135. löggjafarþing — 37. fundur
 5. desember 2007.
móttaka og vernd flóttafólks og hælisleitenda.
fsp. ÁÞS, 200. mál. — Þskj. 215.

[18:22]
Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Fyrr í haust ýttu 20 félagasamtök á Norðurlöndunum úr vör átaki sem þau nefna Veitum þeim vernd eða Keep them safe. Átakinu er ætlað að styrkja og bæta vernd í löndunum fimm fyrir þá einstaklinga sem sótt hafa um hæli eftir að hafa neyðst til að flýja heimalönd sín vegna ofbeldis og alvarlegra mannréttindabrota. Enda þótt Norðurlöndin séu í ýmsu tilliti til fyrirmyndar og eftirbreytni á sviði mannréttindamála og hafi stutt vel við starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er ekki allt sem sýnist í þeim efnum.

Í dag eru um það bil 40 millj. manna á vergangi víðs vegar um heiminn. Þetta er fleira fólk en býr á öllum Norðurlöndunum til samans og 15 millj. betur. Af öllum þessum milljónum manna leita aðeins um 30 þús. árlega hælis á Norðurlöndunum. Oft þarf fólk að bíða árum saman eftir ákvörðun stjórnvalda. Slík bið er mörkuð ótta og óvissu um framtíðina. Allt of oft er fólk sent nauðugt aftur til landa þar sem þess bíða stríðsátök og ofbeldi í trássi við tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Túlkun stjórnvalda á Norðurlöndunum á ákvæðum flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna gerir það að verkum að afar fáir hælisleitendur fá stöðu flóttamanna og undanfarinn aldarfjórðung hefur t.d. aðeins einn einstaklingur fengið hæli sem flóttamaður hér á landi. Frá ársbyrjun 1999 hafa 540 manns sótt um hæli sem flóttamenn á Íslandi en aðeins einn fengið slíkt hæli eða tæp 0,2%. Á hinum Norðurlöndunum fá að jafnaði um 3% hælisleitenda stöðu flóttamanns en Finnland sker sig þó úr með um 1%. Þetta eru lægstu hlutföll sem sjást meðal þróaðra ríkja samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, mun lægri en annars staðar í Evrópu og miklu lægri en í Bandaríkjunum og Kanada. Það er ljóst að túlkun stjórnvalda á Norðurlöndum er á skjön við túlkun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sjálfrar en hún hefur lýst yfir stuðningi við átak félagasamtakanna á Norðurlöndum. Ísland sker sig sannarlega úr með svo áberandi hætti að aumkunarvert hlýtur að teljast. Ísland sem býr við hvað bestu kjör í heimi, samkvæmt skýrslu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, ætti einmitt í þessu efni að ganga á undan með góðu fordæmi.

Í tilefni af átaki félagasamtakanna, sem m.a. Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Amnesty International standa að, þar sem þau beina því til stjórnvalda á Norðurlöndum að fylgja tilmælum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem varðar vernd til handa einstaklingum sem sótt hafa um hæli sem flóttamenn, hef ég leyft mér að leggja fram svofellda fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra:

Með hvaða hætti hyggst ráðherra bregðast við áskorun fjölmargra frjálsra norrænna mannréttindasamtaka um norrænt átak til að tryggja fólki sem flýr vopnuð átök þá vernd og hæli eins og því ber samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna?



[18:25]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Um þetta mál er það að segja að þessari söfnun er ekki lokið og átakinu ekki lokið og hefur verið boðað til fundar í Stokkhólmi nú um miðjan desember til að ræða niðurstöðu ákallsins. Ég vænti þess að dóms- og kirkjumálaráðuneytið muni eiga fulltrúa á þeim fundi og þar kynnumst við þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í þessu átaki sem er mikils virði að sjálfsögðu eins og alltaf þegar samtök af þessum toga láta til sín heyra og vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að vandi flóttamanna er mikill.

Það gefur hins vegar ranga mynd af þeirri starfsemi hér á landi sem lýtur að móttöku flóttamanna að segja að aðeins hafi verið tekið á móti einum því að tekið hefur verið á móti hópi fólks sem flóttamönnum hér á landi. Sérstök flóttamannanefnd starfar á vegum félagsmálaráðuneytisins og hinn 27. október gaf hún út viðmiðunarreglur um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks, þá sem hafa fengið stöðu flóttamanna og þá sem hafa fengið hæli af mannúðarástæðum. Í reglunum er vísað til útlendingalaganna þar sem segir að Útlendingastofnun heimili hópum flóttamanna að koma til landsins í samræmi við ákvörðun stjórnvalda að fenginni tillögu Flóttamannaráðs Íslands. Síðan er farið yfir það í þessum viðmiðunarreglum sem settar hafa verið, með leyfi forseta:

„Hlutverk flóttamannanefndar er meðal annars að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag um móttöku flóttamannahópa, hafa yfirumsjón með framkvæmd á móttöku hópanna og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er. Nefndin skal enn fremur taka til athugunar aðstoð við þá sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Nefndin skal árlega gera ríkisstjórninni grein fyrir störfum sínum og leggur félagsmálaráðuneyti nefndinni til ritara.“

Síðan segir einnig í þessum reglum, með leyfi forseta:

