, til að leiða fram niðurstöður sem síðan er hægt að nýta sér við að móta stefnu til að leysa vandamál, beina kröftum ríkisvaldsins að tilteknum vandamálum. Það er það góða við þessar upplýsingar og umræður eins og þær sem hér hafa farið fram. Aðalatriðið er það að við reynum að bæta okkur í þessum efnum. Ég tek undir það að þó að tölurnar á Íslandi séu með því lægsta sem gerist í Evrópu getum við bætt okkur og eigum að gera það. Fátækt er því miður til, bæði meðal foreldra og barna, og við þurfum að reyna að taka höndum saman um að uppræta hana. Það þarf að gera það með markvissum aðgerðum.

Eins og ég gat um kemur það hins vegar einnig fram í gögnunum að sem betur fer er sá hópur lítill sem festist í fátæktargildru hér á Íslandi og kemst ekki úr henni. Þó að það sé allt rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði um áhrif fátæktar á börn er mest um vert að búa þannig um hnútana að þau og foreldrar þeirra geti komið sér út úr því ástandi, fátækt meðal barna er ekki þess eðlis að hún lifi sjálfstæðu lífi. Hún er auðvitað í mjög nánu samhengi við afkomu og aðstæður foreldra eða forráðamanna. Þess vegna hangir það allt saman og ríkisstjórnin beina kröftum að málinu eins og fram kemur í aðgerðaáætlun hennar í málefnum barna og unglinga sem Alþingi samþykkti á síðasta vori.