„Að fenginni tillögu flóttamannanefndar og kostnaðaráætlun leggja félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra hverju sinni til við ríkisstjórn að tekið verði á móti tilteknum fjölda flóttafólks frá tilteknu landi eða löndum.“

Það er líka tekið fram í reglunum að flóttamannanefndin starfi í samvinnu við Flóttamálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, og tillaga flóttamannanefndar til utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra um hvaðan flóttafólkið kemur hverju sinni skal ævinlega tekin í samráði við Flóttamannastofnun eins og hér segir. Síðan þarf að vera samráð við Útlendingastofnun sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið og þar má vísa til þess sem hér segir, með leyfi forseta:

„Áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir um móttöku flóttamannahóps skal Útlendingastofnun fjalla formlega um hvert mál og staðfesta að ekki séu annmarkar á því að veita viðkomandi einstaklingum hæli á Íslandi“ — og síðan er vitnað í viðeigandi lagagreinar.

Ég tel að við höfum komið á laggirnar fyrirkomulagi sem dugi til að sinna þessum málum og síðan er það matsatriði hverju sinni í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvernig að málum er staðið og hvernig að framkvæmdinni er staðið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sendinefnd á vegum íslenskra stjórnvalda fer hverju sinni til þess ríkis þar sem flóttafólkið hefur fengið hæli og leggur mat á hvaða fjölskyldum og einstaklingum skuli boðið að setjast að á Íslandi. Nefndin vinnur í nánu samráði við fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í dvalarlandi fólksins. Að ferð lokinni leggur sendinefndin tillögur sínar fyrir flóttamannanefndina sem síðan kynnir þær félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Í nefndinni eiga sæti eftir atvikum fulltrúar þeirra ráðuneyta sem eiga aðild að flóttamannanefnd, fulltrúi Rauða kross Íslands og fulltrúi Útlendingastofnunar“ — en dóms- og kirkjumálaráðuneytið á aðild að flóttamannanefndinni.

Ég tel víst að þessi nefnd og allir sem að þessum málum starfa muni taka mið af þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir eftir að átakinu, sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, lýkur og að brugðist verði við tilmælum, sem fram koma eftir að átakinu lýkur, á þann veg sem þessar reglur og lög mæla fyrir um.



[18:30]
Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hafa frá 1. janúar 1999 og til 15. október 2007 um 540 manns sótt um hæli sem flóttamenn á Íslandi. Aðeins einn hefur fengið hæli sem flóttamaður en 31 fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Ég lít svo á að hér sé ekki mikill fjöldi á ferðinni en ætla samt sem áður ekki að gera lítið úr öðrum sem hæstv. ráðherra nefndi.

Mér finnst líka mikilvægt að hann upplýsti að ráðuneytið muni eiga fulltrúa á fundinum sem hann nefndi í Stokkhólmi sem væntanlega verður 19. desember, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið. Þar verður m.a. farið yfir þetta átak sem núna er í gangi.

Hins vegar hefur sú regla verið viðhöfð hér á landi að einstaklingar sem sækja um hæli þurfi sjálfir að sýna fram á hættu í heimalandi sínu og nægi ekki að það sé almennt vitað að þeir tilheyri hópi sem býr við þær aðstæður að geta orðið fyrir ofbeldi. Það er t.d. reglan sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að eigi að vera í gildi. Það er sú regla sem t.d. er viðhöfð í Bandaríkjunum og Kanada. En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið er það ekki svo, hvorki hér á landi né á öðrum Norðurlöndum.

Mér finnst fróðlegt að vita hvort hæstv. dómsmálaráðherra mundi vilja beita sér fyrir stefnubreytingu hvað þetta atriði varðar og spyrja í leiðinni hvort það sé hugsanlega sérstök stefna íslenskra stjórnvalda að reyna að draga sem mest úr fjölda flóttamanna eða þeirra sem fá hæli hér á landi sem flóttamenn?



[18:32]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsti hér þeim reglum sem um þetta gilda og hvernig staðið er að móttöku flóttamanna innan þess ramma sem viðkomandi átak snýst um, þ.e. að tryggja fólki vernd sem flýr vopnuð átök og er í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Ég tel að þær reglur sem hér gilda og á Norðurlöndunum brjóti ekki í bága við þann samning. Það hefur margoft gerst að menn hafa komið hingað til lands og óskað eftir hæli sem flóttamenn en þegar farið er yfir málið hefur komið í ljós að þeir segja sögur sem standast alls ekki.

Ég tel að það sé skylda íslenskra stjórnvalda eins og stjórnvalda annarra landa að koma í veg fyrir að menn misnoti sér neyð annarra með því að búa til sögur í því skyni að ná fram eigin hagsmunum. Það verður að forðast að menn nýti sér neyð annarra og hættu sem fólk býr við víða í heiminum til að skara eld að eigin köku, ef svo má að orði komast, með því að segja ósatt um atvik og búa til sögur til að setja stjórnvöld í þá stöðu að þeim beri skylda, af tilbúnum forsendum, til að veita þeim hæli sem flóttamönnum. Það er misnotkun á flóttamannasamstarfinu öllu og flóttamannasamningnum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að koma í veg fyrir slíka misnotkun eins og alla misnotkun sem við verðum vör við í opinberum störfum.